Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2011

Er hræðslu að verða vart hjá LÍÚ ???

Af þeirri frétt sem hér er til grundvallar verður vart annað séð en ótta sé farið að gæta hjá forystu LÍÚ.  Allt í einu virðast þeir eins og auðsveipir þjónar, sem nánast engar kröfur geri aðrar en fá að veiða. Þykjast nú aldrei hafa efast um  forræði íslenska ríkisins á fiskveiðiauðlindinni og rétt ríkisins til að setja reglur um stjórn fiskveiða. Hins vegar sé það náttúrlega ljóst frá þeirra hendi að: Á sama hátt eiga íslenskar útgerðir stjórnarskrárvarinn rétt til afnota að aflahlutdeild sinni.  Hvernig réttur sem hvergi er tilgreindur í lögum, getur verið stjórnarskrárvarinn, hafa þeir aldrei geta skýrt.

Enn fremur segja þeir að: "Ú bendir á að stjórn fiskveiða skipti þá sem byggi afkomu sína á sjávarútvegi með beinum og óbeinum hætti og íslenskt samfélag allt miklu."  Ekki tók LÍÚ það nærri sér, þegar þeir sjálfir voru að ná veiðiheimildunum undir sig, þó þeir rústuðu afkomu fleiri þúsund heimila. Þá voru útvegsmanna ekki að hugsa um afkomu þeirra sem eingöngu, eða að miklu leiti, höfðu byggt afkomu sína af veiðum og vinnslu sjávarafurða.

Augljósasta dæmið um undirgefni og sáttavilja LÍÚ má greina á eftirfarandi: "LÍÚ hefur nú beðið í rúma 4 mánuði eftir fundi með forsætis-, fjármála- og sjávarútvegs-ráðherra til að vinna að útfærslu samningaleiðarinnar." Ölum er ljóst að svonefnd "samningaleið" er runnin undar rifjum LÍÚ. Afar mikil amndstaða er meðal þjóðarinnar með þá leið, líkt og með núverandi fyrirkomulag. Þrátt fyrir að stjórnvöld hafi enga ákvörðun tekið um að fara þá leið við fiskveiðistjórnun, segjast þeir nú hafa "beðið í rúma 4 mánuði eftir fundi með forsætis-, fjármála- og sjávarútvegs-ráðherra til að vinna að útfærslu samningaleiðarinnar.

Þegar grant er skoðað, má glögglega sjá að enginn sáttatónn er í forystu LÍÚ varðandi fiskveiðistjórnun. Þeir virðast hins vegar nokkuð hissa á að fyrirmælum þeirra sé ekki hlýtt án óþarfa tafa, að þeirra mati. Augljóst er að jábræðraher þeirra er kominn af stað, því úr mörgum áttum er nú vegið að sjávarútvegsráðherranum, sem gegnir ekki fyrirmælum þeirra. Og það sem verra er, það virðist eins og einhver óþekktarlýður sé að reyna að koma í veg fyrir sameiginlegt atvinnuvegaráðneyti verði að verileika, og losi þá þannig við óhlýðinn ráðherra.

En hvernig væri að LÍÚ stæði nú fyrir því að þeir útvegsmenn sem selt hafa aflaheimildir á undanförnum árum, skili nú virðisaukaskattinum af þeirri sölu til ríkisins, svo létta megi á niðurskurði í heilbrigðis-, mennta-, og velferðarmálum. Þarna á ríkissjóður umtalsverðar útistandandi skattgreiðslur, sem full þörf er á að innheimta. Ekki liggur lengur neinn vafi á að virðisaukaskatt á að greiða af seldum aflaheimildum. Fyrir því er nú til staðfest uppgjör þar sem virðisaukaskattur af keyptum aflaheimildum var endurgreiddur.           

                       


mbl.is Forsætisráðherra og ASÍ fara með rangt mál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Opið bréf til Hæstaréttar vegna stjórnlagaþings

Opið bréf til Hæstaréttar.

Ég er afskaplega undrandi yfir ákvörðun Hæstaréttar varðandi kosningar til stjórnlagaþings. Í ákvörðun réttarins er sagt að niðurstaðan komi vegna kæru þriggja manna til Hæstaréttar,  vegna framangreindra kosninga. Sagt er að kærur þessar byggist á 15. gr. laga nr. 90/2010, um stjórnlagaþing.

Í  þriðju málsgrein á 1. bls. Ákvörðunar Hæstaréttar, er eftirfarandi niðurstaða réttarins:  (Leturbreyting G.J.)

"Mál kærenda voru sameinuð með ákvörðun Hæstaréttar 6. janúar 2011 þar sem þau lúta öll að almennri framkvæmd kosninganna og varða ekki sérstaka hagsmuni þeirra að lögum."

Í 15. gr. laga um stjórnlagaþing, er hvergi nefnd heimild til beinnar kæru til Hæstaréttar, út af öðru en því er varði kjörgengisskilyrði tiltekins frambjóðanda. Orðrétt segir um þetta í 15. gr. laga um stjórnlagaþing:

"Ef kjósandi telur fulltrúa á stjórnlagaþingi skorta kjörgengisskilyrði, framboð hans hafi ekki uppfyllt skilyrði laga eða kjör hans sé af öðrum ástæðum ólögmætt, getur hann kært kosningu hans til Hæstaréttar sem sker úr um gildi hennar. "

 Eins og þarna kemur fram, er Hæstarétti einungis falið að fjalla um kjörgengi tiltekinna fulltrúa á stjórnlagaþingi. Engar heimildir eru til þess í lögunum, að Hæstiréttur fjalli beint, án undangengis dóms eða úrskurðar héraðsdóms, um sjálf lögin um stjórnlagaþing, eða framkvæmdina að öðru leiti en varðar framangreint kjörgengi.

Á nokkrum stöðum í lögunum um stjórnlagaþing, er vísað til laga um kosningar til Alþingis, eftir því sem við geti átt. Í 2. málsgrein 15. gr. laga um stjórnlagaþing, er vísað til tiltekinna greina og lagakafla, í lögum um kosningar til Alþingis, sem gildi hafi í lögum um stjórnlagaþing. Þar er vísað til eftirfarandi lagagreina og lagakafla í lögum um Kosningar til Alþingis.
114 gr. í kaflanum - Kosningum frestað og uppkosningar.
XIX. kafli, sem ber heitið - Skýrslur Hagstofu.
XX. kafli, sem ber heitið - Óleyfilegur kosningaáróður og kosningaspjöll.
XXIV. kafli, sem ber heitið - Kostnaður.
XXV. kafli, sem ber heitið - Refsiákvæði.

Rétt er að geta þess að í lögum nr. 90/2010 um stjórnlagaþing, í lagakaflanum Kærur og fleira, eru einungis 15. gr.  og 15.gr. a. Í hvorugri þessara greina eru nefnd frekari ákvæði, en að framan greinir, sem kæra megi beint til Hæstaréttar.

Í lögum nr. 24/2000, um kosningar til Alþingis, er kaflinn Kosningakærur, nr. XXI, með lagagreinunum 118. og 119. Þessi kafli eða þessar greinar, eru ekki nefndar á nafn í kaflanum um Kærur og fleira í lögum um stjórnlagaþing.

Í 118. grein er fjallað um kjörgengi. Sá sem kæra vill vegna kjörgengis, beini kæru sinni til Dómsmálaráðherra (nú Innanríkisráðherra), sem láti hinum kærða aðila í té afrit af kæru, auk þess sem ráðherrann leggi kæruna fyrir Alþingi, þegar í þingbyrjun.  Þessi grein kemur ekki til álita í lögum um stjórnlagaþing, þar sem kjörgengi er það eina sem heimilt er að kæra beint til Hæstaréttar, samkvæmt þeim lögum.

Í 119. grein laga um kosningar til Alþingis, er fjallað um brot á lögunum. Þar er sagt að slíkar kærur skuli fara til hlutaðeigandi lögreglustjóra, sem fari með þau að hætti sakamála.

Eins og hér hefur verið rakið, er hvergi að finna lagaheimild fyrir Hæstarétt til að taka Ákvörðun um að kosningar til stjórnlagaþings hafi verið ógildar.

Sem kjósandi í þessum kosningum, beini ég þeim tilmælum til Hæstaréttar, að hann sýni lögum landsins þá sjálfsögðu virðingu, að draga þegar í stað til baka Ákvörðun réttarins frá 25. janúar 2011, um að kosningar til stjórnlagaþings séu ógildar.
Virðingarfyllst
Reykjavík 27. janúar 2011
Guðbjörn Jónsson


mbl.is Útsend kjörbréf teljast ógild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðlindir í eigu þjóðarinnar.

Fundur Reykjavíkurfélaga Samfylkingar og VG, á Grand hóteli var einkar vel heppnaður og kraftmikill fundur. Þar voru afbragðs góðir frummælendur sem opnuðu mörg sjóanrhorn vegna þeirrar framkvæmdar sem nú viðgengst við fiskveiðistjórnun.

Það sem mér finnst þó vanta sárlega, er að farið sé skipulega yfir núverandi framkvæmd og dregið fram í dagsljósið á hvern hátt hefur alla tíð verið farið á skjön við gildandi lög. Reglugerðir eru til þess að útfæra nánar það sem í lögunum er sagt. En, það er ekki nóg að setja einhver ákvæði í reglugerð, ákvæði sem ekki eru tiltekin í lögunum. Slíkt er ekki bindandi.

Í lögum um fiskveiðistjórnun er hvergi ákvæði um að skip eða útgerðir EIGI  ár eftir ár ákveðna hlutdeild í úthlutuðum heiladrafla. Í daglegu tali er þetta kallað "Varanlegur kvóti", sem viðkomandi útgerðir EIGI, og verði ekki af þeim tekinn. Á vissan hátt hafa stjórnvöld ítt undir þessa vitleysu, með því að skipta úthlutuðum aflaheimildum eftir reglu sem á sér enga stoð í lögum.

Útgerðarmenn eru ánægðir með þetta, því þessi ólögmæta framkvæmt stjórnvalda fellur alveg að fullyrðingum útvegsmanna; fullyrðingum sem hvergi er lagabókstafur fyrir. Útgerðarmönnum hefur einnig liðist að selja frá sér "varanlega aflahlutdeild", sem ekki er til sem úthlutunarregla. Einnig hefur þeim verið liðið að selja veiðiheimildir innan ársins, þó ALDREI hafi verið samþykkt á Alþingi heimild til að selja veiðiheimildir eða aflamark.

Þá má geta þess að frá 1. janúar 1994, hefur fiskur verið í 14% flokki virðisaukaskatts (VSK). Því hefur ætíð átt að greiðast VSK af öllum seldum aflahlutdeildum og veiðiheimildum.  Skákað er í skjóli þess að þáverandi Ríkisskattstjóri hafi gefið heimild til að virðisaukaskattur af kvótasölu væri ekki greiddur. Því er til að svara að VSK heyrir undir skattheimtu, og lögum eða reglum um slíka innheimtu verður hvergi breytt nema á Alþingi. Að undanskilja kvótasölu frá greiðslu VSK hefur því alla tíð verið ólöglegt, þar sem slík ákvörðun hefur ekki verið staðfest af Alþingi. Það sannaðist á árinu 2008, er skatturinn endurgreiddi útgerð reiknaðan VSK af kvótakaupum hennar.

Sama ólögmæta aðgerðin er það þegar Ríkisskattstjóri heimilaði útgerðum að færa kvótakaup sín sem eign í efnahagsreikning sinn. Með þeirri heimild margbraut Ríkisskattstjóri lög og starfsskyldur sínar. Aflaheimildirnar voru (og eru) SANNANLEGA eign þjóðarinnar. Þær gátu því ALDREI orðið eignastofn í efnahagsreikning útgerðar. Þó útgerðarmaður hafi greitt annarri útgerð peninga til að fá til sín aflaheimild, var engin lagaforsenda til sem skyldaði Fiskistofu til að færa, þeim sem keypti kvótann, auknar aflaheimildir á komandi árum.

Á árum áður, starfrækti sjávarútvegsráðuneytið Kvótaþing, sem umsjónaaðila með úthlutuðum aflaheimildum. Fljótlega fór Kvótaþing að SELJA kvóta, bæði svokallaðan "varanlegan kvóta" og veiðiheimildir innan ársins. Ég átti þá í miklum bréfaskiptum við Kvótaþing, ríksiskattstjóra og ráðuneyti sjávarútvegsmála.

Endaði það ferli með því að ég lagði fram kæru, vegna ólögmætrar starfsemi Kvótaþings, þar sem það væri að SELJA eign þjóðarinnar án þess að hafa fengið hemildir Alþingis til slíks.  Vegna þessarar kæru var hratt brugðist við. Verið var að afgreiða svokallaðan "bandorm" frá Alþingi, og var í flíti bætt aftan við þann lagabálk, ákvæði um að fella Kvótaþing niður og allri starfsemi þess hætt. Var gengið svo rösklega til verka að skömmu síðar var hvergi hægt að finna vísbendingu um að Kvótaþing hefði verið til, því búið var að fella lögin um Kvótaþing út úr lagasafni Alþingis.

Þegar Kvótaþing var fellt niður og starfsemi þess hætt, voru verkefnin færð yfir til Fiskistofu.  Fljótlega fór þar af stað sambærileg starfsemi, þar sem Fiskistofa hefur haldið skrá yfir allar kvótasölur. Þó Fiskistofa selji ekki sjálf, eins og Kvótaþing gerði, eru þeir þó ábyrgir fyrir því að salan fari fram, þar sem tilfærsla aflaheimilda milli skipa, tekur ekki gildi fyrr en Fiskistofa hefur  staðfest tilfærsluna.

Það er því fyrst og fremst Fiskistofa, undirstofnun sjávarútvegsráðuneytis, sem er ábyrg fyrir því að SALA þjóðareignar á sér stað. Ef Fiskistofa færi að lögum og leyfði ekki sölu þjóðareignarinnar, væri stærsti hluti peningasukksins í kringum kvótakerfið, liðið undir lok.

Eins og hér hefur verið rakið, eru það fyrst og fremst opinberir aðilar, Ríkisskattstjóri og sjávarútvegsráðuneyti, sem bera ábyrgð á  þeirri ólöglegu  framkvæmd fiskveiðistjórnunar, sem hefur í för með sér mesta ranglæti kvótakerfisins. Fjármálaráðuneytið bætist síðan við, ásamt Ríksiskattstjóra, að innheimta ekki VSK af seldum kvóta. Þó telja megi víst að útgerðaraðall LÍÚ séu hönnuðir að þeirri framkvæmd sem viðhöfð er, eru það fyrst og fremst framangreindir opinberu aðilar sem bera meginábyrgð á hinni ólöglegum starfsemi, við framkvæmd fiskveiðistjórnuanr.                 


mbl.is Afnemi kvótakerfið strax í ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var það ferð til fjár ????

Ég varð fyrir óskaplegum vonbrigðum með sjónvarpsþættina "Ferð til fjár", sem sýndir voru á RÚV s.l. tvö mánudagskvöld, í samstarfi við Arion banka.

Fjármálalæsi er afar þýðingarmikið fyrir afkomu fólks í nútíma samfélagi, en ekki síður fyrir heilbrigða og gagnrýna umræðu í þjóðfélaginu um efnahagsmál. Ég vonaði því innilega að þessir þættir væru vel ígrundaðir og skipulega fylgt sterkustu lykilatriðum, til skilnings á fjárhagslegu sjálfstæði hvers einstaklings.

Því miður varð ég fyrir hroðalegum vonbrigðum með báða þættina. Ekki var hægt að sjá að höfundur þáttanna hefði skilning á mikilvægustu undirstöðum í hringrás peninga í lífi fólks. Mætti þar nefna skilning á heiðarlegum og heilbrigðum grundvelli tekjuöflunar til lífsafkomu einstaklinga eða fjölskyldna. Þar fyrir utan var efnið britjað niður í sundurlausa búta, þannig að vonlítið var að nokkur manneskja, sem ólæs væri á fjármál, gæti náð heilstæðu samhengi í því óvandaða efni sem flutt var.

 Seinni þátturinn fannst mér þó keyra um þverbak, þegar ljóst var að handritshöfundur og aðalstjórnandi á uppbyggingu þáttanna gat hvorki útskýrt hvað verðbólga væri, né hafði neinn skilning á því sem í daglegu tali er kallað "verðtrygging". Þar er raunar ekki um eiginlga "verðtryggingu" að ræða, heldur kaupmáttartryggingu lánsfjár. Einskonar viðbótarvexti á lánsfé, til viðbótar við tilgreinda vexti samkvæmt lánasamningi eða skudlabréfi. Verðtrygging er því algjört rangnefni á þessu fyrirbrigði, auk þess sem framkvæmd þess er afar langt frá gildandi löum, og margfallt óhagstæðari lántakanum en lög segja fyrir um.

Ef þetta er það besta í fjármálaviti sem í boði er hjá stærsta banka landsins, er vart von á að fjármálalæsi minnki hér á landi fyrir atbeina frá honum.  Ekki er þó vanþörf á að bæta úr almennum skilningi á sköpun, vörslu, og notkun fjármuna, eftir því sem fram kom í viðtölum við hina almennu borgara í þessum þáttum.

 Spurningin er hvort öll svörin sem leitað var eftir hafi verið á sömu lund, eða hvort vanþekking var af ásetningi gerð svo áberandi sem raunin var. Ég treysti mér ekki til að meta slíkt, því efnistök þáttanna voru frekar sem leikaraskapur, en fræðsluefni um eitt mikilvægasta þekkingarmál nútíma samfélags.        


Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband