30 des. 2010 var alheimsorkan spurð 5 spurninga varðandi stöðu þjóðfélags okkar

Að kvöldi 30 des. 2010 var alheimsorkan spurð 5 spurninga varðandi stöðu þjóðfélags okkar og framtíð. Athygli er vakin á því að þau svör sem koma, lúta ekki að efnahagsmálum, heldur þeirri jákvæðu orku sem stendur okkur til boða, til að efla samfélagsvitund okkar. Spurningarnar 5 voru skilgreindar með því að leggja 5 spila lögn með Tarrotspilum og með hverju þeirra fengin táknræn gildi hverrar spurningar, og dýpri útfærsla síðan leitað með spurningum til Alheimsvitundarinnar.

Fyrsta spurning var: Hvað er að gerast með samfélag okkar? 

Svarið var _Heilun.

Táknmynd. “Gömul sár fortíðar eru að koma upp á yfirborðið, reiðubúin til að heilast. Við getum ekki lengur falið okkur fyrir okkur sjálfum, eða öðrum. Með því að opna okkur fyrir heiluninni og taka á móti henni, verðum við að lokum heil.

Ferlið er farið af stað.”

RÆTT VIÐ ALHEIMSVITUND:

Hvað eigum við að lesa úr þessu?

- Að dramb er falli næst. Síðari tíma kynslóðir hafa breytt yfir eigin minnimáttarkennd með sjálfsánægju og drambi. Eftir miðja síðustu öld fór að bera á því að hinar drambsömu nýmenntuðu kynslóðir, vildu fela sem mest lífskjör og lífsbaráttu forfeðra sinna. Fannst það ekki stórmannlegt að vera af fátæku alþýðufólki komið. Það var þó þetta fátæka alþýðufólk, sem með stefnufestu, óeigingirni og þrotlausri vinnu, reistu þjóðfélagið úr örbyrgð og skiluðu því til afkomenda sinna með allar leiðir opnar til menntunar og sjálfbærra lífsgæða. Þessi afrek forfeðranna hefur seinni tíma fólk kappkostað að fela og má úr umhverfi sína sem mest af ummerkjum um afrek þessara ómenntuðu forfeðra. Afkomendurnir báru hvorki virðingu né þakklæti til þeirra sem unnu þau afrek er sköpuðu þjóðinni virðingu og velvilja, meðal erlendra þjóða.

Í sjálfumgleði og drambi, hafa síðari tíma kynslóðir breytt yfir minnimáttakennd sína með dæmigerðri óráðsíu þeirra sem ekki virða erfiði og fórnfýsi þeirra er lögðu til grunninn að þeim lífsgæðum sem komandi kynslóðir hefðu geta notið, hefðu síðari tíma kynslóðir nýtt sér hyggindi og raunsæi kynslóðanna sem á undan fóru. Takist þjóðinni að sýna iðrun gagnvart eigin óvitaskap undanfarinna áratuga og hefja til virðingar þau gildi og markmið forfeðra sinna, sem skiluðu þjóðinni frá örbyrgð til velsældar á undra skömmum tíma, þá mun manngildi og virðing hefja aftur göngu sína í samfélaginu og þaðan spyrjast til annarra landa.

 

2. spurning: Hver er innri veruleikinn, sem við erum ekki meðvituð um?

Táknmyndin var eftirfarandi:

“Hula blekkingar hefur haldið væntingaþyrstum afkomendum frá því að sjá raunveruleikann. En hulan er byrjuð að brenna. Meðvitundin sem vex innra með hverri ófullnægðri sál, er ekki til komin vegna þess sem þær gerðu meðvitað, eða af þörf til að streða. Sérhver tilfinning sem þær hafa um að vera föst í myrkri, er að leysast upp núna. Ný vitund mun lyfta hulunni frá augum þeirra.”

RÆTT VIÐ ALHEIMSVITUND:

Það fólk sem fætt er á síðari helming tuttugustu aldar, er að verulegu leyti alið upp í heimi óraunveruleika, þar sem fjárhagsleg afkoma þjóðfélagsins, sem og hvers einstaklings fyrir sig, var gefið afar lítið rúm í lífinu til skilnings. Segja má að skólakerfið hafi brugðist, að því leyti að engin kennslustund fór í að kenna fólki að takast á við þá eðlilegu lífsbaráttu sem framundan væri. Má þar t. d. nefna mikilvægasta grunnþátt sjálfsmyndar hvers einstaklings sem felst í raunhæfri þekkingu á undirstöðuþáttum fjárhagslegs sjálfstæðis þjóðarinnar; sem og hvernig einstaklingurinn sjálfur axlaði þá þjóðfélagslegu ábyrgð að afla sjálfum sér, og sinni fjölskyldu lífsviðurværis.

Hulan sem yfir þessum djúpa sannleika hefur legið, er að byrja að brenna. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir að EKKERT af því sem gerðist, var af ásetningi gert, heldur hreinum óvitaskap. Því er engin ástæða til að láta það valda sér streitu eða vanlíðan. Fólk hefur mikla vanmáttartilfinningu gagnvart öllum þeim áföllum sem yfir þjóðina hafi dunið. Það upplifir sig eins og í myrkri, þar sem leiðtogarnir virðast ekki geta leitt þjóðina til ljóssins. En, mikilvægt er að missa ekki móðinn og ekki grípa til neikvæðra aðgerða.

Það er verið að hreinsa til, svo pláss verði fyrir nýjan leiðtoga með jákvæða þjóðarvitund.

Þriðja spurningin var: Það yrta, sem við erum meðvituð um?

Táknmyndin var eftirfarandi:

“Hún minnir okkur á að leita ekki eftir raunveruleikanum í hinu ytra, heldur fara inn á við í djúp hreinleika og heiðarleika. Þegar við horfum á ytri aðstæður festumst við í að dæma. Þetta er gott og þetta er vont. Ég vil þetta eða ég vil ekki þetta. Slíkt heldur okkur föstum í blekkingu, gömlum- vana og munstri. Slepptu stýringu hugans og farðu inn á við.”

RÆTT VIÐ ALHEIMSVITUND:

Mikill fjöldi fólks sleppti, um mislangan tíma, haldfestu sinni við kærleiks- og samfélagsvitund til að elta villuljós. Það blindaðist af hyllingum draumsýnar um að lífsgæðin streymdu til þess, án nokkrar fyrirhafnar af hálfu þess sjálfs. Það féll kylliflatt fyrir þeim glæsiheimi sem freistarar myrkraaflanna áreittu það stöðugt með. Í dáleiðslu- aðdáun boðaðs glæsilífs, tók fólkið ekkert eftir því að freistararnir miklu voru að sigla grundvelli lífshamingju þjóðar þeirra í myrkragöng, þar sem engin vinsemd og ekkert traust var til hjálpar.

Fyrstu viðbrögð fólksins var örvænting. Það hafði sleppt haldfestu sinni við kærleika og samfélagsvitund og upplifði sig því eitt og yfirgefið í myrkri blekkinganna. Glæsileikinn var horfinn og nakinn raunveruleikinn sýndi svo áþreifanlega að í glitsýn glæsileikans var engin varanleg hamingja.

Þegar glæsileikinn var svo skyndilega horfinn, og nakinn hversdagsleikinn blasti allt í einu við fólkinu, fannst því veröldin bókstaflega hafa hrunið yfir sig. Allir töluðu um HRUN og KREPPU. Enginn virtist taka eftir þeirri staðreynd að jafnt eftir HRUNIÐ, jafnt sem fyrir það, seldi þjóðin allar sínar framleiðsluvörur á hæsta mögulegu verði. Ekkert verðfall eða framleiðslufall varð þó HRUNIÐ hafi gengið yfir. Öll jarðbundin starfsemi til tekjuöflunar þjóðfélagsins hélt ótrufluð áfram. En samt upplifði fólkið veröld sína hrunda til grunna. Hvað var það þá sem hrundi? Það eina sem hrundi var glitsýn óraunhæfrar glæsiveraldar, sem átti sér enga fótfestu í kærleiks- eða samfélagsvitund Alheimsorkunnar. Þess vegna gat hún ekki orðið langlíf, þó mikill fjöldi hafi tekið ástfóstri við hana og álitið hana raunveruleika.

Þegar kærleiks- og samfélagsvitund Alheimsorkunnar er skilin eftir, til að fylgja glitsýn óraunhæfrar glæsiveraldar, verður birtingarmynd ýmissa einstaklinga sem sækjast eftir samfélagsábyrgð nokkuð hrokafengin og sjálfhverf. Að viðbættri langþróaðri minnimáttarkennd, aðallega vegna fyrrum fátæktar þjóðarinnar, verður til hin sérkennilega þörf fyrir hól frá öðrum, samhliða nokkru mikillæti. Lítið er um sjálfsprottna auðmýkt og einlægt þakklæti fyrir aðdáun annarra á verkum landsmanna sem ástæða er til að vegsama.

Af öllum þessum aðstæðum er fjöldaafl samfélagsins orðið blindað af neikvæðni, sem veldur því að fólki er frekar tamt að fella dóma, en ræða málefnin til þeirrar niðurstöðu sem byggt geti upp jákvætt orkumunstur byggt á kærleika og samfélagsvitund. Þessar neikvæðu aðstæður halda fólki föstu í sjálfhverfuhugsun, þar sem í meginatriðum er leitað sökudólga og til hefnda. Slík leið er í neikvæðri orku og sú orka losar því miður fólk ekki úr fjötrum hugarfarsins. Leiðin til varanlegrar lausnar frá þessu neikvæða munstri er að beina huganum frá hinni horfnu glitsýn, til þeirrar kærleika- og samfélagsvitundar, sem frá einlægu hjarta streymir.

Fjórða spurning var: Í hverju getur LAUSNIN verið fólgin?

Táknmyndin var eftirfarandi:

“Huga okkar er ætlað að vera þjónn okkar. En þegar við gleymum því, stjórnar hugurinn lífi okkar. Þetta tákn er að segja okkur að einhver, einhvers staðar, er fastur í huganum. Skoðaðu vandlega hvort það sért þú.”

RÆTT VIÐ ALHEIMSVITUND:

Þetta tákn þarfnast ekki mikilla skýringa, ef fólk hefur náð því sem á undan er komið. Þetta tákn vekur aðallega athygli á að upplifi einhver sig fastan í myrkri hugarfarsins, en langi til að einhver færi honum ljós, þarf hann að breyta hugarfari sínu og ákveða að sækja sér sjálfur ljósið inn í líf sitt. Hver og einn fær hjálp til slíks, sé ásetningurinn djúpstæður og einlægur. Skoðaðu vandlega hvort það sért þú sem þurfir hjálp.

Fimmta spurning var: Getum við öðlast skilning á LAUSNINNI?

Táknmyndin var eftirfarandi:

„Nú er kominn tími til að skoða hvort við leyfum okkur að taka á móti þeirri sérstöku gjöf sem það er, að hafa þá tilfinningu að „vera heima“, hvar sem við erum. Ef svo er, vertu þá viss um að sú tilfinning dýpki og haldist innra með þér. Ef þér hins vegar finnst heimurinn vera á eftir þér, er kominn tími til að skoða hvert förinni sé heitið. Farðu út í kvöld og horfðu á stjörnurnar.”

RÆTT VIÐ ALHEIMSVITUND:

Hver er þessi tilfinning, “að vera heima”. Sú tilfinning er mögnuð upplifun og lýtur að mörgum samverkandi þáttum. Má þar t. d. nefna öryggis- friðar- og verndartilfinningu sem fylgir því að einstaklingurinn upplifi sig í samhljómi við það orkuumhverfi sem umlykur hann. Sú tilfinning kemur fyrst og fremst frá þeirri upplifun að vera í sátt og samhljómi við kærleiksvitund sína. Einnig að einstaklingur hafi í hjarta sínu djúpa sannfæringu fyrir að hafa á engan hátt, gerst eigingjarn gagnvart þeim réttmætu skyldum sem samfélagið gerir til hvers einstaklings. Hafi einstaklingur djúpa sannfæringu í hjarta sínu, fyrir þessum framangreindu þáttum, finnur hann, hvar sem hann er staddur, orku friðar og velvildar umlykja sig.

Leið hvers einstaklings að hinum djúpa friði kærleiksvitundar hjartans, er algjör einkaleið hvers og eins, og er engum öðrum ætluð hans leið. Sú leið er, líkt og skólagangan, þakin endalausum verkefnum sem þarf að leysa, á viðunandi hátt, svo framvinda geti orðið í náminu, eða þroskanum. Miklu skiptir að villast ekki af leið jákvæðrar hugsunar og kærleiksvitundar, því á þeirri einu leið eru hinar varanlegu lausnir viðfangsefnanna.

En verði einstaklingum á að hrasa, yfir í neikvætt umhverfi, þá gerið bara eins og barnið sem er að læra að ganga. Það stendur alltaf upp aftur þó það falli. Og gengur að lokum án þess að hrasa og man þá ekkert eftir öllum þeim skiptum sem það datt, meðan það var að læra að ganga.

Finnist einstaklingnum hins vegar allt ganga sér í móti, valda sér armæðu og erfiðleikum, er kominn fyrir hann tími til að setjast niður og skoða hvort hann snúi ekki öfugt í orkubraut sinni. Berjist á móti framvindunni, í stað þess að fylgja henni og leiðrétta þá þætti sem farið hafa úrskeiðis.

    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Hreint afbragð langar að setja það hjá vinum mínum á Facebook.

Helga Kristjánsdóttir, 28.3.2017 kl. 04:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband