ER Fjórfrelsi ESB óraunhæft og hættulegt ??

   Sú fyrirsögn sem hér er viðhöfð kallar að sjálfsögðu fram ýmsar hugleiðingar og í þessum skrifum leitast ég við að skýra hvernig ég sé hið frjálsa flæði fjármagns, vera annað af sterkustu öflum þeirra hörmunga sem yfir okkur gengu í fjármálahruninu.

Frjálst flæði fjármagns, vinnuafls, vöru og þjónustu yfir landamæri innan ESB þjóða að viðbættum EES þjóðum, var innleitt á síðari helming tíunda áratugs síðustu aldar. Í fyrstu laut þetta frelsi aðallega að ríkjum mið og suður Evrópu. Lítið reyndi því á þessi ákvæði fram til aldamóta umfram venjulega árekstra um hið frjálsa flæði vöru, með verkföllum bænda og vörubílstjóra o.fl. víða í Evrópu. Einnig voru truflanir á frjálsu flæði vinnuafls þar sem á aðflutt fólk var víða litið sem vandamál.

Afleiðingar af frelsi fjármagnsins fóru fljótlega að birtast eftir aldamótin. Fjármagn var flutt í umtalsverðu magni milli landa, án eftirlits Seðlabanka. Lánastofnanir og stórfyrirtæki gátu nú, án samráðs við Seðlabanka, tekið erlend lán að eigin geðþótta og einnig gátu peningamenn flutt fjármagn sitt til annarra landa, þangað sem ávöxtun var talin betri.

Áhrifin af þessum frjálsu fjárflutningum urðu þau að gjaldeyrisforði ýmissa landa þurrkaðist upp og Seðlabankar urðu að taka erlend lán til að fullnægja skyldum um gjaldeyrisforða. Lausafé þjóða, t. d. eins og okkar, var farið úr landi og farið að vinna fyrir eigendur sína í öðrum löndum, eða komið til geymsluvörslu á öruggum stöðum, eins og skattaskjólum, sem víða eru þekkt.

Á þessu tímaskeiði eru tveir stærstu ríkisbankar landsins okkar seldir einkaaðilum. Þeir sem keyptu, höfðu enga þekkingu eða reynslu af því að reka  mikilvægar fjármálastofnanir í sjálfstæðu þjóðfélagi. Þeir voru bara að kaupa vinnutæki handa sjáfum sér, með meinta auðssöfnun í huga.

Á þessum sama tíma og einkavæðing bankanna fór fram, urðu líka umskipti í stjórnunarstöðum þessara banka. Gömlu reyndu bankastjórarnir hurfu frá störfum en í stað þeirra komu óreyndir reiknilíkana drengir, sem þekktu engin lögmál um jafnvægi  peningamyndunar og verðmætasköpunar. Þeir lánuðu því iðulega miklar fjárhæðir af lausafjármagni landsins, til flutnings úr landi til stofnunar og reksturs fyrirtækja þar.  Nýmyndur fjármagns í landinu stóð ekki undir þessari blóðtöku svo úr varð vaxandi þennsla og verðbólga.

Til að reyna að vinna gegn peningaskorti fóru bankarnir að taka erlend lán. Í fyrstu út á sína eigin eignastöðu. Fljótlega fóru menn svo að útbúa blekkingarpappíra varðandi meintar eignaheimildir á aflaheimildum. Slíkir pappírar voru settir sem skuldatrygging til  erlendra lánveitenda. Þegar slíkt dugði ekki lengur, var farið að setja skuldabréf, hlutabréf í ýmsum hlutafélögum og eignarhaldsfélögum í tryggingavöndla, sem tryggingu fyrir lánum.  Þar sem þetta voru ekki taldir jafn traust veð og eigiðfé bankanna eða aflaheimildir á Íslandsmiðum, voru lagðar fram fyrirspurnir til stjórnenda bankanna, hvort ríkissjóður mundi koma bönkunum til hjálpar ef þeir lentu í vandræðum.

Á þessum tíma hafði verið flutt til landsins gífurlegt fjármagn. Þetta fjármagn var lánað út án alls skipulags eða fyrirhyggju. Erlendu lánin sem bankarnir tóku, voru skammtímalán til 3ja, 5, eða 7 ára. Bankarnir lánuðu þetta fjármagn að mestu til mikilla húsbygginga, sem lítil sem engin þörf var fyrir. Áður en allar þessar lántökur komu til sögunnar, hafði verið full vinna fyrir alla vinnufæra menn. Til að annast allar þessar byggingaframkvæmdir varð því að flytja inn erlent vinnuafl, til að byggja mikinn fjölda stórhýsa sem fjármögnuð voru með þessu erlenda skammtímalánsfé.

 Á tímabili voru mörg þúsund erlendra starfsmanna við byggingavinnu hér, auk fjölda sem sinntu öðrum störfum. Erlenda lánsféð fór því lítið út í hagkerfi  því þetta erlenda vinnuafl fór með verulegan hluta af þessu lánsfé okkar úr landi, en annar stór hluti þessara erlendu skammtímalána var fastur í steypu fjölmargra óseljanlegra húsa. Það varð því einungis lítill hluti af þessu lánsfé sem fór til varanlegrar uppsveiflu í hagkerfi þjóðfélagsins okkar.

Á þessum tíma var einnig ráðist í  eina stærstu og dýrustu virkjanaframkvæmd landsins, einnig fyrir erlent lánsfé. Ekkert innlent vinnuafl var laust til þessara starfa, svo enn þurfti að flytja inn þúsundir starfsmanna til að byggja stíflur og stöðvarhús. Það fjármagn sem þarna var tekið að láni var með ríkisábyrgð en afar lítið af þessu erlenda lánsfé kom til varanlegrar veltu í þjóðfélagi okkar. Megnið af fjármagninu fór til varanlegrar veltu í öðrum löndum m. a. mikið til Kína.

Þegar komið var fram yfir miðjan fyrsta áratug 21. aldar, var búið að flytja frá Íslandi megnið af eigin fjármagni þjóðarinnar.  Erlendar lántökur voru þá komnar nálægt 7.000 milljörðum. Farið var að heyrast aðvörunarraddir aðgætinna bankamanna í öðrum löndum, sem að sjálfsögðu sáu þann óvitaskap sem bankamenn hér á landi stunduðu. Þessum aðvörunum svöruðu óvitarnir hér með umtasverðum hroka.

 Komu þá til sögunnar í það minnsta tveir vogunarsjóðir, hugsanlega fleiri, sem ætluðu sér að ná taki á auðlindum landsins, bæði í orkugeiranum og fiskistofnum. Þrátt fyrir að allar varúðarbjöllur væru farnar að hringja hjá alvöru bankamönnum, lögðu þessir aðilar fram u. þ. b. 7.000 milljarða á 18 mánaða tímabili, til lánveitinga til íslensku bankanna. Allar venjulegar varúðarreglur lánastarfsemi voru þarna sniðgengnar í þeirri trú að allar lánveitingar til íslensku bankanna væru með ríkisábyrgð.

Enginn vafi er á því að lánveitendunum var ljóst að bankarnir sem tóku lánin myndu aldrei geta endurgreitt lánin á tilsettum tíma. Enginn vafi er heldur á að þeim var ljóst hver gjaldeyrisafgangur þjóðarinnar var að jafnaði. Þeir vissu því að greiðslugetan var engin.

Vogunarsjóðirnir vissu einnig að engin venjuleg lánastofnun myndi lána íslensku bönkunum til endurfjármögnunar þessara síðustu 7.000 milljarðanna. Plan vogunarsjóðanna var því greinilega þannig að þegar skammtímalánin þeirra myndu falla í gjalddaga, líklega á árunum 2010, 2011, og 2012, mundi þjóðin komast í greiðsluþrot og verða að afhenda vogunarsjóðunum auðlindir þjóðarinnar sem greiðslu. Þjóðin yrði því um alla framtíð einungis lágt launað vinnuafl þessara erlendu auðhringa, sem þá ættu auðlindirnar og seldu þjóðinni aðgang að þeim.

Sem betur fer endaði þetta ekki svona. Þegar hrunið varð, kom strax í ljós að engin ríkisábyrgð var á hinum erlendu lántökum bankanna. Við þessu urðu vogunarsjóðirnir afskaplega reiðir og kröfðust þess að Íslandi yrði þegar í stað skellt flötu með hefndaraðgerðum á grundvelli innistæðutrygginga Landsbankans í Bretlandi og Hollandi.

Flest bendir til að stjórnvöldum bæði í Bretlandi og Hollandi hafi í gegnum Fjármálaeftirlit landa sinna, strax verið nokkuð vel ljóst að nægar tryggingar fyrir innistæðum, væru fyrir hendi í traustum útlánum Landsbankans í þessum löndum, til greiðslu innistæðna. Hins vegar voru þessi stjórnvöld, líkt og flest önnur stjórnvöld í Evrópu, háð því að fara að vilja hinna stóru fjármagnseigenda sem nú horfðu fram á að tapa öllum 7.000 milljörðunum án þess að fá auðlindirnar sem þeir ætluðu að ná. Gerðu þeir sér því von um að hægt yrði að skella greiðslufalli á íslensku þjóðina með gjaldföllnum ábyrgðum vegna ógreiddra innistæðutrygginga og með þeim hætti næðu þeir  tökum á auðlindum þjóðarinnar.

Staðan var máluð mjög dökkum litum þegar rætt var við forystufólk stjórnarflokka og yfirmenn fjármálakerfis.  Allir fóru í panik og enginn íslenskra stjórnenda þorði að tjalda fram vörnum fyrir þjóðina. Til að fyrirbyggja að alvöru vörnum eða athugasemdum yrði beitt í samningaviðræðum um IceSvae kröfuna, var lagt bann við því að sterkir fjármálamenn yrðu hafðir í samninganefndinni.  Samningurinn skyldi vera svo óhagstæður Íslandi að landið yrði óhjákvæmilega greiðsluþrota á samningstímanum og við fyrstu vanskil greiðslu mætti taka löghald í auðlindum þjóðarinnar og öðrum eignum.

Sem betur fer fyrir íslensku þjóðina, misreiknuðu þessir auðjöfrar sig að einu leiti. Þeir reiknuðu ekki með að þjóðin ætti sér nein varnartæki við þeirri snöggu sókn sem fyrirhuguð var vegna gjaldfallinna greiðslna IceSave samningsins og lokuðum öllum lánsfjárleiðum, öðrum en til þeirra sjálfra í gegnum Alþjóða gjaldeyrissjóðinn. Þar yrðu heldur ekki opnaðar neinar undankomuleiðir.

Það sem þessir aðilar áttuðu sig ekki á, var ákvæði 26. gr. stjórnarskrár. Þeir vissu ekki að Forsetinn mundi standa með þjóðinni og verjast nauðvörn þegar hræðsluskjóðurnar á Alþingi og í ríkisstjórn voru búin að samþykkja hina óhæfu samninga.

Þar sem Forsetinn tók sér stöðu með þjóðinni, áttu vogunasjóðirmir  enga aðra leið en taka eignarhald í bönkunum, til að eiga einhverja von um að endurheimta eitthvað af því fé sem átt hafði að færa þeim auðlindir Íslands.

Eins og hér hefur verið rakið, voru engir annmarkar á að flytja fjármagn íslensku þjóðarinnar úr land, eftir að búið var að samþykkja EES samninginn og löggilda hér á landi fjórfrelsi ESB.  Þá var ekki hægt að leggja neinar hömlur á flutning fjármagns úr landi.  Ekki var heldur hægt að stöðva óvitana í bankakerfinu við að flytja inn allt það fjármagn sem þeir gerðu.

Ef frelsi EES/ESB hefði ekki verið til staðar, hefði trúlega ekki verið fært að flytja nánast allt fjármagn þjóðarinnar úr landi. Og ekki hefði heldur verið hægt að taka eins mikið af erlendum lánum og raunin varð. Niðurstaða mín er því sú, að stærsta ógæfa okkar, líkt og allrar Evrópu, sé hið frjálsa flæði fjármagns samkvæmt fjórfrelsi ESB. Næst stærsta ógæfa okkar var að selja óvitum (mönnum með enga þekkingu á rekstri þjóðbanka), mikilvægustu  bankastofnanir landsins. Slík glæframennska ætti skilyrðislaust að flokkast sem landráð.

                

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyjólfur Jónsson

Sæll Guðbjörn, þetta sem þú skrifar kallast rassskelling á almannafæri. Ekki varðar það við lög sem betur fer, en þessi ferill sem þú rekur hér er eins og þú segir, landráð. Ég vildi sjá framan í "bankasérfræðingana" eftir að þeir væru búnir að lesa þessa rasskellingar sögu. Vel skrifað og hnitmiðað Guðbjörn eins og venjulega.

Eyjólfur Jónsson, 1.5.2012 kl. 18:19

2 identicon

Aldeilis frábær pistill Guðbjörn og mjög svo þarfur í framhaldi af þeim einstaklega upplýsandi athugasemdum við erindi Frosta Sigurjónssonar á fundi hjá Samstöðu í gærkvöldi, sem þú komst þar á framfæri.  Þær voru okkur mörgum þar sem algjör myndræn hugljómun.  Takk fyrir að hafa nú fest þetta á blað, svo fleiri megi átta sig á þeim gjörningum, sem mörg okkar köllum feimnislaust landráð, því gagnvart hinum venjulega og óbreytta almenningi er þetta ekkert annað en viðurstyggileg landráð, þegar grannt er skoðað og ferlið allt haft í huga.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 1.5.2012 kl. 19:06

3 identicon

Að öllu þessu ferli komu allir ríkisstyrktu flokkarnir, B, D, S (áður A) og V (áður G).

Er það skýringin á því, að enginn innan þeirra valdaraða segist bera ábyrgð á einu né neinu?

Á þessum algjöru þöggunar- og afneitunartímum ríkisvaldsins, hvort heldur það er samsett af B, D, S eða V.

Kannski gerðist þetta bara allt af sjálfu sér og eiginlega bara svona í heilmiklu gríni ... að þeirra mati

og að nú skuli bara grínast sem mest í þagnargildi allrar stjórnsýslunnar og stofnana hennar????

En til hvers er þá það ríkisvald og stofnanir þess, ef það heimtar bara sín útbólgnu réttindi,

en afneitar skyldum sínum og ábyrgð gagnvart hinum almenna borgara landsins?  Ég bara spyr.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 1.5.2012 kl. 20:03

4 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Er þetta ekki bara það sem gerðist og enginn vill tala um?

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 6.5.2012 kl. 02:14

5 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Sæl Anna. Jú, þetta er rétt hjá þér. Þetta gerðist með fjármagnið. Þetta gerðist líka með fólksflutningana. OG, þetta sýnir að grundvallarforsendur ESB standast ekki; engin leið að lifa eðlilegu lífi með þeim grundvallarreglum. FRELSIÐ yfir landamæri er því einungis blekking. Það vita ráðamenn ESB. Þess vegna leggja þeir svo mikla pressu á að gera Evrópu að einu ríki. Þá mundi þetta vandamál hverfa og þeir komnir með upphaflega áformið í höfn, að ná yfirráðum yfir Evrópu.

Guðbjörn Jónsson, 6.5.2012 kl. 09:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 165584

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 17
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband