Hafði Vilhjálmur umboð til að skrifa undir sameiningu REI og GGE ?

Ég varð dálítið dapur í kvöld þegar ég horfði á kastljósið. Mér fannst að vísu Svandís verjast nokkuð fimlega gegn því að kveða upp þunga dóma; vildi ausjáanlega láta Sjálfstæðismennina verða fyrsta til að birta sitt álit á klúðrinu. Það er að mínu mati nokkuð góð leikflétta.

Ég varð hins vegar dapur að hlusta á Vilhjálm, því áður en hann  varð borgarstjóri, hélt ég að þetta væri nokkuð klár náungi. Raunin hefur hins vegar orðið allt önnur. Mér fannst nánast aumkunnarvert að hlusta á hvernig hann þvældi fram og aftur um þessi málefni, án þess að geta á nokkurn hátt stutt aðgerðir sínar neinum rökum. Hann staðhæfði að hann hefði haft umboð til að skrifa undir samrunasamninginn en studdi það engum rökum öðrum en að borgarlögmaður hefði sagt honum það.

Það sem hefur vakið undrun mína og hrygð við allt þetta REI- mál, er að verða stöðugt áheyrandi að því hve fátítt virðist vera að fólk í almannaþjónustu þekki og virði valdmörk fulltrúavaldsins. Fólk segir: - Borgarstjóri hefur vald - en getur svo ekki með nokkru móti sýnt fram á eftir hvaða leiðum hann fékk þetta vald og samkvæmt hvaða lögum, samþykktum eða öðrum skráðum reglum þetta vald er veitt. Borgarstjóri er ekki kosinn beinni kosaningu af borgarbúum, en það eru þeir sem eru framsalsaðilar stjórnunarvaldsins til þeirra fulltrúa sem kosnir eru til starfans.

Þessir kjörnu fulltrúar, mynda með sér meirihlutasamstarf, hafi enginn einn flokkur meirihluta fulltrúanna innan sinna raða. Þeir fulltrúar sem mynda meirihlutann kjósa sér framkvæmdastjóra, sem í tilviki okkar Reykvíkinga ber tiltilinn - Borgarstjóri.

Titillinn "borgarstjóri" hefur ekkert beint umboð eða vald frá íbúum eða kjósendum í Reykjavík. Hann hefur einungis þá valdsheimild sem meirihlutafulltrúarnir fá honum í hendur, til að framkvæma það sem þeir hafa samþykkt og bókað er í fundargerðum borgarstjórnar. Hann er sem  sagt framkvæmdaaðili að valdi hinna kjörnu stjórnenda, en hefur ekkert sjálfstætt vald.

Vegna þessa eðlis á valdsviði borgarstjóra, sló það mig óþægilega þega Vilhjálmur hélt þvi fram í kastljósinu, að borgarlögmaður hefði sagt honum að hann hefði vald til að skrifa undir samrunasamninginn.  Getur verið að borgarlögmaður þekki svona illa valdmörk fulltrúavaldsins?

Ég segi bara eins og sumir:  Ég bara spyr?           


Enn á að semja um aukningu launabilsins

Hve lengi ætla stéttarfélög innan ASÍ að semja um kauphækkanir í prósentum? Slíkt er bein ávísun á stöðugt vaxandi launabil í landinu.

Það var orðið ljóst, löngu fyrir svokallaða "þjóðarsátt", að laupahækkanir í prósentutali, skilaði lágtekjufólki ekki nema hluta þeirrar hækkunar sem hinir hærra launuðu fengu, sem. Þetta er afar eðlilegt og auðskilið flestum, en hefur ekki enn náð inn fyrir einhverja múra hjá stjórnendum ASÍ.

5% launahækkun hjá þeim sem hefur 145.000 í mánaðarlaun, eru kr. 7.250, =  152.250.

5% hækkun hjá þeim sem hefur 300.000 á mánuði er, kr. 15.000 = 315.000.

5% hækkun hjá þeim sem hefur 600.000 á mánuði er kr. 30.000 = 630.000.

Við þurfum ekki að setja þetta dæmi upp lengra upp eftir launaskalanum. Afraksturinn er auðséður og ætti að vera auðskiljanlegur.

Fyrir rúmum 30 árum lagði ég fram tillögu um að verkalýðshreyfingin beitti sér fyrir því að sett yrði í lög um stéttarfelög og vinnudeilur, að ALLIR kjarasamningar væru gerðir í krónutöluhækkunum í stað prósentna. Ég hef iðulega vakið máls á þessu síðan, en ævinlega talað fyrir daufum eyrum. Hefði slík leið verið farin, hefði ekki stöðugt þurft að vera knékrjúpandi fyrir hálaunastéttunum um að fá sérstaka umbun fyrir láglaunafólkið. Lægstu launin hefðu ekki sjálfkrafa dregist aftur úr, heldur stöðugt hækkað að sömu krónutölu og háu launin. Þannig hefði prósentumismunur milli hárra og lágra launa stöðugt dregist saman. Lítum á dæmi út frá því sem sett er upp hér að ofan um launaflokkun.

145.000 eru 24,17% af launaflokknum 600.000.  Segjum að kjarasamningar hljóði upp á að launahækkanir geti numið kr. 15.000 á mánuði. Við það mundi 145.000 króna flokkurinn hækka upp í 160.000, en 600.000 króna flokkurinn hækka upp í 615.000.  Hlutfallið milli þessara launaflokka yrði þá svona.

160.000 eru 26,02% af launaflokknum 615.000.  Með þessu fyrirkomulagi hefði launabilið milli þessara flokka minnkað um 1,85% við gerð þess kjarasamnings.

Er ekki að verða kominn tími til að forystusveit stéttarfélaga láglaunafólks fari að endurhæfa hugmyndafræði sína? 


Bloggfærslur 7. febrúar 2008

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.10.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband