Hvað felst í “fyrningarleið”?

Þegar fjallað er um mikilvæg hagsmunamál þjóðarheildarinnar, er mikilvægt að fólk geri sér fulla grein fyrir hvað orð þeirra og gerðir þýða fyrir þjóðfélagið. Þetta er sagt vegna þess að ég dreg í efa að hugmyndasmiðir Samfylkingarinnar hafi gert sér grein fyrir hvað felist í hinni svokölluðu “fyrningarleið” þeirra.

Hugtakið “fyrning”, byggir á niðurfærslu eða úreldingu skráðrar og bókfærðrar eignarstöðu, þess sem fyrna á. Í ljósi þess að aflaheimildum hefur alla tíð verið úthlutað fyrir eitt ár í senn, og að í 1. gr. laga um fiskveiðistjórnun kemur skýrt fram að: “Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum”, getur vart verið um eign að ræða.

Þegar þess er gætt, að úthlutun aflaheimilda er einungis til eins árs í senn, og afar takmarkaðar heimildir til nýtingar þeirra að loknu úthlutunarári, verður ekki séð að myndast geti eitthvert fyrnanlegt eignarréttarákvæði varðandi aflaheimildir. Þegar þess er einnig gætt, að ákvörðun um úthlutun aflaheimilda, til næsta komandi fiskveiðiárs, er ekki opinberuð fyrr en  undir lok hvers fiskveiðiárs, og engar bindandi lagareglur áskilja tilteknum útgerðum (skipum) tiltekið hlutfall úthlutaðra aflaheimilda, verður ekki séð að útgerðir eða fiskiskip eigi neina eignarréttarlega kröfu eða stöðu gagnvart aflaheimildum. Eina lögleidda úthlutunarreglan er viðmið við meðalafla þriggja undangenginna ára, sem lögleidd var í upphafi og ævinlega vísað til í framhaldinu.

Þrátt fyrir þessar staðreyndir, er stöðugt verið að tala um að ákveðin fiskiskip og útgerðir EIGI ákveðna tiltekna hlutdeild í úthlutuðum aflaheimilda hvers árs. Ég hef margítrekað spurt eftir lagaforsendur fyrir slíku, en engin svör fengið. Það er í raun ekkert skrítið að slíkar lagaforsendur finnast hvergi, enda hefur slíkt aldrei verið sett í lög. Slík lögbinding væri auk þess alvarlegt brot á 1. gr. laga um fiskveiðistjórnun, sem sérstaklega tekur fram að: “Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.” Af þessum augljósu ástæðum getur engin útgerð eða fiskiskip talið sér neinar aflaheimildir til eignar.

Þegar bent er á þetta, bíta útvegsmenn í skjaldarrendur og segja að þeir eigi víst tiltekið hlutfall úthlutaðra aflaheimilda. Þeir hafi keypt þær dýru verði af öðrum útgerðum. Þar sem þeir hafi greitt fyrir aflaheimildirnar, eigi þeir þær með réttu og slíkur eignarréttur sé varinn af stjórnarskrá.

Rétt mun vera að útgerðir hafi keypt aflaheimildir af öðrum útgerðum. EN, gættu þeir þess sem keyptu, að seljandinn hefði lögformlega heimild til að selja, það sem selt var?

Ég hef hvergi í gögnum Alþingis fundið neinar forsendur fyrir því að einhver ákveðin skip eða útgerðir, eigi ófrávíkjanlegt tilkall til einhverrar tiltekinnar hlutdeildar í úthlutuðum heildarafla. Ég hef heldur hvergi fundið heimildir Alþingis fyrir því að hinar úthlutuðu aflaheimildir væru SELDAR, milli aðila. Samkvæmt lögum um fiskveiðistjórnun er einungis heimilt að flytja (framselja) aflaheimildir milli skipa, en SALA er hvergi leyfð.

Algenga svarið við þessum röksemdum er að sjávarútvegráðherra hafi heimild til að ákveða fasta aflahlutdeild á ákveðin skip og einnig að ákveða hvort aflaheimildir séu seldar milli skipa. Er eitthvað til í þessu?

Samkvæmt fjárreiðulögum, er það einungis Alþingi sem getur tekið ákvörðun um langtímasamninga um eignaverðmæti þjóðarinnar. Að mati Ríkisendurskoðanda telst það langtímasamningur ef hann tekur yfir lengra tímabil en 12 mánuði. Sagt er að varanleg aflahlutdeild sömu skipa hafi verið til síðan fyrstu lög voru sett, í árslok 1983, eða í 26 ár. Slíkt samkomulag hefur ekkert gildi og enga lagastoð, þar sem það hefur aldrei verið staðfest af Alþingi.

Í annan stað er sagt að sala aflaheimilda sé samkomulagsatriði við ráðherra. Það á sér ekki heldur gildis- eða lagastoð, þar sem slíkt stangast alvarlega á við  jafnræðisreglu stjórnarskrár – að allir skuli vera jafnir fyrir lögunum.

 Þar sem aflaheimildum er úthlutað, frá ráðuneytinu, án gjaldtöku, og lagaheimildir tilgreina einungis að flutningur (framsal) milli skipa sé heimill, er ljóst að slíkur flutningur (framsal) verður að vera á jafnræðisgrundvelli, við úthlutun ráðuneytis, þar sem skýrt er tekið fram í 1. gr. fiskveiðistjórnunarlaga, að úthlutun fylgi hvorki eignarréttur eða forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum. Sjávarútvegsráðuneytið þarf að staðfesta allar tilfærslur aflaheimilda, áður en þær taka gildi. Heimili ráðuneytið SÖLU aflaheimilda, gegn peningagreiðslu, á kaupandi slíkra aflaheimilda ótvíræða greiðslukröfu á hendur ráðuneytinu, þar sem stjórnarskrárvarinn réttur “kaupandans” er að fá aflaheimildirnar á jafnvirði þess sem seljandanum var úthlutað frá ráðuneytinu.

Sala aflaheimilda, er því augljóst og ótvírætt laga- og stjórnarskrárbrot, sem ber að stöðva án frekari tafa.

Lítum nú aðeins á hugmyndir Samfylkingarinnar um 20 ára “fyrningu” aflaheimilda. Fram til þessa hefur aflaheimildum einungis verið úthlutað fyrir eitt ár í senn, án allra skuldbindinga um magn úthlutaðra aflaheimilda á næsta- eða næstu árum.

Til þess að geta búið til fyrningargrunn, yrði að byrja á því að lögbinda ákveðna aflahlutdeild við ákveðin skip, til næstu 20 ára. Slíkt hefur aldrei verið gert áður, frá upphafi fiskveiðistjórnunar. Verði það gert, er einnig búið að afhenda útgerðarmönnum varanlega 20 ára eignarréttarstöðu, sem að vísu fyrnist um 5% á ári. Slík eignarréttarstaða gæfi útgerðunum fullan rétt til að veðsetja þessi eignarréttindi, ásamt því að kröfuhafar á hendur útgerðunum, hefðu ótvíræðan rétta á að ganga að þessari eign, líkt og öðrum varanlegum eignum útgerðanna.

Hvað getur valdið því að Samfylkingin leggur svo mikla áherslu á að tryggja tilteknum hópi útgerðarmanna ótvíræðan eignarrétt yfir tilgreindri hlutdeild í úthlutuðum aflaheimildum? Er hugsanlegt að þarna sé á ferðinni fyrsta skref að varanlegum eignarrétti útvalinna útgerða?

Lítið mál væri að breyta síðar þessari fyrstu ákvörðun um fyrninguna og bera þá við skaðabótaábyrgð stjórnvalda vegna sviptingar á eignarrétti.  Hefur fólk ekki leitt hugann að ákvæðum stjórnarskrár um eignarétt, þar sem segir að eignaréttur sé friðhelgur, en sé hann afnuminn skuli koma fullt verð fyrir.

Ég sé alveg fyrir mér, að eftir einhver tiltekinn árafjölda á fyrningarleið, fari einhver útgerðin í prófmál vegna eignarréttarins, þar sem krafist verði viðurkenningar á eignarrétti allt aftur til upphafs fiskveiðistjórnunar. Mestar líkur væru á, ef útgerðin hefur stundað veiðar  allt frá upphafi, að dómstólar viðurkenndu réttarstöðu tiltekinna útgerða til tiltekinnar aflahlutdeildar, frá upphafi fiskveiðistjórnunar, sem ígildi eignarréttar og að svipting þessa réttar skapaði stjórnvöldum bótaskyldu.

Yrði niðurstaðan eitthvað á þessa leið, hefðu stjórnvöld ekkert um það að segja hvar aflanum væri landað, þar sem slíkt væri alfarið á valdi viðkomandi útgerðar, á grundvelli ákvæða eignarréttarins.

Eins og hér hefur verið rakið, verður ekki betur séð en hin svonefnda “fyrningarleið” gæti orðið til þess að þjóðin missi endanlega vald sitt yfir auðlindum fiskimiðanna og gæti jafnvel átt á hættu himinháar skaðabætur, væri gerð tilraun til að ná aflaheimildunum aftur undir yfirráð stjórnvalda.

Á grundvelli framanritaðs er það mitt mat að fyrningaleiðin sé beinlínis hættuleg þjóðarhagsmunum og því afar stórt skref í öfuga átt við það sem meirihluti þjóðarinnar hefur verið að stefna að.

Guðbjörn Jónsson kt:101041-3289
Höfundur er fyrrv. ráðgjafi og höfundur bókarinnar ”Stjórnkerfi fiksveiða í mærmynd”.

      


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Algerlega sammála thér.  Thetta sýnir bara ad stjórnmálamenn íslenskir eru glaepamenn sem vinna gegn hagsmunum almennings.  Ad tala um fyrningu er blaut tuska í andlitid á hverjum einstaklingi med edlilega greind.  Thad tharf raekilega uppstokkun á hugsunarhaetti íslendinga.  Thad er löngu tímabaert ad íslendingar byrji ad hugsa.  Thad tharf ad stödva skipulagt rán stjórnvalda á eignum almennings strax.  Thessum sidblindu rolum sem verma stólana á thingi tharf ad skipta út.  Ég hef ekkert á móti byltingu til thess ad koma á naudsynlegum breytingum.

Sammála (IP-tala skráð) 16.3.2010 kl. 18:26

2 identicon

Mér finnst thad alveg í samraemi vid heimsku íslendinga ad their taki ekki undir thennan pistill thinn. Thetta er besta blogg sem ég hef séd vardandi thetta mál. Ekki undarlegt ad thjódin sé í theim vanda sem hún er núna. Ég thakka fyrir thessa gódu faerslu.

Sammála (IP-tala skráð) 18.3.2010 kl. 05:30

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Forsendur þínar velta semsagt á að fyrst þurfi að gefa kvótann til að hægt sé að taka hann til baka?  Þetta veltur allt á einum hæstaréttardómi, þar sem lög skorti til að hafna því að menn gætu bókfært óveiddan fisk og síðan var ekkert sagt við því að menn veðsettu þennan væntanlega hagnað.  Í því liggur ruglið. Aldrei var leyft að selja eða skiptast á peningum í viðskiptum með kvótann, en það var heldur aldrei bannað. 

Þetta verður leyst með því að ákveða dagsetningu, þar sem allur kvótinn er tekinn yfir. Hrein og klár aðgerð sem þarfnast undirbúnings. Svo verður kvótinn leigður út á 5% af virði á 1. ár 10% á öðru ári etc. Menn geta því fengið hann nánast gefinn til að byrja með, sem ætti að veita aðlögun.  Ef menn braska með þetta og fara á hausinn síðar, þá er við enga að sakast nema þá. Raunar ætti að banna braskið nema að undangengnu mati, þar sem nauðsyn á flutningi er skoðuð. Menn sem leigðu heimildina áfram missa hana kannsi næst t.d. Annars þyrfti ég að útskýra þetta í lengra máli, en hef ekki tíma.

Þetta yrði hreinni aðgerð. Allt tekið og leigt á brotaverði, sem hækkaði í fullt verð á 20 árum. Kemur á sama stað niður. Það er leið til að leysa þetta og þessi fyrningarleið ekki sú eina. Köllum þetta afsláttaleið.  Minnkandi afsláttur á kvótaverði í 20 ár. Eða leiguþrepaleið, verðaukaleið...etc.   Stillum daaginn á 20. sept. t.d. eða hentugan dag eftir því hvernig vertíðar standa. Útgerðirnar myndu vaxa og dafnast og styrkjast og þær vita hvað er framundan og verða viðbúnar eðlilegu umhverfi eftir þessi ár. ef ekki, þá geta menn bara farið á hausinn.

Byrja þarf þó á að ógilda nefndan hæstaréttardóm með lagasetningu.

Það er allavega klárt að þessu verður að koma undir kontról. Ekki fleiri fjárhættuspil með þessa eign. 

Jón Steinar Ragnarsson, 18.3.2010 kl. 07:57

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Sennilega verður þetta ekkei flóknara en þegar við skiptum yfir í vinstri umferð.

Jón Steinar Ragnarsson, 18.3.2010 kl. 08:02

5 identicon

Hvernig í ósköpunum komust menn ad theirri nidurstödu ad 5% árleg "fyrning" vaeri rétt?  Af hverju ekki 100% strax?  Af hverju í óskupunum skiludu ekki útgerdamenn til thjódarinnar theim kvóta sem their fengu en nýttu sér ekki?  Hver gaf theim heimild til thess ad braska med eign thjódarinnar? 

Sammála (IP-tala skráð) 18.3.2010 kl. 15:02

6 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þú þarna Sammála: Ástæðan er afar skýr. Ástæðan fyrir þessari 5% leið var ósköp einfaldlega kjarkleysi og málamiðlun til að fela uppgjöfina fyrir ofurvaldi kvótagreifanna og óttanum við þá. Auðvitað hafa fullmótaðar reglur sem tækju við af þeim gömlu aldrei verið samdar eða birtar. Þær hafa aldrei komist lengra en á umræðustig.

Kvótagreifarnir hafa ærst og boðað þjóðinni að hinar og þessar heimskulegustu finnanlegar reglur yrðu settar í gang til að drepa niður alla útgerð á Íslandi.

Og svo hefur þjóðin ærst líka enda ráðvilltari en lamb í sjálfheldu og skilur hvorki upp né niður í öllum hamaganginum enda var það tilgangurinn.

Engin þjóð getur orðið rávilltari en sú þjóð sem verður að burðast með heimsk og kjarklaus stjórnvöld.

Árni Gunnarsson, 19.3.2010 kl. 00:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 1

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband