Vill ÁFRAM hópurinn sigur með óheiðarleika?

Þegar horft er til þess á hvern hátt JÁ hópurinn sækist eftir fylgi við sjónarmið sín, vekur athygli hve óheiðarleiki er þar áberandi. Í þessum pistli verður sérstaklega litið til auglýsingar á bls. 7, í Fréttablaðinu í dag, föstudaginn 25. mars 2011. Þar hvetur þessi hópur fólk til kynni sér Icesave- samninginn og taki síðan upplýsta ákvörðun 9. apríl n.k. Þeirri hvatningu er ég sammála, en ekki þeim óheiðarleika sem birtist í auglýsingunni.

Sem aðaláhersla er notuð hin augljóslega falsaða uppsetningu RÚV á skoðanakönnun Capacent, þar sem sagt var að 62 % kjósenda ætluðu að segja JÁ við Icesave III. Þegar tölur könnunarinnar eru skoðaðar kemur hins vegar í ljós að þeir sem svöruðu JÁ, eru langt innan við helming þeirra sem svöruðu.

Næsti uppsláttur auglýsingarinnar er eftirfarandi: "Margir telja okkur ekki skylt að greiða Icesave- skuldina en við teljum það betri kost að samþykkja samninginn og ljúka málinu með sátt."

Það vekur athygli mína að þarna eru settar þrjár áherslur. Auglýsendur virðast ekki telja sig með þeim sem ekki telja okkur skylt að greiða Icesave. Þeir segjast því telja það betri kost að borga. Engin rök eru tiltekin er sýni af hverju það sé betri kostur að borga. Í þriðja lagi er sagt að með því að borga, þá ljúkum við málinu með sátt.

Í þessu viðhorfi auglýsenda felst fullkomin viðurkenning á því að Bretar og Hollendingar eigi kröfurétt á hendur ríkissjóði Íslands. Og í því ljósi sé best fyrir okkur að ljúka málinu með sátt. Hverjar eru svo megin forsendur þess að auglýsendur vilji gera sátt í málinu. Um það segja þeir í auglýsingunni:

"Við viljum leysa deilur með samningum og sú leið mun hafa góð áhrif á samskipti okkar við umheiminn."

Í þessu felst viðurkenning á að skattgreiðendum komandi ára beri að greiða skuld einkafyrirtækis, án þess að kröfu hafi verið lýst á hendur tryggingasjóði þess. Dálítið broslegt er að horfa til þess stærilætis sem felst í niðurlagi setningarinnar. Það er eins og umheimurinn standi á öndinni yfir því hvernig við afgreiðum þetta mál. Hann sé tilbúinn að snúa við okkur baki. Sannleikurinn er sá að einungis örlítið brot af "umheiminum" veit eitthvað um Ísland og enn minna brot af umheiminum veit eitthvað um Icesave.

Þriðja staðhæfingin í auglýsingunni er eftirfarandi: "Dómstólaleiðin er leið óvissu og áhættu. Málið mun dragast í mörg ár og niðurstaðan er í algjörri óvissu."

Þessi staðhæfing er einkar athyglisverð. Svo er að sjá sem enginn efi komist að í huga auglýsenda um að dómsmál verði rekið á hendur okkur vegna Icesave. Ekki verður betur séð en sú niðurstaða byggist fyrst og fremst á hræðslu og algjörum skorti þekkingar á EES samningnum, sem er grundvöllur samskipta okkar við ESB ríkin.

Fyrsti hluti EES samningsins hefur svipaða stöðu og stjórnarskrá okkar. Þar er að finna þær grundvallarreglur sem samningurinn og samskipti aðila skulu byggja á.

Flestum er ljóst að grundvöllur EES samningsins byggist á jafnréttishugtakinu; um jafna stöðu allra, innan sömu greinar, á sama markaði. Um það segir svo í 1. hluta samningsins um EES, eins og hann birtist í lögum nr. 2/1993, en þar segir svo í e. lið 2. töluliðar 1. gr. um það samskiptakerfi sem gilda skuli.

   "að komið verði á kerfi sem tryggi að samkeppni raskist ekki og að reglur þar að lútandi verði virtar af öllum;..." (Áhersluletur setti G.J.)

Þarna er beinlínis sagt að ein af grundvallarreglum EES samstarfsins sé að raska ekki samkeppni. Ekki er um það að ræða í þessum samning, að stjórnvöld hvers lands framselji stjórnunarvald innan síns lands, í hendur stjórnvalda í öðru ríki. Þess vegna er það á valdi og ábyrgð stjórnvalda í hverju ríki fyrir sig að gæta þess að jafnræði sé með öllum rekstraraðilum sömu greinar á sama markaði, sama frá hvaða landi innan samningsins hann kemur. Honum ber að fara eftir öllum sömu reglum og aðrir þurfa að hlíta.

Fram hefur komið að Bresk stjórnvöld hafi heimilað Landsbankanum að taka við innlánum í útibúi sínu í London. Breskir bankar eru þátttakendur í breska Tryggingasjóði innistæðueigenda. Í ljósi þess, sem og jafnræðisreglunnar, var breskum stjórnvöldum skylt að gæta þess að samkeppni raskist ekki. Áður en þau veittu Landsbankanum leyfi til móttöku innlána, bar þeim að sjá til þess að, útibú hans í London væri með fullgilda innistæðuvernd í Tryggingasjóði innistæðueigenda á Bretlandi, á sama hátt og aðrir bankar á sama markaðssvæði.

Samkvæmt framangreindri grundvallarreglum EES samstarfsins, máttu bresk stjórnvöld ekki gefa út heimild til útibús Landsbankans í London, til móttöku og ávöxtunar innlána, fyrr en framangreind trygging innistæðna í breskum tryggingasjóði lægi fyrir. Nema því aðeins að bresk stjórnvöld tækju sjálf áhættu af bakábyrg, fyrir jafnri stöðu innlánseigenda í útibúi Landsbankans í London, við innlánatryggingar í öðrum starfandi bönkum á sama markaðssvæði. Annað hefði verið mismunun á réttarstöðu innistæðueigenda, en það þá um leið mismunun á markaðsstöðu og röskun á samkeppni um innlán.

Í ljósi þessa, verður dómstóll sem fjalla ætti um slíkt mál að víkja afar langt frá grundvallarreglu réttlætis, til að heimila saksókn á hendur íslenska ríkinu, vegna vanefnda Breta og Hollendinga á e. lið 2. töluliðar 1. greinar grundvallarreglna EES samningsins. Samkvæmt þessu ákvæði á íslenska ríkið ekki einu sinni aðild að málinu og verður því ekki lögsótt til neinnar ábyrgðar á skuldakröfum á hendur Landsbankanum. Ekki heldur íslenski tryggingasjóðurinn.

Í fjórða og síðasta lið staðhæfingar í framangreindri auglýsingu JÁ hópsins, segir eftirfarandi: "Samþykkt samningsins styrkir lánshæfismat Íslands, erlent lánsfé fæst til uppbyggingar, hagvöxtur eykst og atvinnuleysi minnkar."

Svo mörg voru þau orð. Enginn veit enn hvaða upphæð verður til innheimtu samkvæmt samningnum um Icesave III. Enginn óháður aðili hefur verið fenginn til að sannreyna upplýsingar skilanefndar gamla Landsbankans. Þarna er á ferðinni sömu aðilar sem stöðugt færðu okkur rangar upplýsingar um stöðu bankanna, þar til þeir hrundu. Það er því afar lítil fyrirhyggja í því að taka óendurskoðaðar niðurstöður þessara aðila sem stórasannleika um hve miklar eignir komi frá búi Landsbankans til greiðslu Icesave III.

Samkvæmt samantekt AGS eru skuldir þjóðarbús okkar það miklar að til greiðslufalls horfi. Það er því afar undarleg framsetning hjá JÁ hópnum, að með því að auka við skuldir okkar og vaxtaútgjöld, munum það styrkja lánshæfismat Íslands. Slík fullyrðing flokkast nú frekar undir óábyrgan þekkingarlausan áróður, en vera hvati til endurreisnar á efnahagslífi þjóðar okkar. Hvað rekur fólk áfram í slíkri vitleysu, gegn hagsmunum þjóðar sinnar, er mér hulin ráðgáta.

Í ljósi þeirrar skuldastöðu sem þjóðarbúið er í, er það í besta falli villtur draumur áhættufíkils í fjárhættusækni, að ætla að taka meira fé að láni erlendis, meðan ekki er búið að tryggja greiðsluflæði komandi ára, vegna þeirra lána sem nú þegar eru í farvegi endurgreiðslu. Heyrst hefur að nettó gjaldeyristekjur okkar á ári, þegar búið er að greiða nauðsynlegan innflutning á matvörum, bensíni, olíum og öðrum rekstrarvörum tekjuskapandi útflutningsgreina, eigum við eftir jafnvirði eitthvað rúmra 100 milljarða króna.

Vextir af þegar veittum erlendum lánum okkar nema mörgum tugum milljarða á ári. Ef við ætlum að veita afkomendum okkar einhverja möguleika á að lifa í samræmi við tækni og þekkingu samtíma síns, verðum við að leggja okkur fram um að greiða niður þær skuldir sem núlifandi kynslóðir hafa hlaðið upp á u. þ. b. 30 ára tímabili. Ef við settum stefnuna á að komast út úr þessum skuldum á c. a. 20 árum, gæti það þýtt að við þyrftum að leggja til hliðar 50 - 70 milljarða á ári hverju, til skuldauppgjörs, fyrir utan vaxtagreiðslur.

Eins og staðan er nú í fjármálum heimsins, er útilokað að reikna með öðru en þó nokkrar vaxtahækkanir verði á komandi árum. Að vísu er einnig líklegt að raunvirði gjaldmiðla falli einnig, sem mundi lækka skuldir okkar. Því miður er einnig líklegt að verð á helstu útflutningsvörum okkar muni einnig lækka, vegna samdráttar í fjármálum, sem valda mun veltusamdrætti í flestum þjóðfélögum, hjá miklum meirihluta þegna þeirra. Fyrirsjáanlegt er því að á næstunni munum við ekki stunda mikla uppbyggingu, með auknu erlendu lánsfé, nema við ætlum að stefna þjóðinni í gjaldþrot.

Hins vegar er okkur afar mikilvægt að efla svo trúverðugleika pólitískra stjórnenda landsins, sem og trúverðugleika þingmanna, að þess sjáist greinileg merki í störfum þeirra, að þeir þekki þarfir og möguleika þjóðfélagsins og setji heildarhagsmuni framar sér- og eiginhagsmunum.

Til uppbyggingar atvinnusköpunar og aukins hagvaxtar, eigum við í raun einungis eina færa leið. Hún er sú að tryggja hér trausta samstöðu þjóðar, þings og stjórnvalda, svo erlendir aðilar sjái sér langtímahagsmuni í að leggja hér fram, í eigin áhættu, fjármuni til uppbyggingar gjaldeyrisskapandi starfsemi, sem skili tekjum í ríkiskassann.

Að lokum tek ég undir með niðurlagsorðum JÁ hópsins í auglýsingu sinni, en þau er eftirfarandi:

"Kynnum okkur málið og kjósum það sem er best fyrir land og þjóð."

Ég á sömu óskir til handa þjóð minni. Og eftir að hafa kynnt mér allar aðstæður í nútíð og næstu sýnilegu framtíð, hef ég ákveðið að segja NEI við Icesave III.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Ragnar (Maggi Raggi).

Ef já??? kæmi upp úr kjörkössunum, þá þyrftu 232.539 kjósendur strax að byrja að borga upp Icesave. Restin yrði að borga þegar þau væru kominn með aldur til þess að greiða upp Icesave.

Enn vonum það besta upp úr þessu leiðinda máli að stærsta "Nei!!!" veraldar komi upp úr kjörkössunum og að réttlæti okkar fái sigurinn.

Magnús Ragnar (Maggi Raggi)., 27.3.2011 kl. 16:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 109
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 102
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband