Þeir sem gelta eins og þeim er sigað, eiga von á klappi.

Það er sorglegt að sjá svona ályktun frá kjördæmisráði flokks sem er að staðsetja sig sem stærsti stjórnmálaflokkur landsins. Greinilega er þarna verið að gelta í sömu átt og forystan, án þess að kanna til hlýtar hvað er verið að boða.

Ekki þarf að kafa djúpt til að sjá greinilega hrörnunar og upplausnareinkenni á Evrópusambandinu. Stjórnendum þess hefur ekki tekist að vinna bug á skuldasöfnun og því síður geta gengið þannig frá óreiðuskuldum undangengins áratugs að endurskoðendur fáist til að skrifa upp á ársuppgjörin.

Evrópusambandið er ekki hlutafélag eða einstefnu styrkveitingasjóður. Það er einskonar sameignarfélag, þar sem allar aðildarþjóðir þess bera sameiginlega ábyrgð á rekstri þess og skuldum. Ef við gengjum þar inn nú á næstunni, myndum við að öllum líkindum fljótlega fá í fangið skuldapakka sem væri nægt viðfangsefni fyrir komandi kynslóðir Íslendinga í nokkuð marga áratugi.

En er þetta ekki bara rugl manns sem er á mót ESB?

Mikið væri gefandi fyrir að svo væri, en raunveruleikinn mun heimsækja okkur að þessu leiti, líkt og hann hefur gert varðandi gengdarlausa skuldsetningu okkar eigin þjóðar.

Tekjur ESB hafa ekki dugað fyrir útgjöldum og stöðug fjölgun fátækra ríkja, sem þarfnast mun meiri framlaga fjármagns en þau greiða fyrir aðild, hefur aukið verulega á þennan hallarekstur á undanförnum árum. Þekkt er, að stærstu ESB þjóðirnar hafa undanfarin ár ekki viljað auka framlög sín í hina sameiginlegu sjóði. Ekki mun núverandi ástand heimsfjármálanna bæta úr þeirri stöðu, samhliða því sem fjárþörf ESB mun aukast.

Helstu máttarstólpar ESB reyndu að stilla saman strengi sína vegna bankakreppunnar, með yfirlýsingu um samstilltar aðgerðir. Þau fóru síðan hvert heim til sín og gerðu allt annað en þau höfðu samþykkt, því þarfir landa þeirra voru svo mismunandi.

Fyrirsjáanlegur er mikill samdráttur athafnalífs á evru-svæðinu. Í ágúst s.l. var atvinnuleysi ungs fólks sagt vera 14,9% og miðað við aðstæður eru líkur á að það hafi aukist síðan. Þá hefur komið fram að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn (IMF) segir útlitið einna verst í löndum innan Evrópusambandsins.

Innan ESB er einnig komin af stað togstreyta varðandi gengi evrunnar og sagt að farið sé að hafna evrum sem hafi raðnúmer prentunnar í sumum löndum ESB. Gengi evrunnar er mikilli óvissu háð, ekki síst vegna þess að Seðlabanki evrunnar (ECB) virðist ekki hafa nægt fjármagn í sjóðum sínum til að styðja evruna í þeim hamförum sem nú ganga yfir.

Eins og heimsmálunum er nú háttað, teldi ég það algjört óráð að fara að tengjast ESB við núverandi aðstæður. Hvað evruna varðar, tel ég þverrandi líkur á að hún verði til sem sameiginleg mynt, að þremur árum liðnum og verulegar líkur á alvarlegum áföllum hennar á næsta ári.

Mestar líkur eru einnig á að þeir erfiðleikar sem núverandi bankakreppa framkallar, muni einnig valda sundrun ESB á árunum 2010 til 2011.            


mbl.is Aðildarviðræður við ESB strax
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónas Tryggvi Jóhannsson

Þetta er alveg ótrúlegur pistill hjá þér! Til að byrja með er þetta með endurskoðenduna og ársuppgjörið bara gömul lygasaga sem andstæðingar Evrópusambandsins grípa til reglulega og vísa alltaf í sömu gömlu bresku heimildana sem er löngu búið að sýna fram á að sé bara þvaður - og ferð svo þaðan yfir í að segja að við gætum fengið skuldapakka í andlitið frá ESB, í landi sem er að taka á sig hærri skuldir per einstakling vegna efnahagsóstjórnar en Þýskaland þurfti að gera eftir stríð! Þessvegna er ég hræddur um að þetta sé rugl manns sem er á móti ESB - ekki endilega rugl í þér, heldur fólkinu sem þú ert búinn að vera hlusta á.

Fórsætisráðherra Írlands benti á að þeir hefðu endað einsog Ísland hefðu þeir ekki verið innan Evrópusambandsins með evru. Þrátt fyrir að það sé ekki fullkomnlega samstillt í aðgerðum, þá er þetta það samband og myntbandalag sem við eigum mest tengsl við, og það er því augljóst að þetta er það sem við eigum að stefna að.

Jónas Tryggvi Jóhannsson, 26.10.2008 kl. 19:03

2 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Sæll Jónas! Takk fyrir innlitið og athugasemdina.  Ég er alls ekki óvanur því að mér sé sagt að ég sé að rugla. Það er hins vegar svo skrítið að enn hefur allt ruglið sem ég segið, komið fram í dagsljósið, nokkurnveginn á þeim tíma sem um var talað.

Ég hef aldrei tamið mér það að endursegja það sem ég heyri, án þess að leita staðfestinga á því með eigin heimildaöflun. Reynslan hefur sýnt að endursögn er sjaldnast treystandi. Ég er t. d. næsta viss um að þú veist ekki hvert var aðliggjandi aðstæður og efni þess að forsætisráðherra Írlands viðhafði þessi orð. Margir hafa endurómað þessi orð hans, en út frá hverju spannst sú umræða og hver voru viðmiðin. Það fylgir ekki umræðunni, enda þá óvíst að orðin pössuðu eins vel.

Á síðari hluta fimmta- og á sjötta áratug síðustu aldar, gekk okkur afburða vel að byggja upp íslenskt samfélag, vegna þeirra aðstæðna sem við vorum að koma úr. Þá var ekkert Evrópusamband, en aðstæður vaxtar voru fyrir hendi. Sambærileg staða var með Írland, en það hentar ekki vel ESB sinnum að tilgreina ástæðurnar. 

Guðbjörn Jónsson, 26.10.2008 kl. 20:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 164725

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband