Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Birkir! Hvers vegna spyrð þú aðra um skammarstrik Framsóknarflokksins???

Þetta er afar undarlegt útspil hjá Birki.  Það var Framsóknarflokkurinn sem  kom á tengingum elli- og örorkulífeyri við tekjur maka. þeir létu sér ekki duga að brjóta stjórnarskrá á giftu fólki. Þeir gerðu einnig upptækar tekjur einstaklinga í óvígðri samúð.  Í öllu sínu athæfi, sýndu þeir þekkingarleysi á því sem þeir voru að gera og létu sér alls ekki detta í hug að leiðrétta þessa vitleysu, þó þeim væri bent á óhæfuna í verkum sínum.

Grundvallarregla er, að tekjur hvers og eins eru hans persónulega séreign sem stjórnvöldum er óheimilt að gera kröfur í til framfærslu eða ráðstöfunar, öðrum til handa. Þó tveir einstaklingar ákveði að reka saman heimili, veitir það stjórnvöldum ekki rétt til að færa skyldu sína til aðstoðar við framfærslu, verði annar aðilinn ófær um að afla tekna til slíks sjálfur, yfir í tekjur hins aðilans. Þetta er þeim ekki heimilt, því eins og segir í 72. gr. stjórnarskrár: Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta eign sína af hendi nema almannaþörf krefji. Þarf til þes lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.

Vonandi blandast engum, nema kannski Framsóknarmönnum, hugur um að tekjur hvers einstaklings eru eign hans. Þessi eign á að vera varin framangreindu ákvæði stjórnarskrár. Stjórnvöld hafa hins vegar leyft sér að brjóta þessi grundvallarréttindi á þeim einstaklingum sem síst skyldi; þeim sem minnsta hafa getuna til að afla sér tekna til lífsviðurværis. Stórmannlegt athæfi, eða hitt þó heldur.

Þá hafa stjórnvöld leyft sér að rangtúlka hjúskaparlögin í óprúttnum aðförum sínum að framfærslueyri þeirra sem ekki geta sjálfir aflað sér hans með vinnu. En í 76. gr. stjórnarskrár segir eftirfarandi:

[Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika.

Eins og þið sjáið væntanlega stendur ekki þarna. -Öllum nema þeim sem eru giftir...-.  Eða -Öllum nema þeim sem halda heimili saman...- Nei, þetta stendur ekki í upphafsorðum 76. gr. stjórnarskrár. Þar stendur einfaldlega orðið ÖLLUM, og þar með talið þeim giftu líka.

En hvernig stendur þá á því að stjórnvöld leyfa sér að gera upptækar tekur einstaklinga til að greiða kostnað sem þeim er sjálfum skylt að greiða, samkvæmt ákvæðum stjórnarskrár?

Ástæða þess er sú að einhverjir illa læsir óvitar í ráðgjafahópi Framsóknarmanna (sem þá réðu heilbrigðisráðuneyti) fundu út það snilldarbragð, að í 46. gr. hjúskaparlaga væri ákvæði sem frelsaði stjórnvöld undan þessum skyldum sínum.  Af því að þessir aðilar voru óvitar, gerðu þeir sér ekki grein fyrir því að almenn lög, leysa stjórnvöld ekki undan skyldum stjórnarskrár og geta ekki heldur fært skyldur stjórnvalda yfir á ótilgreinda einstaklinga.

En hvað stendur þá í 46. gr. hjúskaparlaga? Þar stendur:

Hjón bera sameiginlega ábyrgð á framfærslu fjölskyldunnar.

Á venjulegri Íslensku þýðir þetta að báðir aðilar bera sameiginlega (þ. e. jafna) ábyrgð á framfærslu fjölskyldunnar. Þetta þýðir í raunveruleikanum að verði annað hjóna óvinnufært, ber það samt sem áður helming ábyrgðar á framfærslu fjölskyldunnar. Þá skyldu er ekki hægt að yfirfæra á annan sjálfstæðan einstakling; ekki einu sinni þó sá hafi undirgengist hjúskaparsáttmála með hinum tekjulausa, því sá sem tekna aflar á kröfu á, samkvæmt 46. gr. hjúskaparlaga að hinn aðilinn standi undir helmingi af framfærslu heimilisins. Til þess að geta það, hefur sá tekjulausi tryggingu í 76. gr. stjórnarskrár, og undan þeirri skyldu samfélagsins eiga heilbrigð stjórnvöld ekki að geta komist.

Þessa vitleysu hafa Framsóknarmenn drifið áfram undanfarin ár og stundað opinber stjórnarskrárbrot og tekjuþjófnað af því fólki sem veikast stendur fyrir í þjóðfélagi okkar.

Er það ekki nokkuð sérstakt; ósvífni eða óvitaskapur, að reyna að nota eigin misgjörðir til að koma höggi á pólitískan andstæðing.    


mbl.is Birkir Jón: Vill ræða málefni aldraðra og öryrkja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tímasetning er mikilvægust

Í aðgerðum eins og vörubílstjórar standa fyrir núna, er mikilvægast að velja sem réttastan tíma til aðgerða.  Aðgerðum þeirra er væntanlega ekki stefnd gegn fólkinu í landinu, en ætlað að vera táknrænar og beinast þannig gegn stjórnvöldum. Í því ljósi er algjörlega fráleitt að standa fyrir aðgerðum eins og bílstjórar stóðu fyrir í morgun, þar sem þeir beittu aðgerðum sínum fyrst og fremst til að koma samborgurum sínum í sem mest vandræði.  Allar aðgerðir sem beint er í þennan farveg, (að skapa vandamál á verstu umferðartímum) éta fyrst og fremst upp almennan stuðning manna við aðgerðirnar. Því á að koma svona táknrænum aðgerðum fyrir á tímum sem eru utan annatíma því þá skapa þær pressu sem fær almennan stuðning. Aðgerðaraðilar verða að gæta þess að þeir sem fyriraðgerðunum verða, þurfi ekki að snúast gegn aðgerðunum, vegna þeirra neikvæðra áhrifa sem aðgerðirnar hafa á mikilvæga þætti í lífi þeirra sem fyrir þeim verða.

Í gegnum tíðina hefur það margoft sýnt sig að stuðningur við aðgerðir þrýstihópa hrapar mjög hratt, þegar hóparnir eru farnir að beita aðgerðum sem fyrst og fremst beinast gegn samferðafólki þeirra í þjóðfélaginu. Má í þessu sambandi t. d. benda á verkföll kennara, sjúkraliða, hjúkrunarfræðinga, lækna, eða annarra lykilstarfastétta. 

Ég hef góðan skilning á þörf eigenda vörubíla fyrir aðgerðir til lækkunar eldsneytisverðs, en bendi þeim á að vara sig á margendurtekinni slæmri reynslu af rangt tímasettum aðgerðum. Slíkt eyðileggur venjulega meira en bæta stöðuna í baráttunni.              


mbl.is „Ráðamenn vakni"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar kemur að kveðjustund

Að standa frammi fyrir þeirri óumbreytanlegu stund þegar náinn ástvinur eða vinur er að kveðja þetta líf, er líklega með stærri andlegu átakaþáttum lífshlaups hvers og eins. Samhliða tilfinningu samúðar vegna veikinda viðkomandi, geysar í vitund manns stormur endurminninga, en jafnframt ólga eigingirni. ÉG VIL EKKI missa þennan ættingja eða vin. Líklega eru það færri tilfelli þar sem ættingjar hafa þá þroskuðu hugarró og styrk að geta í slíkri stöðu beitt yfirvegaðri hugsun að því hvað sé þeim sjúka fyrir bestu. Inn í þessar aðstæður spila líka hinar fjölbreyttu aðstæður sjúkdóma eða slysa.

Reynsla mín af að kveðja ættingja og vini hafa opnað mér nokkra sýn á alla þessa þætti sem að framan eru raktir. Ég tel því mjög mikilvægt að við verðum betur meðvituð um hvað við viljum við leiðarlok og hvar við viljum að tæknin víki fyrir vilja náttúrlegra leiðarloka.                  


mbl.is Treysta dómgreind lækna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru óprúttnir miðlarar aðalvandinn?

Ég set afar stórt spurningamerki við það hvort hægt sé að setja viðfangsefnið upp með þeim hætti sem þarna er gert. Það er sama hvert viðfangsefnið er, ef útlínur þess leyfilega og þess siðlega eru ekki skýrar, munu þeir sem starfa innan þeirra reglna ávalt verða að byggja á eigin þekkingar og reynslugrunni, við hinar ýmsu ákvarðanatökur.

Í peninga- og verðbréfaumhverfinu hafa engar skýrar reglur verið settar. Þar er einnig starfandi fólk, sem væntanlega hefur þokkalegar prófgráður, en afar takmarkaða þjóðfélagslega þekkingu og vegna ungs aldur, nánast engan reynslubakgrunn.

Sá sem ber höfuðábyrgðina á því hve illa hefur verið staðið að setningu skýrra reglna í þessu umhverfi, er einmitt maðurinn sem nú gagnrýnir þetta umhverfi harðlega. Er hugsanlegt að þennan mann skorti yfirsýn eða dómgreind til þess að átta sig á sinni eigin ábyrgð á þeirri stöðu sem nú er uppi í þjóðfélagi okkar? var það ekki ríkisstjórn undir forsæti þessa manns sem innleiddi það FRELSI á peninga- og verðbréfamarkaði, sem nú er á góðri leið með að setja þjóðina í fjárhagslega gjaldþrotastöðu?  Var það ekki á ábyrgð þessa manns að setja skýrar reglur um útlínur þess sem leyfilegt var, eða siðlegt, svo langtíma hagsmunir þjóðarheildarinnar yrðu ekki fyrir borð bornir? Mér finnst ég sjá þarna sama manninn. Getur verið að hann sé svona óskammfeilinn, eða að skynjun hans á afleiðingar gjörða sinna sé ekki meiri en þetta?

Ef núverandi yngri kynslóðir Íslendinga, sem og komandi kynslóðir, ætla að lifa í fjárhagslega sjálfstæðu landi og hafa val um eitthvað annað en þræla fyrir greiðslum til erlendra fjármagnseigenda, verða menn nú að horfast í augu við nýliðna áratugi af heiðarleika og hreinskilni og skapa skýrar leikreglur, vel varðaðar þungum viðurlögum við að farið verði út fyrir. Við verðum að horfast í augu við það að við erum í þeirri stöðu að ein mistök í viðbót, getur orðið einum mistökum of mikið.

Alþingi verður að horfast í augu við að ábyrgðin á setningu skýrra reglna um starfsemi fjármálamarkaðarins er fyrst og fremst forgangsverkefni þess. Það er því fyrst og fremst merki um skilningsleysi Alþingis á mikilvægi þess sjálfs, ef það heldur að því sé siðferðislega fært að bíða með hendur í skauti eftir því hvort ríkissjórnin vilji gera eitthvað. Það er kominn tími til að Alþingi skilji að ríkisstjórnin er framkvæmdaaðili að ákvörðunum Alþingis, í stað þess að það líti á sig sem afgreiðslustofnun fyrir vilja ríkisstjórnarinnar.

Alþingi þarf nú þegar að gefa lánastofnunum skýr fyrimæli um lækkun vaxta á öllum helstu útlánaflokkum, annars verði sett lög um þak á vaxtatökum lánastofnana. Alþingi þarf einnig að benda lánastofnunum á skyldur þeirra gagnvart tekjuskapandi atvinnulífi þjóðarinnar og skyldum lánastofnana til að beina útlánum í meira mæli í þann útlánaflokk, í stað þess að þenja út fjölbreytta þjónustustarfsemi sem við getum ekki rekið með núverandi tekjum þjóðarinnar.

Einnig þarf að setja margar reglur um innri sem ytri starfsem lánastofnana, en ég ætla ekki að fara nánar út í þá þætti að þessu sinni. Ég skora á Alþingismenn að hætta að bíða eftir að einhver annar sveifli töfrasprota og lagi ástandið. Það gerist ekki. Það breytist ekki fyrr en Alþingi sjálft hefur hisjað upp um sig buxurnar til að hylja glópshátt liðinna áratuga, og fari nú loksins að vinna vinnuna sína, sem er að skapa starfandi umhverfi hér á alndi skýrar og réttlátar leikreglur, þjóðarheildinni til hagsbóta.                          


mbl.is Reynt að brjóta fjármálakerfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Virðisaukaskattur - virkar tekjur eða aukinn kostnaður?

Virðisaukaskattur (VSK) er veruleg aukning flestra útgjalda almennigns og fyrirtækja. Þess vegna er athyglisvert að velta fyrir sér hve miklum raunverulegum hreinum tekjum þessi skattur er að skilar til ríkisjóðs. 

Flestir eru sér meðvitaðir um að VSK bætist ofan á útreiknað verð vöru eða þjónustu og greiðist til ríkissjóðs eftir tiltekinni reiknireglu, sem ekki verður farið nákvæmlega út í hér.  Hins vegar er það stór spurning hve margir hafa hugleitt hvað VSK skapar ríkissjóði mikla útgjaldaaukningu. Og að þeirri útgjaldaaukningu frátalinni, hverjar séu þá hina hreinu tekjur ríkissjóðs af þessari umfangsmiklu skattheimtu.

Þegar að er gáð, sést að þjóðfélag okkar er það lítið að ríkissjóður er sjálfur verulega stór rekstraraliði. Einnig er hann greiðandinn að verulegum hluta framkvæmda í landinu, s. s. vegagerðar, flug- og hafnarmannvirkja, virkjunarframkvæmda, auk viðhalds og nýbygginga ýmissa mannvirkja. Ríkissjóður er einnig lang-stærsti launagreiðandi landsins og fjármagnar í gegnum það VSK þáttinn í útgjöldum starfsmanna sinna.

Næststærsti aðili á þessu sviði eru sveitarfélögin í landinu, sem annast viðamikinn rekstur og fjármögnun nýframkvæmda, sem VSK er greiddur af. Auk þess eru sveitarfélögin með mikinn fjölda starfsmanna á launaskrá, og fjármagna í gegnum það VSK þáttinn í kostnaði sem starfsmennirnir þurfa að greiða með launum sínum.

Ríkissjóður greiðir síðan, í gegnum jöfnunarsjóð sveitarfélaga, rekstrarstyrki til sveitarfélaganna.

Eins og hér hefur verið rakið er ríkissjóður með beinum, eða nánast beinum hætti að fjármagna gífurlega mikið af innheimtum VSK, í sínum eigin útgjöldum og greiðslum til verktaka og sveitarfélaga. Ég fór því að velta fyrir mér hver væri hreinn hagnaður ríkissjóðs af öllu þessu VSK innheimtukerfi.

Ég fór ekki út í að finna út beinan kostnað ríkissjóðs við keyrslu þessa kerfis, þ. e. þann mikla fjölda starfsmanna sem að þessum málaflokki vinna eða hver væri beinn eða óbeinn annar kostnaður við innheimtukerfi þessa sérstaka skatts. Ég fór hins vegar í Ríkisreikning og fékk þar upplýsingar um heildartekjur af VSK. Þar fór ég einnig í gegnum alla útgjaldaliði ráðuneyta og annarra ríkiksstofnana, eins og þau koma fram í Ríkisreikning. Ég flokkaði frá alla launaliði og aðra liði sem vafi lék á að hvefðu inni að halda VSK. Að þessum liðum frátöldum hafði ég niðurstöðu framkvæmda og rekstrarkostnaðar, sem hafði inni að halda VSK, líkt og hjá öðrum fyrirtækjum eða einstaklingum.  Niðurstaða þesarar athugunar var mjög athyglisverð.

Þessi skoðun var gerð á árinu 1994, í tenglsum við vinnu starfshóps 10 stéttarfélaga á höfðuborgarsvæðinu, um svonefnda GERVIVERKTÖKU OG SVARTA ATVINNUSTARFSEMI. Þau ár sem tekin voru til skoðunar voru árin 1991 og 1992, en þá var ekki fyrirliggjandi nýrri Ríkisreikningur en fyrir árið 1992. Úttektin er nokkuð flókin aflestrar en niðurstöður hennar eru settar fram hér fyrir neðan.

                                                                    1991                    1992

Virðisaukaskattur samkv. skýrslum              17.664.616.000        20.524.093.000

Ýmsar endurgreiðslur skv. sundurliðun          -2.928.479.000         -2.903.206.000

Nettó innh. VSK samkv. skýrslum                14.736.137.000      17.620.887.000

VSK fjármagnaður af A-hluta ríkissjóðs         -15.011.898.883      -13.575.476.697

VSK fjármagnaður af B-hluta ríkissjóðs          -5.666.167.200        -4.778.402.400

Kostnaður ríkissjóðs umfram innheimtu     -5.941.929.083          -732.992.097

Í þessum lið sem þarna er skoðaður er eingöngu litið á þann VSK sem innheimtur er með VSK skýrslum út um allt þjóðfélagið. Annar liður er svo VSK af innfluttum vörum, sem alveg sér kapítuli.

Eins og sjá má af þessum niðurstöðum er VSK kerfið að valda ríkissjóði beinum kostnaði upp á tæpa sex milljarða á árinu 1991, umfram það sem innheimtist með skýrslum út um allt þjóðfélagið. Á árinu 1992 er kostnaður ríkissjóðs rúmar sjö hundruð milljónir.

Athuganir þessar voru senda Ríkisskattstjóra, Ríkisendurskoðun, Skattstjóranum í Reykjavík og tekjuskrifstofu Fjármálaráðuneytis til yfirferðar, en enginn þessara aðila gat bent á villur í framkvæmdinni. 

Síðan þessar niðurstöður lágu fyrir ásamt þeim ótta sem þær greinilega vöktu hjá starfsmönnum þeirra stofnana sem fengu þær til skoðunar, hef ég sett alvarleg spurningamerki við þekkingu, vilja og getu ráðamanna þjóðfélagsins til að stýra fjármálaumhverfi okkar, þjóðarheildinni til hagsbóta. Við þekkjum öll uppgang og hagnað einstakra hópa, sem virðist fást á kostnað þjóðarheildarinnar.

EIGUM VIÐ EKKI AÐ BREYTA ÞESSU? ÉG BARA SPYR?       


Vextir ættu að vera 2%, sagði Pétur Blöndal fyrir rúmum 20 árum.

Fyrir rúmum 20 árum þegar verið var að gefa lánastofnunum frjálsar hendur til ákvarðana á vöxtum inn- og útlána sinna, skrifaði Pétur Blöndal, þá kynntur sem stærðfræðingur, blaðagrein um vexti og verðtryggingu. Kafli úr þeirri grein er eftirfarandi:

7% vextir verða 96% á tíu árum

VEXTIR af hinum verðtryggðu skuldabréfum eru óheyrilegir. Þetta er nákvæmlega sama skyssan og menn gera í sambandi við launasamninga. Þeir halda að bæði sé hægt að hækka launin um 20% og verðtryggja þau síðan. Sama sagan er með skuldabréfin. Menn halda að það sé hægt að taka af þeim 6-7% vexti og verðtryggja þau svo. Þeir sem ákveða þetta hafa engan skilning á verðtryggingu.

Ef fjármagn er fullkomlega verðtryggt ættu vextir að vera um 2%. Vextir hafa óskaplega mikið að segja þegar um 10 ára árstíma er að ræða. Við getum tekið sem dæmi að 2% vextir í 10 ár þýða það að upphæðin hækkar um 22%.  7% vextir í 10 ár þýða að upphæðin hækkar um 96%. Vextir ættu aldrei að fara yfir 4% í verðtryggðum skuldbindingum.

Vextir af þessum bréfum eru komnir niður í 4% núna, en voru upphaflega 6 eða 7% og þetta var besta fjárfestingin sem hægt var að fá í heiminum með tryggingu einhvers ríkis. Það var að vísu hægt að fá betri tryggingu í einhverjum gullnámum eða olíuhlutafélögum, en þá er alltaf ákveðin áhætta.

Ef um áhættulaust fjármagn er að ræða er fjarstæða að fara með vexti upp fyrir 4%.

 

Þannig lítur nú kaflinn um vextina út í þessari rúmlega 20 ára gömlu grein hans Péturs Blöndal. Eitthvað hefur hann ruglast í fræðunum á þessum tíma, því ekki hef ég heyrt hann mótmæla af neinum krafti því vaxtaokri sem hér viðgengst. Það væri gaman að heyra hann skýra út forsendurnar fyrir þessum háu vöxtum nú. 

        


Spurning hvort við þorum ekki að horfast í augu við það sem við gerðum eða skiljum ekki hvað við gerðum?

Afar athyglisvert að fylgjast með viðbrögðum fólks við þessum erfiðleikum á fjármálamarkaðnum.

Skiljum við ekki enn að við þöndum þjóðfélag okkar út, langt umfram tekjulega getu okkar, með erlendu fjármagni, sem nú þegar hefur verið eytt í tóma vitleysu, sem hvorki gefur af sér auknar tekjur til greiðslu þessa lánsfjár, eða til þess að viðhalda þeirri útþenslu sem gerð var á þjóðfélaginu með þessu lánsfé?

Skiljum við ekki enn að við sem þjóð erum nánast í sömu stöðu og einstaklingur sem kominn er í þrot vegna skuldavanda, skuldar mikið meira en eignir standa á móti. Fyrsta hugsun okkar þarf að vera um það hvernig við getum borgað allt það lánsfé sem við höfum tekið að láni, í stað þess að velta okkur upp úr auknum möguleikum hins óraunsæja fjármálamarkaðar til að búa til fleiri haldlausar verðbréfafærslur.

Skiljum við ekki enn að það eru ákvarðanir lánastofnana hve háa vexti við greiðum af lánum okkar, en ekki Seðlabankans?

Skiljum við ekki þörfina á að pressa á ríkisstjórnina að beita lánastofnanir þvingunaraðgerðum til lækkunar vaxta, vilji þeir ekki gera það af eigin frumkvæði?

Skiljum við ekki þörfina á að minnka eyðslu gjaldeyris, svo tekjuafgangur myndist til greiðslu skulda, líkt og mikið skuldsettur einstaklingur þarf að draga verulega úr eyðslu sinni til að komast hjá gjaldþroti?

Skiljum við ekki ábyrgð okkar sem fjárhagslega sjálfstæð þjóð?

Ég bara spyr? 


mbl.is Eðlileg viðbrögð Seðlabanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það getur enginn látið kraftaverk bíða.

Fyrirsögnin á þessari frétt er röng. Við gerum ekki kraftaverk, þau gerast og koma ævinlega öllum viðkomandi á óvart.

Fyrirsögnin hefði átt að vera: Kærleiksverkin þurfa að bíða vegna þess að við tímum ekki að borga þau.

Þau kærleiksverk að láta sjúkum líða sem best, virðast ekki vera inná leikvellinum hjá stjórnvöldum. Veit ekki hvort þau eru einu sinni á varamannabekknum. Kannski ekki valin í forgangshópinn.

Kostnaður við að bæta heilsu landsmanna er ekki nema lítið brot af því fjármagni sem stjórnvöld ráðstafa í hreina vitleysu, t. d. við að skapa sér ímynd það fjarri fósturlandinu að fólk þar viti lítið um raunveruleikann hjá okkur, hlaða undir sjálfa sig lífsgæðum, og greiða kostnað af afleiðingum þess að hafa ekki stjórnað landinu, heldur horft þegjandi á menn búa tjónið til. Fleira mætti telja en læt hér staðar numið.

Það er slæmt að hafa stjórnmálamenn sem hafa takmarkaða yfirsýn í heilastarfsemi sinni, en hálfu verra er þó að það skuli nánast vanta kærleiksríka starfsemi hjartastöðvar. Árangur okkar er líka í takti við það.           


mbl.is Kraftaverkin þurfa að bíða vegna manneklu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugleiðing um atburði tengda Páskum kristinna manna

Föstudagurinn fyrir Páska hefur afar skýra sérstöðu í hugum Kristins fólks. Flestum er ljóst að þetta er dagurinn sem Jesú var krossfestur. Hins vegar finnst mér fara minna fyrir alvarlegum hugleiðingum um atburði morguns þessa dags, þ. e. ákæruna og dauðadóminn sem kveðinn var upp yfir Jesú. Hverjir dæmdu hann til krossfestingar og hvaða sakir báru þeir fram?

Frá barnæsku og fram yfir miðjan aldur, fékk ég ævinlega sorgarhnút innra með mér þegar kennimenn kristinnar trúar höfðu á orði að Jesú hefði dáið á krossinum fyrir okkur. Svo að við gætum fengið fyrirgefningu synda okkar. Ég skal viðurkenna að ég les nú Biblíuna ekki daglega, enda þar um að ræða lýsingu á atburðum sem gerðust fyrir c. a. 1.975 árum. Ég hef hins vegar reynt að tileinka mér þau viðhorf sem Jesú hafði til kærleika og mannvirðingar og reynt að láta það birtast í mínu daglega lífi. Mér hefur hins vegar alla tíð verið ómögulegt að lesa kenningu kennimannana út úr texta Biblíunnar, um atburði tengda ævilokum Jesú.

Í Biblíunni segir frá því að hvorki Pílatus né Heródes gátu fundið neina sök hjá Jesú, sem réttlætt gætu fangelsun, hvað þá dauða. Píladus hafði kallað saman allt fólkið, bæði háa sem lága, til að vera vistaddir réttarhaldið yfir Jesú, að því er virðist einkanlega vegna þess að venja hafði verið að gefa einum fanga frelsi á þessum  degi, í tilefni Páskanna.

Þegar Píladus tilkynnir að hann finni enga sök hjá Jesú og hann ætli að láta refsa honum og sleppa honum síðan lausum, æpti lýðurinn að þau vildu krossfesta hann, en Pílatus ætti að gefa Barrabassi frelsi. Sá sat í fangelsi fyrir upphlaup og morð.

Í þrígang reyndi Píladus að komast hjá því að kveða upp dóm um krossfestingu. Hann sagði við lýðinn:

Hvað illt hefur þá þessi maður gjört? Enga dauðasök hef ég fundið hjá honum. Ætla ég því að hirta hann og láta hann lausan.

Þegar hann hafði þetta mælt, sótti lýðurinn á með ópi miklu og lét þá Píladus undan og ákvað að kröfu þeirra skyldi fullnægt en þeir fá þann lausan sem hnepptur hafði verið í fangelsi fyrir upphlaup og morð.

Þetta er lýsing Biblíunnar á aðdraganda að dauðadómi yfir Jesú.

Þegar við lesum þetta með yfirvegaðri vitund á því hvað í frásögninni felst, sjáum við að það eru ekki valdamenn, líkt og Pílatus, sem vildu krossfesta Jesú. Það er fólkið, lýðurinn, sem verður meðvirkur klerkastéttinni og kveður upp dauðadóm yfir manni, án þess að hafa í raun nokkurt sakarefni á hann borið. Og þessi lýður meira en kveður upp dóm sinn. Hann krefst þess að farið verði að vilja hans og saklaus maður tekinn af lífi.

Þarna höfum við dæmi um nærri tvö þúsund ára gamla sögu af múgsefjun og óafturkræfum afleiðingum hennar. Spurningin til okkar í dag er ekki hvort þessi saga hryggi okkur. Spurningin er hvort við séum enn í dag þroskalega séð á sama stað og lýðurinn í Jerúsalem fyrir u. þ. b. 1.975 árum; að við, í krafti múgsefjunar, kveðum upp afgerandi dóma yfir náunganum, án þes að hafa í huga okkar eða hjarta, haldtraust rök fyrir dómum okkar.

Ég mundi halda að það væri einmitt þessi atriði sem dauði Jesú á að leiðbeina okkur með; að gæta vel að rökfestu dóma okkar.

Biblían er á margan hátt ágætis bók. Í grunninn er t. d. Nýjatextamentið frásögn af manni sem leitaðist við að vekja réttlætisvitund í siðspilltu samfélagi; samhliða því að ganga fram í kærleika. Hann sýndi mátt þann sem maðurinn getur öðlast, gangi hann fram í hreinum kærleika og einlægum vilja til að gera öðrum gott. Þessi saga er sögð af mörgum aðilum, að viðbættum frásögnum af nokkrum mönnum sem reyndu að feta í fótspor meistarans.

Þess verður að gæta að í gegnum aldirnar hafa þessar sögur verið margþýddar og endursagðar milli mála og tímaskeiða og, eins og við höfum orðið vitni að, verið lagaðar að háttum hvers tíma. Hæglega hefur því geta skolast inn mistúlkun á borð við það að  Jesú hafi dáið fyrir syndir okkar. Í stað þess að segja að Jesú hafi dáið vegna syndar okkar, þ. e. að lýðurinn skildi krefjast dauða hans án þess að hafa neina sök á hendur honum.

Ég hefði viljað sjá kennimenn hvers tíma framkalla lifandi mynd af lífsviðhorfum Jesú í daglegu lífi hvers tíma, þannig að sterkustu gildin í lífsgöngu Jesú, mannvirðing og kærleikur, væru vel sýnileg í daglegu lífi samfélags okkar.

Þessa einlægu von á ég mannkyni okkar til handa.                   


Í augnablikinu er gengið "rétt" skráð, en það breytist fljótlega

Mér finnst afar undarlegt að upplifa umræðuna um efnahagsmálin. Það er eins og flestir stjórnendur þjóðfélags og fjármálastofnana séu annað hvort með Alsheimer eða skorti þekkingu til að bregðast við óhófi og rugli undanfarinna áratuga. Getur verið að enginn geti rætt opinberlega þessa stöðu okkar af einhverri skynsemi og varpað fram hugmyndum um leiðir út úr ógöngunum?

Af hverju má ekki tala af hreinskilni og á eðlilegu mannamáli um ástæður þess að gengi krónunnar er stöðugt að veikjast og hefur stöðugt verið að því í meira en hálfa öld?

Af hverju má ekki virkja aflið í fjöldanum, til þess að sameinast um að rífa þjóðina út úr stöðugri skuldasöfnun og algjöru skeytingaleysi fyrir tekjuöflun til framfærslu þjóðarinnar?

Varla eru það þau 70 - 80 prósent þjóðarinnar sem lifa við meðaltekjur eða þar fyrir neðan sem mundu missa spón úr aksi sínum ef sannleikurinn væri hafður uppi á borðinu og á skiljanlegu máli fyrir venjulegt fólk.

Af hverju talar enginn um það að gengi krónunnar fellur þegar eftirspurn eftir henni er meiri en framboðið. Og hvað þýðir það.

Það þýðir að stjórnvöld hafa ekki staðið sig í að gæta jafnvægis þess að notkun gjaldeyris væri ekki meiri en gjaldeyristekjurnar.

Samnefnari þarna á milli er það að heimili eyði ekki hærri fjárhæðum en tekjur þeirra standi undir.

Gefum okkur að þetta heimili taki erlent lán til að kaupa bíl. Lánið er í dollurum  og gengi eins dollar er 62 krrónur. Lánið er 16.129 dollarar, eða nánast ein milljón króna. Bíllinn er bara fjölskyldubíll sem skilar engum tekjum inn á heimilið, aðeins auknum kostnaði.

Nú kemur að því að heimilið þarf að fá dollara til að greiða afborgun af láninu. Þá segir sá sem á dollarana. Ég vil ekki selja þér dollara nema ég fái 67 krónur fyrir dollarinn.  Sá sem hafði sett sig í fjötra og verður að fá dollarana, getur ekki annað en borgað það sem upp er sett.

Ef þetta heimili hefði enga þörf fyrir dollarana, yrði engin gengisfelling á krónunni. 

Af hverju verður þá gengi krónunnar stundum of hátt skráð, eins og það er kallað?

Ástæða þess er sú að gjaldeyrisstreymi inn í hagkerfið er meira en tekjusköpun og meiri en eðlileg starfsemi þarfnast. Þess vegna verður hægt að fá mikið meira af peningum lánað en skapast með tekjuöflun. Og sleppi menn varfærni og fyrirhyggju, má fá lánsfé fyrir nánast hverju sem er.  Slík staða hækkar gengi krónunnar, því frekar en liggja með peningana vila eigendur þeirra láta þá af hendi fyrir lægra gjald, heldur en láta þá liggja og skila engum arði eða tekjum. Slík staða getur skaðað alvarlega tekjugreinar samfélagsins og komið í veg fyri að þær geti blómstrað og aukið tekjur sínar, öllu samfélaginu til heilla.

Þarna er dreginn fram sá óvitaskapur sem stjórnendur lánastofnana hafa stundað undanfarinn áratug eða meira og stjórnendur þjóðfélagsins látið óátalið, nema þeir hafi ekki þekkingu til að skynja nauðsynlega jafnvægisþætti þessara mála.

Af hverju þegja menn? 

Getur það verið af því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur vegsamað svipaðan óraunveruleika í marga áratugi?                  


mbl.is Segir gengi krónunnar næstum rétt skráð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband