Bloggfærslur mánaðarins, september 2023

Efnahags og viðskiptanefnd Alþingis 2021 / Hver er þekking álitsgjafans á Verðtryggingu?

Efnahags og viðskiptanefnd Alþingis

.151. löggjafarþing 2020–2021. 

Þingskjal 752 — 441. mál.

Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001 (takmarkanir á notkun verðtryggingar í lánssamningum til neytenda).

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.

Hver er þekking álitsgjafans á Verðtryggingu?

Í fyrsta lagi vil ég vekja athygli Alþingis á því að þekking mín á þessu málefni byggist á langri reynslu af verðtryggingu. Ástæðu þess er að leita í síðbúnum námstíma mínum í rekstrarfræðum, því það var á 7. áratugnum sem ég var að skoða fyrstu verðtryggingu útlána í lánastofnunum hér á landi, sem var samkvæmt lögum 71/1966. Þar var eingöngu um að ræða svonefnd stórlán til atvinnulífs og sveitarfélaga. Ég hafði lært bókfærslu á IBM 36 tölvu en strax þegar þáverandi „borðtölvur“ komu til sögunnar, fór ég að læra á þær. Læra forritun vinnu- og bókhaldskarfa og smíða reiknilíkön fyrir síendurteknar sömu forsendur útreikninga. Námið stundaði ég í kvöldnámi samhliða starfi í bókhalds- og rekstrarmálum.

Er tölvunámi lauk vann ég við þróun tölvubókhalds og við að færa fyrirtæki úr handfærðu bókhaldi í tölvuskráningu. Við það starfaði ég um nokkur ár en fór síðan til starfa í hagdeild Samvinnubanka og fjallaði ég þar m. a. mikið um lánamál til fyrirtækja ásamt að kaup og sölu skuldabréfa. Þar tók ég þátt í að setja saman nákvæmt hermilíkan af skuldabréfakerfi Reiknistofunnar, en það varð svo grunnur að reiknivél bankanna til útreikninga fyrir afborganir lána. Einnig þurfti ég að búa til fjölda reiknilíkana til nákvæmrar eftirlíkingar af útreikningum ýmissa lánsforma í skuldabréfakerfi Reiknistofunnar. Var það gert til vinnuhagræðingar við störf mín.

Allt var þetta í fyrstu mun meira umfangs en nú er, því þá var ekki komið neitt sjálfstætt „skjámyndakerfi“, þannig að maður varð að búa til allar skjámyndir sem reiknilíkönin þurftu að nota. Við þetta starfaði ég í nokkur ár, en þegar ekki reyndist vilji til að leiðrétta rangar reikniaðferðir verðtryggingarhluta skuldabréfakerfis Reiknistofunnar, sagði ég upp starfi mínu í hagdeild bankans. Ég vildi alls ekki gera það að lífsstarfi mínu að hafa vísvitandi fjármuni af fólki. Síðar sinnti ég, að beiðni nokkurra þáverandi þingmanna, fjármálaráðgjöf fyrir fólk í fjárhagsvanda. Með þekkingu mína á lánakerfum, meðhöndlaði ég nokkur þúsund skuldabréf, meira en helming þeirra jafngreiðslu húsnæðislána. Í ljósi framanritaðs segi ég þetta.  

ATHUGASEMDIR:

  1. Við hámarks lánstíma verðtryggðra jafngreiðslu húsnæðislána, án þess að leiðrétta ranga útreikninga afborgana.

Útlánaformið „Jafngreiðslulán“ er ekki íslenskt að uppruna. Á fagmáli viðskipta og lögfræði heitir lánaform jafngreiðslulána: (annuitet). Grunnelement þessa lánafyrirkomulags er að heildarupphæð lánsins, höfuðstóll þess á lántökudegi, skiptist í jafnar afborganir allan lánstímann. Og á sama hátt að heildarupphæð útreiknaðra vaxta eftir lánaskilmálum jafnra afborgana, deilist með jöfnum hætti á alla gjalddaga jafngreiðslulánsins, í sömu upphæð krónutölu, á allar afborganir lánstímans.

Við innheimtu bera liðirnir afborgun höfuðstóls og þannig reiknuð vaxtagreiðsla mánaðarins, Í samtölu sem nefnist: Greiðsla.  Var þessi samtala t. d. nefnd í 1. gr. laga nr. 71/1966, og 34. gr. Bandormsins nr. 13/1979, sem tilvísun um framkvæmd útreikninga sem teljist grundvöllur jafngreiðsluafborgunar.

Hér á landi var þetta lánaform lítið notað á fyrstu áratugum lýðveldis, einkanlega vegna mikillar verðbólgu. Kom þar einnig annað til. Frekar var lítil útlánavelta bankanna, vegna tiltölulega lágrar eiginfjárstöðu þeirra miðað við útlánaveltu sem einnig takmarkaðist við það að stærri og lengri lánveitingar voru fjármagnaðar í gegnum opinbert sjóðakerfi eins og: húsnæðisdeild hjá Landsbanka, til fiskiskipa hjá Fiskveiðasjóði. Í gegnum Útvegsbanka og iðnaður og fleiri greinar atvinnulífsins afgreitt í gegnum Framkvæmdasjóð hjá Iðnaðarbankanum.

Viðskiptabankarnir fengust því við lítið annað en ótraustari hluta lánamarkaðarins, sem oftast er nefnt: umhverfi viðskipta- og veltulána. Og aðal viðskiptaaðilar þess umhverfis voru: verslanir, smáfyrirtæki og einstaklingar, sem vegna smæðar og óöruggs tekjuumhverfis, í ört vaxandi kostnaðarumhverfi sem aðallega var vegna verðbólgu. Lág eiginfjárstaða þessara aðila hamlaði mjög fjárfestingagetu þeirra. Aðal lánaumhverfi bankanna snerist því mest um skammtímalán afurða- eða rekstrarlána af ýmsum toga.

Íslensk svonefnd „jafngreiðslulán“, ERU EKKI jafngreiðslulán.

Á þeim árum sem ég var í hagdeild Samvinnubankans kom tvisvar fyrirspurn erlendis frá um hvers vegna svonefnd jafngreiðslulán hér á landi væru nefnd þessu nafni en fylgdu ekki útreiknireglum slíkra lána. Til að skilja betur eðli þessarar fyrirspurnar skulum við rifja upp einfalda mynd. Hverjar eru reglurnar við útreikning afborgana og vaxta af jafngreiðslulánum?

Við útreikning afborgana jafngreiðslulána er lánsupphæð á lántökudegi, deilt með fjölda afborgana. Til dæmis er að 40 ára lán með mánaðarlegum afborgunum, hefur 480 afborganir. Lánsupphæðinni er því deilt með 480 og þá kemur upphæð afborgunar allra gjalddaga, sem er sama krónutölu upphæð allan lánstímann þ.e. 10.000.000/480 = 20.833,33

Útreikningur vaxta af jafngreiðsluláni, lúta einni viðbótarreglu fram yfir venjulegan útreikning jafnra afborgunarlána. Vextir af slíkum lánum eru reiknaðir af upphæð eftirstöðva lánsins hverju sinni. Við útlán jafngreiðsluláns ber bankanum að afhenda lántaka, skrá með útreiknuðum greislum afborgana láns jafnra afborgana.

Aftast í þeirri skrá, neðan við alla dálka, á að vera samtala yfir heildargreiðslu hvers reikniliðs yfir allan lánstímann. Lántakinn getur þá tekið upp símann sinn, opnað reiknivélina og slær inn samtöluna sem er aftast í reitnum „vextir“. Ef þeirri tölu er deilt með fjölda afborgara, á útkoman að vera sama upphæð sem skráð er vaxtagreiðsla hvers gjalddaga jafngreiðslulánsins, í krónum talið.

Lítum á dæmi úr reiknilíkani af skuldabréfakerfi. Til hægðarauka hafði ég lánsupphæðina 48 milljónir, sem þýðir með 480 afborgunum er borguð 100.000 kr. afborgun mánaðarlega. Í efstu línu líkansins má sjá að miðað er við 4,25% vexti.

Hér á næstu síðu höfum við myndir af 12 fyrstu greiðslum með venjulegum jöfnum afborgunum á mynd  1.   En á mynd 2. er útreiknað jafngreiðulán. Þar má sjá að vaxtagreiðslu í hverjum mánuði er lægri en með venjulegum útreikning. Í jafngreiðsluláni eru allar upphæðir afborgunar og vaxtagreiðslna sama upphæð í krónum talið, fyrir allar afborganir.

Þegar við lítum á samtölurnar á myndum 3 og 4, sjáum við að samtölur greiddra vaxta, sem og samtölur greiðsla afborgana og vaxta eru í báðum tilvikum sama upphæð greiddra vaxta. Og einnig má sjá að full endurgreiðsla er á hinni lánuðu upphæð. Mismunur lánsformanna jafnra afborgana og jafngreiðslulána, felast í því að í lánsflokknum jafnar afborganir eru allar afborganir sama krónutala en full greiðsla vaxta reiknuð af eftirstöðvum láns hverju sinni.

En í hinu tilvikinu, er um að ræða alvöru „jafngreiðslu“ bæði afborgana og vaxta hvers gjalddaga. Það er  jafngreiðslulán. Þar er á öllum gjalddögum um sömu krónutölu afborgunar og sömu krónutölu greiddra vaxta er að ræða.  Þarna hefur verið dregið fram hið mikilvæga form „jafngreiðslulána“. Þarna sést hversu eðlilegt var í 1. gr. laga nr. 71/1966, þar sem talað er um „Greiðsluna“. Þar er átt við samtöluna yfir upphæð afborgunar og fasta vaxtagreiðslu hvers gjalddaga. Þar sem allir gjalddagar beri sömu upphæð Greiðslu af láninu. Við það bætist svo liðurinn Kostnaður
.

Neðst á mynd 3, er talan 85.177.  Og eins og sjá má er þarna um að ræða heildarupphæð greiddra vaxta, sem búið er að deila með fjölda gjalddaga. Þá kemur út jafnaðargreiðsla fyrir hvern gjalddaga og sú upphæð sett í reit vaxtagreiðslu á öllum gjalddögum jafngreiðslulánsins, sem skilar sömu upphæð heildargreiðslu vaxta fyrir báðar útfærslur lánsins fyrir allan lánstímann.

 Þetta leiðir af sér skýran samanburð á greiðslubyrði tilgreindra lánsforma, á að ráða við reglulegar afborganagreiðslur fyrstu mánaða og ára lánstímans. Heildargreiðsla hvers gjalddaga er umtalsvert lægri með jafngreiðsluláni en með öðrum útreikniaðferðum.

Í því dæmi sem hér hefur verið sýnt, er fyrsti gjalddagi venjulegs láns með jafna afborgun, kr. 270.000. Hins vegar er sama lánsupphæð, í jafn langan tíma, fengin að láni með raunverulegum „jafngreiðslukjörum“, með verulega lægri greiðslu á fyrsta gjalddaga, eða einungis 185.177. Þarna munar 84.823 krónum í afborgun, eða sem nemur 130.000 króna í launum lántakans. Það verða ekki mikið betri lánakjörin sem bjóðast. Það verður líka erfitt að finna forsvarandi rök eða réttlætingu fyrir því að svipta fólk slíkum lánskjörum til að treysta afkomugrundvöll fjölskyldu sinnar.

 Að verðtryggja lánsfé eða peninga.

Hvað er það sem kallast að „verðtryggja“ fjármagn? Í flestum tilvikum eru tryggingar til varnar tjóni af völdum einhverra utanaðkomandi aðila. Í því sambandi er beinast að vísa til ökutækjatrygginga, húsnæðistrygginga og slysatrygginga. Fleiri tryggingar væri hægt að tína til. EN eitt eiga allar tryggingar sameiginlegt í alþjóðlegu lagaumhverfi. Tryggingin er til þess að tjónvaldurinn beri skaðabótaskyldu gagnvart tjónþola í hverju tilviki. Í öllum tilvikum þekktra réttarfarsreglna, er það tjónvaldurinn sem á að bæta það tjón, sem vanræksla af hans völdum hefur skapað.

Ef skoðað er umhverfi notkunar lánsfjár á landinu, þá eru það aðallega þeir sem standa í rekstri eða framkvæmdum, sem þörf hafa fyrir aukið fjármagn og taka fjármagn að láni. Á Íslandi er einungis einn gjaldmiðill að ræða sem er LÖGEYRIR í peningum. Það er íslenska krónan. Hún hefur „lögskipaða“ gengisskráningu og er fullgild í fullu ákvæðisverði í allar greiðslur innanlands.

Nú vildi svo til á sínum tíma að eigendur peninga,  vildu ekki lána út sína peninga á þeim kjörum sem Alþingi og ríkisvaldið ákvað á grundvelli gjaldmiðlalaga. Eigendur fjármagns báru því við að verðbólga í landinu væri svo mikil að peningar þeirra yrðu stöðugt verðminni, til kaupa á erlendum vörum. Þarna eru eigendur fjármagns að lýsa tjóni, sem þeir yrðu fyrir, að þeirra mati. Þeir vísa til tjónsins og vilja bætur vegna rýrnunar þeirra eigna sem þeir fái fyrir sömu krónutölu upphæð.

Alþingi og stjórnvöld ræddu þessi málefni í marga mánuði. En MATI fjármagnseigenda varð ekki hrakið. En í þessu mikilvæga atriði brást þáverandi Alþingi þjóðinni. Alþingi lét aldrei gera úttekt á því hvort meint tjón fjármagnseigenda, væri af völdum tilgreinds tjónvalds. Hvort tap fjármagnseigenda væri, sem hlutföll meira en allra annarra þegna þjóðfélagsins, sem keyptu erlendar vörur. Öll gild rök falla í þá átt að hlutfallslega, miðað við efnahag, hafi allir landsmenn orðið fyrir sambærilegu tjóni af völdum verðbólgu. Á þeim tíma sem þarna um ræðir, var einn virtasti og mikilhæfasti lagaprófessor landsins nýlega orðinn forsætisráðherra, en hann hafði gengt öðru ráðherraembætti í fyrri ríkisstjórn. En þó mátt hefði ætla að þáverandi forsætisráðherra skorti ekki lagaþekkingu, varð greining embættis hans á meintum tjónvaldi í málefninu ekki greinilega leitað, eins og þáverandi afgreiðsla Alþingis ber gleggsta vitnið um. Hver getur ástæðan fyrir því hafa verið?

Fjármagnseigendur bentu ekki á sökudólg í málinu. En þeir úrskurðuðu hverjir skyldu bera kostnaðinn af að bæta meint tjón þeirra, án þess að sannað yrði að þeirra tjón væri meira en annarra. Sá úrskurður fjármagnseigenda var borinn undir hina nýju ríkisstjórn, sem ekki vildi láta orða sig við málið, því það væri á ábyrgð fyrri ríkisstjórna. Öllum sem eitthvað þekktu til þess hvernig svo flókið lagafrumvarp sem þarna var til umræðu, áttu að geta séð að þarna væri ekki um lagaform að ræða. Málið væri enn á undirbúningsstigi en þó sett fram til kynningar, sem kafli í (Bandormi ríkisstjórnar), innan um ýmsar breytingar og viðauka, við þegar gildandi lög. Allir lögfræðimenntaðir menn í landinu vissu að þessi fyrsta kynning á málinu, var ekki í frumvarpsformi til lagasetningar. Enda var í textanum sjálfum sagt að: Stefnt skuli að því að verðtryggja.  Þingmenn og lögfræðingar vissu að til afgreiðslu Bandorma hafa aldrei verið gerðar sömu kröfur og til afgreiðslu frumvarpa til setningar á Lögum er kveða skildu á um rétt manna eða réttindi

Lög þurfa að hafa í inngangi sínum tilgreint form er varðar Tilgang, Markmið og Leiðir, er birti skýr fyrirmæli lagaákvæða. Lög mega t. d. ekki hafa uppi nema eitt sjónarmið varðandi meginreglu löggjafarinnar. Ekkert af því sem hér er rakið, var í VII. kafla Bandormsins nr. 13/1979, enda fékk VII. kaflinn hvorki laganúmer né nafn.

Það hefur alla tíð vakið undrun þeirra fáu sem kosið hafa að tjá sig um það óheillaspor sem einn virtasti lögspekingur og lagaprófessor landsins, lét henda sig, yfirhlaðinn verkefnum í erfiðu stjórnarsamstarfi. Pressan var mikil og fjármálakerfi landsins komið að hruni. Varð einhverjum það ljóst, sem heyrðu hann í ræðustól Alþingis mæla fyrir lagabandormi sínum sem hann var búinn að leggja fram á Alþingi, sem þingmál hans eins vegna skorts á samstöðu í ríkisstjórninni.

Þegar hann byrjaði að lesa VII. kafla bandorms um efnahagsmál, sást á andliti hans að hann vissi sig vera að lesa bull sem ekki stæðist lög. En af hvaða ástæðu hann dró kaflann ekki til baka, er hann hikaði aðeins í upplestri ræðu sinnar? Þegar hann varð var við að það var lögleysa sem hann væri að lesa, er hann mælti fyrir bandorminum í ræðustól Alþingis.

Ég  veit ekki hvort hægt er að setja sig í spor eins gleggsta lagameistara landsins þegar hann stendur í ræðustól Alþingis, vitandi um að nánast öll þjóðin væri að hlusta, á hann lesa upp texta sem aldrei gæti orðið lög við eðlilegr aðstæður. Hans trausti samstarfsmaður mun hafa fengið aðstoð við að skrifa ræðuna. Hvernig átti nokkrum heiðarlegum manni að detta í hug að skrifa rugl í ræðu fyrir svo lögfróðann mann?  

Alþingi fór ekki fram á neina skoðun á VII. kaflanum; af hvaða ástæðum sem það var, og ekki verður auðvelt að greina þá atburði sem þarna gerðust, e. t. v. löngu síðar.

Þetta er sett hér inn til að reyna að ýta undir skipulagða hugsun um hvernig heimildir voru fengnar fyrir Alþingi, til að samþykkja tjónakvöð á notendur lánsfjármagns á Íslandi, vegna meints tjóns sem allir landsmenn urðu að einhverju leyti fyrir.

En tiltekinn hópur landsmanna var, án lögfullra sannana, sérstaklega útvalinn sem mestu tjónvaldarnir, og látnir gjalda fyrir sök hins rétta tjónvalds, til að halda viðskiptakerfium landsins gangandi.

Tjónið, hins vegar varð fyrst og fremst til vegna stjórnleysis Alþingis og ríkisstjórnar, í efnahagsmálum en ekki af völdum lánsfjárnotenda. En slíkt verður ekki rakið lengra hér.

Lánsfjárnotendur hafa í 38 ár greitt bætur fyrir tjón sem þeir hafa aldrei verið valdir að eða dæmdir fyrir. En það sem verra er, snýr að því sem líklega verður talið vera vegna skorts á þekkingu, en ekki vegna vilja til sviksamlegrar framgöngu gagnvart lánsfjárnotendum. Seðlabankinn afhenti því miður lánastofnunum ólögteknar leiðbeiningar um hvernig reikna skildi þær viðaukagreiðslur sem lánsfjárnotenda, var gert að greiða til lánastofnana. Til að sýna þetta á áþreifanlegan máta, lét ég alþingismönnum í té afrit af verðtryggðu jafngreiðslu íbúðaláni, sem ég tók árið 2000, einmitt í þeim tilgangi að geta sýnt svart á hvítu hvernig rangfærslan er framkvæmd.

Meðfylgjandi þessu skjali, sem Fylgiskjal 1, var gjalddagaskrá yfir lánið mitt, þar sem allir liðir þess eru sundurliðaðir eins og sundurliðun er tilgreind á lánasamningnum. En einnig til að birta með sem skýrustum hætti hvernig lagatextinn úr 1. gr. laga nr. 71/1966 virkar, ef hann hefði verið settur fram í réttum skilningi þeirra sem í upphafi túlkuðu hann. Þá útreiknireglu lærði ég af þeim er þær reglur bjuggu til.

Á þeim tíma sem þau lög giltu, fannst stjórnendum bankanna vera of mikil verðbólga til að setja slíkar reglur á almenn afborgunarlán. Þess vegna voru lög 71/1966 aldrei virk í almennum lánaviðskiptum.

En megintexti 1. gr.  laga nr. 71/1966 var færður óbreyttur í 34. gr. Bandormsins nr. 13/1979, sem 1. gr. VII. kafla, um verðtryggingu. Lánið sem ég tók árið 2000, var í upphafi kr. 6.420.000,-. Lánstími 40 ár, lánsform „jafngreiðslulán“,  með mánaðarlegum gjalddögum, vextir 5,1% og verðtryggt með grunnvísitölu í maí 2000, en lánið ekki greitt út fyrr en í ágúst 2000. Mér var því gert að greiða tæpa 3 mánuði í vexti og verðtryggingu, áður en mér var afhent lánið. Samkvæmt lánsfjárlögum er lánastofnun óheimilt að taka vexti eða aðra ábataþætti, aftur fyrir þann dag er lántaki fær yfirráð yfir lánsfénu. Þeirri lagareglu hafnaði Ríkisstofnunin Íbúðalánasjóður að fylgja.

Þó búið hafi verið, þegar ég tók lánið, að fella úr gildi lög nr. 71/1966 og aldrei hafi verið sett sjálfstæð lög til að styðja ákvæði VII. kafla Bandormsins nr. 13/1979,  ákvað ég að láta reiknilíkan mitt fylgja þeim reiknireglum sem fram komu í 1. gr. laga nr. 71/1966 og 34. gr. Bandorms nr. 13/1979, til að valda ekki ágreining um lögmæti reiknireglna skuldabréfakerfis Reiknistofunnar og reiknilíkansins sem varð upphaflegur grunnur að reiknivél bankanna er hún kom til.

Mismunur á útkomu úr fyrrgreindum reiknileiðum felst í þeim forsendum sem lagðar eru fyrir reiknikerfið að vinna úr. Eins og fyrr er getið beitti ég einu lögsettu reiknileiðinni sem til hafði verið, þó það hefi verið búið að fella þau lög úr gildi þegar lán mitt var tekið.

Í lögunum segir að verðbæta skuli Greiðsluna, sem þýðir í raun að Greiðsla lánsins fer fram þegar lántaki skilar, endurgreiðir aftur lánsféð til lánveitanda. Í 1. gr. laga nr. 71/1966, og í 1. gr. VII. kafla en 34. gr. Bandorms um efnahagsmál nr. 13/1979, er sami textinn um hvernig reikna skuli verðbætur. Eina lögfesta leiðin til slíks er að Greiðslan (samtala afborgunar og jafngreiðsluvaxta) verðbætast frá lántökudegi til greiðsludags. Það er eina lögfesta reglan um endurgreiðslu eins og meint viðmiðunarregla segir fyrir um.

Tjón á rekstrarsviði, bætt með eignauppfærslu á eignasviði?

Þeir sem kunna þokkalega greinarmun á Debet og Kredit færslum í bókhaldi, vita að hærra vöruverð veldur auknum kostnaði. Hvort það veldur breytingu á eignastöðu kemur fram síðar, jafnvel ári síðar. Það var einkennileg efnahagsumræðan á Íslandi á árunum 1978 – 1983. Það var eins og það hefði gleymst að kenna sérfræðingum á viðskipta- og hagfræðisviði, hvernig eignaaukning verði til. Og ekki var betra ástandið á lögfræðisviði. ALLIR STEINÞÖGÐU, meðan íslenska fræðasviðið auglýsti á alþjóðavísu, vanþekkingu sína á þeim vísindum sem þeir höfðu skjalfestar prófgráður um sérþekkingu. Það vakti athygli út fyrir landsteinana.

En ekki meira um það hér.  Ætlunin var að líta örlítið nánar á grundvallarreglu verðtryggingar, út frá Alþjóðlegri reikningsskilavenju, eða bara einfaldri bókhaldsjöfnu. Það sérkennilega við framkvæmd okkar á verðtryggingu var það að hún er ekki bókfæranleg jafna og því í raun ekki skráningarhæf.

Lítum á dæmi. Kostnaðarhækkanir útgjaldsliða, sem allar færast debet á rekstrarreikning, og valda þegar auknum kostnaði. Í reikningsfærslu verðtryggingarformúlu á Íslandi veldur hækkun kostnaðar af völdum hækkunar neysluvísitölu, umsvifalaust hækkun verðgildi eigna og þar af leiðandi hækkun eignfærslu í efnahagsreikning ALLRA sem eiga skráða eign, hvort sem þeir hafi orðið fyrir kostnaðarauka í rekstri eða ekki.

Kostnaðarhækkun (debet) í rekstri, þarf að eiga sér mótfærslu (kredit) tekjuþáttur á rekstrarsviði. Við lok hvers mánaðar eru lagðar saman upphæðir á debet og kredit hliðum rekstrarreiknings, til að sjá hvort tekjur hafi komið á móti gjöldum og helst meiri. Ef fyrirtækið aflar ekki tekna til greiðslu á kostnaðarhækkunum, getur þurft að færa fjármagn af eignareikning til að jafna kostnað og tekjur á rekstrarreiking, til að loka uppgjöri. Í eðlilegri bókfærslu, ef taka þarf fjarmagn út af eignareiking, minnkar eignastaða á efnahagshlið bókhaldsins.

Hér hefur verip lýst eðlilegri svörun kostnaðarauka í rekstri, sem ekki er hægt að mæta með auknum tekjum. Sú leið er að taka út fjármagn úr eignasjóði, eða selja þurfi skráð eignaverðmæti og fá þar peninga til greiðslu hins óviðráðanlega rekstrarkostnaðar sem varð umfram tekjur. Þannig er EÐLILEGA breyting að lækkun eigna hljótist af ef selja þarf eign, vegna greiðslu kostnaðar umfram tekjur. Eignasafn minnkar ef breyta þarf fasteign eða verðbréfum í peninga til að greiða kostnað sem varð umfram tekjur.

En þannig vinnur Íslensk verðtrygging ekki. Alþingismenn fyrri tíma, tóku gagnrýnilaust við, frá fyrrum sérfræðingum Seðlabankans, þeirri bókhaldslegu snilli að aukinn kostnaður skildi þegar í stað, með aðferðum sem aldrei hlutu lagastoð, valda eignaaukningu allra skráðra eigna, óháð því hvort forsenda útgjaldaaukningar væri til staðar.

Þegar fræða- og frægðarhulu fyrrverandi forsætisráðherra og lagaprófessors, er vikið til hliða og skoðað hver voru mikilvægustu verkefni Seðlabankans, einmitt á því tímabili sem  pressað var á um verðtryggingu sparifjár, þá reyndist mikilvæga verkefni Seðlabanka vera að finna sem hraðast vaxandi aukningu eigna fyrir alla bankana, sem allir voru að berjast fyrir lífi sínu vegna langvarandi afar mikillar verðbólgu, mikið meiri en nam eignvirðisaukningu framleiðslugreina af völdum vísitöluhækkun eignavirðis af völdum verðbólgu. Í bókhaldi þeirra virkaði kostnaðarauka vegna verðbólgu, vera mætt með vísitöluknúinni verðmætisaukningu eigna, sem breytt var í tekjur af eignabreytingu, á þann máta að eignasafn dróst saman og rekstrargetan minnkaði.

Á þeim tíma skrifuðu þáverandi sérfræðingar Seðlabanka margar greinar í Fjármálatíðindi Seðlabankans, um það meginverkefni fjármálakerfisins, að koma á virkum verðbréfamarkaði á Íslandi. Skipti þar engu máli þó koma þyrfti honum af stað með stórkostlegum lántökum, til að koma verðbréfaveltu af stað. Augljóslega voru þarna boðuð björgunarúrræði fyrir bankakerfið, þar sem engar líkur voru á hraðri verðmætaaukningu fyrir framleiðsluvörur okkar og þjóðin ekki tilbúin til aukinna fjárfestinga vegna langvarandi samdráttar í lausafjárstöðu.

Ekki verður hér á þessari stundu lagt mat á það hvort álíka forsendubrestur hafi orðið á vegi þeirra við mat á verðtryggingu, og yrði á stofnun verðbréfasjóðs eingöngu með lánsfé skal ósagt látið. Hinn möguleikinn er sá að vegna þess hve álag á bankana var mikið á þessum tíma, hafi þeim yfirsést að verðtrygging innlánsfjár eða eignasöfnunar, hafi allt önnur áhrif þegar eignauppsöfnun innlánaaukningar, er látin mæta útgjaldaaukningu verðhækkana, án þess að taka tillit til andstæðra forsendna og bókhaldslegri þversögn, við mat á afleiðingum kostnaðarhækkana.

Hér hefur aðeins verið kíkt undir þá ábreiðu sem vandlega var breidd yfir birtan raunveruleika í sjálfstæðissögu okkar. Á sínum tíma var ég búinn að grófhanna leiðréttingaferli sem ekki mundi kollvarpa efnahag þjóðarinnar, en þá mátu áhrifaöfl þjóðarinnar það meira virði fyrir þjóðina að útiloka mig, svo enginn þyrfti að endurskoða stefnu sína. En nú er komið að leiðarlokum. Öll sagan mun koma fyrir augu þjóðarinnar, nema stjórnvöld feli núverandi Seðlabankastjóra að finna einstigið til baka, því það er orðið afar þröngt.  

Of skammur til óundirbúinna stóraðgerða.

Ætt var af stað, með allt of skamman undirbúning til almennrar verðtryggingar í landinu. Langvarandi sundurlindi í stjórnmálum opinberaði ákveðinn virðingarbrest, þar sem stjórnmálamenn voru reiðubúnir og framkvæmdu, að setja þjóðarhagsmuni til hliðar í pólitískum tilgangi. Vegna samtakaskorts um mikilvæga þjóðarhagsmuni.

Engann þingmann var hægt að finna hjá þingflokkum, sem efaðist um erfiðleika liðinna ára. Lítinn vilja var þó hægt að greina af úrslitum kosninga 1978, til að þjóðin vildi mynda sterkan meirihluta á Alþingi, til að vinna á uppsöfnuðum vanda liðinna ára. Þegar úrslit kosninganna 1978 lágu fyrir varð ljóst að ekkert stjórnmálaafl hafði sett þjóðina í 1. sæti. Myndun ríkisstjórnar varð gífurlega mikið flækjuspil og annríki stjórnvalda undir árslok 1978.

Út frá framangreindum aðstæðum, var það greinilega röng hugsun að æða af stað með alla helstu fjármálsérfræðinga, með hugann fastan í að bjarga bönkunum vegna mjög alvarlegrar stöðu þeirra á þeim tíma. Stærsta viðfangsefni Seðlabankans var einnig að bjarga bönkunum. Nánari skýringar á því ferli verða raktar  í öðru skjali.

Undarlegt innheimtuferli.

En víkjum þá að Fylgiskjali 1, sem er greiðsluskrá afborgana af láni mínu frá október árið 2000, til uppgjörs eftirstöðva lánsins eftir greiðslu afborgunar 15. apríl 2019.  Þá var lánið gert upp, til að fá hreina niðurstöðu í mismunatölu milli meintrar eðlilegrar reiknireglu hliðstæðra lána, sem þó hafði aldrei verið reynd á almennum lánum. Athygli nefndarmanna er vakin á þremur sjálfstæðum innborgunum á lánið mitt á lánstímanum. Það er innborgun 15. des. 2009, upp á kr. 2.000.000, í febr. 2015 innborgun 1.141.946 og í jan. 2016 innborgun 380.648.  

Innborgunum þessum var deilt milli beinnar niðurgreiðslu á höfuðstól lánsins og uppsöfnunarlið áfallinna verðbóta. Þessi skiptiregla er hvergi skráð í vinnureglur starfsfólks, en þar sem ég þekki vel forritið og reiknireglur þess, gat ég skipt innborgununum á réttan hátt milli innborgunar á höfuðstól lánsins en hins vegar á áfallnar verðbætur. Þetta gæti aukið ykkur skilning á því að ég er hér að tala um hluti sem ég hef líklega meiri þekkingu á en flestir sem nú fjalla um hina meintu verðtryggingu.

En lítum nú á Fylgiskjal 2, sem er innheimtuseðill Íbúðalánasjóðs á útreiknaðri afborgun af láni mínu, á gjalddaga 15. apríl 2019, síðasta gjalddaga fyrir uppgjör lánsins. Á þessum greiðsluseðli eru uppgefnar:

 Eftirstöðvar nafnverðs, eftir greiðslu gjalddaga  kr. 3.500.113,

Áfallnar verðbætur, eftir greiðslu gjalddagans     kr. 4.699.291,

Eftirst. m/verðbótum eftir gr.gjalddaga            kr. 8.199.404.


Eftirstöðvar á sama láni, samkvæmt réttum reiknireglum,
 lögum samkvæmt, reyndust eiga að vera kr. 2.560.323,-.

Ekki fer á milli mála að á 222 gjalddögum af 478, hafði Íbúðalánasjóður ofreiknað greiðslur mínar um samtals kr. 5.639.081,-. En hvernig fór Íbúðalánasjóður að því að ofreikna svona greiðslur mínar? Fyrst skulum við líta á ljósgræna reitinn, 4. frá hægri, á Fylgiskjali 1. Sá reitur er fyrir reiknaðar verðbætur af hverri afborgun, samkvæmt vísitölu neysluverðs, eins og Hagstofan reiknar hana. Nákvæmlega sama vísitalan og kemur fram á öllum greiðsluseðlum Íbúðalánasjóðs, en reiknuð á allt annan veg en lítur að endurgreiðslu hins tekna láns. Formúlan er hefðbundin útreikniformúla vísitölu fyrir gjalddaga láns. En andlag þess sem var verið að verðbæta var ekki það sama. Reiknilíkan verðbætir Greiðsluna, endurgreiðslu lánsins eins og tilgreint var í 1. gr. laga nr. 71/1966, þó þau lög hafi þá verið fallin úr gildi og engin formleg lög komin í staðin.

Sundurliðun Greiðsluseðils 
Við skulum þá næst líta á hvernig sundurliða skal greiðsluseðil afborgunar, svo hann tilgreini hvern lið lánasamningsins fyrir sig, eins og lánveitanda er skylt að gera. Í lánaskjali er tilgreind upphæð láns, greidd afborgun, greiddir vextir og reiknaðar verðbætur. Einnig skal koma fram eftirstöðvar láns að aflokinni greiðslu, eins og sundurliðað er á reiknilíkaninu.  En lítum þá á Fylgiskjal 2,  sem er greiðsluseðill frá Íbúðalánasjóði með sundurliðun greiðslunnar sem innheimt var af þeim.  

Greiðslukrafan sundurliðast þannig:

Afborgun á nafnverði                                  kr.  7.600,

Afborgun verðbóta                                     kr. 10.204,

Vextir                                                kr. 14.908,      

verðbætur vegna/vaxta                                 kr. 20.016

Veðbandalausn                                         kr.  5.000

Innheimtugjald                                        kr.    265

Samtals til greiðslu                                  kr. 57.993

Við skulum skoða þessa sundurliðun Íbúðalánasjóðs vel, því ENGINN þessara sundurliðunarþátta eru í samræmi við skilmála lánasamningsins, sem hefur sömu sundurliðun og fram kemur á skuldaskjali lánsins. Er það sama sundurliðun sem kemur fram í því reiknilíkani sem er Fylgiskjal 1. Lítum nánar á þetta.

Hjá Íbúðalánasjóði segja þeir lánið vera jafngreiðslulán, og afborgun vera kr. 7.600, sem er of lágt, miðað við lánstíma og upphæð láns. Rétt upphæð afborgunar, fyrir innborganir, átti að vera kr. 13.375.

Eins og ég hef oft bent á, þá er skuldabréfakerfi Reiknistofu bankanna, rangt forritað fyrir jafngreiðslulán. Í forrituninni er gert ráð fyrir allt öðru greiðsluferli, sem engan veginn samrýmist jafngreiðsluláni. Það er einnig blekking að tilkynna greiðsluferli tilvitnaðs láns sem jafngreiðslulán.

Þegar allir liðir eru skoðaðir, sem taldir eru til lækkunar heildargreiðslu hvers gjalddaga, er ljóst að einungis er hverju sinni greitt lítill hluti réttrar afborgunar. Það veldur því að höfuðstóll lánsins lækkar ekki í takti við það sem líður á lánstímann.

Ef borið er saman greiðslur afborgunar í reiknilíkaninu, eftir síðustu innborgun, verður afborgunartala eftirstöðva þar kr. 9.885.
Rétt er að vekja athygli á því að ef greidd er aukagreiðsla til lækkunar eftirstöðva jafngreiðsluláns, er eftir niðurgreiðslu, farið að eins og í upphafi. Eftirstöðvum láns er deilt í þann fjölda afborgana sem eftir eru ógreiddir, og útkoma úr því verður jöfn afborgunartala til loka lánstíma.

Á greiðsluseðli Íbúðalánasjóðs er liðurinn „Afborgun verðbóta“. Sá liður er ekki til í formi endurgreiðslu jafngreiðsluláns. Útreikniformið sem notað er við útreikning tilvitnaðs jafngreiðsluláns, virðist ekki byggt fyrir útreikning afborgunarlána, heldur eingöngu fyrir eingreiðslulán. Formið gerir ráð fyrir því að einungis sé einu sinni reiknaðar verðbætur og þá reiknaðar á allar eftirstöðvar láns, eins og um eingreiðslulán sé að ræða. Jafngreiðslulán, sem endurgreitt er með mörgum afborgunum, verðbætir hverju sinni þá fjárhæð sem endurgreidd er á gjalddaga, sem lækkar eftirstöðvar lánsins að sömu upphæð.

Hliðarþáttur í forriti fyrir öll afborgunarskuldabréf, sem einungis kemur til útreikning við uppgjör láns, er reiknitala í forritinu sem kallast „áfallnar verðbætur á eftirstöðvar höfuðstóls“.  Þessi uppsöfnun í forritinu sýnir nákvæmlega hvernig verðbætur vegna liðins tíma eiga að reiknast inn þegar uppgjör fari fram á viðkomandi láni. Þessi liður á ekki að vera virkur við reglubundna afborgun láns og því ekki að reiknast af því mánaðarlegar verðbætur til greiðslu.

En ef borgað er inn á lánið, eins og ég gerði, hefur þessi uppsöfnunarliður ákveðið vægi til lækkunar á móti eftirstöðvum höfuðstóls. Þá skiptingu getið þið séð á innborgunum mínum, hvernig innborgun skiptist á milli lækkunar eftirstöðva höfuðstóls lánsins en hinn hlutinn fer inn í kerfið sem mínus verðtrygging og fer þannig til lækkunar hinni óvirku uppsöfnun verðbóta vegna uppgjörs lægri upphæðar eftirstöðva. OG eftir innborgun lækkar einnig afborgunarupphæð gjalddaga, eins og sjá má.

Liðurinn „Verðbætur vegna vaxtaer ekki heldur til í samningsformi jafngreiðslulána. Rétt beiting útreikniformúlunnar vaxta af jafngreiðsluláni, gerir ekki ráð fyrir að áfallnar verðbætur séu reiknaðar sérstaklega á gjalddaga. Reiknaðir jafngreiðsluvextir eru einnig að fullu greiddir á gjalddaga, þannig að vaxtagreiðslur sem reglulega eru greiddar á gjalddaga taka því ekki á sig sjálfstæðar verðbætur. Hins vegar verðbætist vaxtagreiðslan innan greiðsluliðsins Greiðslan, í reiknireglu jafngreiðsluláns, samkvæmt fyrirmælum úr 1. gr. laga nr. 71/1966 og þannig er reiknað í reiknilíkaninu.

Liðinn „Veðbandalausn“ hef ég hvergi séð í lánasamningum, þó ég hafi í gegnum tíðina lesið meira en 1.000 skuldabréfaskjöl. Eitt er víst að í skuldabréfi mínu er hvergi getið slíks innheimtuforms. 

Innheimtugjald, vegna einfaldrar tilkynningar gjalddaga er einnig utan lagaheimilda, því lánveitanda ER SKYLT, samkvæmt lögum og reglum um útreikning greiðsla hvers gjalddaga að standa lántaka skil á útreiknuðum innheimtuseðli fyrir gjalddaga, um það liggur fyrir úrskurður Ríkisskattstjóra.

Ekki er heimilt lögum samkvæmt að skylda einstaklinga til móttöku rafrænna reikninga, nema eftir þeim leiðum sem einstaklingurinn tilkynnir.

Ágæta Nefndarfólk.

Ég ætla ekki að sinni að hafa þessa umsögn lengri, en vek sérstaka athygli á að meint þörf fyrir breytingar á lánstíma jafngreiðslulána er tilkomin vegna rangra vinnubragða við útreikning afborgana slíkra lána, eins og að framan hefur verið rakið. Ef þið hefðuð einhverjar frekari spurningar um verðbætur í íslensku fjármálaumhverfi, er ekki ólíklegt að ég eigi í safni mínu sundurliðunar- eða skýringargögn, sem hægt væri að bregða upp á skjávarpa, til auðveldunar á ýmsum flækjum sem til eru komnar í fjármálkerfum okkar, sem oft virðist fyrst og fremst vegna vankunnáttu á að forma með réttum hætti lánaskilmála skuldabréfa inn í útreikniforrit afborgana.

Ef þið náið að skilja þokkalega það sem ég hef hér verið að reyna að útskýra, gæti verið að opnast leið til að forða þjóðfélaginu frá alvarlegum erfiðleikum, sem líklega myndu fylgja á eftir útkomu bókar um allt ferli verðtryggingarinnar, hvernig hún varð til og hverjir léku hvaða hlutverk í aðdraganda, sköpun og framvindu reiknikúnsta verðtryggingar,sem aldrei hefur verið byggt á gildri framkvæmd samkvæmt gildum lögum.

Með vinsemd og virðingu

Reykjavík 3. apríl 2021,

Guðbjörn Jónsson, kt: 101041-3289,

Fyrrverandi fulltrúi í hagdeild Samvinnubanka,

Síðar ráðgjafi í fjármálum fyrir einstaklinga og smærri fyrirtæki

        

 

 

 

 


Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband