Bloggfærslur mánaðarins, maí 2020

SÝNISHORN ÚR BÓKINNI SEM ÉG ER AÐ SKRIFA

Er sá möguleiki fyrir hendi að um hafi verið að ræða gróf réttarfarssvik, þar sem fullskipaður Hæstiréttur, felldi dómsúrskurði um atriði sem ekki var reifað í héraðsdómi eða fyrir Hæstarétti? Hæstiréttur fellir úrskurð sem þá var þvert gegn gildandi lögum, án þess að slíkt hafi í málsmeðferðinni komið til umræðu eða verið skjalfest. Er dómsniðurstaða Hæstaréttar, sem á sér enga lagastoð en er þvert gegn gildandi lögum í landinu; er slík niðurstaða löggilt dómsorð, eða glæpur? Þessi atrið verður að kanna ofan í kjölinn af hlutlausum aðilum.

Ríkisskattanefnd er í sjálfu sér sjálfstæð en eiginlega stjórnarfarsleg undirstofnun fjármálaráðuneytis. En þar sem ríkisskattanefnd var ekki aðili að dómsmálinu, varð fjármálaráðherra að stefna Hrönn hf., til ógildingar ákvörðunar ríkisskattanefndar.

Í dómsskjalinu eru málavextir sagðir þeir að Hrönn hf. hafi á árinu 1989 keypt aflakvóta til fiskveiða fyrir 83.070.100, krónur. Annars vegar hafi verið um að ræða aflahlutdeild (langtímakvóta), sem veiti ótímabundna heimild til fiskveiða á nytjastofnum hér við land. Hins vegar hafi verið um að ræða kaup á aflamarki (skammtímakvóta) sem einungis gildi til eins árs í senn, frá 1. september, til 31. ágúst á næsta ári.

Eins og málið var þarna sett upp var þar fyrst og fremst um að ræða skjalfesta játningu á alvarlegu lögbroti.  Útgerð Hranna hf. játar á sig að hafa á árinu 1989, greitt rúmar 83 milljónir króna til annarra útgerða, vegna kaupa á ætluðum verðmætum ríkiseigna, sem frá hendi löggjafans var ekki til sölu og ekki til afhendingar, nema gegn samþykki sjávarútvegsráðuneytis. Ekkert í málsmeðferðinni benti til þess að Hrönn hf. hafi ekki fengið afhentar frá hendi sjávarútvegsráðuneyti, þær aflaheimildir sem útgerðin keypti, þó sjávarútvegsráðuneytið bæri sjálft ábyrgð á að gæta þess að farið væri með aflaheimildir að lögum, í allri umsýslu ráðuneytisins.

Það sem var náttúrlega umtalsvert alvarlegra en millifærsla aflaheimilda, var sá alvarlegi atburður að sjávarútvegsráðuneytið viðurkenni í raun SOLU tiltekinna aflaréttinda, til óskilgreindrar framtíðar. Og þrátt fyrir stjórnarfarslega stöðu sjávarútvegsráðuneytis, og að það hafi eðlilega vitað að slíkt söluferli hafi aldrei verið til, samkvæmt íslenskum lögum, virðist sjávarútvegsráðuneytið fullgilda söluna með því að færa hinar seldu aflaheimildir, frá seljendum yfir til Hrannar hf. Og líklega umtalsvert fleiri sölur. Sjávarútvegsráðuneytið virðist þannig opinberlega aðstoða við alvarlegt afbrot í málaflokki sem það sjálft átti að gæta þess að allt færi fram eftir settum reglum og lagaheimildum.

Hér virðist einungis hafa verið dregið fram lítið brot heildarmyndar fjölda lögbrota sama eðlis, eftir því sem fram kemur í hinum ritaða dómi héraðsdóms Reykjavíkur. Í dómsskjalinu segir að svar Hrannar hf. við þeirri ákvörðun skattstjóra að eignfæra keyptan langtímakvóta og fyrna.

Í fyrsta lagi kemur fram hjá lögmanni Hrannar hf. „að hann teldi, að það hefði enga lagastoð að eignfæra og fyrna keypta kvóta.“   Síðan segir í dómsskjalinu um kröfu Hrannar hf. að: „til vara, að kaupin yrðu eignfærð, en afskrifuð á þremur árum, þar sem kaupverð aflahlutdeildarinnar væri þrefalt það verð, sem greitt væri fyrir aflamark.“  

Þarna koma fram athyglisverð ummæli í ljósi þess, eins og áður hefur komið fram, að eigendaskipti á aflaheimildum ársins voru einungis heimilar milli skipa sömu útgerðar eða verstöðvar.  Þrátt fyrir að frá stjórnvöldum fari aflaheimildir verðlausar, virðist af orðalagi lögmanns Hrannar hf. mega ráða að sala aflaheimilda væri það algeng meðal útvegsmanna, að ákveðið verðgildi hafi myndast, eins og kemur fram hjá lögmanni Hrannar hf., um að:   kaupverð aflahlutdeildarinnar væri þrefalt það verð, sem greitt væri fyrir aflamark.“

Þarna er einnig rétt að benda á hugtakanotkun sem ekki var komin inn á borð löggjafans. Er þar um að ræða hugtakið aflahlutdeild“. Í málinu virðist þetta nafn vera notað um það sem þeir kalla að kaupa „langtímakvóta“.  Það hugtak var ekki til í lögtekinni skilgreiningu eininga eða athafna við þáverandi fiskveiðistjórnun. Samkvæmt lögum þess tíma sem þarna um ræðir, var skylt að tilkynna sjávarútvegsráðuneytinu fyrirfram um allar tilfærslur aflaheimilda. Og að slíkar tilfærslur tækju ekki gildi fyrr en eftir að ráðuneyti hefði staðfest móttöku tilkynningarinnar.

Í ljósi þáverandi orðræðu í samfélaginu, um miklar tilfærslur aflaheimilda og jafnvel því að handhafar að gjaldfrjálsum hluta/hlutfalli heildarafla úthlutunarárs, hafi selt gegn háu verði væntanlegt hlutfall sitt í úthlutun næstu ára. Þegar litið væri til þeirra tilvika sem hlutu að vera að baki orða lögmanns Hrannar hf. um hið þekkta verð að aflahlutdeild, sem væri seld á þreföldu verði aflaheimilda ársins, hlýtur að vakna spurningar um hvort sjávarútvegsráðherra, eða starfsmenn undir hans stjórn, hafi verið beinir eða óbeinir þátttakendur í þeim meintu ólögmætu viðskiptum, að selja aflamark eða svonefnda aflahlutdeild milli skipa. Og að ráðherra eða starfsmenn ráðuneytis hafi staðfest þau með tilfærslu úthlutaðra aflaheimilda næsta árs, til kaupandans frá síðasta ári. Óhætt er að segja að slík vinnubrögð liggi óbeint á borðinu,  og með breyttri úthlutun milli skipa, fyrir árslok 1990, væri hægt að staðfesta aðild sjávarútvegsráðuneytis að slíku atferli gegn þeim hagsmunum sem ráðuneytið átti að verja. Undir þeirri óopinberu atburðarás sem hér hefur verið dreginn upp, eru vísbendingar um það alvarleg brot stjórnvalds, gegn stjórnskipan landsins, að slíkt hlýtur að krefjast ítarlegrar opinberrar rannsóknar.


Íhlutun Umboðsmanns barna í kjaradeilu stéttarfélags OPIÐ BRÉF

Umboðsmaður barna

Salvör Nordal

Kringlan 1,

103 Reykjavík.

Reykjavík 6. maí 2020.

 

ERINDI: Vegna undarlegrar íhlutunar Umboðsmanns barna í  kjaradeilu stéttarfélags við nokkur sveitarfélög.

 

Undirritaður hefur um nokkurt skeið unnið að skráningu ýmissa atriða er varða samspil aðgerða Alþingis og stjórnkerfis okkar, með hliðsjón af samhljómi við stjórnarskrá Íslands, önnur landslög og sáttmála Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi og réttindi barna. Því miður varð þessi efnisflokkur mun umfangsmeiri en ætlunin var í upphafi, vegna næsta óstöðvandi straums umdeilanlegra atriða frá Alþingi og stjórnvöldum. Og nú á dögunum bættist við enn eitt atvikið, sem á vef Kvennablaðsins s.l. laugardag var stutt góðum heimildargögnum. En um hvað snýst málið.

Fyrir fáeinum dögum dögum kom ung stúlka fram í fréttum sjónvarps, vegna þess tilefnis að hún hefði skrifað bréf til Umboðsmanns barna. Efni bréfsins var ekki birt en lauslega kynnt. Af þeirri kynningu og svörum stúlkunnar virtist bréfið hafa verið skrifað til að kvarta undan lítilli skólagöngu í vetur. Einnig að henni fyndist enn vera ógn framundan varðandi skólastarf, þar sem yfirvofandi væri verkfall starfsmanna í skólum, í nokkrum sveitarfélögum, sem mundi bitna á skólanum hennar og fleiri skólum.

Á vef Kvennablaðsins 2. maí s.l. kemur svo fram færsla frá formanni stéttarfélagsins Eflingar, sem vísar í erindi frá þér varðandi  þetta málefni. Og birtir bréf frá þér til stéttarfélagsins, þar sem fram kemur að þú hafir fengið bréf frá fleiri börnum, búsettum í þeim sveitarfélögum sem ekki hafa enn lokið gerð nýrra kjarasamninga við starfsfólks umrædds stéttarfélags, sem hafi verið samningslaus í rúmt ár. Þú segir börnin öll lýsa áhyggjum varðandi þetta sama málefni. Síðan segir í bréfi þínu:

„Umboðsmanni barna ber að vinna að því að tekið sé fullt tillit til réttinda, þarfa og hagsmuna barna. Þá ber umboðsmanni að setja fram ábendingar og tillögur um úrbætur sem snerta hag barna sbr. 3. gr. laga nr. 83/1994.“

Ekki er hér dregið í efa hvert hlutverk Umboðsmanns barna er. Hins vegar vekur nokkra undrun á hvern hátt umboðsmaður tekur á slíkum „erindum“, sem komin eru frá börnum sem búsett eru í viðkomandi sveitarfélögum. Samkvæmt kynntum efnisliðum málsins, hefði mátt telja eðlilegt fyrsta skref Umboðsmanns barna, að skýra fyrir börnunum hvers vegna, af hvaða ástæðum og í hvaða tilgangi skólastarf hafði verið svo lítið á önninni, sem raun ber vitni. Af kvörtunum virðist mega ráða að afar takmörkuð þroskandi umræða um samfélagsmálefni, hafi farið fram á heimilum þessara barna. Hafi sú umræða farið fram, virðist koma þarna fram meiri sjálfshyggja en vænta hefði mátt, en slíkt virðist oft einkenna börn og ungmenni sem hafi verið leyft að slíta sig frá raunveruleikamynd samfélagsins.

 Hér að framan er vísað til þess hverjar þú telur meginskyldur umboðsmanns barna vera. Þar segir þú þær vera að: vinna að því að tekið sé fullt tillit til réttinda, þarfa og hagsmuna barna. Þegar litið er í 1. gr. laga nr. 83/1994, Lög um Umboðsmann barna, er áhersluatriðum þar raðað á annan veg. Þar segir að: Embætti umboðsmanns barna hefur það hlutverk að bæta hag barna og standa vörð um hagsmuni, þarfir og réttindi þeirra, m.a. samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og fleiri alþjóðasamningum, svo sem nánar greinir í lögum þessum.

Mikilvægustu markmið laga eru alltaf skilgreind í 1. gr. laga og áhersluatriðum raðað upp eftir mikilvægi þeirra sem heild. Þannig að mikilvægasta sjónarmiðið er sett efst og viðfangsefnin raðast síðan eftir mati löggjafans á mikilvægi þeirra innan heildarverksins.

Í lögum nr. 83/1994, er í 1. gr. raðað niður atriðum sem umboðsmaður barna á að standa vörð um. Efst í þeirri upptalningu eru hagsmunir barnsins. Annað í upptalningunni eru þarfir barnsins. Þriðji og síðasti liðurinn í upptalningu þrepunarlista mikilvægustu sjónarmiða eru réttindi.

Þegar þessi uppröðun er ígrunduð af athygli, verður að teljast eðlilegt að setja efst á lista hagsmuni barnsins. Hagsmunir barns eru fyrst og fremst tengdir því hvernig búið er að barninu í fjölskyldu þess og nærumhverfi og hvernig fjölskyldunni sem heild vegnar í sinni stöðu innan samfélagsins. Samtengt þessu eru svo þarfir barnsins. Þó eðli máls samkvæmt teljist meginhluti þarfa þess vera í verkahring foreldra eða forráðenda, mundi það teljast í verkahring Umboðsmanns barna, að láta stjórnvöld vita ef skortur á skýrri löggjöf  væri að valda erfiðleikum við að uppfylla eðlilegar þarfir barns. Hlutverk hins opinbera í þessu sambandi er fyrst og fremst að tryggja félagsleg réttindi og fjárhagslega lágmarksafkomu fjölskyldunnar, sem frumþarfir barna snúast einkum um, en því til viðbótar hlúa að menntun, tómstunda- og íþróttastarfi barna.

Neðst í ofangreindri uppröðun er sá þáttur sem ævinlega næst síðast að uppfylla. Og verður fyrstur til að víkja þegar kreppir að, en það eru réttindi. Allir menn, óháð aldri, andlegri eða líkamlegri getu, trúarbrögðum, kynþáttum eða hverjum öðrum atriðum sem nefna má, EIGA SÖMU RÉTTINDI.  Afar lítill hluti mannkyns lifir við meginþorra þeirra réttinda sem upp eru talin í Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Og Barnasáttmáli sameinuðu þjóðanna er efnislega samhljóða þeirra sem eldri eru en hefur þó viðbót er varðar: aðbúnað, menntun og þroska barna.

Þegar litið er til þess að í bréfi þínu til Eflingar tiltekur þú sem fyrstu áherslu í verkefni þínu vera þá að vinna að réttindum barna. En uppröðun þinni eru hagsmunir settir í síðasta sæti.  Eðlilega þurfa að fást svör við því hvort Alþingi og/eða viðkomandi ráðherra hafi veitt heimildir til að snúa svo rækilega á hvolf uppröðun mikilvægra skilgreininga innan markmiða laganna.

Einnig er vert að líta til þess að erindum barnanna til þín, hafir þú ekki beint til forsvarsmanna viðkomandi barna, heldur tekið þér vald forráðenda barnanna til að senda erindin, án athugunar til formanns viðkomandi stéttarfélags. Ekki  verður séð í lögum nr. 83/1994, um Umboðsmann barna, heimild til að beita málefnum ósjálfráða barna, án samráðs við forráðamenn þeirra, til að hafa áhrif á deilumál á opinberum vettvangi, sem eru í lögmætum farvegi lausna.   

Eðlilega verður manni hugsað til yfirvegaðrar vandvirkni embættis þíns við afagreiðslu alvarlegra mála, þegar svo miklir meinbugir koma fram við afgreiðslu jafn einfalds málefnis og þarna var á ferð.  Eðlilegt má telja að börnin hafi vegna ungs aldurs og þar af leiðandi lítils samfélagslegs þroska, ekki verið meðvituð um hvar og hvernig þau geti leitað öruggra upplýsinga. Vaknar þar mikilvæg spurning, bæði til uppalenda en ekki síður til skólastarfsins.

 samhliða því sem undanfarin ár hefur virst afar villandi framsetningar á mikilvægustu hagsmunum barna, hvort sem litið væri til stjórnarskrár okkar, Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eða laga um Umboðsmann barna, virðast þeir sem í forystu fara beina athygli burt frá mikilvægustu málefnum Barnasáttmála og Stjórnarskrá, með því að setja RÉTTINDI barna framar en mikilvægustu þætti Barnasáttmálans, sem eru hagsmunir barns og þarfir í víðum skilningi, en þar á eftir komi réttindin. Slík er uppröðunin bæði í Barnasáttmálanum og lögunum um Umboðsmann barna.  

Nú vill einnig svo til að í Íslenskum lögum, stjórnarskrá okkar og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, eru börn undir 18 ára aldri ekki það sem lögin kalla sjálfráða, heldur undir lögræði, umsjá og á ábyrgð foreldra sinna. Börn eru því ekki sjálfstæðir málsaðilar opinberrar umkvörtunar vegna atburða sem ekki hafi verið orðnir að veruleika. Það væri fróðlegt að fá skýringu á því hvers vegna ekki var farin hin lögbundna leið við þær aðstæður sem sköpuðust, áður en ákvörðun var tekin um aðgerðir af hálfu umboðsmanns barna. Eðlilegra hefði verið að setja sig í samband við foreldra eða forráðendur þessara barna og athuga hvort þau vildu árita erindi barns síns, sem lögráðandi þess.

Að sinni ætla ég ekki að hafa fleiri orð um þau alvarlega vanhugsuðu viðbrögð sem Umboðsmaður barna sýndi af sér í umgreindu máli. Ég áskil mér rétt til að leggja fram frekari spurningar síðar, ef ástæða þykir til, en vænti þeirra skýringa sem óskað er.  

Virðingarfyllst

Guðbjörn Jónsson


Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband