Fór á fund í Tryggingastofnun

Fór fimmtudaginn 2. ágúst 2012 á fund framkvæmdastjóra réttindasviðs Tryggingastofnunar. Árangur fundarins lýsir sér best í meðfylgjandi bréfi til forstjora TR.

 

Forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins,

Frú Sigriður Lillý Baldursdóttir.

 Reykjavík 2. ágúst 2012

 Í samræmi við tölvupóst þinn frá 30, júlí s. l. boðaði Sólveig Hjaltadóttir, framkvæmdastjóri réttindasviðs TR, mig til FUNDAR með sér og Öglu K Smith, lögfræðingi stjórnsýslusviðs TR, fimmtudaginn 2. ágúst kl. 11:00 í húsakynnum TR.  Stundvíslega kl. 11:00 mætti ég í afgreiðsluna og gerði grein fyrir mér.  Þá fannst Sólveig ekki en kom í leitirnar skömmu síðar.

Þegar á þennan meinta FUND var komið, kom í ljós að ekkert átti að ræða efni bréfs míns, heldur einungis kynna fyrir mér bréf sem mér yrði sent.  Sólveig var algjörlega ófáanleg til að ræða efni bréfs míns, t. d. um heimildir TR og forsendur til ástæðulausra breytinga sem TR gerði einhliða og á eigin ábyrgð, á tekjuáætlun minni í árbyrjun 2011. Hún var algjörlega ófáanleg til að vísa í lagaheimildir þar að lútandi og vísaði bara til bréfsins sem mér yrði sent.

Ljóst var að ég hafði verið gabbaður. Aldrei hafði verið ætlunin að funda um efni bréfs míns, heldur sýna mér þann argasta dónaskap að birta mér staðlað bréf sem samkvæmt efni þess gæti verið ætlað aðilum sem algjörlega væru ókunnir starfsháttum TR. Ég velti sannarlega fyrir mér hvort þessi dónaskapur hafi verið framinn af ásetningi, eða hvort framkvæmdastjóri réttindasviðs sé svona fátæk að þekkingu á mannlegum samskiptum.

Sólveig var svo handviss um að TR væri að gera allt rétt, en var jafnframt  ófáanleg til að ræða við hvaða lagaheimildir framganga TR styddist.  Ég hafði undirbúið mig vel, til skynsamlegra umræðna um hin ýmsu álitamál, en sá undurbúningur varð til einskis þar sem réttindi mín sem manneskja voru fótum troðin og mér sýnd sú mesta lítilsvirðing sem ég hef mætt af opinberri þjónustustofnun, í meira en 30 ár. Eftir að hafa verið blekktur til fundar sem átti að vera um þau álitamál sem voru afar vel rökfærð í bréfi mínu, var mér einungis birt tilkynning um að svar TR væri í þegar frágengnu bréfi sem mér yrði sent í pósti. Lauk því þessari fýluferð minni, sem einungis varð kostnaður fyrir mig og sá ég ekki ástæðu til að þakka fyrir gabbið eða kveðja. Ég bara gekk út.

Ég fékk óformlegt afrit af bréfinu sem á að senda mér. Um er að ræða staðlað bréf, þar sem ekki einni setningu er vikið að erindum í bréfi mínu. Í yfirskrift þessa bréfs segir að efni þess sé:  Svar við erindi varðandi endurkröfur lífeyrisgreiðslna. Bréfið var  EKKI SVAR VIÐ ERINDI. Bréfið var, eins og áður sagði, staðlað upplýsingabréf til fólks sem algjörlega væri ókunnugt lögum og reglum um lífeyrisgreiðslur TR.

Að mér væri sýnd sú sjálfsagða virðing viðskiptamanns þessarar opinberu stofnunar að benda mér á ef þau rök sem ég setti fram væru ekki í samræmi við lög, var algjör lágmarks kurteisi sem hefði mátt vænta.  Því var ekki aldeilis að heilsa. Með yfirlæti valdsins var mér, án hiks eða blygðunar, algjörlega neitað um rökfærslur fyrir framkomu TR í minn garð.

Ég veit ekki hvort sú fyrirlitning sem sjónarmið mín mæta hjá þessari stofnun eigi rætur í algjörri vanhæfni til eðlilegra mannlegra samskipta og efnislegra rökræðna, eða hvort þarna er á ferðinni blindur hroki takmarkaðrar þekkingar, sem í slíkum tilvikum gera opinberar þjónustustofnanir að kúgunaraðila alþýðunnar.  Slíkur hroki er oftast byggður á minnimáttarkennd og hæfileikaskorti til efnislegra umræðna um verksviðið sem verið er að stjórna. 

Hvaða ástæða sem þarna er að baki, er hún algjörlega óásættanleg fyrir fólk sem gerir kröfu til þeirrar virðingar sem það á undanbragðalaust rétt á, sem er að fá svar við kurteislega orðuðu erindi. Einnig er þessi framkoma óásættanleg fyrir opinbera þjónustustofnun, sem hefur þann eina tilgang að þjónusta okkur eldri borgara, öryrkja og aðra sem opinberan stuðning þurfa.

Það er alls ekki ásættanlegt að stjórnendur mikilvægra þjónustusviða hafi ekki sterkari faglega þekkingu á lagaumhverfi starfsviðs síns, og mannréttindum þess fólks sem sviðið á að þjónusta.  Framkoma hjá Sólveigu í þessum stutta fyrirlestri hennar um hina óskeikulu RÉTTU TÚLKUN TR á lögunum um Almannatryggingar, bar talandi vott um hæfnisskort hennar til efnislegrar skoðunar á erindi mínu. En lítum aðeins á efni hins staðlaða bréfs. Þar segir í 3. mgr.  (Leturbr. eru mínar)

"Bætur lífeyrisþega eru reiknaðar út frá tekjuáætlunum sem lífeyrisþegar bera ábyrgð á að hafa sem réttastar hverju sinni. Í 5. mgr. 16. gr. almannatryggingalaga segir að til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar skuli leggja 1/12 af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins. Bótagreiðsluár er almanaksár. Því þarf að útbúa tekjuáætlun í upphafi hvers árs sem er undirstaða útreiknings bóta fyrir það ár. Alltaf er þó hægt að breyta tekjuáætlun seinna ef breytingar verða innan ársins á tekjum eða aðstæðum."

Þetta ákvæði um að  útbúa tekjuáætlun í upphafi hvers árs er HVERGI AÐ FINNA Í LÖGUM NR. 100/2007.

Í 5. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007 segir eftirfarandi:

"Til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar skal leggja 1/12 af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins. Bótagreiðsluár er almanaksár."

Þetta eru fyrirmælin um að greiðslukerfi lífeyris skuli vera jafnar greiðslur alla mánuði ársins. Þetta á í raun við um það hvernig greiðslukerfið er sett upp í tölvunni hjá TR þegar upplýsingum hefur verið safnað við upphaflega skráningu.

Næsta setning í 5. mgr. 16. gr. hljóðar svo:

"Áætlun um tekjuupplýsingar skal byggjast á nýjustu upplýsingum frá þeim aðilum sem getið er um í 52. gr."

Þetta eru greinilega fyrirmæli um hvernig skuli staðið að mati á lífeyrisgreiðslum í upphafi, við vinnslu umsóknar um greiðslu lífeyris. Og þeir aðilar sem um er getið í 52. gr. sem heimilt er að afla upplýsinga frá eru eftirfarandi:

"Tryggingastofnun [eða eftir atvikum sjúkratryggingastofnuninni]1) er heimilt, að fengnu skriflegu samþykki umsækjanda, að afla nauðsynlegra upplýsinga um tekjur umsækjanda og bótaþega hjá skattyfirvöldum, greiðslur til umsækjanda og bótaþega hjá lífeyrissjóðum, hjá Atvinnuleysistryggingasjóði, Vinnumálastofnun og hjá sambærilegum stofnunum erlendis þegar það á við með rafrænum hætti eða á annan hátt."

Þetta eru aðilarnir sem TR má leita til, til að afla sér upplýsinga til greiðslumats í upphafi en síðan til eftirlits.  Og áfram segir eftirfarandi í 5. mgr. 16. gr.:

"Ef um nýja umsókn um bætur er að ræða skulu tekjur áætlaðar á grundvelli upplýsinga frá þeim aðilum sem getið er um í 52. gr. og bótaréttur reiknaður út frá þeim tekjum umsækjanda frá þeim tíma sem bótaréttur stofnaðist."

Til nánari skýringar skal hér litið til 4. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 598/2009, en þar segir eftirfarandi: (leturbr. og áherslur mínar)

"Tryggingastofnun ríkisins er þó heimilt, þegar einstaklingur leggur inn nýja umsókn um bætur frá stofnuninni, að miða útreikning bóta eingöngu við þær tekjur sem áætlað er að aflað verði eftir að bótaréttur stofnast. Unnt er að beita heimild þessari bæði um nýja umsókn um örorkubætur/endurhæfingarlífeyri, og um nýja umsókn um ellilífeyri hjá sama einstaklingi, enda sé ekki um samfellt bótatímabil að ræða. Heimildinni verður þó eingöngu beitt einu sinni um útreikning greiðslna hvors bótaflokks fyrir sig."

Hér kemur það fram skýrum stöfum að þeirri frumkvæðisheimild til uppsetningara tekjuáætlunar sem veitt er við upphaf útreikning lífeyrisgreiðslna verður þó eingöngu beitt einu sinni um útreikning greiðslna hvors bótaflokks fyrir sig, enda er hvergi í lögunum heimilað að TR hafi frumkvæði að breytingum á þegar útreiknuðu greiðsluskipulagi.

Í 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 598/2009 er kveðið mjög skýrt að orði í þessum efnum. Þar segir eftirfarandi:

"Komi fram upplýsingar frá þeim aðilum sem getið er um í 1. mgr. 3. gr. eða við eftirlit Tryggingastofnunar ríkisins sem leiða til breytinga á tekjuáætlun innan ársins og breytingin hefur áhrif á rétt til bóta eða fjárhæð greiðslna skal Tryggingastofnun ríkisins skora á bótaþega að breyta tekjuáætlun og skal stofnunin breyta útreikningi bóta frá og með næsta mánuði á eftir til samræmis við upplýsingar frá bótaþega."

Enn sem komið er, geri ég mér ekki alveg grein fyrir í hve miklum smáatriðum þarf að tína til þau atriði þar sem framkvæmd TR stangast á við lög og reglugerð um starfsemi ykkar. Hugsanlegt er að stofnunin sé svo gegnsýrð af hroka að lögin og reglugerðin sé álitin vitlaus fyrst þau passi ekki við, að mati Sólveigar,  hina óskeikulu RÉTTU TÚLKUN TR á lögunum um Almannatryggingar.  

  Þó margt virðist benda til þess að ég verði að stefna Sólveigu og þér fyrir dómstóla vegna allra þeirra brota sem gegn mér hafa verið framin hjá TR, vil ég samt leyfa mér að líta þannig á að þú hafir í raun ætlað að koma á eðlilegum viðræðufundi, með eðlilegum skoðanaskiptum og rökræðum um efni þeirra álitamála sem um ræðir.  Ég vænti því að heyra frá þér fljótlega og tek fram að ég óska eftir að mega taka þann fund upp á myndband, svo ekkert fari á milli mála hvað sagt var á þeim fundi.

Með kveðju,

Guðbjörn Jónsson

     


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Margrét Sigurðardóttir

Þetta er athyglisvert Guðbjörn. Ég mun deila þessu og fylgjast með málinu. Gangi þér vel.

Margrét Sigurðardóttir, 3.8.2012 kl. 12:28

2 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Þarna hjá TR eru duttlungar yfirmanna greinilega lög.

Hér um árið tók ég starfsmann TR, Sigurð nokkurn Grétarsson, í að vera að skrifa dylgjur um mig í athugasemdum við blogg annars mann. Hann sat reyndar í vinnutíma og var með dónaskap á mínu bloggi, vegna þess að hann brann fyrir málstað Palestínumanna. Það er gott og vel að menn vilji berjast fyrir rétti þjóða úti í heimi, en þegar menn eru í fullri vinnu hjá TR eru það hinir verst stæðu meðal hinnar kúguðu íslensku þjóðar sem eiga að sitja í fyrirrúmi, ekki hryðjuverkamenn í Miðausturlöndum. Ég hafði samband við yfirmann Sigurðar, sem var kallaður á teppið og var honum bannað að stunda bloggæði í vinnutíma. Sjá hér http://postdoc.blog.is/blog/postdoc/entry/913446/

Maður sér æ oftar í stjórnsýslu dæmi þess að siglt sé yfir rök og andmæli þess sem kærir eða gerir athugasemdir. Kærurétturinn er ekki virtur. Það er einfaldlega ólöglegt. Greinilegt er á því sem þú nefnir hér að ofan, að TR eigi erfitt með að tjá sig á viðunandi hátt. Það er ekki gott fyrir stofnum sem á í eins miklum almannatengslum og TR. En kannski eru menn þar á bæ farnir að taka sér þurrkuntulegt og arrógant viðmót forsætisráðherrans til fyrirmyndar. Það á ekkert skylt við jafnaðamennsku eða jöfnuð.

Gangi þér vel í baráttu þinni.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 3.8.2012 kl. 13:21

3 identicon

Góð grein hjá þér.

Ég lenti í sambærilegu dæmi með Vinnumálastofnun. Þ.e að þeir voru ekki að túlka lögin rétt og neituðu að greiða atvinnuleysisbætur fyrir ákveðið tímabil. Þar sem hvorki gekk né rak að eiga við þá stofnun, þá talaði ég við lögfræðing ráðuneytisins sem er yfir Vinnumálastofnun. Spurði hreinlega hvort ég væri ekki að skilja lögin rétt. Það fór þannig að lögfræðingurinn staðfesti minn skilning á lögunum og Vinnumálastofnun var áréttuð um að fara rétt eftir lögunum. Ég fékk mínar greiðslur í framhaldi.

Þannig það er möguleiki á því að byrja hjá lögfræðingi Velferðarráðuneytisins áður en þú ferð í mál. Þú talar alveg örugglega fyrir hönd margra í þessum efnum. Gangi þér sem allra best.

Sammála (IP-tala skráð) 3.8.2012 kl. 14:50

4 identicon

Þetta eru ekki ásættanleg vinnubrögð hjá TR og ég vona að þú haldir áfram að krefjast réttar þíns.  Þú ert líklega sá al fróðasti um Lög um Almannatryggingar, sem ég veit um.   Nú má TR fara að vara sig.  Gangi þér vel.

Frímann Sigurnýasson (IP-tala skráð) 3.8.2012 kl. 15:56

5 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Guðbjörn. Takk fyrir þessar upplýsingar. Þetta er greinileg og sönn lýsing á ólöglegri starfsemi tryggingarstofnunar. Þeir eru sviknir af þessari stofnun, sem minnst mega sín, og hafa ekki heilsu né fjármagn til að verja sig.

Ég á margt ósagt um þessa pólitískt reknu aftökustofnun ríkisins.

Það geri ég þegar ég hef þrek til þess að taka þann slag.  

Af þessari TR-stofnun er fólki þrælað endanlega niður í ræsið. Einu sinni var ég svo vitlaus að trúa því að þessi svokallaða "tryggingastofnun ríkisisns" ætti að styðja gamla og sjúka, en ekki koma þeim endanlega fyrir kattarnef. Nú veit ég betur.

Reynslan hefur kennt mér hvernig unnið er markvisst að því að knésetja fólk andlega og fjárhagslega, með því að ræna, svíkja og blekkja gamla og sjúka, af þessari TR-hel-stofnun ríkisins.

Hvernig getur TR rukkað sveltandi, svikið og dauðvona fólk um ofgreiðslur frá þeirri stofnun, vegna þeirrar stofnunar mistaka? Hvar er réttarkerfis-starfsfólk og siðfræðingar frá menntastofnuninni: Háskóli Íslands núna, og hvers vegna segja þeir ekkert við svona réttarbrotum og ó-siðmenningu?

M.b.kv. 

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 3.8.2012 kl. 16:45

6 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Kæru vinir. Takk fyrir ummælin og athugasemdinrnar sem hér koma fram. Ég hef verið upptekinn við allskonar viðræður og lítið geta verið við tölvuna. En ég er afar þakklátur fyrir að þið látið þetta berast, því það er fyrst og fremst vegna þess að ég veit að þetta snertir mikið fleira fólk en bara mig, sem ég læt þetta á netið svo fólk geti betur áttað sig á stöðu sinni. Ég mun ræða við lögfræðing Velferðarráðuneytisins eftir helgina, auk þess sem ég ætla að ræða við formenn eldri borgara og ÖBÍ. Kærar þakkir og ég mun setja hér inn fréttir af framgangi mála, eftir framvindu þess.

Guðbjörn Jónsson, 3.8.2012 kl. 17:34

7 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Eflaust hægt að finna margt að hjá TR. En ég hef þó ekki fengið nema góð viðbrögð og skýringar í þeim tilfellum sem ég hef verið í samskiptum við þjónustuver þeirra og yfirleitt ágætar útbætur þegar þær eiga við. Ég er bæði í samskiptum við TR vegn vinnu minnar sem og vegna móður minnar og greiðslna frá TR til hennar. Og með því að leiðrétta tekjuáæflun hennar síðustu ár um leið og breytingar hafa orðið á hennar hag hefur hún enga endurkröfu fengið frá þeim. Held að fólk klikki oft á því. Um málið sem Guðbjörn er að berjast fyrir þekki ég ekki þessi lög og reglur.

En orð Önnu Sigríðar Guðmundsdóttur hér að ofan myndi ég hreinsa út af mínu bloggi. Minni fólk á að TR er ekki sjálfvirk útgreiðslustofnun heldur eru þar almannatrygginar sem skattgreiðendur borga. Fólk sem er að fá ofgreitt frá þeim verður náttúrulega að leiðrétta það strax. Þetta er ekki gjafafé. Og það eru jú um 50 milljarðar sem fara þarna í gegn á ári. Sumir fá þarna mikið á meðan að aðrir fá lítið sem  neitt þar sem þeir eru með greiðsru úr lífeyrisstjoðum sem eru umfarm 203 þúsund.  Felstir örykjar eiga að fá öorkubætur úr sínum lifeyrssjóðum.

En finnst óþarfi að ræða svona um stofnunina í heild eins og Anna gerir. Þarna starfar full af velviljuðu fólki þó að eins og ég sagði áður megi ýmiislegt bæta. Og ég hef ekkert við svona færslu að athuga og viðbröðg Guðbjarnar að athuga. Allveg sjálfsagt að berja í brestina svo að málin séu lagfærð. En finnst svona orðbragð eins og hjá Önnu ekki hafa neina réttlætingu. Sem og að skoðun einhvers starfsmanns TR og að hann hafi verið að blogga í vinnutíma kemur stofnuninni sem slíkri ekkert við enda var skv. því sem stendur hér að ofan tekið á því.

Magnús Helgi Björgvinsson, 3.8.2012 kl. 19:19

8 identicon

Það þarf einmitt mann með staðgóða, haldgóða þekkingu og reynslu eins og Guðbjörn Jónsson, sem lætur ekki sérviskulegar útúrdúraverklagsreglugerðir TR,(Skerðingarstofnunar Ríkissins), snúa sig út af laginu.

Mann sem er viti sínu vaxin og hefur í fullu tré við ,,unglingana í skóginum". - Til þess að stöðva í eitt skipti fyrir öll, mismunun og mannréttindabrot, ,,umboðsmanna" hins opin-bera Vel-ferðaráðuneytis, á kostnað sjúkra, veikra fatlaðra öryrkja og aldraðra.

Aðgerðarhópur Háttvirtra Öryrkja, skorar á þig að taka Hálaunabótaþegana, sem eru á fastri launa-áskrift hjá al-menning í bóndabeygju !

Fyrir hönd AHÖ,

Helga Björk Magnúsdóttir Grétudóttir, Hæstvirtur Formaður

Helga Björk Magnúsd. Grétudóttir (IP-tala skráð) 3.8.2012 kl. 19:31

9 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Sæll Magnús Helgi og takk fyrir athugasemd þína. Ég tek undir með þér að farsælast er að gæta orða sinna því ástæðulaust er að meiða persónur og allra síst fólk sem ekkert tengjast því máli sem er til umræðu. Það er fagnaðarefni að þér skuil hafa gengið vel í samskiptum TR. Ég hef líka í gegnum árin átt margháttuð samskipti við þessa stofnun, fyrir marga einstaklinga, og í flestum tilfellum gengið áætlega.

Ég hef hins vegar ekki sömu sögu að segja af eigin málum, þau 8 ár sem liðin eru síðan ég varð öryrki og nú orðinn ellismellur. Af þeim tíma hefur einungis 1 ár verið í samræmi við lagafyrirmæli en önnur ár hafa þeir sjálfir TEKIÐ SÉR VALD til að breyta tekjuáætlun minni án samráðs við mig. Ég hef hingað til tekist á við þá í einrúmi, en vegna þess hve ég frétti af mörgum sem höfðu lent nú í sömu aðstöðu og ég, ákvað ég að setja bréfin mín á netið, ef aðrir gætu haft gagn af því.

Guðbjörn Jónsson, 3.8.2012 kl. 19:49

10 Smámynd: Baldvin Björgvinsson

Þú klárar að fá svör frá TR og svo sendir þú erindi til Umboðsmanns Alþingis.

Baldvin Björgvinsson, 4.8.2012 kl. 08:53

11 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Magnús Helgi. Ert þú hræddur við nákvæma skoðun á yfirstjórn hjá þessari TR-stofnun, sem hefur komið fram við skjólstæðinga sína eins og þeir séu ekki réttar síns virði?

Þú hefur þína reynslu, en það þýðir ekki að reynsla annarra sé ómarktæk.

Ég var ekki að ásaka valdalaust fólk sem vinnur hjá þessari stofnun, heldur stjórnsýslu-hækjurnar sem gera þessari stofnun kleift að fara svo illa með þá sem minnst mega sín, sem raun ber vitni.

Þú ættir að virða rétt og tjáningarfrelsi þeirra sem minnst mega sín í þessu siðbrenglaða samfélagi.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 4.8.2012 kl. 12:24

12 Smámynd: Benedikta E

Sæll Guðbjörn - Þessi dónalega og vanvirðandi framkoma sem þér var sýnd hjá TR opinberri stofnun er ekki boðleg hvorki þér eða öllum hinum sem fá sömu meðferð og kannski ennþá verri.Þessi framkoma sem þér var sýnd er "stöðluð" framkoma eins og staðlaða bréfið sem þú fékkst frá TR - gagngert til að slá fólk út af laginu og draga úr því baráttu þrekið.Það var einhver hér að framan sem nefndi - Umboðsmann Alþingis - ég tek undir að þú snúir þér til hans.Takk fyrir að segja okkur frá þessu - flestir sem fá svona framan í sig frá TR verða svo örmagna að þeir bara troða öllu niður í skúffu - Það eru ekki margir sem hafa baráttuþrek á við þig Guðbjörn.

Benedikta E, 5.8.2012 kl. 15:23

13 identicon

https://www.facebook.com/photo.php?fbid=10151103322614841&set=a.10151103318759841.456711.775949840&type=3&theater

Helga Björk Magnúsd. Grétudóttir (IP-tala skráð) 7.8.2012 kl. 18:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.1.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 151
  • Frá upphafi: 165757

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 141
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband