Í augnablikinu er gengið "rétt" skráð, en það breytist fljótlega

Mér finnst afar undarlegt að upplifa umræðuna um efnahagsmálin. Það er eins og flestir stjórnendur þjóðfélags og fjármálastofnana séu annað hvort með Alsheimer eða skorti þekkingu til að bregðast við óhófi og rugli undanfarinna áratuga. Getur verið að enginn geti rætt opinberlega þessa stöðu okkar af einhverri skynsemi og varpað fram hugmyndum um leiðir út úr ógöngunum?

Af hverju má ekki tala af hreinskilni og á eðlilegu mannamáli um ástæður þess að gengi krónunnar er stöðugt að veikjast og hefur stöðugt verið að því í meira en hálfa öld?

Af hverju má ekki virkja aflið í fjöldanum, til þess að sameinast um að rífa þjóðina út úr stöðugri skuldasöfnun og algjöru skeytingaleysi fyrir tekjuöflun til framfærslu þjóðarinnar?

Varla eru það þau 70 - 80 prósent þjóðarinnar sem lifa við meðaltekjur eða þar fyrir neðan sem mundu missa spón úr aksi sínum ef sannleikurinn væri hafður uppi á borðinu og á skiljanlegu máli fyrir venjulegt fólk.

Af hverju talar enginn um það að gengi krónunnar fellur þegar eftirspurn eftir henni er meiri en framboðið. Og hvað þýðir það.

Það þýðir að stjórnvöld hafa ekki staðið sig í að gæta jafnvægis þess að notkun gjaldeyris væri ekki meiri en gjaldeyristekjurnar.

Samnefnari þarna á milli er það að heimili eyði ekki hærri fjárhæðum en tekjur þeirra standi undir.

Gefum okkur að þetta heimili taki erlent lán til að kaupa bíl. Lánið er í dollurum  og gengi eins dollar er 62 krrónur. Lánið er 16.129 dollarar, eða nánast ein milljón króna. Bíllinn er bara fjölskyldubíll sem skilar engum tekjum inn á heimilið, aðeins auknum kostnaði.

Nú kemur að því að heimilið þarf að fá dollara til að greiða afborgun af láninu. Þá segir sá sem á dollarana. Ég vil ekki selja þér dollara nema ég fái 67 krónur fyrir dollarinn.  Sá sem hafði sett sig í fjötra og verður að fá dollarana, getur ekki annað en borgað það sem upp er sett.

Ef þetta heimili hefði enga þörf fyrir dollarana, yrði engin gengisfelling á krónunni. 

Af hverju verður þá gengi krónunnar stundum of hátt skráð, eins og það er kallað?

Ástæða þess er sú að gjaldeyrisstreymi inn í hagkerfið er meira en tekjusköpun og meiri en eðlileg starfsemi þarfnast. Þess vegna verður hægt að fá mikið meira af peningum lánað en skapast með tekjuöflun. Og sleppi menn varfærni og fyrirhyggju, má fá lánsfé fyrir nánast hverju sem er.  Slík staða hækkar gengi krónunnar, því frekar en liggja með peningana vila eigendur þeirra láta þá af hendi fyrir lægra gjald, heldur en láta þá liggja og skila engum arði eða tekjum. Slík staða getur skaðað alvarlega tekjugreinar samfélagsins og komið í veg fyri að þær geti blómstrað og aukið tekjur sínar, öllu samfélaginu til heilla.

Þarna er dreginn fram sá óvitaskapur sem stjórnendur lánastofnana hafa stundað undanfarinn áratug eða meira og stjórnendur þjóðfélagsins látið óátalið, nema þeir hafi ekki þekkingu til að skynja nauðsynlega jafnvægisþætti þessara mála.

Af hverju þegja menn? 

Getur það verið af því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur vegsamað svipaðan óraunveruleika í marga áratugi?                  


mbl.is Segir gengi krónunnar næstum rétt skráð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það vantar æði margt í þessa frétt

Það sem mér finnst athyglisverðast við þessa frétt er það hvað mikið vantar í hana svo hún sé upplýsandi fyrir þá sem lesa hana. Það er ótrúlegt að ekki skuli vera gerð athugasemd við að bera saman sem jafnvígar, ákvarðanir Seðlabanka Bandaríkjanna og Seðlabanka Íslands. En hver gæti munurinn verið?

Seðlabanki Bandaríkjanna þarf að taka mið af því að Bandríkjadollar er heimsviðskiptamynt, sem hefur áhrif langt út fyrir þjóðríki Bandaríkjanna. Margir milliríkjasamningar og viðskiptasamningar fyrirtækja, milli landa, eru skráðir í Bandaríkjadollurum. Þannig hefur dollarinn áhrif á efnahags- og viðskiptalíf um víða veröld.  Íslenski Seðlabankinn þarf einungis að taka mið af Íslensku efnahags- og viðskiptalífi, þar sem Íslenska krónan hefur enga fasta stærð í heimsviðskiptunum. 

Lækkun Seðlabanka Bandaríkjanna á stýrivöxtum má augljólega rekja til þess sem þekkt er, að um nokkuð langt skeið hefur verið að þrengjast að hjá fjármálastofnunum þar vestra. Og augljóslega margir komnir í erfiða stöðu með lausafé, vegna skorts á nýju lánsfé. Mikið af útlánum þeirra hefur verið með ótrygga endurgreiðslu og þó lánastofnanir þar vestra hafi verið að svindla einhverjum hluta þessara vafasömu lána sinna í skuldabréfapakka sem seldir hafa verið lánastofnunum út um allan heim, sitja þeir áreiðanlega sjálfir uppi með  gífurlegar fjárhæðir sem verður að teljast dautt fjármagn. (fjármagn sem skapar engar tekjur og ekki er greiddar afborganir og vextir af).

Við þessar aðstæður er Seðlabanki Bandaríkjanna að fást. Vegna stórkostlega vitlausrar útlánastefnu lánastofnana er búið að ausa meginþorra lausafjár í heiminum í fjáfestingar til að efla og auka þjónustu, sem og í fjölmarga þætti sem ekki skila verðmætaaukningu og auknu fjárstreymi. Þess vegna hefur lausafé gengið til þurðar. Því miður virðast hagfræðingar nútímans gleyma því hvað það tekur langan tíma að búa til raunverulegt lausafé, og fara þess vegna ógætilega með þessa mililvægu auðlind heimsviðskiptanna.

En hvers vegna þarf Seðlabanki Íslands ekki að lækka stýrivexti?

Ástæða þess er sú að allir stóru bankarnir okkar hafa tilkynnt að þeir séu vel staddir með lausafé; voru nýbúnir að endurfjármagna sig áður en niðursveiflan dundi yfir. Þeir eru því vel staddir, fari þeir ekki sjálfir út í foraðið, með því að lána út þetta lausafé í fjárfestingar sem engu fjárstreymi skilar.

Seðlabankinn þarf enn að halda pressu á lánastofnunum að draga saman seglin í útlánum, vegna þess að óvitaskapurinn með útgáfu svonefndra "Jöklabréfa" mun áreiðanlega koma hratt til endurgreiðslu og afar óljóst hvort hinir erlendir fjárfestar, eigendur þessara bréfa, muni hafa áhuga fyrir nýjum lánveitingum hingað í formi nýrra "jöklabréfa". Bankarnir þurfa því að standa klárir að því að greiða nokkur hundruð milljarða úr sínum eignasjóðum, því allt það fé sem kom inn í þjóðlífið með "jöklabréfunum" er þegar fast í steinsteypu, öðrum fjárfestingum sem ekki skila tekjum, eða hefur beinlínis verið eytt í ýmiskonar ónauðsynlega neyslu.

Það er fullkomlega skiljanlegt að Seðlabankinn vilji sjá með áþreifanlegum hætti að stjórnendur lánastofnana séu búnir að átta sig á hinum alvarlegu mistökum sínum á undanförnum árum. Það er afar nauðsynlegt að forstöðumenn stórra lánastofnana í litlu hagkerfi, geri sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem þeir bera á eðlilegri hreyfingu ALLS hagkerfisins, og að þeir skilji mismunuinn á að reka burðarása fjármála-, atvinnu-, og viðskiptalífs heillar þjóðar, eða litla sælgætissjoppu sem einungis hugsar um að hagnast sjálf.
  

                               


mbl.is Vextir og væntingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. mars 2008

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.10.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband