26.2.2011 | 16:03
Eiga Bretar að borga Icesave ?????
Ég fór á fund í gær, þar sem Stefán Már Stefánsson, hér eftir (SMS), prófessor í lögum, við Háskóla Íslands, var með framsögu um Icesave. Hann hélt þarna góða tölu um hvað gæti gerst ef við borguðum ekki.
Allt frá upphafi Icesave hef ég spurt hvers vegna verið sé að rukka ríkisstjórn Íslands um þessa skuld, þar sem hvorki Landsbankinn né neinn annar banki hafi á þessum tíma verið í ríkiseign. Auk þess hafi engin ríkisábyrgð verið á Tryggingasjóði innistæðueigenda. Við þessu hafa aldrei fengist skýr svör.
Ég hugsaði mér því gott til glóðarinnar að spyrja þennan virkta lagaprófessor um þetta atriði. Ég lagði því eftirfarandi spurningu fyrir SMS.
- Þegar hrunið varð, var Landsbankinn í einkaeign, eins og aðrir bankar landsins. Tryggingasjóður innistæðueigenda er eign bankanna og engin ríkisábyrgð á þeim sjóði. Engin innheimtukrafa hefur farið fram á hendur Tryggingasjóðnum, sem er hinn raunverulegi skuldari, ef þannig er litið á málin. Hvaðan er þá komin heimild ríkisstjórnar okkar, til að stíga fram fyrir stjórn Tryggingasjóðs og semja um ætlaðar skuldir sjóðsins, sem hvorki hafa verið til innheimtu hjá sjóðnum eða úrskurðað hafi verið að sjóðurinn ætti að greiða?-
Við þessu spursmáli átti SMS ekkert svar. Taldi samt líklegt að mönnum hafi þótt vænlegra að stíga fram og leita sátta. Ekki eitt orð um þær lagalegu forsendur sem ég spurði um. Af þessu mátti skilja að Bretar hefðu í raun engar lagalegar forsendur fyrir innheimtukröfum sínum á hendur ríkissjóði. Staðan virðist því sú að stjórnvöld hér hafi orðið hrædd, eða að það sé verið að slá skjaldborg um stjórnendur Landsbankans, svo ekki yrði höfðað mál gegn þeim í Bretlandi. Og af hverju skildi ég nú segja það.
Flestum er ljóst að grundvöllur EES samningsins er jafnréttishugtakið, um jafna stöðu allra á markaði. Um það segir svo í 1. hluta samningsins um EES eins og hann birtist í lögum nr. 2/1993, en þar segir svo í e. lið 2. töluliðar 1. gr.
"að komið verði á kerfi sem tryggi að samkeppni raskist ekki og að reglur þar að lútandi verði virtar af öllum;..."
Þar sem áhersluletri er bætt við, er það gert af höfundi þessara skrifa. Þarna er beinlínis sagt að ein af grundvallarreglum EES samstarfsins sé að raska ekki samkeppni.
Fram hefur komið að Bresk stjórnvöld hafi heimilað Landsbankanum að taka við innlánum í útibúi sínu í London. Ljóst er að Breskir bankar eru þátttakendur í breska Tryggingasjóði innistæðueigenda. Í ljósi þess var breskum stjórnvöldum skylt að gæta þess að samkeppni raskist ekki. Þeim bar að gæta þess að, áður en þau veittu Landsbankanum leyfi til móttöku innlána, yrði hann að fullvissa bresk stjórnvöld um að útibú hans í London væri með fullgilda innistæðuvernd í Tryggingasjóði Breta, á sama hátt og aðrir bankar á sama markaðssvæði. Með engum öðrum hætti gátu bresk stjórnvöld gefið út heimild til útibús Landsbankans í London, til móttöku og ávöxtunar innlána. Nema því aðeins að bresk stjórnvöld tækju sjálf áhættu af bakábyrg, fyrir jafnri stöðu innlánseigenda í útibúi Landsbankans í London, við innlánatryggingar í öðrum breskum starfandi bönkum. Annað hefði verið mismunun á markaðsstöðu og röskun á samkeppni um innlán.
Af reglum EES samningsins, um jafna stöðu á markaði, er ábyrgð breskra stjórnvalda á að fullkomlega rekstrarlegt jafnvægi ríki milli banka sem bjóðast til ávöxtunar innlána. Er það mögulegt að bresk stjórnvöld hafi heimilað Landsbankanum að safna innlánum, á sama markaði og aðrir breskir bankar, án þess að gera til Landsbankans sömu kröfur um innlánatryggingar og þau gerðu til breskra banka? Með því hefðu bresk stjórnvöld í raun verið að mismuna breskum bönkum, á þann veg að sleppa Landsbankanum við útgjöldum sem fylgdu greiðslu í sama Tryggingasjóði og aðrir bankar á sama markaðssvæði þurfa að greiða í. Þetta gat t. d. þýtt að Landsbankinn treysti sér til að bjóða hærri innlánsvexti, þar sem bresk stjórnvöld slepptu þeim við kostnað sem aðrir bankar þurftu að inna af hendi.
En gat þá mismunur á aðstöðu falist í því að Landsbankinn var íslenskt fyrirtæki, með útibú í London? Nei, út frá markaðslegum jafnræðisreglum EES svæðisins skiptir það ekki máli, hvað rekstrarlega þætti varðar. Hið íslenska útibú verður að vinna algjörlega eftir breskum starfsreglum. Fara í einu og öllu eftir breskum lögum með starfsemi sína á Bretlandi. Útibú þarf öll sömu starfsleyfi og sjálfstætt hlutafélag. Útibúið þarf að gera upp alla rekstrarlega þætti starfseminnar, á sama hátt og sjálfstætt hlutafélag. Eini raunverulegi munurinn er sá að rekstrarhagnaður útibúsins flyst sjálfkrafa úr landi til aðalstöðvanna, en rekstrarhagnaður sjálfstætt starfandi hlutafélags verður kyrr í landinu og skapar skattstofn þar.
Í ljósi alls þessa, vakti það strax sérstaka athygli mína hve harkalegar aðgerðir Breta voru. Aðgerðir þeirra náðu langt út fyrir þá hagsmuni sem þeir voru að verja. Þegar ég fór að skoða málin nánar, varð mér ljóst að bresk stjórnvöld virtust nákvæmlega vita á hvern hátt þau höfðu gerst brotleg við EES reglur, með því að veita Landsbankanum leyfi til innlánasöfnunar, án staðfestingar um aðild hans að hinum breska Tryggingasjóði.
Ef skilakrafa vegna innlána hefði beinst að þeirra eigin Tryggingasjóði, hefði komist upp um hina alvarlegu aðstöðulegu mismunun, sem stjórnvöld höfðu gert sig sek um, auk þess sem þau hefðu orðið uppvís að alvarlegu skeytingarleysi um varnir á innistæðum fjármagnseigenda. Sé mið tekið af hinni veiku stöðu breskra stjórnvalda á þessum tíma, er augljóst að þau máttu engan möguleika gefa á því að athyglin beindist að þeim.
Þarna er augljóslega komin fram skýringin á því hvers vegna Bretar tóku svo snögga ákvörðun um að leysa inn til stjórnvalda sinna allar innistæðukröfur á hendur Landsbankanum, en ekki öðrum bönkum. Einnig það að þau skyldu, eins snögglega og raun bar vitni, taka þá ákvörðun að greiða innistæðueigendum mun hærri fjárhæðir en lágmark reglna um innistæðutryggingar segir til um. Í þriðja lagi fellur vel að þessu skýringin á hinni harkalegu kröfu á hendur íslenska ríkinu, þó þeim væri áreiðanlega ljóst að ríkissjóður væri ekki í ábyrgð fyrir innlánum í bresku útibúi Landsbankans, því það útibú starfaði ALDREI eftir íslenskum lögum.
Bretar vissu strax að, vegna þeirra eigin mistaka við stjórnun og eftirlit bankamála, myndu þeir þurfa að greiða allt innlánatap hjá Landsbankanum. Ef þeir hefðu gefið breskum rannsóknaraðilum færi á að rannsaka leyfisveitingar, eftirlit og starfshætti stjórnvalda, í tengslum við fjármálamarkaðinn, hefði líklega allt bankakerfi Evrópu hrunið, jafnvel heimshrun.
Hver gæti svo ástæðan verið fyrir hinni miklu þögn sem er um þátt Breta í hinu mikla innlánatapi sem varð hjá Landsbankanum? Gæti hún verið sú að stjórnendur heimsmála fjármagnsþátta hafi vitað hve tæpt heimsfjármálin stæðu, og ef upp kæmist um sviksamlega framgöngu breskra stjórnvalda, væri hætta á heimshruni. Betra var því að leyfa Bretum að ráðast gegn íslenska ríkinu, litlu afskekktu eyríki úti í miðju Atlandshafi. Eyríki sem sjálft hafði trassað alvarlega eftirlit með lánastofnunum sínum, sem höfðu á fáum árum þrefaldar erlendar skuldir sínar, án þess að raunveruleg eignaaukning hefði átt sér stað.
Út frá stöðu heimsfjármálanna, var því hagkvæmasta lausnin að halda pressunni og heimsathyglinni á þessu litla eyríki. Segja að það væri að ógna greiðsluflæði í heiminum með því að borga ekki skuldir sínar. Sú fullyrðing Breta að hin raunveruleg skuld þeirra sjálfra, eða Tryggingasjóðs þeirra (Icesave), væri skuld íslensku þjóðarinnar, var kyrfilega keyrð áfram í öllum fjölmiðlum heimsins, þar til forseti eyríkisins neitaði að staðfesta Icesave II. Í framhaldi af því náði hann athygli og eyrum margra stærstu fjölmiðla heimsins. Þá fóru efasemdaraddir um að eyríkið skuldaði Icesave, að ná eyrum fleiri fjölmiðla.
En eins og skuldasöfnun breskra banka og breskra stjórnvalda er enn háttað, er lítil von til að stjórnendur heimsfjármálanna treysti sér til að taka málsstað litla eyríkisins. Athyglisvert er líka, að þetta litla eyríki býr yfir svo miklum nauðsynlegum auðlindum fyrir Evrópuþjóðir og fleiri ríki, að það er bókstaflega rekstrarlegt hagræði að því fyrir ESB, annað hvort að koma þessu ríki undir stjórn Evrópusambandsins, eða setja það efnahagslega í þrot, svo sterkir fjármagnseigendur kaupi hinar arðgefandi auðlindir.
Evrópu er mikilvægt að ná taki á auðlindum sjávar, vegna vaxandi skorts á fiski á markaði þeirra. En lang mikilvægast er fyrir ESB, að þeir nái stjórnun á siglingum og vörulosun um hina væntanlegu "Norðurleið" því mestar líkur eru á að um þá leið fari megnið af framleiðslu markaðssvæða utan Evrópu. Hafi ESB sterk stjórnunarítök á Íslandi, þegar að þessu kemur, gæti slík stjórnun nánast komið í veg fyrir gjaldþrot margra ríkja innan ESB. Ástæða þess er að í sjónmáli er ekkert sem gæti aukið tekjur margra ESB ríkja, að því marki að þau væru sjálfbær með þau lífskjör og félagslega stöðu fólks, sem nú er gerð krafa um, til jöfnunar við stöðu Norður ESB ríkja.
Það er tæplega að vænta þess að úti í heimi sé einhver umhyggjusöm fósturmóðir sem taki þjóð okkar í fang sér, til að kenna okkur að lifa sem samfélag á þeim alsnægtum sem auðlindir lands okkar bjóða upp á. Svo mikið framboð er í heiminum af þjóðum sem EIGA RAUNVERULEGA BÁGT, að við komust þar hvergi á verkefnalista.
Þegar vandlega er skoðað, má sjá að hér hefur ekki verið nein raunverulega kreppa. Allir tekjuþættir þjóðfélagsins hafa haldið áfram að afla þjóðinni tekna, ekki minni en fyrir hrun fjármálakerfisins. Já, það varð hrun. Við höfðum hlaðið upp óraunhæfum sýndarveruleika með innstreymi ótrúlega mikils magns af erlendu lánsfé, til neyslu og lífsstíls sem tekjuöflun þjóðarinnar réði ekkert við. Þegar innstreymi erlends lánsfjár, til neyslu og lífsstíls hætti haustið 2008, mátti öllum vera ljóst að umtalsverður samdráttur yrði í þjóðfélaginu.
Þjóðin er því miður ekki enn búin að sætta sig við breytinguna. Þess vegna er mikil reiði, því enn er verið að horfa til sömu viðmiða og erlenda fjármagnið gerði mögulegt. Því fyrr sem þjóðin sættir sig við að sú tálsýn sem þá var, kemur aldrei aftur. Því fyrr nær þjóðin að horfa með skýrri hugsun til möguleika sinna í framtíðinni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Bloggfærslur 26. febrúar 2011
Nýjustu færslur
- Álfagangur varðandi lángtímaleigu á Álfabakka 2?
- EES samningur og ætlað vald ESB
- Efnahags og viðskiptanefnd Alþingis 2021 / Hver er þekking ál...
- Þjóð án fyrirhyggju og dómgreindar: Fyrirlestur saminn og flu...
- Þetta jaðrar við hættulegt ábyrðarleysi hjá fomanni stærsta s...
- BREYTING ER NAUÐSYN TIL BETRA LÍFS
- YFIRSTJÓRN SEÐLABANKANS Lög 2019
- EES samningur og ætlað vald ESB
Eldri færslur
2025
2024
2023
2022
2021
2020
2019
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (4.10.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
alla
-
framtid
-
mammzan
-
hallgrimurg
-
huldumenn
-
jaxlinn
-
johanneliasson
-
maggij
-
photo
-
haukurn
-
runar-karvel
-
sigrunsigur
-
skodunmin
-
svarthamar
-
vestskafttenor
-
athb
-
thjodarsalin
-
seiken
-
skinogskurir
-
bjarkitryggva
-
bjarnimax
-
brahim
-
gattin
-
einarhardarson
-
einarorneinars
-
bofs
-
dramb
-
haddi9001
-
heimssyn
-
tofraljos
-
don
-
hordurvald
-
fun
-
visaskvisa
-
huxa
-
jonasphreinsson
-
jonl
-
jobbi1
-
jonvalurjensson
-
jonthorolafsson
-
josefsmari
-
juliusbearsson
-
ksh
-
kolbrunerin
-
kristbjorg
-
liu
-
skrafarinn
-
maggiraggi
-
markusth
-
os
-
raksig
-
rosaadalsteinsdottir
-
fullvalda
-
siggileelewis
-
duddi9
-
siggith
-
saemi7
-
tryggvigunnarhansen
-
vga
-
thjodarheidur