Kauphallarvísitalan hrynur, en hvað langt niður?

Það er skammgóður vermir að pissa í skó sinn, segir gamalt  máltæki. Þó þetta máltæki sé vafalaust ekki búið til af hagfræðingi eða öðrum háskólamenntuðum vísindamanni, hefur það að geyma gullinn og óvéfengjanlegan sannleika. Meira að segja sannleika sem lögfræðingar eiga áreiðanlega erfitt með að véfengja.

Af þessu máltæki má ráða að þegar hagsmunir þurfa að vara til langs tíma, er ekki ráðlegt að haga aðgerðum sínum með þeim hætti að ávinningur þeirra geti ekki enst nema yfir skamman tíma.

Það var fáliðaður sá hópur sem gagnrýndi unglingadeildir (verðbréfadeildir) lánastofnana á þeim árum sem verðbréfavísitalan á Íslandi var að rjúka upp um marga tugi prósenta á ári, án þess að sýnileg eða merkjanleg verðmæti væru að baki hækkuninni.  Nú er "pissið" í skónum að kólna og menn að nálgast raunveruleikann, en þurfa þá að ná jafnvægi og borga miklar skuldir, blautir í fæturna og kaldir.

 Erlendar skuldir þjóðarbúsins (sjá Seðlabankann) hafa aukist um meira en FIMM ÞÚSUND MILLJARÐA á síðustu fimm árum. Mun meira sé litið lengra aftur. Eignir voru sagðar standa að einhverju marki á móti þessari skuldsetningu, en af völdum hruns á verðbréfamörkuðum hafa þær verið að rýrna um mörg hundruð, ef ekki þusundir milljarða á einungis örfáum mánuðum. Rétt er að hafa í huga að megnið af þessum lánum munu vera svokölluð skammtímalán, sem greiðast eiga upp á fáeinum árum. Spurningin er því hvernig gangi að endurfjármagna þessa skuldasúpu ef verulegur brestur verður á endurgreiðslu lána.

En hvernig er svo atvinnulíf okkar undir það búið að takast á við að greiða þær miklu skuldir sem óvitagangur lánastofnana hefur hlaðið upp. Hefur miklu af þessu lánsfé verið veitt til eflingar tekjugefandi (gjaldeyrisskapandi) atvinnureksturs? Því miður er slíkt ekki sjáanlegt.  Á árinu 2006 voru heildar útflutningstekjur okkar 242 milljarðar. Líklega verða þær svipaðar, eða litlu meiri á árinu 2007, þegar samantekt þess líkur. Innflutningur okkar hefur þó nánast alltaf verið hærri en tekjurnar, svo ekki hefur þar myndast afgangur til greiðslu skulda.

Enn er sjávarútvegurinn áberandi burðarþáttur í tekjuöflun okkar. Hins vegar er staða hans nú orðin sú að líklega hefur hann aldrei tekið til sín stærra hlutfall heildartekna af fiskveiðum en nú er orðið.  Árið 1986 tók útgerðin til sín u.þ.b. 52,5% heildar tekna af fiskveiðum. Ég hef að vísu ekki tekið saman stöðuna nú, en þegar litið er til hinnar miklu skuldastöðu sjávarútvegsins, sem nú er kominn yfir 300 milljarða, sem líklega er u.þ.b. 250 milljörðum umfram rauneignir, virðist ljóst að sjávarútvegurinn er búinn að draga til sín nánast allar tekjur þjóðfélagsins af fiksveiðunum; enda telur útgerðin sig ekki geta greitt neitt veiðigjald.

Þegar ferli síðustu 20 ára er skoðað sést greinilega hvaða áhrif það hefur haft að stjórnvöld stóðu ekki vaktina við að gæta heildarhagsmuna þjóðfélagsins til langs tíma, heldur virðast hafa setið í fílabeinsturni og yljað sér við "pissið" sem þá var enn að renna í skóna þeirra. Á sama tíma sátu við völd í lánastofnunum menn sem af fullkomnu ábyrgðarleysi gagnvart þjóðarheildinni stunduðu óábyrga útlánastarfsemi, sem var í líkum anda og hafði þá nokkur ár á undan, valdið bönkunum svo miklu útlánatapi að það nam hærri fjárhæð en heildartekjum þeirra yfir sama tímabil. Þrátt fyrir alla þessa endaleysis vitleysu hefur þjóðinni verið talið trú um að það hafi verið sérstakt góðæri og við ein ríkasta þjóð í heimi.

Það er til skýring á því hvers vegna svona stór hópur þjóðarinnar lætur skrökva svona að sér, en líklega er betra að hafa ekki hátt um það í bili.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Það er alveg rétt Kristinn, að skludsetning sjávarútvegsins er bölvað rugl, lánastofnunum og stjórnvöldum til mikillar smánar.

Skammtímahugsun hefur aldrei verið talið vel fallið til varanleika eða framtíðarhags.

Guðbjörn Jónsson, 24.1.2008 kl. 17:45

2 Smámynd: Magnús Jónsson

Hvað verður um þessar lánuðu upphæðir og eigendur þeirra, (líklegast lífeyrissjóðir landsmanna)  ef til valda komast menn sem segja, nú þjóðnýtum við fiskistofnana, og taka þennan kvóta af þeim sem hafa hann til ráðstöfunar,( þeir eiga hann ekki, veðsetning er því ólögleg ) og senda kvótann til sjáfarplássanna í hlutfalli af fólksfjölda. hvaða staða kæmi þá hugsanlega upp. Íslendingar hafa varla fengist til að vinna í fiski síðastliðin 30 ár, yrði breyting þar á?, og eru vinnslustöðvar tilbúnar að taka á móti afla sem kæmi að landi og greiða það gjald sem þyrfti, eða yrði landað, keyrt og flogið með aflann til Kína til vinnslu, eins og gert var hér í smá og er máski en gert, síðan flogið heim aftur og þaðan til Evrópu með Íslandstimpil á kössunum. Eru sjávarplássin undir slíkt búinn, og hvað gera lífeyrissjóðirnir þegar bankarnir segjast hafa tapað aurunum þeirra....   

Magnús Jónsson, 24.1.2008 kl. 22:10

3 Smámynd: Guðrún Jóhannesdóttir

Bara senda kveðju

Guðrún Jóhannesdóttir, 25.1.2008 kl. 09:07

4 Smámynd: Jóhann Elíasson

Eftir þennan lestur er hægt að spyrja sig um það "hversu hagkvæmur rekstur" sjávarútvegsins er vegna "besta fiskveiðistjórnanakerfis í heimi" er?  Ég verð nú að segja,  að mér finnast röksemdir Magnúsar Jónssonar svolítið fjarstæðukenndar og ekki alveg í takti við þá umræðu sem hefur farið fram um þessi mál, en það má svo sem vera að með einhverjum "hundakúnstum" sé hægt að reyna að "réttlæta" þetta arfavitlausa fiskveiðistjórnunarkerfi sem er komið langleiðina með það að leiða Íslenskt þjóðfélag til glötunar.

Jóhann Elíasson, 25.1.2008 kl. 11:18

5 Smámynd: Magnús Jónsson

Jónas: ég sagði ef,  langaði til að sá hvað þeir herramen segðu um það, mér finnst kerfið alveg jafn léleg og þeim, er aðeins að reina að sjá hvað getur komið í staðin, og yrði eitthver hjálp í því fyrir bæjarfélöginn og landið í heild, kvótakerfið er nefnilega búið að breyta þjóðfélaginu hvort sem okkur líkar betur eða verr..  

Magnús Jónsson, 25.1.2008 kl. 19:04

6 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Það var bilað netið hjá mér í dag svo ég hef ekkert getað tekið þátt í umræðunni.

Magnús, það er góð spurning hjá þér að velta vöngum yfir lánunum. Það er hins vegar spurning sem lánastofnanir hefðu átt að spyrja sig ÁÐUR en lánin voru veitt. Eitthvað af þessum lánum er vegna kvótakaup. Þegar horfið verður frá þeirri vitleysu sem nú er við lýði, verður farin einföld leiðréttingarleið, þar sem öll sala og kauup á aflaheimildum verða tekin saman í einn pott. Þeir sem seldu kvóta og tóku við peningum fyrir, þeir taka við skuldum að sömu upphæð, eða að því marki sem niðurjöfnun gefur tilefni til. Málið er nú ekki flóknara en það. Öll þessi viðskipti hafa að ÖLLU leiti verið utan löglegra viðskiptahátta svo ég reikna með að menn vilji fara þessa einföldu leið frekar en lenda í upptöku og lögfræðikostnaði. 

Vinnumarkaður hér mun breytast mikið á næstu tveimur árum. Umframmönnun á mörgum þjónustugreinum, s.s. verslun viðskiptum og bygginagrvinnu, mun dragast saman og leita jafnvægis við eðlilegar þarfir samfélagsins. Hins vegar er nokkuð ljóst að kröfur tímans munu leiða til öðruvísi vinnubragða við vinnslu sjávaráfurða en voru á árum áður og fullvinnsla verða meiri. Það er brýn nauðsyn fyrir samfélagið að stöðva sem fyrst þá þróun sem orðið hefur, að útvegsfyrirtækin taki til sín nánast allt verðmæti sjávaraflans. Það verða fleiri þættir þjóðlífsins að fá  lífsnæringu frá þeirri uppsprettu.

Góður punktur hjá þér Jóhann með hagkvæmni rekstursins. Þegar kvótakerfið var að byrja, á seinni hluta níunda áratugarins, var Ingólfur Arnarson, þáverandi mágur minn að þróa tölvulíkan fyrir rekstrarafkomu fiskiskipa við háskólann í Tromsö í Noregi. Ég hjálpaði honum að hluta með gagnöflun hér á landi. Síðar kom hann hingað með prófessor sínum og haldin var ráðstefna í Háskólabíó, þar sem rekstrarhagkvæmni fiskiskipa var sýnd. Frá þessari ráðstefnu var aldrei greint, vegna þess að allir togarar okkar reyndust koma út með svo miklum kostnaði pr. veidda aflaeiningu að þeir náðu ekki upp fyrir núllið. Það var líklega  ein af ástæðum þess hve hratt var farið í að koma vinnslunni um borð í skipin, til að ná allri arðseminni inn í kostnaðardæmi útgerðanna.

Það er í raun sorglegt hve ráðamenn hafa verið grunnhyggnir að láta LÍÚ gengið nánast eyðileggja eðlilega útgerðarhætti hér á landi. 

Guðbjörn Jónsson, 25.1.2008 kl. 23:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 56
  • Frá upphafi: 164791

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband