Eru óvitar að semja lög um fiskveiðistjórnun??

 Komið er fram enn eitt frumvarpið til laga um fiskveiðistjórnun (þskj. 1052). Það sorglega við þetta frumvarp, eftir allt sem á undan er gengið í upphrópunum um fyrri frumvörp og tilraunir til sátta um þetta mikilvæga hagsmunamál þjóðarinnar, er að það frumvarp sem nú er til afgreiðslu er augljóslega samið af fólki sem skortir heildarþekkingu á verkefninu og hefur auk þess ekki heildarsýn á verkefnið sjálft, eins og vikið verður að hér á eftir.

Samkvæmt frumvarpinu er markmið laganna talin til í eftirfarandi liðum:

    a.   að stuðla að verndun og sjálfbærri nýtingu fiskistofna við Ísland,

    b.   að stuðla að farsælli samfélagsþróun með hagsmuni komandi            kynslóða leiðarljósi,

    c.    að treysta atvinnu og byggð í landinu,

   d.  að hámarka þjóðhagslegan ávinning af sjávarauðlindinni og tryggja   þjóðinni eðlilega auðlindarentu,

Allt eru þetta falleg markmið, þó mér finnist b. liðurinn vera þokukennda draumsýn. Ég hefði kosið að sjá hann orðaðan á eftirfarandi hátt.

b.   ætíð verði leitað að hagfeldu rekstrarumhverfi fiskiskipa af hagstæðri rekstrarstærð, sem meginmarkmiði þess að laða fram hámarks þjóðhagslegan ávinning af sjávarauðlindinni, og tryggja þjóðinni þannig sem besta búsetu og atvinnustig í sjávarbyggðum, ásamt eðlilegu afgjaldi af auðlindinni.

Einn mikilvægasti hluti hverra laga er markmiðslýsing þeirra og við framkvæmd laganna verða markmiðin einn af mikilvægu þáttum við framkvæmd á stjórnun veiðanna. En í texta lagagreina frumvarpsins eru þessi markmið oft afar óljós og iðulega hvergi nærri.

Grunnreglan verði skýr og ótvíræð.

Eina skýra reglan sem lögfest hefur verið um úthlutun aflaheimilda, var sett við fyrstu úthlutun aflaheimilda. Þau lög sem þar um ræðir, giltu einungis í eitt ár og féllu þá úr gildi vegna nýrra laga um fiskveiðistjórnun, sem líka giltu í eitt ár. Segja má að í öllum fyrstu lögunum um fiskveiðistjórnun, hafi verið vísað til reglunnar sem sett var við fyrstu úthlutun, en hún var um að úthlutun aflaheimilda skildi byggjast á veiðireynslu undangenginna 3ja ára.

Þessa reglu vildu útvegsmenn ekki sætta sig við að nota. Þeir settu því fram þá sérkennilegu kröfu að einungis ætti að úthluta aflaheimildum til þeirra skipa sem voru við veiðar á árunum 1980 - 1983. Út frá úthlutun aflaheimilda fyrsta ársins bjuggu þeir til hugtakið "aflahlutdeild", sem var hlutfall hvers skips í úthlutuðum heildarafla. Þessi regla um aflahlutdeild var aldrei lögfest og hefur því alla tíð verið framkvæmd án lagaheimilda. Þrátt fyrir margítrekaðar fyrirspurnir hafa stjórnvöld og þingmenn ævinlega komið sér hjá því að svara fyrirspurnum um lagaheimildir fyrir hugtakinu "aflahlutdeild". Hefur það því hangið í loftinu öll þessi ár og aldrei fengist staðfest fyrr en með framlagningu þess frumvarps sem hér er fjallað um.

 

Aflahlutdeild ekki til í lögum.

Í 2. tölulið 4. gr. frumvarpsins, sem fjallar um orðskýringar, segir svo um aflahlutdeild: Aflahlutdeild: Hlutdeild í leyfðum heildarafla í nytjastofni.

Ekki er vísað til neinna lagaheimilda fyrir þessu mikilvæga fyrirkomulagi útdeilingar, án endurgjalds, á hlutfalli af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Hins vegar segir svo í 9. gr. frumvarpsins, um nytjastofna utan aflahlutdeildar:

"Þegar veiðireynsla hefur myndast í stöðugu umhverfi og að öðrum efnislegum forsendum uppfylltum flytur ráðherra frumvarp til laga um úthlutun aflahlutdeilda í viðkomandi nytjastofni. Tekið skal mið af veiðireynslu, bæði fyrir og eftir gildistöku laga þessara, réttmætum hagsmunum þeirra sem hófu veiðar, verðmætamyndun og heildarmarkmiðum laganna."

Takið eftir því orðalagi sem þarna er viðhaft: "flytur ráðherra frumvarp til laga um úthlutun aflahlutdeilda í viðkomandi nytjastofni"   EF lög væru til um aflahlutdeild úr takmörkuðum nytjastofnum, mundi ráðherra ekki flytja frumvarp til laga um úthlutun aflahlutdeildar. Hann mundi flytja frumvarp til breytinga á lögum um aflahlutdeild. Það er því nú orðið ljóst að engin lög eru til um aflahlutdeild.

Þessu til viðbótar virðast textahöfundar frumvarps um fiskveiðistjórnun ekki hafa vitað af því að hingað til hefur verið úthlutað í Aflamarki, eða magni kílóum/tonnum í hverri fiskitegund sem úthlutað er, en ALDREI aflahlutdeilda.  

Hins vegar segir í 8. gr. umrædds frumvarps að nú skuli fara fram Úthlutun samkvæmt aflahlutdeildum. Hvernig það eigi að fara fram er hins vegar alveg óljóst. Eins og fyrr segir eru engin lög til um "aflahlutdeild" og því engin lögbær heimild til að úthluta með þeim hætti. Ef ætlunin hefði verið að gera lögtæka úthlutun samkvæmt "aflahlutdeild" hefði lagafrumvarp til löggildingar á því fyrirkomulagi þurft að koma fram samhliða frumvarpinu um fiskveiðistjórnun. En svo er ekki. Þess vegna er ekki hægt að ákvarða sem lög, úthlutunarreglu samkvæmt 8. gr. frumvarpsins.

Ekki er ætlunin að tína til alla þætti frumvarpsins sem tvímælis orka. Hins vegar er ekki hægt að skilja eftir ákvæðið samkvæmt 12. gr. frumvarpsins um Framsal aflahlutdeilda.  Í 1. mgr. segir að: "Fiskistofa skal leyfa flutning aflahlutdeilda milli fiskiskipa, ef eftirtalin skilyrði eru uppfyllt:" Í 2. tölulið skilyrða segir svo:

    2.     Fullnægjandi upplýsingar um kaupverð aflahlutdeildar fylgja.

Þarna er athyglisvert ákvæði.  Í 1. gr. frumvarpsins segir að: Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameiginleg og ævarandi eign íslensku þjóðarinnar.  Þarna fer væntanlega ekkert á milli mála, eða hvað. Hvers vegna tala textahöfundar  frumvarpsins allt í einu hér um kaupverð aflahlutdeildar, þegar ljóst er samkvæmt markmiðum laganna að: Íslenska ríkið veitir öll tilskilin veiðileyfi til nýtingar aflaheimilda samkvæmt þeim takmörkunum sem lög þess greina.  Þarna er skýrt og greinilega talað um veiðileyfi til nýtingar en hvergi minnst á sölu eða kaupverð aflahlutdeildar. Slíkt er engan vegin hægt að hafa í lögum.

Hvers vegna geta ekki verið ákvæði um sölu eða kaupverð í þessum lögum? Ástæðan er einföld.  Í markmiðum 1. gr. laganna segir skýrum orðum um veiðileyfi til nýtingar:

Slíkt nýtingarleyfi aflaheimilda myndar ekki eignarrétt,  óafturkallanlegt forræði eða sjálfstæða ráðstöfun einstakra aðila yfir hinum úthlutuðu aflaheimildum.

Eins og þarna er greinilega sagt, getur enginn haft á hendi heimild til sölu aflamarks eða aflahlutdeildar, þar sem í 1. gr. laganna segir að hið veitta leyfi sé einungis nýtingarleyfi, sem myndar ekki eignarrétt, eða sjálfstæða ráðstöfun einstakra aðila yfir hinum úthlutuðu aflaheimildum. Enn eitt dæmið um að textahöfundar frumvarpsins skorti mikið á að hafa heildaryfirsýni yfir það verk sem þeir voru að vinna.

Það síðasta sem ég vík að nú, er ákvæði 17. gr. frumvarpsins sem nefnist Kvótaþing:

Í 1. mgr. 17. gr. segir svo:      "Fiskistofa starfrækir markað fyrir aflamark,"   Hér verður strax að taka fram að  samkvæmt þeim lögum sem verið er að setja, með frumvarpi þessu, er aðeins um að ræða úthlutun á veiðileyfi til nýtingar, en engrar annarrar ráðstöfunar. Eins og að framan segir, myndar slíkt nýtingarleyfi ekki eignarrétt,  óafturkallanlegt forræði eða sjálfstæða ráðstöfun einstakra aðila yfir hinum úthlutuðu aflaheimildum

 Ekki verður því betur séð en fullkomlega sé ólöglegt að sjávarútvegráðuneytið sjálft, setji skyldur á Fiskistofu, sem er undirstofnun ráðuneytisins, að hún reki stofnun eins og Kvótaþing, sem ætlað er að stunda markaðs- og sölumiðlun aflaheimilda. Sölustarfsemi sem ekki er heimil samkvæmt núgildandi lögum og getur ekki orðið heimil samkvæmt þeim lögum sem kæmu frá þessu frumvarpi. Ein mikilvægasta ástæða þess er að markmið þessara tilvonandi laga er að aflahlutdeild (aflaheimildir) verði ævarandi eign íslensku þjóðarinnar. Fiskistofa getur því með engu móti rekið sölumarkað fyrir aflaheimildir eða aflahlutdeildir sem ALLS EKKI MÁ SELJA.

  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég vil þakka Guðbirni Jónssyni sem bendir okkur á hve illa ígrunduð og hættuleg þessi ólög eru þjóðfélaginu í heild.

Bjarni Bergmann Vilhjálmsson (IP-tala skráð) 16.4.2012 kl. 01:10

2 identicon

Þetta er flott ábending og sýnir hve langt frá skynseminni umræðan og allur raunveruleiki í kringum fiskveiðistjórnina er í raun og veru.

Við þurfum að koma á nýrri stjórnarskrá og síðan semur þjóðin sjálf reglur um fiskveiðistjórnina. Þessari kvótavitleysu verður að linna.

Olafur Jonsson (IP-tala skráð) 21.4.2012 kl. 17:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband