Færsluflokkur: Bloggar

Stjórnarskrá IV – Upphaf þingmeðferðar

Þriðji kaflinn endaði á samanburði tveggja fyrstu greina stjórnarskrá, eins og þær voru í konungsríkinu Íslandi og svo í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

Þegar við hugum nánar að þessum fyrstu greinum stjórnarskránna, sjáum við að í konungsríkinu er fyrsta greinin þannig að – stjórnskipulagið sé þingbundin konungsstjórn. – Þarna fer ekkert á milli mála um skipulagið. Vald konungsins er æðra en vald þingsins.

Í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, er það hins vegar ekki fyrr en í 3. gr. stjórnarskrár, sem talað er um hvernig forseti skuli valinn. Þar segir að hann skuli vera þjóðkjörinn, þó Alþingi hafi í upphafi ætlað sér sjálft að velja forseta.

Ef þeir alþingismenn sem unnu breytingarnar á stjórnarskránni, við lýðveldisstofnunina, hefðu ekki verið svona uppteknir við að ná völdunum til þingsins, hefðu þeir átt að sjá að endursköpun fyrstu greinar stjórnarskránnar, með sömu valdauppröðun og var, (eins og skylda þeirra var að gera), hefði átt að vera á þessa leið.

Ísland er lýðveldi með þjóðkjörnum forseta og þingbundinni stjórn.

Með þessari uppsetningu hefði strax í fyrstu grein, komið skýrt fram að forsetinn var handhafi lýð-valdsins og þar með opinber verndari allra réttargilda stjórnarskrár lýðveldisins og óumdeilt æðsta vald lýðsins í landinu, þar sem hann væri kosinn beinni kosningu af meirihluta þjóðarinnar.

Í umræðum á Alþingi, um frumvarp til fyrstu stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, kom oft fram að svonefnd “milliþinganefnd”, sem kjörin hafði verið til að semja frumvarpið að stjórnarskránni, hafði í raun ekki geta komið sér saman um mörg lykilatriði frumvarpsins. Hörðust virðist togstreitan hafa verið um valdsvið forsetans.  Lítum aðeins á það sem forsætisráðherra þess tíma sagði í ræðu sinni, er hann lagði frumvarpið að stjórnarskránni fram í neðri deild Alþingi í ársbyrjun 1944. Hann sagði:

Frumvarpið er flutt óbreytt frá því, sem milliþinganefnd gekk frá því og afhenti það ríkisstjórninni til geymslu. Nú lýsti stjórnin yfir því 1. nóv. s.l., að hún teldi „miklu varða, að algert samkomulag geti orðið um afgreiðslu ályktunar Alþingis um stofnun lýðveldis á Íslandi, og ekki síður, að öll þjóðin geti sameinazt um lausn málsins“, og þar sem menn af hálfu allra flokka þingsins hafa unnið að því að gera frumvarpið úr garði á þann hátt sem orðið er, taldi stjórnin að athuguðum öllum málavöxtum, að hún rækti bezt skyldur sínar með því móti að bera frumvarpið fram óbreytt, enda þótt hún telji nokkrar breytingar á því æskilegar, svo sem um vald forseta lýðveldisins og að hann verði þjóðkjörinn, enda getur milliþingannefnd þess í nefndaráliti sínu, að hallazt kunni að verða að því ráði, þótt meiri hluti nefndarinnar leggi til, að forsetinn verði þingkjörinn. Annars mun stjórnin, eins og tekið er fram í athugasemdum hennar við frumvarpið, koma breytingatillögum, sem hún telur æskilegar, á framfæri, er nefndir þær, er deildir þingsins skipa til þess að athuga frumvarpið, hafa tekið til starfa. Mun ég því ekki ræða þau efni frekar.

Þó þykir mér rétt að taka fram, þótt það sé óþarft gagnvart háttvirtum þingdeildarmönnum, að þær einar breytingar getur að þessu sinni verið um að ræða á gildandi stjórnarskrá, sem beinlínis leiðir af breytingu á stjórnarformi ríkisins úr konungdæmi til lýðveldis og falla innan þess ramma, sem stjórnarskrárákvæðið frá 15. des. 1942 markar, en a.m.k. tvær breytingar, sem í frumvarpinu er lagt til, að gerðar verði, virðast falla utan þessa ramma. Þær breytingar á gildandi stjórnarskrá, sem gera þarf og gera má, er æskilegt að greina glögglega í sjálfum textanum, t.a.m. með skáletri, svo að kjósendur, sem eiga að taka afstöðu til frumvarpsins, þegar Alþingi hefur búið það þeim í hendur, eigi hægara með að vita skil á því, sem þeir eiga að greiða atkvæði um.

Á þessum tíma var utanþingsstjórn í landinu og forsætisráðherra dr. juris Björn Þórðarson. Hann lítur greinilega á frumvarpið út frá faglegu og fræðilegu sjónarmiði, en ekki út frá flokkspólitískum hagsmunum, líkt og greina má hjá meirihluta nefdarinnar sem samdi frumvarpið.

Af umræðum á Alþingi er greinilegt að deiluefnin eru nokkur, þó þau kristallist að mestu í ágreining um völd Alþingis og stöðu forsetans. Athygli vekur einnig að skoðanir manna fara ekki eftir flokkslínum, því menn úr sama stjórnamálaflokki deila opinskátt úr ræðustól Alþingis.

Ekki verða allar þessar deilur raktar hér, en þó finnst mér áhugavert að benda á þann ágreining sem varð um svokallaðan málsskotsrétt forseta, sem fram kemur í 26. gr. stjórnarskrár, ef forseti neitar að árita lagafrumvarp sem Alþingi hefur samþykkt.

Eins og frumvarpið að stjórnarskrá er lagt fram á Alþingi, hljóðar 2. og 3. málsliður 26. gr. á þessa leið:

“Nú synjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar, og fær það þó engu að síður lagagildi, en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu. Lögin falla úr gildi, ef samþykkis er synjað, en ella halda þau gildi sínu.”

Það ákvæði sem þarna er sett fram af hálfu milliþinganefndar, sem samdi frumvarpið, er afar sérkennilegt óraunsæi sem ber þess glöggt merki að lítil sem engin lögfræðileg þekking hafi fengið að njóta sín við þessa textasmíð.

Í fyrsta lagi ber að líta til þess að óheimilt var að breyta neinu frá þeirri stjórnarskrá sem í gildi var, öðru en því sem beinlínis sneri að breytingu æðsta valds, frá því að vera konungur, til þess að vera forseti. Í 22. gr. þeirrar stjórnarskrár sem í gildi var, sagði svo um það efni sem þarna er yfirfært til 26. gr. stjórnarskrár lýðveldisins:

“Staðfesting konungs þarf til þess, að nokkur samþykt Alþingis fái lagagildi. Konungur annast birting laga og framkvæmd.
Nú hefur konungur eigi staðfest lagafrumvarp, sem Alþingi hefur samþykt, áður en næsta reglulegt Alþingi kemur saman, og er þá frumvarpið niður fallið.”

Ef við lítum aðeins á fyrstu setninguna í þessari grein þeirrar stjórnarskrár sem í gildi var, er í raun einungis heimilt að breyta einu orði þessa efnisþáttar. Það er að breyta orðinu “konungur” í orðið “forseti”. Önnur breyting er með stjórnskipunarlögum bönnuð. Þrátt fyrir að hafa sjálfir lagt til bann við svona breytingum, leggja þingmenn þessa tíma út í harðar deilur, til að fá að brjóta gildandi stjórnarskrá, við að semja nýja stjórnarskrá fyrir væntanlegt lýðveldi. 

Vakin er athygli á að í þeirri stjórnarskrá sem í gildi var, segir efnislega svo: Staðfesting æðsta valds þarf til þess, að nokkur samþykt Alþingis fái lagagildi. Og ennfremur segir  um afdrif þess sem ekki er staðfest fyrir næsta reglulegt Alþingi: og er þá frumvarpið niður fallið.

Þarna er mjög skýr og ákveðinn skilningur á ferðinni. ENGAR samþykktir Alþingis fá lagagildi, fyrr en æðsta vald hefur staðfest samþykkt Alþingis. Í þeirri stjórnarskrá sem í gildi var þegar verið var að semja stjórnarskrá lýðveldisins, var ekki talað um frumvarp, sem samþykkt hafði verið af Alþingi, sem lög fyrr en æðsta vald hafði staðfest frumvarpið og gert það að lögum. Vísast þar til niðurlags 22. gr. hér að framan, en þar segir svo um samþykkt Alþingis sem ekki hefur verið staðfest: og er þá frumvarpið niður fallið.
Vakin er athygli á því að í 26. gr. frumvarps að stjórnarskrá lýðveldisins, er talað um að: Nú synjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar og fær það þó engu að síður lagagildi, Engar skýringar eru á því hvers vegna lagafrumvarp fær lagagildi þrátt fyrir að fullnusta ekki meginreglu stjórnskipunarlaganna, um að æðsta vald staðfesti gjörðir Alþingis sem lög.

Í næsta kafla verður farið yfir þær tilraunir sem forsætis- og dómsmálaráðherrar gerðu til að leiðrétta vinnubrögð þingmanna, án þess beinlínis að lítillækka þá með beinum hætti.
         


Athyglisverð forgangsröðun Sjálfstæðismanna

Það er einkar athyglisvert að á þessum tíma, þegar Alcoa hefur lýst því yfir að þeir séu ekki tilbúnir til að ákveða neitt um byggingu álversins, skuli Sjálfstæðismenn herja með þessum hætti á ríkisstjórnina, líkt og það sé hún sem ætli að byggja álverið.

Oft hefur verið vikið að því að svo virtist sem Sjálfstæðismen hefðu ekki dómgreind til að skilja hver forgangsröðun þurfi að vera í viðbrögðum þjóðarinnar vegna bankahrunsins. Þetta virðist vera einn af mörgum þáttum sem passa ágætlega í þá púslumynd.

Það er alvarlegt fyrir þjóðina, þegar flokkur sem, lengi hefur mælst stærstur og talið hefur sig vera brjóstvörn varanlegra framfara í landinu, sýnir álíka óvitaskap og þessi frétt ber með sér.                    


mbl.is Tekist verður á um Bakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afar athyglisverð ákvörðun

Maður getur nú ekki annað en staldrað við svona frétt. Um það hefur mikið verið talað að þjóðinni sé mikil þörf á vel menntuðu og vel hugsandi fólki inn á þing.

Þeir sem hafa fylgst með ferli Guðfinnu í áraraðir, eru væntanlega allir sammála um að þar fari kona sem hefur óvenju mikla góða kosti að bera. Hún er vel gáfum gætt, vel menntuð og kann greinilega vel að fara með báða þessa hæfileika. Af orðræðu hennar og framgöngu hefur vel mátt greina verðmæta mannkosti, svo sem hjartahlýju og heiðarleika.

Þegar manneskja með alla þessa hæfileika, vill ekki framlengja tveggja ára dvöl á Alþingi okkar, hlýtur maður stiga niður fæti og spyrja sig hvað valdi slíku.

Ég skora á fólk í landinu að hugleiða þetta. Hvort þarna geti verið til grundvallar eitthvað í innra pólitísku umhverfi (ekki flokkspólitískt) í landinu, sem sagt hefur verið valda þeim atgerfisflótta sem áberanbdi hefur verið í framlínu stjórnmála okkar á undanförnum áratugum.

Ég hef aldrei verið Sjálfstæðismaður, en ég hef þó hrifist af mörgu sem Guðfinna hefur sagt og óska henni velfarnaðar á nýjum vettvangi.                 


mbl.is Guðfinna ekki í kjöri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitt versta mein samtímans

Eitt versta mein samtímans, er það fjölmiðlafólk sem virðist lifa fyrir það að BÚA TIL neikvæðni og æsifréttir, með því að setja fram ranghverfu og útúrsnúning þeirrar orðræðu sem við það er haft.

Mig hefur oft undrað hve mikið er um svona fjölmiðlun, og hve mikill fjöldi fólks drekkur í sig svona neikvæðni. Líkt og forfallinn fíkill vímuefni, eftir langa bið eftir meiri skammti vímuefnis.

Þetta ástand lýsir sér afar vel í þeirri frétt sem hér um ræðir. Blaðamaðurinn leggur forseta okkar orð í munn, sem flestir skynsamir menn sjá starx að hlýtur að vera rangfærsla og vitleysa. Samt þyrpast fíklarnir út á ritvöllinn með óhróðri og árásum á forsetann, í stað þess að skamma blaðamanninn fyrir að ljúga á niðurlægjandi hátt upp á forseta okkar og þjóðina.

Það verður ekki betur séð en við munum þurfa marga mánuði til viðbótar í þrengingagöngu okkar. Líklega líkur henni ekki fyrr en þjóðin hefur fundið að nýju hina heilbrigðu skynsemi, og virðir heiðarleika meira en öfgakennd ósannindi, sem til þess eru ætluð að valda þekktum spennuviðbrögðum, sem eru upphlaup og æsingur.

Þjóðin ræður ÖLLU um það hve langan tíma hún lifir í fíknifarvegi æsings og uppþota. Með samstilltri höfnun á vinnubrögðum líkum þeim sem þessi blaðamaður virðist beita, munum við líklega sjá vora fljótlega, í tvöföldum skilningi þess hugtaks. En höldum við svona áfram (í neikvæðni æsing og spennu), munu erfiðleikar okkar áreiðanlega aukast verulega, áður en vora fer í þjóðarsál og efnahag.                  


mbl.is Þjóðverjar fái engar bætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athyglisverð nýmæli

Það er athyglisvert að stjórnarskrárbundin réttindi skuli vera í forgrunni ákvörðunar héraðsdóms við meðferð réttindamáls.  Slíkt er athyglisverð nýlunda, bæði skemmtileg og uppörvandi.

Er viðhorfsbreyting að síast inn í vitund manna?             


mbl.is Lögin gegn stjórnarskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úr takti við tíðarandann ?

Ef fyrri fréttir af þessum málum þarna á Blönduósi eru réttar, virðist mér enn vera við lýði þar gamli andi ný-frjálhyggju og útskúfunar, þar sem sá er mótmælir ranglæti og óábyrgum vinnubrögðum, er útskúfaður; myndað eineltismunstur, þar sem hinn seki er sagður sá sem vakti athygli á ranglæinu og röngum vinnubrögðum.

Athyglisverð réttlætikennd íbúa á Blönduósi, ef þetta verður látið viðgangast.                 


mbl.is Sex manna meirihluti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnarskrá III – Undirbúningur lýðveldisstofnunar

Undir lok ársins 1942, eru samþykkt lög nr. 97/1942, um breytingar á stjórnarskrá konungsríkisins Íslands. Þessi lög eru bara ein grein og fjalla um viðbót við 75. gr. stjórnarskrár. Þessi viðbót var svo hljóðandi:

“Þegar Alþingi samþykkir þá breytingu á stjórnskipulagi Íslands, sem greinir í ályktunum þess frá 17. maí 1941, hefur sú samþykkt eins þings gildi sem stjórnskipunarlög, er meiri hluti allra kosningabærra manna í landinu hefur með leynilegri atkvæðagreiðslu samþykkt hana. Þó er óheimilt að gera með þessum hætti nokkrar aðrar breytingar á stjórnarskránni en þær, sem beinlínis leiðir af sambandsslitum við Danmörku og því, að Íslendingar taka með stofnun lýðveldis til fullnustu í sínar hendur æðsta vald í málefnum ríkisins.”

Þarna er sett í stjórnskipunarlög  atriði er lúta beinlínis að breytingum frá konungsríki til lýðveldis, eins og Alþingi hafði ályktað um 17. maí 1941. Til þess að sú ályktun gildi sem stjórnskipunarlög, þurfi að bera hana undir þjóðaratkvæði og tekur hún gildi, er meiri hluti allra kosningabærra manna í landinu hefur með leynilegri atkvæðagreiðslu samþykkt hana.

Aðrir þættir í ofangreindri lagasetningu eru ekki síður mikilvægir. Þar er afar skýrt tekið fram að óheimilt sé að gera nokkrar aðrar breytingar á stjórnarskránni en þær, sem beinlínis leiðir af sambandsslitum við Danmörku og því, að Íslendingar...taki í sínar hendur æðsta vald í málefnum ríkisins.

Mikilvægt er að hafa þessa þætti afar skýra í huga sér, þegar farið verður yfir vinnubrögð Alþingismanna við þær breytingar sem gerðar voru á stjórnarskránni, frá stjórnarskrá konungsríkisins Íslands, til lýðveldisins Íslands.

Eins og þarna kemur fram er með öllu óheimilt að gera aðrar breytingar á stjórnarskránni, vegna breytingar yfir í lýðveldi, en þær er lúta að því að hlutverk æðsta valds konungsríkisins, færist yfir til forseta lýðveldisins, sem æðsta vald ríkisins Ísland.

Nú er það svo, að þrátt fyrir afgerandi bann við breytingum, t. d. á valdahlutföllum í æðstu stjórnun, eru gerðar mjög umfangsmiklar eðlisbreytingar á valdi og valdahlutföllum samhliða breytingum yfir í lýðræði. Í þessum breytingum ganga þingmenn augljóslega gróflega gegn ákvæði stjórnarskrár, með þeirri viðbót sem þeir sjálfir samþykktu við hana árið 1942, og getið er hér að ofan.

Hér verður vikið að fáeinum atriðum þar sem þingmenn á afar augljósan hátt, bókstaflega ræna völdum í ríkinu, langt umfram það sem þeir höfðu, samhliða því að gera nauðsynlegar breytingar varðandi æðsta valið, sem færðist frá konungi, og átti að færast til forseta lýðveldisins. En, varð það svo?

Í 1. gr. stjórnarskrár konungsríkisins Ísland, segir svo:

“Stjórnskipulagið er þingbundin konungsstjórn.”

Þarna er afar ljóst að þingið hefur yfir sér æðra stjórnstig, sem í þessu tilfelli er konungur. Ætla má að við breytingu yfir í lýðræði hefði ekki þurft að breyta öðru i þessari setningu en að breyta konungsstjórn yfir í forsetastjórn. En 1. gr. stjórnarskrár lýðveldisins hljóðar svo:

“Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn.”

Þarna strax er þingið búið að fella út grundvallarþátt forsetans sem æðsta valds, með því að hans er ekki getið í 1. gr. stjórnarskrár. En 1. gr. laga er ævinlega mikilvægust varðandi grundvallaratriði laganna. Samkvæmt þessari hljóðan 1. gr. stjórnarskrár er forsetinn ekki æðsta stjórnvald landsins, þrátt fyrir að forveri hans, konungurinn, hafi verið það, og algjörlega hafi verið óheimilt, samkvæmt stjórnarskrá, að breyta valdahlutföllum innan ríkisins.

Lítum næst á 2. grein stjórnarskrár konungsríkisins Íslands. Þar segir svo um löggjafarvaldið:

“Löggjafarvaldið er hjá konungi og Alþingi, báðum saman,”

Í svona upptalningu er mikilvægt að átta sig á því að ævinlega er talið frá æðstu stjórnun og niður eftir valdaþrepunum. Þarna er mjög greinilegt að konungurinn er æðri Alþingi, því hann er talinn upp fyrstur. Vald konungs, yfir Alþingi kemur líka glöggt fram í 22. gr. stjórnarskrár konungsrikisins Íslands, en þar segir svo:

“Staðfesting konungs þarf til þess, að nokkur samþykt Alþingis fái lagagildi. Konungur annast birting laga og framkvæmd.

Nú hefur konungur eigi staðfest lagafrumvarp, sem Alþingi hefur samþykt, áður en næsta reglulegt Alþingi kemur saman, og er þá frumvarpið niður fallið.”

Þarna er enginn vafi á hvar æðsta valdið er. En lítum svo á hvernig alþingismenn þjóðarinnar komu þessu fyrir í nýrri stjórnarskrá lýðveldisins; þar sem engum valdahlutföllum mátti breyta.  Í 2. gr. stjórnarskrá lýðveldisins segir svo:

“Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið.”

Þarna tóks alþingismönnum að setja sjálfa sig tröppu ofar en forsetann, með því að telja Alþingi fyrst upp á undan forsetanum. Eins og að framan greinir er þetta óheimil og þar með ólögmæt breyting á uppröðun valda, þar sem æðsta vald er talið upp sem númer tvö í valdaröð löggjafarvalds.

Um framkvæmdavaldið segir svo í 2. gr. stjórnarskrá konungsríkisins Íslands, þar sem það er talið upp á eftir löggjafarvaldinu. Þar segir:

“framkvæmdavaldið hjá konungi”

Eins og þarna má glögglega sjá, er ráðherrum eða öðrum stjórnendum ekki ætlað neitt frumkvæðisvald, þar sem þeirra er ekkert getið í stjórnarskrá.

Hvernig meðhöndluðu svo alþingismenn okkar skilgreiningu framkvæmdavaldsins í hinni nýju stjórnarskrá lýðveldisins. Og enn er minnt á að óheimilt var að breyta neinu öðru en konungdæminu yfir í forsetastýrt lýðveldi. Ákvæði framkvæmdavaldsins hljóðar svo í stjórnarskrá lýðveldisins:

“Forsetinn og önnur stjórnvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdavaldið.”

Þessi samsuða er afar athyglisverð. Þarna er að vísu forsetinn talinn upp fyrstur, en við hlið hans, án skilgreiningar, eru settir ALLIR stjórnendur lögskipaðra rekstrarþátta þjóðfélagsins, án skilgreiningar á valdatröppun.

Svona óskýr valdsmörk leiða af sér að hinir ýmsu stjórnendur innan ríkisgeirans taka sjálfstæðar ákvarðanir og skáka í skjóli ímyndaðs valds, sem þeir tengja óbeint við framangreind ákvæði stjórnarskrár, sem leiðir af sér umtalsvert stjórnleysi og misvísandi stefnur og framkvæmdir.

Þetta læt ég duga í dag. Framhald síðar.
                 


Að kjarna málsins, er betra nafn en Kompás

Nafnið - Að kjarna málsins - er líka ákveðin vísbending um hvert er stefnt, ekki síður en nafnið Kompás.

Ég vona að komásteymið komist aftur af stað, því þessi hópur var, og er, virkilegt siðferðisvopn, fái hann að starfa hindrunarlaust. Mér fannst Stöð2 gjaldfella sjálfa sig með því að hætta sýningum á þessum þætti.               


mbl.is Fá ekki að nota Kompásnafnið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnarskráin II - Aðdragandi lýðveldisstofnunar

Eins og glöggt kom fram í fyrsta pistlinum (Stjórnarskráin I), er fyrirkomulag valdatröppunar í stjórnarskránni frá 1920 vel skýr og greinileg. Fyrirkomulagið er konungsstjórn (æðsta vald), en hún er þingbundin, eins og  segir í 1. grein.

Löggjafarvaldið er hjá konungi (æðsta valdi) og hjá Alþingi.  Framkvæmdavaldið er bara hjá konungi, en ráðherrarnir hafa ekkert sjálfstætt vald. Þeir eru greinilega þjónar konungs, til þess að framkvæma vald hans, eins og segir í 9. grein.

Þessi valdatröppun er afar skýr í þeirri stjórnarskrá sem gilti fram til lýðveldisstofnunar. Það eru að vísu gerðar á henni tvær formlegar breytingar árið 1934 og 1942, sem aðallega lúta að fjölgun þingmanna, fyrst úr 40, eins og þeir voru 1920, en var fjölgað í 49 með lögum nr. 22/1934.  Síðan er þeim aftur fjölgað í 52 með lögum nr. 78/1942.

Ljóst virðist að umræður um sambandsslit við Danmörku, hafi verið komin til umræðu á Alþingi á árinu 1940, því þann 10. apríl það ár, er samþykkt eftirfarandi þingsályktun:

“Með því að ástand það, sem nú hefur skapazt, hefur gert konungi Íslands ókleift að fara með vald það, sem honum er fengið í stjórnarskránni, lýsir Alþingi því yfir, að það felur ráðuneyti Íslands að svo stöddu meðferð þessa valds.”

Framangreind ályktun er greinilega samþykkt í ljósi þess að stríðið var þá farið að hamla samskiptum við Danmörku, en landið þurfti eftir sem áður að hafa formlegan aðgang að fulltrúa æðsta valdsins.

Af framhaldinu er einnig ljóst að umræðan um sambandsslitin hefur haldið áfram, því á árinu 1941 er samþykktar þrjár þingsályktunartillögur á Alþingi, varðandi stjórnskiplag og æðsta vald í málefnum ríkisins. Fyrsta þingsályktunartillagan er nr. 547, fjallar um sjálfstæðismálið og hljóðar svo:

“Alþingi ályktar að lýsa yfir því:

að það telur Ísland hafa öðlazt rétt til fullra sambandsslita við Danmörku, þar sem Ísland hefur þegar orðið að taka í sínar heldur meðferð allra sinna mála, enda hefur Danmörk ekki getað farið með þau mál, sem hún tók að sér að fara með í umboði Íslands með sambandssamningi Íslands og Danmerkur frá 1918.

að af Íslands hálfu verði ekki um að ræða endurnýjun á sambandssáttmálanum við Danmörku, þótt ekki þyki að svo stöddu tímabært, vegna ríkjandi ástands, að ganga frá formlegum sambandsslitum og endanlegri stjórnskipan ríkisins, enda verði því ekki frestað lengur en til styrjaldarloka.”

Þingsályktun nr. 548 fjallar um æðsta vald í málefnum ríkisins, og hljóðar svo:

“Alþingi ályktar að kjósa ríkisstjóra til eins árs í senn, sem fari með það vald er ráðuneyti Íslands var falið með ályktun Alþingis frá 10. apríl 1940, um æðsta vald í málefnum ríkisins.”

Þetta gerist vorið 1941, að Alþingi samþykkir að kjósa ríkisstjóra sem fari með öll sömu völd og konungi eru ætluð í stjórnarskrá.   Sveinn Björnsson var þá kosinn ríkisstjóri.

Þriðja þignsályktunartillagan er nr. 549 og fjallar um stjórnskipulag Íslands, og er á þessa leið:

“Alþingi ályktar að lýsa yfir þeim vilja sínum, að lýðveldi verði stofnað á Íslandi jafnskjótt og sambandinu við Danmörku verður formlega slitið.”

Af þessu má það ljóst vera að ákvörðun um stofnun lýðveldis var tekin á vordögum 1941, þó sjálf lýðveldisstofnunin færi ekki fram fyrr en 1944. Menn höfðu því þrjú ár til að vinna að fyrstu stjórnarskrá lýðveldisins.

Við kynnust því aðeins nánar í næsta hluta.


Er þetta heimska eða frekja ?

Ég velti fyrir mér hvers vegna þjóðin er að mótmæla siðleysi stjórnmálamanna, ef þjóðin ætlar svo að nota það siðleysi sem Einar Kristinn framdi, til þess að koma fram málstað sem mörgum er kær en heimilaður með fullkomlega ólögmætum hætti.

Ljóst er, að áður en Einar Kristinn gaf hina umtöluðu reglugerð út, var forsætisráðherra búinn að biðjast lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt, einmitt ráðuneytið sem Einar Kristinn hafði setið í. Einar hafði því ekki pólitískt umboð til stjórnunarathafna þegar hann gaf reglugerðina um hvalveiðar út. Á þeim tíma sinnti hann einungis daglegri verkstjórn, í  daglegum rekstri ráðuneytisins, samkvæmt beini forseta þar um, og algjörlega á hans ábyrgð, en ekki sem þjóðkjörinn þingmaður með  stuðning meirihluta Alþingis að baki sér.

Ég harma það verulega, að svo mikill fjöldi fólks sé tilbúið að loka augunum fyrir heiðarleika og vandaðri stjórnsýslu, sem raunin virðist vera í þessu máli. Ég tel fullkomlega tilgangslaust að leggja vinnu í endurbætur á stjórnarskrá ef heiðarleika- og réttlætisvitund þjóðarinnar er á þeim mælikvarða sem virðist vera í sambandi við þetta mál. Þá getum við alveg eins haldið áfram með óbreyttar aðstæður, þar sem mál eru barin í gegn með tækifærismennsku, frekju og jafnvel hótunum, eins og heyrst hafa.

Ég tek það fram að ég er fylgjandi því að hvalur verði veiddur hér við land. Ég er hins vegar fullkomlega andvígur því að þeim leyfum verði komið á með svo gróflega óheiðarlegum hætti sem hér hefur verið gert nú. Þess vegna vil ég láta ógilda hina ólögmætu reglugerð Einars Kristins, og ná leyfisveitingu í gegnum eðlilegt ferli umræðu og upplýsingagjafar, þar sem raunverulegar markaðshorfur og veiðiþol koma fram í dagsljósið, svo allir geti séð hinar raunverulegu forsendur og reiknað sér niðurstöður í málinu.

Þannig virkar heiðarlegt lýðræði. Annað er bara öðruvísi útgáfa af því siðleysi sem hér hefur viðgengist.                   


mbl.is Fara í mál verði leyfi til hvalveiða afturkallað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.8.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband