Er grasið grænna handan girðingarinnar???

Eigum við að sækja um ESB aðild? Ef raunhugsun er notuð, finnst mér líklegt að margir vildu ekki leggja í þann kostnað sem því fyldi. Af hverju segi ég þetta og af hverju tala ég um kostnað?

Það sem við vitum, er að á undanförnum árum hefur Evrópusambandið verið að stækka.

Við vitum að öll þau ríki sem bæst hafa við, eru fátæk, með mikið atvinnuleysi, litlar gjaldeyristekjur, mikið minni félagslega þjónustu en við þekkjum hér.

Við vitum að þessi ríki þurfa mikla fjárhagslega aðstoð frá ESB til þess að jafna stöðu þeirra í átt til meðaltals ESB-ríkja.

Við vitum að þau ríki sem eru í biðstofunni, að bíða þess að fá inngöngu, eru líka fátæk og þurfa mikla fjárhagsaðstoð, verði þau samþykkt.

Við vitum að fjárhagslegur vandi ESB var orðinn verulegur, áður en þessi fátæku ríki bættust við ESB hópinn, og að í hinum fáu efnuðu ESB ríkjum hafa verið harðar deilur um kostnaðinn sem fylgir rekstri ESB. Sá kostnaður hefur aukist verulega við inngöngu þessara fátækari ríkja.

Við vitum að um margra ára skeið hafa endurskoðendur ESB ekki treyst sér til að skrifa upp á ársreikninga sambandsins vegna fjárhagslegrar óreiðu.

Við vitum að hluti hinna efnaðari ESB ríkja hafa neitað að auka fjárframlög sín til sambandsins og m. a. af þeim sökum höfum við verið pressuð til að hækka greiðslur okkar til sambandsins vegna EES samningsins.

Við vitum að Ísland er talið með ríkustu þjóðum Evrópu, þó við séum jafnframt líklega skuldugasta  þjóðin, miðað við fólksfjölda.

Við vitum að gjaldeyrisöflun okkar er með því hæsta sem gerist innan ESB, miðað við fólksfjölda. Í ljósi þessa munum við verða krafin um hæstu greiðslunar til ESB og á móti fá lægstu greiðslurnar frá ESB vegna hárra tekna og víðtæks velferðarstigs.

Við vitum að vegna fjölgunar ríkja innan ESB,  eru að verða breytingar á ákvarðanatökum. Vægi smáríkja er að minnka. Þessi þróun mun verða hröð á komandi árum, vegna krafna stóru ríkjanna sem leggja til megnið af fjármagninu. Þeir eru þegar farnir að krefjast meiri áhrifa á ákvarðanir sambandsins. Þeim kröfum mun ekki verða hægt að hafna, því engin ríki geta tekið stöðu þeirra í fjármögnun á rekstri sambandsins og greiðslu styrkja til fátæku ríkjanna.

Í ljósi alls þessa mun raunveruleikinn leiða í ljós að aðild að ESB mun kosta þjóðina umtalsvert meira en við munum fá í styrki. Bæði er það að vegna fjölgunar fátækra ríkja, sem þarfnast styrkja, sem og vaxandi tregðu ríkja til að fjármagna þennan kostnað; vaxandi erfliðleika, á heimsvísu, við öflun lánsfjár, versnandi stöðu ESB til lántöku vegna þess að endurskoðendur hafa ekki staðfest ársreikninga - allir þessir þættir samverkandi munu leiða til þess að styrkveitingar frá ESB munu lækka verulega á komandi árum.

Hvað varðar verðgildi gjaldmiðils okkar, eða hvað hann heitir, hefur ekkert með ESB aðild að gera. Verðgildi gjaldmiðilsins er alfarið innlend pólitísk ákvörðun. Ef okkur sýnist vænlegast fyrir þjóðina að fylgja verðgildi Evru, getum við allt eins hækkað verðgildi krónunnar, þannig að ein Króna verði jafngild einni Evru og binda síðan gengi Krónunnar við gengi Evrunnar. Slíkt er nákvæmlega sama þjóðfélagslega breytingin og að taka upp Evruna.

Ef menn treysta sér ekki í þessa breytingu, hafa þeir ekki verið raunsæir í kröfum sínum um upptöku Evru í stað Krónu.

Spurning dagsins er:  Mun fjármála-, fjölmiðla- og stjórnmálamenn okkar treysta sér til að ræða RAUNVERULEIKANN sem því fylgir að ganga í Evrópusambandið???? Ég efa það. 


mbl.is 67,8 vilja hefja undirbúning aðildarumsóknar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar hefur greiningardeildin verið???

Er það ekki dálítið sérstakt að fyrirtæki sem gefur sig út fyrir að greina greiðslughæfi fyrirtækja og landa út um allan heim, geti ekki haldið sjálfu sér í rekstraarhæfu ástandi?

Eigum við að bera virðingu fyrir því sem þessir aðilar segja um okkur?      


mbl.is Merrill Lynch segir upp 4.000 manns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þetta öll fagmennskan???

Er það öll fagmennskan á bak við lánshæfismat og skuldatryggingarálag, að þessi möt taki stökkbreytingum eftir uppátækjum hálfgerðra götustráka í óprúttnum græðgissjóðum?

Þetta eru nú þættir sem þarfnast mikið meiri skýringa en þarna koma fram.            


mbl.is Vogunarsjóðir á flótta?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það virðist pláss fyrir skynsamt fólk við að stjórna samtökum alvinnulífsins

Það er erfitt að ná sambandi við þessar hugsanir þeirra atvinnulífsmanna. Þeir virðast ekki átta sig á að þjóðin er á bólakafi í skuldum, en hingað til hafa tekjur hennar ekki dugað fyrir útgjöldum. Nú eru flestar leiðir til meiri lántöku lokaðar og varla að vænta úrbóta á því sviði næstu árin. Sé skoðuð þróunin hjá öðrum þjóðum, sem hafa sokkið í skuldafenið á undan okkur, þá hefur þeim gengið illa að rétta úr kútnum. Líklega verður það svipað hjá okkur.

Líklegast er að helst vanti vitsmunaríka stjórnendur fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka, svo varanlegt jafnvægi geti farið að skapast hér á landi. Okkur hefur ekki enn tekist að fá skynsamt fólk til að stjórna landinu eða þýðingarmiklum atvinnugreinum þess.

Kannski er Hannes bara að hugsa um að gera okkur íslendinga að eins konar yfirstétt sem láti lægra sett fólk þjóna sér. Ekki langar mig að taka þátt í slíku samfélagi.       


mbl.is Baráttan um hæft starfsfólk á eftir að harðna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Getur hluti fólks hætt að reykja??

Þegar ég hætti að reykja, varð ég að gera það allur í einu. Ég gat ekki hætt að hluta, ekki einu sinni stórum hluta.

Líklega hefur fyrirsögnin átt að vera. 

Mikill fjöldi reykingafólks hefur nýlega reynt að hætta.

Með fyrirsögninni svona er ekki verið að hluta fólk í sundur, heldur talað venjulegt íslenskt mál í venjulegri framsetningu.

Það er ekki alveg sama hvernig fréttirnar eru sagðar.


mbl.is Stór hluti reykingafólks hefur reynt nýlega að hætta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er bara búið að spá vondu. Það er ekki enn farið að blása á móti

Ég velti fyrir mér hvort fólk sem nú er á miðjum aldri, eða eldra, sé búið að gleyma hörmungunum sem dundu yfir í kjölfar óðaverðbólgunnar á árunum 1982 - 1988. Atvinna minnkaði, launin stóðu í stað, eða jafnvel rýrnuðu vegna verðbólgunnar, en skuldirnar hækkuðu á stjarnfræðilegum hraða, svo engin réði við neitt.

Það er svolítið skrítið að hugsa til þess að þegar þau ósköp dundu yfir þjóðina sem að ofan er drepið á, voru flestir sem nú eru tiltlaðir sérfræðingar í fjármálum okkar, enn námsmenn, á breytilegum aldri, allt frá gagnfræðaskóla til háskóla. Það er líka skrítið að hugsa til þess að engir þessara sérfræðinga hafa neina verklega rekstrarþekkingu úr framleiðslugreinum þjóðfélagsins, sem þýðir að þeir hafa lítið að byggja á til lausnar á þeim vandamálum sem þeir sjálfir hafa steypt þjóðfélaginu í.

Í skuldaholskeflunni fyrri, sem byrjaði í raun að vinda upp á sig 1982, stóð ég nokkur ár í afar hörðum slag við lánastofnanir, lögfræðinga og réttarkerfið, til varnar mannréttindum skuldara. Þá var verið að takast á um fjárhæðir sem eru hreinn barnaleikur á við þær fjárhæðir sem venjuleg meðalfjölskylda skuldar í dag. Slagurinn við að koma á ferli skuldbreytinga, greiðsludreifingu, óformlegum nauðasamningum og að verja venjulegt innbú fyrir uppboði, tók oft á taugarnar. Vonandi verður hægt að byggja ofan á þá reynslu sem komin er, í þeim erfiðleikum sem óumflýjanlega eru framundan.

Fyrirsögn fréttarinnar er "Róðurinn að þyngjanst." Líkingamálið að róið sé móti vaxandi vindi. Í þeirri samlíkingu tel ég, út frá reynslu minni af fyrri niðursveiflu 1982 - 1988, að enn sé einungis andvari á móti, sem vart bærir hár á höfði fólks. Líklega fer mótvindur að vaxa verulega á næsta ári, líklega upp úr miðju ári, og gæti orðið ansi stífur á árunum 2010 - 2012.

Fyrir nokkru var mér sagður afar athyglisverður draumur, sem greinilega var tengdur þjóðfélagsþáttum. Ýmislegt úr þeim draumi, eins og ég réði hann, er þegar farið að koma fram. Gangi ráðningin öll eftir, mun það ábyrgðarleysi sem sýnt hefur verið í fjármálum lánastofnana og rekstri þjóðfélagsins undanfarna áratugi, skjóta afkomustöðu okkar u. þ. b.  40 ár aftur í tímann. Það lenda margir upp á grynningum og verða strand, en það verður ekkert manntjón í þessum breytingum.

Ég óttast mjög að draumur þessi birtist í veruleikanum, því miður.   

                              


mbl.is „Róðurinn að þyngjast"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.10.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2008
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband