Spurning hvort við þorum ekki að horfast í augu við það sem við gerðum eða skiljum ekki hvað við gerðum?

Afar athyglisvert að fylgjast með viðbrögðum fólks við þessum erfiðleikum á fjármálamarkaðnum.

Skiljum við ekki enn að við þöndum þjóðfélag okkar út, langt umfram tekjulega getu okkar, með erlendu fjármagni, sem nú þegar hefur verið eytt í tóma vitleysu, sem hvorki gefur af sér auknar tekjur til greiðslu þessa lánsfjár, eða til þess að viðhalda þeirri útþenslu sem gerð var á þjóðfélaginu með þessu lánsfé?

Skiljum við ekki enn að við sem þjóð erum nánast í sömu stöðu og einstaklingur sem kominn er í þrot vegna skuldavanda, skuldar mikið meira en eignir standa á móti. Fyrsta hugsun okkar þarf að vera um það hvernig við getum borgað allt það lánsfé sem við höfum tekið að láni, í stað þess að velta okkur upp úr auknum möguleikum hins óraunsæja fjármálamarkaðar til að búa til fleiri haldlausar verðbréfafærslur.

Skiljum við ekki enn að það eru ákvarðanir lánastofnana hve háa vexti við greiðum af lánum okkar, en ekki Seðlabankans?

Skiljum við ekki þörfina á að pressa á ríkisstjórnina að beita lánastofnanir þvingunaraðgerðum til lækkunar vaxta, vilji þeir ekki gera það af eigin frumkvæði?

Skiljum við ekki þörfina á að minnka eyðslu gjaldeyris, svo tekjuafgangur myndist til greiðslu skulda, líkt og mikið skuldsettur einstaklingur þarf að draga verulega úr eyðslu sinni til að komast hjá gjaldþroti?

Skiljum við ekki ábyrgð okkar sem fjárhagslega sjálfstæð þjóð?

Ég bara spyr? 


mbl.is Eðlileg viðbrögð Seðlabanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það getur enginn látið kraftaverk bíða.

Fyrirsögnin á þessari frétt er röng. Við gerum ekki kraftaverk, þau gerast og koma ævinlega öllum viðkomandi á óvart.

Fyrirsögnin hefði átt að vera: Kærleiksverkin þurfa að bíða vegna þess að við tímum ekki að borga þau.

Þau kærleiksverk að láta sjúkum líða sem best, virðast ekki vera inná leikvellinum hjá stjórnvöldum. Veit ekki hvort þau eru einu sinni á varamannabekknum. Kannski ekki valin í forgangshópinn.

Kostnaður við að bæta heilsu landsmanna er ekki nema lítið brot af því fjármagni sem stjórnvöld ráðstafa í hreina vitleysu, t. d. við að skapa sér ímynd það fjarri fósturlandinu að fólk þar viti lítið um raunveruleikann hjá okkur, hlaða undir sjálfa sig lífsgæðum, og greiða kostnað af afleiðingum þess að hafa ekki stjórnað landinu, heldur horft þegjandi á menn búa tjónið til. Fleira mætti telja en læt hér staðar numið.

Það er slæmt að hafa stjórnmálamenn sem hafa takmarkaða yfirsýn í heilastarfsemi sinni, en hálfu verra er þó að það skuli nánast vanta kærleiksríka starfsemi hjartastöðvar. Árangur okkar er líka í takti við það.           


mbl.is Kraftaverkin þurfa að bíða vegna manneklu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugleiðing um atburði tengda Páskum kristinna manna

Föstudagurinn fyrir Páska hefur afar skýra sérstöðu í hugum Kristins fólks. Flestum er ljóst að þetta er dagurinn sem Jesú var krossfestur. Hins vegar finnst mér fara minna fyrir alvarlegum hugleiðingum um atburði morguns þessa dags, þ. e. ákæruna og dauðadóminn sem kveðinn var upp yfir Jesú. Hverjir dæmdu hann til krossfestingar og hvaða sakir báru þeir fram?

Frá barnæsku og fram yfir miðjan aldur, fékk ég ævinlega sorgarhnút innra með mér þegar kennimenn kristinnar trúar höfðu á orði að Jesú hefði dáið á krossinum fyrir okkur. Svo að við gætum fengið fyrirgefningu synda okkar. Ég skal viðurkenna að ég les nú Biblíuna ekki daglega, enda þar um að ræða lýsingu á atburðum sem gerðust fyrir c. a. 1.975 árum. Ég hef hins vegar reynt að tileinka mér þau viðhorf sem Jesú hafði til kærleika og mannvirðingar og reynt að láta það birtast í mínu daglega lífi. Mér hefur hins vegar alla tíð verið ómögulegt að lesa kenningu kennimannana út úr texta Biblíunnar, um atburði tengda ævilokum Jesú.

Í Biblíunni segir frá því að hvorki Pílatus né Heródes gátu fundið neina sök hjá Jesú, sem réttlætt gætu fangelsun, hvað þá dauða. Píladus hafði kallað saman allt fólkið, bæði háa sem lága, til að vera vistaddir réttarhaldið yfir Jesú, að því er virðist einkanlega vegna þess að venja hafði verið að gefa einum fanga frelsi á þessum  degi, í tilefni Páskanna.

Þegar Píladus tilkynnir að hann finni enga sök hjá Jesú og hann ætli að láta refsa honum og sleppa honum síðan lausum, æpti lýðurinn að þau vildu krossfesta hann, en Pílatus ætti að gefa Barrabassi frelsi. Sá sat í fangelsi fyrir upphlaup og morð.

Í þrígang reyndi Píladus að komast hjá því að kveða upp dóm um krossfestingu. Hann sagði við lýðinn:

Hvað illt hefur þá þessi maður gjört? Enga dauðasök hef ég fundið hjá honum. Ætla ég því að hirta hann og láta hann lausan.

Þegar hann hafði þetta mælt, sótti lýðurinn á með ópi miklu og lét þá Píladus undan og ákvað að kröfu þeirra skyldi fullnægt en þeir fá þann lausan sem hnepptur hafði verið í fangelsi fyrir upphlaup og morð.

Þetta er lýsing Biblíunnar á aðdraganda að dauðadómi yfir Jesú.

Þegar við lesum þetta með yfirvegaðri vitund á því hvað í frásögninni felst, sjáum við að það eru ekki valdamenn, líkt og Pílatus, sem vildu krossfesta Jesú. Það er fólkið, lýðurinn, sem verður meðvirkur klerkastéttinni og kveður upp dauðadóm yfir manni, án þess að hafa í raun nokkurt sakarefni á hann borið. Og þessi lýður meira en kveður upp dóm sinn. Hann krefst þess að farið verði að vilja hans og saklaus maður tekinn af lífi.

Þarna höfum við dæmi um nærri tvö þúsund ára gamla sögu af múgsefjun og óafturkræfum afleiðingum hennar. Spurningin til okkar í dag er ekki hvort þessi saga hryggi okkur. Spurningin er hvort við séum enn í dag þroskalega séð á sama stað og lýðurinn í Jerúsalem fyrir u. þ. b. 1.975 árum; að við, í krafti múgsefjunar, kveðum upp afgerandi dóma yfir náunganum, án þes að hafa í huga okkar eða hjarta, haldtraust rök fyrir dómum okkar.

Ég mundi halda að það væri einmitt þessi atriði sem dauði Jesú á að leiðbeina okkur með; að gæta vel að rökfestu dóma okkar.

Biblían er á margan hátt ágætis bók. Í grunninn er t. d. Nýjatextamentið frásögn af manni sem leitaðist við að vekja réttlætisvitund í siðspilltu samfélagi; samhliða því að ganga fram í kærleika. Hann sýndi mátt þann sem maðurinn getur öðlast, gangi hann fram í hreinum kærleika og einlægum vilja til að gera öðrum gott. Þessi saga er sögð af mörgum aðilum, að viðbættum frásögnum af nokkrum mönnum sem reyndu að feta í fótspor meistarans.

Þess verður að gæta að í gegnum aldirnar hafa þessar sögur verið margþýddar og endursagðar milli mála og tímaskeiða og, eins og við höfum orðið vitni að, verið lagaðar að háttum hvers tíma. Hæglega hefur því geta skolast inn mistúlkun á borð við það að  Jesú hafi dáið fyrir syndir okkar. Í stað þess að segja að Jesú hafi dáið vegna syndar okkar, þ. e. að lýðurinn skildi krefjast dauða hans án þess að hafa neina sök á hendur honum.

Ég hefði viljað sjá kennimenn hvers tíma framkalla lifandi mynd af lífsviðhorfum Jesú í daglegu lífi hvers tíma, þannig að sterkustu gildin í lífsgöngu Jesú, mannvirðing og kærleikur, væru vel sýnileg í daglegu lífi samfélags okkar.

Þessa einlægu von á ég mannkyni okkar til handa.                   


Í augnablikinu er gengið "rétt" skráð, en það breytist fljótlega

Mér finnst afar undarlegt að upplifa umræðuna um efnahagsmálin. Það er eins og flestir stjórnendur þjóðfélags og fjármálastofnana séu annað hvort með Alsheimer eða skorti þekkingu til að bregðast við óhófi og rugli undanfarinna áratuga. Getur verið að enginn geti rætt opinberlega þessa stöðu okkar af einhverri skynsemi og varpað fram hugmyndum um leiðir út úr ógöngunum?

Af hverju má ekki tala af hreinskilni og á eðlilegu mannamáli um ástæður þess að gengi krónunnar er stöðugt að veikjast og hefur stöðugt verið að því í meira en hálfa öld?

Af hverju má ekki virkja aflið í fjöldanum, til þess að sameinast um að rífa þjóðina út úr stöðugri skuldasöfnun og algjöru skeytingaleysi fyrir tekjuöflun til framfærslu þjóðarinnar?

Varla eru það þau 70 - 80 prósent þjóðarinnar sem lifa við meðaltekjur eða þar fyrir neðan sem mundu missa spón úr aksi sínum ef sannleikurinn væri hafður uppi á borðinu og á skiljanlegu máli fyrir venjulegt fólk.

Af hverju talar enginn um það að gengi krónunnar fellur þegar eftirspurn eftir henni er meiri en framboðið. Og hvað þýðir það.

Það þýðir að stjórnvöld hafa ekki staðið sig í að gæta jafnvægis þess að notkun gjaldeyris væri ekki meiri en gjaldeyristekjurnar.

Samnefnari þarna á milli er það að heimili eyði ekki hærri fjárhæðum en tekjur þeirra standi undir.

Gefum okkur að þetta heimili taki erlent lán til að kaupa bíl. Lánið er í dollurum  og gengi eins dollar er 62 krrónur. Lánið er 16.129 dollarar, eða nánast ein milljón króna. Bíllinn er bara fjölskyldubíll sem skilar engum tekjum inn á heimilið, aðeins auknum kostnaði.

Nú kemur að því að heimilið þarf að fá dollara til að greiða afborgun af láninu. Þá segir sá sem á dollarana. Ég vil ekki selja þér dollara nema ég fái 67 krónur fyrir dollarinn.  Sá sem hafði sett sig í fjötra og verður að fá dollarana, getur ekki annað en borgað það sem upp er sett.

Ef þetta heimili hefði enga þörf fyrir dollarana, yrði engin gengisfelling á krónunni. 

Af hverju verður þá gengi krónunnar stundum of hátt skráð, eins og það er kallað?

Ástæða þess er sú að gjaldeyrisstreymi inn í hagkerfið er meira en tekjusköpun og meiri en eðlileg starfsemi þarfnast. Þess vegna verður hægt að fá mikið meira af peningum lánað en skapast með tekjuöflun. Og sleppi menn varfærni og fyrirhyggju, má fá lánsfé fyrir nánast hverju sem er.  Slík staða hækkar gengi krónunnar, því frekar en liggja með peningana vila eigendur þeirra láta þá af hendi fyrir lægra gjald, heldur en láta þá liggja og skila engum arði eða tekjum. Slík staða getur skaðað alvarlega tekjugreinar samfélagsins og komið í veg fyri að þær geti blómstrað og aukið tekjur sínar, öllu samfélaginu til heilla.

Þarna er dreginn fram sá óvitaskapur sem stjórnendur lánastofnana hafa stundað undanfarinn áratug eða meira og stjórnendur þjóðfélagsins látið óátalið, nema þeir hafi ekki þekkingu til að skynja nauðsynlega jafnvægisþætti þessara mála.

Af hverju þegja menn? 

Getur það verið af því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur vegsamað svipaðan óraunveruleika í marga áratugi?                  


mbl.is Segir gengi krónunnar næstum rétt skráð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það vantar æði margt í þessa frétt

Það sem mér finnst athyglisverðast við þessa frétt er það hvað mikið vantar í hana svo hún sé upplýsandi fyrir þá sem lesa hana. Það er ótrúlegt að ekki skuli vera gerð athugasemd við að bera saman sem jafnvígar, ákvarðanir Seðlabanka Bandaríkjanna og Seðlabanka Íslands. En hver gæti munurinn verið?

Seðlabanki Bandaríkjanna þarf að taka mið af því að Bandríkjadollar er heimsviðskiptamynt, sem hefur áhrif langt út fyrir þjóðríki Bandaríkjanna. Margir milliríkjasamningar og viðskiptasamningar fyrirtækja, milli landa, eru skráðir í Bandaríkjadollurum. Þannig hefur dollarinn áhrif á efnahags- og viðskiptalíf um víða veröld.  Íslenski Seðlabankinn þarf einungis að taka mið af Íslensku efnahags- og viðskiptalífi, þar sem Íslenska krónan hefur enga fasta stærð í heimsviðskiptunum. 

Lækkun Seðlabanka Bandaríkjanna á stýrivöxtum má augljólega rekja til þess sem þekkt er, að um nokkuð langt skeið hefur verið að þrengjast að hjá fjármálastofnunum þar vestra. Og augljóslega margir komnir í erfiða stöðu með lausafé, vegna skorts á nýju lánsfé. Mikið af útlánum þeirra hefur verið með ótrygga endurgreiðslu og þó lánastofnanir þar vestra hafi verið að svindla einhverjum hluta þessara vafasömu lána sinna í skuldabréfapakka sem seldir hafa verið lánastofnunum út um allan heim, sitja þeir áreiðanlega sjálfir uppi með  gífurlegar fjárhæðir sem verður að teljast dautt fjármagn. (fjármagn sem skapar engar tekjur og ekki er greiddar afborganir og vextir af).

Við þessar aðstæður er Seðlabanki Bandaríkjanna að fást. Vegna stórkostlega vitlausrar útlánastefnu lánastofnana er búið að ausa meginþorra lausafjár í heiminum í fjáfestingar til að efla og auka þjónustu, sem og í fjölmarga þætti sem ekki skila verðmætaaukningu og auknu fjárstreymi. Þess vegna hefur lausafé gengið til þurðar. Því miður virðast hagfræðingar nútímans gleyma því hvað það tekur langan tíma að búa til raunverulegt lausafé, og fara þess vegna ógætilega með þessa mililvægu auðlind heimsviðskiptanna.

En hvers vegna þarf Seðlabanki Íslands ekki að lækka stýrivexti?

Ástæða þess er sú að allir stóru bankarnir okkar hafa tilkynnt að þeir séu vel staddir með lausafé; voru nýbúnir að endurfjármagna sig áður en niðursveiflan dundi yfir. Þeir eru því vel staddir, fari þeir ekki sjálfir út í foraðið, með því að lána út þetta lausafé í fjárfestingar sem engu fjárstreymi skilar.

Seðlabankinn þarf enn að halda pressu á lánastofnunum að draga saman seglin í útlánum, vegna þess að óvitaskapurinn með útgáfu svonefndra "Jöklabréfa" mun áreiðanlega koma hratt til endurgreiðslu og afar óljóst hvort hinir erlendir fjárfestar, eigendur þessara bréfa, muni hafa áhuga fyrir nýjum lánveitingum hingað í formi nýrra "jöklabréfa". Bankarnir þurfa því að standa klárir að því að greiða nokkur hundruð milljarða úr sínum eignasjóðum, því allt það fé sem kom inn í þjóðlífið með "jöklabréfunum" er þegar fast í steinsteypu, öðrum fjárfestingum sem ekki skila tekjum, eða hefur beinlínis verið eytt í ýmiskonar ónauðsynlega neyslu.

Það er fullkomlega skiljanlegt að Seðlabankinn vilji sjá með áþreifanlegum hætti að stjórnendur lánastofnana séu búnir að átta sig á hinum alvarlegu mistökum sínum á undanförnum árum. Það er afar nauðsynlegt að forstöðumenn stórra lánastofnana í litlu hagkerfi, geri sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem þeir bera á eðlilegri hreyfingu ALLS hagkerfisins, og að þeir skilji mismunuinn á að reka burðarása fjármála-, atvinnu-, og viðskiptalífs heillar þjóðar, eða litla sælgætissjoppu sem einungis hugsar um að hagnast sjálf.
  

                               


mbl.is Vextir og væntingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað vilt þú að ég geri, sagði læknirinn?

Ég lenti í óhappi með vinstri handlegginn haustið 2001, sem hafði þau eftirköst að ég var með verk allt frá fingrum og upp í öxl. Verkur þessi versnaði með árunum. Seint og um síðir var svo ákveðið að gera eitthvað í málunum og ég settur í hverja myndatökuna á fætur annarri. Síðan var ég settur í ómskoðun og að lokum í Ísotópaskann. Fyrsti læknirinn sendi mig til annars læknis og sá sendi mig áfram til þess þriðja, sem átti að skera upp öxlina.

Þegar sá læknir var búinn að skoða myndirnar, þukla öxlina og lýsa því hvað hann teldi að væri að, leit hann á mig og spurði.

Hvað vilt þú að ég geri fyrir þig?

Ég horfði fyrst á hann hugsi, en þá var mér fært svarið til hans á silfurfati. Ég horfði einlæglega á hann og sagði:

Ég er staddur í þotu í 30.000 feta hæð og það er komið að því að undirbúa lendingu. Þá kemur flugstjórinn til mín, horfir einlæglega á mig og segir. Hvað vilt þú að ég geri?

Við þessa sögu skellihló læknirinn og sagðist bara gera það besta sem hann kynni og ég yrði bara að sætta mig við það.

Ég samþykkti það og aðgerðin tókst í alla staði frábærlega vel og handleggurinn á góðum batravegi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.10.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2008
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband