Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2010

Nokkuð brött greining hjá Bjaarna

Ég verð að segja að mér finnst greining Bjarna á stefnumálum Sjálfstæðisflokksins nokkrar athygli verð.  Ekki verður betur séð en hann sé að segja að öll helstu stefnumál flokksins s. l. 20 ár, eða svo (stjórnartíð Davíðs), hafi verið röng, illa útfærð og skort allt aðhald og eftirlit.

Ég sé ekki betur en hann sé að slengja blautri tusku framan í Davíð og Hannes Hólmstein, auk Heimdallar, Verslunarráðs, yfirstjórna LÍÚ og SA.

Það verður fróðlegt að fylgjast með framhaldi af þessum ummælum.                      


mbl.is Bjarni: Allt of hart gengið að Þorgerði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er valdboð mikilvægara mannlegum samskiptum?

Það er sérkennilegt að fylgjast með samskiptum heilbrigðisráðherra við forstjóra Sjúkratrygginga.  Svo virðist sem ráðherra hafi ekkert kynnt forstjóranum efni þeirrar reglugerðar sem hann átti að frmakvæma. Athyglisvert er að ekkert samráð skuli haft við fosrstjórann, um gerð reglugerðarinnar sem hann átti að framkvæma.

Annar þáttur er einnig athyglisverður, í ljósi þess að ráðherra virðist ekkert samráð hafa haft við forstjórann, um gerð reglugerðarinnar eða skilning hans á henni. Sá þáttur er að ráðherrann virðist ekki gera greinarmun á því að forstjóri leiti rétts skilnings á fjárhagslegri framkvæmd reglugerðarinnar, hjá æðsta yfirmanni eftirlits með fjárreiðum ríkisins, eða formlegri kvörtun eða kæru hans til Ríksiendurskoðanda.

Ég fer að hallast að því að blessuð konan hafi orðið reið og hlaupið á sig, gleymt að telja upp að tíu áður en hún rauk í aðgerðir.  Bréf hennar bendir einnig til fljótfærni.                         


mbl.is Bréf byggt á „misskilningi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hafa þeir eignarrétt á kvótanum?

Jóhann J. Ólafsson skrifar grein í Morgunblaðið þ. 18. mars 2010, undir heitinu "Kjarninn undir yfirborði kvótaumræðunnar".  Meginefni greinarinnar gengur út á að færa rök fyrir því að aflaheimildir séu varanleg eign núverandi handhafa þeirra og að breytingar þar frá geti kallað á miklar skaðabótakröfur á hendur ríkissjóði.

Til stuðnings áliti sínu vitnar hann til álita og greinaskrifa nokkurra fræðimanna. Þar á meðal til álitsgerðar Guðrúnar Gauksdóttur, lagaprófessors og blaðagreinar hennar um sama efni í afmælisriti Guðrúnar Erlendsdóttur, hæstaréttardómara.

Bæði þessi ritverk Guðrúnar Gauksdóttur, lagaprófessors eru vel rituð og góðar heimildir, svo langt sem þær ná. Á þeim er þó einn alvarlegur annmarki, líkt og er um skrif fleiri fræðimanna, sem hún vísar til. Annmarkinn er sá, að hvergi er vísað til lagaheimilda, eða annarra heimilda, um að þau skip og þær útgerðir sem nú hafa aflaheimildirnar, hafi með lögformlegum hætti fengið þær til framtíðar varðveislu eða eignar.

Rökstuðningur lagaprófessorsins byrjar frá þeim grunni að núverandi handhafar aflaheimilda, hafi varanlegan umráðrétt þeirrar hlutdeildar sem úthlutun þeirra byggir á. En fyrir þeirri staðhæfingu eru ekki færð nein rök.

Þó hlutverk fræðimannsins í opinberri umræðu sé einn af hornsteinum upplýstrar umræðu í lýðræðissamfélagi, getur það hlutverk einnig orðið einn erfiðasti myllusteinn sannleikans, sé fræðimaðurinn ekki fullkomlega sannur og heiðarlegur í þeim grunni sem hann byggir á.

Styrkur fræðimannsins liggur í faglegri nálgun og vísindalegri aðferðafræði en jafnframt ber honum skylda til að kryfja og rökstyðja þann grundvöll sem álit hans byggir á, svo enginn vafi leiki á að álitið sé byggt á fullkomlega löglegum og sönnum heimildum. Vilji hann deila niðurstöðum sínum með öðrum, eða leggja þær fram sem grundvöll til lýðræðislegrar umræðu, mun hann kynna niðurstöður sínar og leggja þær fram til skoðunar, umræðu og gagnrýni, líkt og þeir fræðimenn gerðu sem hér er vísað til.

Hvaða forsendur fræðimanna eru svo veikar að niðurstöður þeirra birta ekki hinn djúpa sannleika þess máls sem þeir fjalla um? Það eru þær forsendur sem lúta að lögformlegum yfirráðum yfir þeim auðlindum sem hér er fjallað um. Engin fræðimaður hefur enn lagt fram lagaforsemdur fyrir því að Alþingi hafi afsalað eignar- eða yfirráðarrétti þjóðarinnar, yfir auðlindum hafsins innan efnahagslögsögunnar, í hendur tiltekinna skipa eða útvegsmanna.

Í lögum um landhelgi og efnahagslögsögu Íslands, nr. 41/1979, segir svo í upphafi 4. gr.  (áhersluletur frá G. J.)

"4. gr. Innan efnahagslögsögunnar hefur Ísland:
a.    fullveldisrétt að því er varðar rannsóknir, hagnýtingu, verndun og stjórnun auðlinda, lífrænna og ólífrænna, á hafsbotni og í honum, í hafinu yfir honum svo og aðrar athafnir varðandi efnahagslega nýtingu og rannsóknir innan svæðisins, svo sem framleiðslu orku frá sjávarföllum, straumum og vindi,....."

Ótvírætt kemur þarna fram að Alþingi Íslands hefur á hendi allt vald varðandi hagnýtingu, verndun og stjórnun auðlinda, innan efnahagslögsögunnar og fer að öllu leiti með það vald, þar til það sjálft afsalar því til einhvers annars.

Alla jafnan má í 1. gr. laga, merkja grundvallartilgang lagabálksins. Þannig er og með 1. gr. laga um stjórnun fiskveiða í efnahagslögsögu Íslands. Þar segir eftirfarandi:    (Áhersluletur G. J.)

"1. gr. Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum."

Eins og sjá má þarna, staðfestir Alþingi í upphafi þessarar lagasetningar að nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar.  Ef ætlun Alþingis hefði verið að hleypa að einhverjum efasemdum um forræði nytjastofnanna, hefði þessi umrædda staðhæfing verið sett fram með öðrum hætti.

Meginmarkmið lagasetningar um fiskveiðistjórnun er sögð vera til að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu nytjastofnanna og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.  Færa má fram afar gild rök fyrir því að ekki hafi verið gætt sjónarmiða um hagkvæmni í veiðum, virðisaukningu þess afla sem dregin var úr sjó og atvinnusköpunar í dreifðum byggðum landsins,  sem greinilega eru meginmarkmið setningar laganna um stjórn fiskveiða.

Þörfin sem skapaðist til takmörkunar veiða í fiksveiðilögsögunni, var vegna minnkandi fiskgengdar á hefðbundnum veiðisvæðum okkar. Helstu vísbendingar sem sýnilegar voru, um að afkoma lífríkis nytjastofnanna ætti í vök að verjast, mátti greina á minnkandi holdarfari fisksins sem dregin var úr sjó, auk vaxandi tilfella þar sem fiskur var með selskít í maganum auk vaxandi hringormamyndunar. Allt benti til þess að æti vantaði fyrir fiskinn.

Var eitthvað í umgengni okkar við lífríki nytjastofna efnahagslögsögu okkar sem gæti verið ástæða, eða áhrifavaldur í þeim breytingum sem þarna voru greinilega að verða?  Þegar grant er skoðað má líklega sjá nokkur atriði, þar sem við höfðum neikvæð áhrif á lífríkið.

Við gengum það hart fram í síldveiðum að síldargöngur hurfu frá landinu. Þar fór ekki einungis síldin. Líklega fór hún vegna þess að ætið sem hún elti, fór aðrar gönguleiðir. Hugsanlega vegna skilyrða í hafinu, og/eða vegna sívaxandi áreitis frá síldveiðibátum og nótum þeirra.

Þegar síldin var farin, var aukin áhersla lögð á veiði loðnu. Hún var þekkt sem uppistaða í fæðu þorsksins og annarra nytjastofna. Þegar megnið af þeim stofni var veitt, á ári hverju, byrjaði fiskurinn líka fyrir alvöru að horast.

Síðan verða breytingar á útgerðarháttum okkar. Togurum fer hratt fjölgandi, auk þess sem þeir stækkuðu líka mikið. Veiðarfæri þeirra verða stærri og þyngri, auk þess sem flottrollið kemur til sögunnar. Í þessum nýju skipum voru líka öflugri fiskileitartæki, þannig að auðveldara varð að finna hinar fækkandi fiskitorfur og ná þeim í veiðafærin.

Á þessum tíma varð einnig umtalsverð breyting á samsetningu fiskiskipaflota okkar. Hefðbundnir vertíðarbátar, sem aðallega veiddu með kyrrstæðum veiðarfærum, voru rændir aflaheimildum sínum og þær fluttar yfir til togskipanna. Á ótrúlega fáum árum þurrkaðist nánast út skipastóll kyrrstæðra veiðarfæra, og meginhluti heildaraflans var nú tekinn með þungum og lífríkisskemmandi togveiðarfærum.

Á þessum tíma gerðu útvegsmenn engar kröfur til eignarréttar á aflaheimildunum. Þeir gerðu hins vegar háværar kröfur á hendur ríkissjóði, að standa betur að fiskirannsóknum, leggja meiri peninga og mannafla í rannsóknir, auk þess að eflt væri stórlega eftirlit með fiksikbátum grunnslóða, svo þeir væru ekki að svindla á kerfinu.

Þeir höfðu hins vegar  engan áhuga á að eftirlitið með togurnunum yrði eflt með því að auka mannafla og úthald Landhelgisgæslunnar, svo togarar sættu einnig ófyrirséðu og óvæntu eftirliti. Nei slíkt fannst þeim ekki við hæfi. Betra væri að þeir tækju bara eftirlitsmann um borð, sem fylgdist með veiðunum. Þannig kom eftirlitið þeim aldrei að óvörum.

Það er sama hvort skoðað er síðastliðið 25 ára tímabil fiskveiðistjórnunar, eða 25 ára tímbilið þar á undan, að meginþorri útvegsmanna og skipstjóra umgangast nytjastofna sjávar fyrst og fremst út frá sjónarmiði eiginhagsmuna, en ekki út frá hagsmunum þjóðarheildarinnar.

Hver fyrir sig, kepptist við að ná til sín sem mestu af því sem hægt var að ná. Veiðiaðferðir, eða þau heildarverðmæti sem hægt væri að skapa úr því sem drepið var og er, vék og víkur yfirleitt enn fyrir hagsmunum hvers skips, hverrar áhafnar, hverju sinni. Lítið er talað um hvert tap þjóðarbúsins sé af þessari græðgi, sem og af slæmri umgengni um nytjastofnana.

Í fæstum tilfellum fellur í líkan farveg, umgengni útvegsmanna og skipstjóra um varanlega eignir sínar og verðmæti í landi, miðað við vandvirkni þeirra við nýtingu og verðmætasköpun úr auðlindum nytjastofna sjávar. Ég vek athygli á að ég alhæfi ekki, því ég þekki til manna sem hafa glöggt auga fyrir snyrtimennsku í umgengni um nytjastofnana, þó þeir aðilar séu afar fáir af allri heildinni.

Þegar ítarlega er skoðað, má glöggt sjá að almenn umgengni útvegsmanna og skipstjóra um auðlind nytjastofna sjávar, hefur ekki verið með þeim hætti að þeir væru að umgangast sitt eigið forðabúr framtíðartekna. Fram til þessa hefur umgengnin einkennst af þeim hroka, að þeim sé heimilt að drepa allt sem á vegi þeirra verður, en nýta einungis verðmætustu bitana, hverju sinni. Öðru er hent, þar sem það passar ekki í pakkningar eða vinnslulínur, án tillits til þeirra gjaldeyristekna sem það gæti skapað, væri það flutt í land.

Á sama tíma og þessir blessuðu menn sýna af sér framangreinda hegðun, gera þeir háværar kröfur um að teljast eigendur aflaheimildanna. Eignarréttarskyldur gera þeir hins vegar engar gagnvart sjálfum sér, eða þjóðinni. Þeir ætla sér ekki að bera kostnaðinn af rannsóknum, eftirliti með lífríki eða veiðum á fiskimiðunum. Þeir hafa ekki enn opinberað á hvaða grundvelli þeir gera eignarréttarkröfur sínar, því hvergi er í lögum vikið að forræði þeirra yfir aflaheimildum úr auðlindinni.

Í ljósi alls þess ábyrgðarleysis sem útvegsmenn og skipstjórar hafa sýnt af sér, í umgengni við mikilvægustu nytjastofna þjóðar-auðlindarinnar, verður ekki betur séð en afar djúpstæð og mikilvæg varnaðarhyggja felist að baki þriðju málsgrein 1. gr. fiksveiðistjórnunarlaganna, þar sem segir svo: Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.  

Með því að undirstrika, með þeim hætti sem þarna er gert, eignarrétt og forræði þjóðarinnar yfir aflaheimildunum, er tekin af öll tvímæli um að úthlutun veiðiréttar er einungis nýtingaréttur, til eins árs í senn, án alls varanleika eða óbreytileika þess magns sem til úthlutunar verði.

Til undirstrikunar öllu þessu er svo afar skýrt ákvæði 40 gr. stjórarskrár, en þar segir svo:  (Áhersluletur G. J.) 

"Engan skatt má á leggja né breyta né af taka nema með lögum. Ekki má heldur taka lán, er skuldbindi ríkið, né selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt lagaheimild."

Í ljósi þess að nytjastofnar fiskveiðilögsögu okkar eru, með skynsamlegri nýtingu sjálfbær auðlind, sem stendur undir verulegum hluta gjaldeyristekna þjóðarinnar, verður ekki hjá því komist að líta á þessa auðlind sem varanlega fasteign landsins (þjóðarinnar), sem falli undir 40. gr. stjórnarskrár.

Af þessum ástæðum, sem og þeim að sjósókn og útgerð fiskiskips, flokkast undir almenna atvinnusköpun, sem þó er háð fjöldatakmörkunum, er alveg ljóst að einstök skip eða einstakir útvegsmenn geta ekki , án beinnar lagasetningar frá Alþingi, orðið FYRIRFRAM lögformlegir eigendur einhverrar tiltekinnar hlutdeildar í aflaheimildum þjóðar-auðlindarinnar. Engin slík lög hafa enn verið sett á Alþingi.

Þá er að síðustu rétt að líta til þess hvort ráðherra gæti hafa haft heimild til að gera samninga við útvegsmenn um að þeir ættu einhvern varanlegan forgangsrétt að úthlutun aflaheimilda. Slíkt hefur heyrst, þó það hafi aldrei verið staðfest með óyggjandi hætti.

Um slíkt er það að segja að útvegsmenn telja sig hafa forgangsrétt byggðan á ákvæðum fyrstu laganna um stjórn fiskveiða, sem samþykkt voru á 106. löggjafarþingi árið 1983.  EKKERT ákvæði er í fyrstu lögunum um bindingu aflaheimilda við skip sem gerð voru út á ákveðnu árabili. Fyrstu lögin sem takmörkuðu aðgang að nytjastofnum okkar, innnihéldu breytingar á 10. - 13. - 14. og 18. greinum laga nr. 81/1976 um stjórn veiða í fiskveiðilandhelgi Íslands.

Hins vegar var fylgiskjal með þessu fyrsta frumvarpi sem lagt var fram um fiksveiðistjórnun. Þar var tilgreind einskonar þjóðarsátt, sem náðst hafði milli hagsmunaaðila, á Fiskiþingi  árið 1983, um ýmsa mikilvægustu þætti fiskveiðistjórnunar.  Lítum hér á fyrstu 5  liði þess samkomulags sem þarna var gert, og var lagt til grundvallar lagasetningar um almenna fiskveiðistjórnun.

"Fylgiskjal
Á 42. Fiskiþingi 1983 var samþykkt gerð um stjórnun fiskveiða, sem fylgir hér með. Ef breyta á stjórnun fiskveiða í þá átt sem þar er lagt til er ljóst að breyta verður núgildandi lögum.
42. Fiskiþing samþykkir að stjórnun fiskveiða á árinu 1984 verði með eftirfarandi hætti:
1.  Við ákvörðun um hámarksafla einstakra fiskitegunda á árinu 1984 verði þess gætt, að fiskistofnarnir vaxi til aukinna veiðimöguleika í framtíðinni.
2.  Allar veiðar verði leyfisbundnar.
3.  Kvótaskipting verði á öllum aðalfiskitegundum á öll skip yfir 12 brúttórúmlestum, en sameiginlegur heildarkóti á skip undir 12 rúml og minni.
4.  Aflamagn síðustu þriggja ára verði lagt til grundvallar við skiptingu aflakvóta milli skipa.
Við úthlutun veiðikvóta til báta sem hafa sérstök leyfi til veiða skelfisktegunda, loðnu og síldar verði tekið tillit til heildaraflaverðmætis, miðað við samskonar skip á almennum fiskveiðum.
Öllum frávikum, sem gerir kvótaskiptingu óeðlilega fyrir einstök skip verði vísað til ráðgjafanefndar  sbr. 9. lið.
5. Úthlutun aflakvóta verði til eins árs í senn. Heimild verði gefin til þess að flytja úthlutaðan aflakvóta á milli skipa."    

Eins og sjá má af því sem þarna var sett á blað, voru menn vel meðvitaðir um að þó þau lög sem þarna var verið að setja, giltu einungis til ársloka 1984 og féllu þá úr gildi, yrðu áfram í gildi þær grundvallarreglur sem aðilar kæmu sér saman um. Því var orðavalið haft með þeim hætti að ártöl spiluðu þar engin hlutverk, samanber upphaf 4 liðar, þar sem segir að   Aflamagn síðustu þriggja ára verði lagt til grundvallar við skiptingu aflakvóta milli skipa.

Hér hefur verið sýnt fram á að í fyrstu lögunum um fiskveiðistjórnun var hvergi minnst á sérstaka réttarstöðu tiltekinna útgerða umfram aðrar. Fyrstu lögin giltu einungis til ársloka 1984 og féllu þá úr gildi. Sama er að segja um þau lög sem samþykkt voru vegna fiskveiðistjórnunar árið 1985. þar var hvergi vikið að sérréttindum einstakra útgerða eða skipa, sem gæti flokkast sem eignaígildi. Þessi lög giltu einungis til ársloka 1985 og féllu þá úr gildi.

Þá tóku við lög er giltu fyrir fiskveiðistjórnun áranna 1986 og 1987. Í þeim lögum var ekki heldur nein ákvæði sem gætu gefið einstökum útgerðum sérréttindi umfram aðrar sem veiðar höfðu stundað. Lög þessi giltu til ársloka 1987 og féllu þá úr gildi.

Tóku þá við lög um fiskveiðistjórnun fyrir árin 1988, 1989 og 1990. Í þeim lögum er ekki heldur nein ákvæði um sérréttindi tiltekinna útgerða. Þetta er rakið hér vegna lífseigrar sögu um að einungis skip sem stunduðu veiðar árin 1981 til 1983 ættu réttinn til úthlutunar aflaheilda, sem þannig flokkaðist sem varanleg hlutdeild þessara skipa í heildarkvótanum.  Þetta á ekki við nein rök að styðjast, eins og glöggt kemur fram í 6. gr. laga nr. 3/1988, um stjórn fiskveiðar 1988 - 1990. Þar segir aftirfarandi:

"Við úthlutun aflamarks skv. 5. gr. skal leggja til grundvallar úthlutun fyrir árið 1987 eins og hún var ákveðin samkvæmt reglugerð nr. 518 22. desember 1986, um stjórn botnfiskveiða 1987, þó með hlutfallslegum breytingum sem leiðir af breyttu heildaraflamarki milli ára, sbr. 2. gr., og að teknu tilliti til ákvæða 11. gr.
      Skip sem eigendaskipti urðu að á árinu 1986 eða 1987 eiga kost á botnfiskleyfi með aflamarki skv. 1. mgr. með þeirri takmörkun sem leiðir af 2. mgr. 14. gr."

Eins og þarna er sýnt fram á, var í ársbyrjun 1988 ekki um að ræða sérstakan eignarrétt þeirra skipa og útgerða sem stunduðu veiðar á árunum 1981 til 1983, á því aflamarki sem úthlutað var fyrir árið 1988. Þá var í gildi í lögum, að úthluta mætti NÝRRI AFLAHLUTDEILD til skipa sem skipt höfðu um eigendur á árunum 1986 og 1987, án þess að aflamark fylgdi þeim við söluna.

Hvaða takmörkun er það sem felst í 2. mgr. 14. gr.?  Þarna er verið að stíga fyrstu skrefin í að skilja aflaheimildirnar eftir hjá útgerðinni sem átti skipið, þó það sé selt til nýrra aðila. Eins og fram kemur í 2. mgr. 6. gr., hér að framan, geta þeir sem keyptu skip á árunum 1986 og 1987, án þess að aflamark fylgdi þeim, fengið úthlutað nýju aflamarki fyrir skipið. Annmarki 14. gr. var sá að slíkt aflamark gat ekki orðið hærra en meðaltal sama skipaflokks á sama svæði.

Var Alþingi þarna að opna fyrir mögulega verðmætaskráningu aflaheimilda, sem auka mundi eignavirði og söluvirði skipa? Hvað skyldu skýringar frumvarpsins, með einstökum lagagreinum, segja um það sem fram kemur í 2. mgr. 14. gr. Þar segir eftirfarandi:   (Áhersluletur G. J.)

"Í 2. mgr. þessarar greinar er lagt til að nýrri skipan verði komið á þegar eigendaskipti verða á skipi. Í gildandi lögum segir að við eigendaskipti á skipi skuli næsta ár á eftir úthluta skipinu botnfiskleyfi með sóknarmarki.  Í frumvarpi þessu er lagt til að seljendur og kaupendur geti komið sér saman um hvort og þá að hve miklu leyti veiðiheimildirnar fylgi fiskiskipinu. Þó er sú takmörkun hér gerð á að aldrei fylgir skipi hærra aflamark en sem nemur meðalaflamarki sambærilegra skipa í sama flokki og á sama veiðisvæði. Gert er ráð fyrir að samráðsnefnd meti þessi atriði. Telja verður þessa takmörkun eðlilega því ella er aflareynsla viðkomandi skips orðinn hluti af söluverðinu."   

Þarna koma athyglisverðir þættir fram, sem eru í beinni þversögn við það sem útvegsmenn og handbendi þeirra halda fram. Þeir hafa haldið því fram að einungis þær útgerðir sem gerðu út skip á árunum 1981 til 1983 ættu rétt á úthlutun aflamarks. Þarna sést að slík var raunin ekki því: Í gildandi lögum segir að við eigendaskipti á skipi skuli næsta ár á eftir úthluta skipinu botnfiskleyfi með sóknarmarki.

Þarna sést að þegar t. d. útgerðaraðili selur skip, sem hann átti og gerði út á árunum 1981 til 1983, til aðila sem ekkert skip átti á þessum árum, fær skipið rétt til að ávinna sér aflareynslu hjá hinum nýja eiganda, án þess að vera háð velvilja eða verðlagningu einhverra "meintra eigenda" aflamarksins.

Þá sést einnig á framangreindri umsögn um 2. mgr. 14. gr., að á þessum tíma hafi sjávarútvegsráðuneytinu verið mjög andsnúin sú hugsun að aflakvóti eða aflamark reiknaðist til verðgildisauka fyrir skip eða útgerðir. Það sést greinilega á umsögninni, þar sem segir: Telja verður þessa takmörkun eðlilega því ella er aflareynsla viðkomandi skips orðinn hluti af söluverðinu.

Eins og hér hefur verið rakið, er augljóst að Alþingi hafði aldrei ljáð máls á því, fram til ársloka 1990, að aflamark væri eingöngu úthlutað til útvegsmanna sem gerðu út skipa á árunum 1981 til 1983.  Hér hefur en fremur verið bent á að fram til ársloka 1990, var Alþingi algjörlega mótfallið því að aflamark eða aflakvóti eignfærðist eða yrði á nokkurn hátt til verðmætisaukningar skipa. Hvort lögmæt breyting varð á þessari afstöðu Alþingis, eftir 1990, verður skoðað síðar.

En er þá sá möguleiki fyrir hendi að sjávarútvegsráðherra hafi geta gert sérstakt og bindandi samkomulag við útvegsmenn, um aðra tilhögun úthlutunarreglna en samþykkt var á Alþingi?  Lítum á hvað Ríkisendurskoðandi hefur um sambærilegt mál að segja, þar sem einkaaðili taldi sig hafa gert samkomulag við ráðherra um vatnsréttindi, sem voru í eigu þjóðarinnar.  Í því samhengi segir í skýrlsu Ríkisendurkoðunar:  (Áhersluletur G. J.)

"Skilyrði fyrir ráðstöfun ríkiseigna er víðar að finna í löggjöfinni en í framangreindu ákvæði 40. gr. stjórnarskrár. Helstu fyrirmælin hér að lútandi er að finna í fjárreiðulögum nr. 88/1997. Rifja má upp að eitt af markmiðunum, sem bjuggu að baki þessum lögum, var að undirstrika fjárstjórnarvald Alþingis, sbr. einkum 40. og 41. gr. stjórnarskrárinnar, og efla eftirlit og aðhald löggjafans með framkvæmdavaldinu og ráðstöfun þess á fjármunum ríkisins. Í samræmi við þessi markmið er í 29. gr. þeirra mælt fyrir hvernig standa skuli að ráðstöfun þeirra eigna ríkisins, sem eru á forræði ríkisaðila í A-hluta ríkisreiknings. Samkvæmt 1. mgr. þessarar greinar skulu ríkisaðilar í A-hluta ríkisreiknings hverju sinni afla heimilda í lögum til að kaupa, selja, skipta eða leigja til langs tíma fasteignir, aðrar eignir, sem verulegt verðgildi hafa. eignarhluta í félögum, skip, flugvélar, söfn og safnhluta, sem hafa að geyma menningarverðmæti, og Í athugasemdum við þessa grein í frumvarpi að fjárreiðulögum sagði m.a. að með lögum í þessu samhengi sé átt við almenn lög, fjárlög eða fjáraukalög. Jafnframt er tekið fram að leiga til langs tíma miðist við samning til lengri tíma en árs. Þá segir svo orðrétt í athugasemdunum: „Með þessu er reynt að tryggja að hvorki sala á veigameiri eignum ríkisins né kaup, skipti eða leiga á slíkum eignum geti átt sér stað nema Alþingi samþykki viðskiptin fyrir fram. Liggi slík heimild ekki fyrir verður að semja um viðskiptin með fyrirvara um samþykki Alþingis. Þó slíkur fyrirvari sé ekki gerður í einstökum samningum breytir það engu um það að samningurinn er ekki bindandi fyrir ríkið nema Alþingi veiti samþykki sitt fyrir honum. Heimildir framkvæmdarvaldsins til ráðstöfunar eigna eru gerðar nokkru þrengri en núgildandi lög kveða á um.""

Hér skal áréttað að ráðherrar, ráðuneyti og undirstofnanir þeirra, eru að þessu leiti ríkisaðilar í A-hluta ríkisreiknings, eins og segir hér að framan í álitsgerð Ríkisendurskoðunar. Það er því ekki á valdssviði ráðherra að haga ráðstöfun ríkiseigna (þjóðareigna) með öðrum hætti en þeim sem Alþingi hefur ákvarðað, þó honum sé fengið vald til útfærslu framkvæmdarinnar, innan þess ramma sem Alþingi setti.

Af þessu leiðir að ráðherra, eða undirmenn hans, geta ekki veitt einkaaðilum heimildir til gjaldtöku vegna framsals þjóðareignar, til annars jafnrétthás þjóðfélagsþegns. Í þessu sambandi er rétt að vitna til ofangreindra ummæla í skýrslu Ríkisendurskoðanda, þar sem vísað er til laga um fjárreiður ríkisins, en þar segir svo:

"Þá segir svo orðrétt í athugasemdunum: „Með þessu er reynt að tryggja að hvorki sala á veigameiri eignum ríkisins né kaup, skipti eða leiga á slíkum eignum geti átt sér stað nema Alþingi samþykki viðskiptin fyrir fram."

Og þar sem engar samþykktir Alþingis finnast fyrir sölu eða leigu aflaheimilda, eru þær enn í dag utan allra lagaheimilda.

Í öllum lögum um fiskveiðistjórnun, sem sett voru frá 1983 til 1990, er hvergi að finna ákvæði um að þær útgerðir og skip sem stunduðu veiðar á árunum 1981 til 1983, eigi að hafa sérstakan forgang að úthlutun aflamarks. Af því leiðir að sú fullyrðing útvegsmanna og framangreindra fræðimanna standast ekki rökræna lögskýringu, enda væntanlega um pantaðar álitsgerðir að ræða.

Hvort lagaheimildir finnist frá og með setningu laga nr. 38/1990 fram til þessa árs, um ákvæði eða ígildi ákvæðis um eignarrétt eða eignfærslurétt aflaheimilda, mun koma í ljós í næsta kafla. Margoft hef ég kallað eftir afriti slíkra lagasetninga, en enginn getað framvísað þeim enn.  Hvenær næsti kafli verður tilbúinn, verður bara að koma í ljós hvenær honum verður lokið, vonandi innan ekki mjög langs tíma.

Guðbjörn Jónsson
Höfundur bókarinnar "Stjórnkerfi fiskveiða í nærmynd"

Afritun og endurbirting er heimil, sé heimilda getið.


Ertu alveg viss Adolf????

Merkileg er yfirlýsingin hjá Adolf Guðmundssyni, formanni LÍÚ, í þeirri frétt sem hér er bloggað við. Þar segir hann eftirfarandi:

„Við störfum innan ramma laganna. Lögin heimila leigu á kvóta og það er heimilt að selja aflahlutdeild,

Þetta er svolítið hraustlega mælt, því ég hef HVERGI í lögum um fiskveiðistjórnun fundið heimildir til gjaldtöku fyrir að flytja aflaheimildir milli skipa.

Fyrst Adolf er svona viss um lagaheimildir til leigu og sölu aflaheimilda, bið ég hann endilega að senda mér afrit af þessum lögum á póstfangið "gudbjornj@gmail.com".  Ég hef ítrekað óskað eftir því við framkvæmdastjóra LÍÚ að hann sendi mér afrit af þessum lögum, en af því hefur ekki orðið enn.

Þegar ég aflaði efnis í bókina "Stjórnkerfi fiskveiða í nærmynd", las ég gaumgæfilega öll lög um fiskveiðistjórnun, allar ræður sem um þau málefni voru fluttar á Alþingi, ásamt öllum þingsályktunum um þessi málefni. Ég hef hvergi geta fundið lagastoð fyrir því sem kallast "varanlegar aflaheimildir", sem útvegsmenn hafa verið að selja.  Ég hef heldur ekki fundið neinar heimildir fyrir því að útvegsmenn megi taka gjald fyrir að flytja (framselja) aflaheimildir milli skipa.

Ég vænti þess eindregið að formaður LÍÚ verði við þessari beiðni minni, svo fljótt sem honum er auðið.  Eða getur verið að hann sé að skrökva af ásetningi ??????????????                       


mbl.is Störfum innan ramma laganna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband