Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

Þarf að loka gjaldeyrismarkaðnum ???????????

Staðan í gjaldeyrismálum er orðin svo alvarleg að Seðlabankinn hlýtur að íhuga það alvarlega að loka gjaldeyrismarkaði og láta fara fram opinbera rannsókn á notkun gjaldeyris undanfarna mánuði.

Sé þessi mikla lækkun krónunnar nauðsynleg, er ljóst að stjórnendum fjármálastofnana okkar hafa sýnt meiri óvitaskap en ég hafði ímyndað mér. Hafi þeir skipulagt svona miklar endurgreiðslur gjaldeyrislána, á sama tíma og þeim var vel ljós gjaldeyrissköpun í þjóðfélaginu, mundi ég segja að um glæpsamlega háttsemi væri að ræða.

Sé litið á veltu á gjadleyrismarkaði, út frá þeim erlendu skuldum sem skráðar eru hjá Seðlabanka, virðist augljóst að einhverjir eru að fara ógætilega með fjöregg þjóðarinnar. Seðlabankinn getur skoðað þetta og upplýst hverjir standa fyrir þessari niðurkeyrslu krónunnar; og ég tel að í ljósi aðstæðna eigi hann ekki að bíða lengur með HARÐAR aðgerðir gegn þessum aðilum.

Fjárhagslegir hagsmunir þjóðfélagsins eru ekki leikföng fyrir ábyrgðarlausa fjárhættuspilara eða græðgisfíkla.                     


mbl.is Krónan veiktist um 5,3%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snyrtilegur biðleikur

Þetta er afar snyrtilegur biðleikur. Það hefði verið óheppilegt að setja þann aðila í stöðuna núna, sem fyrir nokkru var trúlega búið að planta í þessa stöðu. Það hefði orðið of augljóst af hverju pressa var sett á að losna við Jóhann. 

Kannski er fólk búið að gleyma umdeilanlegum aðferðum við prestráðningu þarna fyrir fáum árum.  Svo vildi til að presturinn sem ráðinn var, á konu sem var sýslumaður á Ísafirði. Eitt þeirra vandkvæða sem þurfti að leysa, vegna ráðningar prestsins, voru þau að ekkert embætti var laust, á suðurnesjum, fyrir konu prestsins. Því varð að setja hana í einskonar geymslu sem vararíkislögreglustjóra.

Jóhann var í embætti sem hentaði konunni, auk þess sem hann (Jóhann) var ekki í réttum pólitískum lit. Leikrit var því samið í skyndi og sett í gang atburðarás sem leiða mundi til þess að Jóhann segði af sér starfi. Við það skapaðist pláss fyrir konu prestsins, auk þess sem embættið yrði í réttum lit.

Mjög snjöll atburðarás. Lokaþáttur verksins verður trúlega opinberaður í desember.      

 


mbl.is Settur lögreglustjóri á Suðurnesjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ekki vilji til að jafna ágreining ???

Líkt og margir aðrir hef ég lauslega fylgst með þeim átökum sem skekja Frjálslynda flokkinn. Ekki verður sagt að þessi átök gleðji mig, því mér fannst málefnaskrá flokksins áhugaverð.

Einhvern veginn virðist mér stríðandi öfl hafa sett hagsmuni þjóðarinnar í aukahlutverk en í aðalhlutverki sé baráttan, annars vegar um völd, en hins vegar um að völdum sé dreift sem jafnast um kjördæmin.

Dreifing áhrifastaðna um kjördæmi þingmanna er ekki nýtt áhugamál, og alls ekki fundið upp eða þróað af kjósendum Frjálslynda flokksins. Krafan um dreifingu áhrifastaðna hefur lengi verið til staðar, hjá öllum flokkum, þó þeim tilfellum fækki blessunarlega, þar sem slík átök verða. Líklega hafa forystumenn flokkanna þegar lært að jafnræði og dreifing valda sé grundvöllur friðar.

Því miður hefur mér fundist að slík hugsun hafi vikið nokkuð til hliðar í Frjálslynda flokknum. Nokkuð hefur borið á því að fyrrverandi þingflokksformaður (KHG) hafi fyrst og fremst túlkað sína persónulegu skoðun, en lítið fjallað um skoðun þingflokksins. Merki ég þetta af augljósri óánægju annarra þingmanna með talsmáta og skrif KHG, þar sem hann tjáir sig sem formaður þingflokksins, án þess að reifa álit eða samstöðu þess flokks.

Ef einlægur vilji til samstarfs hefði verið til staðar hjá KHG, hefði verið auðvelt fyrir hann að sjá ranglætið sem fólst í því að bæði formaður flokksins og formaður þingflokks eru úr sama kjördæmi, en hinir tveir þingmennirinir úr sitt hvoru kjördæminu.

Ef Frálslyndi flokkurinn á að geta náð vopnum sínum og orðið þjóðinni til gagns, tel ég að stríðandi fylkingar verði að slíðra vopn sín og setjast yfir málefni þjóðfélagsins. Þeir sem ekki treysta sér til að leggjast á þær árar, á grundvelli málefnaskrár flokksins, ættu að finna sér annan vígvöll til niðurrífandi persónuátaka.      


mbl.is „Guðjón Arnar lét undan hótunum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrun frjálshyggjunnar

Er ég virkilega einn um að finnast það athyglisvert að núverandi og fyrrverandi formenn Sjálfstæðisflokksins, einir helstu boðberar frjálshyggjunnar, skuli nú standa sólahringsvaktir við að bjarga máttarstoðum þjóðfélagsins út úr hruni þess dásemdakerfis sem þeir hafa keyrt svo einarðlega yfir þjóðina á undanförnum áratug.

Það væri fróðlegt að heyra útlistanir þeirra á því hvað varð af goðærinu og hinni björtu framtíðarsýn, sem þeir boðuðu fyrir svo stuttu síðan.               


mbl.is Óttast keðjuverkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hve dýr verður Hannes allur ????

Hvað skildi þjóðin eiga eftir að fá margar sneiðar af ævintýraverkunum sem Hannes Smárason afrekaði?

Það liggur einhvern veginn í loftinu að hann hafi notað Glitni á umdeilanlegan hátt við fjármögnun ævintýraverka sinna. Eignasafn Jóns Ásgeirs virðist ekki hafa dugað til að viðhalda lausafjárstöðu bankans.

Mér finnst athyglisverð sú ábyrgð sem forráðamenn Glitnis sína, að fara ekki út í einhverjar vafasamar feluaðgerðir, heldur ganga beint til verks til tryggingar framtíðarhag bankans og viðskiptamanna hans.

Mér finnst líklegt að Landsbankinn muni leita svipaðra úrræða á fyrri hluta næsta árs. Ég hef hins vegar á tilfinningunni að Kaupþing muni ekki lenda í þröngri lausafjárstöðu, en óttast að þeir lendi í Dómínóferli árið 2011, sem þeir ráða ekki við.

Því fyrr sem þjóðin sættir sig við hið óhjákvæmilega; að framundan er samdráttur og sparnaður, þeim mun léttari og markvissari verða aðgerðir til að stýra fram hjá mestu erfiðleikunum.             


mbl.is Ríkið eignast 75% í Glitni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Setur offramboð á peningum heimilin á hausinn?

Þessi undarlega yfirskrift er á einskonar fréttaskýringu á bls. 4, í blaðinu 24 stundir í dag, laugardainn 27. sept. Það er í raun verulega ámælivert þegar víðlesið dagblað, sem jafnframt birtist á netinu, setur fram jafn mikið rugl og fram kemur í þessum umræddu skrifum.

Skrifin bera með sér fullkomna vanþekkingu á því efni sem til umfjöllunar er. Þannig segir í fyrsta lið þessara skrifa:

Verðbólga er það þegar verð á hlutum hækkar á ákveðnu tímabili. Hún verður vegna þess að peningum í umferð fjölgar hraðar en vörunum sem hægt er að kaupa fyrir þá.

Verðbólga er að nokkru leiti hliðstæð við yfirdrátt á heimilisreikningnum. Yfirdrátturinn verður til vegna þess að eytt hefur verið meiri fjármunum en til voru. Þegar bankinn krefst greiðslunnar eru engir peningar til. Sá sem á að greiða yfirdráttinn reynir því hvað hann getur til að afla peninga til greiðslunnar og til þess vinnur hann jafnvel fyrir þó nokkuð lægra kaup en eðlilegt gæti talist.

Sama munstrið er hvati verðbólgunnar. Þegar notkun okkar á gjaldeyri verður meiri en gjaldeyristekjurnar, þurfum við með einhverjum ráðum að fá keyptan gjaldeyri til að greiða innflutninginn. Seljendur gjaldeyris vita af þessari brýnu þörf, og segjast því vilja fá fleiri krónur fyrir mynt sína en eðlilegt gæti talist.

Til þess að brúa það bil sem þannig myndast, reyna innflytjendur að selja vörurnar fyrir fleiri ísl. krónur, til að fá örugglega fyrir kostnaðinum af innflutningnum.

Undanfarinn áratug höfum við geta tekið erlend lán til að greiða þennan innflutning, þannig að ekki hefur borið á þessum eiginleikum umframeyðslunnar fyrr en nú, þegar ekki er meira lánsfé í boði.

Einnig segir í fyrsta lið hinna umræddu fréttaskýringar: leturbr. G.J.

Seðlabanki Íslands ákveður stýrivexti en þeir stjórna öðrum vöxtum.  

Þetta er ekki rétt. Í landinu er fullt frelsi ALLRA LÁNASTOFNANA til ákvörunar vaxta. Seðlabankinn ákvarðar einungis vexti af sínum eigin lánum til lánastofnana, en þau lán eru afar takmörkuð samanber lög um bankann. Svokallaðir stýrivextir hétu áður REFSIVEXTIR, því þegar lánastofnanir voru farnar að þurfa lánveitingar frá Seðlabanka, væru þær orðnar með hættulega mikil útlán miðað við eigið fé og lauasfé. Stýrirvexti þykir greinilega þægilegra að tala um.

Í 10. grein laga um Seðlabanka segir svo um vaxtaákvarðanir bankans: leturbreyting G.J.

Seðlabanki Íslands ákveður vexti af innlánum við bankann, af lánum sem hann veitir og af verðbréfum sem hann gefur út. 

Af þessu má sjá að það er ekki Seðlabankinn sem ákvarðar útlánavexti lánastofnana í landinu, því lán lánastofnana frá Seðlabanka er óverulegt hlutfall þess heildarfjár sem þessar stofnanir eru með í útlánum.

Af því sem hér hefur verið ritað má sjá að hin umrædda fréttaskýring á bls. 4 í 24 stundum, í dag, byggir í meginatriðum á rangfærslum, sem líklega stafa af þekkingarskorti. Mælst er til að blaðið dragi þessi skrif til baka og biðjist velvirðingar á, með fyrirheitum um að slíkt endurtaki sig ekki.     


Sorglegt skilningsleysi á hugtakinu "verðtrygging"

Á þessu hausti eru liðin 28 ár síðan ég setti fram mína fyrstu gagnrýni á svokallaða "verðtryggingu lánsfjár". Margir hafa reynt að hrekja röksemdir mínar, en enginn enn geta lagt fram trúverðuga niðurstöður sem hrekja það sem ég hef sett fram. 

Á árinu 1988 var á vegum Alþingis leitað til danskra sérfræðinga, með það að markmiði að hrekja endanlega óvægnar árásir mínar á Alþingi, vegna ólögmætrar mismununar sem hin svokallaða "verðtrygging lánsfjár" olli. Svo neyðarlega vildi til, að niðurstöður þessara dönsku sérfræðinga voru nákvæmlega þær sömu og ég hafði alla tíð haldið fram. Línurit mín og þeirra falla algjörlega saman og sína sama ferlið.

Þrátt fyrir þetta, hafa Alþingismenn ekki enn haft kjark til að leiðrétta það ranglæti sem felst í svokallarði "verðtryggingu". Slíkt er í raun afar sorglegt, því auðvelt er að færa gild rök fyrir því, að einmitt vegna þessarar svokölluðu "verðtryggingar", hefur Íslenska þjóðin misst af tækifæri til almennrar velsældar, sem fólst í greiðara flæði fjármagns milli landa, sem hófst á síðari hluta síðustu aldar. Eldmóður uppbyggingar tekjuskapandi atvinnuvega var drepinn niður með vitlausum aðferðum við stjórnun fjármála þjóðfélagsins. Afleiðingarnar þekkjum við af hruni útflutningsatvinnuvega og óviðráðanlegum kjörum atvinnulífs sem einstaklinga, á því lánsfé sem nauðsynlegt var til eðlilegrar starfsemi.

Nú á þessu ári hafa skapast alveg sérstakar aðstæður til að bera saman aðstæður á lánsfjármarkaði, hér heima og svo í þeim vestrænu löndum sem við berum okkur aðallega saman við. Bensín- og olíuverð hefur víðast hvar hækkað, og einnig hafa orðið umtalsverðar hækkanir á mötvöru afar víða. leitið upplýsinga um hvað þessar verðhækkanir hafa hækkað mikið höfuðstól lána þeirra sem þar skulda og berið það saman við það sem hefur verið að gerast hér. Ég á ekki von á að þið finnið mörg lönd þar sem verðbreytingar á vöru eða þjónustu hækki sjálfkrafa höfuðstól lána þeirra sem skulda.

Hver skildi ástæðan vera?

Svo virðist sem vestrænar þjóðir, að okkur einum undanskildum, geri sér grein fyrir því að verðmæti gjaldmiðils þjóðarinnar felst í magni erlends fjármagns sem til þjóðarinnar streymir sem eign (ekki sem lánsfé). Þennan grunnþátt er auðvelt að færa niður á plan fjölskyldu, og segja að þau verðmæti aukast sem fjölskyldan getur skipa með sér, eftir því sem tekjur aukast, sem inn á heimilið koma.

Ein af æðstu skyldum stjórnvalds (ríkisstjórnar) er að gæta þess að eðlilegt jafnvægi sé á milli umsvifa í þjóðfélaginu (viðskipta- og atvinnulífs) og þess fjármagns sem  er í umferð.

Stjórnarskrárbundin skylda hvílir á Alþingi að gjaldmiðill þjóðarinnar hafi sama verðgildi hjá öllum sem nota hann innanlands, og Alþingi er í raun óheimilt að fá öðrum í hendur vald eða heimild til að ákvarða breytingu á gengi gjaldmiðilsins, í viðskiptum manna í milli innan þjóðfélagsins. Þess vegna eru lög um verðtryggingu alvarlegt brot á grundvallarreglu stjórnskipunar okkar.

Sameinumst um að krefjast leiðréttingar, líkt og gert var 1983.         

 

 


mbl.is Skuldin hækkar hraðar en eignin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tíndu Sjálfstæðismenn siðferðisvitundinni ?????

Stutt er síðan við mældumst með afar litla spillingu í opinberri stjórnsýslu og líklega munum við enn um sinn mælast með góða siðferðisvitund og afar litla spillingu í stjórnsýslu okkur.

Flestir sem komnir eru á miðjan aldur, muna væntanlega þá siðferðisvitund sem einkenndi Sjálfstæðisflokkinn fyrir 20 árum eða svo, þegar Albert Guðmundsson var knúinn til að segja af sér embætti fjármálaráherra, vegna þess að endurskoðandi hans gerði frekar klaufaleg mistök í framtali hans. Enginn skaði hlaust af þessum mistökum og þau uppgötvuðust áður en álagning fór fram.

Þá hafði Sjálfstæðisflokkurinn það sterka siðferðisvitund að forystumönnum hans fannst ekki annað koma til greina en Albert segði af sér ráðherradómi, þar sem hann bæri fulla ábyrgð á mistökum endurskoðandans.

Ætla mætti að siðferðisvitund Sjálfstæðisflokksins hefði horfið á braut við kynslóðaskiptinguna sem varð skömmu eftir framangreinda atburði.

"Skítt með kerfið" auglýsti síminn og hikaði ekki við að brjóta fánalögin í auglýsingu sinni.

Formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherrann, á að gæta virðingar þjóðfánans. Hann sá ekki ástæðu til að amast við þessari niðurlægingu fánans. Hver skildi ástæða þess vera?

Gæti verið að ástæðan væri sú að Sjálfstæðismönnum sé orðið sama um álit þjóðarinnar? Eru þeir orðnir svo vanir því að komast upp með hvað sem er, að þeir reikni ekki einu sinni með eðlilegum viðbrögðum frá þjóðinni?

Gæti dulið slagorð þeirra verið - "Skítt með þjóðina", hún kýs okkur hvort sem er          


mbl.is Flótti úr lögreglu Suðurnesja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Já, um hvað snýst sigur Eggerts

Það er ánægjuleg niðurstaða sem Hæstiréttur birti í dag, er sýknudómur var loksins kveðinn upp í ákærumáli á hendur Eggert Haukdal.

Eðlilega spyrja margir um hvað þetta mál snúist. Upphaf þess var fyrir 10 árum og flestir búnir að gleyma hvernig þetta birjaði; auk þess sem fjölmiðlaumfjöllun var yfirleitt frekar æsingakennd og neikvæð fyrir Eggert.

Eins og oft vill verða, eru það nokkrar samverkandi ástæður sem valda svona aðförum. Eggert, sem hafði verið þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Ákvað að ganga til liðs við Frjálslinda flokkinn og ætlaði að fara í framboð fyrir hann. Á sama tíma er sonur eins bóndans í sveitinni að læra viðskiptafræði og kemur auga á að bókhald sveitarfélagsins er ekki í sem bestu lagi. Við ábendingum um að endurskoðandi sveitarfélagsins hafi ekki unnið bókhaldið sem skildi, ákveður sveitarstjórnin SAMHLJÓÐA, að leita til KPMG endurskoðunar um endurskoðun á uppgjöri endurskoðanda sveitarfélagsins. Beiðni þessa lagði Eggert fram, sem þáverandi oddviti.

Endurskoðandi KPMG, tók að sér verkið og samdi reifarakennda skýrslu, þar sem hann tók sér vald dómara til að ákvarða að nokkrar skuldir sveitarfélagsins væru persónulegar skuldir Eggerts. Nokkrum árum síðar, viðurkenndi þessi endurskoðandi loksins bréflega til saksóknara, að hann hefði ekki litið í fylgiskjalamöppur sveitarfélagsins, við vinnslu málsins, því þau fyrlgiskjöl sem hann byggði aðallega á í fjárdráttarþætti málsins, væru ekki til í fylgiskjölum ársins.

Skýrsla endurskoðandans var send til Ríksilögreglustjóra til rannsóknar. Þar var búin til önnur skýrsla, án þess að líta á bókhald eða fylgiskjöl. Í kjölfar þeirrar skýrslu var gefin út ákæra í þremur liðum. Tveir þeirra voru slegnir út af borðinu í fyrstu umferð um dómskerfið, enda byggðir á þvílíkri steypu að stappar rugli næst.

Sá lögfræðingur sem Eggert fékk fyrst til að vinna fyrir sig, ætlaði að láta dæma alla þessa þrjá ákæruliði sem játningarmál. Þ. e. að Eggert játaði sig sekan um öll þessi atriði. Sem betur fór var hægt að stöðva það.

Frá árinu 2001 hefur baráttan staðið um eina leiðréttingarfærslu sem endurskoðandi sveitarfélagsins færði í bókhaldið, tveimur árum eftir að ársreikningur þess árs hafði verið gefinn út og afgreiddur. Endurskoðandinn hafði engin fylgiskjöl til að bera uppi þessa færslu, en skrökvaði því hjá Ríkislögreglustjóra að Eggert hefði beðið sig að færa þessa færslu.

Aðalvitni ákæruvaldsins í þessari ákæru gagnvart Eggert, voru þessi óvandvirki og óheiðarlegi endurskoðandi sveitarfélagsins og endurskoðandi KPMG, sem samdi upphaflegu ruglskýrsluna um bókhald sveitarfélagsins, án þess að líta á bókhaldið eða fylgiskjölin.

Það sérkennilega við allt þetta mál er, að þeir sem valdir eru að saknæmu atferli í þessu máli, eru þessi tvö aðalvitni ákæruvaldsins, endurskoðandi sveitarfélagsins og endurksoðandi KPMG. Þeim mistökum vildi ákæruvaldið aldrei kingja.

Það er sorglegt að svo lítil bókhaldsleg þekking skuli vera í dómskerfi okkar, sem komið hefur í ljós í þessu máli. Öll þau atriði sem lesa má um í þessum dómi Hæstaréttar, voru lögð fram í fyrstu umferð máslins árið 2001. Spurningin er hvort dómarar hafi ekki skilið það sem fyrir þá var lagt, eða hvort sannleikurinn fékk loks að koma fram í dómsniðurstöðu þegar dómarar voru fengnir utan réttarins.

Þeirri spurningu verður trúlega aldrei svarað með neinni vissu.                    


mbl.is Eggert: Ánægður og þakklátur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn einn óvitaskapur stjórnenda bankanna

Líklega verður maður að sætta sig við það, að við kynslóðaskipti í bankakerfinu hafi sest í hásætin fólk sem hafði prófskírteini til að mega kalla sig "sérfræðinga" þó það virðist vera öreigar hvað þekkingu varðar.

Í það minnsta er það svo um þann "sérfræðing" sem leggur grunninn í þessa frétt. Þekking hans á málefninu sem hann fjallar um virðist fyrir neðan fátæktarmörk, ef rétt er eftir honum haft.

Í fréttinni segir:  Heimilin eru vel búin undir niðursveiflu....  Skuldir heimilanna hafa aukist mikið á síðustu árum en sem betur fer er sömu sögu að segja af eignum heimilanna.

Líklega er flestum ljóst, öðrum en "sérfræðingum" að fólk eykur ekki skuldir sínar til að greiða þær til baka með eignum sínum; hvað þá með eignum annarra.  Trygg atvinna og tryggar launagreiðslur, á því tímabili sem skuldir eru að greiðast upp, eru máttarstólparnir undir góðri stöðu heimila sem skulda. Slík hugsun virðist ekki vera ofarlega í vitund "sérfræðinga" á greiningarsviði banka, eftir þessu að dæma; nú þegar mjög þrengir að atvinnulífi og tekjum skuldsettustu kynslóðanna.

Í fréttinni segir áfram:  Í þjóðhagsspá Greiningar Glitnis kemur fram að eignir heimilanna hafi í lok síðasta árs numið 5.300 milljörðum króna og höfðu aukist um 32% á einu ári. ????????? Síðan þá hefur hlutabréfavísitala fallið um 37% og húsnæðisverð frekar lækkað en að það fylgi verðbólgu.

Og áfram segir í fréttinni:  Þessi mikla eignaaukning hefur fyrst og fremst verið knúin af mikilli eignaverðshækkun en húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um að meðaltali 20% á ári á tímabilinu 2004-2007 á meðan hlutabréfaverð hefur hækkað um 34% að meðaltali á sama tímabili.

Hvað má lesa út úr þessu? Þeir segja að eignir höfðu aukist um 32% á einu ári. Allir sem skulda vita að skuld lækkar ekki um 32% á einu ári. Til að þessi mismunun verði milli eigna og skulda á einu ári, þarf að koma til hjálp frá "sérfræðingum" við að búa til innihaldslausa eignauakning.

Til að geta aukið útlán sín, fóru bankarnir árið 2004, í að búa til eignaaukningu með því, án ytri forsendna, að búa til hækkun á söluverði fasteigna og hækkun lánshlutfalls, með leikfléttum sem ekki verða raktar hér. Þessar leikfléttur sköpuðu þeim þó aukin útlán, sem einmitt var markmiðið.

Ef við tökum nú saman þessa furðufrétt greiningadeildar Glitnis, kemur eftirfarandi út.

1:  ...húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um að meðaltali 20% á ári á tímabilinu 2004-2007. Þetta er ekki rétt. Á þessum árum var ég að fylgjast vel með verðum íbúða, því ég var að skipta um húsnæði, og veit þess vegna að verð hækkaði ekki um rúm 60% á þremur árum.

2:  ....hlutabréfaverð hefur hækkað um 34% að meðaltali á sama tímabili. Þetta er athyglisvert. Ef þessi 34% meðaltalshækkun á ári, árin 2004 - 2007 væri rétt, hefði hlutabréfavísitalan verið í mínustölu í upphafi ársins 2004, vegna þess að þrisvar sinnum 34%, eru 102% + margfeldniþáttur.  Að auki er þess ekki getið að hlutabréfavísitalan hefur fallið úr rúmum 9000 stigum niður í 3857 sig, þannig að engin raunaukning hefur orðið í verðmætum hlutabréfa.

Greiningadeild Glitnis fær einkunina -9,8 fyrir þessa þjóðhagsspá.         


mbl.is Staða heimilanna afar góð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband