Hjálparbeiðnin heyrist ekki

Það er enginn að hlusta á þessari bylgjulengd.  Þannig mundi talvélin líklega svara, ef um slíkt væri að ræða. En í þessu tilfelli er ekkert slíkt til staðar.  Hvers vegna skildi ég byrja þennan pistill svona?

Þegar ég var ungur maður, var ég til sjós á bát, sem í dag væri kallaður lítill. Við sóttum þó á þessum bát 40 - 50 mílur út í haf til að afla fisks fyrir frystihúsið í landi.  Það var svo eitt haustið, fáeinum dögum fyrir jól, að við voru að klára að draga línuna í norðan kaldaskít. Við áttum fyrir höndum siglingu í 4 klst. til að ná í fjarðarmynnið. Greinilega var í uppsiglingu norðan skot því kólgubakki var í norðrinu.  Því var gengið vel frá öllu á dekkinu, lestalúgur skálkaðar og lensport opnuð og báturinn gerður eins hæfur og hægt var, til að takast á við mikinn sjógang.

Ferðin gekk vel þar til við áttum eftir u.þ.b. 1. klst. í fjarðarmynnið. Þá skellti á, eins og hendi veifað, norðan fárviðri með tilheyrandi snjókomu. Enginn radar var á bátnum en við með nokkuð góða þekkingu á sjávardýpi á þessu svæði og inn í fjarðarmynnið. Vorum því ekki kvíðnir fyrir að lenda í strandi.

Fljótlega var kominn haugasjór og við í kröppum dansi að verja bátinn áföllum. Í talstöðinni heyrðum við að aðrir bátar voru líka í basli. Í einni rokunni fengum við ólag yfir bátinn og við það slitnaði niður loftnetið af talstöðinni. Þar með vorum við orðnir sambandslausir við umheiminn. Enginn mundi heyra þó við kölluðum á hjálp og við myndum enga utanaðkomandi hjálp fá til að komast lifandi í land.

Með  harðfylgi og samstöðu okkar 5 sem á bátnum voru, náðum við landi. Sama varð því miður ekki sagt um áhöfn helmingi stærri báts sem var að veiðum á svipuðum stað og við. Hann fórst með allri áhöfn og skyggði það mikið á gleði okkar yfir að ná landi.

Að ég segi þessa sögu hér er til að undirstrika að ég þekki af eigin raun þá tilfinningu sem fylgir því að enginn heyri þó kallað sé á hjálp. Í slíkum tilvikum finnur einstaklingurinn sig afar máttvana. En með heilsteyptri samstöðu allra sem í sömu stöðu eru, er hægt að sigrast á næsta óyfir-stíganlegum erfiðleikum, og halda lífi.

Eldri borgarar og öryrkjar eru sem sundurlaus hjörð búnir að kalla sig hása á hjálp síðan hrunið skall á þjóðinni. Staðreyndin sýnir hins vegar að það er enginn að hlusta á bylgulengd mannúðar og kærleika. Allir eru að hlusta á öðrum bylgjulengdum, því heyrir enginn köll þessara hóps.  Lífskjör þessa hóps hafa verið skorin niður um c. a. 40% á tímabilinu, með ýmsu misheiðarlegu móti. Nægir peningar hafa hins vegar virst vera til hjá stjórnvöldum til ákveðinna síður mikilvægra málefna.  Lífskjör þeirra sem ekki geta varið sig, þurftu því ekki að skerðast vegna fjárskorts.

Þetta leiðir hugann að því hvar hlustun fjöldans er. Hver og einn hlustar fyrst og fremst á það sem hjarta hans er næst. Á sjó er það undanbragðalaus skylda hvers skips að hlusta á neyðarbylgju og hverjum sem neyðarkall heyrir, er skylt að láta skipstjóra (æðsta stjórnvald á svæðinu) vita þegar í stað og vera tilbúinn að veita alla þá hjálp sem mögulega er hægt að veita.

Í þjóðfélaginu hins vegar er enginn að hlusta eftir neyðarköllum og þeir fáu sem heyra þau, finnst þeim ekkert koma það við; það sé ekki þeirra mál.

Það er svolítið skrítið að horfa á þjóðfélag okkar svona ofan frá og sjá þá sundurlindu hjörð sem telur sig vera þjóð, án þess að sýna í verki að hún skilji hvað í orðinu felst. Meginþorri fjöldans virðist á harða hlaupum eftir ímyndaðri velsæld, en árangurinn minnir mig á þegar ég sem drengur var að láta kisuna mína elta geislann frá vasaljósi. Ákafinn var mikill en afraksturinn engin annar en erfiðið við að elta hið ímyndaða. Er dómgreind þjóðarinnar virkilega að færast niður á svona lágt plan? Er samábyrgðin alveg horfin?   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Benedikt Helgason

Góður pistill Guðbjörn.

Benedikt Helgason, 30.6.2013 kl. 13:43

2 identicon

Tek undir með honum Benedikt

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 30.6.2013 kl. 13:50

3 identicon

Einstaklega vel skrifuð grein... vona að sem flestir lesi hana! 

Emma Vilhjálmsdóttir (IP-tala skráð) 30.6.2013 kl. 19:01

4 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Kærar þakkir, Benedikt, Rafn Haraldur og Emma.

Guðbjörn Jónsson, 30.6.2013 kl. 19:59

5 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Vel skrifuð grein og áhugaverð.

Þessi grein kallar á aðra grein um orsakir vandans.

Hvers vegna heyrir engin,

hvers vegna næst ekki samstaða hjá þeim sem kalla á hjálp og

hvers vegna er samábyrgðin horfin úr samfélaginu.

Hvað með skilgreiningu á dómgreind eða dómgreindarleysi þjóðarinnar...

kveðja Kolla

Kolbrún Stefánsdóttir, 30.6.2013 kl. 23:52

6 identicon

Vona ad sem flestir lesi thessa frabaeru grein thina. Thvi midur

er allt sem thu segir tharna dagsatt. Samabyrgdin er horfin.

M.b.kv.

Sigurdur Hjaltested (IP-tala skráð) 1.7.2013 kl. 07:22

7 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Guðbjörn. Takk kærlega fyrir þennan sanna og góða pistil.

Ríkisfjölmiðillinn er skyldugur til að fjalla um þessar ísköldu staðreyndir.

En hvað gerir sá fjölmiðill? Ætla stjórnendur/eigendur "ríkisfjölmiðilsins", (hverjir sem þeir eru), að sleppa því alveg að fjalla undanbragðalaust og á gagnrýnan hátt, um svona grafalvarleg mannréttindabrot á þeim sem eru varnarlausastir í samfélaginu?

Allir sem þekkja til kjara þessara varnarlausu þjóðfélagsþegna, vita að ástandið er eins og þú lýsir því.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 1.7.2013 kl. 14:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 55
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband