OPIÐ BRÉF til Forseta Íslands,

OPIÐ BRÉF

Forseti Íslands,

Hr. Guðni Th. Jóhannesson.

Reykjavík 24. febrúar 2017

ERINDI: Varðar meint vanhæfi 38 þingmanna til að skipa sæti á löggjafarþingi Íslensku þjóðarinnar, með hliðsjón af þeirri vanþekkingu á stjórnskipan lands okkar sem birtist í atkvæðagreiðslu þeirra á Alþingi, um vinnubrögð Kjararáðs.

Deilur í þjóðfélaginu um heimildir Alþingis til framsals á valdi sínu til einstaklinga og lítilla hópa utan viðurkennds stjórnkerfis landsins, hafa því miður farið ört vaxandi á undanförnum árum, jafnvel áratugum. Sú deila sem varð kveikjan að þessum skrifum er deilan um ákvarðanir svonefnds Kjararáðs, sem sagt er að eigi að starfa á grundvelli laga nr. 47/2006. En í 1. gr. nefndra laga er fjallað um mikilvægustu verkefni kjararáðs. Þar segir eftirfarandi:

Verkefni kjararáðs er að ákveða laun og starfskjör þjóðkjörinna manna, dómara, ráðherra, ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra í Stjórnarráði Íslands, forstöðumanna ríkisstofnana og annarra ríkisstarfsmanna sem svo er háttað um að þau geta ekki ráðist með samningum á venjulegan hátt vegna eðlis starfanna eða samningsstöðu.“

Kjararáð sem þarna um ræðir er skipað 5 mönnum. Þrír þeirra skulu kosnir af Alþingi, einn skipaður af Hæstarétti og sá fimmti skipaður af þeim: [ráðherra er fer með starfsmannamál ríkisins]“.

Þegar litið er til þessa fyrirkomulags og það borið saman við hlutleysisreglu stjórnarskrár okkar, verður ekki betur séð en að á árinu 2006, hafi Alþingi landsins við setningu þessara laga um kjararáð, gert sig sekt um mjög alvarlegt brot á stjórnarskrá landsins á fleiri en einn veg. Lítum á nokkur atriði.

Gera verður ráð fyrir að það fólk sem sækist eftir þingsæti á löggjafarþingi þjóðarinnar, hafi tiltekna grundvallarþekkingu á stjórnskipan og stjórnarskrá landsins. Að þetta fólk viti einnig að Alþingi geti ekki með heiðarlegu móti sett lög þar sem þingmenn sjálfir afsali skyldu sinni til að verða sjálfir að taka ákvarðanir um aukningu þjóðarútgjalda, í hvaða formi sem þau útgjöld kunna að vera. Allar ákvarðanir Alþingis til myndunar einskonar úrskurðarhópa, til réttarfarslegra ákvarðana um málefni eigin ráðherra eða ráðuneytis, geta aldrei náða lengra en vera hópar sem leggi fram tillögur til niðurstöðu máls, sem síðan þurfi staðfestingu Alþingis eða viðurkenndra dómstóla.

Lagasamþykktir Alþingis handa tilgreindum aðilum til úrskurðar í deilum almennings við ráðherra, ráðuneyti eða undirstofnun ráðuneytis, getur aldrei fullnægt hlutleysis eða ákvæðum stjórnarskrár og stjórnskipunar okkar um óhlutdrægni. Sama á einnig við um lögskipaðan hóp er hafi þann megintilgang að ákvarða aukningu útgjalda ríkissjóðs, án ákvörðunar Alþingis. Í stjórnarskrá okkar eru skýr ákvæði um að ENGA greiðslu megi greiða úr ríkissjóði eða útgjöld ríkissjóðs auka, nema slíkt hafi áður verið samþykkt á Alþingi.

Þessu til viðbótar, verður það að teljast afar alvarleg aðför að því réttarríki sem hér á að vera til staðar, þegar Alþingi beitir sér fyrir samþættingu hagsmuna allra valdamestu og stærstu aðila stjórnskipunar og réttarfars. Með lagasetningu stillir Alþingi öllum þessum aðilum undir eitt sameiginlegt sjónarmið, um verndun eigin hagsmuna. En Alþingi gætir þess ekki að með samþættingu hagsmuna allra þessara valdamestu og stærstu aðila stjórnkerfis okkar, lokar Alþingi um leið öllum kæruleiðum allra stéttarfélaga, fyrirtækja og einstaklinga í landinu, til mótmæla gegn ákvörðun þeirra 5 einstaklinga sem Alþingi felur úrskurðarvald Kjararáðs.

Án framsalsheimilda á fjárreiðuvaldi ríkisjóðs, felur Alþingi tilteknum settum ráðherra og skipuðum dómurum ÆÐSTA dómsstigs þjóðarinnar að vera samábyrg Alþingi við skipun þessara 5 einstaklinga, til ólögmætrar ákvörðunar um launakjör og önnur starfskjör löggjafarvaldsins, auk allra helstu framkvæmdaaðila framkvæmdavaldsins, ásamt öllum dómurum landsins bæði í hérðaðsdómi og Hæstarétti. Hvergi er finnanlegur í landinu til þess bær aðili að geta haft lögsögu yfir þeirri ógnarsamstöðu sem Alþingi hefur mótað þarna, þvert gegn ákvæðum stjórnarskrár landsins.

Einnig er hægt að vísa til fjölda atriða í framangreindum lögum sem benda með svo afgerandi hætti til þess að annað hvort hafi þingmenn ekki lesið yfir þann texta sem þeim var ætlað að samþykkja sem lög landsins, eða þeir hafi ekki næga þekkingu á stjórnskipunarreglum og lögum til að gegna störfum Alþingismanns á löggjafarþingi landsins. Hvort atriðið á við í þessu efni ætla ég ekki að fullyrða en þó verðugt verkefni til rannsóknar, til að fyrirbyggja útskúfun réttlátrar málsmeðferðar.

Hér að framan er vísað til 1. gr. laga um Kjararáð. Í 3. mgr. 2. gr. segir einnig svo:

„Kjararáð kýs formann og varaformann úr hópi aðalmanna og setur sér sjálft starfsreglur.“

Er sá möguleiki fyrir hendi að kjörnir Alþingismenn telji sér heimilt að framselja með svo opnum hætti vald sitt yfir fjárreiðum ríkisins, að þeir geti veitt FIMM MANNA HÓPI, fullt sjálfdæmi um það hvaða starfsreglur þeir setji sjálfum sér? Lítum næst á hvað segir í 4. gr. laganna um Kjararáð. Þar segir:

„4. gr. Kjararáð skipað þremur mönnum ákveður laun og starfskjör ríkisstarfsmanna sem ekki falla undir 3. gr. og svo er háttað um að laun þeirra og starfskjör geta ekki ráðist með samningum á venjulegan hátt vegna eðlis starfanna eða samningsstöðu, sbr. 1. gr. Þetta ákvæði á ekki við um lögreglumenn, tollverði og fangaverði, sbr. 39. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.“

Þarna er enn eitt ólögmæta framsal Alþingis á valdi sínu og skyldu. Og nú er það einungis til þriggja einstaklinga. Heimild Alþingis til framsals valdsskyldna sinna er að finna í stjórnarskrá landsins. Varðandi ákvörðun ríkisútgjalda er sú skylda ófrávíkjanleg, að enginn annar en Alþingi geti ákvarðað ríkisútgjöld.  

Lítum þá á það sem sagt er í 5. gr. laga um Kjararáð. Þar segir svo:

„5. gr. Fullskipað kjararáð sker úr um það til hverra ákvörðun launa og starfskjara skv. 4. gr. skuli ná í nánari atriðum en þar greinir.

 Ekki er enn farið, í lögum um Kjararáð, að fá því ráði neitt ÚRSKURÐARVALD. Úrskurðarvald er í raun dómsvald. Engum Kjararáðsmanni er gert að uppfylla skilyrði til embættis héraðsdómara. Af þeirri ástæðu, ásamt öllum öðrum ástæðunum, er með öllu útilokað að kjararáð geti haft úrskurðarvald.

En í upphafi 6. gr. laganna um Kjararáð segir:

„6. gr. Kjararáð aflar sér af sjálfsdáðum nauðsynlegra gagna og upplýsinga“

Enn á ný framselur Alþingi 5 manna hópi vald sitt til verndunar lögskipaðra mannréttinda. Þarna segir að Kjararáð af sjálfsdáðum ákveði hvaða aðferðum það beiti. Enn kemur í ljós að þeir sem sömdu lagatextann fyrir lögin um kjararáð, virðast hafa verið ókunnir ákvæðum stjórnarskrár um hlutlausa og óhlutdræga málsmeðferð, því textahöfundar telja kjararáð: „getur og heimilað málsaðilum að reifa mál sitt fyrir ráðinu.“ Ekki er þetta nú beinlínis í anda stjórnarskrár okkar.

En í lok 8. gr. laga um Kjararáð segir svo:

„Við ákvörðun launakjara skv. 4. gr. skal kjararáð sérstaklega gæta samræmis milli þeirra og þeirra kjara hjá ríkinu sem greidd eru á grundvelli kjarasamninga annars vegar og ákvarðana kjararáðs skv. 3. gr. hins vegar.

Kjararáð skal ætíð taka tillit til almennrar þróunar kjaramála á vinnumarkaði.“

Varla fer á milli mála að Kjararáð hefur algjörlega litið framhjá þessu ákvæði í lögum um ráðið að undanförnu en talið sig hafa sjálfdæmi, eins og víða má merkja í lögunum og einnig hefur verið vakin athygli á hér.

Í 10. gr. laga um kjararáð er þessum 5 einstaklingum enn falið fullt sjálfdæmi um hvort og þá með hvaða hætti þeir bregðist við. Í upphafi 10. gr. lagana segir svo:

  1. „gr. Kjararáð skal taka mál til meðferðar þegar því þykir þurfa og ætíð ef orðið hafa verulegar breytingar á þeim launum í þjóðfélaginu sem höfð skulu til viðmiðunar samkvæmt lögum þessum eða á störfum þeirra sem úrskurðarvald þess tekur til.“

Enn virðist sjálfdæmið augljóst. Þarna er talað um verulegar breytingar en ekkert um það getið hver eigi að meta þær breytingar. Og enn er sorglegt að sjá í lögum sem ekki fela í sér neitt úrskurðarvald og engum nefndarmanni sé áskilið að hafa menntun né réttindi til að fella úrskurð, þá skuli enn vera lögð áhersla á úrskurðarvald þessarar nefndar.

Enn fremur segir eftirfarandi í 10. gr. laganna:

„Eigi sjaldnar en árlega skal kjararáð meta hvort tilefni sé til breytinga á starfskjörum sem það ákveður. Kjararáð getur þó ákveðið stefnumarkandi ákvarðanir um innbyrðis launahlutföll og heildarstarfskjör á ákvörðunarsviði ráðsins séu teknar sjaldnar, allt að fjórða hvert ár.“

Dálítið er það merkilegt sem þarna er sagt, í ljósi þess að í lok 8. gr. er sagt að Kjararáð skal ætíð taka tillit til almennrar þróunar kjaramála á vinnumarkaði.“ Þetta virðist falla illa að því sem þarna er sagt um að kjararáð geti tekið stefnumarkandi ákvarðanir um innbyrðis launahlutföll og heildarstarfskjör, án þess að taka tillit til þess sem segir í lok 8. gr. um að Kjararáð skuli ætíð taka tillit til almennrar þróunar kjaramála á vinnumarkaði.

Í handbók Stjórnarráðsins um textagerð lagafrumvarpa, er tekið fram að lagatextinn skuli vera skýr og gefa skýra mynd af því sem lögin eiga að boða. Greinilega er langur vegur frá því að lögin um kjararáð falli í slíka flokkun. Sýnt hefur verið fram á að kjararáði virðist ekki hafa verið færðar neinar skýrar reglur til að starfa eftir, því í mjög mörgum lagagreinum segir að kjararáð móti og ákveði sjálft hvernig það vinnur.   Hér í lokin skal enn hnykkt á því greinilega heimildarlausa orðatiltæki í lagatextanum að kjararáð hafi vald eða heimild til AÐ FELLA ÚRSKURÐI.

„Kjararáð skal birta ákvarðanir sínar og úrskurði og ástæður fyrir þeim opinberlega með skipulegum og aðgengilegum hætti.“

„Ákvörðunum og úrskurðum kjararáðs verður ekki skotið til annars stjórnvalds.“

Margítekað hefur verið bent á það í þessari umfjöllun um ábyrgðarlaus og óvönduð vinnubrögð Alþingis í sambandi við setningu laga um kjaradóm, nr. 47/2006. Af því sem hér hefur verið rakið er augljóst að ENGINN meintur úrskurður kjaradóms getur haft réttarfarsleg áhrif eða þýðingu af þeim ástæðum sem að framan eru raktar.

Hr. Forseti.

Eigi sá möguleiki að vera raunhæfur, að núlifandi fólk á besta aldri, geti vænst þess að samfélagi okkar verði siglt út úr margra ára virðingarleysi Alþingis gagnvart stjórnarskrá landsins, mannvirðingu og heiðarleika, verður þjóðin að eiga trausta fótfestu í embætti Forseta Íslands. Samtvinnun allra framangreindra valdaafla í þjóðfélaginu í eina hagsmunablokk launa og starfskjara, hefur um margra ára skeið birst þjóðinni í illskiljanlegum verndardómum réttarkerfis okkar yfir margháttuðum ógæfuverkum sem framin hafa verið á Alþingi.

Virðingarfyllst

Guðbjörn Jónsson

Ps: Afri af bréfi þessu verður sent til (ÖSE), Öryggis og Samvinnustofnunar Evrópu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband