Er það gáfulegt að berja stöðugt hausnum við steininn?

Meira að segja þorskhausar þola ekki að vera stöðugt barið við stein. En svo virðist sem hausar stjórnenda L. Í. Ú. og Sjálfstæðisflokksins séu massívari en þorskhausar og þangað inn sé ekki auðvelt að komast með vitræn rök að umræðu.

Í kastljósi þriðjudaginn 5. febr. hélt framkvæmdastjóri L. Í. Ú. fram gömlu tugguni sinni um arðbæran sjávarútveg, þrátt fyrir þá óumdeilanlegu staðreynd að skuldir útgerðarinnar eru komnar svo ævintýralega langt upp fyrir rauneignastöðu fyrirtækjanna að þau ættu flest að vera búin að tilkynna sig gjaldþrota.

Friðrik Arngrímsson, framkvæmdastjóri L. Í. Ú. hélt því einnig fram að útgerðirnar ættu kvótann og það væri algjörlega óframkvæmanlegt að gera neinar breytignar á því þar sem svo margir hefðu KEYPT svo mikið af aflaheimildum.  Fyrir síðustu alþingiskosningar kom ég á fund hjá Íslandshreyfingunni, þar sem Friðrik Arngrímsson spilaði sína venjulegu rullu um ágæti kvótakerfisins.  Þar bað ég hann að senda mér afrit af þeim lögum sem heimiliðu útgerðarmönnum að selja aflaheimildir. Hann hefur ekki enn fundið þessi lög, því ekki hefur hann sent mér þau enn. Ég hef undanfarin 10 ár ævinlega beðið þá sem tala um sölu aflaheimilda, að senda mér afrit af þeim lögum sem heimili þessa sölu. Enn hefur enginn geta orðið við þeirri beiðni. hvers vegna skildi það vera?  Ætli það séu allt óheiðarlegir menn sem tala fyrir sölu aflaheimilda? Eitt er að minnsta kosti orðið víst. Þeir hafa enga löngun til að fær frama sönnun á mál sitt og setja sig þar með á bekk með vellygna Bjarna og Gróu á Leiti. Menn velja sér vini við hæfi.

En litum nú á lagagrunninn undir þeirri úthlutun aflahlutdeildar sem kallaðar hafa verið "VARANLEGAR HEIMILDIR" eða AFLAMARK. Þessi regla hefur ALDREI verið sett í lög eða að öðru leiti verið staðfest af Alþingi. Þá segja fylgjendur kvótakerfisins:

Já en þetta var nú ákveðið í upphafi að þau skip sem stundað höfðu veiðar á árunum 1980 - 1983 ættu að fá aflaheimildirnar.

Já það er alveg rétt. í forsendum fyrir frumvarpinu um fiskveiðistjórnun var fylgiskjal þar sem REGLAN um úthlutun aflakvóta var tilgreind. Þar var sagt að reglan skildi vera sú að ævinlega væri miðað við þrjú undangengin ár, þ. e. að þau skip sem stundað hefðu veiðar næstliðin þrjú ár fyrir úthlutun, skildu fá úthlutun í samræmi við meðalafla þessara þriggja ára. Fyrsta úthlutun kvóta var á árinu 1984, þannig að þrjú næstliðin ár þar á undan, voru árin 1980 - 1983. Lögin þar sem þessi ártöl komu fram, giltu einungis fyrir árið 1984 og þessi ártöl hafa ALDREI verið nefnd aftur í neinum þeim lögum sem sett hafa verið um fiskveiðistjórnun hér við land. Það hefur því ALDREI verið sett heimild frá Alþingi um neitt sem hægt er að kalla varanlegan kvóta.

Hvað þarf þá til svo að menn geti kallað kvóta sinn "varanlegan" kvóta?

Í því sambandi er nauðsynlegt að líta til heimilda ráðherra til að ráðstafa eignum þjóðarinnar án samráðs eða samþykkis Alþingis. Nægir þar að vísa til þess þegar Guðmundur Bjarnason var ráðherra og ætlaði án fyrirfram samþykkis Alþingis að flytja höfuðstöðvar Landmælinga upp á Akranes. Málið var kært til héraðsdóms, sem komst að þeirri niðurstöðu að Alþingi væri óheimilt að framvísa valdi sínu um meðferð eigna þjóðarinnar til ráðherra. Það yrði sjálft að taka endanlega ákvörðun um alla meðferð á eingum þjóðarinnar.

Engum blandast væntanlega hugur um að fiskveiðiheimildir á Íslandsmiðum eru verðmætari eign en hin merka stofnun Landmælingar Íslands. Engum ætti því að blandast hugur um að ráðherra getur ekki, án staðfestingar frá Alþingi, afhent neinum VARANLEG yfirráð yfir einhverjum hluta af hinni verðmætu sameign þjóðarinnar, sem fiskveiðiheimildirnar eru. Í grundvallarlögum að stjórnskipan okkar segir svo, t. d. í fjárreiðulögum og skal hér vitnað beint í álit ríkisendurskoðanda, í skýrslu hans um vatnsréttindi. Þar segir svo: Leturbr. G.J.

“Skilyrði fyrir ráðstöfun ríkiseigna er víðar að finna í löggjöfinni en í framangreindu ákvæði 40. gr. stjórnarskrár. Helstu fyrirmælin hér að lútandi er að finna í fjárreiðulögum nr. 88/1997. Rifja má upp að eitt af markmiðunum, sem bjuggu að baki þessum lögum, var að undirstrika FJÁRSTJÓRNARVALD ALÞINGIS, sbr. einkum 40. og 41. gr. stjórnarskrárinnar, og efla eftirlit og aðhald löggjafans með framkvæmdavaldinu og ráðstöfun þess á fjármunum ríkisins. Í samræmi við þessi markmið er í 29. gr. þeirra mælt fyrir hvernig standa skuli að ráðstöfun þeirra eigna ríkisins, sem eru á forræði ríkisaðila í A-hluta ríkisreiknings. Samkvæmt 1. mgr. þessarar greinar skulu ríkisaðilar í A-hluta ríkisreiknings HVERJU SINNI afla heimilda í lögum til að kaupa, selja, skipta eða leigja til langs tíma fasteignir, eignarhluta í félögum, skip, flugvélar, söfn og safnhluta, sem hafa að geyma menningarverðmæti, og AÐRAR EIGNIR SEM VERULEGT VERÐGILDI HAFA.”

 Í athugasemdum við þessa framangreindu grein í frumvarpi að fjárreiðulögum er tekið fram að leiga til langs tíma miðist við samning til lengri tíma en eins árs.

Ekki er þetta túlkun mín á skyldum ráðherra til að afla heimildar hjá Aþlingi fyrir öllum ráðstöfunum aflaheimilda sem standa skulu lengur en eitt ár, þ. e. öllum varanlegum kvóta. Engra slíkra heimilda hefur verið leitað frá Alþingi, þess vegna eru engar varanlegar aflaheimildir til í löglegu formi, einungis sem trúnaðarbrot ráðherra í opinberu starfi.

Alla þessa þætti er búið að ræða við stjórnmálamenn úr öllum flokkum í meira en áratug, en enginn hefur enn þorað að standa vörð um hagsmuni fólksins í landinu, gegn ofurvaldi L. Í. Ú á stjórnvöldum. Það vald er ekki bundið við stjórnmálaflokka. Það sást best þegar Samfylkingin skipti við Framsóknarflokkinn í sjórnarráðinu. Þá losnaði framsókn úr fjötrum og vill nú breyta kvótakerfinu en Samfylkingin féll í fjötrana og finnst kerfið gott.

Það er því ljóst að þjóðin fær ekki stuðning stjórnmálaaflanna í landinu tilað knýja fram nauðsynlegar breytingar. Þjóðin verður að vera í forystu fyrir slíku, utan stjórnmála en í krafti réttlætis og lýðræðis. Stjórnmálaflokkar skilja líklega ekki þau hugtök lengur.     

 

 

    


Það virðist vanta raungreind í fjármálastofnanir

Það er afar undarleg pólitík að kalla það "raungengi" þegar gengi krónunnar er borið saman við verðlag hér og í helstu viðskiptalöndum okkar. Sú hugsun að gengi krónunnar geti ráðist af verðlagi almennrar söluvöru, hér og í öðrum löndum, hefur á undanförnum áratugum leitt okkur fram á brún hengiflugs skuldsetningar þjóðarbúsins. Með ábyrgðarlausu heimskuhjali um svokallað "góðæri" hefur þjóðinni verið haldið í vímu skuldsetninga og eyðslu, en á sama tíma hefur tekjugefandi atvinnustarfsemi verið vanrækt svo að rauntekjur þjóðfélagsins geta ekki borið afborganir af því lánsfé sem þjóðin skuldar.

Það er kaldhæðnislegt að hugsa til þess að nú, þegar stöðugri skuldasöfnun verða settar hömlur, eru mestar líkur fyrir því að flestir gullkálfarnir, sem dregið hafa til sín ógrinni fjár, með beinum og óbeinum tilvísunum um veð í verðmætum þjóðarinnar, verði fangar í eigin spilaborg. Við erum í þeirri stöðu að meirihluti útgerðarfélaga landsins eru það skuldsett að þau geta ekki annað en farið á hausinn þegar hömlur verða lagðar á skuldsetningu þeirra með veði í eignum þjóðarinnar og innistæðulausar hækkanir á svokölluðu "gengi" hlutabréfa þeirra og færa verður ætlaða eignastöðu þeirra nær raunveruleika en hún hefur verið sýnd undanfarin ár. Þá sýnist mér einnig margt benda til þess að ævintýrið við Kárahnjúka muni ekki skila þeim tekjum til þjóðarinnar sem upp var lagt með. Mun þar margt koma til, bæði ágallar á samningum við orkukaupanda sem og mun dýrari framkvæmd en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Þjóðina vantar sárlega menn með mikilvirka þekkingu á heildarhagsmunum þjóðarinnar, til að stýra hinni stjórnlausu þjóðarskútu okkar í gegnum þá brimskafla sem framundan eru.        


mbl.is Raungengið ekki lægra í heilt ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað eru óvitar?

Á undanförnum árum hef ég mikið velt fyrir mér hugtakinu ÓVITI. Hin klassiska skilgreining þess hugtaks er að viðkomandi hafi ekki dómgreind og þekkingu til að meta möguleika og þarfir þess verkefnis eða viðfangs sem um ræðir. Athugið að ég er ekki að tala um það sem við köllum í daglegu tali "menntun", prófgráður eða prófskýrteini. Ég er að tala um raunverulega þekkingu á viðfangsefninu.

Við færum t. d. ekki upp í flugvél með flugstjóra sem hefði með áberandi hætti sýnt að hann hefði ekki þekkingu á því hvernig ætti að fljúga vélinni. Við færum ekki upp í rútu hjá bílstjóra sem hefði sýnt að hann kunni ekki að aka eftir veginum. Við færum ekki aftur til læknis sem hefði sýnt að hann skildi ekki hvernig hægt væri að lækna okkur af þeim kvilla sem hrjáði okkur. - Í þessum dúr er hægt að telja upp fjöldan allan af þáttum sem við metum sjálfstætt þá þekkingu sem við leggjum til grundvallar því trausti sem við leggjum á þá sem við viljum að hjálpi okkur fram á veginn.

Læknir fæst við einn sjúkling í einu. Rúta tekur í flestum tilvikum 20 - 60 manns. Flugvél tekur allt að 600 manns. Til þess að bera ábyrgð á velferð þessa fjölda krefjumst við staðfestrar menntunar og þekkingar.  Þingmaður okkar þarf hins vegar ekki að leggja fram neina staðfestingu þekkingar sinnar á því verkefni sem hann hyggst takast á hendur, þó hann þurfi í raun að kunna FULL skil á lífsskilyrðum og grundvelli rúmlega 300.000 einstaklinga til eðlilegrar lífsafkomu og reksturs þess þjóðfélags sem við rekum. Til þeirra sem sinna þessu starfi gerir þjóðin enga kröfu til neinna hæfileika né þekkingar á því verkefni sem fólk sækist eftir að taka að sér.

Ég velti fyrir mér hvort meginþorri þjóðarinnar sé svona kærulaus eða hvort þessi fjöldi sé haldinn svona miklum ranghugmyndum um raunveruleikann. Ætli fólk haldi að lýðveldisgrundvöllur og lýðréttindi bíði með miklum þrýstingi eftir að við hleypum þessum grundvallarþáttum að okkur, líkt og vatnið við lokaðan kranan bíður þess að við opnum fyrir.  Slíkt er falsvon, sem of margar þjóðir hafa fengið að upplifa, þegar þær sitja, að því er þeim virðist, allt í einu uppi með stjórnendur sem hvorki virða lög né mannréttindi. Slíkt ástand er á dyrapallinum hjá okkur, og þegar búið að hringja bjöllunni.

Ætlum við að hleypa því inn?       


Bloggfærslur 5. febrúar 2008

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.10.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband