Er Skúli ekki enn farinn að skilja hvað gerðist ?

Einkennileg ummæli framkvæmdastjóra Samfylkingarinnar. Engu líkara en hann hafi lengi verið í Undralandi og viti ekkert hvað hér hefur gerst undanfarinn áratug. Og allt verði gott með því að setja strik fyrir aftan atburðarás síðustu fjögurra mánaða.

Hvort þarna er á ferðinni hroki eða vanþekking ætla ég ekki að dæma um. Hitt er hins vegar alveg ljóst, að afsögn Björgvins skapar Samfylkingunni ekkert frumkvæði við stjórn landsins, enda ákvörðun um afsögn BGS ekki tekin af Samfylkingunni eða í samráði við forystusveit hennar.

Það er akkúrat svona heimskuhroki, eins og Skúli sýnir þarna, sem þjóðin vill losna við úr stjórnmálum og starfi stjórnmálaflokka. Þetta er svo augljós LÝGI og óforskömmuð blekking ,að í raun ætti Skúli þegar í stað að segja af sér sem framkvæmdastjóri. Ef hann gerir það ekki, á Ingibjörg Sólrún að víkja honum úr forystusveit flokksins, annars er forysta Samfylkingarinnar fullkomlega ótrúverðug gagnvart breyttum og heiðarlegri starfsháttum í pólitísku starfi.             


mbl.is Samfylkingin hefur náð frumkvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á margan hátt geta menn orðið af aurunum Apar.

 Fréttin sem þessi færsla er tengd við  ber með sér sannleiksgildi fyrirsagnar þessa pistils. Hér er ekki verið að deila á fréttamenn Mbl.is, heldur þá erlendu sérfræðinga sem eru burðarstoðir þessarar fréttar.  Upphaf fréttarinnar er svona:

Fjármálasérfræðingar segja, að mannaskipti í embætti forsætisráðherra á Íslandi muni ekki hafa áhrif á stöðu íslensku krónunnar á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.

Afar athyglisvert í ljósi þess að EKKERT land utan Íslands, hefur nokkurn tíman litið á íslensku krónuna sem viðskiptamynt annars staðar en á Íslandi. Af þeirri ástæðu einni er ljóst að á  alþjóðlegum fjármálamörkuðum  er krónan ekki einhver hluti fjármálakerfa og hefur aldrei verið. Af þeirri ástæðu einni, á öllum sérfræðingum á sviði fjármála,  að vera ljóst að mannabreytingar í ríkisstjórn Íslands breyta engu á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.

Hins vegar er flestum ljóst, sem skoða málin vandlega, að sérfræðingar fjármálafyrirtækja, eru út um allan heim að leita að gróðaleiðum, fyrir þá sem fjármunum og fjárhæðum safna.  Þegar gengisskráning krónunnar var gefin frjáls árið 2001, fóru Íslendingar í stórauknum mæli að leita eftir erlendu lánsfé. Sérfræðingar  fjármagnseigenda fóru þá að skoða þetta örríki og við fyrstu sýn virtist þetta vænleg gróðaleið. bankarnir sýndu mikinn hagnað og vextir voru margfallt hærri en hægt var að fá í nokkrum öðrum siðuðum ríkjum veraldarinnar. Við fyrstu sýn var þarna því gott gróðatækifæri.

Í fyrstu lánuðu fjármagnseigendur íslensku bönkunum, með milligöngu sinna erlendu banka. Þetta reyndist engin sérstök gróðaleið, því erlendu bankarnir voru háðir reglum um vaxtaprósentur, svo hagnaður vaxtamunar, rann fyrst og fremst til íslensku bankanna, sem lánuðu féð aftur út á Íslandi. Eftir nokkra tilraunastarfsemi fóru erlendu fjármagnseigendurnir að kaupa íslenskar krónur. Enginn hörgull var á slíku, því Íslendingar voru svo sólgnir í erlendan gjaldeyri að þeir virtust aldrei fá nóg.

Kaupin á íslensku krónunni voru ekki til þess gerð að nota hana í viðskiptum á öðrum myntsvæðum, heldur til þess að lána hana aftur út á Íslandi og fá í eigin vasa hina himinháu vexti sem greiddir voru á Íslandi. Meðan gjaldeyrisstreymi til og frá landinu var ótakmarkað, gekk þetta ágætlega og hinir erlendu fjármagnseigendur gátu flutt stórgróða sinn hindrunarlaust úr landi. Þetta breyttist hins vegar þegar hömlur voru settar á gjaldeyrisflæðið út úr landinu. Hinir erlendu fjármagnseigendur höfðu engan áhuga á að flytja gróða sinn úr landi sem íslenskar krónur, því krónan var hvergi viðskiptamynt nema á Íslandi.  Í fréttinni segir aftirfarandi:

Fram kemur að fjárfestar séu afar tortryggnir í garð íslenskra stofnana eftir bankahrunið, sem varð í október en margar fjármálastofnanir hafa tapað miklu fé á falli bankanna. Þetta leiðir til þess, að lítil sem engin alþjóðleg viðskipti eru með krónuna.

Alþjóðleg viðskipti hafa aldrei verið með íslenska krónu. Þetta er bull sem fjármálamarkaðurinn er að reyna að halda lifandi í von um að geta, í það minnsta að hluta til, endurreist tekjuumhverfi sitt, af því að færa fjármuni fram og til baka á milli nokkurra fjármagsneigenda.  Lítum á aðeins meira af bulli í þessari frétt. Þar segir:

Alþjóðleg matsfyrirtæki lækkuðu lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins verulega á síðasta ári. Haft er eftir Michael Ganske, sérfræðingi hjá Commerzbank, að veikindi íslenska forsætisráðherrans og nýjar kosningar bæti ekki úr skák.

 Þessi blessaði sérfræðingar sem þarna tjáir sig, hefur greinilega enga þekkingu á því umhverfi sem skapar íslensku þjóðinni tekjur. Ég held að langsótt sé að ætla að veikindi Geirs komi til með að fella verð á Áli eða fiski. Og ekki reikna ég með að veikindi hans leiði til verðhækana á erlendum aðföngum.  Þetta er því vægt til orða tekið heimskubull, sem nánast er til vansa að hafa eftir. Og þessi blessaði maður bætir um betur með eftirfarandi:

Og þótt ekki sé hægt að segja að íslenska ríkisstjórnin hafi verið sérlega farsæl muni þessir atburðir enn auka á óstöðugleikann. 

Blessaður maðurinn virðist ekki hafa aflað sér neinna frétta frá Íslandi, þvi hefði hann gert það, hefði hann geta lesið úr því að mesti óstöðugleikinn stafaði af meintu aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar, sem öll þjóðin vænti að úr rættist og ró kæmist á, að afloknum kosningum.

Og í fréttinni er vitnað í enn einn sérfræðinginn sem segir eftirfarandi:

Kenneth Orchard, sérfræðingur hjá matsfyrirtækinu Moody´s, segir að fylgst verði grannt með stöðu mála á Íslandi næstu mánuðina. Nauðsynlegt sé að þar komist á stöðugleiki þannig að stjórnvöld geti slakað á þeim höftum, sem sett hafi verið á gjaldeyrisviðskipti og peningamál.

Þessi maður er svo greinilega EKKERT að hugsa um batnandi lífskjör þjóðarinnar. Hans hugsun snýst fyrst og fremst um að á komist nauðsynlegur stöðugleiki. Hann er ekki að hugsa um að þá lækki verðbólgan og lífskjör þjóðarinnar batni. NEI, hann er að hugsa um að þá: geti stjórnvöld  slakað á þeim höftum, sem sett hafi verið á gjaldeyrisviðskipti og peningamál.  

Hvað sagði ég hér að ofan. Eina virka aflið í áhuga þessara erlendu fjármála sérfræðinga,  er að komast aftur inn á þennan hávaxta lánamarkað og geta óhindrað flutt gróða sinn jafnharðan úr landi. Þeir hafa engan áhuga á að afrakstur af íslensku atvinnu- og viðskiptalífi sé notað til að byggja hér upp og auka lífsgæði, eða greiða öðrum fjárfestum sínar erlendu skuldir. 

Það er gróði þeirra sjálfra sem þeir eru fyrst og fremst að hugsa um.                 


mbl.is Stjórnarskipti breyta engu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjar eru hugmyndir mótmælenda og hvernig á að koma þeim í framkvæmd ?

Mikilvægt er að þeir sem standa fyrir mótmælum hafi skýra mynd af þeim breytingnum sem þeir vilja ná fram og geti séð fyrir sér hvernig hún verði að veruleika. Jafnframt er nauðsynlegt að þeir sýni að þeir gangi ekki svo fram í eigin vinsældakappi, að aðgerðir þeirra skaði heildarhagsmuni þjóðarinnar, því þá væri verr af stað farið en heima setið.

Ein af aðalkröfum mótmælenda var að kosið yrði strax, sem eðli málsins samkvæmt gat varla orðið fyrr en í vor.  Nú er búið að ákveða að kosið verði í maí. Það mál er því í höfn.

Næsta krafa var að ríksistjórnin færi strax frá og mynduð yrði önnur stjórn eða jafnvel utanþings stjórn.  Þessi krafa var mikilvæg ef ekki næðist fram samstaða stjórnarflokkanna um að kjósa í vor. Bráðabirgðastjórn, hvort sem væri skammtíma minnihlutastjórn á Alþingi eða utnaþingsstjórn, hefðu í raun afar takmarkaðar heimildir og möguleika til annarra aðgerða en sem heyrðu til venjulegs reksturs þjóðfélagsins. Við slíkar aðstæður yrðu allar hjálparaðgerðir til handa heimilum og atvinnulífi afar erfiðar og vafasamt að aðgerðir yrðu stórtækar fyrr en eftir kosningar og myndun nýrrar ríkisstjórnar.

Í ljósi þess að kosningar eru ákveðnar í vor, má segja að uppi sé heppilegasta staða sem við getum haft; að núverandi stjórn verði við völd fram að kosningum. Hún hefur öll nauðsynleg völd og umboð til að grípa til þeirra aðgerða sem samkomulag næst um. Verkefnið framundan er því að finna leiðirnar sem fara skal og koma þeim leiðum á framfæri við ríkisstjórn og alþingismenn. Í aðdraganda kosninga munu þessir aðilar ekki standa mjög þversum fyrir úrbótum sem augljóslega njóta stuðnings mikils hluta þjóðarinnar.

Nú þegar er hafin vinna við endurskipulagningu lýðveldis okkar, án þess að nokkur hafi verið laminn eða grýttur. Í þeim hópi hefur verið lögð áhersla á málefnin í stað hávaða og illinda. Líkur benda til að frá þeim hópi komi hugmyndir um breytt þjóðskipulag, sem færa mun okkur mun betra, opnara og kærleiksríkara samfélag en það sem við höfum lifað við.

Í ljósi þeirrar stöðu sem mér sýnist komin upp, sé ég ekki þörf fyrir frekari hróp, köll eða barsmíðar. Þeir sem vilja haga sér eins og óþekkir krakkar í sælgætisbúð, geta svo sem haldið hávaðanum áfram, meðan hinir leitast við að bjarga því sem hægt er að bjarga. Fólki verður væntanlega ekki bannað að hrópa og berja potta og pönnur, en hver metur þörf sína fyrir slíkt, eftir hæfileikum til að skynja alvarleika þeirrar stöðu sem við erum í.                              


mbl.is Landsmenn taki þátt í friðsömum mótmælum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pistill fluttur á Útvarpi Sögu í hádeginu 21.01.09

Ég velti fyrir mér hvort þeir mótmælendur sem ganga fram með yfirgangi gegn lögreglu og ásetningi um að skemma eða eyðileggja verðmæti, geri sér grein fyrir stöðu þjóðfélagsins. Eða hvort þeir séu að vænta þess að aftur sé hægt að hverfa til þess tíma sem var fyrir bankahrunið.

Við þurfum að gera okkur grein fyrir hvað í raun og veru gerðist á þessum tíma. Það er bara partur af heildarmyndinni að auðjöfrar og útrásarvíkingar hafi með vafasömum hætti mokað fjármunum út úr bönkunum. Það athæfi er ekki að breyta daglegu líf okkar, nema að litlu leiti.

Við þurfum að horfast í augu við það að allt þjóðfélag okkar hafði þanist út í peningadýrkun og eftirsókn eftir meiri peningum. Manngildi, heiðarleiki og trúmennska viku til hliðar, svo umfang peningalegra lífsgæða yrðu sýnilegri.

Allt þetta umfang var drifið áfram af erlendu lánsfé, þó það væri einungis lítið brot af heildarskuldsetningunni, þá var það innflæði lánsfjár nógu mikið til að rugla dómgreind stórs hluta þjóðarinnar.

Það sem fyrst og fremst breyttist við bankahrunið, var að innstreymi lánsfjár til þjóðfélagsins stoppaði; hafði reyndar stoppað nokkru fyrr. Þá kom strax í ljós hvaða starfsemi í þjóðfélaginu hafði verið drifin áfram með stöðugum lántökum, því sú starfsemi stöðvaðist þegar í stað.

Hve samdrátturinn í þjóðfélaginu verður mikill er ekki orðið ljóst enn, en okkur er afar nauðsynlegt að átta okkur á, að það þjóðlíf sem byggðist á drifkrafti erlendrar lántöku, mun ekki koma aftur; sama þó við skiptum um fólk í stjórnunarstörfum.

Við þurfum öll að horfast í augu við það, að öll eigum við okkar part af því að svona er komið fyrir þjóðlífi okkar.  Hvort auðjöfrar og útrásarvíkingar hafa svikið einhverjum milljörðum meira eða minna út úr bönkunum hér, mun tæplega lenda á herðum skattgreiðenda, þar sem bankarnir eru hlutafélög, sem ríkissjóður er ekki eignaraðili að.

Það sem að okkur snýr, fyrst og fremst, er að endurskipuleggja þjóðfélagsgerð okkar, miðað við þær aðstæður sem framundan eru. Það er ekki bara það, að þeir einstaklingar sem stjórnuðu bönkunum höfðu ekki ábyrgðartilfinningu eða raunhæft mat á möguleikum sínum til endurgreiðslu þess lánsfjár, sem þeir tóku að láni í útlöndum, sem veldur álitshnekki okkar erlendis. Það er ekki bara það að ríkisstjórnin, Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið, hafi brugðist eftirlits og stýringarhlutverki sínu. Það sem veldur álitshnekkinu er að meginþorri þjóðarinnar skildi taka þátt í þessari vitleysu, án þess að leiða hugann að afleiðingum svona mikillar skuldsetningar erlendis.

Við þurfum að átta okkur á því að hávær mótmæli, með aðsúgi að lögreglu, yfirgangi og skemmdastarfsemi, skilar okkur engu til baka af töpuðu áliti.  Frekar að það undirstriki ábyrgðarleysi gagnvart þeirri stöðu sem upp er kominn; og varð til án þess að nokkur, þeirra sem nú hrópa og valda skemmdum, hreyfði mótbárum. Þeir eiga því sinn þátt í því ástandi sem upp er komið, og eru því, með framgöngu sinni, jafnframt að mótmæla sínu eigin sinnuleysi um langtíma afkomu þjóðfélagsins, sem þeim þykir nú svo afar vænt um.

Ég er með þessu ekki að mótmæla mótmælum, heldur fyrst og fremst að benda á að mótmæli geta verið tvennskonar; niðurrífandi eða uppbyggileg. Við  höfum fá dæmi um að mótmæli, til að fá útrás fyrir reiði, hafi skilað umtalsverðum úrbótum. Hins vegar höfum við mörg dæmi um að friðsöm mótmæli, sem byggð eru á virðingu fyrir mannréttindum og lífi annarra, hafi skilað umtalsverðum árangri. Í því samhengi má minna á mótmælin hjá Gandi, Mandela, og kannski ekki síst vegna gærdagsins í Bandaríkjunum, minna á mótmæli Marteins Lúter King, nú þegar Obama verður forseti Bandaríkjanna.

Við eyðum bæði tíma og orku með því að ganga ekki markvissar og af einurð fram með skýrar kröfur um endurskipulegningu þjóðfélagsins.
                  


Þeir sem veitast að lögreglu..........

eru ekki að mótmæla ríkisstjórn eða alþingismönnum, bankamönnum eða öðrum þeim sem komið hafa þjóðinni í þá erfiðleika sem við erum nú í.  Þeir sem veitast að lögreglunni eru aðilar sem leita eftir tækifærum fyrir ofbeldishneigð sína. Þeir bera enga virðingu fyrir eignum eða réttindum annarra, líkt og ljóst hefur orðið að undanförnu.

Ég vil ekki skipta úr því þjóðfélagi sem við höfum lifað undanfarið, yfir í það þjóðfélag sem þessi hópur kynnir fyrir okkur. Það er greinilega litla hamingju að finna í þannig þjóðfélagi.                 


mbl.is Hættið að kasta sprengjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Augljós mistök við gerð skiptasamnings

Þarna verður héraðsdómi heldur betur á í messunni.  Við skilnaðinn var stofnfjáreign skráð hjá Sp.Vestm. sem ákveðin XX upphæð í bókum sparisjóðsins. Það var ekki búið að ógilda þau, þess vegna voru þau í fullu gildi.  Hvort seljanleg staða þeirra, á þeim tíma sem hjjónin voru að skilja, var lítil eða mikil skiptir ekki máli. Konan átti að fá helming eignaskráningarinnar yfir á sitt nafn, við helmingaskiptareglu skiptasamnings. Það var verið að skipta eignum og þarna var skráð eign, óháð því hvort hægt væri að selja hana.

Stundum vantar dómarana dómgreind.                


mbl.is Stofnfé í sparisjóði ekki til skipta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.10.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 166180

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2009
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband