Opið bréf til forseta lagadeildar Háskóla Íslands.

Í Fréttablaðinu 2. febrúar 2011, er haft eftir þér að Ákvörðun Hæstaréttar um kosningarnar til stjórnlagaþings, verði ekki bornar undir dómstóla, því "Lögfræðilega þá er niðurstaða Hæstaréttar í þessu máli endanleg niðurstaða í íslensku réttarkerfi."

Ég er nokkuð undrandi á þessari yfirlýsingu, í ljósi hinna einföldu staðreynda í þessu máli. Allar kærurnar lúta að framkvæmd kosninganna og í þeim tiltekin nokkur atriði sem kærð eru. Allar kærurnar eru byggðar á heimild í 15. gr. laga nr. 90/2010, um stjórnlagaþing. Sú lagagrein er eftirfarandi:

"15. gr. Kærur og fleira.

Ef kjósandi telur fulltrúa á stjórnlagaþingi skorta kjörgengisskilyrði, framboð hans hafi ekki uppfyllt skilyrði laga eða kjör hans sé af öðrum ástæðum ólögmætt, getur hann kært kosningu hans til Hæstaréttar sem sker úr um gildi hennar. Kæra skal afhent Hæstarétti innan tveggja vikna frá því að nöfn hinna kjörnu fulltrúa voru birt í Stjórnartíðindum. Hæstiréttur aflar greinargerðar og gagna frá landskjörstjórn og gefur viðkomandi fulltrúa færi á að tjá sig um kæruna áður en skorið er úr um gildi kosningarinnar.

Ákvæði 114. gr., XIX., XX., XXIV. og XXV. kafla laga um kosningar til Alþingis gilda um kosningar samkvæmt þessum lögum að svo miklu leyti sem við getur átt."

Eins og þarna kemur afar skýrt fram, er einungis heimilt að kæra til Hæstaréttar Ef kjósandi telur fulltrúa á stjórnlagaþingi skorta kjörgengisskilyrði, framboð hans hafi ekki uppfyllt skilyrði laga eða kjör hans sé af öðrum ástæðum ólögmætt, getur hann kært kosningu hans til Hæstaréttar sem sker úr um gildi hennar. Aðra beina réttarfarslega aðkomu að kosningum til stjórnlagaþings hefur Hæstiréttur ekki.

Allar kærurnar lúta að framkvæmd kosninganna. Þá er spurningin hvort Hæstarétti sé ákvörðuð einhver bein aðkoma til úrskurðar um framkvæmd kosninganna. Til að fá niðurstöðu um slíkt, þurfum við að líta á 2. mgr. 15. gr. laga nr. 90/2010, og er hún rituð hér að framan, en þar segir að:

Ákvæði 114. gr., XIX., XX., XXIV. og XXV. kafla laga um kosningar til Alþingis gilda um kosningar samkvæmt þessum lögum að svo miklu leyti sem við getur átt.

Í bréfi mínu til Hæstaréttar dags. 27. janúar 2010, rek ég hvaða atriði það eru úr lögum um kosningar til Alþingis, sem þarna er vísað til, að gildi um kosningar til stjórnlagaþings að svo miklu leyti sem við getur átt. Þessi 114. gr. og lagakaflarnir eru eftirfarandi:

 114 gr. í kaflanum - Kosningum frestað og uppkosningar.

XIX. kafli, sem ber heitið - Skýrslur Hagstofu.

XX. kafli, sem ber heitið - Óleyfilegur kosningaáróður og kosningaspjöll.

XXIV. kafli, sem ber heitið - Kostnaður.

XXV. kafli, sem ber heitið - Refsiákvæði.

Rétt er að geta þess að í lögum nr. 90/2010 um stjórnlagaþing, í lagakaflanum Kærur og fleira, eru einungis 15. gr. og 15.gr. a. Í hvorugri þessara greina eru nefnd frekari ákvæði, en að framan greinir, sem kæra megi beint til Hæstaréttar.

Í lögum nr. 24/2000, um kosningar til Alþingis, er XXI kaflinn Kosningakærur, með lagagreinunum 118. og 119. Þessi kafli eða þessar greinar, eru ekki nefndar á nafn í kaflanum um Kærur og fleira í lögum um stjórnlagaþing.

Vakin er sérstök athygli á því að ALLAR kærurnar fjalla um framkvæmd kosninganna. Engin þeirra fjallar um kjörgengi. Því á engin kæranna stoð í 15. gr. laga nr. 90/2010. Þar af leiðandi BAR Hæstarétti að vísa málinu frá. Kærurnar eiga sér hins vegar stoð í 119. gr. lagan nr. 24/2000, um kosningar til Alþingis. Þar er sagt að slíkar kærur skuli fara til hlutaðeigandi lögreglustjóra, sem fari með þau að hætti sakamála. Kærurnar eru því greinilega á röngum stað, og það hefðu dómarar Hæstaréttar átt að sjá glögglega, ef þeir hefðu lesið 15. gr. laga nr. 90/2010 af þeirri athygli sem krefjast verður af dómurum efsta stigs réttarfars í landinu.

Eins og mál þetta lítur út frá sjónarhóli heiðarleika, sannleika og réttlætis, verður vart hjá því komist að viðurkenna að Hæstarétti urðu á MJÖG alvarleg mistök. Hvort mistök þessi eigi sér rót í afar miklu álagi á réttinn, verður ekki ljóst nema með vandaðri rannsókn þar á.

Það vakti hins vegar all verulegan ugg í brjósti mínu, er ég heyrði einn af dómurum réttarins segja, brosandi, að hann hefði dæmt í 337 málum á árinu 2010. Vinnudagar dómara á ári er líklega 249, þannig að þessi dómari hefur þurft að lesa sig í gegnum 1,35 mál á hverjum vinnudegi. Ég ætla engar vangaveltur að hafa um þetta núna, en velti þó fyrir mér hve djúp ígrundun um réttlæti var í hverju máli, þegar jafnaðar vinnslutími máls er komin niður í u. þ. b. 5 vinnustundir.

Vegna stöðu þinnar, sem forseti lagadeildar Háskóla Íslands, vil ég með þessu bréfi skora á þig að hugsa niðurstöðu þína í því máli sem hér um ræðir, og skýra hana opinberlega í fjölmiðlum, með beinum og skýrum lagatílvísunum. Ég er ekki að óska eftir langloku lagaflækjum, því þær eru ævinlega einungis til að fela óheiðarleika. Nú þarf þjóð okkar á hreinum heiðarleika, réttsýni og réttlæti að halda, því tilfinning fólks er orðin sú að ALLIR, opinberir aðilar, segi að mestu leyti ósatt um þau atriði sem þeir eru spurðir um. Við slíkt ástand getur þjóðin ekki búið.

Ég leyfi mér því að vænta þess heiðarleika af þér, að þú dragir til baka ummæli þín. Þó þú treystir þér ekki til, vegna þöggunarkenndra siðareglna, að segja sannleikann um heimildarleysi Hæstaréttar til úrskurðar í umræddum kærumálum, vænti ég þess að í framtíðinni íhugir þú betur niðurstöður þínar um störf dómstóla, svo þær verði meira en 5 vinnustunda virði.

  Með kveðju, Reykjavík 2. febrúar 2011 Guðbjörn Jónsson.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband