Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Gjaldþrot meginþorra sjávarútvegsfyrirtækja hefur legið fyrir í mörg ár

Það hefur legið ljóst fyrir til margra ára að öll stærstu fyrirtæki sjávarútvegs á Íslandi eru löngu orðin gjaldþrota. Stjórnvöld, með Fiskistofu og sjávarútvegsráðuneyti í farabroddi hafa með beinum hætti tekið þátt í að FALSA eignastöðu útgerðarfyrirtækja, með þátttöku sinni í gengdarlausu ofmati á verðgildi aflaheimilda. 

Þetta ofamt hefur lánastofnunum líka verið ljóst, en samt lánað hundruði milljarða til þessarar vitlausu fjárfestinga, sem ekkert veð var til fyrir. Að síðustu hefur svo fjármálaráðuneytið og Ríkisskattstjóri verið beinir þátttakendur í þessu samráði um lögbrot og þjófnað á eignum þjóðfélagsins, með því að heimila útgerðarfyrirtækjum að eignfæra í bókhaldi sínu veiðiheimildir, sem ALDREI hafa verið eign útgerðarfyrirtækjanna, því slíkum heimildum er einungis úthlutað til eins árs í senn og þær notaðar á því ári, og því ekki eign.

Ég hef bent á það, í langt til tvo áratugi, að varanlegar aflaheimildir hafa aldrei verið til og aldrei hefur Alþingi heimilað neinar sölur aflaheimilda; einungis heimilað að aflaheimildir væru FLUTTAR milli skipa.

Það er undarlegt, þegar sömu atriði og búið er að margtyggja ofaní fjölmiðla og stjórnvöld, verða allt í einu að nýjum sannleika, þegar einhverjir sérstakir menn segja það, sem áður hefur verið marg sagt í meira en áratug.

Er þetta hið opna tjáningarfrelsi og að allir hafi jafnan rétt á að láta skoðanir sínar í ljós? Já, þetta er það. En það gleymdist bara að setja reglur sem bönnuðu þögggun fjölmiðla, sem nú um  tveggja áratuga skeið hefur verið sérstaklega mikil, á þann hluta þjóðarinnar sem á málefnalegan og rökstuddan hátt hefur gagnrýnt óvita- og vitleysisgang opinberra aðila.

Það hefði mátt spara þjóðinni miklar hörmungar mörg hundruð milljarða, ef fjölmiðlar hefðu ekki tekið þátt í spillingunni með þöggun á eðlilega og rökstudda gagnrýni.

Hér á landi hefur alltaf verið til fólk sem hefur viljað standa utan við drullupoll óheiðarleika og spillingar, og segja einfaldan sannleikann um þau óhæfuverk sem hér hafa verið unnin, en frá því hafa fjölmiðlar ekki viljað segja og stjórnmálaflokkar ítt þessu fólki til hliðar, sem óþægilegu.            


mbl.is Sjávarútvegurinn í raun gjaldþrota
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það kemur ekki á óvart að LÍÚ hugsi fyrst og fremst um sína hagsmuni

Þeir sem mæla með því, við núverandi aðstæður, að leggja niður krónua okkar og taka upp gjaldmiðil annarrar þjóðar, upplýsa því miður að þeir hugsa ekki heilstætt um afleiðingar slíks fyrir þjóðarheilidina.

Ekki fer á milli mála að "gegni fjárhættuspilaranna" innan þessarar þjóðar, telja sér hag í því að komast í stærra myntsamfélag. Þeir virðast hafa röksemdalausa trú á því að þeir fái ótakmarkað magn slíkrar myntar til landsins, og þá verði engar hömlur á að hrúga hingað skuldum, óháð möguleikum þjóðarinnar til greiðslu þeirra síðar.

Við höfum nú þegar þurft að súpa ansi beiskan bikar af slíkri háttsemi, því allir þeir 13 þúsund milljarðar sem bankarnir höfðu tekið að láni í útlöndum voru gjaldmiðlar annarra þjóða. Veðhæfi, eignavirði og endurgreiðslumöguleikar okkar, til greiðslu þessara skulda, hefðu ekkert breyst við það að við værum að greiða hvert öðru með Evrum í stað krónum. Við hefðum ekkert átt fleiri Evrur til að að selja útlendingum, því framleiðsla okkar á verðmætum er svo afskaplega lítil, miðað við þá miklu eyðslu sem við viðhöfðum. Enginn hefði lánað okkur fleiri Evrur, þó við værum að borga hvert öðru með Evrum, frekar en þeir vilja nú. Það er ekki fyrirstaðan fyrir frekari lánum til okkar, að við borgum hvert öðru með krónum. Mikilvægt er því að hagfræðingakórinn fari að hætta þeim ÓVITASKAP að hallmæla krónunni, því HÚN er eini lykillinn sem við höfum til að geta komist hjá alvarlegri fátækt og atvinnuleysi á komandi árum.

Ef við skiptum nú um gjaldmiðil, stöndum við frammi fyrir því að sjávarútvegurinn, einn stærsti framleiðandi gjaldeyris í landinu, hefur á undanförnum árum hangið svo fastur í óarðbærum útgerðarháttum að sífellt stækkandi hluti heildarverðmæta fiskimiða okkar, fer eingöngu til að greiða vexti og afborganir sjávarútvegsins sjálfs, af síhækkandi erlendu lánsfé. Mér þætti líklegat að þessi vitlausa útgerðarstefna væri á undanförnum áratug búin að soga til sín hærri fjárhæð á ársgrundvelli, en nemur öllum árlegum kostnaði við heilbrigðiskerfið. Og þessi staða á einungis eftir að versna frekar á komandi árum.

Ef við tækjum nú upp gjaldmiðil annarrar þjóðar, gætum við ekki brugðist við innlendum breytileika eða áföllum með því að auka peningamagn í umferð. Við myndum ekki fá leyfi til þess að auka skráð Evrumagn, eða Dollaramagn í grunngildi þjóðfélags okkar, því við myndum ekki framleiða þá peninga sjálf. Öll okkar aukning yrði að koma í gegnum meiri framleiðslu á vöru eða þjónustu, sem við gætum selt öðrum þjóðum, en sú aukning kemur hægt á mörgum árum.

Eins og áður var drepið á, er núverandi gjaldeyrisframleiðsla okkar svo lítil að hún nægir KANSKI fyrir innflutningi matvöru og helstu rekstrarvörum fyrir nauðsynlegt atvinnulíf framleiðslugreina. Í augnablikinu er svigrúm okkar til notkunar á peningum erlendis í algjöru lágmarki. Ef við værum t. d. með Evru nú, og einhverjir færu á eyðslufyllirí í útlöndum með Evrurnar okkar, mundi það þýða skort á Evrum hér heima, sem engin leið væri að bregast við nema loka einhverri starfsemi, sem notað hefði álíka magn af Evrum og eytt hefi verið í eyðslufylliríinu.

Ef við hins vegar förum í gegnum þessa erfiðleika með krónunni okkar, getur ríkisstjórn okkar tekið ákvörðun um að auka peningamagn í umferð um einhverja fjárhæð (segju svona 100 milljarða til að byrja með), til að standa undir atvinnusköpun hér innanlands, bæði við stofnun fyrirtækja sem framleiddu útflutningsvörur eða þjónustu, sem og til framkvæmda sem kæmu þjóðfélaginu til góða í framtíðinni, s. s. eins og ýmiskonar viðhaldsverkefni, gerð Vaðlaheiðarganga, ganga á Austfjörðum og Vestfjörðum, vegaframkvæmda til Selfoss og fjölda annarra verka, sem halda myndu uppi atvinnu- og tekjustigi í þjóðfélaginu meðan fyrirtækin sem skapa munu gjaldeyririnn væru að komast á legg. Þegar við værum kominn í gegnum verstu lægð þessarar kreppu, og erlendar tekjur okkar farnar að aukast, gætum við með markvissum hætti aukið verðgildi krónunnar, þannig að hún yrði fullt eins traust viðskipamynt eins og Evra eða Dollar. Traust myntarinnar fer ekki eftir stærð efnahagssvæðisins að baki myntarinnar. Traustið fer eftir styrk verðmætasköpunarinnar sem að baki myntarinnar er.

Mér finnst tími til kominn að menn fari að koma sér niður á jörðina. Sýndarveruleikinn er horfinn og kemur ekki aftur. Raunveruleikinn er tekinn við. Ef þið hagfræðingar góðir, hafið gleymt forsendum raunveruleikans; drífið ykkur þá endilega í endurmenntun, því sýndarveruleikinn verður ekki endurvakinn.       


mbl.is LÍÚ vill einhliða upptöku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er hann að segja að hann sé ekki orðinn fullorðinn?

Þessi yfirlýsing Geirs er nokkuð undarelg. Fullorðinn og fullveja maður telst bera ábyrgð á gerðum sínum og þeim verkum sem hann tekur að sér.

Verkefni stjórnmálamanns, sem kjörinn er á þing, og tekur að sér hlutverk forsætisráðherra, er fyrst og fremst að bera ábyrgð á að lagagrundvöllur þjóðarinnar hafi að meginstefnu hagsmuni heildarinnar, og að hvorki hagsmunahópar, fyrirtæki né einstaklingar, komist upp með að sniðganga meginreglu um heildarhagsmuni, á þann hátt að slíkt skaði heildarhagsmuni.

Ekki er nokkur vafi á að ríkisstjórn og Alþingi sýndu um nokkurra undanfarinna ára skeið, óafsakanlegt afskiptaleysi af framferði fjármálaumhverfisins, sem í meira en áratug fór langt út fyrir öll velsæmismörk í framferði sínu.

Hvort afneitun Geirs stafar af meðvirkni eða ótta við afleiðingarnar, skal ósagt látið. En þessi afneitun er engu að síður undarleg, því vitað er að Geir er vel greindur maður, að mörgu leiti.                 


mbl.is Geir: Tel mig ekki persónulega ábyrgan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fljótfærnishlaup undan óvitaskap

Þarna er Þorgerður Katrín að taka fljótfærnishlaup undan frekju óvita sem hvorki virðast hugsa um neytendur né þjóðfélagsheildina.

Auglýsing er ekki val seljanda um að láta einhvern fjölmiðil hafa einhverja tiltekna upphæð í peningum, en fá í staðinn nafnið sitt birt, ásamt einhverjum vörum eða þjónustu. Svo mætti þó halda af þeim hamagangi sem einstakir fjölmiðlar hafa verið með.

Seljandi vöru eða þjónustu velur sér fjölmiðil til að auglysa vöru sína eða þjónustu, út frá þeim hlustendahópi sem líklegast er að horfi, lesi eða hlusti á fjölmiðilinn. Verð fjölmiðilsins á auglýsingatíma getur verið svo afstætt að hreint illgerlegt sé að bera slíkt saman. Ódýrasti auglýsingatíminn hjá fjölmiðli, getur verið sá dýrasti fyrir auglýsandan, sem er jú kaupandi auglýsingarinnar; einfaldlega vegna þess að sú auglýsing skilaði engri sölu eða árangri.

Vandamál það sem við er að fást, er ekki það að RÚV skuli vera á auglýsingamarkaði. Vandamál verður til ef RÚV er að bjóða óeðlilega lágt verð auglýsinga, í krafti stærðar t.d. Því er mikilvægast að setja RÚV afar þröngar skorður um heimildir til afsláttar frá auglýstu verði. Segja mætti, sem dæmi, að afsláttur RÚV mætti ekki vera hærra hlutfall af aulýstu verði en t. d. Samkeppniseftirlitið samþykkti, með hliðsjón af markaðsstöðu samkeppnisaðila.

Það er alveg órannsakað mál hve stór hluti þjóðarinnar hlustar eingöngu á RÚV. Sumstaðar á landsbyggðinni á fólk ekki kost á öðrum útvarps- eða sjónvarpsstöðvum. Þessi hópur gæti verið einhvert tiltekið hlutfall þjóðarinnar, sem seljendur/auglýsendur yrðu þá útilokaðir frá, ef auglýsingar væru bannaðar á RÚV. Mundi slík mismunun standast ákvæði stjórnarskrár, um jafnræði þegnanna fyrir þeim lögum sem Alþingi setur? Getur Alþingi sett lög sem beinlínis beinast að því að skerða þjónustu við tiltekna hópa, landshluta eða byggðir, í því skyni að efla afkomugetu annarra þegna þjóðfélagsins?

Ég held að Menntamálaráðherra okkar þurfi að hugsa þessi mál frá opnari heildarhugsun, en ekki út frá hagsmunavon lítils hluta þjóðarinnar.        


mbl.is RÚV af auglýsingamarkaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alvarlegur óvitaskapur að telja að ekki þurfi að endurksipuleggja viðskiptalífið

Öllum sem eitthvert raunhæft vit hafa í kollinum, á að vera ljóst að viðskiptalíf okkar var búið að þenja sig LANGT út fyrir þau mörk sem raunhæft var að tekjur okkar gætu fóðrað það til framtíðar. Þeir sem hrópa á óbreytt viðskiptalíf opinbera fyrst og fremst blindan hroka eða vanþekkingu sína á þjóðfélagslegum afkomugrunni. Og geta því flokkast í áhættuflokki með fyrrverandi bankastjórum og jarðsambandslausum útrásarvíkingum.

Landamæri heiðarleika hafa um margar ára skeið verið ansi teyjanleg hjá Vilhjálmi, en nú sýnist mér hann vera að setja alveg nýtt met í heimsku, í von um að forn frægð hjálpi honum að viðhalda vitleysunni dálítið lengur; eða þar til lánin frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum hafa verið étin upp af þeim fjárhættuspilurum sem komu þjóðinni á vonarvöl.

Það er hættulegast þegar gáfumenn tala gegn hagsmunum þjóðar sinnar.          


mbl.is Mun stórskaða viðskiptalífið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru friðsömu mótmælin að baki ???????????????

Jæja, þá virðist ófriðarhópnum í samfélagi okkar vera að takast að breyta þeim friðsömu mótmælum, sem verið hafa undanfarnar vikur, í gamalkunna ofbeldistaktík. Þar með geta stjórnvöld andað rólega, því friðsamir borgarar munu forðast þessar samkomur þegar þær fá á sig slíkan ofbeldisblæ sem urðu á laugardaginn.

Sá ágæti og skeleggi skipuleggjandi mótmælanna við Austurvöll, Hörður Torfason, gerði alvarleg og afgerandi mistök þegar hann hrópaði í lok fundarins á Austurvelli, að næst væri það lögreglustöðin við Hverfisgötu.

Ljóst er, og fram hefur komið, að sá blessaður maður sem handteinn var, var ekki handtekinn vegna þátttöku sinnar í mótmælunum, eða af því að hafa klifrað upp á Alþingishúsið og flaggað Bónusfána. Hann var handtekinn vegna dómsúrskurðar sem fallið hafði, þar sem aðalrefsing var sekt, en vararefsing fangelsun.

Það var því mjög andstætt eðli og tilgangs mótmælanna á Austurvelli, að gera brot þessa manns á íslenskum lögum, og flótta frá eðlilegri ljúkningu þeirrar refsingar sem hann ávann sér, að virkum dagskrárlið mótmælanna á Austurvelli. Slíkt mun fæla heiðarlegt fólk frá þessum fundum, enda vandséð að aftur verði snúið til þeirra friðsömu mótmæla sem að var stefnt í upphafi.

Já, við getum áfellst stjórnvöld fyrir ýmsa þætti í skipulagi þjóðmálanna, en meðan við getum ekki skipulagt og framfylgt friðsömum mótmælum á afmörkuðu svæði í miðborginni, mun ástandið líklega lítið batna þó valdhafarnir væru hraktir úr stólunum en mótmælendur kæmu í staðinn.

Því fylgir ábyrgð á mótmæla röngum vinnubrögðum. Árangur slíkra mótmæla getur aldrei byggst á lögbrotum eða ofbeldi. SEM BETUR FER.                  


mbl.is Fráleitt ólögmæt handtaka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það hlýtur að vera skelfilegt að hlusta á svona óvitaraus

Í raun er "áfallastjórnun" ekki hugtak sem hægt er að nota yfir það ástand sem hér hefur gengið yfir. Réttara væri að segja að stjórnvöld hefðu nú loksins náð vopnum sínum til að berjast við þau vandamál sem þau létu hlaðast upp, meðan þau svifu um í vímuþoku velsældar. Í þeirri trú að stjórnunarsnilld þeirra hafi leitt til landsins Elvu óþrjótandi auðs, sem streyma muni til okkar um alla framtíð.

Í þessari óraunsæu vímuþoku velsældar voru þau skötuhjú, ásamt sínum nánustu ráðgjöfum, í byrjun október s. l. þegar, að þeirra mati, allt í einu var skrúfað fyrir Elvuna sem veitti auðnum hingað, svo engir peningar komu. Hjúin höfðu ekki einu sinni hugað að því að þau þyrftu vopn til að berjast fyrir tekjustreymi þjóðarinnar; hvað þá að þau hefðu skipað sveit vopnfimra manna til að auka tekjusköpun þjóðarinnar. Nei, slíkt hafði þeim ekki hugkvæmst.

Nú er sem sagt sá tími björgunaraðgerða kominn, að þau hjúin telja sig hólpin. Alþjóðleg björgunarsveit er búin að taka í tog flekan sem þau eru á, en áhöfnin öll hrekst um á stjórnlausu fari, án áttavita, leiðarvísa, matar eða húsaskjóls. Mikið er af skerjum og boðum á leið áhafnarinnar, og litlar líkur á að hún komist heil í höfn án leiðsagnar. Það finnst skötuhjúunum hins vegar aukaatriði. Það sé búið að bjarga þeim, svo nú geti þau skroppið snöggvast í gegnum þessa kreppu.

Já,  skilningurinn á þeirri stöðu sem þjóðin er í skín greinilega af hverju hennar orði. Þvílíkur leiðtogi.                      


mbl.is Áfallastjórnuninni lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lágmarka leiðréttinguna við "mestu" deiluefnin sýnir vanvirðingu gagnvart þjóðinni

Það sýnir okkur innsta vilja forystumanna stjórnarflokkanna til að virða jafnræði þegna landsins, að þeir skuli leitast svo ríkulega við að lágmarka svo sem kostur er, þá leiðréttingu sem framkvæma á eftir 5 ára þvermóðsku, fjármuna- og réttindarán á kostnað almennings.

Það undrar mig mjög, að formaður Samfylkingarinnar skuli með svona afgerandi hætti, gera sig að ótrúverðugum ósannindamanni. Hver tilgangur þessarar sjálfseyðingar sé, er ekki ljós, því skoðanakananir benda sterklega til þess að hún muni sitja í næstu ríkissjórn, nema hún reikni ekki með því að ná endurkjöri til öruggs sætis á framboðslista; enda vinnur hún ötullega að því að fá slíka útreið.

Í fréttinni segir Geir að íslenska ríkið hafi gert samkomulag við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn. Þetta er ekki rétt. Ef ríkið væri búið að gera slíkan samning, væri hann bókaður staðfestur af Alþingi, en á vef Alþingis finnst enginn slíkur samningur staðfestur frá byrjun s. l. októbermánaðar. Líklega á Geir við að ríkisstjórnin hafi gert uppkast að samningi, sem en eigi eftir að bera undir Alþingi til staðfestingar. Það er slæmt að forsætisráðherra skuli eiga svona erfitt með að virða leikreglur lýðræðis í vinnu sinni fyrir  þjóðina.

Ég held að þjóðin sé ekki tilbúin til að fara í kosningar alveg strax. Þjóðin á eftir að endurskipuleggja sig, samfélagsleg viðhorf sín og þá hugmyndafræði sem byggja ætti framtíðarhugsjónir á. Slíkt er ekki tiltækt enn. Því væri líklegast að sömu hugsjónirnar og verið hafa, myndu verða niðurstaðan ef kosið væri núna fljótlega. Ég teldi betra að bíða vorsins og láta sjá til hvort sá viljasproti sem myndast hefur til hugarfarsbreytinga og stjórnmálalegrar ábyrgðar verði að veruleika. Einnig er mikilvægt að komið verði á fót ásættanlegu þekkingar- og hæfileikamati, sem þeir gangist undir, sem sækjast eftir þeirri stjórnunarlegu forystu sem þingmennska er.                


mbl.is Mestu deiluefnin felld úr gildi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Finnur Samfylkingin ekki til neinnar ábyrgðar ????????

Það hefur undrað mig mikið að Samfylkingin skuli aldrei vera spurð um ábyrgð sína á því að erlendar skuldir bankanna tvöfölduðust á þeim tíma sem leið frá því þau tóku sæti í ríkisstjórn og fram að bankahruninu. Þó þjóðfélagið gæti klárað sig af erlendum skuldum upp á u. þ. b. 6.500 milljarða, eins og þær voru þegar Samfylkingin tók við, var varla við því að búast að þjóðfélagið þyldi svona hraða skuldaaukningu, að verða nær 13.000 milljörðum á innan við tveimur árum. Slíkt var vonlaust að þjóðfélagið gæti borið.

Í ljósi þessara staðreynda finnst mér Samfylkingin sleppa billega frá skeytingaleysi sínu varðandi hina hröðu skuldaaukningu. Einkanlega sé líka litið til þess hvernig virðist hafa verið farið með þetta fjármagn, sem virðist hafa verið lánað út aftur gegn afar hæpnum tryggingum.

Í öllu þessu ferli sýndi Samfylkingin afar litla þekkingu á nauðsynlegu og eðlilegu fjárstreymi um þjóðfélagið. Og sama þekkingarleysið er enn á ferðinni þegar þau telja það til hagsbóta fyrir þjóðfélag okkar nú, að ganga í Evrópusambandið og taka upp Evru.

Á undanförnum vikum hefur það sýnt sig að engin biðröð er hjá fjármagnseigiendum til að koma hingað með peninga. Við munum ekkert frekar fá Evrur til okkar, þó við höfum þær sem okkar gjaldmiðil, nema sem greiðslu fyrir þær vörur eða þjónustu sem við seljum, líkt og við fáum nú.

Seðlabanki okkar mun starfa áfram þó við tökum upp Evru og hann mun áfram stýra fjárstreymi um atvinnulíf landsins. Hann og ríkisstjórnin munu áfram bera ábyrgð á því að skapa þjóðinni nægar tekjur (Evrur) til þess að reka þjóðfélag okkar. Við munum hins vegar ekki geta aukið innlenda veltu til atvinnusköpunar eða til að bregðast við bráðaaðstæðum, með því að auka peningamagn í umferð, ef við skiptum yfir í mynt annarrar þjóðar. Til slíks munum við þurfa samþykki yfirstjórnar gjaldmiðilsins (Evrunnar), sem getur orðið tímafrekt að fá samþykki fyrir, þar sem 27 þjóðir þurfa að samþykkja.

Það hryggir mig mjög, sem jafnaðarmann frá blautu barnsbeini, að sjá hve svokallaður jafnaðarmannaflokkur okkar virðist rúinn allri raunhæfri þekkingu á nauðsynlegu fjárstreymi sjálfstæðs þjóðfélags. Það er undarlegt til þess að hugsa að á liðlega 50 árum skuli raunverulegri þekkingu á rekstri sjálfstæðs þjóðfélags hnygnað eins svakalega og raunin virðist vera.

Það eru afar lélegir arfberar frelsins og sjálfstæðis (sem var gunnfáni jafnaðarmanna fyrir liðlega hálfri öld), sem nú sjá eina ljós framtíðarinnar felast í því að skríða hundflatir undir verndarvæng ímyndaðrar auðsældar, hjá valdabandalagi sem er að líða undir lok, vegna innri sundrungar.

Við slíka framtíðarsýn er eina gleðin að vera orðinn gamall og þurfa ekki að lifa lengi við slíka niðurlægingu.        


mbl.is Stjórnarsáttmáli heyrir sögunni til
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er krónan ónýt ??????

Daglega verður maður vitni að því að stjórnmálamenn valda ekki því hlutverki að stýra mikilvægustu málefnum sjálfstæðs þjóðfélags. Stærsti stjórnmálaflokkurinn má ekki vera að því að sinna brýnum innanlandsmálefnum, vegna ákafa síns um að fá að sitja á fundum með hópi landa, sem nýverið hafa sýnt okkur þvílíka fyrirlitningu að öðru eins verður vart jafnað, nú á síðari tímum.

Er það brýnasta verkefni stjórnvalda nú að sækja um aðiild að Evrópusambandinu? Er brýnt að eyða starfsorku og tíma í það nú, að ræða um að kasta krónunni og taka upp aðra mynt?

Afleiðingar stjórnleysis síðustu áratuga ættu að segja öllum sem einhvert vit hafa á stjórnun atvinnu- og tekjuþátta sjálfstæðs þjóðfélags, að útilokað er fyrir stjórnmálamenn okkar að svipta þjóðina því svigrúmi sem felst í því að ráða mynt sinni sjálf.

Við verðum að horfast í augu við, að undanfarna áratugi hefur tekjusköpun þjóðarbúsins ekki verið sinnt sem skildi af stjórnmálamönnum okkar. Þeir flutu áfram á rauðu skýi lánsfjárvímunnar og fannst greinilega engin þörf á að þjóðin inni sjálf fyrir þeim peningum sem hún eyddi. Það væri hægt að fá nóg af þeim lánað frá útlendingum, sem myndu halda áfram að ausa fé í þessa sjálfumglöðu þjóð, sem fyrst og fremst hugsaði um að eyða peningum, en legði enga hugsun í að, ef vel ætti að fara, þyrfti fyrst að afla peninganna, áður en farið væri að eyða þeim.

Hver væri staða atvinnulífsins hjá okkur ef við skiptum nú út krónunni, annað hvort fyrir evru eða dollar. Sífellt fleiri fyrirtæki verða stopp vegna skorts á peningum, nú þegar lánsfé er hætt að streyma til landsins af krafti stórfljóta. Nú horfumst við beint í augu við það hve mikið við öfluðum sjálf af tekjum erlendis frá, til þess að standa undir þeirri veltu þjóðfélagsins sem lánsféð hafði framkallað. Af hverju eru stjórnmálamenn og aðrir ráða- og menntamenn undrandi á þessari stöðu, þegar hún var jafn óumflýjanleg og að steinn sem kastað er upp í loftið, kemur aftur niður til jarðarinnar. Í okkar tilfelli urðum við undir steininum.

Eina færa leið Íslands nú, til að forðast algjört hrun innanlands, er að ríkissjóður takið ákvörðun um umtalsverða aukningu fjármagns í umferð, með því að prenta allt að 100 milljarða íslenskra króna, til að keyra af stað sem mest af nauðsynlegri starfsemi hér innanlands. Í því svigrúmi sem þannig skapast þarf að leggja megináherslu á að sem minnst af því fjármagni fari úr landi, og að algjörs forgangs njóti öll sú atvinnusköpun sem selja má til erlendra aðila og skapa með slíku gjaldeyri.

Miðað við stöðu þjóðarbúsins nú, er eitt brýnasta verkefni okkar, að sem næst tvöfalda gjaldeyristekjur okkar; og það helst á næsta og þarnæsta ári. Þá er ég ekki að tala um sjónhverfingar eins og viðhafðar voru undanfarin ár á fjármálamarkaðnum, heldur raunverulegar nettótekjur af beinni sölu á vörum eða þjónustu.

Með íslensku krónunni, getum við haldið allri nauðsynlegri þjónustu gangandi hér innanlands og meðan við erum að komast yfir mestu lægðina í þessum hörmungum, getum við aukið peningamagn í umferð, þannig að allir geti borgað innlenda reikninga sína og sem flesir fengið störf við þjónustu eða framleiðslu fyrir okkur sjálf.

Ef við skiptum nú um mynt, og verðum algjörlega háð vilja Seðlabanka annarrar þjóðar, um aukningu peningamagns í umferð, ráðum við engu um það sjálf hve mikið peningamagn er hér í umferð, til greiðslu launa og annars kostnaðar innan samfélagsins. Ef hliðsjón er höfð af því hve lítið við sköpum nú af gjaldeyri, er ljóst að verslun, þjónusta og verklegar framkvæmdir mundu dragast verulega mikið saman og líklega verða neyðarástand hérna á höfuðborgarsvæðinu.

Ég get því ekki annað en lýst vanþóknun minni á málflutningi lærðra manna, sem mæla því bót að nú verði skipt um gjalmiðil hér á landi. Sama á í raun við um stjórnmálamenn, nema að þeir geta afsakað sig með fákunnáttu, vegna þess að engar kröfur eru gerðar til stjórnmálamanna að þeir hafi vit á rekstri sjálfstæðs þjóðfélags, þó þeir séu kosnir til þess að stjórna því.       


mbl.is Ónýtur banki bjargar ónýtri krónu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband