Er hægt að tryggja verðgildi gjaldmiðils?

Í hart nær þrjá áratugi höfum við reynt að tryggja ákveðnum aðilum verðgildi gjaldmiðils okkar með tilteknum aðferðum sem aldrei hafa verið raunprófaðar eða áhrif þeirrar aðgerðar á afkomu þjóðarinnar rannsakað. Hvers vegna ætli það sé svo? Ég veit það, en geri það ekki opinskátt að sinni.

Byrjum á því að velta fyrir okkur hver eru hin raunverulegu verðmæti krónunnar okkar; og hvort nauðsynlegt sé að verðgildið sé bara eitt, eða hvort þjóðin geti haft mörg verðgildi krónunnar. Kannski líkt og þegar ærgildi voru verðmætisviðmið. Þá gat eitt ærgildi haft mismunandi verðgildi, eftir landshlutum, héruðum eða jafnvel bændum.

Í fjölþættu viðskiptasamfélagi nútímans er nauðsynlegt að verðgildi gjaldmiðilsins sé aðeins eitt. Og það gildi um öll viðskipti sem gjaldmiðillinn er notaður við. Mikilvægt er að allir viti fyrirfram hvert verðmæti hverrar krónu er. Sama hvort hún er að koma inn á heimili, í fyrirtæki eða banka. Hvort verið er að greiða með útgjöld, svo sem vörur, þjónustu, eða vexti og afborganir af lánsfé. Verðgildi krónunnar verður að vera aðeins eitt og hið sama á öllum sviðum. Ástæður þess eru margar, en helsta ástæðan er að stjórnaarskrá okkar gerir ráð fyrir að allir séu jafnir fyrir lögum landsins, og að krónan er okkar lögeyrir, í öllum viðskiptum okkar.

Þó við höfum talið okkur reka nútímalegt fjölþætt viðskiptasamfélag undanfarna þrjá áratugi, höfum við ekki haft eitt og sama verðgildið á krónunni fyrir alla landsmenn. Við höfum veitt afmörkuðum aðilum sérstaka aðstöðu til að krefjast hærra verðs, fyrir hverja krónu sem þeir hafa til útlána, en almennt gerist í viðskiptum manna í milli innan samfélagsins. Lítum hér á litla dæmisögu:

Fyrirtæki sem smíðar innréttingar, skrifstofuhúsgögn og annarskonar húsgögn, ákvað að endurnýja vélakost sinn. Til að fjármagna það, leitaði fyrirtækið eftir 6 milljóna króna láni hjá bankanum sínum. Lánið átti að vera til fimm ára, afborgunarlaust fyrstu 6 mánuðina. Þá yrðu greiddir áfallnir vextir en síðan yrði lánið greitt niður með mánaðarlegum afborgunum. Bankatryggja þurfti seljandanum greiðsluna, sem inna þurfi af hendi þegar seljandinn væri búinn að setja vélarnar upp og stilla þær til framleiðslu. Bankinn féllst á að veita lánið og tryggja greiðslurnar.

Skömmu eftir að nýja vélasamstæðan var komin í gang, var ákveðið að ráðast í endurnýjun innréttinga í fjórum útibúum bankans. Skipta átti um skrifstofuhúsgögn og innréttingar. Stjórnendum bankans leyst vel á framleiðsluna úr nýju vélunum hjá þessu umrædda fyrirtæki og gera samning um kaupin hjá þeim. Vörurnar átti að afhenda í fjórum áföngum á tveimur árum, þannig að eitt útibú væri í hverjum áfanga. Samningurinn var uppá 5,8 milljónir króna, sem greiðast átti í fjórum hlutum, 30 dögum eftir afhendingu hvers áfanga samningsins.

Þar sem samningurinn var óvæntar tekjur, utan við áætlanir fyrirtækisins um endurgreiðslu lánsins, var þetta eins og Lottóvinningur. Þar að auki var samningurinn nánast sama upphæð og lánið sem fyrirtækið hafði fengið til að kaupa nýju vélarnar. Fyrirtækið fór því fram á breytingu á forsendum lánsins, á þann veg að þeir greiddu vexti mánaðarlega en greiðslurnar frá bankanum, vegna samningsins, gengu til greiðslu höfuðstóls lánsins. Og að verkinu loknu, mundi fyrirtækið gera upp eftirstöðvar lánsins. Þetta var samþykkt af hálfu bankans.

Framkvæmdin gekk öll samkvæmt áætlun og mánuði eftir afhendingu síðasta áfanga samningsins, fór eigandi fyrirtækisins í bankann til að gera upp þær 200 þúsund krónur sem var mismunur lánsins og verksamningsins. En þegar hann ætlar að greiða þessar eftirstöðvar lánsins, er honum sagt að þær séu nú heldur hærri en 200 þúsund.

Hvernig getur staðið á því, segir eigandi fyrirtækisins. Ég tók 6 milljónir króna að láni, bankinn gerði við mig viðskiptasamning upp á 5,8 milljónir, sem ákveðið var að gengju upp í greiðslu lánsins. Vextina greiddum við mánaðarlega. Samningurinn er uppfylltur. Síðasta afhending var fyrir mánuði og ég hér kominn til að greiða þessar 200 þúsund krónur sem eftir eiga að vera af láninu.

Það er ekki svona, sagði bankamaðurinn. Á tímabilinu var 12% verðbólga á ári, sem hækkaði vísitölu lánsfjárins, þannig að nú, þegar verksamningur þinn hefur verið greiddur að fullu skuldar þú okkur 1.118.000, sem eftirstöðvar lánsins.

Hvernig í ósköpunum getur þú fengið út svona tölu, þegar einungis 200 þúsund krónur er hinn talnalegi mismunur lánsins og verksamningsins, segir eigandi fyrirtækisins.

Það ræðst af því, segir bankamaðurinn, að krónan sem við lánum þér er verðbætt með neysluvísitölu, en krónan sem við borgum þér með er ekkert verðbætt. Þetta reiknast sko svona. Fyrstu mánuðina skuldar þú okkur 6 milljónir. Á því tímabili reiknaðist verðbólgan 6%, sem þýðir að sem verðbætur á þessar 6 milljónir koma 369.121 krónur.

Eftir þessa 6 mánuði kemur fyrsta innborgun á verksamninginn, sem er 1.450.000 krónur. Við það lækkar lánið niður í 4.550.000. Næstu 6 mánuði stendur lánið í þessari upphæð og verðbólga er enn 6% á tímabilinu. Það þýðir að verðbætur reiknast 279.917 krónur.

Þá kemur önnur greiðsla frá verksamning þínum inn á lánið, þannig að eftirstöðvar þess verða 3.100.000 krónur. Þannig stendur lánið í 6 mánuði og á þeim tíma er einnig 6% verðbólga. Það þýðir að verðbætur reiknast 190.712 krónur.

Þá kemur þriðja greiðslan frá verksamningnum inn á lánið, þannig að eftirstöðvar þess verða þá 1.650.000. Þannig stendur lánið í 6 mánuði og á því tímabili er verðbólgan líka 6%. Það þýðir að verðbætur reiknast 101.508 krónur.

Þegar fjórða greiðslan kemur inn á lánið, verða eftir 200 þúsund af upphaflegum höfuðstól lánsins. Auk þess eru 941.258 krónum uppsafnaðar verðbætur og 4.622 í vexti af verðbótunum yfir lánstímann. Eftirstöðvarnar verða því samtals 1.145.880 krónur.

Já en góði maður, segir eigandi fyrirtækisins. Þetta eru sömu krónurnar sem ég borga ykkur og þær sem þið lánið mér. Og í lögunum um gjaldmiðil okkar, krónuna, er sagt að hún sé lögeyrir með fullt verðgildi í öllum greiðslum. Hvernig getur þá staðið á því að krónan sem þið greiðið mér fyrir verksamninginn, sé þetta mikið verðminni en krónan sem þið lánuðuð mér? Þetta getur ekki verið heilbrigt. Þegar samningarnir eru gerðir er einungis 200 þúsund króna mismunur á upphæðunum.

Bankinn lánaði mér til að greiða þýsk mörk. Enn í dag fengi ég jafn mörg þýsk mörk fyrir sömu upphæð íslenskrar króna. En þrátt fyrir þetta allt segið þið að krónan sem þið borguðuð Seðlabankanum fyrir þýsku mörkin á sínum tíma, hafi rýrnað svo að nú muni milljón. En samt geti ég nú í dag, fengið sömu upphæð þýskra marka, fyrir sömu upphæð íslenskra króna og ég borgaði þegar lánið var tekið.

 Ég veit ekkert um það, segir bankamaðurinn. Þú verður að ræða þau mál við þingmennina. Það eru þeir sem ákveða að hafa þetta svona.

Já en bíddu við. Þú sagðir að þessi viðbót væri vegna 12% verðbólgu. Tók ég ekki rétt eftir því? Spurði eigandi fyrirtækisins.

Já það er alveg rétt hjá þér, svarar bankamaðurinn.

Já en þessi viðbót sem þú ert að rukka mig um er 15.69% viðbótarálag ofan á lánið, auk vaxta af því, til viðbótar því að við höfum greitt ykkur 6% vexti af láninu allan tímann. Ég skil bara ekki svona reiknikúnstir, segir eigandi fyrirtækisins.

Ég get að vísu ekki upplýst þig nákvæmlega um þessa útreikninga, því það er skuldabréfakerfið í Reiknistofu bankanna sem reiknar verðbótaþáttinn á lánin. En eins og ég sagði þá eru það þingmennirnir okkar sem vilja hafa þetta svona, svo ég tel heppilegast fyrir þig að ræða við þá, ef þú telur að þetta fyrirkomulag sé að brjóta á þér rétt, sagði bankamaðurinn.

Eftir að hafa samið við bankamanni um afborganir af hinum meintu eftirstöðum lánsins, fór eigandi fyrirtækisins að kanna þessi verðtryggingamál sérstaklega. Í framhaldi af því pantaði hann fund með formanni viðskiptanefndar Alþingis, því hann taldi þessi mál heyra undir þá nefnd.

Fundurinn með formanni viðskiptanefndar byrjaði vel. Eigandi fyrirtækisins lagði fram afrit af verksamningnum, afrit af lánasamningnum og breytinguna á fyrirkomulagi endurgreiðslu. Þá lagði hann einnig fram forsendurnar sem bankamaðurinn hafði látið honum í té um eftirstöðvarnar, og hvernig þær höfðu orðið til. Hann kynnti alla þessa pappíra fyrir formanninum.

Áður en eigandi fyrirtækisins hafði lokið máli sínu, fórnaði formaðurinn höndum og sagði.

Hvað heldur þú að ég geti gert í þessu. Ég er ekki einu sinni viss um að ég skilji allt sem þú hefur verið að segja mér. Hvernig á ég að geta deilt á lög sem einn virtasti doktor í lögum, samdi fyrir hart nær 20 árum. Ætlar þú að reyna að segja mér að það væri ekki einhverjir búnir að fara í mál út af þessu á 20 árum, ef þetta væri ekki allt 100% eins og það á að vera?

Eigandi fyrirtækisins horfði undrandi á formanninn. Hann velti fyrir sér hvort formaðurinn væri að sýna honum ókurteis, eða hvort þekking hans og skilningur á viðskiptamálum væri svona lítill. Það þykknaði því nokkuð í eiganda fyrirtækisins, en hann var vel þroskaður maður, með góða stjórn á skapi sínu. Hann horfði því hvössum augum á formanninn og sagði.

Þú skilur það þó að lánasamningurinn er upp á 6 milljónir króna, en verksamningurinn er upp á 5,8 milljónir. Mismunurinn á þessum tveimur tölum er 200 þúsund?

Formaðurinn baðaði út höndunum og sagði.

Ég skil þetta allt saman. En ég sé einnig að þú hefur látið plata þig með því að verðtryggja ekki verksamninginn og fá þannig frá bankanum þá upphæð sem hann er að gera þér að greiða í verðtryggingu. Þá hefði engin mismunur orðið og málið dautt.

Eigandi fyrirtækisins horfði enn hvössum augum á formanninn og sagði. Ert þú í raun og veru að segja það, að ég hefði átt að bæta 20% verðmætalausri upphæðina við reiknaðan kostnað á verksamningnum, til þess að geta jafnað þessa reiknikúnst bankans? Segjum nú svo að ég hefði gert þetta og bankinn gengið að verksamningnum þrátt fyrir þessa verðhækkun. Þá hefði ég ekki borgað bankanum þá upphæð sem þessi reiknikúst ætlar mér að borga, Hvaðan hefði bankinn þá átt að fá þá fjármuni sem reiknikúnstir mínar og bankans bættu við hið raunverulega verð?

Nú var formaðurinn farinn að finna verulega fyrir óþægindum af því að geta ekki útskýrt verðtrygginguna. Hann var því farinn að íhuga flóttaleið út úr þessum aðstæðum. Hann strauk sér því um andlitið og sagði.

Ég get svo sem ekki sagt þér það. Ég hef aldrei rekið banka. En ég sé einnig að við náum ekki að leysa þetta mál á svona einkafundi. Ég mæli því með því að þú skrifir nefndinni formlegt erindi, stutt þessum gögnum og ég reyni að koma því á dagskrá nefndarinnar. Þá getum við hugsanlega líka kallað til sérfræðinga til að fara yfir málið.

Eigandi fyrirtækisins sá að það mundi engum árangri skila að reyna frekar að koma þessum formanni í skilning um hvaða þjóðarböl var þarna á ferðinni. Hann stóð því upp, safnaði skjölunum saman og kvaddi formanninn með handabandi, því hann vildi ekki setja hann í andstöðu við sig, ef svo færi að hann gerði eitthvað með erindi sem hann fengi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband