Bloggfærslur mánaðarins, september 2011

Enn einu sinni eyðileggst mál vegna afleitrar rannsóknar

Ég hef ekki tölu á því hve oft maður les um að mál verði að engu vegna ófullnægjandi rannsóknarvinnu. Er það virkilega svo að rannsóknardeildir lögreglu og saksóknara geti ekki bætt vinnubrögð sín?  Mér finnst það í meira lagi alvarlegt ef brotaþoli, eins og í því tilfelli sem hér um ræðir, þarf að una því að meintur árásarmaður sleppi við refsingu, einvörðungu vegna óvandaðrar vinnu rannsókaraðila málsins. Og hvað setur Hæstiréttur svo út á í sambandi við vinnubörgð:

Hæstiréttur segir í dómi sínum í dag, að ágallar á skýrslutökum lögreglu af systur mannsins séu þess eðlis að ekki yrði litið til skýrslnanna við úrlausn málsins. Systirin hafi hvorki verið upplýst með fullnægjandi hætti um réttarstöðu sína sem vitnis né um það hverjir myndu fá aðgang að upptökum af skýrslutökunum. 

Er sá möguleiki fyrir hendi að sá sem annaðist skýrslutökuna hafi verið óreyndur aðili, með ófullnægjandi þekkingu á skyldum sínum og ábyrgð? Hafa rannsóknarmenn ekki gátlista hjá sér varðandi mikilvægustu samskiptaatriði við þá sem eru að gefa skýrslur?  Það er ekki hægt að horfa framhjá svona afgerandi klaufaskap við skýrslutöku. Þó er álíka hrollvekjandi ábyrgðarleysi hvað eftir anað að birtast í niðurstöðum dómstóla. Og áfram segir Hæstiréttur:

Skýrsla mannsins hjá lögreglu þótti hafa verið óljós og ruglingsleg og ekki nema að hluta í samræmi við annað sem fyrir lá í málinu. Því taldi Hæstiréttur, að ekki væri hægt að reisa sakfellingu á henni einni. 

Enn vaknar spurning um þekkingu skýrslutökuaðila á málinu, meginefni þess og framvindu, fyrst hann gat ekki haldið eðlilegum framvinduþræði í skýrslunni. Svona einkennilegheit eru einnig ítrekað umsagnir dómstóla um skýrslur teknar hjá lögreglu, vegna sakamála. Þessu verður að breyta STRAX. Og enn segir Hæstiréttur:

Þá segir Hæstiréttur, að þótt framburður vitna kynni að styðja að maðurinn hefði ráðist að stúlkunni nægði sá framburður einn og sér ekki til sakfellis gegn eindreginni neitun mannsins fyrir dómi. Einnig yrði að líta til þess að við rannsókn á vettvangi og fatnaði mannsins hefði ekkert komið fram um að hann hefði framið það brot sem hann var ákærður fyrir. 

Þarna þyrfti Hæstiréttur að skýra betur niðurstöðuna, og kannski gerir hann það í dómnum, án þess að fréttamaður skilji mikilvægi þess að láta slíkt fylgja fréttinni. Hæstiréttur talar um vitni í fleirtölu. Rétturinn virðist þó ekki viss um hvaða afstöðu eigi að taka til framburðs þeirra, og virðist sleppa þeirri augljósu skyldu sinni að, annað hvort spyrja vitnin sjálfir, eða láta endurtaka yfirheyrsluna fyrir héraðsdómi, þannig að Hæstiréttur geti myndað sér ótvíræða skoðun á framburði vitnanna. Þarna sleppa dómarar Hæstarétta mikilvægasta þætti dómarastarfsins, að leita sannleikans, svo lengi sem einhver vafi er til staðar. Og þeir byggja mikið á síðbúinni neitun mannsins, án þess að virða að sama skapi ásæðuna sem hann ber fyrir sig við neitunina. Þar segir hann:

Maðurinn var handtekinn mánuði síðar og játaði fyrst árásina en dró játninguna síðan til baka og sagðist hafa  verið búinn að nota mikið af áfengi, amfetamíni og rítalíni og því ekki verið með réttu ráði þegar hann var yfirheyrður í fyrra sinnið. 

Eðlilega spyr maður sig hvar dómgreindin var stödd þegar dómarar mátu neitun manns sem viðurkennir að hafa verið ruglaður vegna mikillar neyslu fjölbreyttra vímuefna, mun sterkari en framburð vitna,(tiltekið í felirtölu), sem líklega hafa ekki verið þjökuð af vímuefnaneyslu. Og eins og fyrr segir, Ef dómarar voru í óvissu, bar þeim að eyða þeirri óvissu með nýjum yfirheyrslum yfir vitnunum.   En dómarar hæstaréttar fá í það minnsta -20 í einkun fyrir rökfærni í eftirfarandi setningu:

Einnig yrði að líta til þess að við rannsókn á vettvangi og fatnaði mannsins hefði ekkert komið fram um að hann hefði framið það brot sem hann var ákærður fyrir.

Upphaf þeirrar tilvitnunar sem þarna er vitnað í, segir að: Maðurinn var handtekinn mánuði síðar  þ. e. mánuði eftir afbrotið. Að búast við að sönnun eða vísbending finnist í fötum mánuði eftir afbrot, er líklega ný tegund af rökhyggju, sem byggð er á sápufroðu.

Sá dómur sem hér um ræðir er til mikillar smánar fyrir Hæstarétt. Dómarar sem teljast þurfa rúmlega 100.000 króna launahækkun, hljóta að þurfa að sýna virkari þrá eftir að óyggjandi sannleikur felist í dómum þeirra.      


mbl.is Sýknaður af árásarákæru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitthvað virðist dómgreindin löskuð

Maður á erfitt með að verjast brosi, þó málefnið sé mjög alvarlegt. Sjávarútvegurinn er skuldsettur upp á nokkur hundruð milljarða, en formaður LÍÚ segir að allur ísfiskflotinn sé kominn yfir 30 ár og orðinn úreltur. Það þýðir í raun að skipin eru nánast verðlaus, en eru samt veðsett fyrir háum fjárhæðum.

Þá segir í fréttinni að formaður LÍÚ segi að: "ef aflétt yrði óvissunni um sjávarútveginn myndu fljótlega skapast hundruð starfa í mörgum atvinnugreinum." Það eina sem draga má ályktanir af, um fjárfestingar, samkvæmt fréttinni, er að smíða þurfi ný skip fyrir ísfiskflotann. Það segir formaður LÍÚ að sé fjárfesting upp á 1,8 - 2,2 milljarða, með smíði á nýju ísfiskskipi. 25 slík skip myndu þá kosta 45 - 55 milljarða, en formaður LÍÚ segir: "fjárfestingarþörf upp á 16 milljarða í útgerðinni,".

Ég velti fyrir mér hvernig formaður LÍÚ ætlar stórskuldugri útgerð, á barmi fjöldagjaldþrots, að eigin sögn, að fjárfesta til sköpunar mörg hundruð starfa í mörgum atvinnugreinum. Af orðum formanns LÍÚ má álykta að hann telji núverandi skuldir útgerðarinnar ekki sjálfbærar, þurfi þær að greiðast af aflatekjunum einum. Af því muni leiða fjöldagjaldþrot núverandi útgerðarfélaga.

Sé raunveruleikinn sá sem formaður LÍÚ segir, er þjóðfélagslega nauðsynlegt að hina yfirskuldsettu útgerðir fari í gjaldþrot, og við taki önnur útgerðarfélög, með minni skuldsetningu, sem geti greitt þjóðinni eðlilegt afnotagjald af auðlindinni. Samneysla okkar gerir að sjálfsögðu þá kröfu að þessi stærsta þekkta auðlind þjóðarinnar leggi eðlilega til samneyslunnar. Slíkt gerist ekki ef þær útgerðir sem sækja hið takmarkaða magn sem auðlindirnar gefa, eru svo skuldsettar að aflavermætið dugi vart fyrir beinum útgerðarkostnaði og afborgunum lánsfjár.  Þjóðin getur ekki sætt sig við að samneyslan sé svelt til óhóflegs samdráttar, svo yfirskuldsettar útgerðir geti greitt innlendum sem erlendum fjármagsneigendum afborganir og vexti af lánsfé sem komið er yfir öll skynsemismörk. Slíkar útgerðir eru nú þegar gjaldþrota.


mbl.is Skapar hundruð starfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skuldir heimila og smáfyrirtækja fyrr og nú.

Þegar bankakerfið okkar hrundi haustið 2008, urðu skuldir margra óviðráðanlegar. Þar fór saman nánast tvöföldun hinna ólögmætu gengistryggðu lána og umtalsvert verðbólguskot, sem olli umtalsverðri hækkun verðtryggðra lána.

Hrun bankanna má að miklu leiti rekja til óvitaskapar stjórnenda þeirra og mikils þekkingarleysis á mikilvægi hlutverks stærstu viðskiptabanka þjóðar, í stöðugleika í efnahagslífi hennar. Fram að einkavæðingu bankanna, höfðu pólitískir stjórnendur þjóðarinnar geta haft ákveðna stjórnun á stærstu bönkunum, þar sem þeir voru ríkisbankar. Seðlabankinn var einnig undir beinni pólitískri stjórnun. Afleiðing þessa var sú að efnahagslífi okkar hafði aldrei verið stjórnað frá grundvelli sjálfstæðis og sjálfbærni. Þeir þættir eru of plássfrekir til að verða reifaðir hér, en þarfnast samt umræðu, þó síðar verði.

Þegar sú kjölfesta sjálfstæðs efnahags þjóðarinnar, sem ríkisbankarnir voru, var seld aðilum sem enga þekkingu höfðu á skyldum og hlutverki þessara stærstu banka þjóðarinnar, var fjárhagslegu sjálfstæði landsins stefnt í hættu. Einkanlega þar sem stjórnmálamenn þjóðarinnar höfðu lengst af ekki haft skilning á mikilvægi þess að  stýra fjárstreymi þjóðarinnar með jafnvægi tekna og útgjalda sem grunnforsendu.

Segja má að frá miðri 20. öldinni hafi bráðlæti og skortur á langtímaviðhorfum stöðugt hrjáð þessa þjóð. Fyrsta sjálfstæða fjármagnið sem við fengum, var styrkur í stríðslok, sem fenginn var með hjálp Bandaríkjamanna. Fyrsta efnahagsstjórnun okkar var því ekki byggð á sjálfaflafé, heldur fjármunum sem bárust til okkar. Af þessu leiddi það pólitíska viðhorf að skapa þyrfti frelsi til að kaupa erlendir frá allt sem fólk langaði til að eignast. Hugsunin um að afla fyrst peninga til að kaupa fyrir, náði ekki fótfestu, vegna þess gjafafjár sem við höfðum fengið.

Á sjötta áratug 20. aldar beindust kraftar landsmanna mest að uppbyggingu sjávarútvegs og raforkuframleiðslu. Á sjöunda áratugnum var skipakostur ört stækkandi, einkanlega vegna mikillar síldveiði. Keppst var við að fjárfesta í skipum, verkunarstöðvum og síldarbræðslum, fyrir allt það fé sem til var laust auk nokkurs lánsfjár.  Ekkert var hugsað fyrir jafnvægisþætti veiðanna, svo langtímagrundvöllur gæti skapast fyrir þeim fjárfestingum sem farið hafði verið út í. Afleiðingar þess urðu hrun síldarstofnsins og þar með hrun þeirra tekna sem áttu að greiða fjárfestingarnar.

Þegar síldin var farin, hrundu líka tekjur þjóðarinnar. Við sátum uppi með mikinn fjölda skipa sem ætluð höfðu verið til nótaveiða. Einnig voru nokkrar síldarbræðslur sem ekkert höfðu að gera og gátu þar af leiðandi ekki endurgreitt lánin sem þær höfðu fengið til uppbyggingar. Lánin sem þeir fengu, var það fjármagn sem náðist að spara saman með því að takmarka innflutning á almennum neysluvarningi. Þar sem þessum peningum hafði verið ráðstafað í fjárfestingu sem ekki skilaði af sér tekjum, var ljóst að það fjármagn kæmi aldrei aftur til baka.

Segja má að það ferli sem hér hefur verið lýst, hafi verið nokkuð ríkjandi í sambandið við efnahagsstjórnun hjá okkur. Atvinnuhættir hjá okkur eru ekki skipulagðir út frá langtímamarkmiðum. Viðhorfin virðast oftast vera, að gera átak til að græða fljótt mikla peninga. Allir þessir þættir hafa misfarist, þannig að fjárfestingar í atvinnusköpun hafa að sára litlu leiti skilað sér aftur til þjóðarinnar í marði af þeirri atvinnustarfsemi sem fjárfest var í.  Af þeirri ástæðu m. a. hefur þjóðin ekki geta skapað sér tekjuafgang til að geta fjárfest fyrir sjálfaflafé.

Eitt þessara átaksverkefna var ímyndaður bjargvættur bættra lífskjara til sveita, með aukinni loðdýrarækt. Ekkert var hugsað fyrir því að menn þyrftu að læra meðhöndlun þessara dýra. Ekkert var heldur hugsað fyrir fjárstreymi þessarar starfsemi. Rokið var af stað með mikinn fjölda loðdýrabúa.

Fyrstu búin fengu lán fyrir stofnkostnaði. Þar fyrir utan fengu þau svonefnt rekstrarlán, sem var til fóðurkaupa og fleiri þátta er vörðuðu eldið sjálft. Rekstrarlán þessi voru veitt þannig að lánin áttu að greiðast niður með sölu skinna af dýrunum. Sölutekjurnar áttu að greiðast inn til bankans, sem tæki af þeim afborgunarhluta lánsins en legðu afganginn inn á veltureikning búsins.

Það sem bankamenn  klikkuðu á, var að flest fyrstu búanna seldu nánast engin skinn.  Meginhluti dýranna frá þeim seldust sem lífdýr og greiðslur vegna lífdýrasölu, bárust ekki til viðskiptabanka búanna. Nánast ekkert kom því til endurgreiðslu rakstrarlána fyrstu árin, sem þá söfnuðust upp og urðu bændum óviðráðanleg.

Af hverju rek ég þessa sögu hér. Það er vegna þess að upphaflegi vandi loðdýrabænda varð að nokkru  til vegna mistaka bankamanna; mistaka sem varð að ókleifum múr fyrir bændur. Skuldavanda sem ríkissjóður varð að koma að lausn á, svo forða mætti heimilum frá gjaldþroti og lánastofnunum frá illviðráðanlegum skakkaföllum. En hvernig var þetta mál leyst?

Skuldavandinn nú er m. a. til kominn vegna, mistaka eða óraunsæis bankamanna, sem valdið hefur heimilum landsins ókleifum skuldamúr, sem er fyrst og fremst afleiðing af hreinum glannaskap bankamanna. Samlíkingin með skuldavanda loðdýrabúa er því alls ekki óraunhæf. Því tel ég hægt að líta í átt til þeirra lausna sem ríkissjóður og Alþingi lögðu til við lausn á vanda loðdýrabúa.

Það var í árslok 1989 sem Alþingi samþykkti lög nr. 112/1989, um skuldabreytingar vegna loðdýraræktar. Lög þessi voru einungis tvær greinar og 1. greinin hljóðaði svo:

"Ríkisstjórninni er heimilt að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð lán sem loðdýrabændur taka í stað lausaskulda sem myndast hafa vegna loðdýrabúskapar þeirra á árunum 1986-1989, samtals allt að 300 m.kr.

     Lánin skulu veitt til fimmtán ára, verðtryggð með lánskjaravísitölu og 5% vöxtum. Endurgreiðslutími lánanna skal vera tólf ár.

     Sjálfskuldarábyrgð ríkissjóðs skal því aðeins veitt að með henni reynist unnt að koma rekstri viðkomandi bús í viðunandi horf eða forsendur séu fyrir hendi fyrir lántakanda að greiða af skuldum sínum með öðrum hætti. Hún má ná til allt að 60% af þeim lausaskuldum hvers bónda sem uppfylla skilyrði 1. mgr., enda breyti viðkomandi lánardrottnar því sem eftir stendur í lán til a.m.k. átta ára gegn þeim tryggingum sem þeir meta gildar.

     Framleiðnisjóður landbúnaðarins skal hafa á hendi umsjón með framangreindum skuldbreytingum.

     Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um lánsupphæðir til hvers loðdýrabónda, svo og önnur þau skilyrði fyrir lánveitingum er þurfa þykir, svo sem veðskilmála."

Þarna gengur ríkissjóður, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, í sjálfskuldarábyrgð fyrir allt að 60% þeirra lausaskulda sem myndast höfðu. Til viðbótar þessu kom svo 2. gr. laganna, en hún hljóðaði svo:

"Þrátt fyrir ákvæði um tryggingar fyrir lánum o.fl. í lögum nr. 45/1971, um Stofnlánadeild landbúnaðarins, er Stofnlánadeild heimilt að fella niður verðtryggingu og vexti, og fresta greiðslu afborgana, af lánum til bænda vegna loðdýrabúra á næstu fimm árum. Þá er Stofnlánadeild heimilt, þegar hagsmunum hennar er betur borgið með þeim hætti, að fella niður hluta höfuðstóls annarra veðskulda loðdýrabænda."

Þarna var bændum skapað 5 ára svigrúm til að takast á við uppsöfnun lausaskulda.  Þeim var ekki boðið upp á frystingu greiðslna, sem söfnuðust upp á tímabilinu. Nei, þeim var fært með lögum, niðurfellin vaxta og verðtryggingar af fasteignalánum sínum um 5 ára skeið, en eftir það kæmi lánið aftur til greiðslna afborgana á sömu upphæð eftirstöðva sem það  var þegar  greiðslur voru stöðvaðar. Engin uppsöfnun vaxta eða verðtryggingar bættist við á tímabilinu.

Í lokasetningu 2. gr. segir að Stofnlánadeild sé heimilt, þegar hagsmunum hennar er betur borgið með þeim hætti, að fella niður hluta höfuðstóls annarra veðskulda loðdýrabænda."

Á árinu 1992 er þessu ákvæði breytt svolítið með lögum nr. 108/1992, en þar segir svo:

"Í stað síðari málsliðar 2. gr. laganna kemur: Þá er Stofnlánadeild heimilt að fella niður allt að helmingi af heildarskuldbindingum sem stofnað hefur verið til hjá deildinni vegna loðdýraræktar. Heimildin nær til afskriftar á lánum og niðurfellingar vaxta eftir nánari reglum sem landbúnaðarráðherra setur að höfðu samráði við stjórn Stofnlánadeildar landbúnaðarins."

Þarna er orðin opin óskilyrt heimild til niðurfellingar að allt að helming lána loðdýrabænda, vegna loðdýrabúa sinna.  Þarna voru menn að verki sem gerðu sér fulla grein fyrir þeim vanda sem það skapaði fjárstreymi um þessa atvinnugrein, ef henni væri um langan tíma haldið í fjötrum vanskila og jafnvel gjaldþrotaferlis. Því var höggvið á hnútinn sem myndast hafði, án þess að bændur sjálfir hefðu beinlínis búið hnútinn til.

Þegar hrunið varð, haustið 2008, og skuldavandi margra heimila hart nær tvöfaldaðist, átti stjórnkerfið til, eins og hér hefur verið sýnt fram á, ferli til lausnar yfirhlaðinna skulda. Lausnarmótel sem afar skamma stund átti að taka að gera virkt. Og, þar sem 65. gr. stjórnarskrár hefst á orðunum:

"Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti."  átti ríkisstjórn og Alþingi ekki að eiga aðra möguleika en að veita heimilunum sömu úrlausn og loðdýarbændum var veitt á sínum tíma. Hvorki heimilin né loðdýrabændur sköpuðu þær aðstæður sem ollu því að skuldamálin fóru úr böndunum. Báðir eiga hins vegar stjórnarskrárvarinn rétt á því að lausnir á samskonar vanda þeirra séu byggðar á grundvelli jafnræðis og virðingar fyrir mannréttindum.


Meira um svar Seðlabankans til Umboðsmanns Alþingis.

Sama kvöldið og svar Seðlabankans byrtist, gerði ég athugasemd við fyrsta lánaútreikning þeirra. Nú hef ég lesið yfir allar 13 bls. sem svarið er og verð að viðurkenna að áherslumerkingar eru svo miklar að meira en helmingur textans er merktur til athugasemda. Ég á þó ekki von á að ég setji það allt á netið, en ætla þó að drepa á nokkrum atriðum sem mér finnst skipta miklu máli.

Þar sem ég byrjaði á að gagnrýna lánareikning Seðlabankans, finnst mér kannski rétt að klára þann þátt málsins og líta einnig á útreikning þeirra á 5 ára láninu. Seðlabankinn er þar með sömu fullyrðingar og í fyrra dæminu, um 1 milljón í eins árs láni.

Neðst á bls. 8 er tafla sem þeir kalla "Aðferð 1" , sem sýnir  Greiðslu hvers gjalddaga vegna 5 ára lánsins. Ekki er mér ljóst hvers vegna Seðlabankinn setur þetta upp með öðrum hætti en almenningur þekkir, frá reiknivélum bankanna. Getur verið að það sé gert til að rugla fólk sem ekki setur sig mikið inn í svona útreikninga? Ég veit það ekki. Kannski er þetta bara hugsunarleysi.

"Aðferð 1" hjá Seðlabankanum er þeirra útfærsla, af að verðbætur séu lagðar á greiðslu vaxta og afborgunar en í viðbótardálk eru verðbætur sýndar.  Seðlabankinn gerir þau mistök þarna að reikna verðbætur á vexti þess gjalddaga sem til umfjöllunar er. Slík innheimta getur ekki átt rétt á sér, þar sem vextir yfirstandandi  vaxtatímabils eru ekki á gjalddaga fyrr en á gjalddaga afborgunarinnar.  Vextirnir verða því aldrei að skuld sem hægt sé að vaxtareikna.

Verðbótaþáttur, hefur til langs tíma verið hluti af vaxtafæti. Þ. e. að inni í öllum vaxtatölum er ákveðið hlutfall vaxtaupphæðar vegna verðbólgu. Kom þetta t. d. fram fyrir skömmu í Kastljósi, þar sem Vilhjálmur Bjarnason, lektor við Háskóla Íslands, og framkvæmdastjórni Félags fjárfesta, viðurkenndi að svo væri.  Það er því AFAR óheilbrigt að Seðlabankinn skuli setja fram útreikninga, þar sem vextir eru verðbættir eins og upphæð afborgunar af höfuðstól lánsins. Fyrir slíku geta ekki verið traustar lagaheimildir, auk þess sem það stangast á við heilbrigða skynsemi að vaxtareikna greiðslu, í 30 daga minnst, áður en komið er að gjalddaga.

Næst má víkja að því - snjóboltaferli - sem lesa má út úr vísitölumælinum okkar. Glögglega má lesa þetta upphleðsluferli út úr vísitölum þeirra fimm ára sem lánareikningur Seðlabankans nær yfir. Forsendurnar eru sagðar 10% verðbólga á ári í 5 ár, sem ætti að gera 50% verðbólgu. Ef ætlunin væri að láta 10% verðbólgu á fyrsta ári hlaða hækkunum hverri ofan á aðra, hefði átt að miða við jafnaðarverðbólgu upp á 71,6% yfir tímabilið, eða 14.32% á ári. Svona ferli skapst þegar ein vísitala er látin sækja breytileika sinn í vísitölu annarra uppgjörsþátta.

Í grundvallarþætti afkomugreiningar, eru "tekjuflokkur" og "kostnaðaraflokkur" á sitt hvorum skál vogarinnar. Tekjuflokkurinn stendur fyrir verðmæta- og eignasköpun og flokkast með EIGNAÞÁTTUM í afkomugreiningu.  Kostnaðarflokkar hins vegar tilheyra útgjaldaliðum, sem ýmist eru einnota eða byggja sig upp og geta orðið að eign að afloknu uppgjöri.

Ef raunveruleiki á að greinast í efnahagslífi einstaklings, fyrirtækis eða þjóðar, verða þessir tveir meginþættir efnahagslegs jafnvægir að vera fullkomlega aðskildir og án allra sjálfvirkra formúluáhrifa frá öðrum. Sé því ekki haldið þannig, heldur sé annar þátturinn látinn upphefjast út frá vexti hins, verður engin leið að greina raunverulegt afkomujafnvægi, eða raunvirði eignar, sem tekið hefur á sig "formúlustækkun" sem er algjörlega verðmætalaus, því að baki stækkunar eða vaxtar eignar, eru engin raunverðmæti; einungis verðmætalaus reikniformúla. 

Þetta vissu menn fyrri tíðar, þegar reynt var að  koma á "verðtryggingu" á grundvelli framfærslukostnaðar.  Þá voru engar tölvur og því erfiðara að svindla á uppsöfnunarliðum. Þess vegna voru menn fljótir að losa sig vafnema  verðtryggingarþáttinn, strax og ljóst var að verðbólga færi upp fyrir viðmiðunarmörk.

Nú eru hins vegar komnar tölvur og með þeirra hjálp er afar auðvelt að svindla á uppsöfnunarþáttum, þannig að eignaaukning virðist hafa orðið vegna hækkandi talna, þó að baki talnanna sé eingöngu reikniformúlur en engin raunverðmæti.

Það er með þeim hætti sem hér hefur verið lýst, sem Seðlabanki okkar vill reikna raunverðmætisaukningu á krónunni okkar. Forsendur útreikninganna eru í raun brot á alþjóðlegri reiknireglu og reikniskilavenju. Kannski er það ekki álitin nein nauðsyn, af hálfu Seðlabankans, að reikniþættir efnahagsumhverfis þjóðarinnar hvíli á viðurkenndri reiknireglu.  Getur verið að reiknimeistarar æðstu fjármálastofnunar þjóðarinnar séu svo flæktir í formúluleikfimi tölvukerfa, að þeir hafi tapað raunveruleikanum? Útreikningar þeirra gætu bent til þess. Lítum á dæmi:

 

 

 

 

 

 

Á verðlagi hvers árs

Ár

 Höfuðstóll

Afborgun

Vextir

 Greiðsla

 Greiðsla

-Vísitala

0

1.000.000

 

 

 

 

100,0

1

800.000

200.000

50.000

250.000

275.000

110,0

 2

600.000

200.000

40.000

240.000

290.400

121,0

3

400.000

200.000

30.000

230.000

306.130

133,1

4

200.000

200.000

20.000

220.000

322.102

146,4

5

0

200.000

10.000

210.000

338.207

161,1

 

 Alls

1.000.000

150.000

1.150.000

1.531.839

771,6

Hér höfum við töflu yfir lán þar sem verðbætur eru reiknaðar á bæði afborgun og vexti. Svona setur Seðlabankinn þetta upp fyrir Umboðsmann Alþingis. Lítum svo á aðra töflu, með sömu forsendum, þar sem farið er eftir lagafyrirmælum og heiðarleika. Reiknað er út frá nákvæmlega sama breytileika verðbólgu milli ára, eins og er í töflu Seðlabankans.

Höfuðstóll

Afborgun

Vextir

Verðbætur

Greiðsla

Eftirstöðvar

----Vísitala

1.000.000

200.000

50.000

20.000

270.000

800.000

 10,00%

800.000

200.000

40.000

42.000

282.000

600.000

 21,00%

600.000

200.000

30.000

66.200

296.200

400.000

 33,10%

400.000

200.000

20.000

92.800

312.800

200.000

46,40%

200.000

200.000

10.000

122.200

332.200

0

61,10%

 

1.000.000

150.000

343.200

1.493.200

 

 

Á þessum fimm greiðslum munar 38.639 krónum. En hver skildi svo raunveruleikinn vera.

Sá mismunur sem þarna kemur fram, felst í rangri aðferð Seðlabankans við útreiking verðbóta. Á seinni töflunni eru verðbætur reiknaðar samkvæmt eðlilegum breytileika viðmiðunar vísitölu. Sama breytileika og er i töflu Seðlabankans. Í töflu Seðlabankans reiknast verðbætur kr. 381.839, en í seinni töflunni eru verðbætur kr. 343.200. Mismunur kr. 38.639.

Seðlabankinn heldur því fram að enginn mismunur sé á þeirri aðferð að reikna verðbætur ofan á höfuðstól, eða að reikna verðbætur á greiðsluna hverju sinni.  Til sönnunnar á þessum staðhæfingum eru lagðir fram útreikningar út frá líkingaþætti framtíðar. EN, hvernig skildi raunveruleikinn líta út.

Á árinu 2000, tókum við hjónin húsnæðislán hjá íbúðalánasjóði að upphæð 6.420.000. Reglulega hefur verið greitt af þessu láni, auk þess sem höfuðstóll var greiddur niður um 2.000.000  króna.  Að lokinni júlígreiðslu nú í sumar, segir á greiðsluseðli að eftirstöðvar séu kr. 8.986.747.

Nú vill svo til að ég hef alla tíð fært þetta lán á greiðsluskrá, þar sem verðbætur hverju sinni væru reiknaðar á afborgun en ekki höfuðstól. Verðbætur hafa því ekki verið ágiskun, heldur notaðar þær vísitölur sem fram koma á greiðsluseðli hvers mánaðar á móti upphafs vísitölu lánsins. Sú greiðsluskrá sem þannig hefur verið haldin, segir að eftirstöðvar lánsins ættu að vera kr. 3.615.258.

Greiðsluseðill júlímánuðar, frá Íbúðalánasjóði hljóðaði upp á  kr. 40.598. Greiðsluskráin samkvæmt lögskipuðu aðferðinni við útreikning verðbóta, reiknar júlígreiðsluna kr. 35.147.

Í þessu tilfelli er um blákaldann raunveruleikann að ræða. Raunveruleika liðins tíma. Engin leið er því að skjóta sér fram hjá honum með ímynduðum forsenduþáttum. Raunveruleikinn er svona.

Svo mikið er af álitamálum í svörum Seðlabankans til Umboðsmanns, að ég hef ekki tíma að gera athugasemdir við það allt. En líklega koma einhver brot síðar.

 


Er hægt að tryggja verðgildi gjaldmiðils?

Í hart nær þrjá áratugi höfum við reynt að tryggja ákveðnum aðilum verðgildi gjaldmiðils okkar með tilteknum aðferðum sem aldrei hafa verið raunprófaðar eða áhrif þeirrar aðgerðar á afkomu þjóðarinnar rannsakað. Hvers vegna ætli það sé svo? Ég veit það, en geri það ekki opinskátt að sinni.

Byrjum á því að velta fyrir okkur hver eru hin raunverulegu verðmæti krónunnar okkar; og hvort nauðsynlegt sé að verðgildið sé bara eitt, eða hvort þjóðin geti haft mörg verðgildi krónunnar. Kannski líkt og þegar ærgildi voru verðmætisviðmið. Þá gat eitt ærgildi haft mismunandi verðgildi, eftir landshlutum, héruðum eða jafnvel bændum.

Í fjölþættu viðskiptasamfélagi nútímans er nauðsynlegt að verðgildi gjaldmiðilsins sé aðeins eitt. Og það gildi um öll viðskipti sem gjaldmiðillinn er notaður við. Mikilvægt er að allir viti fyrirfram hvert verðmæti hverrar krónu er. Sama hvort hún er að koma inn á heimili, í fyrirtæki eða banka. Hvort verið er að greiða með útgjöld, svo sem vörur, þjónustu, eða vexti og afborganir af lánsfé. Verðgildi krónunnar verður að vera aðeins eitt og hið sama á öllum sviðum. Ástæður þess eru margar, en helsta ástæðan er að stjórnaarskrá okkar gerir ráð fyrir að allir séu jafnir fyrir lögum landsins, og að krónan er okkar lögeyrir, í öllum viðskiptum okkar.

Þó við höfum talið okkur reka nútímalegt fjölþætt viðskiptasamfélag undanfarna þrjá áratugi, höfum við ekki haft eitt og sama verðgildið á krónunni fyrir alla landsmenn. Við höfum veitt afmörkuðum aðilum sérstaka aðstöðu til að krefjast hærra verðs, fyrir hverja krónu sem þeir hafa til útlána, en almennt gerist í viðskiptum manna í milli innan samfélagsins. Lítum hér á litla dæmisögu:

Fyrirtæki sem smíðar innréttingar, skrifstofuhúsgögn og annarskonar húsgögn, ákvað að endurnýja vélakost sinn. Til að fjármagna það, leitaði fyrirtækið eftir 6 milljóna króna láni hjá bankanum sínum. Lánið átti að vera til fimm ára, afborgunarlaust fyrstu 6 mánuðina. Þá yrðu greiddir áfallnir vextir en síðan yrði lánið greitt niður með mánaðarlegum afborgunum. Bankatryggja þurfti seljandanum greiðsluna, sem inna þurfi af hendi þegar seljandinn væri búinn að setja vélarnar upp og stilla þær til framleiðslu. Bankinn féllst á að veita lánið og tryggja greiðslurnar.

Skömmu eftir að nýja vélasamstæðan var komin í gang, var ákveðið að ráðast í endurnýjun innréttinga í fjórum útibúum bankans. Skipta átti um skrifstofuhúsgögn og innréttingar. Stjórnendum bankans leyst vel á framleiðsluna úr nýju vélunum hjá þessu umrædda fyrirtæki og gera samning um kaupin hjá þeim. Vörurnar átti að afhenda í fjórum áföngum á tveimur árum, þannig að eitt útibú væri í hverjum áfanga. Samningurinn var uppá 5,8 milljónir króna, sem greiðast átti í fjórum hlutum, 30 dögum eftir afhendingu hvers áfanga samningsins.

Þar sem samningurinn var óvæntar tekjur, utan við áætlanir fyrirtækisins um endurgreiðslu lánsins, var þetta eins og Lottóvinningur. Þar að auki var samningurinn nánast sama upphæð og lánið sem fyrirtækið hafði fengið til að kaupa nýju vélarnar. Fyrirtækið fór því fram á breytingu á forsendum lánsins, á þann veg að þeir greiddu vexti mánaðarlega en greiðslurnar frá bankanum, vegna samningsins, gengu til greiðslu höfuðstóls lánsins. Og að verkinu loknu, mundi fyrirtækið gera upp eftirstöðvar lánsins. Þetta var samþykkt af hálfu bankans.

Framkvæmdin gekk öll samkvæmt áætlun og mánuði eftir afhendingu síðasta áfanga samningsins, fór eigandi fyrirtækisins í bankann til að gera upp þær 200 þúsund krónur sem var mismunur lánsins og verksamningsins. En þegar hann ætlar að greiða þessar eftirstöðvar lánsins, er honum sagt að þær séu nú heldur hærri en 200 þúsund.

Hvernig getur staðið á því, segir eigandi fyrirtækisins. Ég tók 6 milljónir króna að láni, bankinn gerði við mig viðskiptasamning upp á 5,8 milljónir, sem ákveðið var að gengju upp í greiðslu lánsins. Vextina greiddum við mánaðarlega. Samningurinn er uppfylltur. Síðasta afhending var fyrir mánuði og ég hér kominn til að greiða þessar 200 þúsund krónur sem eftir eiga að vera af láninu.

Það er ekki svona, sagði bankamaðurinn. Á tímabilinu var 12% verðbólga á ári, sem hækkaði vísitölu lánsfjárins, þannig að nú, þegar verksamningur þinn hefur verið greiddur að fullu skuldar þú okkur 1.118.000, sem eftirstöðvar lánsins.

Hvernig í ósköpunum getur þú fengið út svona tölu, þegar einungis 200 þúsund krónur er hinn talnalegi mismunur lánsins og verksamningsins, segir eigandi fyrirtækisins.

Það ræðst af því, segir bankamaðurinn, að krónan sem við lánum þér er verðbætt með neysluvísitölu, en krónan sem við borgum þér með er ekkert verðbætt. Þetta reiknast sko svona. Fyrstu mánuðina skuldar þú okkur 6 milljónir. Á því tímabili reiknaðist verðbólgan 6%, sem þýðir að sem verðbætur á þessar 6 milljónir koma 369.121 krónur.

Eftir þessa 6 mánuði kemur fyrsta innborgun á verksamninginn, sem er 1.450.000 krónur. Við það lækkar lánið niður í 4.550.000. Næstu 6 mánuði stendur lánið í þessari upphæð og verðbólga er enn 6% á tímabilinu. Það þýðir að verðbætur reiknast 279.917 krónur.

Þá kemur önnur greiðsla frá verksamning þínum inn á lánið, þannig að eftirstöðvar þess verða 3.100.000 krónur. Þannig stendur lánið í 6 mánuði og á þeim tíma er einnig 6% verðbólga. Það þýðir að verðbætur reiknast 190.712 krónur.

Þá kemur þriðja greiðslan frá verksamningnum inn á lánið, þannig að eftirstöðvar þess verða þá 1.650.000. Þannig stendur lánið í 6 mánuði og á því tímabili er verðbólgan líka 6%. Það þýðir að verðbætur reiknast 101.508 krónur.

Þegar fjórða greiðslan kemur inn á lánið, verða eftir 200 þúsund af upphaflegum höfuðstól lánsins. Auk þess eru 941.258 krónum uppsafnaðar verðbætur og 4.622 í vexti af verðbótunum yfir lánstímann. Eftirstöðvarnar verða því samtals 1.145.880 krónur.

Já en góði maður, segir eigandi fyrirtækisins. Þetta eru sömu krónurnar sem ég borga ykkur og þær sem þið lánið mér. Og í lögunum um gjaldmiðil okkar, krónuna, er sagt að hún sé lögeyrir með fullt verðgildi í öllum greiðslum. Hvernig getur þá staðið á því að krónan sem þið greiðið mér fyrir verksamninginn, sé þetta mikið verðminni en krónan sem þið lánuðuð mér? Þetta getur ekki verið heilbrigt. Þegar samningarnir eru gerðir er einungis 200 þúsund króna mismunur á upphæðunum.

Bankinn lánaði mér til að greiða þýsk mörk. Enn í dag fengi ég jafn mörg þýsk mörk fyrir sömu upphæð íslenskrar króna. En þrátt fyrir þetta allt segið þið að krónan sem þið borguðuð Seðlabankanum fyrir þýsku mörkin á sínum tíma, hafi rýrnað svo að nú muni milljón. En samt geti ég nú í dag, fengið sömu upphæð þýskra marka, fyrir sömu upphæð íslenskra króna og ég borgaði þegar lánið var tekið.

 Ég veit ekkert um það, segir bankamaðurinn. Þú verður að ræða þau mál við þingmennina. Það eru þeir sem ákveða að hafa þetta svona.

Já en bíddu við. Þú sagðir að þessi viðbót væri vegna 12% verðbólgu. Tók ég ekki rétt eftir því? Spurði eigandi fyrirtækisins.

Já það er alveg rétt hjá þér, svarar bankamaðurinn.

Já en þessi viðbót sem þú ert að rukka mig um er 15.69% viðbótarálag ofan á lánið, auk vaxta af því, til viðbótar því að við höfum greitt ykkur 6% vexti af láninu allan tímann. Ég skil bara ekki svona reiknikúnstir, segir eigandi fyrirtækisins.

Ég get að vísu ekki upplýst þig nákvæmlega um þessa útreikninga, því það er skuldabréfakerfið í Reiknistofu bankanna sem reiknar verðbótaþáttinn á lánin. En eins og ég sagði þá eru það þingmennirnir okkar sem vilja hafa þetta svona, svo ég tel heppilegast fyrir þig að ræða við þá, ef þú telur að þetta fyrirkomulag sé að brjóta á þér rétt, sagði bankamaðurinn.

Eftir að hafa samið við bankamanni um afborganir af hinum meintu eftirstöðum lánsins, fór eigandi fyrirtækisins að kanna þessi verðtryggingamál sérstaklega. Í framhaldi af því pantaði hann fund með formanni viðskiptanefndar Alþingis, því hann taldi þessi mál heyra undir þá nefnd.

Fundurinn með formanni viðskiptanefndar byrjaði vel. Eigandi fyrirtækisins lagði fram afrit af verksamningnum, afrit af lánasamningnum og breytinguna á fyrirkomulagi endurgreiðslu. Þá lagði hann einnig fram forsendurnar sem bankamaðurinn hafði látið honum í té um eftirstöðvarnar, og hvernig þær höfðu orðið til. Hann kynnti alla þessa pappíra fyrir formanninum.

Áður en eigandi fyrirtækisins hafði lokið máli sínu, fórnaði formaðurinn höndum og sagði.

Hvað heldur þú að ég geti gert í þessu. Ég er ekki einu sinni viss um að ég skilji allt sem þú hefur verið að segja mér. Hvernig á ég að geta deilt á lög sem einn virtasti doktor í lögum, samdi fyrir hart nær 20 árum. Ætlar þú að reyna að segja mér að það væri ekki einhverjir búnir að fara í mál út af þessu á 20 árum, ef þetta væri ekki allt 100% eins og það á að vera?

Eigandi fyrirtækisins horfði undrandi á formanninn. Hann velti fyrir sér hvort formaðurinn væri að sýna honum ókurteis, eða hvort þekking hans og skilningur á viðskiptamálum væri svona lítill. Það þykknaði því nokkuð í eiganda fyrirtækisins, en hann var vel þroskaður maður, með góða stjórn á skapi sínu. Hann horfði því hvössum augum á formanninn og sagði.

Þú skilur það þó að lánasamningurinn er upp á 6 milljónir króna, en verksamningurinn er upp á 5,8 milljónir. Mismunurinn á þessum tveimur tölum er 200 þúsund?

Formaðurinn baðaði út höndunum og sagði.

Ég skil þetta allt saman. En ég sé einnig að þú hefur látið plata þig með því að verðtryggja ekki verksamninginn og fá þannig frá bankanum þá upphæð sem hann er að gera þér að greiða í verðtryggingu. Þá hefði engin mismunur orðið og málið dautt.

Eigandi fyrirtækisins horfði enn hvössum augum á formanninn og sagði. Ert þú í raun og veru að segja það, að ég hefði átt að bæta 20% verðmætalausri upphæðina við reiknaðan kostnað á verksamningnum, til þess að geta jafnað þessa reiknikúnst bankans? Segjum nú svo að ég hefði gert þetta og bankinn gengið að verksamningnum þrátt fyrir þessa verðhækkun. Þá hefði ég ekki borgað bankanum þá upphæð sem þessi reiknikúst ætlar mér að borga, Hvaðan hefði bankinn þá átt að fá þá fjármuni sem reiknikúnstir mínar og bankans bættu við hið raunverulega verð?

Nú var formaðurinn farinn að finna verulega fyrir óþægindum af því að geta ekki útskýrt verðtrygginguna. Hann var því farinn að íhuga flóttaleið út úr þessum aðstæðum. Hann strauk sér því um andlitið og sagði.

Ég get svo sem ekki sagt þér það. Ég hef aldrei rekið banka. En ég sé einnig að við náum ekki að leysa þetta mál á svona einkafundi. Ég mæli því með því að þú skrifir nefndinni formlegt erindi, stutt þessum gögnum og ég reyni að koma því á dagskrá nefndarinnar. Þá getum við hugsanlega líka kallað til sérfræðinga til að fara yfir málið.

Eigandi fyrirtækisins sá að það mundi engum árangri skila að reyna frekar að koma þessum formanni í skilning um hvaða þjóðarböl var þarna á ferðinni. Hann stóð því upp, safnaði skjölunum saman og kvaddi formanninn með handabandi, því hann vildi ekki setja hann í andstöðu við sig, ef svo færi að hann gerði eitthvað með erindi sem hann fengi.


Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband