Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Getum við vænst lækkunar verðbólgu???

Líklega líður nokkur tími áður en verðbólgan fer að lækka. Ástæður þess eru aðallega þær að enn er mikil spenna í þjóðfélaginu. Eftirspurn eftir erlendum vörum og gjaldeyri til annarra nota, er enn frekar mikil, auk þess sem enn á eftir að greiða stóra gjalddaga af svonefndum "jöklabréfum". 

Á sama tíma og þetta er að ganga yfir, eru mörg verslunar- og þjónustufyrirtæki að berjast fyrir áframhaldandi lífi sínu. Sú barátta fer fram með hækkunum á verði vöru og þjónustu, til að afla nægra tekna, svo þær dugi fyrir kostnaði. Þessi barátta er mörgum fyrirtækjum vonlítil, þar sem innstreymi lánsfjár hefur dregist verulega saman og þar með minnkar velta í þjóðfélaginu. Það verður því líklega í fyrsta lagi með næstkomandi vori, sem við getum farið að vænta lækkunar verðbólgu.

Margir hamast á ríkistjórninni og krefja hana aðgerða vegna yfirskuldsetningar bankanna. Þjóðarbúið er ekki í neinni hættu vegna yfirstandandi lánsfjárkreppu, því allir atvinnuvegir gjaldeyristekna eru með tekjustreymi í hámarki þess mögulega. Að vísu vantar okkur fleiri atvinnugreinar sem skapa gjaldeyri, en þar sem þeim málum hefur lítið sem ekkert verið sinnt undanfarna áratugi, verðum við að hafa þolinmæði til að koma slíkri starfsemi af stað.

Það athyglisverða er hins vegar að stjórnir bankanna skuli ekki enn vera búnar að skipta um stjórnendur, þar sem núverandi stjórnendur bankanna hafa greinilega fyrirgert trausti erlendra lánastofnana, vegna glæfralegra skuldsetninga sinna. Þetta vantraust sýnir sig glögglega í skuldatrygginagaálagi sem krafist er af bönkunum, sem er það hæsta í heimi. Það segir okkur að engir bankastjórar í heiminum hafa minna álit, eða minni tiltrú, en núverandi bankastjórar bankanna okkar.

Ég mundi segja að fólk ætti fyrst að spyrja stjórnir bankanna hvað þær ætli að gera til að efla tiltrú erlendra lánveitenda, og þegar það er komið fram, þá verði skoðað hvort ríkissjóður þurfi að koma að þessum málum með einhverjum hætti.

Stjórnir bankanna fyrst. Svo má skoða hjálp frá þjóðinni.

Bankarnir hafa nú ekki beinlínis stundað það að gefa þjóðinni mikið undanfarin ár, eða hvað?               


mbl.is Verðbólga ekki meiri í 18 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líklega engin takmörk fyrir óraunsæi þessara manna

Ótrúlegur barnaskapur sem þessi "sérfræðingur" lætur út úr sér. Ríkissjóður tiltölulega nýlega búinn að selja bankana til að losa sig úr þessum rekstri. Þá telur þessi maður að ríkissjóður sitji að svikráðum til að ná til sín þessum margfallt yfirskuldsettu einkafyrirtækjum. 

Svona lítið þjóðfélag eins og okkar, þyrfti ekki nema einn ríkisbanka og við gætum hæglega stofnað hann fyrir mun lægri fjárhæð en 500 milljarða.

Það eru greinilega óvitar í fjármálum á fleiri stöðum en í Íslensku bönkunum.                 


mbl.is Markaðurinn hefur vantrú á bönkunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hve lengi telur þjóðin sig hafa efni á að hafa óvita við stjórnvölinn??

Það athyglisverða við þessa frétt er að gefið er undir fótinn með að stjórnendur fyrirtækja á Íslandi muni reyna að koma sér hjá því að fara eftir eðlilegum leikreglum við árs- og árshlutauppgjör fyrirtækja sinna. Þetta er athyglisvert því það segir beinlínis að reiknað sé með að stjórnendur Íslenkra fyrirtækja séu það óheiðarlegir að mikið spursmál sé um að þeir fylgi eðlilegum leikreglum við uppgjör fyrirtækja sinna. Er ástæða til að ætla að svo sé?  Í fréttinni segir:

Svokölluð viðskiptavild hefur margfaldast í efnahagsreikningum margra félaga og er yfir helmingur eigna sumra félaga í Kauphöllinni. (leturbr. G. J.)

Það kemur mér reyndar fátt á óvart lengur í fjármálalegu- og bókhaldslegu svindli. Ég verð þó að viðurkenna að ég átti ekki von á því að svo miklir óvitar réðu ríkjum í Kauphöllinni, hjá ríkisskattstjóra, fjármálaeftirliti og fjármálaráðuneyti, að þeir heimiliðu og viðurkenndu viðskiptavild sem skráða eign í efnahagsreikning fyrirtækja. -

Hvers vegna ekki og hvað er viðskiptavild?

Eins og segir í fréttinni: - Viðskiptavild er óefnisleg afgangsstærð sem verður til við kaup eða samruna fyrirtækja.

Rétt notkun á hugtakinu viðskiptavild,  er huglægt mat á því hvort fyrirtækið hafi skapað sér einhverja sérstöðu á viðkomandi markaði, umfram það sem eðlilegt geti talist; sem gefi því tekjur umfram það sem eðlilegt flæðimat tekna sýni. Til viðskiptavildar geta t. d. talist langtíma sölusamningar eða samningar um afslætti hjá birgjum, sem staðfest er að færist yfir til nýs eiganda, lág húsaleiga (lægri en markaðsleiga) samkvæmt langtímaleigusamning, sem og markaðsleg yfirburðastaða vegna þróunar góðrar vöru eða viðskptasambanda. Fleiri slíkir þættir geta komið til, sem hafa áhrif á rekstur og rekstrarafgang.

Eins og hér hefur verið sýnt fram á, er það í fyllsta máta óheiðarlegt og beinlínis rangt, að skrá viðskiptavild í efnahagsreikning fyrirtækis. Í efnahagsreikning eiga eingöngu að vera eignir sem eru varanleg verðmæti, en eins og segir í fréttinni er - Viðskiptavild óefnisleg afgangsstærð. Eðli málsins samkvæmt getur hún því ekki átt heima í efnahagsreikning fyrirtækja, sé eðlilega að verki staðið.

Að skrá viðskiptavild í efnahagsreikning fyrirtækis er því beinlínis ásetningur um að sýna ranga mynd af eignastöðu fyrirtækis. Væntanlega oftast til að skapa tiltrú eða hærra verð á hlutabréfum þess.

Hvorutveggja er óheiðarleiki og svindl.              


mbl.is Afskriftir upp á hundruð milljarða kr.
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað gera þeir við fólkið úr höfuðstöðvunum??

Í frétt Mbl. kemur fram að einungis 75 manns vinni í öllum útibúum SPRON, en 175 manns vinni í höfuðstöðvunum.

Þegar sameining/yfirtaka verður að veruleika renna höfuðstöðvar SPRON inn í höfuðstöðvar Kaupþings. Varla verður þörf fyrir allt þetta fólk til Kaupþings, þó verkefni SPRON færist þangað yfir. Væri það svo, væri kúfurinn af hagræðingunni fokin út í buskann.

En tölurnar um starfsmannafjöldann vöktu athygli mína. Þegar ég var í hagdeild banka (fyrir rúmum 20 árum) vorum við í "höfuðstöðvunum" mikið færri en fólkið í þjónustudeildunum (útibúunum). Við vorum tæpur helmingur af fjölda fólksins í útibúunum.

Nú er þetta greinilega orðið breytt. Samkvæmt tölunum sem Mbl. gefur upp, er útibúafólkið hjá SPRON innan við 50% af fjölda starfsfólks í höfuðstöðvum. Varla getur þetta verið æskileg þróun með tilliti til vaxtalækkunar?      


mbl.is Segir rangt farið með um uppsagnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er ævinlega ótryggt að "kaupa" af þeim sem ekki er eigandi

Þetta á nú ekki að koma Níels á óvart, svo reyndur útgerðarmaður sem hann er; búinn að gera út á leigukvóta í mörg ár, eftir því sem ég best veit.

Hann á hins vegar endurkröfurétt á seljandann, ef sá hefur verið að selja eitthvað sem ekki er raunveruleg verðmæti, og voru ekki á hans forræði.              


mbl.is Vandræði í útgerð vegna lána
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeir eru greinilega fyrst og fremst á höttum eftir athygli fjölmiðla

Það virðist enginn skýr málstaður vera hjá þessu flökkuliði; einungis að skapa hættu og óþægindi. Meðan það dugar til að koma þeim í umfjöllun fjölmiðla, sitjum við líklega uppi með þessar uppákokmur.            
mbl.is Mótmæli við Grundartanga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mun Evran og EB bjarga efnahag okkar??????????

Ég velti fyrir mér hvað valdi því að flest helstu samtök vinnumarkaðarins kalli eftir aðild að Evrópusambandinu og að við skiptum út krónunni okkar í staðin fyrir Evru. Er hugsanlegt að glámskyggni á þessa þætti sé svipað og á aðdraganda þeirrar kreppu sem nú er að þrengja að okkur?

Flestir sem LÆSIR eru á raunverulega verðmætamyndun í viðskiptaheiminum voru, í meira en áratug, búnir að fylgjast með þessari kreppu þokast að viðskiptalífinu, hægt en markvisst.  Margir voru búnir að vara við þessari þróun, en þeir voru sagðir af gamla skólanum. Nú væru komnir nýir tímar, með nýjum hagfræðikenningum. Útþennsla og vöxtur hagkerfa yrði í gegnum aukna þjónustu og ferðamensku.  Gamla hugsunin um að stækka hagkerfið með því að auka tekjur þjóðfélagins, var sagt úrelt og ætti ekki lengur við.

Eins og endranær, hefur minnimáttarkennd okkar orðið til þess að við höfum stillt okkur upp í fremstu víglínu þeirra sem mestan óraunveruleika framkvæma. Við verðum helst alltaf að eiga metið, jafnvel í vitleysunum. Þess vegna eru við, sem fyrir rúmu ári síðan töldum okkur með ríkustu þjóðum heims, nú að horfast í augu við efnahagslegt afturhvarf sem líklega  mun nema 30 til 40 árum, samhliða miklu skuldabasli. 

Á þessum tíma höfum við rekið frá okkur fjölda hugmynda sem hefðu geta aukið gjaldeyristekjur okkar verulega. Ef vel hefði verið á spilum haldið, værum við líklega með framleiðslu á vörum sem hefðu stöðuga eftirspurn, því þær hefðu annars vegar tengst frumþörfum mannsins en hins vegar grundvallarþáttum nýsköpunar og framþróunar. 

Í stað þeirrar framþróunar, veðjum við enn einu sinni á afurð sem af ýmsum ástæðum er með sérstaklega valt veraldargengi. Samdráttur verður í notkun áls, bæði vegna almenns samdráttar í efnahag vesturlanda, sem t. d. mun valda gjaldþrotum margra flugfélaga. Þannig mun eftirspurn eftir flugvélum dragast verulega saman. Þá mun þurfa að farga miklum fjölda flugvéla sem þegar hafa verið smíðaðar, með því að bræða þær upp aftur og nota það ál í aðrar nýsmíðar. Auk þess mun innan skamms tíma koma í magnframleiðslu efni sem er léttara og sterkara en ál, sem mun víkja álinu verulega til hliðar. Við þessar aðstæður, sem og aðrar sem utan á þetta prjónast, mun verð á áli líklega lækka verulega á komandi árum; sem aftur mun þýða fyrir okkur verulega lækkun raforkuverðs eða lokun álbræðslna. Allt stefnir því í enn eitt tekjuhrunið hjá þessari þjóð.

Af álíka þekkingarleysi sem því að menn sáu ekki kreppuskýið hvolfast yfir veröld sýndarmennskunnar, telja menn nú öll okkar vandamál leysast með því að taka upp Evru í stað krónunnar okkar. Slíkt er mjög mikill skortur á skilning á eðli viðskiptamyntar. Krónan veldur engum verðbreytingum á sjálfri sér. Það er þeir sem nota krónuna til að skapa sér aðstöðu, sem valda verðbreytingunum. Þess vegna verða menn að byrja á því að sýna að þeir geti rekið þjóðfélagið innan jafnvægis á verðmæti krónunnar. Ef þeir geta það ekki, geta þeir ekki heldur rekið þjóðfélagið með mynt sem þeir geta ekki breytt verðgildi á. Dæmið er í raun ekki flóknara en það.

Ásóknin í aðild að Evrópusambandinu er einnig óskiljanleg; nema lesa eigi úr henni uppgjöf á því að reka hér fjárhagslega sjálfstætt þjóðfélag. Ásókn í aðild að EB hefur yfirleitt komið frá fátækum ríkjum, sem þarfnast styrkja. Getur verið að hópur stjórnmálamanna og ráðamenn atvinnu- og viðskiptalífs okkar, sjái enga leið til að reka hér blómlegt og fjárhagslega sjálfstætt þjóðfélag? Eru þeir að reyna að komast hjá því að viðurkenna vanmátt sinn, með því að telja þjóðina á að ganga aftur undir ok stjórnþjóðar?

Margt bendir til að tæknilega séð, sé EB líklega gjaldþrota. Mörg ár munu vera síðan þeir gátu ekki lengur lagt fram endurskoðuð ársruppgjör, vegna þess að endurskoðendur treystu sér ekki til að skrifa upp á uppgjörið. Þetta fellur að þeirri mynd sem við blasir. Fyrir meira en áratug var farið að tala um fjárhagsvanda þessara samtaka. Síðan þá hefur fjöldi aðildarríkja nánast tvöfaldast og öll viðbótarríkin verið fátæk ríki sem þurft hafa mun hærri styrki en þau hafa greitt í aðildargjöld. Og þau ríki sem eru í biðsal aðildar, eru einnig í þörf fyrir framlög.

Innan sjóndeildarhrings EB er eitt ríki sem gæti fært þeim smáupphæð í skuldahýtina; auk þess að hafa yfir að ráða dýrmætum auðlindum til lands og sjávar, sem EB hefur mikla þörf fyrir. Þetta ríki er Ísland. Vegna þessara verðmæta Íslands fyrir EB, hafa þeir um langa hríð kostað heilaþvott á nokkrum hópi ungra bláeygra sakleysingja, sem dreymir um að vera með í hópi stóru strákanna (stóru þjóðanna), þar sem þau ráða ráðum sínum um landfræðilega samskiptahætti þar sem lönd þeirra liggja saman.

Ísland er eyja; fámenn eins og þorp eða bæjarhverfi í Evrópu. Öll okkar hagsmunamál lúta að því hvernig við nýtum auðlindir okkar, okkur til framfæris. Og hvernig við lifum hér áfram í samfélagi sáttar og friðsemdar. Vopnaskak, ættflokkaerjur, flokkun fólks í tignarþætti, auk baráttu gegn spilingar og hryðjuverkahópum, ætti að geta verið fjarlægt okkar samfélagi. Við höfum öll þau viðskiptasambönd við EB sem við höfum þörf fyrir og þjóðina skortir í raun EKKERT frá Evrópusambandinu.

Í hvað er sótt?  Jú, nokkur hópur grunnhygginna bláeygra sakleysingja, með kóniska minnimáttarkennd, mæna með glampa í augum til þeirrar ímynduðu velsældar að fá að sitja við fundarborð og taka þátt í kokteilboðum og ráðstefnum með stóru strákunum í Evrópu. Í hillingum ímyndaðrar upphefðar, líta þeir það léttvægt þó áratuga erfiði forfeðra þeirra við að losa þjóð okkar úr fjötrum og ánauðar stórþjóðar, verði kastað fyrir róða. Þeir fengu að sitja við borðið þar sem teknar voru ákvarðanir um samskiptahætti samliggjandi þjóða á fastalandi Evrópu. Íslenskir sérhagsmunir verða þar sjaldan ræddir. Þjóðin er svo lítil að hennar málefni verða yfirleitt rædd í pakkaafgreiðslum jaðarþjóðflokka.

Skildi Jón Sigurðsson ekki skammast sín fyrir þessa afkomendur samferðamanna sinna?                                  


Gera ekki greinarmun á eign eða veltu

Það er sorglegt þegar blaðamenn hafa ekki vit á hvað þeir eru að segja. Það er nú þegar vitað, að skuldir Íslendinga erlendis eru yfir 5000 milljarða. Af þeirri ástæðu er hæpið að tala um BEINA EIGN Íslendinga erlendis.

Hið rétta væri að fjármunavelta Íslendinga á eignamarkaði erlendis væri 1.732 milljarðar, sem þýddi þá að skuldir Íslendinga erlendis, umfram eignamyndun, væru vel á fjórða þúsund milljarðar.

Af fréttum undangenginna ára hefur verið augljóst að meginhluti svokallaðrar útrásar Íslendinga hefur verið framkvæmd með skuldsetningu, ef frá er talin fjárfesting lífeyrissjóðanna.

Það er dapurlegt ef einn virtasti og vandaðasti fjölmiðill landsins hefur ekki á að skipa fólki með raunverulega þekkingu á fjármálum, en byggir fréttaflutning sinn á villandi og röngum upplýsingum.

Við þurfum ekki fleiri villuljós í Íslensku efnahagslífi.                      


mbl.is Ein og hálf landsframleiðsla í erlendum eignum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vanda þarf andóf svo vel takist

Ég hef fullan skilning á baráttu og markmiði Ásmundar, en bendi á að þetta hefur verið reynt áður og menn hlotið dóm fyrir. Á ég þar við svonefnt Vatneyrarmál.

Ég hef ítrekað bent á að erfitt er að vinna máli framgöngu með því að gerast sjálfur brotlegur gegn gildandi lögum. Hitt er annað, að möguleiki er í einstöku tilfellum, að skapa sér ákveðna varnarstöðu gegn óréttlátum lögum og stjórnvaldsaðgerðum. Slíkt þarf að gera áður en gripið er til aðgerða gegn sjálfum lögunum.

Ásmundur hafði allar forsendur til að skpa sér þá varnarstöðu sem ég vísa til. Hann mun hafa verið sjómaður í áratugi og skip hans hafði haft kvóta. Þegar hann keypti bátinn Júlíönu Guðrúnu, þurfti hann einungis (formsins vegna) að sækja um kvóta, til að fyrir lægi að hann vildi fá úthlutað aflaheimild. Fiskistofa hefði, eins og venjulega, hafnað þeirri umsókn og þá höfnun hefði Ásmundur þurft að kæra til sjávarútvegsráðherra; sem vafalaust hefði líka hafnað.

Eftir höfnun ráðherra, hefði Ásmundur þurft að rita sjávarútvegsráðherra bréf, þar sem hann rökstyddi rétt sinn til sjósóknar, sem hefði verið aðalatvinna hans í áratugi. Í því bréfi hefði hann gefið ráðherra svigrúm, segjum 2 - 4 vikur, til að staðfesta heimild hans til sjósóknar á umræddum bát, með ákveðnum mörkum um útgerðarhætti, s. s. að hann væri einn á bátnum eða að einungis væri með honum maður / menn sem hefðu haft sjósókn að lífsstarfi eða um ákveðinn árafjölda. Taka hefði þurft fram, að ef engar heimildir yrðu veittar innan tiltekinna tímamarka, mættu stjórnvöld búast við  að hann neytti sér neyðarrétt sinn til ástundunar lífsstarfs síns, og mundi fara að róa til fiskjar á bátnum sínum, þó honum hefði ekki verið úthlutað aflaheimildum.  Afrit af bréfi þessu hefði hann þurft að senda forsetum Alþingis og sjávarútvegsnefnd þess, til upplýsingar um stöðu mála.

Með þessari forvinnu, og síðan einfaldi tilkynningu til sjávarútvegsráðherra um dagsetningu þess er hann byrjaði sjósókn, hefði hann hafi fullan varnarstyrk af því áliti Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna sem nú er iðulega vísað til.

Ég óttast mjög, að mál Ásmundar fari sömu leið fyrir dómstólum og Vatneyrarmálið, vegna framangreinds skorts á forvinnu; þó ég viti að sjálfsögðu ekki nákvæmlega hvernig forvinnu þessara mótmælaaðgerða var háttað. En í huga mínum og hjarta styð ég viðleitni Ásmundar til að knésetja það óréttlæti sem í kvótakerfinu er framkvæmt.                         


mbl.is Bátur á ólöglegum veiðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auglýsa þeir opið starfssvæði fyrir glæpamenn???

Af fregnum þess að Landspítali geti ekki greitt rekstrarkostnað sinn vegna fjárskorts, samhliða opinberun þess að einungis 7 vaktteymi (14 lögreglumenn) séu á vakt á öllu höfuðborgarsvæðinu, er afar augljóst að stjórnvöld hafa hvorki áhuga fyrir að vernda líkamlega heilsu fólksins eða að forða því frá innbrotum, ofbeldi eða slysum.

Það siðferði stjórnmálamanna sem birtist í framangreindum atriðum er af svo lágu plani að í siðvitund þeirra virðist ekki örla fyrir raunhæfum vilja til að vernda heilsu, líf og heimili þeirra sem borga þeim launin. Það virðist ekki skorta peninga þegar stjórnmálamenn vilja kaupa sér aðgang að  sýndarmennsku samtryggingar sérhagsmuna, eða ausa fé í hreinan óþarfa. Í þeim potti eru margir þættir en líklega er fjárausturinn í að kaupa sér atkvæði að setu í Öryggisráðinu ein af vitlausustu fjárfestingu fram til þessa.

Meðan hundruðum, ef ekki þúsundum, milljóna er varið til að fá að sitja við  borð Öryggisráðsins í tvö ár, höfum við svo litla þekkingu á hernaðarmálum að á því sviði erum við algjörir óvitar. Þá er siðferðisvitund okkar og vitund um viðurkennd mannréttindi Sameinuðu þjóðanna, á það lágu stigi þekkingar að við erum stöðugt að fá staðfestingar á að hvorki dómstólar okkar eða stjórnvöld, hafa sama skilning á mannréttindum og viðurkennd eru af eftirlitsstofnunum Sameinuðu þjóðanna, þ. e. Mannréttindadómstólnum og Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna.

Það virðist orðið augljóst að núverandi stjórnmálamenn okkar hafa hvorki vilja né getu til að sporna við því niðurbroti siðrænna gilda sem hér hefur viðgegnist undanfarin ár. Ég sé því ekki aðra leið en að fólkið í landinu rísi upp og krefjist skýrra viðhorfsbreytinga og aðgerða.

Ég mundi vilja sjá fjöldaáskorun höfuðborgarbúa þess efnis að á meðan siðferði og framkoma er á svo lágu plani sem raun er, skuli miða við að fjöldi útistarfandi lögreglumanna verði sem svarar einum manni á hverja þúsund íbúa; sem gæti þýtt u. þ. b. 50 lögreglumenn á vakt, m. v. 8 tíma vaktir.

Einnig ætti að gera kröfu til þess að allt það fé sem lögreglan innheimtir vegna umferðarlagabrota, fari til reksturs umferðaeftirlits og forvarna.

Hættum að liggja veinandi undan því þegar fólkið sem er að vinna fyrir okkur, og við borgum launin fyrir, sparkar í okkur og treður á okkur, vegna eigin metnaðar eða flokkshollustu. Rísum upp og búum til það þjóðfélag sem okkur líður vel að lifa í.                 


mbl.is 14 lögreglumenn á vakt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband