Bréf til ESB

 

Íslandi 18.03 2011

Mr Herman Van Rompuy

European Council

Rue de la Loi 175

B-1048 Brussels

Kæri herra Van Rompuy

Haustið 2008 hrundi nánast allt íslenska bankakerfið (90%) á nokkrum dögum og þar með Landsbankinn og útibú hans í London og Amsterdam (Icesave-reikningarnir). Samkvæmt grundvallarreglu EES samningsins virðist jafnréttishugtakið um jafna stöðu allra á markaði vera undirstaða alls samstarfs innan Evrópusambandsins. Það kemur skýrt fram í 1. hluta samningsins um EES eins og hann birtist í íslenskum lögum nr. 2/1993 en þar segir svo í e. lið 2. töluliðar 1. gr:

 

„að komið verði á kerfi sem tryggi að samkeppni raskist ekki og að reglur þar að lútandi verði virtar af öllum" (Áhersluletur er bréfritara) Þarna er beinlínis sagt að ein af grundvallarreglum EES samstarfsins sé að raska ekki samkeppni.

 

Í ljósi þessa verður ekki betur séð en breskum og hollenskum stjórnvöldum hafi borið skylda til að sjá til þess að útibú Landsbanka, í London og Amsterdam, hefði fullgildar tryggingar innlána í Tryggingasjóðum innistæðueigenda í viðkomandi löndum. Annað hefði verið mismunun á markaði annars vegar í óhag fjármagnseigenda en hins vegar til hagsbóta fyrir Landsbankann.

Bretar og Hollendingar tóku Icesave einhliða úr eðlilegum farvegi réttarfars yfir í hið pólitíska umhverfi. Á þeim grundvelli krefja þeir íslenska skattgreiðendur af mikilli hörku um endurgreiðslu þeirra innlána sem tryggð áttu að vera í bresku og hollensku innistæðutryggingakerfi eins og EES reglurnar kveða skýrt á um.

Fyrstu viðbrögð íslenskra stjórnvalda voru að þau hefðu verið beitt ofríki og vildu því fara með málið fyrir dómstóla. Bretar og Hollendingar höfnuðu því en áður höfðu Bretar sett hryðjuverkalög á Ísland og Landsbankann. Bretar stöðvuðu í framhaldinu starfsemi Kaupþings-banka (Singer & Friedlander) í London og féll þá stærsta fjármálafyrirtæki Íslands.

Vegna harkalegra viðbragða Breta og Hollendinga lokaðist fyrir flæði fjármagns til og frá Íslandi. Með því voru ríkisfjármál Íslands tekin í gíslingu. Þess vegna urðu Íslendingar að samþykkja að semja um Icesave-skuldina til að fá aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Krafa AGS um þetta atriði kom fyrir samstilltan þrýsting Breta, Hollendinga og ESB-þjóðanna að gangast undir Icesave-kröfurnar.

Núverandi Icesave-samningar geta kostað okkur hálf fjárlög íslenska ríkisins. Ef neyðarlögin frá því í október 2008 verða dæmd ógild verða Icesave-kröfurnar tvöföld fjárlög ríkissjóðs. Íslenskur almenningur á erfitt með að sætta sig við að bera þessar byrðar vegna fjárglæfrastarfsemi einkabanka. Byrðar sem í raun tilheyra tryggingasjóðum Breta og Hollendinga samkvæmt grunnreglum EES um jafna samkeppnisstöðu útibúa Landsbankans í þessum löndum við aðra banka á sama markaðssvæði.

Íslenska þjóðin mun kjósa um nýjasta Icesave-samninginn þann 9. apríl næst komandi. Við höfnuðum þeim síðasta. Þess vegna finnst okkur undirrituðum áríðandi að fá svör við eftirfarandi spurningum fyrir þann tíma.

1. Hvers virði eru þríhliða samningar (Icesave samningarnir) þar sem tveir aðilar samningsins hafna eðlilegri málsmeðferð og í krafti aðstöðu sinnar neyða þriðja aðilann að samningaborði til að fjalla um málefni sem allar líkur benda til að séu uppgjörsmál Landsbankans við innistæðutryggingakerfi Breta og Hollendinga?

2. Hvers vegna var Íslendingum meinað að verja sig fyrir þar til bærum dómstólum um réttmæti krafna Breta og Hollendinga haustið 2008?

3. Í ljósi þess að Landsbankinn varð að fara eftir breskum lögum hvers vegna var honum þá heimilað að taka við innlánum áður en bankinn var búinn að tryggja sig hjá breska innistæðutryggingasjóðnum?

 

3.1 Veitti það bankanum ekki óeðlilegt forskot á markaði að vera undanskilinn þeirri kröfu?

 

3.2 Var hagur breskra neytenda ekki fyrir borð borinn með því að leyfa Landsbankanum að tryggja sig með minni kostnaði en aðrir á markaði?

 

 

3.3 Ætlar ESB að láta Breta og Hollendinga komast upp með að brjóta grunnreglur EES samningsins um jafna stöðu fyrirtækja á sama markaði ?

4 Samrýmist það stefnu ESB að þegar einkabanki verður gjaldþrota myndist krafa á skattfé almennings?

5 Er innistæðutryggingakerfi einhvers Evrópulands nógu öflugt til að standa undir falli 90% af bankakerfinu í landi sínu?

6 Hver verða viðbrögð ESB ef íslenskur almenningur hafnar nýjustu Icesave samningunum þann 9. apríl n.k?

Virðingarfyllst og með ósk um góð svör

Ásta Hafberg, háskólanemi

Baldvin Björgvinsson, raffræðingur / framhaldsskólakennari

Björn Þorri Viktorsson, hæstaréttarlögmaður

Elinborg K. Kristjánsdóttir, fyrrverandi blaðamaður, núverandi nemi

Elías Pétursson, fv. framkvæmdarstjóri

Guðbjörn Jónsson, fyrrverandi ráðgjafi

Guðmundur Ásgeirsson, kerfisfræðingur

Gunnar Skúli Ármannsson, læknir

Haraldur Baldursson, tæknifræðingur

Helga Garðasdóttir, háskólanemi

Helga Þórðardóttir, kennari

Inga Björk Harðardóttir, kennari/myndlistakona

Karólína Einarsdóttir, líffræðingur og kennari

Kristbjörg Þórisdóttir, kandídatsnemi í sálfræði

Kristján Jóhann Matthíasson, fv sjómaður

Pétur Björgvin Þorsteinsson, djákni í Glerárkirkju

Rakel Sigurgeirsdóttir, framhaldsskólakennari

Sigurjón Þórðarson, líffræðingur

Sigurlaug Ragnarsdóttir, listfræðingur

Steinar Immanúel Sörensson, hugmyndafræðingur

Þorsteinn Valur Baldvinsson Hjelm, eftirlitsmaður

Þórður Björn Sigurðsson, starfsmaður Hreyfingarinnar

 

Svör og eða spurningar skal senda til Gunnars Skúla Ármannssonar Seiðakvísl 7 110 Reykjavík Ísland gunnarsa@landspitali.is

Afrit sent til ýmissa ráðamanna ESB og EFTA, viðkomandi ráðuneyta Bretlands, Hollands og Íslands auk evrópskra fjölmiðla.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Björnsson

2005 í kjölfar úttektar á Íslenskra veðsafna 2004 lokaðist hér á fjármagnsflæði, þar sem bankar geta ekki lánað veðlausum Bönkum í farmhaldi, þess vegna er það eina sem hægt er gera fyrir veðlausa bankann að framlengja ef hann borgar inn á skuld í reiðfé. Hvernig heppnaðist t.d. Landsbanka að ná sér í lífengingu í formi reiðufjár? 2006 lokað Seðlabanki EU á þann Íslenska. 

Veðbandalánasöfn til baktrygginga, eru 45, 30, 25, 20, 15, 10, og 5 ár.  Við vitum 5 árum síðar að þessi 10, 15, 20, 25, 30, 45, ára hljóta hafa verið jafn fölsuð 5 árum fyrr.  SDR varasjóðir AGS  er ætlað koma í  stað bakveða gagnvart erlendum lántökum.     AGS er millgöngu aðili til að tryggja ekki síst hagsmuni viðskipta ríkja sem töldu sig hlunnfarinn. Honum er ætlað að stilla gengi gjaldmiðlisins í samvinnu við hlunnförnu ríkin.  

Júlíus Björnsson, 22.3.2011 kl. 20:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.12.): 2
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 165581

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband