26.2.2011 | 16:03
Eiga Bretar að borga Icesave ?????
Ég fór á fund í gær, þar sem Stefán Már Stefánsson, hér eftir (SMS), prófessor í lögum, við Háskóla Íslands, var með framsögu um Icesave. Hann hélt þarna góða tölu um hvað gæti gerst ef við borguðum ekki.
Allt frá upphafi Icesave hef ég spurt hvers vegna verið sé að rukka ríkisstjórn Íslands um þessa skuld, þar sem hvorki Landsbankinn né neinn annar banki hafi á þessum tíma verið í ríkiseign. Auk þess hafi engin ríkisábyrgð verið á Tryggingasjóði innistæðueigenda. Við þessu hafa aldrei fengist skýr svör.
Ég hugsaði mér því gott til glóðarinnar að spyrja þennan virkta lagaprófessor um þetta atriði. Ég lagði því eftirfarandi spurningu fyrir SMS.
- Þegar hrunið varð, var Landsbankinn í einkaeign, eins og aðrir bankar landsins. Tryggingasjóður innistæðueigenda er eign bankanna og engin ríkisábyrgð á þeim sjóði. Engin innheimtukrafa hefur farið fram á hendur Tryggingasjóðnum, sem er hinn raunverulegi skuldari, ef þannig er litið á málin. Hvaðan er þá komin heimild ríkisstjórnar okkar, til að stíga fram fyrir stjórn Tryggingasjóðs og semja um ætlaðar skuldir sjóðsins, sem hvorki hafa verið til innheimtu hjá sjóðnum eða úrskurðað hafi verið að sjóðurinn ætti að greiða?-
Við þessu spursmáli átti SMS ekkert svar. Taldi samt líklegt að mönnum hafi þótt vænlegra að stíga fram og leita sátta. Ekki eitt orð um þær lagalegu forsendur sem ég spurði um. Af þessu mátti skilja að Bretar hefðu í raun engar lagalegar forsendur fyrir innheimtukröfum sínum á hendur ríkissjóði. Staðan virðist því sú að stjórnvöld hér hafi orðið hrædd, eða að það sé verið að slá skjaldborg um stjórnendur Landsbankans, svo ekki yrði höfðað mál gegn þeim í Bretlandi. Og af hverju skildi ég nú segja það.
Flestum er ljóst að grundvöllur EES samningsins er jafnréttishugtakið, um jafna stöðu allra á markaði. Um það segir svo í 1. hluta samningsins um EES eins og hann birtist í lögum nr. 2/1993, en þar segir svo í e. lið 2. töluliðar 1. gr.
"að komið verði á kerfi sem tryggi að samkeppni raskist ekki og að reglur þar að lútandi verði virtar af öllum;..."
Þar sem áhersluletri er bætt við, er það gert af höfundi þessara skrifa. Þarna er beinlínis sagt að ein af grundvallarreglum EES samstarfsins sé að raska ekki samkeppni.
Fram hefur komið að Bresk stjórnvöld hafi heimilað Landsbankanum að taka við innlánum í útibúi sínu í London. Ljóst er að Breskir bankar eru þátttakendur í breska Tryggingasjóði innistæðueigenda. Í ljósi þess var breskum stjórnvöldum skylt að gæta þess að samkeppni raskist ekki. Þeim bar að gæta þess að, áður en þau veittu Landsbankanum leyfi til móttöku innlána, yrði hann að fullvissa bresk stjórnvöld um að útibú hans í London væri með fullgilda innistæðuvernd í Tryggingasjóði Breta, á sama hátt og aðrir bankar á sama markaðssvæði. Með engum öðrum hætti gátu bresk stjórnvöld gefið út heimild til útibús Landsbankans í London, til móttöku og ávöxtunar innlána. Nema því aðeins að bresk stjórnvöld tækju sjálf áhættu af bakábyrg, fyrir jafnri stöðu innlánseigenda í útibúi Landsbankans í London, við innlánatryggingar í öðrum breskum starfandi bönkum. Annað hefði verið mismunun á markaðsstöðu og röskun á samkeppni um innlán.
Af reglum EES samningsins, um jafna stöðu á markaði, er ábyrgð breskra stjórnvalda á að fullkomlega rekstrarlegt jafnvægi ríki milli banka sem bjóðast til ávöxtunar innlána. Er það mögulegt að bresk stjórnvöld hafi heimilað Landsbankanum að safna innlánum, á sama markaði og aðrir breskir bankar, án þess að gera til Landsbankans sömu kröfur um innlánatryggingar og þau gerðu til breskra banka? Með því hefðu bresk stjórnvöld í raun verið að mismuna breskum bönkum, á þann veg að sleppa Landsbankanum við útgjöldum sem fylgdu greiðslu í sama Tryggingasjóði og aðrir bankar á sama markaðssvæði þurfa að greiða í. Þetta gat t. d. þýtt að Landsbankinn treysti sér til að bjóða hærri innlánsvexti, þar sem bresk stjórnvöld slepptu þeim við kostnað sem aðrir bankar þurftu að inna af hendi.
En gat þá mismunur á aðstöðu falist í því að Landsbankinn var íslenskt fyrirtæki, með útibú í London? Nei, út frá markaðslegum jafnræðisreglum EES svæðisins skiptir það ekki máli, hvað rekstrarlega þætti varðar. Hið íslenska útibú verður að vinna algjörlega eftir breskum starfsreglum. Fara í einu og öllu eftir breskum lögum með starfsemi sína á Bretlandi. Útibú þarf öll sömu starfsleyfi og sjálfstætt hlutafélag. Útibúið þarf að gera upp alla rekstrarlega þætti starfseminnar, á sama hátt og sjálfstætt hlutafélag. Eini raunverulegi munurinn er sá að rekstrarhagnaður útibúsins flyst sjálfkrafa úr landi til aðalstöðvanna, en rekstrarhagnaður sjálfstætt starfandi hlutafélags verður kyrr í landinu og skapar skattstofn þar.
Í ljósi alls þessa, vakti það strax sérstaka athygli mína hve harkalegar aðgerðir Breta voru. Aðgerðir þeirra náðu langt út fyrir þá hagsmuni sem þeir voru að verja. Þegar ég fór að skoða málin nánar, varð mér ljóst að bresk stjórnvöld virtust nákvæmlega vita á hvern hátt þau höfðu gerst brotleg við EES reglur, með því að veita Landsbankanum leyfi til innlánasöfnunar, án staðfestingar um aðild hans að hinum breska Tryggingasjóði.
Ef skilakrafa vegna innlána hefði beinst að þeirra eigin Tryggingasjóði, hefði komist upp um hina alvarlegu aðstöðulegu mismunun, sem stjórnvöld höfðu gert sig sek um, auk þess sem þau hefðu orðið uppvís að alvarlegu skeytingarleysi um varnir á innistæðum fjármagnseigenda. Sé mið tekið af hinni veiku stöðu breskra stjórnvalda á þessum tíma, er augljóst að þau máttu engan möguleika gefa á því að athyglin beindist að þeim.
Þarna er augljóslega komin fram skýringin á því hvers vegna Bretar tóku svo snögga ákvörðun um að leysa inn til stjórnvalda sinna allar innistæðukröfur á hendur Landsbankanum, en ekki öðrum bönkum. Einnig það að þau skyldu, eins snögglega og raun bar vitni, taka þá ákvörðun að greiða innistæðueigendum mun hærri fjárhæðir en lágmark reglna um innistæðutryggingar segir til um. Í þriðja lagi fellur vel að þessu skýringin á hinni harkalegu kröfu á hendur íslenska ríkinu, þó þeim væri áreiðanlega ljóst að ríkissjóður væri ekki í ábyrgð fyrir innlánum í bresku útibúi Landsbankans, því það útibú starfaði ALDREI eftir íslenskum lögum.
Bretar vissu strax að, vegna þeirra eigin mistaka við stjórnun og eftirlit bankamála, myndu þeir þurfa að greiða allt innlánatap hjá Landsbankanum. Ef þeir hefðu gefið breskum rannsóknaraðilum færi á að rannsaka leyfisveitingar, eftirlit og starfshætti stjórnvalda, í tengslum við fjármálamarkaðinn, hefði líklega allt bankakerfi Evrópu hrunið, jafnvel heimshrun.
Hver gæti svo ástæðan verið fyrir hinni miklu þögn sem er um þátt Breta í hinu mikla innlánatapi sem varð hjá Landsbankanum? Gæti hún verið sú að stjórnendur heimsmála fjármagnsþátta hafi vitað hve tæpt heimsfjármálin stæðu, og ef upp kæmist um sviksamlega framgöngu breskra stjórnvalda, væri hætta á heimshruni. Betra var því að leyfa Bretum að ráðast gegn íslenska ríkinu, litlu afskekktu eyríki úti í miðju Atlandshafi. Eyríki sem sjálft hafði trassað alvarlega eftirlit með lánastofnunum sínum, sem höfðu á fáum árum þrefaldar erlendar skuldir sínar, án þess að raunveruleg eignaaukning hefði átt sér stað.
Út frá stöðu heimsfjármálanna, var því hagkvæmasta lausnin að halda pressunni og heimsathyglinni á þessu litla eyríki. Segja að það væri að ógna greiðsluflæði í heiminum með því að borga ekki skuldir sínar. Sú fullyrðing Breta að hin raunveruleg skuld þeirra sjálfra, eða Tryggingasjóðs þeirra (Icesave), væri skuld íslensku þjóðarinnar, var kyrfilega keyrð áfram í öllum fjölmiðlum heimsins, þar til forseti eyríkisins neitaði að staðfesta Icesave II. Í framhaldi af því náði hann athygli og eyrum margra stærstu fjölmiðla heimsins. Þá fóru efasemdaraddir um að eyríkið skuldaði Icesave, að ná eyrum fleiri fjölmiðla.
En eins og skuldasöfnun breskra banka og breskra stjórnvalda er enn háttað, er lítil von til að stjórnendur heimsfjármálanna treysti sér til að taka málsstað litla eyríkisins. Athyglisvert er líka, að þetta litla eyríki býr yfir svo miklum nauðsynlegum auðlindum fyrir Evrópuþjóðir og fleiri ríki, að það er bókstaflega rekstrarlegt hagræði að því fyrir ESB, annað hvort að koma þessu ríki undir stjórn Evrópusambandsins, eða setja það efnahagslega í þrot, svo sterkir fjármagnseigendur kaupi hinar arðgefandi auðlindir.
Evrópu er mikilvægt að ná taki á auðlindum sjávar, vegna vaxandi skorts á fiski á markaði þeirra. En lang mikilvægast er fyrir ESB, að þeir nái stjórnun á siglingum og vörulosun um hina væntanlegu "Norðurleið" því mestar líkur eru á að um þá leið fari megnið af framleiðslu markaðssvæða utan Evrópu. Hafi ESB sterk stjórnunarítök á Íslandi, þegar að þessu kemur, gæti slík stjórnun nánast komið í veg fyrir gjaldþrot margra ríkja innan ESB. Ástæða þess er að í sjónmáli er ekkert sem gæti aukið tekjur margra ESB ríkja, að því marki að þau væru sjálfbær með þau lífskjör og félagslega stöðu fólks, sem nú er gerð krafa um, til jöfnunar við stöðu Norður ESB ríkja.
Það er tæplega að vænta þess að úti í heimi sé einhver umhyggjusöm fósturmóðir sem taki þjóð okkar í fang sér, til að kenna okkur að lifa sem samfélag á þeim alsnægtum sem auðlindir lands okkar bjóða upp á. Svo mikið framboð er í heiminum af þjóðum sem EIGA RAUNVERULEGA BÁGT, að við komust þar hvergi á verkefnalista.
Þegar vandlega er skoðað, má sjá að hér hefur ekki verið nein raunverulega kreppa. Allir tekjuþættir þjóðfélagsins hafa haldið áfram að afla þjóðinni tekna, ekki minni en fyrir hrun fjármálakerfisins. Já, það varð hrun. Við höfðum hlaðið upp óraunhæfum sýndarveruleika með innstreymi ótrúlega mikils magns af erlendu lánsfé, til neyslu og lífsstíls sem tekjuöflun þjóðarinnar réði ekkert við. Þegar innstreymi erlends lánsfjár, til neyslu og lífsstíls hætti haustið 2008, mátti öllum vera ljóst að umtalsverður samdráttur yrði í þjóðfélaginu.
Þjóðin er því miður ekki enn búin að sætta sig við breytinguna. Þess vegna er mikil reiði, því enn er verið að horfa til sömu viðmiða og erlenda fjármagnið gerði mögulegt. Því fyrr sem þjóðin sættir sig við að sú tálsýn sem þá var, kemur aldrei aftur. Því fyrr nær þjóðin að horfa með skýrri hugsun til möguleika sinna í framtíðinni.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Fjármál, Vefurinn | Breytt s.d. kl. 16:08 | Facebook
Nýjustu færslur
- EES samningur og ætlað vald ESB
- Efnahags og viðskiptanefnd Alþingis 2021 / Hver er þekking ál...
- Þjóð án fyrirhyggju og dómgreindar: Fyrirlestur saminn og flu...
- Þetta jaðrar við hættulegt ábyrðarleysi hjá fomanni stærsta s...
- BREYTING ER NAUÐSYN TIL BETRA LÍFS
- YFIRSTJÓRN SEÐLABANKANS Lög 2019
- EES samningur og ætlað vald ESB
- ÓSAMRÆMI MILLI LAGA UM STJÓRN FISKVEIÐA OG FRAMKVÆMDA ...
Eldri færslur
2024
2023
2022
2021
2020
2019
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.12.): 1
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 17
- Frá upphafi: 165580
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 15
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- alla
- framtid
- mammzan
- hallgrimurg
- huldumenn
- jaxlinn
- johanneliasson
- maggij
- photo
- haukurn
- runar-karvel
- sigrunsigur
- skodunmin
- svarthamar
- vestskafttenor
- athb
- thjodarsalin
- seiken
- skinogskurir
- bjarkitryggva
- bjarnimax
- brahim
- gattin
- einarhardarson
- einarorneinars
- bofs
- dramb
- haddi9001
- heimssyn
- tofraljos
- don
- hordurvald
- fun
- visaskvisa
- huxa
- jonasphreinsson
- jonl
- jobbi1
- jonvalurjensson
- jonthorolafsson
- josefsmari
- juliusbearsson
- ksh
- kolbrunerin
- kristbjorg
- liu
- skrafarinn
- maggiraggi
- markusth
- os
- raksig
- rosaadalsteinsdottir
- fullvalda
- siggileelewis
- duddi9
- siggith
- saemi7
- tryggvigunnarhansen
- vga
- thjodarheidur
Athugasemdir
Hérna er ´lit breta sem þeir löggðu fram starx fyrir að verða þrem árum. Engin mótrök hafa komið gegn ákaflega sterkru lagalegu uppleggi breta sem er margþætt.
http://www.island.is/media/frettir/28.pdf
Auk þess er og var Tryggingasjóðerekkert eign bankanna. Sjóðinum var komið upp til uppfylla skuldbindingar og lög er ríkið Ísland hafði innleitt sem innfólu að innstæðueigendum var veittur lagalegur réttur til lágmarksbóta.
Ennfremur skilgreinist Tryggingarsjóðurinn sem hluti eða framlenging af ríkinu vegna eðli og efni máls í skilningi EEA Agreement eins og ESA fer yfir:
"Finally, the Authority considers that the Fund forms part of the Icelandic State within the meaning of the EEA Agreement although it is, in Icelandic law, constituted as a private foundation, cf. Article 2 of Act No. 98/1999.
As a consequence any breach by the Fund of the Directive is directly attributable to the Icelandic State.
The Court of Justice has held that a directive may be relied on as against a State, regardless of the capacity in which the latter is acting, that is to say, whether as employer or as public authority. The entities against which the provisions of a directive that are capable of having direct effect may be relied upon include a body, whatever its legal form, which has been made responsible, pursuant to a measure adopted by the State, for providing a public service under the control of the State and has for that purpose special powers beyond those which result from the normal rules applicable in relations between individuals.
http://www.eftasurv.int/media/internal-market/LFN-Icesave.pdf
Ómar Bjarki Kristjánsson, 26.2.2011 kl. 16:56
Edit: ,,Hérna er álit breta sem þeir löggðu fram strax haustið 2008, fyrir að verða þrem árum. Engin mótrök hafa komið gegn ákaflega sterkru lagalegu uppleggi breta sem er margþætt og ítarlegt.
http://www.island.is/media/frettir/28.pdf
Ómar Bjarki Kristjánsson, 26.2.2011 kl. 17:00
Sæll Ómar minn. Ég veit vel um kröfur Bretanna. En er það einhver staðreynd um raunveruleikann þó þeir geri kröfur. Er það ekki einmitt besta leiðin til að forðast að málið verði skoðað með hugsanlega aðild þeirra að málinu?
OG, hvaða kröfur hafa verið gerðar á hendur Bretum, vegna þeirra atriða sem fram koma í pistli mínum? Þeir veittu Landsbankanum leyfi til innlánasöfnunar? Gættu þeir þess að þessi innlán væru tryggð á sama máta og innlán hjá öðrum bönkum á sma markaði? Áttu Þeir ekki að gæta jafnræðis milli aðila á sama markaði?
Það er greinilegt að þú hefur ekki lesið löginn um Tryggingasjóð innistæðueigenda, Eða, að þú hafir ekki skilið þau. Ég veit eki hvort er, en þég þakka þér fyrir innlitið.
Guðbjörn Jónsson, 26.2.2011 kl. 17:46
Þýðir nú ekkert að koma með að ,,ég" skili ekki eða annað.
það er þá frekar að ESA skilji það ekki.
En þess má geta að ESA er sammála í meginlínu því sem eg hef sagt frá byrjun um laga og reglugeðahliðina samkv. evrópulögum.
Heldurðu að geti hugsanlega verið að ,,þið" hafið eigi kynnt ykkur mál nógu vel? Eða að málflutningur ykkar bygggi á óskhyggju og draumóraskap og þið viljið ekki kynna ykkur mál.
Allavega er áberandi að engin svör eða rök koma gegn áliti ESA. Sömu klisjurnar eru bara endurteknar hjá íslendingum sumum. Klisjur sem ESA hafnar alfarið og algjörlega í öllum, öllum liðum.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 26.2.2011 kl. 18:11
Ég er á því að semja um icesave en finnst samningurinn sem "núverandi ríkisstjórn" kom með ekki góður þrátt fyrir að hann sé 10x betri en síðasti samningur, þess vegna eigi að hafna honum.
En þetta er alveg nýr vinkill sem er vert að pæla í.
Jón Á Grétarsson, 26.2.2011 kl. 18:48
Sá sterki ræður, það eru lögin sem notuð eru!
Þessi þingsályktunartillaga var samþykkt 5. desember 2008 og segir m.a. frá aðdraganda Icesave málsins.
Þskj. 219 — 177. mál.
Tillaga til þingsályktunar
um samninga varðandi ábyrgð ríkissjóðs á innstæðutryggingum vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka
á Evrópska efnahagssvæðinu.
(Lögð fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)
Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leiða til lykta samninga við viðeigandi stjórnvöld vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu á grund-
velli þeirra sameiginlegu viðmiða sem aðilar hafa komið sér saman um.
Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.
1. Lagaleg afstaða.
Í kjölfar bankahrunsins í byrjun október 2008 kom í ljós að umtalsverðar fjárhæðir voru á innlánsreikningum í útibúum íslenskra banka í Evrópu. Þessar fjárhæðir voru að stærstum
hluta til á innlánsreikningum Landsbankans í Bretlandi og Hollandi, svokölluðum Icesave- reikningum. Þar sem starfsemi bankans í viðkomandi löndum var rekin í formi útibúa en ekki dótturfélaga gilda lög nr. 98/1999, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, um þessa starfsemi en þau lög eru byggð á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 94/19/EBE um innlánatryggingakerfi.
Í samræmi við ákvæði 3. gr. laga nr. 98/1999 nær greiðsluskylda sjóðsins, og þar með talin ábyrgð hans á greiðslufalli, til útibúa íslenskra banka á Evrópska efnahagssvæðinu. Í
þessu efni er vísað til reglugerðar nr. 120.,/2000 um sama efni. Á þessari forsendu sneru stjórnvöld í viðkomandi ríkjum Evrópusambandsins sér að íslenskum stjórnvöldum í því skyni að kanna með hvaða hætti þau hygðust tryggja að sjóðurinn stæði við þær skuldbind- ingar sem í tilskipuninni felast.
Íslensk stjórnvöld voru ekki tilbúin til að fallast á að íslenska ríkinu bæri að ábyrgjast greiðslur til innlánseigenda ef þær færu fram úr því sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda
og fjárfesta gæti staðið undir af inngreiðslum í sjóðinn. Hafa þau haldið því skýrt til haga í öllum sínum viðræðum við stjórnvöld viðkomandi ríkja að þau telji að vafi leiki á um ábyrgð ríkja á tryggingarsjóðnum, ekki síst undir kringumstæðum þar sem fjármálakerfi aðildarríkis hrynur nánast að fullu eins og reyndin er hér á landi. Þessari lagatúlkun hefur verið hafnað af þeim ríkjum sem hlut eiga að máli svo og af Evrópusambandinu.
Af hálfu íslenskra stjórnvalda hefur verið lögð áhersla á að fá úr málinu skorið fyrir viðeigandi úrskurðaraðila eða dómstól. Þessu hafa aðildarríki Evrópusambandsins alfarið
hafnað. Afstaða þeirra byggist ekki síst á því að þau telja það mjög varhugavert að gefa með einhverjum hætti til kynna að vafi kunni að leika á um gildissvið þess innlánstryggingakerfis sem liggur til grundvallar innlánastarfsemi í Evrópu, þar sem ótvírætt gildi tilskipunarinnar
sé forsenda þess að innstæðueigendur treysti bönkum fyrir sparifé sínu. Réttaróvissa kynni að valda ófyrirséðum afleiðingum í evrópsku bankakerfi.
2. Pólitísk staða.
Við upphaf þeirrar deilu sem hér um ræðir sneri hún einvörðungu að Bretum og Hollend- ingum og voru því viðræður teknar upp við þau ríki sérstaklega. Á þeim tíma stóðu líkur þegar til þess að Ísland mundi þurfa að reiða sig á lánafyrirgreiðslu frá Alþjóðagjaldeyris- sjóðnum sem og tvíhliða aðstoð erlendra ríkja til þess að koma efnahagslífinu á réttan kjöl á nýjan leik. Eftir að gengið hafði verið frá viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í samvinnu við sérfræðinga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var skipulega unnið að því í gegnum tengslanet utan- ríkisþjónustunnar að kynna málstað og málaleitan Íslands fyrir aðildarríkjum Alþjóðagjald- eyrissjóðsins. Varð framan af ekki vart neins annars en stuðnings. Það snerist hins vegar og verulegar tafir urðu á fyrirtöku viljayfirlýsingar Íslands í framkvæmdastjórn sjóðsins.
Þessi staða kom enn skýrar í ljós þegar Frakkland, sem formennskuríki í Evrópusam- bandinu, ákvað að beita sér fyrir viðræðum milli deiluaðila með pólitíska lausn að markmiði. Þá varð ljóst að ríki Evrópusambandsins töluðu einum rómi í málinu og lögðu kapp á að ábyrgð Íslands skýrðist sem allra fyrst. Sama átti við um starfshóp norrænu ríkjanna um lánafyrirgreiðslu við Ísland sem starfaði í framhaldi af fundi forsætisráðherra Norðurland- anna á þingi Norðurlandaráðs í Helsinki. Þannig varð ljóst að lausn þessa máls væri forsenda
þess að hægt væri að fjármagna að fullu þá efnahagsáætlun sem íslensk stjórnvöld höfðu sent Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til afgreiðslu og að Ísland stæði einangrað ef pólitískri samn- ingaleið væri hafnað.
3. Niðurstaða íslenskra stjórnvalda.
Með allt framangreint í huga er það mat ríkisstjórnarinnar að hagsmunum Íslands til lengri tíma litið sé best borgið með því að stjórnvöld styðji við Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta þannig að hann geti staðið straum af þeim kostnaði sem hlýst af því að ábyrgjast lágmarkstryggingu þá sem EES-reglur mæla fyrir um að því marki sem eignir viðkomandi banka standa ekki undir henni. Gert er ráð fyrir því að þau ríki sem hlut eiga að máli muni aðstoða sjóðinn við að standa undir þessu verkefni og það verði í formi lánveitinga við- komandi ríkja til sjóðsins með ábyrgð íslenska ríkisins. Þær viðræður sem fram undan eru munu skera úr um nánari útfærslu þessara lánveitinga, auk þess sem hin endanlega niðurstaða mun ráðast af því að hve miklu leyti andvirði eigna viðkomandi banka mun renna til sjóðsins við uppgjör á búum þeirra.
Endanlegar niðurstöður framangreindra samninga munu verða lagðar fyrir Alþingi og aflað viðeigandi fjárheimilda eftir því sem aðstæður krefjast.
Fylgiskjal.
UMSAMIN VIÐMIÐ
1. Ríkisstjórn Íslands hefur átt viðræðufundi með stofnunum Evrópusambandsins og hlutaðeigandi aðildarríkjum þess um skuldbindingar Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið að því er tekur til tilskipunar um innstæðutryggingar 94/19/ EBE. Aðilar komu sér saman um að tilskipunin um innstæðutryggingar hafi verið felld inn í löggjöfina um Evrópska efnahagssvæðið í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og gildi því á Íslandi með sama hætti og hún gildir í aðildarríkjum Evrópusambandsins.
2. Viðurkenning allra aðila á þessari lagalegu stöðu greiðir fyrir skjótri niðurstöðu samn- ingaviðræðna þeirra sem nú standa yfir um fjárhagsaðstoð við Ísland, þ.m.t. við Al- þjóðagjaldeyrissjóðinn. Þessar samningaviðræður skulu fara fram með samhæfðum og samræmdum hætti og skal þar tekið tillit til hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna
sem Ísland er í og knýjandi nauðsynjar þess að ákveða ráðstafanir sem gera Íslandi kleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt.
Stofnanir Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins munu taka áframhaldandi þátt í þessu ferli sem fer fram í samráði við þær
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 260 — 177. mál.
um till. til þál. um samninga varðandi ábyrgð ríkissjóðs á innstæðutryggingum vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu.
Annar minni hluti utanríkismálanefndar gagnrýnir vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í þessu máli harðlega. Mikið vantar upp á að málatilbúnaður sé ásættanlegur. Gildir það jafnt um aðdraganda málsins og það hvernig ríkisstjórnin hélt á málstað Íslands í deilum fyrst við Breta og Hollendinga og síðan Evrópusambandið sem og um það hvernig staðið var að samkomulagi við deiluaðilana og hvernig málið er nú borið fyrir Alþingi.
Þegar ljóst varð eftir fall bankanna, einkum Landsbankans, að gríðarlegir fjármunir væru á svonefndum Icesave-reikningum í Bretlandi og Hollandi, og að einhverju leyti á bankareikningum víðar, höfðu talsmenn ríkisstjórnarinnar uppi stór orð um að ekki kæmi til greina að láta kúga Íslendinga til uppgjafar í Icesave-deilunni. Talað var um lagalegan ágreining sem Ísland ætti skýlausan rétt á að láta á reyna eftir lögformlegum leiðum fyrir gerðardómi eða dómstóli. Þegar ákveðið var að sækja um lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum varaði undirritaður strax sterklega við að í þeirri ákvörðun og því ferli sem Ísland lenti þar inn í gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum fælist jafnframt baneitruð tenging yfir í hina óleystu deilu um Icesave-reikningana. Þessu var í fyrstu neitað og sagt að ekki kæmi til greina að láta kúga okkur til uppgjafar í því deilumáli til þess eins að geta leitað á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Allt var þetta síðan gefið eftir af ríkisstjórninni. Það sem menn hafa í þessu sambandi kallað lausn er í raun ekkert annað en uppgjöf, ósigur, tap.
Ríkisstjórnin í heild, viðkomandi ráðherrar sérstaklega, þ.e. forsætisráðherra, viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra, sem og Fjármálaeftirlit og Seðlabanki, bera á því mikla ábyrgð að umfang þessara innlánsreikninga varð slíkt sem raun ber vitni. Andvara- og aðgerðaleysi þessara aðila, svo ekki sé sagt bein vanræksla, er nú að valda íslenska þjóðarbúinu og skattgreiðendum komandi ára og jafnvel áratuga ómældum skaða. Ekki skal lítið gert úr ábyrgð bankanna sjálfra sem héldu áfram að safna innstæðum inn á reikningana löngu eftir að ljóst varð að í óefni stefndi. Ríkisstjórn og eftirlitsaðilar brugðust hins vegar augljóslega sínu hlutverki og þessir aðilar, ásamt bönkunum, og þá fyrst og fremst Landsbankinn, brugðust allir saman þjóðinni.
Hin umsömdu viðmið til lausnar deilunni frá 16. nóvember 2008 virðast fela í sér, eftir því sem næst verður komist, að Ísland afsali sér réttinum til að fá skorið úr hinni lagalegu óvissu hvað varðar umfang ábyrgðar okkar á innlánsreikningunum. Spurningin er hvort Ísland hafi gert skyldu sína og fullnægt ákvæðum tilskipunar um innstæðutryggingar nr. 99/19/EB með því að setja á fót innlánstryggingarsjóð og láta greiða til hans 1% af hinum tryggðu innstæðum árlega eða hvort um lagalega eða þjóðréttarlega skuldbindingu er að ræða þar sem ríkissjóður Íslands sé bakábyrgur upp að lágmarkstryggingarupphæðinni, 20.887 evrum. Sé þetta réttur skilningur á 1. tölul. samkomulagsins, hinna umsömdu viðmiða, er ljóst að aldrei fæst úr því skorið hvort Ísland var eingöngu ábyrgt fyrir þeim fjármunum sem til staðar áttu að vera í innlánstryggingarsjóðnum eða hvort íslenska ríkið er bakábyrgt fyrir fjárhæðum sem geta numið allt að 630.640 milljörðum króna miðað við gengi á evru og pundi eins og það hefur verið að undanförnu. Upp í þá upphæð koma að líkindum allnokkrar eignir Landsbankans en hversu langt það hrekkur er enn óvíst. Einnig benda allar líkur til að kröfuhafar muni láta reyna á það ákvæði neyðarlaganna að færa innlánsreikninga fram fyrir í kröfuröð og getur það skipt stórum fjárhæðum, hundruðum milljarða, hver útkoman úr því verður.
Í 2. tölul. samkomulagsins, eða hinna umsömdu viðmiða, sem birt eru sem fylgiskjal með tillögunni, er talað um að viðurkenning aðila, þ.e. deiluaðila, á hinni lagalegu stöðu, muni greiða fyrir samningaviðræðum um fjárhagsaðstoð við Ísland, þ.m.t. við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Í því felst að Ísland fallist í reynd (de facto) á að landið sé ábyrgt fyrir innlánstryggingu í útibúum íslenskra banka erlendis upp að 20.887 evrum. Síðan segir að samningaviðræður deiluaðila skuli fara fram með samhæfðum og samræmdum hætti og að tekið skuli tillit til hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna sem Ísland er í og knýjandi nauðsynjar þess að ákveða ráðstafanir sem gera Íslandi kleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt. Með öðrum orðum, að menn ætli inn í samninga við Evrópusambandið eða samninga undir forustu Evrópusambandsins við gagnaðila Íslands, þar sem menn hafa nú ekki fram að þessu átt góðu að mæta, með ekkert í farteskinu nema slík innihaldslítil orð á blaði.
Það er mat undirritaðs að með því að undirrita samkomulagið eða hin umsömdu viðmið 18. nóvember sl. hafi Ísland tapað að verulegu leyti vígstöðu sinni eða samningsstöðu í þessu máli og sé nú í afar erfiðri stöðu nema að málið verði fært aftur á byrjunarreit, sem mundi að sjálfsögðu gerast ef Alþingi hafnaði því að veita stjórnvöldum galopið umboð til samninga á þessum grundvelli.
Að sjálfsögðu er ljóst að málið er í hinu mesta óefni og að baki liggja jafnvel lítt dulbúnar hótanir Evrópusambandsins eða þeirrar blokkar sem myndaðist innan Evrópusambandsins í þessu máli um að beita okkur þvingunaraðgerðum. Látið hefur verið í það skína að einhver hluti samningsins um Evrópska efnahagssvæðið verði settur í uppnám ef við föllumst ekki á að hverfa frá öllum hugmyndum um lögformlegan eða lagalegan úrskurðarfarveg í málinu og ganga til þessa pólitíska þvingunarsamkomulags sem Evrópusambandið er að knýja fram, samkomulag sem hlýtur að mega flokka sem ógildanlegan nauðasamning að lögum og þjóðarétti. Þetta eru að mati undirritaðs óásættanlegir afarkostir og ekki boðlegt að ætla að taka á íslenska ríkið, og þar með íslenska skattgreiðendur, á komandi árum skuldbindingar sem geta hlaupið á fleiri hundruðum milljarða króna, jafnvel numið heilum til einum og hálfum fjárlögum íslenska ríkisins eins og þau eru um þessar mundir, á jafnveikum forsendum og hér er lagt til.
Þess ber að geta sérstaklega að þrátt fyrir undirritun samkomulagsins, hinna umsömdu viðmiða, 18. nóvember sl. stendur frysting breskra stjórnvalda á eignum Landsbankans á grundvelli hryðjuverkalaga enn og allt er óljóst um hvenær eða hvernig henni verður aflétt sem og hvað fyrir Bretum vakir með því að halda henni enn til streitu. Spurningin er hvort Bretar hyggjast hafa eignirnar í haldi til að fá mögulega upp í þá viðbótartryggingu sem bresk lög fela í sér gagnvart sparifjáreigendum (50.000 pund á reikning) og/eða hvort Bretar hyggjast nýta eignir Landsbankans til að bæta að einhverju leyti þeim stofnanafjárfestum, sveitarfélögum, líknarfélögum o.fl. aðilum sem áttu miklar innstæður á Icesave-reikningum, upp tapið. Loks getur skipt máli í þessu sambandi hvort ákvæði neyðarlaganna um að gera innlánsreikninga að forgangskröfum halda, eins og áður sagði.
Mikil óvissa er því um alla stöðu málsins, bæði stærðargráðu ábyrgðanna sem í húfi geta verið, ekki síst í ljósi óvissu um raunverulegt verðmæti eigna Landsbankans, svo og vegna þess að enn hafa engar eiginlegar samningaviðræður farið fram milli deiluaðila eftir að samkomulagið var gert 16. nóvember sl.
Það er því til mikils mælst, svo ekki sé fastar að orði kveðið, að ríkisstjórnin skuli ætlast til þess að Alþingi veiti henni galopið samningsumboð til að leiða til lykta þetta mál sem getur falið í sér skuldbindingar til frambúðar fyrir íslenska ríkið svo nemi fleiri hundruðum milljarða króna á grundvelli ekki traustari gagna en enn er við að styðjast og í ljósi þess hversu málsatvik og málsaðstæður allar eru ótraustar.
Annar minni hluti leggur því til að ríkisstjórninni verði falið að taka upp samningaviðræður við deiluaðilana að nýju á hreinu borði og leita eftir og sækja fast á um lögformlegan úrskurðarfarveg í deilumálinu og/eða samningsniðurstöðu á sanngjörnum forsendum. Í ljósi þessa leggur 2. minni hluti til að tillögunni verði vísað frá með svofelldri
Með vísan til rökstuðnings hér að framan leggur 2. minni hluti til að Alþingi ákveði að aðhafast ekki frekar í málinu að svo stöddu og feli ríkisstjórninni að taka upp viðræður á nýjan leik og að málinu verði vísað frá og tekið fyrir næsta mál á dagskrá.
Verði tillaga um rökstudda dagskrá ekki samþykkt mun koma til atkvæða varatillaga 2. minni hluta sem felur í sér skilyrta gildistöku samningsumboðs til ríkisstjórnarinnar og þá þannig að samningsumboð íslenskra stjórnvalda til að ganga til viðræðna um lausn deilunnar á grundvelli hinna umsömdu viðmiða stofnist ekki fyrr en Bretar hafa aflétt frystingu á eignum Landsbankans í Bretlandi á grundvelli hryðjuverkalaga og málin hafa skýrst hvað varðar verðmæti þeirra eigna sem til ráðstöfunar verða á móti skuldbindingunum.
Gunnar Skúli Ármannsson, 27.2.2011 kl. 11:18
Við verðum að gera okkur grein fyrir því að kröfuhafar í þrotabúum gömlu bankana sem eru öll helstu fjármálafyrirtæki heims eru nú með í gangi málaferli sem ætlað er að hnekkja neyðarlögunum.
Færustu lögspekingar heims vinna nú að því að fá neyðarlögunum hnekkt. Verði neyðarlögunum hnekkt þá eignast kröfuhafar þrotabú Landsbankans. Verðmæti þess er um 1.200 milljarðar. Þessir aðilar munu ekki gefa þessa 1.200 milljarða eftir baráttulaust.
Verði neyðarlögunum hnekkt fyrir dómi þá verða innistæður ekki lengur forgangakröfur í þrotabúum bankana.
Það þýðir að við getum ekki notað eignir þrotabús Landsbankans til að greiða Icesave.
Ef við samþykkjum ríkisábyrgð á Icesave þá munum við þurfa að borga Icesave óháð því hvort hægt er að nota þrotabú Landsbankans til þess eða ekki. Verði neyðarlögunum hnekkt þá fáum við ekki krónu úr þrotabúi Landsbankans upp í Icesasve. Ríkissjóður mun samt þurfa að greiða þessa 1.200 milljarða sem Icesave krafan er. Það er að segja þessa 630 milljarða sem það kostar að tryggja lágmarksinnistæður 20.887 evrur per reikning og þá rúmu 500 milljarða sem Bretar og Hollendingar hafa lagt fram til að tryggja innistæður umfram 20.887 evrur.
Þess vegna hafa Bretar og Hollendingar sótt það svo fast að fá þessa ríkisábyrgð. Þeir óttast að neyðarlögunum verði hnekkt og ef það gerist þá verður að vera ríkisábyrgð á Icesave þannig að við neyðumst til að taka 1.200 milljarða úr ríkissjóði til að borga Icesave.
Verði neyðarlögunum hnekkt þá falla 1.200 milljarðar á ríkisjóð.
Þess vegna má ekki samþykkja Icesave.
Það má ekki veita þessa ríkisábyrgð.
Friðrik Hansen Guðmundsson, 27.2.2011 kl. 12:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.