Af hverju er ESB með íslandsnefnd ?

Það vekur mér athygli að ESB skuli vera með Íslandsnefnd í gangi, þegar Ísland er ekki einu sinni farið að sækja um aðild að sambandinu. Er ESB búið að setja af stað áróðurspressu, til að véla hið skammsýna og ístöðulausa stjórnmálalið okkar til inngöngu í klúbbinn, áður en til gjaldþrots hans kemur?

Þessi blessaða austurevrópska kona, sem þessa grein skrifar væri ekki í þeirri stöðu sem hún er, nema vera sérstaklega röggsöm að setja fram tælandi veiðigildrur, því ESB er í sárri þörf fyrir ríki sem skapa mikil verðmæti og við erum nánast eina ríkið í Evrópu, utan ESB, sem hefur möguleika á að skapa meiri verðmæti en þjóðin þarf til framfærslu. Við yrðum því eitt af jákvæðu greiðsluríkjum Evrópu, þar sem við myndum greiða meira til ESB en við fengjum þaðan í styrki.

Í mörg ár hefur ESB gengið ágætlega að veiða til sín unga Íslendinga og gilla svo fyrir þeim sæluríkið, að heiðaþvottur Rússa, hér á árum áður í Gúlaginu, skilaði ekki nærri eins góðum árangri. ESB hefur lagt gífurlegt fjármagn í þennan heilaþvott og ég yrði ekki hissa þó í ljós kæmi að flestir af hörðustu baráttumönnum fyrir inngöngu í ESB, væru í einhverri fjármunalegri tengingu við sambandið, gegnum bein laun eða styrki, eða gegnum hliðarliggjandi stuðningsgreiðslur.

Það er alveg ljóst, að ESB er búið að setja stopp á inngöngu fleiri ríkja sem þýða myndu neikvæða greiðsluflæði fyrir ESB; að þeir þyrftu að greiða meira til inngönguríkisins í formi aðstoðar og styrkja, en þeir fengju þaðan í aðildargjald. Slíkt er eðlilegt í ljósi hinnar þröngu fjárhagsstöðu sambandsins.

Heilbrigð skynsemi ætti að segja okkur, nú þegar við erum að komast niður á jörðina í hugsun um fjármál, að í raun er ESB mun ver á vegi statt efnahagslega en við vorum, rétt fyrir hrun bankanna. Skuldir þeirra eru gífurlegar og að miklum hluta í skammtímalánum. Nú þegar þrengir að á fjármálmarkaði, liggur ekki nýtt lánsfé á lausu, til endurnýjunar á þeim skammtímalánum sem ekki verður hægt að greiða, vegna rekstrarhalla sambandsins, þar sem kostnaður er hærri en tekjur.

Það eru þó nokkur ár síðan ég fékk þá sýn að Evran yrði fyrir alvarlegu áfalli árið 2010 + - eitt ár í hvora átt, og að líklega muni ESB liðast í sundur ári síðar.  Ekkert er enn sjáanlegt sem bendir til annars en að þetta muni ganga eftir, svo ég tel ráðlegast fyrir Íslendinga að fara sér hægt við að samningsbinda auðlindir okkar við þetta samband, því lánadrottnar ESB munu skipta á milli sín öllum tekjugefandi samningum þeirra, og þá vitum við ekkert hver verður eigandi að réttindum gagnvart auðlindum okkar.

Það er áreiðanlega betra að vera frjáls og fátækur, en vera alslaus og bjargarlaus þræll.  Lýðveldið okkar og sjálfsforræðið er of ungt til að fórna því á ímyndaraltari veldishugsjóna.          


mbl.is Vill Ísland í Evrópusambandið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagsmunir Sjálfstæðisflokksins í fyrsta sæti

Það voru ríkari hagsmunir þjóðarinnar, á s.l. hausti, að fá upplýsingar um samskipti þáverandi forsætisráðherra Geirs H. Haarde við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn (AGS),  en það er nú að fá upplýsingar um athugasemdir AGS við frumvarpið um Seðlabankann.

Af viðbrögðum Birgis nú, kemur hann afar ljóslega út úr skápnum og lýsir yfir að hagsmunir FLOKKSINS gangi fyrir öllu. Í útvarpi í morgun sagði hann berum orðum að það væru hagsmunir Sjálfstæðisflokksins fyrst og fremst að fá þessar upplýsingar.

Voru þá ekki jafn ríkir hagsmunir Sjálfstæðisflokksins að fá, á s.l. hausti, upplýsingar um samskipti Geirs við AGS? Fengu þeir þessar upplýsingar þá, þar sem Geir er formaður FLOKKSINS, þó þær ættu ekki að berast út? Af hverju varð enginn hávaði í haust út af meintum trúnaði vegna samskipta við AGS?

Er þjóðinni nauðsyn á að greiða svona mönnum há laun fyrir setu á Alþingi, þegar þeir yfirlýsa að þeir séu fyrst og fremst að þjóna hagsmunum pólitísks stjórnmálaflokks, en ekki hagsmunum þjóðarheildarinnar?

Þjóðhollusta nr. 1 á þinginu.        


mbl.is Birgir fær ekki gögn frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var Geir að skrökva að okkur í haust"

Í haust fullyrti Geir margoft í fyrirspurnum hjá fjölmiðlum, að hann gæti ekki upplýst um hvað stæði í tillögum AGS, vegna þess að þeir hefðu krafist trúnaðar um þær upplýsingar.

Nú er svo að heyra, frá Þessum sama Geir, að AGS setji aldrei trúnaðarskyldu á það sem þeir láti frá sér. Það séu viðkomandi ríkisstjórnir sem setji trúnaðarskylduna.

Var það þá hann sem krafðist trúnaðar á samskiptin við AGS í haust, þannig að þjóðin fengi ekkert að vita hvað var í spilunum, fyrr en eftir að samningur hafði verið gerður?

Er þetta heiðarleikinn sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur að bjóða þjóðinni nú, þegar hann er kominn í stjórnarandstöðu?                


mbl.is Davíð og dularfulla bréfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líkara Gróusögu en frétt

Það er athyglisvert við þessa "frétt" að í henni er engar fréttnæmar upplýsingar; einungis óstaðfest Gróusaga. Henni virðist einungis vera ætlað að valda æsing og óhróðursskrifum, grunnt hugsandi fólks sem hefur látið æsa sig upp, án þess að hafa raunverulega sýn á hvers vegna það æsir sig.

Ef Mbl. hefði viljað gera þetta að frétt, til umhugsunar fyrir fólk, hefðu þeir átt að hafa með fréttinni dagsetningu kaupanna, þegar Gaumur keypti Haga. Það sem ræður því, hvort hægt væri að rifta slíkum samning, er tímalengdin sem liðin er frá þinglýsingu slíks samnings.

Það væri í sjálfu sér engin nýlunda hér á landi, þó í ljós kæmi að eigulegustu verðmæti Baugs hefðu verið færð til eignar í öðrum félögum, í því augnamiði að forða þeim frá gjaldþroti. Við höfum mikinn fjölda slíkra tilfella á undanförnum áratugum og í raun engin leið að ásaka Jón Ásgeir sérstaklega, þó hann fari hina vel troðnu slóð annar fyrirtækjaeigenda á Íslandi, sem lent hafa í erfiðleikum.

Ég hef raunar engar sérstakar taugar til smærri fjármálafyrirtækja, því skoðanir á efnahagsreikningum þeirra sýnir að þau kunnu sjálf ágætlega að "leika" eftir þeim reglum sem í gildi voru, og bjuggu sér sjálf til innihaldslausa stækkun á eiginfjárstöðu sinnar, sem þeir svo tóku lán útá, vitandi að litlar líkur væru á að þeir gætu greitt lántökurnar til baka.

Mikið af þessum lánum er nú fast í hálfkláruðum fasteignum, um allt land, þó einkanlega hér á höfuðborgarsvæðinu og á Austurlandi; fasteignir sem ekki er nein þörf fyrir næstu áratugina. Þó þessir aðilar tapi einhverjum milljónum á lánum til Baugs, er það einungis brot af því fjármagni sem sjálfkrafa situr fast (dautt) í þjóðfélaginu, vegna rangra ákvarðana lánastofnanana sjálfra, við útlán á peningum sem þeir fengu sjálfir á skammtímalánum í útlöndum, en voru fest í langtímalánum hér innanlands.

Það væri þarfara verk hjá Mbl. að gera úttekt á þessum málum og birta hana, en að setja í loftið svona Gróusögu, sem ekki byggir á neinum undirstöðum.          


mbl.is Sölu Haga hugsanlega rift
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað veldur skilnings skemmdum Sjálfstæðismanna

Sérkennilegt er að lesa skilning Sjálfstæðismanna á þeim ummælum sem IMF sendi frá sér vegna frumvarps um stjórnun Seðlabankans.  Eitt af höfuðvandamálum þjóðarinnar nú, er að Seðlabankastjórar og -stjórn, hafa hafnað því að segja starfi sínu lausu, þó eftir því hafi verið leitað.

Í núverandi lögum um Seðlabanka eru engin ákvæði er heimili að bankastjórnum eða stjórn sé vikið frá störfum. Löngu er orðið ljóst að fjármálakerfi heimsins ber ekki traust til þeirra manna sem nú stjórna Seðlabankanum. Líklegt má telja að það ástand hafi nú þegar tafið endurskipulag fjármála þjóðarinnar um þrjá mánuði. Þær hörmungar sem þessi gísling á Seðlabanka okkar mun hafa í för með sér, eru ekki enn komnar fram á sjónarsviðið, en við munum þurfa að takast á við þær þegar hægt verður að ná Seðlabankanum aftur undir stjórn manna sem fjármálakerfið treystir.

Í ljósi þessara aðstæðna, telur IMF afar mikilvægt að í nýjum lögum um Seðlabanka, verði skýr ákvæði um það hvernig forsætisráðherra geti vikið bankastjórum og stjórn Seðlabankans frá störfum. Auðsjáanlega ofbýður þeim að menn í þessum stöðum skuli gefa svo gjörsamlega skít í vilja stjórnvalda og þarfir þjóðarinnar, að þeir sitji sem fastast og svelti þannig atvinnu- og viðskiptalíf þjóðarinnar markvisst í átt að gjaldþroti.        

Það fólk sem ekki skilur enn að sú hugmyndafræði sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur fylgt undanfarna áratugi, er rótin að því hve illa við fórum út úr lausafjárþurrð heimsfjármálanna, getur varla talist með djúpan skilning á því hvað þarf til að viðhalda sjálfstæðum fjárhag.

Þegar við þetta bætist að framámenn þessa flokks, virðast fyrst og fremst líta á skyldu sína að viðhalda völdum flokksins, en ekki að tryggja, (eða endurreisa eins og nú er), atvinnu- og viðskiptalíf í landinu, er erfitt að skilja hvers vegna þessi flokkur eiginhagsmunasinna, fær svona mikið fylgi hjá þjóðinni.                  


mbl.is Gagnrýna afgreiðslu meirihluta viðskiptanefndar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnarskrá IV – Upphaf þingmeðferðar

Þriðji kaflinn endaði á samanburði tveggja fyrstu greina stjórnarskrá, eins og þær voru í konungsríkinu Íslandi og svo í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

Þegar við hugum nánar að þessum fyrstu greinum stjórnarskránna, sjáum við að í konungsríkinu er fyrsta greinin þannig að – stjórnskipulagið sé þingbundin konungsstjórn. – Þarna fer ekkert á milli mála um skipulagið. Vald konungsins er æðra en vald þingsins.

Í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, er það hins vegar ekki fyrr en í 3. gr. stjórnarskrár, sem talað er um hvernig forseti skuli valinn. Þar segir að hann skuli vera þjóðkjörinn, þó Alþingi hafi í upphafi ætlað sér sjálft að velja forseta.

Ef þeir alþingismenn sem unnu breytingarnar á stjórnarskránni, við lýðveldisstofnunina, hefðu ekki verið svona uppteknir við að ná völdunum til þingsins, hefðu þeir átt að sjá að endursköpun fyrstu greinar stjórnarskránnar, með sömu valdauppröðun og var, (eins og skylda þeirra var að gera), hefði átt að vera á þessa leið.

Ísland er lýðveldi með þjóðkjörnum forseta og þingbundinni stjórn.

Með þessari uppsetningu hefði strax í fyrstu grein, komið skýrt fram að forsetinn var handhafi lýð-valdsins og þar með opinber verndari allra réttargilda stjórnarskrár lýðveldisins og óumdeilt æðsta vald lýðsins í landinu, þar sem hann væri kosinn beinni kosningu af meirihluta þjóðarinnar.

Í umræðum á Alþingi, um frumvarp til fyrstu stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, kom oft fram að svonefnd “milliþinganefnd”, sem kjörin hafði verið til að semja frumvarpið að stjórnarskránni, hafði í raun ekki geta komið sér saman um mörg lykilatriði frumvarpsins. Hörðust virðist togstreitan hafa verið um valdsvið forsetans.  Lítum aðeins á það sem forsætisráðherra þess tíma sagði í ræðu sinni, er hann lagði frumvarpið að stjórnarskránni fram í neðri deild Alþingi í ársbyrjun 1944. Hann sagði:

Frumvarpið er flutt óbreytt frá því, sem milliþinganefnd gekk frá því og afhenti það ríkisstjórninni til geymslu. Nú lýsti stjórnin yfir því 1. nóv. s.l., að hún teldi „miklu varða, að algert samkomulag geti orðið um afgreiðslu ályktunar Alþingis um stofnun lýðveldis á Íslandi, og ekki síður, að öll þjóðin geti sameinazt um lausn málsins“, og þar sem menn af hálfu allra flokka þingsins hafa unnið að því að gera frumvarpið úr garði á þann hátt sem orðið er, taldi stjórnin að athuguðum öllum málavöxtum, að hún rækti bezt skyldur sínar með því móti að bera frumvarpið fram óbreytt, enda þótt hún telji nokkrar breytingar á því æskilegar, svo sem um vald forseta lýðveldisins og að hann verði þjóðkjörinn, enda getur milliþingannefnd þess í nefndaráliti sínu, að hallazt kunni að verða að því ráði, þótt meiri hluti nefndarinnar leggi til, að forsetinn verði þingkjörinn. Annars mun stjórnin, eins og tekið er fram í athugasemdum hennar við frumvarpið, koma breytingatillögum, sem hún telur æskilegar, á framfæri, er nefndir þær, er deildir þingsins skipa til þess að athuga frumvarpið, hafa tekið til starfa. Mun ég því ekki ræða þau efni frekar.

Þó þykir mér rétt að taka fram, þótt það sé óþarft gagnvart háttvirtum þingdeildarmönnum, að þær einar breytingar getur að þessu sinni verið um að ræða á gildandi stjórnarskrá, sem beinlínis leiðir af breytingu á stjórnarformi ríkisins úr konungdæmi til lýðveldis og falla innan þess ramma, sem stjórnarskrárákvæðið frá 15. des. 1942 markar, en a.m.k. tvær breytingar, sem í frumvarpinu er lagt til, að gerðar verði, virðast falla utan þessa ramma. Þær breytingar á gildandi stjórnarskrá, sem gera þarf og gera má, er æskilegt að greina glögglega í sjálfum textanum, t.a.m. með skáletri, svo að kjósendur, sem eiga að taka afstöðu til frumvarpsins, þegar Alþingi hefur búið það þeim í hendur, eigi hægara með að vita skil á því, sem þeir eiga að greiða atkvæði um.

Á þessum tíma var utanþingsstjórn í landinu og forsætisráðherra dr. juris Björn Þórðarson. Hann lítur greinilega á frumvarpið út frá faglegu og fræðilegu sjónarmiði, en ekki út frá flokkspólitískum hagsmunum, líkt og greina má hjá meirihluta nefdarinnar sem samdi frumvarpið.

Af umræðum á Alþingi er greinilegt að deiluefnin eru nokkur, þó þau kristallist að mestu í ágreining um völd Alþingis og stöðu forsetans. Athygli vekur einnig að skoðanir manna fara ekki eftir flokkslínum, því menn úr sama stjórnamálaflokki deila opinskátt úr ræðustól Alþingis.

Ekki verða allar þessar deilur raktar hér, en þó finnst mér áhugavert að benda á þann ágreining sem varð um svokallaðan málsskotsrétt forseta, sem fram kemur í 26. gr. stjórnarskrár, ef forseti neitar að árita lagafrumvarp sem Alþingi hefur samþykkt.

Eins og frumvarpið að stjórnarskrá er lagt fram á Alþingi, hljóðar 2. og 3. málsliður 26. gr. á þessa leið:

“Nú synjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar, og fær það þó engu að síður lagagildi, en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu. Lögin falla úr gildi, ef samþykkis er synjað, en ella halda þau gildi sínu.”

Það ákvæði sem þarna er sett fram af hálfu milliþinganefndar, sem samdi frumvarpið, er afar sérkennilegt óraunsæi sem ber þess glöggt merki að lítil sem engin lögfræðileg þekking hafi fengið að njóta sín við þessa textasmíð.

Í fyrsta lagi ber að líta til þess að óheimilt var að breyta neinu frá þeirri stjórnarskrá sem í gildi var, öðru en því sem beinlínis sneri að breytingu æðsta valds, frá því að vera konungur, til þess að vera forseti. Í 22. gr. þeirrar stjórnarskrár sem í gildi var, sagði svo um það efni sem þarna er yfirfært til 26. gr. stjórnarskrár lýðveldisins:

“Staðfesting konungs þarf til þess, að nokkur samþykt Alþingis fái lagagildi. Konungur annast birting laga og framkvæmd.
Nú hefur konungur eigi staðfest lagafrumvarp, sem Alþingi hefur samþykt, áður en næsta reglulegt Alþingi kemur saman, og er þá frumvarpið niður fallið.”

Ef við lítum aðeins á fyrstu setninguna í þessari grein þeirrar stjórnarskrár sem í gildi var, er í raun einungis heimilt að breyta einu orði þessa efnisþáttar. Það er að breyta orðinu “konungur” í orðið “forseti”. Önnur breyting er með stjórnskipunarlögum bönnuð. Þrátt fyrir að hafa sjálfir lagt til bann við svona breytingum, leggja þingmenn þessa tíma út í harðar deilur, til að fá að brjóta gildandi stjórnarskrá, við að semja nýja stjórnarskrá fyrir væntanlegt lýðveldi. 

Vakin er athygli á að í þeirri stjórnarskrá sem í gildi var, segir efnislega svo: Staðfesting æðsta valds þarf til þess, að nokkur samþykt Alþingis fái lagagildi. Og ennfremur segir  um afdrif þess sem ekki er staðfest fyrir næsta reglulegt Alþingi: og er þá frumvarpið niður fallið.

Þarna er mjög skýr og ákveðinn skilningur á ferðinni. ENGAR samþykktir Alþingis fá lagagildi, fyrr en æðsta vald hefur staðfest samþykkt Alþingis. Í þeirri stjórnarskrá sem í gildi var þegar verið var að semja stjórnarskrá lýðveldisins, var ekki talað um frumvarp, sem samþykkt hafði verið af Alþingi, sem lög fyrr en æðsta vald hafði staðfest frumvarpið og gert það að lögum. Vísast þar til niðurlags 22. gr. hér að framan, en þar segir svo um samþykkt Alþingis sem ekki hefur verið staðfest: og er þá frumvarpið niður fallið.
Vakin er athygli á því að í 26. gr. frumvarps að stjórnarskrá lýðveldisins, er talað um að: Nú synjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar og fær það þó engu að síður lagagildi, Engar skýringar eru á því hvers vegna lagafrumvarp fær lagagildi þrátt fyrir að fullnusta ekki meginreglu stjórnskipunarlaganna, um að æðsta vald staðfesti gjörðir Alþingis sem lög.

Í næsta kafla verður farið yfir þær tilraunir sem forsætis- og dómsmálaráðherrar gerðu til að leiðrétta vinnubrögð þingmanna, án þess beinlínis að lítillækka þá með beinum hætti.
         


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband