Vegna greinarinnar "Dæmalaus dómnefnd" í Mbl. 17. jan. 08

Vegna einstaklega rætinnar greinar á bls. 24 í Morgunblaðinu fimmtudaginn 17. jan. 08, sendi höfundinum eftirfarandi bréf í tölvupósti. 

Herra Hæstaréttarlögmaður,
Þorsteinn Einarsson.

EFNI: Vegna greinarinnar "Dæmalaus dómnefnd"  sem birtist í Morgunblaðinu í dag,  fimmtudaginn 17. Janúar 2008.

Ég las greinarkorn þitt í Morgunblaðinu í morgun og varð afskaplega hryggur yfir því sem ég las. Mér finnst það afskaplega sorglegt og til mikils vansa fyrir hina mikilvægu stétt Hæstaréttarlögmanna, þegar menn með slíka menntun og starfsheiti, skauta kæruleysislega framhjá sannleikanum og jafnvel fara með bein ósannindi, hvort sem það er í mæltu- eða rituðu máli.

Væntanlega veist þú, líkt og allir þeir sem fylgst hafa með þessari niðurlægingu forystumanna Sjálfstæðisflokksins, að dómnefndin tjáði sig ekki fyrr en eftir að Árni Math. vóg afar ódrengilega að starfsheiðri þeirra manna sem skipa nefndina. Það er undarleg dómgreind hæstaréttarlögmanns að vega að þeim mönnum sem reyna að verja æru sína, þegar þar er um að ræða menn með sömu menntun.

Ég geri því ekki skóna að þér sé ókunnugt um hvað standi í 2. gr. Stjórnarskrár okkar. Ég geri því ekki heldur skóna að þér sé ókunnugt um hvernig lög eru upp byggð; hvers vegna sumt er sagt en öðru sleppt. Í ljósi þessa er undarlegt að lesa ummæli þín um dómnefndarmenn annars vegar og valdssvið ráðherra hins vegar.

Fjórði dómnefndarmaðurinn á blaðamannafundinum var, eins og lesa má í grein þinni, augljóslega fastamaðurinn í nefndinni sem vék sæti í málinu, en vildi auðsýnilega sína varamanni sínum samstöðu í málinu með því að vera viðstaddur. Vonandi öðlast þú fljótlega þroska til að skilja svona einfalda samstöðu manna. Í grein þinni segir þú:

"Sú niðurstaða dómnefndar að ráðherra hafi borið  að fara að umsögn hennar er röng. Dómnefndin misskilur hlutverk sitt og misles einfaldan lagatexta. Lögin eru skýr. Dómnefnd er falið eitt og aðeins eitt hlutverk: Að veita ráðherra umsögn um umsækjendur, sem hann hefur til hliðsjónar þegar hann tekst á hendur það lögskipaða hlutverk sitt að gera upp á milli umsækjenda. Nefndin veitir álit en ákveður ekki neitt. Ráðherra metur sjálfur umsækjendur."   (Leturbreytignar eru mínar G.J.)


Þetta er afar athyglisverður kafli úr grein þinni, sérstaklega þegar skoðað er hver fer rangt með og hver misles einfaldan lagatexta. Lítum nú á hvernig þetta hljómar í samanburði við dómstólalög.

Það er 12. gr. Dómstólalaga sem fjallar um val og skipan héraðsdómara. Fyrsta málsgreinin hlóðar svo:

"Dómarar í héraði eru 38 að tölu og skipaðir ótímabundið í embætti héraðsdómara af dómsmálaráðherra."

Þetta er einfaldur texti sem flestum er auðvelt að skilja. Þarna er tekið fram að dómsmálaráðherra skipi héraðsdómara, en hvergi minnst á að hann velji þá.

Í þrígreiningu valdssviða í lýðræðisskipulagi okkar, er það yfirleitt svo að valþáttur fylgir ekki skipunarvaldi, vegna þess að þessi þrjú svið: framkvæmdavald (ráðherrar), löggjafarvald (Alþingi) og dómsvald, eiga að vera aðskilin og mega því ekki hafa áhrif hvert á annað. Við höfum horft fram hjá þessu með Alþingi og ríkisstjórnir, en við höfum borið gæfu til að hafa dómsvaldið tiltölulega sjálfstætt, þar til nú á síðustu árum.

Samkvæmt þrískiptingunni, fer forsetinn og ráðherrarnir með framkvæmdavaldið saman. Forseinn VELUR EKKI ráðherrana en hann skipar þá í embætti og lætur þá framkvæma vald sitt. - Forsetinn fer með löggjafarvaldið með Alþingi, en hann VELUR EKKI hverjir sitja á Alþingi. Hann stýrir ekki starfi þess en segir fyrir um hvenær það komi saman og hvenær það fari í leyfi eða frí. Lagagjörningar Alþingis verða ekki heldur að veruleika fyrr en forseti hefur staðfest þau.

Alla þessa þætti þekkjum við og viðurkennum. Meginreglan er sem sagt sú að sá sem hefur skipunarvaldið innan þessarar þrígreiningar valdssviða lýðræðisskipulags okkar, hann hefur ekki jafnframt valdið til að velja hverjir eru skipaðir.  Sama á við um skipan héraðsdómara, eins og glögglega kemur fram í 3. málsgr. 12. gr. Dómstólalaga, sem einmitt fjallar um aðferðarfræði við val og skipun héraðsdómara. Þar segir svo:

"Dómsmálaráðherra skipar þrjá menn í dómnefnd til þriggja ára í senn til að fjalla um hæfni umsækjenda um embætti héraðsdómara. Skal einn nefndarmanna tilnefndur af Hæstarétti og er hann formaður nefndarinnar. Tilnefnir Dómarafélag Íslands annan mann í nefndina úr röðum héraðsdómara en Lögmannafélag Íslands þann þriðja úr hópi starfandi lögmanna. Varamenn skulu tilnefndir og skipaðir á sama hátt."

Eins og þarna má sjá, SKIPAR dómsmálaráðherra þrjá menn í dómnefnd sem fjalla á um hæfni umsækjenda. Dómsmálaráðherra fær ekki að hafa nein áhrif á hverjir valdir eru til að gegna starfi í þessari nefnd, þó honum sé gert að SKIPA hana. Jafnframt má einnig sjá þarna að löggjafarvaldið hefur EKKI ætlast til að dómsmálaráðherra hefði neitt með það að gera að meta hæfnisþætti umsækjenda, því honum er hvergi ætlaður staður í því ferli. Þekkt er að þegar ráðherra hefur eitthvað að segja um efnisval, flokkun eða niðurstöður úr starfi nefnda, þá gerir löggjafinn ráð fyrir að viðkomandi ráðherra skipi formann nefndarinnar.  Þarna er ekki svo, því sá maður sem Hæstiréttur tilnefnir skal vera formaður nefndarinnar.

Eins og hér hefur verið rakið er greinin þín í Morgunblaðinu í dag að meginstofni til argasta bull og hlaðin svo miklum ósannindum og rangfærslum að hún er þér og stétt þinni til verulegrar smánar. Best væri að þú bæðist opinberlega afsökunar á þessari vitleysu þinni og dragir greinina til baka.

Þetta bréf mun birtast á Netinu, á bloggsíðu minni "gudbjornj.blog.is. Auk þess mun þetta verða efni í ritverk sem ég er að vinna að, um heimskuverk hámenntaðra manna.

Ég mun biðja þess að Guð hjálpi þér að gera ALDREI oftar svona lítið úr sannleikanum og réttlætinu, eins og þú gerðir í þessari grein.

Guð blessi þér framtíðina.

Reykjavík 17. janúar 2008

Guðbjörn Jónsson


Bloggfærslur 17. janúar 2008

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.10.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband