Sala aflaheimilda ER ólögmæt

Í hart nær tvo áratugi hafa staðið yfir deilur við framkvæmdavaldið um meðferð þess á eignum ríkisins, þ. e. auðlindum fiskimiða okkar. Þau svör sem fengist hafa hjá sjávarútvegs- og fjármálaráðuneytum vegna kvartana um ólögmæta gjörninga, hafa ekki borið gott vitni um menntunarstig og þroska þeirra sem þau svör unnu. En nú er að birta til með óbeinni aðstoð Ríkisendurskoðunar (Rsk), sem nú á haustdögum kom fram með skýrslu um lögmæti afhendingar eignarréttinda ríkisins á auðlindum.

Í skýrslu Rsk, er fjallað um afhendingu auðlinda í vatnsföllum til virkjanafram- kvæmda. Þar kemur fram skýr skilningur Rsk á því hvað lög heimili um meðferð eigna ríkisins. Fram hefur komið að þessi skilningur sé ekki umdeildur, þannig að nú er loksins komnir fram rökfastir þættir sem styðja þær ádeilur sem verið hafa í sambandi við úthlutun aflaheimilda.

Þar hefur verið deilt um heimildir sjávarútvegsráðuneytis til svokallaðrar “varanlegrar” úthlutunar hlutdeildar í veiðistofni fiskimiða okkar til einstakra útgerða, óháð veiðireynslu þeirri sem lögin um fiskveiðistjórnun tilgreina. Þar er átt við að einstakar útgerðir geti keypt til sín aukin veiðikvóta frá öðrum útgerðum og með því aukið svokallaða “varanlega” hlutdeild sína í heildarafla ársins. Við sem gagnrýnt höfum þetta fyrirkomulag höfum haldið því fram að þetta stæðist ekki lög og nú virðist sem Rsk sé með sama skilning og við hvað varðar lagaumhverfi við ráðstöfun ríkiseigna.

Í skýrslu sinni fjallar Rsk um skilyrði fyrir ráðstöfun ríkiseigna. Þar segir svo á bls. 17:

“Skilyrði fyrir ráðstöfun ríkiseigna er víðar að finna í löggjöfinni en í framangreindu ákvæði 40. gr. stjórnarskrár. Helstu fyrirmælin hér að lútandi er að finna í fjárreiðulögum nr. 88/1997. Rifja má upp að eitt af markmiðunum, sem bjuggu að baki þessum lögum, var að undirstrika FJÁRSTJÓRNARVALD ALÞINGIS, sbr. einkum 40. og 41. gr. stjórnarskrárinnar, og efla eftirlit og aðhald löggjafans með framkvæmdavaldinu og ráðstöfun þess á fjármunum ríkisins. Í samræmi við þessi markmið er í 29. gr. þeirra mælt fyrir hvernig standa skuli að ráðstöfun þeirra eigna ríkisins, sem eru á forræði ríkisaðila í A-hluta ríkisreiknings. Samkvæmt 1. mgr. þessarar greinar skulu ríkisaðilar í A-hluta ríkisreiknings HVERJU SINNI afla heimilda í lögum til að kaupa, selja, skipta eða leigja til langs tíma fasteignir, eignarhluta í félögum, skip, flugvélar, söfn og safnhluta, sem hafa að geyma menningarverðmæti, og AÐRAR EIGNIR SEM VERULEGT VERÐGILDI HAFA.”

Í athugasemdum við þessa framangreindu grein í frumvarpi að fjárreiðulögum er tekið fram að leiga til langs tíma miðist við samning til lengri tíma en eins árs.

Hér er ljóst að fiskveiðiheimildir okkar falla klárlega undir skilgreininguna “AÐRAR EIGNIR SEM VERULEGT VERÐGILDI HAFA” Verðmæti þeirra er skráð hjá Fiskistofu. Þó stjórnvöld úthluti þeim endurgjaldslaust, eru þessar heimildir seldar rándýru verði á svo kölluðum “markaði”. Fiskistofa, sem er undirstofnun sjávarútvegsráðuneytisins, heldur nákvæma skrá yfir magn og verð seldra aflaheimilda, þannig að verðgildi og verðmæti eru stjórnvöldum vel ljós.

Í þessu sambandi er rétt að benda á það sem hér á undan er rakið úr 29. gr. fjárreiðulaga, þar sem segir að: Samkvæmt 1. mgr. þessarar greinar skulu ríkisaðilar í A-hluta ríkisreiknings HVERJU SINNI afla heimilda í lögum til að kaupa, selja, skipta eða leigja til langs tíma fasteignir, eignarhluta í félögum, skip, flugvélar, söfn og safnhluta, sem hafa að geyma menningarverðmæti, OG AÐRAR EIGNIR SEM VERULEGT VERÐGILDI HAFA.”

Þetta þýðir í raun að HVERJU SINNI sem sjávarútvegsráðherra úthlutar útgerð “varanlegri” aflahlutdeild, þarf hann að leggja þá skrá fyrir Alþingi til samþykktar, þar með talið verðmæti úthlutunarinnar. Sama á við ef aðili sem hefur nýtingarrétt á aflahlutdeild vill “selja” þann rétt til annars aðila, þarf sjávarútvegsráðherra að leggja það fyrir Alþingi til samþykktar, áður en hann staðfestir flutninginn samkvæmt fiskveiðistjórnunarlögum.

Þessi niðurstaða er byggð á því sem segir orðrétt í athugasemdum framangreinds frumvarps til fjárreiðulaga, en þar segir um það sem að framan er rakið um ráðstöfun ríkiseigna:

Með þessu er reynt að tryggja að hvorki sala á veigameiri eignum ríkisins né kaup, skipti eða leiga á slíkum eignum geti átt sér stað NEMA ALÞINGI SAMÞYKKI VIÐSKIPTIN FYRIR FRAM. Liggi slík heimild ekki fyrir verður að semja um viðskiptin með fyrirvara um samþykki Alþingis. Þó slíkur fyrirvari sé ekki gerður í einstökum samningum breytir það engu um það að samningurinn er EKKI BINDANDI fyrir ríkið nema Alþingi veiti samþykki sitt fyrir honum.

Þarna liggur þetta skýrt fyrir. Enginn sem fylgst hefur með verðlagningu aflaheimilda, veltist í vafa um að þar er verið að versla með veigamiklar eignir ríkisins. Málið er hins vegar að það er gert án allra heimilda og ríkissjóður fær ekkert af því fjármagni sem fyrir ríkiseignina er greitt. Þetta er í raun grafalvarlegt mál. Þarna eru menn að selja ímyndaðan eignarrétt yfir viðurkenndri ríkiseign, eignarrétt sem aldrei hefur verið samþykktur eða staðfestur að neinu leiti af Alþingi og framkvæmdavaldið tekur þátt í þessari fjárkúgun og í raun stýrir henni. Er hægt að brjóta meira en þetta gegn þjóð sinni?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 56
  • Frá upphafi: 164791

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband