Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Er ekki kominn tími til að leiðrétta svokallaða verðtryggingu ??????

Taka má undir það sem þeir segja báðir, bæði Ingólfur hjá  Spara.is og Jóhannes hjá Neytendasamtökunum. Tillögur ríkisstjórnarinnar eru ekki í neinu samræmi við viðfangsefnið og bendir sterklega til að þar á bæ geri menn sér ekki grein fyrir þeirri alvarlegu stöðu sem blasir við meginþorra heimila í landinu.

Líkt og í fyrri holskeflunni á árunum 1983 - 1990, er megingrunnur vandans ábyrgðarlaus útlán bankanna. Þeir bregðast skyldu sinni með því að lána út fjármuni sem þeir eiga ekki sjálfir, án þess að fullvissa sig um getu lántakans til endurgreiðslu þeirra lána sem hann tekur. Það er grunnurinn undir þeim vandamálum sem til úrlausnar eru.

Fyrst bankarnir gættu ekki þessarar skyldu sinnar, er engin leið út úr þeim vanda sem við okkur blasir, önnur en sú að endurskipuleggja skuldastöðu fólks í samræmi við greiðslugetu. Ég vona að stjórnvöld og lánastofnanir fari ekki aftur í þann eltingaleik sem stundaður var á árunum '83 - '90, að setja allar kröfur í lögfræðiinnheimtu og loka þar með endanlega fyrir möguleika fólks til að endurgreiða lánveitandanum nema afar lítið brot af því sem hann lánaði út.

Fólk þarf ekki að vera með mörg lán í lögfræðiinnheimtu til að nánast öll greiðslugetan fari í greiðslur til lögfræðinganna, en ekkert verði eftir til niðurgreiðlsu lánanna. Slíka endurtekningu verður að forðast.

Á þessu hausti eru 25 ár síðan ég lagði fyrst fram skýrar staðreyndir fyrir því að útreiknikerfi vísitölubundinna lána hjá lánastofnunum er byggt á röngum forsendum og reiknar þar að auki ekki rétt. Ég eyddi mikilli orku og tíma í að reyna að vekja athygli manna á þessu, en uppskar einungis óvild og persónulegar árásir.  Vitleysurnar eru enn til staðar og hafa arðrænt lántaka þessa lands um gífurlegar fjárhæðir. Spurning er hvort núverandi ógnun sem af þessum vitleysum stafar, séu nógu stórar til að nú verði gripið til aðgerða og leiðréttingar á hugbúnaðinum sem reikar út verðtrygginguna.

Ég hef áður vakið athygli á að viðmiðunargrunnur verðtryggingar er einnig rangur. Verðtrygging er einskonar eignaaukning, því hún færir fjármagnseigendum aukið magn fjármuna til jöfnunar á móti auknum tilkostnaði samkvæmt mælingu neysluvísitölu. Það er andstætt öllum reglum um grundvöll eignaaukningar, að aukinn og vaxandi kostnaður verði sjálfkrafa að aukinni og vaxandi eign. Slík gengur ekki upp í formi verðmætamyndunar, því eign verður ekki sjálfkrafa til úr hærri útgjöldum.

Í raun er engin leið að útskýra svona vitleysu í stuttri bloggfærslu. Hins vegar getur fólk velt fyrir sér hvort stjórnvöldum sé stætt á því að láta ýmsa ótilgreinda aðila viðskiptalífsins taka ákvarðanir um gengi  gjaldmiðils okkar, í viðskiptum manna á milli í þjóðfélagi okkar.  Hvernig samræmist það jafnræðisreglu stjórnarskrár?                 


mbl.is Leysir ekki greiðsluvanda heimila
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bretar vilja ekki óvilhallan úrskurð, sem þýðir??????

Það er afar athyglisvert að Bretar skuli ekki vilja óvilhallan úrskurð í deilum sínum við okkur.  Athyglisvert er einnig, að allar þjóðir ESB skuli taka málsstað Breta, í ljósi þess að þeir VILJA EKKI úrskurð hlutlauss aðila.

Þarna birtist okkur umbúðalaust sú jafnræðisstaða sem við myndum mæta inna ESB, ef hagsmunir okkar stönguðust á við hagsmuni hinna stóru aðila innan þessa sambands. Er ekki tilhlökkun að komast í slíkar þrælabúðir?

Ég held að ESB hafi nokkuð sýnt sitt rétta andlit í þessum deilum. Frekja stóru þjóðanna ræður greinilega allri tjáningu. Þar er tvímælalaust skýringin á því hvers vegna Danir og Svíar hafa haldið sig til hlés í þessum átökum og ekkert látið hafa eftir sér sem kæmi okkur að haldi. Þrælsóttinn við þá stóru er afar augljós og lítt eftirsóknarvert að komast í þessar þrælabúðir.                    


mbl.is Enginn góður kostur í stöðunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athyglisverðar yfirlýsingar

Það eru athyglisverðar upplýsingar sem þarna koma fram hjá formanni LÍÚ. Enn hefur ekki verið samþykkt heimild á Alþingi fyrir því að selja megi aflaheimildir. Þó segir formaðurinn að 87,5% aflaheimildanna hafir verið keyptar af núverandi útgerðaraðilum.

Það er algjörlega óhrekjanlegt að samkvæmt íslenskum lögum er ekkert til sem heitir "varanleg aflahlutdeild". Þess vegna er enginn varanlegur réttur til staðar hjá þessum 87,5% útgerðaraðila sem látið hafa af hendi peninga í skiptum fyrir aflaheimild. Sú peningagreiðsla færði þeim engan rétt til úthlutunar umfram það hlutfall heildarafla sem skip útgerðarinnar hafa fiskað síðastliðin 3 ár. Þeir hafa greinilega látið plata sig til peningaútláta vegna ímyndaðs réttar sem ekki er til í raunveruleikanum.

Í fréttinni segir einnig:

Adolf segir einnig að í umræðu um fiskveiðistjórnunarkerfið sé gjarnan ýjað að því að það sé sniðið að þörfum stærri útgerða. Í þeirri umræðu gleymist t.d. sú staðreynd að frá því að aflamarkskerfinu var komið á hafi 32% veiðiheimilda í þorski verið færðar frá aflamarksskipum til smærri báta auk þess sem umtalsverðar aflaheimildir í ýsu hafi verið fluttar til þeirra.

Gama væri ef Adólf svaraði því hvað varð um allar aflaheimildir vertíðarbáta, miðað við hlutdeild þeirra í heildaraflanum þegar kvótakerfið var sett á? Þá voru mörg hundruð vertíðarbáta að fá mikið magn af þorski og ýsu.  Hvað varð af hlutdeild vertíðarbátanna úr heildaraflanum? Hvert skildi sá afli hafa verið færður? Hvað skildi vanta mikið á að togaraflotinn sé búinn að skila aftur til bátaflotans þeim aflaheimildum sem þeir soguðu til sín frá bátunum?

Það væri gagnlegt að formaður LÍÚ upplýsti okkur um þessa þætti.              


mbl.is Svarar gagnrýni um gjafakvóta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægt að þjóðin haldi þeirri virðingu sem hægt er

Það er gífurlegt sár í vitund sjálfsvirðingar hvers manns sem stendur á þeim krossgötum að engin vill lána honum meiri peninga, því allir meta skuldastöðu hans þannig, út frá tekjum litið, að hann geti ekki greitt af meiri lánum.

Sama á í raun við um þjóðfélag, nema að þar verða mörg og djúp sár í þjóðarvitund fólks sem ekkert hefur bruðlað með peninga eða fjármuni, og því ekkert til þess unnið að vera sært slíku sári.

Þó okkur sé mikilvægt að skipta út stjórnmálamönnum sem sýnt hafa svo mikla vanþekkingu á stjórnun þjóðfélags, sem nú er staðfest, er okkur ekki síður mikilvægt að sýna þessu saklausa fólki, sem og þegnum annarra þjóða, þá virðingu að þau skynji ábyrgð okkar og vilja til friðsamra og lýðræðislegra aðferða við þrýsting okkar til nauðsynlegra breytinga.

Mikilvægt er, að fjölmiðlar sýni þá yfirvegun og dómgreind, að leggja ekki höfuðáherslur á frásagnir af litlum hópi uppþotsaðila, sem einungis hafa þau meginmarkmið að valda sem mestum usla og með því fá frásagnir í fjölmiðlum af afrekum sínum. Með því að fjölmiðlar sniðgangi svoleiðis uppþot, hjálpa þeir hinum mikla fjölda friðsamra mótmælenda, að losna við þessa uppþotsaðila. Fái þeir enga athygli fjölmiðla, fá þeir enga umbun fyrir erfiði sitt og verða því fljótt orkulausir, líkt og bensínlaus bíll.

Mikilvægt er einnig fyrir okkur öll, að átta okkur á því að þar sem ekki verður fengið meira lánsfé til beinnar eyðslu, í beina neyslu og aukin lífsgæði, verður óhjákvæmilega mikill samdráttur í atvinnulífi okkar. Þetta hef ég, í vel á annan áratug, bent á sem óhjákvæmilegan tímapunkt, vegna þess að stjórnvöld gættu þess ekki að auka gjaldeyrisskapandi starfsemi í því hlutfalli sem þörf var á, til að standa undir þeim lífsgæðum sem búin voru til með lánsfé.

Óhjákvæmilega erum við á sama tímapunkti og einstaklingur sem stendur frammi fyrir gjaldþroti. Hann verður að laga líf sitt að þeim tekjum sem hann hefur, kyngja drambinu og birtast í þeirri raunveruleikamynd sem skapar sér sjálfur, sem ein af tönnunum í því tannhjóli sem drífur áfram þjóðfélagið.

Minnumst þess að það erum við sjálf sem búum til lífsgæði samfélagsins.                 


mbl.is Boða friðsamleg mótmæli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að spyrja spurningar sem er lögbrot að svara er þáttaka í lögbroti

Ágúst Ólafur er, að því er ég held, menntaður lögfræðingur. Hann á því að vita að stöðu sinnar vegna, getur hann orðið samsekur um lögbrot með því að setja fram spurningar sem væri lögbrot að svara. Ég geri mér ekki grein fyrir hvort þarna er á ferðinni reynsluskortur vegna ungs aldurs, eða aðrir þættir valda.

Einnig ætti hann, sem lögfræðingur, að gera sér grein fyrir því að ekki duga einföld tilmæli til nýju ríkisbankanna, um að raska ekki jafnvægi í samkeppnisumhverfi. Eigi fjármálastofnun að hafa slíka þætti til viðmiðunar við útlán sín, verður slíkt að fellast inn í lög um starfsemi fjármálastofnana.

Mér finnst það sem ég hef heyrt til Ágústs Ólafs vegna þessa máls, lýsa óþægilega lítilli heildaryfirsýn yfir þjóðfélagið og lítilli þekkingu á hvernig Alþingi þarf að vinna að setningu heildarreglna fyrir starfsemi atvinnu- og fjármálalífs í þjóðfélaginu. Einkanlega er þetta sláandi þar sem hér er um að ræða varaformann, núverandi stærsta stjórnmálaflokks landsins 


mbl.is Dregur ekki ósk sína til baka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingar geta ekki greitt fyrir hryðjuverk Breta gegn eigin þjóð

Ef við drögum djúpt andann svo heilinn fái súrefni, munum við líklega greina eftirfarandi ferli atburða.

Útibú Landsbankans í London fékk heimild Breskra yfirvalda til að taka við innlánum þar í landi. Þar með var útibúið komið undir eftirlit Breska Fjármálaeftirlitsins. Því bar skylda til að gæta þess að eignastaða útibúsins væri ævinlega sú að eignir væru hærri en vörslufé og skuldir. Stjórnvöldum þar í landi ber því fyrst og fremst að áfellast Breska fjármálaeftirlitið hafi eignastaða útibús Landsbankans í London ekki verið nægjanleg.

Fram hefur komið að langt var komið ferli stofnunar Bresks dótturfélags Landsbankans, þar sem Icesave reikningarnir áttu að vistast. Svo er að skilja að eignir hefðu verið tilgreindar til vistunar í efnahag þessa Breska fyrirtækis; einungis eftir formleg frágangsvinna.

Í ljósi alls þessa virðist alveg ljóst að notkun Brown's á hryðjuverkalögum til að frysta eignir útibús Landsbankans í London bitnuðu harðast, og svo til eingöngu á innistæðueigendum í þessu útibúi, þ. e. Breksu þjóðinni. Með fullum rétti er því hægt að segja að Brown hafi beitt hryðjuverkalögum á sína eigin þjóð.

Ljóst virðist að hefði Brown dregið djúpt andann og þrýst á að útibúið yrði strax að Bresku fyrirtæki, hefði Breskur almenningur, sveitarfélög, líknarfélög og stofnanir, engum fjármunum tapað og endurgreiðsla hefði tekist með ágætum. Vandamálið sem búið var til er því ekki vandamál íslensku þjóðarinnar. Hins vegar er vel þekkt að hroki Breta er nægilega mikill til að reyna að kúga aðra til að greiða skaðann af þeirra eigin mistökum og misgjörðum.

Með þessum skrifum er ekki verið að afsaka fýfldirfsku stjórnenda Landsbankans í því ástandi sem verið hefur undanfarin tvö ár á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Þar sýndu þeir svo glögglega að þeir báru ekkert skynbrag á hvaða afleiðningar ofþensla bankakerfisins gat haft fyrir þjóðina okkar. Því miður var eins ástatt með stjórnmálamenn okkar og stjórnendur helstu eftirlitsstofnana, s.s. Fjármálaeftirlits, Fjármálaráðuneytis og Seðlabanka. Hvergi raunveruleg þekking eða ábyrgðartilfinning gagnvart  rekstri sjálfstæðs þjóðfélags.                


mbl.is Barroso: Ísland leysi deilumál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er ábyrgð Bretanna sjálfra ?????

Fyrir utan það að setja eignir Landsbankans í herkví og bera þar með fulla ábyrgð á verðmæti þeirra eigna eða verðrýrnun, eru aðrir þættir þessa máls, sem tvímælalaust eru á ábyrgðarsviði Bretanna sjálfra.

Þar á ég við þá staðreynd að Landsbankinn hafði greinilega starfsleyfi í Bretlandi til að taka við innlánum þar í landi. Af því leiðir að Fjármálaeftirlit Bretlands bar fullkomna eftirlitsskyldu gagnvart þessum innlánum. Þeim bar að fullvissa sig um að nægar eignir væru fyrir hendi hjá útibúi Landsbankans í Bretlandi, til tryggingar þeirra innistæðna sem bankinn hafði tekið þar til ávöxtunar.

Hvers vegna spyrja fjölmiðlar ekki fjármálaráðherra Breta og forstöðumann Fjármálaeftirlits þeirra, hvað hafi valdið sinnuleysi þeirra vegna þeirra fjármuna sem landar þeirra lögðu inn á reikninga hjá Landsbankanum í Bretlandi? Mér finnst að við, almenningur á Íslandi, sem Bretar krefja um að greiði fyrir vanrækslu Fjármálaeftirlits þeirra, eigum fullan rétt á að fá þessi svör.

Snúum vörn í sókn.             


mbl.is Stoltenberg ræddi um Ísland við Brown
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vitlaus útreikningur verðtryggðra lána

Í þeim fjármálalegu hamförum sem nú ganga yfir landið okkar hefur oft heyrst hrópað á að verðtrygging lánsfjár verði afnumin. Slíkt verður líklega torsótt í fljótu hasti, en alls ekki ómögulegt að byrja á því að leiðrétta útreikning verðbótaþáttarins, þannig að hann gefi rétta verðbót lánsfájrins.

Gefum okkur að við tökum 10 milljón króna húsnæðislán til 25 ára. Lánið ber 5% vexti og við áætlum að verðbólga verði 12% á ári, út allan lánstímann.

Lítum aðeins á verðbólguna. 12% á ári, sinnum 25 ár, gera samtals 300%. Það þýðir að ef við hefðum allar 10 milljónirnar að láni í 25 ár,  og verðbólgan verið 12% allan tímann, ættum við að endurgreiða 30 milljónir að lánstímanum loknum.

Nú gerist þetta ekki þannig. Við greiðum afborganir af láninu í hverjum mánuði. Afborganirnar verða því 300 talsins. Hver afborgun verður kr. 33.333, nema sú síðasta, verður 33.433. Þegar 12% verðbólga er reiknuð inn í mánaðarlega endurgreiðslu 10 milljóna króna láns á 25 árum, kemur út verðbótagreiðsla að upphæð kr. 15.050.150.

5% Vextir af þessum 10 milljónum í 25 ár, með mánaðarlegum afborgunum, reiknast vera kr. 6.321.063.

Með réttum útreikningum þessa láns, miðað við 12% verðbólgu væri endurgreiðslan svona: Upphaflega lánið 10.000.000, + verðbætur 15.050.150, + vextir 6.321.063, eða samtals heildargreiðsla kr. 31.371.213.

Útreiknikerfi bankanna vill fá í endurgreiðslu samtals kr. 77.637.807.

Er ekki kominn tími til að sameinast um þá kröfu að þessi titleysa verði leiðrétt?

Kveðja frá fyrrum hagdeildarmanni í banka.                    


Gæti flokkast sem aðför að gjaldeyrissköpun þjóðarinnar

Aukin heimild til frestunar veiða á úthlutuðum aflaheimildum má allt eins flokka sem aðför að gjaldeyrisöflun þjóðarinnar á afar viðkvæmum tíma, þar sem brínasta verkefni atvinnuvega og ríkisstjórnar er að auka gjaldeyrissköpun eins og frekast er kostur.

Nægur bártafloti er til í landinu til að veiða allar úthlutaðar aflaheimildir. Þörf á frestun er því ekki til staðar og þjóðarbúið þarf NAUÐSYNLEGA á öllum aflanum að halda til gjaldeyrissköpunar.

Ef eitthvað væri hægt að flokka sem glæp gegn þjóðfélaginu, þá væri það að samþykkja þetta frumvarp um frestun og færslu aflaheimilda milli ára.                    


mbl.is Mega geyma þriðjung kvótans milli ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afneitar Samfylkingin raunhyggju ????

Þegar einstaklingur sýnir ábyrgðarleysi í fjármálum, kemur á einhverjum tíma að þeim punkti þegar lánveitendur segja stopp. Við lánum þessum aðila ekki meir. Slík stöðvun gerist ekki í einni sviphendingu, heldur hægt og með vaxandi andstöðu við lánveitingar. Verði ekki vart við breytingu í átt til aukinnar ábyrgðar hjá lántakanum, endar með því að allir lánveitendur segja stopp á frekari útlán. Við einstaklingnum blasir þá sú kalda staðreynd, að hann verði að lifa af þeim tekjum sem hann getur aflað sér, og einnig greiða allar afborganir af lánum sínum, með þessum tekjum. Sé þessi umræddi einstaklingur fyrirvinna fjölskyldu, kemur þessi óvarkárni hans í fjármálum  niður á allri fjölskyldunni.

Nákvæmlega sama ferlið á sér stað þegar heil þjóð sýnir óvarkárni í fjármálum. Löngu áður en farið er að beit þvingandi aðgerðum, er reynt með fortölum að fá þjóðina til að sýna meiri gætni í fjármálum. Þegar fortölur duga ekki, eru lánakjör gerð óaðgengilegri og farið að beita tregðu í lánveitingum. Dugi engin svona diplomatisk aðvörunarráð, kemur að þeirri stund, líkt og hjá einstaklingnum, að engir lánveitendur vilja lána þjóðinni peninga. Hjá þjóðinni eru bankarnir í þeirri stöðu að deila peningunum til reksturs þjóðfélagsins, líkt og fyrirvinna heimilisins deilir tekjunum út til heimilismanna. Það eru því bankarnir sem bera ábyrgð á ráðdeild í peningamálum. Og líkt og hjá fjölskyldunni, bitnar óvarkárni bankanna í fjármálum, á öllum almenning í þjóðfélaginu. Afleiðing slíkrar stöður er, líkt og hjá einstaklingnum, að þjóðin verður að læra að lifa eingöngu af þeim tekjum sem hún skapara. Meira lánsfé er ekki í boði. 

Sú villukennig æðir nú eins og engilsprettufaraldur um þjóðfélagið, að með því að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru, verði Seðlabankinn hér lagður niður en við fáum beinan aðgang að digrum sjóðum Seðlabanka Evrópu, og getum þar með haldið áfram hinu óábyrga lífsmunstri sem hér hefur viðgengist.

Þetta er eins mikið villuljós og mögulega getur orðið, því eins og fólk á að vita núna, eftir allar fréttirnar frá Evrópu, hefur hver ESB þjóð sinn Seðlabanka og ber sjálf ábyrgð á tekjuöflun sinni. Þannig neitaði Angela Merkel að deila gjaldeyrisvarasjóði Þýskalands með öðrum ESB þjóðum; sagði þann sjóð eingöngu vera fyrir Þýskaland.

Af þessu ætti að vera ljóst að ESB er engin afkomutrygging fyrir þjóðina, eða auðveldur aðgangur að peningum sem ekki hefur verið unnið fyrir. Við munum fá þær evrur sem koma frá sölu okkar á vörum eða þjónustu, en við verðum að skilja að við erum þegar skuldsett hærra en lánveitendur telja okkur greiðendur fyrir, þannig að við munum hvergi eiga aðgang að evrum, dollurum eða neinni annarri mynt sem venjulegu lánsfé. Þau lán sem við munum fá, utan Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, munu því verða með ábyrgðum ríkisstjórna viðkomandi lánveitanda, en ekki vegna lánshæfis okkar.

Vissulega má segja að Davíð beri einhverja ábyrgð á ástandinu. En hvort sú ábyrgð er jafn mikil og fjendur hans vilja vera láta, dreg ég stórlega í efa. Allir meiriháttar ákvarðanatökuaðilar, í fjármálum heimsins, voru áreiðanlega löngu búnir að sjá vanhæfni hans í stjórnun Seðlabankans, löngu áður en bankahrunið dundi yfir. Þó Davíð sé átrúnaðargoð einhverra þúsunda Sjálfstæðismanna, dreg ég stórlega í efa trú á hann þar fyrir utan.

Mér finnst því mótmælendur vera að fara illa með tíma sinn og orku, með því að setja afsögn Davíðs sem forgangsmál, því hann mun ekki gera meiri skandal af sér á næstunni, ekki meðan Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hefur eftirlit með fjármálastöðu landsins. Meiri þörf er á að þvinga stjórnvöld til opinnar umræðu um þær leiðir sem þau sjá til aukinnar tekjuöflunar og með hvaða hætti þau hyggjast taka á fyrirsjáanlegum samdrætti í þjóðfélaginu, nú þegar innstreymi lánsfjár heldur umsvifum ekki lengur gangandi.

Frestum umræðum um ESB og evruna þar til við höfum komið skipulagi á þjóðfélag okkar, þá gæti allt eins verið að farið verði að sjást í endalok þess pólitíska óraunveruleika sem ESB hefur alla tíð verið. Mér kæmi á óvert ef það yrði ekki komið með uppdráttarsýki á árinu 2010.            

                   


mbl.is Samfylking afneitar Davíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband