AÐ VERA ÞINGMAÐUR Á LÖGGJAFARÞINGI.

Framundan eru kosningar til setu á LÖGGJAFARÞINGI þjóðarinnar næstu 4 árin. Fregnir herma að mikill fjöldi fólks gefi kost á sér til þingmennsku, sem aftur hlýtur að útleggjast þannig að margir telji sig til þess hæfa að taka þátt í að setja landinu lög.

Fjölmiðlafólk hefur verið að taka smá fréttaskots viðtöl við væntanlega frambjóðendur og inna þá eftir, hvað sé helst sem fólk vilji vinna að sem þingmaður. Nokkuð margir nefna stjórnarskrána, að þeir vilji breyta henni. Ekki kemur fram í þessum viðtölum hvað fólki finnist að núverandi stjórnarskrá eða hvað þurfi helst að taka breytingum frá því sem er í núverandi stjórnarskrá.

Flestir nefna þó sem verkefni einhverja þætti af félagsmálasviðinu eða einstök verkefni sem viðkomandi hefur mikinn áhuga á og vill berjast fyrir framgangi þess. Þarna er á ferðinni sá bagalegi misskilningur sem stöðugt hefur verið að verða fyrirferðarmeiri í störfum Alþingis. Eru það hin ýmsu málefni sem í raun eiga að vinnast í stjórnmálaflokkum landsins, þar sem fyrsta skoðun á að fara fram á því hvort tímabært sé orðið að setja málið til afgreiðslu á Alþingi, þar sem sett yrðu lög um starfsemina. Það er í raun hlutverk Alþingi að setja lög um samskiptalegar leikreglur, samneyslu og samfélagslega starfsemi, en ekki að þrasa í rándýrum þingtímanum um það hvort eða hvort ekki, eigi að stofna einhvert fyrirtæki eða stofnun, sem ekki rúmast innan fyrirsjáanlegs fjárstreymis.

Setning löggjafar á að vera meginverkefni Alþingis. Því miður verður maður, ár eftir ár, fyrir vonbrigðum með hve lítið af starfstíma Alþingis fer í mikilvægustu skyldustörf þess, svo sem umræður um lagafrumvörp og setning laga. Einhvern veginn finnst mér sú grundvallarskylda Alþingis vera á undanhaldi. Já eiginlega á flótta undan allskonar tímaþjófum sem ekki einu sinni ættu að eiga rétt á að vera settir á dagskrá þingfundar.

Afleiðingar þessara víkjandi þátta í frumskyldu Alþingis, hafa líka leitt til þess að Alþingismenn virðast stöðugt vita minna og minna um grundvallarþætti lagasetningar. Afleiðingarnar hafa orðið þær að afar fá lög eru sett á Alþingi sem hafa ásættanlega skýra meiningu fyrir lagatexta. En einnig kemur fyrir að nýsett lög stangist á við þau lög sem fyrir eru, eða hreinlega gangi gegn ákvæðum stjórnarskrár.

Líklega hefur vitleysan þó aldrei verið eins ríkjandi og við setningu laga um Lögmenn, nr. 77/1998. Merkilegt hve margar villur er hægt að tiltaka í þessum lagabálk, sem sérstaklega er er ætlað að skýra og skilgreina þá ábyrgð og skyldur sem sérnám hópsins, sem ætla má að fjalli um heiðarleika, sannleika og virðingu. En líklega verður þó seint slegið metið sem sett er í 21. grein laganna. Lítum á hvað þar stendur:

„21. gr. Nú sækir lögmaður eða fulltrúi hans dómþing fyrir aðila, og skal hann þá talinn hafa umboð til að gæta þar hagsmuna aðilans, nema það gagnstæða sé sannað.

Í þessari einu grein laga um lögmenn, tekst Alþingi að koma fyrir tvöfölldu broti á einu mikilvægasta ákvæði stjórnarskrár okkar. Þarna á ég við 65. gr. stjórnaskrár, þar sem segir að:

„65. gr. Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.“

Í 21. gr. lögmannalaga ákveður Alþingi að þegar tveir aðilar mætast í réttarsal, setur Alþingi þá skyldu á dómara málsins, að trúa einungis orðum lögmanns varnaraðila ef hann SEGIST hafa umboð þess stefnda, til að mæta fyrir hans hönd við þingfestingu.

Vilji málshefjandi, eða stefnandi, ekki trúa orðum þess lögmanns sem SEGIST mættur fyrir stefnda, skyldar Alþingi stefnanda, samkvæmt 21. gr. lögmannalaga, til að sanna það fyrir réttinum, að lögmaður stefnda hafi ekki það umboð sem hann SEGIST hafa.

Þarna eru tveir aðilar að sama málinu staddir í réttarsal fyrir framan dómara málsins. Annar aðilinn SEGIST vera fulltrúi stefnda en hinn aðilinn SEGIST ekki trúa því. Samkvæmt ákvörðun Alþingis er dómaranum SKYLT að trúa þeim sem SEGIST hafa umboði. Alþingi skyldar hins vegar dómarann til að trúa ekki hinum aðilanum, sem SEGIST ekki trúa orðum lögmanns stefnda.

Með framangreindu ákvæði laganna, skyldar Alþingi dómarann til að úrskurða að sá sem ekki trúir, skuli sanna að hinn aðilinn hafi ekki umboð. Sá aðili sem SEGIST hafa umboð, þarf hins vegar ekki að mati Alþingis að sanna að hann hafi umboðið. Það á sá aðili að gera sem segist ekki trúa. Með þessari mismunun á trúverðuleika á orðum aðila máls, SKYLDAR Alþingi dómarann til að brjóta 65. og 70. gr. stjórnarskrár, með ákvæði 21. gr. lögmannalaga.

En þetta var bara 1. málsgrein 21. greinar laganna. Greinin öll er 6 málsgreinar, hver um sig með sín sérkenni. Lítum því næst á 2. málsgrein 21, greinar laga um Lögmenn:

Sé ekki sýnt fram á annað felur umboð aðila til lögmanns í sér heimild til að gera hvaðeina sem venjulegt má telja til að gæta hagsmuna fyrir dómi. Innan þeirra marka er umbjóðandi bundinn af ráðstöfun lögmanns þótt hann fari út fyrir þá heimild sem umbjóðandi hefur veitt honum.“

Í þessari 2. málsgrein 21. greinar er verið að tala um framhald frá 1. málsgrein þar sem sagt var að lögmaður sem sæki dómþing fyrir aðila, skuli talinn hafa umboð, þó hann hafi það ekki. Vilji stefnandi ekki trúa því, beri honum að sanna að lögmaðurinn hafi ekki umboð. Þá segir í upphafi 2. málsgreinar að: - Sé ekki sýnt fram á annað -. Ekki er þarna um það getið hvor aðila málsins eigi að sýna fram á eitthvað. En lítum á framhald 2. málsgreinar. Þar segir: - felur umboð aðila til lögmanns -. Hugum aðeins að samhenginu í þessu. Í 1. málsgrein er sagt að sæki lögmaður dómþing fyrir aðila SKAL hann (lögmaðurinn) TALINN HAFA UMBOÐ.

Þarna sviptir löggjafinn í raun ótilgreinda einstaklinga sjálfsákvörðunarvaldi um það hverir fái umboð þeirra, þar sem löggjafinn ákvarðar að viðkomandi lögmaður ákvarði það sjálfur. Það er hins vegar merkilegt að lesa 3. málsgrein 21. greinar, en þar segir:

Lögmaður getur ekki tekið við greiðslu svo bindandi sé gagnvart umbjóðanda nema hann hafi til þess sannanlegt umboð.“

Afar einkennileg ráðstöfun hjá löggjafanum. Þarna segir að „Lögmaður getur ekki tekið við greiðslu svo bindandi sé gagnvart umbjóðanda nema hann hafi til þess sannanlegt umboð.“. Alveg virðist sama hversu lág greiðslan er. Lögmaðurinn hefur ekki heimild til móttöku hennar án umboðs. Hins vegar þarf hann ekki umboð til að mæta fyrir rétti þar sem hann getur skuldbundið aðila um milljónir króna í ótilgreindan árafjölda.

Í 4. málsgrein 21. greinar segir einnig:

Lögmanni er skylt inna sjálfur af hendi þau störf fyrir dómi sem honum eru falin nema umbjóðandi hans samþykki annað. Lögmaður getur þó falið fulltrúa sínum eða öðrum lögmanni að sækja fyrir sig dómþing, enda sé það ekki háð til aðalmeðferðar máls eða munnlegrar sönnunarfærslu.

Þarna gengur löggjafinn enn lengra á stjórnarskrárvarinn rétt einstaklings. Það er ekki nóg með að löggjafinn ákvarði að lögmaður þurfi ekki að sýna umboð og sanna þannig vilja aðila málsins til afskipta lögmannsins af málinu, heldur skuli hann TALINN HAFA UMBOÐ. Þessi lögmaður sem TALINN ER hafa umboð, þarf ekki að mæta sjálfur fyrir dóminn, heldur segir löggjafinn honum heimilt að senda fulltrúa eða annan lögmann fyrir sig, þó í fyrri hluta málsgreinarinnar sé ákvæði um að lögmaður skuli sjálfur inna af hendi það verk sem hann tekur að sér.

Ekkert er hins vegar á það minnst, á hvern veg þeir fulltrúar eða lögmenn sem lögmaðurinn fær til að mæta fyrir sig, færi fram sönnur um að þeir hafi umboð frá hinum umboðslausa lögmanni sem löggjafinn telur hafa umboð. Og þá má nátúrlega spyrja hvernig umboðslaus lögmaður, sem TALINN ER hafa umboð, gefið út umboð til anars aðila, til að mæta í máli sem hann hefur ekki umboð fyrir, heldur bara er af Alþingi TALINN HAFA ÞAÐ. Skrautlegt í meira lagi.

Þá skulum við líta á hvað segir 5. málsgrein 21. greinar. Þar segir eftirfarandi:

„Umbjóðanda er ætíð heimilt að kalla aftur umboð sitt til lögmanns. Ákvæði um annað í umboði eru ekki skuldbindandi.“

Þetta er náttúrlega gott og blessað að löggjafinn skuli heimila málsaðila að afturkalla umboð sem hann hafi veitt lögmanni. Hins vegar stendur ekkert um það í þessari málsgrein, hvernig málsaðili losi sig við lögmann sem LÖGGJAFINN hefur TALIÐ HAFA UMBOÐ FRÁ HONUM? Hinn lögvarði gagnkvæmniþáttur, - ef þú ræður einhvern, hefur þú einnig heimild til að reka hann er þarna eðlilega virkur.

Enginn hefur hins vegar heimild til að reka aðila sem hann hefur ekki ráðið eða gert neina samninga við. Ekki verður því betur séð en löggjafinn verði að setja í lög hvernig viðkomandi málsaðili losar sig við lögmann sem löggjafinn hefur TALIÐ HAFA UMBOÐ. Slíkt er alls ekki á hreinu.

Lítum þá á 6. og síðustu málsgrein 21. greinar laga um lögmenn. Þar segir eftirfarandi:

„Lögmaður getur á öllum stigum sagt sig frá verki sem honum hefur verið falið, en gæta verður hann þess að umbjóðandi hans verði ekki af þeim sökum fyrir réttarspjöllum.“

Þarna mismunar löggjafinn alveg herfilega málsaðilum. Löggjafinn gefur enginn fyrirheit um hvernig málsaðili losnar við lögmann sem löggjafinn TELUR HAFA UMBOÐ. Hins vegar getur lögmaður á öllum stigum sagt sig frá verki sem honum hefur verið falið.“ Svo er að sjá sem þetta gildi jafnt um þá sem málsaðili semur við, eins og hina sem löggjafinn TELUR HAFA UMBOÐ.

En lögmaðurinn getur ekki rétt sí svona gengið í burt. Hann verður að gæta þess að umbjóðandi hans verði ekki af þeim sökum fyrir réttarspjöllum. Þá vaknar spurningin um hver sé umbjóðandi hans. Það liggur væntanlega á hreinu varðandi þá lögmenn sem gera málflutningssamning við málsaðila. Það er hins vegar ekki eins ljóst með þá lögmenn sem löggjafinn TELUR HAFA UMBOÐ. Beinast liggur við að telja löggjafann vera umbjóðanda slíks lögmans, því það er löggjafinn sem setur hann til verka.

 

Ég legg ekki meira á lesendur að þessu sinni. Þarna held ég hins vegar að sé nokkuð talandi dæmi um afleiðingar þess þegar löggjafinn sjálfur, þingmennirnir, virðast hafa afar takmarkaða þekkinu á mikilvægi þess að lagatexti sé skýr og segi skýrt til um hvað er verið að meina.

Ég fæ ekki séð hvernig á að vera hægt að halda áfram á þeirri braut sem réttarfar og löggjafarþekking hefur verið á undanförnum áratugum, með stöðugri hnignun. Sumir tala um 18 manna Öldungadeild með neitunarvald en í aðaldeild yrðu 45 þingmenn. Aðrir tala um stjórnlagadóm eða álíka hreinsunarsíu sem lagafrumvörp þyrftu að fara í gegnum áður en þau teldust hæf til þingtöku. Hvort um sig hefur jákvæða eiginleika sem mætti skoða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 165601

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband