Er þetta skref í áttina??

Ég er svolítið hugsi yfir því að skuld fyrnist á tveimur árum, eftir gjaldþrot. Þó slíkt gæti, í einhverjum tilvikum verið æskilegt, tel ég að áhrif slíks á t. d. afskriftareglur skattakerfis fyrirtækja, gæti orðið erfið í framkvæmd, vegna tapaðs veltufjár, sem miklar líkur eru einnig á að væri lánsfé hjá fyrirtækinu.

Svo er hins að gæta, að þó skuld fyrnist vegna gjaldþrots, geta verið fyrir hendi í lögunum heimild til að endurvekja þá skuld, batni hagur skuldara fáum árum eftir gjaldþrot.  Slíkt er algengt í dag, að skuldir séu ekki afskrifaðar, eftir gjaldþrot, heldur séu endurvaktar aftur og aftur. Og með þeim hætti er þeim sem lendir í gjaldþroti, haldið í fjörtum árum saman.

Ég teldi mikilvægast, samhliða því að heimila afskriftir lána, fáum árum eftir gjaldþrot, að samhliða væri sett ákvæði um skyldu skuldareiganda til að afskrifa kröfuna á sama tímapunkti og senda skiptastjóra tilkynningu þar um. Einnig þarf að setja í lög, að þær kröfur sem ekki er lýst við gjaldþrot, afskrifist sjálfkrafa um leið og úrskurður um gjaldþrot er kveðinn upp. Slíkt mundi útiloka að kröfur, sem ekki komu fram við gjaldþrot, komi fram í dagsljósið stuttu eftir gjaldþrotaúrskurð, öllum til leiðinda.

Svo heildarmyndin verði skýr, þarf samhliða að setja inn í lög um rekstur fjármálafyrirtækja, ákvæði um að þeim sé óheimilt að lána, í almennum lánaflokkum, útlán sem ekki er sannreynt að greiðslugeta sé fyrir hendi hjá lántaka, og að viðunandi trygging sé fyrir hendi.

Lánastofnunum væri heimilt, innan ramma 10% af arðsemi eða fjárhæðar óinnleystrar arðsemi, að lána fé án sannanlegrar greiðslugetu eða haldgóðrar tryggingar; lán sem væri að fullu á ábyrgð lánastofnunar, reyndist venjulegt innheimtuferli árangurslaust. Tap af slíkum lánum drægist frá heimildum til arðgreiðslu.

Þriðji þátturinn sem samhliða þyrfti að taka á, er lána/afborgunarviðskipti út um allt viðskiptasviðið. Setja þyrfti í lög um slík viðskipti, að einungis væri heimilt að taka veð, eða gera kröfu í hið selda, hverju sinni, en óheimilt væri að gera kröfur í aðrar eignir, eða skrá fjárnám á heimili viðkomandi skuldara.

Ef taka á heilstætt á skuldavanda heimila og fyrirtækja, verður að fara slíka heilsteypta leið, samstillingar allra áhrifa og afleiðinga. Annað er bara tilfærsla á vandmálum.               


mbl.is Skuldir fyrnist á tveimur árum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nokkuð gott, en hefði mátt vera betra.

Í sjálfu sér ætla ég ekki að draga úr mikilvægi þess að uppboðum sé frestað. Ég hefði hins vegar viljað sjá önnur formerki fyrir aðgerðinni; önnur en þau að skuldurum gæfist kostur á að semja um skuldir sínar.

Reynsla mín segir mér að helsta hindrun samninga sé viljaleysi lánastofnana til að horfast heiðarlega í augu við eigin vitleysu, og í því ljósi ganga heiðarlega til samninga við skuldara um raunverulega getu hans til greiðslu afborgana.

Helsta vandamálið í því ferli er, eins og ég hef áður rakið, heljartak lögfræðinga á þeim skuldum sem þeir hafa tekið til innheimtu. Þeir vilja ekki sleppa þeim mikilvæga tekjugjafa sem skuldirnar eru, því þó skuldarinn geti ekki greitt þeim fyrir þrákelkni og fyrirstöðu gegn eðlilegu lausnarferli, þá greiðir bankinn þeim á endanum þeirra reikning.

Ef viðskiptaráðherra og hans fók hefði í raun ætlað að setja lög til að greiða fyrir lausnum, hefðu þeir átt að setja lög um að bakarnir tækju aftur inn til sín, þær kröfur sem þeir hefðu sent til innheimtu hjá lögfræðingum.

Og í framhaldi þess hefði átt að setja skyldur á herðar bankanna, að leggja fram lausnatillögur, sem byggðar væru á raunverulegri greiðslugetu skuldara. 

Ef slík leið hefði verið farin, hefðu menn verið að feta sig áfram í átt til raunhæfra lausna. Biðstaða, eins og nú er verið að framlengja, leysir engan vanda.              


mbl.is Samstaða um að fresta uppboðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vitleysan í upphafi hruns þvælist endalaust fyrir

Ákveðin alvarleg mistök voru gerð í upphafi, þegar gömlu bankarnir voru yfirteknir. Augljóslega voru þar engir við ákvarðanatökur, sem þekktu innra skipulag bankanna. Því fór sem fór.

Þegar gömlu bankarnir voru teknir yfir, voru þeir yfirteknir sem heild, með öllu ruglinu í svokölluðum fjárfestingarhluta starfsemi þeirra.  Þann hluta átti að skilja eftir hjá gömlu bönkunum.

Málið er, að á hverri nóttu, eftir virkan starfsdag banka, eru allir reikningar í bankakerfinu gerðir upp í gegnum tölvukerfið hjá Reiknistofu banaknna. Þannig er á hverjum morgni nákvæm niðurstaða allra hreyfinga, hvers einasta reiknings, í öllu bankakerfinu, frá deginum áður. Ný byrjun getur því hindrunarlaust hafist á hverjum morgni, varðandi alla venjulega bankastarfsemi viðskiptabanka. Öðru máli gegnir með fjárfestingabanka.

Til viðskiptabaka heyra allir innlánsreikningar, veltureikningar, víxlar og skuldabréf samkv. höfuðbókum 66 og 74.

Ef menn hefðu látið sér nægja að yfirtaka viðskiptasvið banknna, þ. e. innláns- og veltureikninga, víxla og framangreind skuldabréf, hefði þjóðfélagið verið losað við stærstu vitleysurnar úr fjármálakerfinu og það sjálft, þ. e. slitastjórnir og skiptaráðendur gömlu bankanna, haft einir það verkefni að gera upp sukkið. Ríkisstjórn og skattgreiðendur hefðu hvergi komið þar nærri.

Með þessu móti hefði strax, á fyrstu mánuðum eftir hrun, verið hægt að kortleggja leiðréttingaferli fyrir heimili og smærri fyrirtækin, sem eingöngu áttu í viðskiptum við viðskiptahluta bankakerfisins. Heimilin væru því fyrir meira en ári komin í varanlegt umhverfi og mörg fyrirtæki farin að leita leiða til vaxtar og framþróunar.

Önnur vitleysa, sem gerð var í upphafi, var að gera ekki strax úttekt á því hve miklu magni af íslenskum peningum hafði verið komið undan, með því að flytja þá úr landi. Hvað mikið átti þjóðin eftir, til að fjármagna rekstur þjóðfélagsins, eins og hann var á þeim tíma. Ljóst var að samdráttur var nauðsynlegur, því við höfðum aukið verulega umfang og veltu þjóðfélagsins, með erlendu lánsfé, sem nú var horfið úr hringrás fjármagns um þjóðfélag okkar.

Nauðsynlegt hefði því verið að ríkisstjórn og Alþingi hefðu strax, haustið 2008, tekið þá ákvörðun að gefa út nýja mynt; krónu sem væri 1/10 verðmætari en sú sem verið hafði í gildi.  Starx og myntin hefði verið tilbúin, hefði gamla myntin verið innkölluð, og fólk fengið 3ja mánaða frest til að skipta yfir í nýjum myntina. Að þeim tíma liðnum væri gamla myntin verðlaus.

Skilyrði myntskipta hefðu átt að vera þau að sá sem skipta vildi gömlum krónum fyrir nýjar, gæti sannað á hvern hátt hann eignaðist gömlu krónurnar og að af þeim hefði verið greiddur skattur og önnur opinber gjöld til ríkissjóðs.

Hefði þessu ferli verið fylgt, væri allt íslenskt fjármagn komið til skila, eða orðið ónýtt, þeim sem það fjarlægðu úr vörslu þjóðarinnar. Hefði tilkynning um myntskiptinguna verið tilkynnt strax eftir hrunið, hefðu engir bankar breytt gömlum íslenskum krónum í aðrar myntir. Þannig hefðu safnararnir  setið uppi með hið illa fengna fé, og ekki átt aðra leið en að skila því aftur, eða horfa á það verða að engu.

Samhliða þessu hefði átt að byggja upp flæðilíkan af rekstri þjóðfélagsins, og finna með því út hvað þjóðartekjurnar gætu borið uppi mikla samneyslu. Það er stærra og umfangsmeira viðfengs, en svo að því verið gerð skil í stuttum pistli.

Sjáum til síðar.     


mbl.is Verið að leggja mat á ýmsa kosti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig réttum við stöðu allra skuldara?

Í pistli hér á undan rakti ég grófa flokkun á skuldum heimila, sem líklegast væri að mest samstaða næðist um. Að vísu gleymdi ég þar að geta um hin svokölluðu "gengistryggðu lán". Þar var kannski vegna þess að ég hef áður sagt að öll lán, í íslenskum krónum, sem beri gengistryggingu miðaða við erlenda mynt, séu ólögleg. Þau skulu öll tekin til hliðar og fryst, meðan önnur lánamál eru afgreidd. Ástæða hliðarsetningar og frystingar er fyrst og fremst sú, að til þessara lána var stofnað með ólögmætum hætti, því eiga þau í raun ekki lögvarða réttarstöðu, eins og hin lánin. Bankarnir brutu lög með því að bjóða, eða gefa kost á slíkum tryggingum íslenskrar krónu.

Í fyrri pistli mínum sagði ég að lán frá Íbúðalánasjóði og sjóðsfélagalán lífeyrissjóðanna, væru undanþegin niðurfellingum. En það þýðir ekki að þau muni ekki taka breytingum, yrði farin sú leið sem ég sting upp á.

Breytingin fælist í því að við leiðréttingu á útreikniforsendum verðtryggingar, þar sem þær væru færðar að upphaflegum lagagrundvelli, yrði höfuðstóll og uppsafnaðar verðbætur, færðar aftur til þess sem þær voru 1. ágúst 2008. Frá þeim tíma tæki ný reikniaðferð verðtryggingar við, og hún látin reikna afborganir og verðbætur lána frá þeim tíma.

En hvernig er þá verðtryggingin núna rangt reiknuð, og hvernig segja lögin að hafi átt að reikna hana. Í pistli hér framar á síðu minni greini ég frá hinni röngu útreiknireglu, þar sem verðbætur eru reiknaðar á allt lánið, fyrir hvern gjalddaga. Það er rant og sú reikniaðferð hefur aldrei verið sett í lög.

En hvað segir þá í lögunum? Það ákvæði er að finna í 34. grein laga nr. 13/1979, lög um stjórn efnahagsmála o.fl. eða svonefndum "Ólafslögum". Þau lög voru í gildi til ársins 2009, er þau voru felld úr gildi með lögum frá Alþingi. En, 34. greinin hljóðar svo: (leturbreytingar eru mínar)

"Stefna skal að því að verðtryggja sparifé landsmanna og almannasjóða. Í því skyni er heimilt, eins og nánar greinir í þessum kafla, að mynda sparifjárreikninga og stofna til lánsviðskipta í íslenskum krónum eða öðrum verðmæli með ákvæðum þess efnis, að greiðslur, þar með taldir vextir, skuli breytast í hlutfalli við verðvísitölu eða gengi erlends gjaldeyris, sbr. 39. gr."

Eins og þarna kemur skýrt fram er það greiðslan hverju sinni,(þ.e. afborgunin), sem skal verðbætast. Hvergi er heimilað að uppreikna höfuðstólinn eða eftirstöðvarnar. Sá sem á útistandandi verðtryggt lán hjá einhverjum skuldara fær, við uppgjör á eignastöðu sinni reiknireglu til að uppfæra í bókhaldi sínu þau rauneignarverðmæti sem í hinu útistandandi láni felast.

Hin rétta reikniregla er því sú að höfuðstóll ALLRA verðtryggðra lána, á að lækka í réttu hlutfalli við afborgun hverju sinni. Í dæmunum sem ég tek í pistlinum hér framar á síðunni, kemur glöggt í ljós hve mikill munur er á réttum útreikning eða þeim ólöglega útreikning verðtryggingar og vaxta, sem stundaður hefur verið frá upphafi.

Þagnarmúrinn um þennan þjófnað hefur verið gríðarlega samstilltur, og virðist jafnt ná inn í raðir stjórnenda stéttarfélaga og lífeyrissjóða, sem og til ráðandi afla í hinum svokölluðu "velferðarflokkum" sem nú sitja við völd.

Það gæti verið ómaksins vert að berja svolítið fleiri tunnur til að rjúfa þennan þagnarmúr, þó ekki væri nema að rjúfa þagnarmúr fjölmiðla, svo hægt væri að kynna þessa aðferð þjófnaðar með skýrum hætti fyrir fólkinu í landinu.                


mbl.is Gylfi furðar sig á ummælum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bréf til Steingríms fjármálaráðherra

Hr. Fjármálaráðherra,
Steingrímur J. Sigfússon.

Reykjavík 12. október

Heill og sæll Steingrímur.
Ekki fer það framhjá mér, frekar en öðrum, hve draga þarf saman veltuna í þjóðfélaginu, eftir að lokaðist fyrir erlend lán til að fjármagna neysluna. Ég sé samt ekki betur en að sérfræðingum ráðuneytisins hafi sést yfir afar áhrifaríka leið til að draga úr veltu þjóðfélagsins, þ. e. útgjöldum almennings, fyrirtækja og ríkisins, með einni og sömu aðgerðinni.

Felst sú aðgerð í því að fella með öllu niður innheimtu virðisaukaskatts út um allt þjóðfélagið, en taka þess í stað einungis upp lágt gjald á innflutning.  Þetta er ekki sagt út í loftið, því þetta var kannað á árinu 1995, þegar unnin var skýrsla á vegum fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna í Reykjavík, um svarta atvinnustarfsemi og gerviverktöku.

Í ljós kom að ríkissjóður er sjálfur afar stór greiðandi virðisaukaskatts. Bæði er hann afar stór vinnuveitandi, auk þess sem hann greiðir virðisaukaskatt af marskonar rekstrarkostnaði í sínum fasta rekstri.  Þar fyrir utan sýnir raunveruleikinn að ríkissjóður hefur sjálfur verið aðal fjármögnunaraðili flestra stórframkvæmda, annað hvort beint eða í gegnum félög og stofnanir í B hluta ríkisreiknings.

Í sambandi við gerð framangreindrar skýrslu, var gerð úttekt á ríkisreikningum fyrir árin 1991 og 1992, en það voru þá síðustu ríkisreikningar sem voru tiltækir. Niðurstöðurnar voru síðan bornar undir embætti skattstjórans í Reykjavík, Ríkisskattstjóra og Ríkisendurskoðunar, með beiðni um ábendingar um villur. Engin slík ábending barst, en við munnlega beiðni til Ríkisendurskoðunar um sundurliðun inn- og útskatts í ríkisreikningum, var beðist undan að fá slíka beiðni skriflega, því þeir liðir væru ekki færðir sérstaklega í bókhaldi ríkisins. Vakti það nokkra furðu, þar sem landslög kveða á um slíka skráningu.

Eins og meðfylgjandi gögn sýna, var árið 1991, nettó innheimtur virðisaukaskattur af vöruinnflutningi samtals kr. 24.189.100.000. Ekki var kannað hvernig þessi upphæð skiptist milli neysluvara annars vegar og hins vegar fjárfestinga.

Virðisaukaskattur innheimtur samkvæmt skýrslum í öllum rekstrargreinum þjóðfélagsins skilaði brúttó kr. 17.664.616.000. Að frádregnum endurgreiðslum, eins og þær voru tilgreindar í ríkisreikning og upptaldar í meðfylgjandi samantekt, reyndist nettó innheimta virðisaukaskatts, samkvæmt skýrslum, vera kr. 14.736.137.000.

Þar sem ekki var hægt að fá uppgefna veltufjárhæð inn- og útskatts í rekstri ríkisins, var farin sú leið að grandskoða útgjöld hvers ráðuneytis fyrir sig og greina útgjöld hvers eftir launum, gjöld án VSK, gjöld með VSK og síðan reiknaður virðisaukaskattur af þeirri upphæð.

Eins og meðfylgjandi samantekt sýnir, reyndust virðisaukaskattskyld rekstrargjöld ríkissjóðs árið 1991, vera hjá A hluta kr. 76.279.974.000, hjá B hluta kr. 28.788.500.000, eða samtals kr. 105.068.474.000. Virðisaukaskattur af þessari upphæð reynist ver kr. 20.677.475.683.

Eins og að framan sagði, var nettó innheimta með skýrslum kr. 14.736.137.000.

Virðisaukaskattur í rekstrargjöldum ríkissjóðs reyndist  kr.        20.677.475.683.

VSK fjármagnaður af ríkissjóði, umfram innh. skv. skýrslum kr. 5.941.929.083


 Þegar þessar staðreyndir eru skoðaðar, virðist augljóst að skattkerfi eins og virðisaukaskattur, innheimtur út um allt þjóðfélagið, sé ekki til þess fallinn að skila ríkissjóði nettó tekjum.  Virðisaukaskattur af vöruinnflutningi virðist greiða hallarekstur þessa kerfis, og rýra þannig tekjur ríkissjóðs af gjaldstofni virðisaukaskatts af innflutningi.

Á árinu 1992 er ekki alveg jafn mikill halli á  innheimtu virðisaukaskatts samkvæmt skýrslum, en halli samt. Lausleg athugun fleiri ára virðist benda til svipaðar niðurstöðu. Einnig má líta til þess að umtalsverð aukning útgjalda ríkissjóðs undanfarin áratug, virðist einnig benda til að greiðslur ríkissjóðs á virðisaukaskatti, umfram innheimtu samkvæmt skýrslum, hafi heldur aukist.

Ef farin væri sú leið að hætta innheimtu virðisaukaskatts út um allt þjóðfélagið, myndi það koma út sem niðurfærsla verðlags á neyslu- og rekstrarvörum heimila og fyrirtækja. Þetta yrði afar gagnleg staða gagnvart væntanlegum kjarasamningum, þar sem brottfall virðisaukaskatts úr neyslu- og rekstrarvörum heimila, kæmi út sem kaupmáttaraukning. Þessi aðgerð myndi einnig lækka rekstrarútgjöld ríkissjóðs, og gæti orið til þess að auka skatttekjur, þar sem aðgerðin virkaði jákvætt á rekstrarumhverfi fyrirtækja.

Margir fleiri jákvæðir þættir tengjast svona aðgerð. Með henni væri t. d. tekinn burtu helsti hvati að svarti atvinnustarfsemi og ásókn í sviksamlegt atferli, til að ná út endurgreiðslu frá ríkissjóði í formi innskatts.

Vegna þröngrar stöðu okkar í erfiðum samdrætti, vil ég vekja athygli þína á þessum möguleika,  sem mér sýnist geta dekkað þann hallarekstur sem tiltekin er í fjárlagafrumvarpinu.
Með kveðju,
Guðbjörn Jónsson
f.v. ráðgjafi



Það er einungis ein leið fær út úr skuldavandanum.

Í litlu-kreppunni, eins og ég kalla kreppuna sem varð á árabilinu 1985 til 1993, þróaði ég aðferð til að takast á við skuldavanda heimila, þar sem skuldir urðu verulega umfram eignamörk og greiðslugetu.

Aðferð þessi er í sjálfu sér einföld, og hefðu stjórnvöld fallist á að fara þá leið, strax við hrun, væri meira en ár síðan allur skuldavandi heimila hefði verið leystur varanlega og uppbygging þjóðfélagsins hafin.

Það sem undrar mig mest, er að á þeim árum sem ég var að leysa úr skudlavanda heimilanna, var Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra, og vissi vel af þeim harða slag sem ég stóð í við lánastofnanir og lögfræðinga. Hvað veldur því að hún vilji ekki nú, nýta þá reynslu og þekkingu sem ég bý yfir, getur ekki annað en vakið spurningar um raunverulegan áhuga hennar til lausnar vandanum.

Það hefur alltaf legið fyrir hver vandinn er, hvaðan hann er kominn og hverjir bera meginþunga ábyrgðar á þeim ósköpum sem yfir dundu.  Á sama hátt hefur alltaf verið ljóst að engin samstaða mundi nást um alsherjar niðurfellingu einhvers hluta allra lána, því það eru ekki öll lán sem valda vandanum.

Í grófum dráttum má segja að íbúðalán frá Íbúðalánasjóði og sjóðsfélagalán lífeyrissjóðanna, séu þau lán sem fullkomlega eiga að vera undanskilin niðurfellingum. Ástæðan er sú að þessi lán eru öll tryggð með traustum veðum, innan söluverðs fasteignanna sem þau hvíla á.

Í grófum dráttum mætti segja að undanskilja ætti niðurfellingu eða breytingum framangreind lán, upp að 70% verðgildi viðkomandi fasteignar.  Lán sem væru á veðbilinu 70 - 110% raunvirðis fasteignar, ætti að setja í biðflokk, meðan náð væri utan um heildarpakkann.

Lán sem væru fyrir utan framangreind veðmörk, hefðu engar aðrar rauntryggingar og væru þar að auki fyrir utan greiðslugetu fjölskyldunnar, væru þegar felld niður og afskrifuð formlega.

Lán sem væru á veðbilinu 70 -110% yrðu síðan endurskipulögð innan greiðslugetu og staðan tekin til endurskoðunar að 5 árum liðnum. Lán sem væru utan raunhæfra veðtrygginga, en innan eðlilegrar greiðslugetu fjölskyldunnar, yrðu endurskipulögð og afborganir stilltar af móti tekjustreymi. Stæðist skuldari slíkt greiðsluplan í 5 ár, yrðu eftirstöðvar lánanna felld niður of afskrifaðar á formlegan og lögfullnægjandi hátt. Eins konar óformlegir nauðasamningar.

Samhliða þessu yrði ráðist í breytingar á útreikningum verðtryggingar, þannig að útreikningurinn væri í samræmi við upphafleg áform, að einungis greiðslur afborgana yrðu verðbættar, en verðbætur ekki lagðar ofan á höfuðstól, áður en afborgun væri reiknuð. Sú aðferð hefur aldrei verið lögleg og því alla tíð verið ólöglegt rán, með skipulegum hætti. (Sjá hér á síðunni í fyrri færslum)

Samhliða ætti einnig að setja á Alþingi lög til verndar heimilum manna. Í lögum þessum ætti að vera ákvæði um að óheimilt væri að setja heimil fólks að veði fyrir öðru fjármagni en því sem beinlínis væri til byggingar, öflunar, eða meiriháttar viðgerða heimilisins.  Einnig væri óheimilt að gera fjárnám í heimilim fólks, fyrir öðrum lánum en þeim er beinlínis voru til öfunar heimilisins.

Einnig ætti á sama tíma að setja lög þar sem lánsviðskiptum yrðu takmörk sett, þannig að seljandi gæti aldrei tekið annað, sem veð eða tryggingu fyrir eftirstöðvum söluverðs, en það sem selt var í lánsviðskiptunum.

Að lokum ætti svo að leysa úr niðurskurðarvanda ríkissjóðs, með því að fella með öllu niður innheimtu virðisaukaskatts, með skýrslum út um allt þjóðfélag. Ríkssjóður hefur engar nettótekjur út úr þeirri innheimtu. 

Slíkt myndi færa verðlag niður um samsvarandi hlutfall, auk þess að afnám virðisaukaskatts mundi auka ráðstöfunartekjur heimilanna og leysa úr yfirvofandi vanda vegna kjarasamninga.

Þetta er bara lítið brot af því sem mér sýnist þurfa að gera strax í þessu þjóðfélagið, svo þjóðin geti aftur farið að brosa mót framtíðinni.                


mbl.is Hagsmunasamtökin dregin á asnaeyrunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.10.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Okt. 2010
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband