Hver er ábyrgð þingmanna ???

Í ljósi þess að tæp 70% alþingismanna greiddi því atkvæði, að skuldbinda þjóðina til að greiða skuld einkafyrirtækis, skuld sem tvímælalaust var stofnað til með afar óheiðarlegum hætti, fór ég að velta fyrir mér hvaða ábyrgð þingmenn bæru gagnvart þjóðinni, vegna alvarlegs og óafturkræfs tjóns sem þeir valdi með kjánaskap, annarlegum viðhorfum eða öðrum ástæðum.

Starf þingmannsins er að stjórna þjóðfélaginu, efnahagsmálum þess, innra skipulagi og samskiptum við aðrar þjóðir. Hvaða hæfniskröfur skildu vera gerðar til manns í slíku starfi? Og hvaða menntun og raunþekkingu þarf maður að hafa sem vill gerast einn af 63 stjórnendum þjóðfélagsins?

Ef mig langar til að vigta fisk við löndun úr veiðiskipi, stjórna vinnuvél, aka stórum vörubíl, olíubíl eða rútu, þarf ég að sækja sérstakt námskeið og standast hæfnispróf. Sama á við ef ég vil fá réttindi til að færa bókhald, verða verkstjóri, leikari, listamaður, sjúkraþjálfari. hjúkrunarkona, læknir, lögfræðingur, verkfræðingur, flugmaður, eða hvaða starf sem tiltekið er, sem kallar á þekkingu eða ábyrgð. Áður en maður fær réttindi til að stunda slíkt starf, þarf maður að hafa aflað sér, með viðurkenndu námi og hæfnisprófi, sérstakrar þekkingar sem talin er nauðsynleg hverju starfi fyrir sig.

Allt eru þetta langt um veigaminni störf en starf þingmannsins. Þar kemst kannski næst, starf flugstjóra á stórri risaþotu. Hann getur verið ábyrgur fyrir lífi og limum nokkur hundruð manna í senn. Þingmaður í þjóðfélagi okkar, er hins vegar í störfum sínum ábyrgur fyrir lífi, limum og lífsgæðum 320 þúsund einstaklinga. Flugstjórinn þarf að ganga í gegnum langt og krefjandi nám, síðan þjálfun í hermilíkani til að kanna dómgreind og sjálfstæði í réttum ákvarðanatökum. En, til þess að sinna starfi þingmanns, er ekki einu sinni gerð krafa um grunnskólapróf, hvað þá heldur frekari þekkingu á rekstrarþáttum heils þjóðfélags.

Hvað veldur þessu? Ljóst er að það eru þingmenn sem setja lög og reglur um nám og hæfnispróf allra starfsþátta í landinu, annarra en verkafólks og húsmæðra. Hvort skildi það vera af völdum valdhroka eða kjánaskapar, sem þingmenn gera ríkar menntunar og hæfniskröfur til allra starfsréttinda, sem geta einungis valdið örlitlu broti af því tjóni sem þingmaður getur auðveldlega valdið?

Er það mögulega af mikillæti yfir eigin ágæti, sem þingmenn gera engar kröfur til eigin starfs, um þekkingu eða hæfni til starfs og ábyrgðar þingmannsins? Vegna flestra starfa þurfa menn að kaupa sér tryggingar til greiðslu bóta fyrir það tjón sem þeir valda öðrum af gáleysi eða þekkingarskorti. Um starf þingmannsins eru hins vegar ekki til nein lög um ábyrgð, skyldur eða hver bæti fyrir, gangi þingmaður augljóslega gegn hagsmunum heildarinnar, sjálfum sér og/eða öðrum til hagsbóta, á kostnað heildarinnar.

Starf þingmanns er einungis FULLTRÚASTARF, sem veitt er að hámarki til fjögurra ára í senn. Þar skipar hann 1/63 part stjórnar og löggjafarþings landsins og kemur þar fram fyrir hönd þeirra sem kusu hann. Því til viðbótar, gæti honum verið fengið hlutverk í framkvæmdastjórn (ríkisstjórn), þar sem honum væri falið að bera framkvæmdalega ábyrgð á ákvörðunum Alþingis í tilteknum málaflokkum.

Fyrst þingmönum fannst nauðsynlegt að binda starfsréttindi allra stétta og starfsgreina við tilskilið nám og hæfnispróf af ýmsum toga, verður það enn meira sláandi að þeir skuli ekki hafa lög og reglur um sitt eigið starf, hvað þá að þeir hafi hugsað fyrir því líkt og með flestar aðrar greinar, að þeir sem hugsanlega geta valdið öðrum tjóni, skuli kaupa tryggingu er bæti það tjón sem þeir kunni að valda.

Oft má heyra þingmenn vísa til þess ákvæðis stjórnarskrár, að þingmaður sé einungis bundinn af eigin sannfæringu. Það er rétt að þetta stendur í stjórnarskrá sem samin var fyrir meira en 100 árum. En líta ber á þetta ákvæði út frá tíðaranda þess tíma er það var sett í lögin. Þá voru menn fyrst og fremst trúir þeim málstað sem þeir voru kosnir til að berjast fyrir. Sá óheiðarleiki og sviksemi við grundvallavilja kjósenda, sem nú er nánast daglegt brauð, var þá nánast óþekkt og í fölskvalausri einlægni var barist, með skýrum hætti, fyrir málsstað heildarinnar, í samhljómi málsstaðar þeirra sem kusu þingmanninn hverju sinni. 

Segja má að sá óheiðarleiki, sem nú er nánast að yfirtaka alla stjórnarhætti stjórnmála og viðskiptalífs, hafi byrjað við undirbúning að stofnun lýðveldis okkar. Við upphaf þess undirbúnings urðu þingmenn sammála um að, til að byrja með, yrði yfirtekin hin Danska stjórnarskrá sem við höfðum haft, og einungis breytt í henni kaflanum um konunginn. Í stað konungs kæmi nafnið FORSETI. Engar efnislegar breytingar yrðu gerðar fyrst um sinn. 

Þegar stjórnarskrármálið var svo komið til meðferðar í þinginu, gerðu Sjálfstæðismenn efnislegar athugasemdir við það ákvæði að forseti gæti (eins og var með kónginn) hafnað staðfestingu á lögum sem þingið hefði samþykkt. Var þá lögð fram tillaga, frá utanþingsstjórn sem þá starfaði, um að í stað synjunarvalds, hefði forsetinn heimild til að vísa lögum til þjóðarinnar, til staðfestingar, ef honum sýndust lögin vera andstæð vilja mikils hluta þjóðarinnar. Og lögin tækju þá ekki gildi fyrr en eftir samþykki slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu. 

Þessu vildu Sjálfstæðismenn ekki una. Þeir lögðu fram þá breytingatilögu að lögin tækju gildi strax, þó forseti neitaði að staðfesta þau, en féllu svo úr gildi ef þjóðin hafnaði þeim í kosningu. Kjánalegt en samt rétt farið með.

Á þessum tíma starfaði þingið í tveimur deildum. Efri- og neðri deild og þurftu öll mál að fara í gegnum þrjár umræður og atkvæðagreiðslu í hvorri deild, svo þau yrðu að lögum. Í meðferð þessara breytinga á stjórnarskránni, var tillaga Sjálfstæðismanna samþykkt í neðri deild, en féll með eins atkvæðis mun í efri deildinni. Málið þurfti því aftur að fara fyrir neðri deild. Þar var tillaga Sjálfstæðismanna samþykkt á ný og fór það síðan aftur til efri deildar. Þegar þangað kom, hafði Sjálfstæðismönnum tekist að snúa einum þeirra sem áður voru á móti þeim, þannig að tillaga þeirra var samþykkt, með eins atkvæðis mun, og 26. gr. stjórnarskrár orðin þannig að þó forseti hafnaði áritun laga og vísaði þeim þannig til þjóðarakvæðagreiðslu, þá tóku lögin gildi strax, en féllu svo úr gildi aftur, ef þjóðin hafnaði þeim. Þannig er 26 gr. stjórnarskrár enn í dag.

Þarna gerðu Sjálfstæðismenn sína fyrstu atlögu að lýðræðinu, áður en lýðveldið var formlega stofnað. Þeir hafa alla tíð síðan barist af hörku gegn því að þjóðin fái að hafa skoðun á lagasetningum og aldrei ljáð máls á því að þjóðin fengi að koma að endurskoðun stjórnarskrár. Þeir eru enn sama sinnis, því þeir lýsa mikilli andstöðu við að þjóðin geti átt síðasta orðið um eigin málefni.

  Er þetta hugsanlega í hnotskurn, ástæða þess að aldrei hafi verið sett nein lög eða reglur um starfsskyldur eða ábyrgð þingmanna? Í því útbreidda umhverfi óheiðarleika, sem nú er orðið augljós staðreynd, verður að setja skýr lög um starfsskyldur og ábyrgð þingmanna. Í óheiðarleikanum tróna hátt svik margra þingmanna við eigin orð og fyrirheit, vilja og ákvarðanir baklands þeirra í þjóðfélaginu, sem og mörkuð viðhorf og ákvarðanir innan flokka þeirra. 

Ekki dugir að ætla þeim sjálfum að semja slík lög. Því dettur mér helst í hug að slíkt verði eitt af verkefnum stjórnlagaþings, ef það kemur saman, og þeir njóti við starf sitt aðstoðar óflokkstengdra sérfræðinga háskólasviðsins, á sviðum siðfræði, félagsfræði og lögfræði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Björnsson

Þjóðverjar segjast eiga stjórnarskrá sem verndi eigur þeir þeirra gegn björgunar pakka við Grikkland og Írland.

Björgunarpakkin við Icesave  er nákvæmlega það sama vildarvinar sjónarspil siðspilltra yfirbygginga.

http://kjosum.is

Hér  er byrja að skeraallt niður fyrirfram vegna  Icesave líka. Ég fæ engan lífeyrir.

Subprime 100%  veðlángrunnur 1998 getur ekki annað en hrunið.

Þetta er fræðilega sannað.

http://www.moodys.com/researchdocumentcontentpage.aspx?docid=PBC_79004

Allt um lánshæfi.  Íbúðalánin hér voru talin Prime eins og annarstaðar frá 1983.

Júlíus Björnsson, 19.2.2011 kl. 19:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 164725

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband