Svarbréf til Persónuverndar vegna Creditinfo.

Persónuvernd

b.t. Þórður Sveinsson, skrifstofustjóri lögfræðisviðs

Rauðarárstíg 10, 105 Reykjavík

 Reykjavík 13. mars 2017

 ERINDI:  Meint óheimil skráning Creditinfo á persónuupplýsingum konu minnar og nú til viðbótar einnig persónuupplýsingum um undirritaðan.

 

Ég þakka svar þitt við fyrirspurnum mínum, sem m. a. fólust í 4 spurningum. Ég varð reyndar afar undrandi á þessu svari, því engu er líkara en þú reynir að koma þér hjá að svara meginefni spurninganna. ég bendi á að ég nota leturbreytingar (litabreytingar og áhersluletur) til að leggja áherslur á einstök atriði sem ég skrifa. Fyrsta spurning var um það hvort Creditinfo Lánstraust ehf. hafi heimild til að safna og miðla fjárhagsupplýsingum án heimildar þess aðila sem söfnun beindist að?

Svar þitt var að vísa til 2. mgr. 21. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Einnig vísar þú til reglugerðar 246/2001. Athygli vakti að þú nefnir ekkert það sem fram kemur í 1. kafla laga nr. 77/2000, um Markmið, skilgreiningar og gildissvið.

Í 1. gr. laganna er fjallað um markmið þeirra. Í 2. gr. er hins vegar fjallað um Skilgreiningar í 9 töluliðum. Í 1. tölulið er fjallað um hvað felist í orðinu Persónuupplýsingar.

„1. Persónuupplýsingar: Sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ. e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi.“

Í 7. tölulið er fjallað um hugtakið SAMÞYKKI. þar segir:

„7. Samþykki: Sérstök, ótvíræð yfirlýsing sem einstaklingur gefur af fúsum og frjálsum vilja um að hann sé samþykkur vinnslu tiltekinna upplýsinga um sig og að honum sé kunnugt um tilgang hennar, hvernig hún fari fram, hvernig persónuvernd verði tryggð, um að honum sé heimilt að afturkalla samþykki sitt o.s.frv.“

Í 2. kafla laganna sem ber heitið: Almennar reglur um vinnslu persónuupplýsinga, kemur eftirfarandi fram í upphafi 8. gr. laganna. Þar segir:

8. gr. Almennar reglur um heimildir fyrir vinnslu persónuupplýsinga.

Vinnsla persónuupplýsinga er því aðeins heimil að einhverjir eftirfarandi þátta séu fyrir hendi:

1. hinn skráði hafi ótvírætt samþykkt vinnsluna eða veitt samþykki skv. 7. tölul. 2. gr.“

9. gr. Sérstök skilyrði fyrir vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga.

6. vinnslan taki einungis til upplýsinga sem hinn skráði hefur sjálfur gert opinberar;“

Með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið er afar athyglisvert að lesa lokamálsgrein bréfs þíns, en þar segir:

„Að lokum skal tekið fram að með fyrrnefndu ákvæði 2. mgr. 21. gr. laga nr. 77/2000, reglugerð nr. 246/2001 og starfsleyfisskilmálum er þeirri vinnslu, sem hér um ræðir, sniðinn ákveðinn stakkur með það fyrir sjónum að vernda réttindi skráðra einstaklinga samfara því að hagsmunir viðskiptalífsins, einkum af ábyrgum lánafyrirgreiðslum, séu tryggðir. Í þessu felst meðal annars að varðveislutíma persónuupplýsinga eru sett takmörk, að hinir skráðu eiga rétt á fræðslu, að rangar og villandi upplýsingar skulu leiðréttar eða þeim eytt og að öryggis upplýsinganna skal tryggilega gætt. Sá sem telur að nafn hans hafi verið ranglega fært á umrædda skrá getur sent Persónuvernd kvörtun af því tilefni. Hér með er þess óskað að fram komi hvort líta beri á fyrrnefnt erindi þitt frá 6. febrúar sl. sem slíka kvörtun.“

Hér fyrir neðan set ég 21. gr. laga nr. 77/2000 og set gulan grunn á 2. mgr. laganna en til þeirrar málsgreinar vísar þú varðandi heimildir Creditinfo til að skrá nöfn í safnskrár hjá sér án heimildar viðkomandi aðila. En 21. greinin hljóðar svo:

„21. gr. Skylda til að láta hinn skráða vita um vinnslu persónuupplýsinga þegar þeirra er aflað hjá öðrum en honum sjálfum.

Þegar ábyrgðaraðili aflar persónuupplýsinga frá öðrum en hinum skráða skal hann samtímis láta hinn skráða vita af því og greina honum frá þeim atriðum sem talin eru í 3. mgr. Sé ætlun ábyrgðaraðila hins vegar að miðla upplýsingunum innan hæfilegra tímamarka frá öflun þeirra má hann þó fresta því þar til hann miðlar upplýsingunum í fyrsta sinn.“

Það vekur óneitanlega athygli að í þeim lögum sem hér um ræðir og reglugerð sem sett er við þau lög, er hvergi sjáanlegt að gætt sé þeirra réttinda sem allir eiga að njóta samkv. 71. gr. stjórnarskrár. Þar segir að: Allir skulu njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu.“ Til frekari áréttingar má líka líta á 2. mgr. 71. gr. stjórnarskrár, þar sem segir að:

„Ekki má gera líkamsrannsókn eða leit á manni, leit í húsakynnum hans eða munum, nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Það sama á við um rannsókn á skjölum og póstsendingum, símtölum og öðrum fjarskiptum, svo og hvers konar sambærilega skerðingu á einkalífi manns.“

Ekki er heldur að sjá að Persónuvernd taki tillit til þeirra ákvæða sem fram koma í 1. tölulið 8. gr. og 6. tölulið 9. gr. laga nr. 77/2000, sem minnst er á hér að framan. Þegar litið er til þeirrar staðreyndar sem við blasir, með vísan til meðfylgjandi ljósrits af bréfi Creditinfo til undirritaðs, dags. 7. febr. 2017, þar sem undirritaður er upplýstur um að hann sé á vanskilaskrá Creditinfo og að hjá því fyrirtæki hafi verið stofnað vefsvæði undir hans nafni, ALLT ÁN HANS HEIMILDAR.

Vakin er athygli á að 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 segir að: „Vinnsla persónuupplýsinga er því aðeins heimil að einhverjir eftirfarandi þátta séu fyrir hendi:“ Og það þarf ekki að leita langt. í 1. tölulið 8. gr. segir svo: „1. hinn skráði hafi ótvírætt samþykkt vinnsluna eða veitt samþykki skv. 7. tölul. 2. gr.“ Og hvað skildi svo standa í 7. tölulið 2. gr. laganna. Þar segir svo:

7. Samþykki: Sérstök, ótvíræð yfirlýsing sem einstaklingur gefur af fúsum og frjálsum vilja um að hann sé samþykkur vinnslu tiltekinna upplýsinga um sig og að honum sé kunnugt um tilgang hennar, hvernig hún fari fram, hvernig persónuvernd verði tryggð, um að honum sé heimilt að afturkalla samþykki sitt o. s. frv.“

Nú fer ekki á milli mála að ekkert samband hefur verið haft við hvorugt okkar hjóna. Engar sjálfgefnar forsendur eru heldur fyrir hendi þar sem ekkert vanskilaumhverfi er í kringum okkur. Engar löglegar forsendur eru því fyrir hendi til að skrá nöfn okkar á vanskilaskrá eða til að stofna með nöfnum okkar sérstaka einka færsluskrá í tölvukerfi fyrirtækisins Creditinfo Lánstraust ehf. Slík meðferð á nöfnum okkar og kennitölum er með öllu utan lagaheimilda.

Þess var farið á leit við fyrirtækið Creditinfo, að það lokaði þegar í stað öllum svæðum í tölvukerfi fyrirtækisins sem merkt væru nafni konu minnar. Því hafnaði fyrirtækið og hélt því fram að ekki væri heimild til að fara fram á slíkt.

Nú hefur rækilega verið sýnt fram á að fyrirtækið hefur enga löglega heimild til að hafa nafn konu minnar í tölvukerfi sínu. Og fyrirtækinu hafa ekki verið veittar neinar heimildir til skráningar slíkra upplýsinga, og mun aldrei verða veitt slík heimild. Sama er að segja um undirritaðan, sem nýlega fékk samskonar bréf frá Creditinfo, þann 7. febrúar 2017. Elfdi það til muna kröfu okkar um tafarlausa lokun og eyðingu allra upplýsinga sem vistaðar hafa verið hjá Creditinfo.

Við teljum eðlilegt að gera þá kröfu á hendur Persónuvernd að sú stofnun hafi frumkvæði að og eftirlit með, eyðingu allra skráninga og skráarsafna í tölvukerfum fyrirtækisins Creditinfo, með nöfnum okkar hjóna. Og því verði lokið eigi síðar en 24 mars 2017.

Við krefjumst þess að afrit verði tekið af öllum skráningum sem vistaðar hafa verið í tölvukerfi Creditinfo frá 1. janúar 2016 til eyðingardags og Persónuvernd falið að geyma þau gögn þar til við vitjum þeirra hjá þeim.

Miðað við hver stjórnarformaður Persónuverndar er, væri einkar óviðfeldið að þurfa að fara í opin málaferli við Persónuvernd til að krefjast leiðréttingar á svo augljósum brotum á stjórnarskrá og settum Persónuverndarlögum sem hér um ræðir. Ef stjórnendum Persónuverndar hentaði betur önnur dagsetning innan ársþriðjungsins til að ljúka málinu, en fram kemur í þessu bréfi, eru miklar líkur á að slíkt verði samþykkt.

Virðingarfyllst

f.h okkar hjóna,

Guðbjörn Jónsson

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Frábært hjá þér, Guðbjörn, að standa einbeittur vörð um persónuréttindi ykkar hjónanna. Glæsileg málavinnsla. Stend 100% með ykkur. Vegni ykkur sem bezt.

Jón Valur Jensson, 14.3.2017 kl. 11:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband