Áskorun til Gísla Freys Valdórssonar

Í gær og í dag hefur Gísli Freyr haft uppi stór orð um kvótakerfið, ágæti þess og blessun, en ekki treyst sér til að svara málefnalegum athugasemdum. Hann hefur einnig verið þungorður í garð Ásmundar Jóhannssonar, sjómanns frá Sandgerði. Ég ætla ekki að gefa mig út sem sérstakan talsmann eða varnaraðila hans,  en finnst óþarfi að skrökva upp á hann kvótasölu. Slíkur æsingur lýsir helst slæmu andlegu jafnvægi og einhverri fíkn í að reyna að skaða aðra, án haldbærra sannana.

En, eftirfarandi athugasemd skrifaði ég á bloggsíðu Gísla Freys nú í dag, og vænti þess fastlega að hann birti þessar umbeðnu upplýsingar.  Ég hef þrábeðið sjávarútvegsráðuneytið og fjölmarga alþingismenn um þessar upplýsingar, en enn hefur enginn geta sent mér afrit af þeim. Kannski veit Gísli um þær; svo mætti ætla af skrifum hans..  

 

Sæll Gísli Freyr!   Það vakti athygli mína að þú skildir ekki treysta þér til að svara neinu um athugasemdir mínar í gær. Af því tilefni ætla ég að skora á þig hér, á þinni eigin síðu, að birta eftirfarandi samþykktir Alþingis Íslendinga.

1.    Samþykki Alþingis fyrir svokallaðri "varanlegri aflahlutdeild". Það er hið fasta hlutfall skips í úthlutuðu aflamarki hvers árs.

2.    Samþykkt Alþingis fyrir því að fyrstu árin ætti þessi "varanlegi kvóti" eingöngu að falla til skipa sem voru í útgerð árin 1980 - 1983, eins og LÍÚ hefur haldið fram. 

3.    Samþykkt Alþingis fyrir því að handhafar þess sem kallað er "varanlegur kvóti" megi selja  hina ímynduðu hlutdeild sína sem sína eign.

4.   Samþykki Alþingis fyrir því að selja megi aflamark innan ársins (kallað kvotaleiga).

5.    Frá 1. janúar 1994 hefur verið virðisaukaskattur á allri sölu fisks, í hvaða formi sem er. Seldur kvóti er seldur óveiddur fiskur. Í stjórnarskrá okkar segir að sköttum verði ekki breytt nema á Alþingi. Því óska ég eftir að þú birtir á síðu þinni heimildir Alþingis fyrir því að virðisaukaskattur sé ekki greiddur af sölu aflaheimilda.

Ég gæti bætt við að biðja þig að rökstyðja hvaða útgerðir eru reknar með yfir 50% hagnaði, en öll kvótasala innan ársins (kvótaleiga) hefur verið hærri en 50% hlutfall af söluverði fisksins.  Í lögum nr. 71/1936 getur þú lesið  um refsinguna fyrir það að notfæra sér neyð annarra.

Og í lokin vegna ummæla um að Ásmundur hafi selt kvóta; þó ég ætli ekki að gefa mig út sem varnaraðila fyrir hann, þá er óþarfi að ljúga upp á hann. 

Framsalsheimildir komu fyrst inn í lögin um stjórn fiskveiða 15. maí 1990. Heimildir þeirra laga til framsals voru í 12. grein og voru á þessa leið: (Leturbreytingar eru mínar)

  Heimilt er að færa aflamark milli skipa sömu útgerðar eða skipa sem gerð eru út frá sömu verstöð eftir því sem hlutaðeigandi aðilar koma sér saman um enda hafi skip, sem fært er til, aflahlutdeild af þeirri tegund sem millifært er. Sama gildir um skipti á aflamarki milli skipa sem ekki eru gerð út frá sömu verstöð, enda sé um jöfn skipti að ræða að mati ráðuneytisins.

Tilkynna skal sjávarútvegsráðuneytinu fyrir fram um flutning aflamarks milli skipa og öðlast hann ekki gildi fyrr en ráðuneytið hefur staðfest móttöku tilkynningar um flutninginn frá þeim sem hlut eiga að máli.

Annar flutningur á aflamarki milli skipa er óheimill nema með samþykki ráðuneytisins og að fenginni umsögn sveitarstjórnar og stjórnar sjómannafélags í viðkomandi verstöð.

 Eins og hér má sjá var raunveruleg sala aflaheimilda ekki komin á skrið á árinu 1990; en mér skilst að á því ári hafi Ásmundur selt hlut sinn í bátnum. Hin raunverulega kvótasala fór ekki fyrir alvöru að verða einhver verðmæti, fyrr en eftir  setningu laga nr. 75/1997, um samningsveð.

Kæri Gísli!  Það er yfirleitt betra að hafa einhverja þekkingu á því sem sett er fram opinberlega, því þeir sem þú heldur þig trúlega vera að ganga í augun á með þessu rugli, þeir munu ekki taka af þér blak þegar ruglið opinberast.

Það er þörf fyrir heiðarlegt fólk í samfélagsumræðuna, því hvet ég þig til að vanda þig.   (Ég birti þetta líka á mínu bloggi)

Gangi þér vel.


Bloggfærslur 9. ágúst 2008

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.10.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 166181

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband