Krónan á enga sök á ástandinu

Mig langar að þakka Björgólfi fyrir frásögn sína í Morgunblaðinu í dag, sunnudaginn 26. október 2008. Viðtalið er um margt fróðlegt, þó spyrjandinn hefði að ósekju mátt vera víðsýnni og huga að fleiri þáttum þess er olli hruni bankana.

Ég er ekki sammála Björgólfi um að krónan hafi verið helsta vandamálið í íslensku efnahagslífi.Krónan er einungis verkfæri okkar til verðmætaskipta, bæði innanlands og gagnvart öðrum myntkerfum. Ef við segjum að krónan okkar sé ónýt, eða einskis virði, erum við um leið að segja að við séum ekki að skapa nein verðmæti sem aðrir hafi áhuga á að eignast og að við sjáum ekki fram á að skapa þau verðmæti sem þurfi til að afla meiri erlendra peninga en við notum jafn harðan. Sé staðan sú, fáum við vart margar Evrur til ráðstöfunar, þó skipt væri um mynt.

Allir vita að þetta er ekki rétt. Fiskurinn okkar hefur um langa hríð verið einn sá verðmætasti í heimi og færri fengið en vildu. Orkan í fallvötnum okkar og jarðhitinn í jörðinni er einnig umtalsverð verðmæti, sem við höfum, því miður, ekki enn lært að nýta nógu vel þjóðinni til hagsbóta. Hingað til höfum við selt þessa gullmola okkar á einskonar rýmingarsöluverði til erlendra stórfyrirtækja, sem selja sjálfu sér aðföngin og stýra því sjálf afkomu sinni og hagnaði af rekstrinum hér. Á sama tíma sinnum við ekki þeim þáttum sem eru mun kostnaðarminni í stofnfjárfestingum en líkur eru á að skili þjóðfélaginu margföldu því verðmæti sem álbræðslur skila til verðmætasköpunar hér. Þá er enn ótalið hugvitið sem býr í mörgum ungum og efnilegum snillingum okkar, sem þegar er farið að afla umtalsverðs gjaldeyris.

Við hugsum um og umgöngumst krónuna okkar líkt og þær þjóðir gera við sinn gjaldmiðil, sem styðst við dygra sjóði Seðlabanka þeirra landa. Sjóði sem hafa orðið til á hundruðum, ef ekki þúsundum ára. Þessar þjóðir þurfa ekki að hafa vakandi auga með þeirri verðmætasköpun sem viðheldur verðgildi gjaldmiðilsins, því það verðgildi tryggist frá þessum sjóðum, þannig að daghverfur breytileiki viðskiptakjara breytir ekki grunngildi verðmætis myntarinnar.

Líkja má þessu við atriði sem við ættum að þekkja vel, en það eru uppistöðulón virkjana okkar. Ef við byggðum raforkuframleiðsluna á daglegu rennslu þeirra fallvatna sem notuð eru til raforkuframleiðslu, væri orkumagnið sem við fengjum ansi sveiflukennt. Þannig er umhverfi krónunnar okkar; ansi sveiflukennt eftir innstreymi dagsins, eða mánuðarins.

Til að tryggja stöðugleika í orkuframleiðslu söfnum við upp stórum lónum  af vatni, einskonar sveiflusjóðum, til að tryggja jafna framleiðslu, sambærilegt við að tryggja verðgildi krónunnar með uppsöfnun eignarsjóða.

Það er afar óraunsær barnaskapur að telja okkur, sem einungis höfum u.þ.b. 60 ára sögu peningamyndunar í landinu, og allan þann tíma höfum við eytt öllu sem við höfum aflað okkur, og meira til, í uppbyggingu þjóðfélagsins, að við getum allt í einu tekið stökk og stillt okkur upp í lífsstíl og hugsun, við hliðina á þjóðfélögum sem hafa hundruða, ef ekki þúsunda ára venjuhefðir í umgengni við verðmæti, sem þar að auki eru baktryggð í miklum sjóðum Seðlabanka þeirra.

Í raun erum við í nákvæmlega sömu stöðu og daglaunamaðurinn, sem verður að fá launin sín greidd reglulega til að geta borgað heimilisreksturinn og afborganir lána sinna. Við höfum enga sveiflujöfnunarsjóði (engin uppistöðulón) til að tryggja jafnt og eðlilegt streymi fjármagns að og frá landinu. Lánastofnanir hafa að vísu falið þessa staðreynd nokkuð fyrir almenningi, með stöðugu innstreymi lánsfjár (sem kallað var góðæri).

En, öll ættum við að vita að ef við búum okkur til lífsumgjörð með lánsfé, sem raunverulegar tekjur okkar geta ekki staðið undir, er óhjákvæmilegt að slíkt ævintýri taki enda, þegar allar lántökuleiðir eru tæmdar.

Segja má að almenningi hafi verið haldið svolítið ómeðvituðum um alvarleika stöðunnar, með því að flagga þeirri haldlausu stöðu að ríkissjóður væri skuldlaus, þó erlendar skuldir þjóðfélagsins, sem heildar, væru stöðugt að aukast.

Áður hef ég vikið að, á þessari síðu, ástæðum þess að krónan okkar sé svona verðlítil, en það stafar fyrst og fremst af því hve mikið vantar á að við framleiðum nægan gjaldeyri til greiðslu alls innflutnings, ásamt afborgunum og vöxtum af erlendum lánum. Það sem verið er að segja með því að erlendir aðilar telji krónuna okkar verðlausa, er það að þeir trúa ekki á að við getum neitt á næstunni, skapað krónunni okkar aðfengið verðmæti. Þess vegna verði hún verðlaus utan Íslands, líkt og Matadorpeningar eru utan spilsins.

Sama staða mun verða þó við skiptum yfir í Evru. Allar lánaleiðir okkar eru fullnýttar, þannig að við fáum ekki meiri eyðslulán. Við munum því ekki fá til okkar fleiri Evrur en við framleiðum fyrir. Það  þýðir í raun að tekjur þjóðarinnar verða að duga okkur, hvort sem það verður mælt í krónum eða Evrum.                  


mbl.is Krónan stærsta vandamálið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 14
  • Frá upphafi: 164802

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband