Bloggfærslur mánaðarins, október 2010

Bréf til Steingríms fjármálaráðherra

Hr. Fjármálaráðherra,
Steingrímur J. Sigfússon.

Reykjavík 12. október

Heill og sæll Steingrímur.
Ekki fer það framhjá mér, frekar en öðrum, hve draga þarf saman veltuna í þjóðfélaginu, eftir að lokaðist fyrir erlend lán til að fjármagna neysluna. Ég sé samt ekki betur en að sérfræðingum ráðuneytisins hafi sést yfir afar áhrifaríka leið til að draga úr veltu þjóðfélagsins, þ. e. útgjöldum almennings, fyrirtækja og ríkisins, með einni og sömu aðgerðinni.

Felst sú aðgerð í því að fella með öllu niður innheimtu virðisaukaskatts út um allt þjóðfélagið, en taka þess í stað einungis upp lágt gjald á innflutning.  Þetta er ekki sagt út í loftið, því þetta var kannað á árinu 1995, þegar unnin var skýrsla á vegum fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna í Reykjavík, um svarta atvinnustarfsemi og gerviverktöku.

Í ljós kom að ríkissjóður er sjálfur afar stór greiðandi virðisaukaskatts. Bæði er hann afar stór vinnuveitandi, auk þess sem hann greiðir virðisaukaskatt af marskonar rekstrarkostnaði í sínum fasta rekstri.  Þar fyrir utan sýnir raunveruleikinn að ríkissjóður hefur sjálfur verið aðal fjármögnunaraðili flestra stórframkvæmda, annað hvort beint eða í gegnum félög og stofnanir í B hluta ríkisreiknings.

Í sambandi við gerð framangreindrar skýrslu, var gerð úttekt á ríkisreikningum fyrir árin 1991 og 1992, en það voru þá síðustu ríkisreikningar sem voru tiltækir. Niðurstöðurnar voru síðan bornar undir embætti skattstjórans í Reykjavík, Ríkisskattstjóra og Ríkisendurskoðunar, með beiðni um ábendingar um villur. Engin slík ábending barst, en við munnlega beiðni til Ríkisendurskoðunar um sundurliðun inn- og útskatts í ríkisreikningum, var beðist undan að fá slíka beiðni skriflega, því þeir liðir væru ekki færðir sérstaklega í bókhaldi ríkisins. Vakti það nokkra furðu, þar sem landslög kveða á um slíka skráningu.

Eins og meðfylgjandi gögn sýna, var árið 1991, nettó innheimtur virðisaukaskattur af vöruinnflutningi samtals kr. 24.189.100.000. Ekki var kannað hvernig þessi upphæð skiptist milli neysluvara annars vegar og hins vegar fjárfestinga.

Virðisaukaskattur innheimtur samkvæmt skýrslum í öllum rekstrargreinum þjóðfélagsins skilaði brúttó kr. 17.664.616.000. Að frádregnum endurgreiðslum, eins og þær voru tilgreindar í ríkisreikning og upptaldar í meðfylgjandi samantekt, reyndist nettó innheimta virðisaukaskatts, samkvæmt skýrslum, vera kr. 14.736.137.000.

Þar sem ekki var hægt að fá uppgefna veltufjárhæð inn- og útskatts í rekstri ríkisins, var farin sú leið að grandskoða útgjöld hvers ráðuneytis fyrir sig og greina útgjöld hvers eftir launum, gjöld án VSK, gjöld með VSK og síðan reiknaður virðisaukaskattur af þeirri upphæð.

Eins og meðfylgjandi samantekt sýnir, reyndust virðisaukaskattskyld rekstrargjöld ríkissjóðs árið 1991, vera hjá A hluta kr. 76.279.974.000, hjá B hluta kr. 28.788.500.000, eða samtals kr. 105.068.474.000. Virðisaukaskattur af þessari upphæð reynist ver kr. 20.677.475.683.

Eins og að framan sagði, var nettó innheimta með skýrslum kr. 14.736.137.000.

Virðisaukaskattur í rekstrargjöldum ríkissjóðs reyndist  kr.        20.677.475.683.

VSK fjármagnaður af ríkissjóði, umfram innh. skv. skýrslum kr. 5.941.929.083


 Þegar þessar staðreyndir eru skoðaðar, virðist augljóst að skattkerfi eins og virðisaukaskattur, innheimtur út um allt þjóðfélagið, sé ekki til þess fallinn að skila ríkissjóði nettó tekjum.  Virðisaukaskattur af vöruinnflutningi virðist greiða hallarekstur þessa kerfis, og rýra þannig tekjur ríkissjóðs af gjaldstofni virðisaukaskatts af innflutningi.

Á árinu 1992 er ekki alveg jafn mikill halli á  innheimtu virðisaukaskatts samkvæmt skýrslum, en halli samt. Lausleg athugun fleiri ára virðist benda til svipaðar niðurstöðu. Einnig má líta til þess að umtalsverð aukning útgjalda ríkissjóðs undanfarin áratug, virðist einnig benda til að greiðslur ríkissjóðs á virðisaukaskatti, umfram innheimtu samkvæmt skýrslum, hafi heldur aukist.

Ef farin væri sú leið að hætta innheimtu virðisaukaskatts út um allt þjóðfélagið, myndi það koma út sem niðurfærsla verðlags á neyslu- og rekstrarvörum heimila og fyrirtækja. Þetta yrði afar gagnleg staða gagnvart væntanlegum kjarasamningum, þar sem brottfall virðisaukaskatts úr neyslu- og rekstrarvörum heimila, kæmi út sem kaupmáttaraukning. Þessi aðgerð myndi einnig lækka rekstrarútgjöld ríkissjóðs, og gæti orið til þess að auka skatttekjur, þar sem aðgerðin virkaði jákvætt á rekstrarumhverfi fyrirtækja.

Margir fleiri jákvæðir þættir tengjast svona aðgerð. Með henni væri t. d. tekinn burtu helsti hvati að svarti atvinnustarfsemi og ásókn í sviksamlegt atferli, til að ná út endurgreiðslu frá ríkissjóði í formi innskatts.

Vegna þröngrar stöðu okkar í erfiðum samdrætti, vil ég vekja athygli þína á þessum möguleika,  sem mér sýnist geta dekkað þann hallarekstur sem tiltekin er í fjárlagafrumvarpinu.
Með kveðju,
Guðbjörn Jónsson
f.v. ráðgjafi



Það er einungis ein leið fær út úr skuldavandanum.

Í litlu-kreppunni, eins og ég kalla kreppuna sem varð á árabilinu 1985 til 1993, þróaði ég aðferð til að takast á við skuldavanda heimila, þar sem skuldir urðu verulega umfram eignamörk og greiðslugetu.

Aðferð þessi er í sjálfu sér einföld, og hefðu stjórnvöld fallist á að fara þá leið, strax við hrun, væri meira en ár síðan allur skuldavandi heimila hefði verið leystur varanlega og uppbygging þjóðfélagsins hafin.

Það sem undrar mig mest, er að á þeim árum sem ég var að leysa úr skudlavanda heimilanna, var Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra, og vissi vel af þeim harða slag sem ég stóð í við lánastofnanir og lögfræðinga. Hvað veldur því að hún vilji ekki nú, nýta þá reynslu og þekkingu sem ég bý yfir, getur ekki annað en vakið spurningar um raunverulegan áhuga hennar til lausnar vandanum.

Það hefur alltaf legið fyrir hver vandinn er, hvaðan hann er kominn og hverjir bera meginþunga ábyrgðar á þeim ósköpum sem yfir dundu.  Á sama hátt hefur alltaf verið ljóst að engin samstaða mundi nást um alsherjar niðurfellingu einhvers hluta allra lána, því það eru ekki öll lán sem valda vandanum.

Í grófum dráttum má segja að íbúðalán frá Íbúðalánasjóði og sjóðsfélagalán lífeyrissjóðanna, séu þau lán sem fullkomlega eiga að vera undanskilin niðurfellingum. Ástæðan er sú að þessi lán eru öll tryggð með traustum veðum, innan söluverðs fasteignanna sem þau hvíla á.

Í grófum dráttum mætti segja að undanskilja ætti niðurfellingu eða breytingum framangreind lán, upp að 70% verðgildi viðkomandi fasteignar.  Lán sem væru á veðbilinu 70 - 110% raunvirðis fasteignar, ætti að setja í biðflokk, meðan náð væri utan um heildarpakkann.

Lán sem væru fyrir utan framangreind veðmörk, hefðu engar aðrar rauntryggingar og væru þar að auki fyrir utan greiðslugetu fjölskyldunnar, væru þegar felld niður og afskrifuð formlega.

Lán sem væru á veðbilinu 70 -110% yrðu síðan endurskipulögð innan greiðslugetu og staðan tekin til endurskoðunar að 5 árum liðnum. Lán sem væru utan raunhæfra veðtrygginga, en innan eðlilegrar greiðslugetu fjölskyldunnar, yrðu endurskipulögð og afborganir stilltar af móti tekjustreymi. Stæðist skuldari slíkt greiðsluplan í 5 ár, yrðu eftirstöðvar lánanna felld niður of afskrifaðar á formlegan og lögfullnægjandi hátt. Eins konar óformlegir nauðasamningar.

Samhliða þessu yrði ráðist í breytingar á útreikningum verðtryggingar, þannig að útreikningurinn væri í samræmi við upphafleg áform, að einungis greiðslur afborgana yrðu verðbættar, en verðbætur ekki lagðar ofan á höfuðstól, áður en afborgun væri reiknuð. Sú aðferð hefur aldrei verið lögleg og því alla tíð verið ólöglegt rán, með skipulegum hætti. (Sjá hér á síðunni í fyrri færslum)

Samhliða ætti einnig að setja á Alþingi lög til verndar heimilum manna. Í lögum þessum ætti að vera ákvæði um að óheimilt væri að setja heimil fólks að veði fyrir öðru fjármagni en því sem beinlínis væri til byggingar, öflunar, eða meiriháttar viðgerða heimilisins.  Einnig væri óheimilt að gera fjárnám í heimilim fólks, fyrir öðrum lánum en þeim er beinlínis voru til öfunar heimilisins.

Einnig ætti á sama tíma að setja lög þar sem lánsviðskiptum yrðu takmörk sett, þannig að seljandi gæti aldrei tekið annað, sem veð eða tryggingu fyrir eftirstöðvum söluverðs, en það sem selt var í lánsviðskiptunum.

Að lokum ætti svo að leysa úr niðurskurðarvanda ríkissjóðs, með því að fella með öllu niður innheimtu virðisaukaskatts, með skýrslum út um allt þjóðfélag. Ríkssjóður hefur engar nettótekjur út úr þeirri innheimtu. 

Slíkt myndi færa verðlag niður um samsvarandi hlutfall, auk þess að afnám virðisaukaskatts mundi auka ráðstöfunartekjur heimilanna og leysa úr yfirvofandi vanda vegna kjarasamninga.

Þetta er bara lítið brot af því sem mér sýnist þurfa að gera strax í þessu þjóðfélagið, svo þjóðin geti aftur farið að brosa mót framtíðinni.                


mbl.is Hagsmunasamtökin dregin á asnaeyrunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athyglisverð lokun fyrir raunveruleikanum

Þann 1. sept. 2009 ritaði ég eftirfarandi pistil vegna kaupa Magma á hlut Orkuveitunnar í HS-orku.  Mér hefur sýnst að sami háttur hafi verið hafður á við þau kaup sem nú eru gagnrýnd.

Greinilega virðist Eva Joly hafa séð sömu glæfraverkin og ég. Dugar það til að glæfraverk Magma og Geisir Green verði tekin til opinberrar rannsóknar?  Eða, ætla menn bara að bíða rólegir þar til Magma verður búið að selja eignarhlutina og fer eignalaust í gjaldþrot, með óinnheimtanlegar skuldir við Orkuveituna og aðra þá er seldu þeim HS-orku?

Pistillinn 1. sept. 2009 var eftirfarandi:          

 Ég skal strax viðurkenna að ég hef ekki lesið samning OR við Magma Energy, en af fréttum að dæma virðast OR menn ekki vaða í viti og fyrirhyggju. Ég get því tekið undir þær aðvaranir sem Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra hefur látið falla um þá vitleysu sem þarna virðist á ferðinni.

Athyglisvert er, að lánið sem OR veitir Magma, vegna 70% kaupverðs, er sagt vera í USA dollurum, þrátt fyrir að þeir fjármálasérfræðingar sem spáðu, fyrir nokkrum árum, hruni íslensku bankanna, spá því nú að Bandaríkin muni innan fárra ára lenda í miklum skuldavanda og USA dollarinn muni hrynja meira en 50% í verðgildi. Lánið hefði verið tryggara, annað hvort í Ísl. krónum eða í Kanadadollar.

Svo ganga menn aftur í þá grifju að einu tryggingar skuldarinnar sé í fyrirtækinu sjálfu. Ferlið verður því flótlega hið sama og hjá útrásarvíkingunum, að þetta fyrirtæki (Magma Energy) mun, á næsta eða þarnæsta ári, selja öðru fyrirtæki í eigu sömu aðila, megnið af eignum Magma, ásamt orkuréttindum, og skilja Magma Energy eftir eignalítið en yfirskuldsett, þannig að í því verði engin trygging fyrir skuldinni við OR.

Niðurstaðan verður því sú, að um svipað leiti og þjóðin þarf að fara að greiða af IscSave skuldunum, mun OR þurfa að afskrifa skuldina við Magma Energy vegna sölunnar á hlutnum í HS-orku, þar sem Magma verði eignalaust.

Eignarhluturinn í HS-orku, ásamt orkuréttindum, verður hins vegar orðin eign annars fyrirtækis, sem tekið hafði þessar eignir upp í tilbúnar skuldir Magma við þetta nýja hlutafélag. Við munum því ekki eiga neina möguleika á að ná eignarhaldi aftur á þessum orkuréttindum, eða eignarhlutnum í HS-orku.

Hve mikið skildum við eiga af samningsaulum hér á Íslandi ???

Skildu þeir allir hafa verið teknir í þjónustu opinberra aðila ????? 

                     

                       


mbl.is GGE vísar ummælum Joly á bug
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brosleg fordæming

Af þessari frétt um fordæmingu UngBest, sést glögglega hve þetta unga fólk er langt úti í ævintýrum sýndarveruleikns. Raunveruleiki þjóðlífsins og samfélagsins er enn utan sjóndeildarhrings. En þau hafa greinilega kjark og sá kjarkur getur skilað þeim þekkingu, þegar fram líða stundir.                     
mbl.is Jón Gnarr fagnar fordæmingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flatur niðurskurður er refsing án sektar

Mikilvægt er að missa ekki sjónar á hvað varð þess valdandi að bankarnir hrundu og lánin hækkuðu.

Bankarnir hrundu vegna ábyrgðarlausrar útlánastarfsemi þeirra sjálfra.

Íbúðalánasjóður er hins vegar, í flestum tilvikum, fyrsta fjármögnunarleið íbúðarkaupa og með tryggingar í fyrstu veðréttum hverrar eignar. Vextir af íbúðalánum eru einnig þeir lægstu á innlendum markaði. Helsta neikvæða hlið lána frá Íbúðalánasjóði er hin ranga útfærsla verðtryggingar. Með leiðréttingu hennar eru lán Íbúðalánasjóðs, bestu kjör á okkar landi, til fjármögnunar kaupa á eigin íbúð.

Sjóðsfélagalán Lífeyrissjóðanna eru, að flestu leiti, af sama toga og lán Íbúðalánasjóðs. Þau eru því ekki hluti af hruninu, eða hinu óábyrga hátterni sem olli hruninu.

Þegar við sklijum þessa tvo lánaflokka frá, erum við komin að þeim flokkum sem bera áhættulánin. Þar er um að ræða aðrar fjárfestingar en til varanlegs heimilis fjölskyldunnar. Þar er um að ræða fjárfestingar vegna drauma, væntinga eða fíknar í meiri völd eða áhrif. Þessi lán eru yfirleitt mun verr tryggð og báru í sér, frá upphafi, mun meiri áhættu en Íbúðasjóðslánin.

Þessa lánaflokka þarf að skoða hratt og gaumgæfilega og flokka þau niður í afskriftaflokka. Leiðrétta þarf höfuðstól allra lána, til þeirrar stöðu sem var fyrir hrun. Öll Íslensk lán með gengistryggingu, verði miðuð við upphaflegan höfuðstól útgefins skuldabréfs. 

Samhliða þessu þarf að byggja upp raunhæfa mynd af afkomugrundvelli viðkomandi einstaklings, eða fjölskyldu. Finna þarf út, á raunhæfan máta, hver greiðslugeta viðkomandi er og muni líklega verða á komandi árum, miðað við eðlilegt ástand.

Að því fengnu verði útbúið greiðsluplan fyrir næstu 5 ár; greiðsluplan sem rúmast innan greiðslugetu viðkomandi. Standi viðkomandi við greiðsluplanið hinn umsamda tíma, verði eftirstöðvar annarra lána en þeirra sem stofnuð voru íbúðakaupa, felld niður og afskrifuð á lögformlegan og fullnægjandi hátt.

Með þessu móti mundi niðurfellingar, og þar með refsingin, lenda á þeim lánastofnunum sem mynnsta ábyrgð sýndu af sér í störfum sínum. Slíkt mun verða óvinsælt meðal lánastofnana, en ber auðsjáanlega í sér mestu réttlætiskenndina. Af þeirri ástæðu eru mestar líkur á að einhver slík leið gæti skapað þolanlegt friðarumhverfi, þannig að þjóðin geti farið að takast á við eðlilega uppbyggingu eftir hrunið.                      


mbl.is Flatur niðurskurður hjálpar ekki þeim verst stöddu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ógerningur annað en flokka lánin

Vegna reynslu minnar við að greiða úr skuldavanda heimila á árunum 1989 - 1993, tel ég augljóst að flokka verði skuldir fóks eftir tryggingum og greiðslugetu.  Ekki er stætt á því að gera sömu afskriftakröfur til lánsfjár á veðréttum innan 70% af markaðslegu söluvirði eigna, eins og gert væri til lána sem lánuð voru út gegn litlum eða egnum tryggingum, eða óljósri greiðslugetu lántaka.

Þetta eru grundvallarreglur heilbrigðrar skynsemi, sem aldrei verða umflúnar. Fólk getur eytt tímanum í að reyna aðrar leiðir, en augljóst er að þær þvingi ríkisstjórnin fram afskriftir á lánsfé innan framangreindra tryggingamarka söluverð veðandlags, mun ríkissjóður verða að bæta það tjón.

Ég á í fórum mínum mjög vandað skipulag yfir svona afskriftaferli, sem þróaðist á árunum 1989 - 1993 og skilaði góðum árangri og sanngjörnum niðurstöðum, sem bankarnir voru hættir að reyna að mótmæla. Strax eftir hrunið, bauð ég stjórnvöldum aðgang að þessum forsendum og gögnum, en fram til þessa hefur því ekki verið sýndur neinn áhugi.

Maður hefur ekki getað annað en hrist hausinn yfir því rugli og þekkingarleysi sem auðkennir hin fálmkenndu tilþrif stjónrvalda, sem fram til þessa hafa skapað meiri rugling en leiðarljós.

Ég segi bara eins og Geir: Guð blessi Ísland, á komandi árum.             


mbl.is Líst illa á almenna niðurfærslu skulda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sandkassaleikur

Sjálfstæðismenn í sandkassaleik. Þeir virðast ætla að þroskast seint.
mbl.is Ráðherra svari þingheimi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig er verðtryggingin vitlaust reiknuð?

Ýmsir hafa skorða á mig að gera betur grein fyrir því hvers vegna ég telji verðtryggingu lánsfjár rangt útreiknaða hjá lánastofnunum. Líklega er erfitt að skýra þessa þætti í ritmáli, þar sem ekki er hægt að sýna, nema í grófum dráttum, þær villur sem þarna eru á ferðinni. En ég ætla að reyna, og sjá til  hvað fólk nær að grípa af því sem hér verður sagt.

Verðtryggingu er fyrst komið á með svonefndum "Ólafslögum", sem var einskonar "bandormur", lagabálkur um ýmis efnahagsmál. Engin afgerandi ákvörðun var þar tekin um verðtryggingu, en sagt að "stefnt skildi að" verðtryggingu lánsfjár. Ein lítil lagagrein fjallaði um ætlaða framkvæmd verðtryggingar. Var þar sagt að  verðbæta skildi "greiðslu" lánsfjár. Var þar miðað við að afborganir lánsins hverju sinni, væru verðbættar, en það skýrist nánar hér á eftir.

Þegar verðtryggingahluti skuldabréfakerfis lánastofnana var forritaður, varð hins vegar meinleg villa í þeirri vinnu. Í stað þess að verbætur yrðu reiknaðar á hverja greiðslu afborgunar, kom reiknilíkanið þannig út að á heildarlánið voru reiknaðar verðbætur hvers mánaðar. Þetta hafði gífurlega villandi áhrif á marga þætti lánsins, svo sem vexti, verðbætur, heildarfjárhæð og endurgreiðslunnar.

Lítum á tvö dæmi, þar sem reiknað er út 10 milljóna kr. lán til 25 ára, með 5% vöxtum og jafnaðarveðbólgu á lánstímanum 12%.  Annars vegar eru greiðslur reiknaðar út samkvæmt reiknivél Landsbankans, fyrir svona lán, en hins vegar farið eftir reiknilíkani, byggðu á grundvallarþætti Ólafslaga um verðtryggingu. Lítum á dæmin.

Í reiknivél Landsbankans lítur dæmið svona út. Við fyrstu afborgun, mánuði eftir að lánið var tekið, er byrja á að reikna verðbætur á allt lánið, sem var 10 milljónir. Verðbæturnar reiknast 94.888. Heildarlánið, til útreiknings afborgana, verður því kr. 10.094.888. Afborgunin reiknast kr. 33.650. vextir reiknast kr. 42.062. Mánaðargreiðslan verður því kr. 75.712.

Önnur greiðsla lítur þannig út, að þegar þú hefur dregið afborgun fyrsta mánaðar frá uppreiknaða höfuðstólnum, 10.094.888 - 33.650 = verða eftirstöðvar kr. 10.061.238. Við þá upphæð bætist verðtrygging annars lánsmánaðar, þannig að heildareftirstöðvar verða 10.156.707. Verðbætur þessa mánaðar reiknast þá kr. 95.469. Afborgun reiknast kr. 33.969. Vextir reiknast kr. 42.320. Mánaðargreiðslan verður því kr. 76.289.

Lítum nú á það sem ég kalla "réttan" útreikning, í samræmi við það sem lagt var upp með í Ólafslögum.

Fyrsta greiðsla: Heildarlán kr. 10.000.000. Afborgun kr. 33.333. Verðbætur fyrsta mánaðar kr. 333. Vextir kr. 42.000. Mánaðargreiðsla kr. 75.666.

Eftirstöðvar láns kr. 9.966.667. Afborgun annars mánaðar eru kr. 33.333. Verðbætur annars mánaðar kr. 667. Vextir kr. 41.860. Mánaðargreiðsla kr. 75.860. Eftirstöðvar kr. 9.933.334.

Lítum nú á afborgun númer 100.

Í lánakerfi bankanna reiknast afborgun 100 með þessum hætti. heildareftirstöðvar lánsins, eftir uppreiknun verðbóta mánaðarins, eru kr. 17.227.611. Verðbætur reiknast kr. 161.933. Afborgun reiknast kr. 85.710. Vextir reiknast kr. 72.102. Mánaðargreiðsla samtals kr. 157.492.

Í reiknilíkani eftir Ólafslögum reiknast afborgun nr. 100 með þessum hætti. heildareftirstöðvar láns eru kr. 6.700.033. Afborgun er kr. 33.333. Verðbætur í 100 mánuði eru kr. 33.333. Vextir eru kr. 28.140. Mánaðargreiðsla samtals kr. 94.806.

Lítum þá á greiðslu nr. 200.

  Í lánakerfi bankanna reiknast afborgun 200 með þessum hætti. heildareftirstöðvar lánsins, eftir uppreiknun verðbóta mánaðarins, eru kr. 22.258.741. Verðbætur reiknast kr. 209.223. Afborgun reiknast kr. 220.384. Vextir reiknast kr. 92.745. Mánaðargreiðsla samtals kr. 313.129.

Í reiknilíkani eftir Ólafslögum reiknast afborgun nr. 200 með þessum hætti. heildareftirstöðvar láns eru kr.3.366.733. Afborgun er kr. 33.333. Verðbætur í 200 mánuði eru kr. 66.666. Vextir eru kr. 14.140. Mánaðargreiðsla samtals kr.114.139.

Lítum á á hvernig gjalddagi nr. 300 lítur út. Síðasti gjalddagi

Í lánakerfi bankanna reiknast afborgun 300 með þessum hætti. heildareftirstöðvar lánsins, eftir uppreiknun verðbóta mánaðarins, eru kr. 566.669. Verðbætur reiknast kr. 5.326. Afborgun reiknast kr. 566.669. Vextir reiknast kr. 2.361. Mánaðargreiðsla samtals kr. 569.030. 

Í reiknilíkani eftir Ólafslögum reiknast afborgun nr. 300 með þessum hætti. heildareftirstöðvar láns eru kr.33.433. Afborgun er kr. 33.433. Verðbætur í 300 mánuði eru kr. 100.299. Vextir eru kr. 140. Mánaðargreiðsla samtals kr.133.872.

Heildargreiðsla samkvæmt útreikningi lánakerfis lánastofnana, vegna þessa 10 milljóna króna láns, er kr. 77.459.307.  Þar af verðbætur kr. 46.740.234 og vextir kr. 20.719.073.

heildargreiðsla samkvæmt reiknilíkani eftir Ólafslögum er kr. 31.371.212. Þar af verðbætur kr. 15.050.150 og vextir kr. 6.321.063.

Eins og vonandi má sjá af þessum samanburði, skiptir það gríðarlegu máli þau mergfeldiáhrif sem það hefur að reikna verðtryggingu mánaðarlega inn í heildar höfuðstólinn. Það margfaldar bæði verðbætur og vexti, á þann hæátt sem engin rök ná yfir.

Vona að þetta skýri eitthvað það furðuverk sem verðbætur eru í lánakerfinu okkar.   


Ríkisstjórnin treystir sér ekki til að framkvæma réttlæti

Megin skuldavandinn er af tvennum toga. Annars vegar tvöföldunar á upphæð gengistryggðra lána, í krónum talið, vegna þess að bankarnir yfirkeyrðu greiðslugetuna með augljósum kjánaskap, þar sem ekki var gætt að greiðslugetu lántakenda ofurskuldanna. Öll þessi lán voru ólögmæt, en stjórnvöld hafa liðið bönkunum ýmiskonar óraunhæf undanskot undan eðlilegri leiðréttingu höfuðstóls hinna gengistryggðu lána.

Á hinn veginn hafa stjórnvöld, ekki bara þau sem nú eru við völd, heldur stjórnvöld undanfarinna tveggja áratuga, ekki treyst sér til að leiðrétta hinn ranga útreikning verðtryggingar lánsfjár. Mörgum sinnum er búið að senda inn í stjórnkerfið leiðbeiningar um, á hvern hátt verðbótaþáttur er vitlaust reiknaður á lánsfé. Alltaf hafa stjórnvöld stungið höfðinu í sandinn og neitað að horfa á raunveruleikann. Og svo virðist enn vera.

Árið 2000 tók ég húsnæðislán hjá Íbúðalánasjóði. Samhliða greiðslum afborgana, hef ég haldið skrá, í tölvunni minni, þar sem ég hef látið afborganir lánsins reiknast út, samkvæmt eðlilegri verðtryggingu. Eftirstöðvar lánsins telur Íbúðarlánasjóður nú vera að lokinni septemberafborgun, með verðbótum kr. 8.631.944. Afborgun, eins og íbúðalánasjóður reiknar hana fyrir september 2010, er kr. 39.468.

Ef lánið hefði verið reiknað eftir réttum forsendum verðtryggingar, hefði afborgun í september 2010 verið kr. 26.709, og eftirstöðvar lánsins verið kr. 2.808.277.

Eins og fólk getur séð af þessum mismun, er gífurlega miklar óraunhæfar uppsafnanir í verðtryggðu skuldunum. Þessa uppsöfnun hafa stjórnvöld aldrei haft kjark til að takast á við, og því sífellt verið haldið áfram að reikna verðbætur lána vitlaust, og afar óhagstætt fyrir skuldara.

Jafnframt hefur verið afar mikilvægt að koma fólki til að trúa því að ég sé rugludallur, sem ekkert mark sé takandi á. Það hefur tekist ágætlega hingað til, og skilað lánastofnunum og lífeyrissjóðum ágætis arðsemi.                    


mbl.is Niðurfærsla rædd í vikunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert breytist nema breyta lögum um bankastarfsemi

Meðal stjórnmálamanna virðist afsakaplega lítill skilningur á hvað þurfi að gera svo aðgerðir þeirra til hjálpar heimilunum verði að gagni.  Meðan ekki er breytt lögum um starfsemi lánastofnana, og þær skyldaðar til að gera þær aðgerðir sem lög um greiðsluaðlögun o.fl. fjalla um, halda þær bara áfram að kvelja hin skuldugu heimili, í von um að fá meiri greiðslur.

Einfallt mál er t. d. fyrir Alþingi að setja, með afbrigðum flýtimeðferðar, lög sem kveða á um að öllum lánastofnunum sé skylt að virða dóm Hæstaréttar um að gengisviðmið lána í íslenskum krónum, sé ólöglegt. Eigi það skilyrðislaust við um öll lán. Hafi upphæð lánsins verið tilgreind í íslenskum krónum og lánsfjárhæðin greidd út í íslenskum krónum, sé lánið íslenskt. Tilraun til innheimtu lána sem uppreiknuð hafa verið með gengisviðmiði, varði 100 milljóna króna sekt og starfsleyfissviptingu, verði um endurtekið tilfelli að ræða.

Það var ljóst strax í upphafi að lánastofnanir myndu ekki fara, ótilneyddar, að ákvæðum laga um greiðsluaðlögun. Ef þeir gerðu það, yrðu þeir að afskrifa þær fjárhæðir sem eru utan greiðslugetu skuldara.  Slíkar afskriftir myndu ganga nærri eiginfjárstöðu þeirra, því í bókhaldi sínu telja þeir sér trú um að þeir hafi tryggingar fyrir þessum lánum.

Líklega eru lánastofnanir að presssa fram aukin skattafríðindi og tímabundnar lækkanir á lágmarks eiginfjárstöðu, án þess beinlínis að óska eftir því. Þeir munu koma með einhverjar slíkar óskir, verði reynt að semja við þá um að framkvæma lög um greiðsluaðlögun.                       


mbl.is Skuldavandinn ræddur á Alþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 40
  • Sl. sólarhring: 43
  • Sl. viku: 49
  • Frá upphafi: 164783

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband