UM ALVARLEGA ÁGALLA HJÚSKAPARLAGA

Ég hef oft fjallað um hve alvarlegt það er þegar fólk sem sækist eftir og tekur að sér störf þingmanns, gerir sér litla eða enga grein fyrir hvaða ábyrgð það er að takast á hendur. Lýsir það sér oft í þeim lögum sem þingmenn hvers tíma samþykkja. Kemur það t. d. fram í Hjúskaparlögum nr. 31/1993. Ég hef áður, nokkuð víða fjallað um þau atriði, en aldrei sett það skipulega niður í opinbera grein til birtingar.

Í VII. kafla Hjúskaparlaga nr. 31/1993 er fjallað um atriði sem í eðli sínu er brot á stjórnarskrá.  VII. kaflinn heitir: Ábyrgð hjóna á framfærslu fjölskyldu sinnar. Þótt heiti VII. kaflans sé einskonar megin viðfengsefni þessa pistils, er heimilda einnig leitað í upphafskafla laganna og þangað leitað með skarpari sýn laganna á hlutverki og skyldu aðila í hjónabandi. Grundvöllur laga um hjónaband hlýtur að byggja á því að báðir aðilar finni sig, í lögunum, njóta gagnkvæmrar virðingar og viðurkenningar, sem fullgildur helmingsaðili þess hjúskapar sem til er stofnað með giftingu. Þessi jafnræðisstaða beggja aðila hjónabands er nokkuð vel dregin fram og birtist í 2., 3. og 4. gr. hjúskaparlaga. En í 2. gr. segir:

„ 2. gr.           
 Hjón eru í hvívetna jafnrétthá í hjúskap sínum og bera jafnar skyldur hvort gagnvart öðru og börnum sínum. Þeim ber að sýna hvort öðru trúmennsku, styðja hvort annað og gæta sameiginlega hagsmuna heimilisins og fjölskyldu.      
 Hjón eiga í sameiningu að annast uppeldi barna sinna, sjá þeim farborða og hjálpast að við að framfæra fjölskylduna með fjárframlögum, vinnu á heimili og á annan hátt.“ 

 3. gr. 
 Hjón skulu skipta milli sín verkefnumá heimili eftir föngum, svo og útgjöldum vegna heimilisrekstrar og framfærslu fjölskyldu.       
 Hjónum er skylt að veita hvort öðru upplýsingar um efnahag sinn og afkomu. 

Í þessum tveimur greinum er komið inn á nokkur mikilvægustu atriði hjúskapar. En það er einmitt í þeim atriðum sem þarna voru tilgreind sem mjög alvarleg og skaðleg rangtúlkun hefur verið ríkjandi. Sú rangtúlkun hefur orðið grundvöllur að upplausn fjölskyldna, þar sem algjörlega saklausir einstaklingar verða fyrir alvarlegasta skaðanum. Er þar átt við börn þeirra sem slíta hjónabandi.

 Í 2. gr. hjúskaparlaga segir að hjón skuli í hvívetna jafnrétthá í hjúskap sínumog bera jafnar skyldur hvort gagnvart öðru og börnum sínum. Af því leiðir að með öllu er útilokað að sami löggjafi, sem setur fram hina frávikalausu fullyrðingu um að báðir aðilar skuli skilyrðislaust vera jafnrétthá í hvívetna í hjúskap sínum, getur ekki undir neinum kringumstæðum, í sömu lögum, lagt öðrum aðilanum þá skyldu á herðar að verða framfærandi maka síns. Aðila sem á fullan rétt á framfærslu ríkissjóðs samkvæmt 76. gr. stjórnarsrkrár. Löggjafinn getur ekki, í sömu lögum sem hann segir báða aðila hjónabands jafn réttháa, gert makann að þiggjanda framfæris fyrir sig og börnin úr hendi þess aðila sem lögin ákilja að skuli greiða hounum sinn hluta af framfærslu fjölskyldunnar. Lög sem hefðu slíkt innihald væru tvímælalaust álitin, frá kynntum viðhorfum nokkurra heimsfrægra réttarheimspekinga, frá Bandaríkjunum, Evrópu og Ástralíu, álitin algjörlega ófullnægjandi sem lagatexti, vegna ósamrýmanleika í  skilaboðum og merkingu.   

Viðhorf lík þeim sem koma fram í 2, gr., koma einnig fram í 3. gr., en þar segir: að hjón skuli, eftir föngum, skipta á milli sín verkefnum á heimili: svo og útgjöldum vegna heimilisrekstrar og framfærslu fjölskyldu.           

Það sem hér er vakin athygli á, er að í lögunum segir afar skýrt að hjón séu jafnrétthá, beri jafnar skyldur gagnvart hvort öðru og börnun sínum og beri sameiginlega að gæta hagsmuna heimilisins. Þá segir í 3. gr. að hjón skuli skipta milli sín verkum á heimili eftir föngum,  svo og útgjöldum vegna heimilisrekstrar og framfærslu fjölskyldu.

Sérstök athygli er vakin á því að lögin tala eingöngu um JAFNA stöðu hjóna í öllum skyldum sínum gagnvart börnum og rekstri heimilis. Hvergi er þarna að finna skyldu annars aðilans til að yfirtaka skyldu maka síns, verði hann af einhverjum ástæðum ekki greiðslufær að sínum hluta framfærslu eða sinn hluta af framfærslu barna og rekstri heimilis.

Ég hef vakið athygli á þessu, sem og því að í 4. gr. hjúskaparlaga er kveðið afar skýrt á um að hvort hjóna ráði yfir þeim eignum sem voru í eigu þess fyrir giftingu. Þeim sé ekki skylt að leggja þær inn í sameiginlegar rekstur heimilisins, heldur beri þeim einungis að tryggja sinn hluta heimilistekna til að standa undir:  útgjöldum vegna heimilisrekstrar og framfærslu fjölskyldu.         

Hér geta efalaust ýmsir fljótfærir tekið löggjafinn og skattayfirvöld til fyrirmyndar. Þeir segja að í sameiginlegri ábyrgð hjóna á framfærslu fjölskyldunnar, felist að ef annað hjóna missi tekjur sínar, færist skylda þess aðila yfir á hinn sem fullar tekjur hefur. Um þetta er fjallað í VII. kafla hjúskaparlaga. Um þetta segir í 46. gr.:

46. gr.

Hjón bera sameiginlega ábyrgð á framfærslu fjölskyldunnar. Til framfærslu telst það sem með sanngirni verður krafist til sameiginlegs heimilishalds og annarra sameiginlegra þarfa, uppeldis og menntunar barna og sérþarfa hvors hjóna.Um framfærsluskyldu gagnvart börnum gilda að öðru leyti ákvæði barnalaga.     

 Framlag annars maka til sérþarfa hins verður hjúskapareign viðtakandanema sérstök heimild sé til að telja það séreign.

Þarna er lögð rík áhersla á að fólk geri sér sanngjarna mynd af því hverjar tekjur heimilisrekstrar þurfa að vera. Við sameiginlegt heimilishald þarf að hafa fleira í huga en daglegan kostnað vegna framfærslu. Þar þarf að líta til annarra sameiginlegra þarfa, uppeldis og menntunar barna og sérþarfa hvors hjóna. Ef fáein orð hefðu verið sett aftan við hinn tilvitnaða texta 1. málsliðar 46. gr., að á eftir: sérþarfa hvors hjóna hefði komið: „sem teljist til heimilisreksturs og hjúskapareignar“.

Í þessu fælist að skýrt væri afmarkað í hjúskaparsáttmála hjóna um heimilisrekstur, hvað af „sérþörfum“ hvors þeirra teljist til heimilisreksturs og hvað til persónulegs einkaneyslu viðkomandi, óviðkomandi sameiginlegum heimilis- og hjúskaparrekstri. 

Ef sú ábending sem ég set þarna fram væri orðuð skýrt og greinilega, væri 2. mgr. 46. gr. óþörf, enda verður ekki betur séð, vegna óljósra meininga í orðavali í lagatexta, en að hún stangist á við ákvæði 2. 3. og 46 gr. þessara laga, eins og þau atriði eru rakin hér að framan.

Í 2. mgr.46. gr. segir að: Framlag annars maka til sérþarfa hins verður hjúskapareign viðtakanda nema sérstök heimild sé til að telja það séreign.   

Orðið FRAMLAG, getur haft ýmsar merkingar. Framlag getur merkt að einhver láti af hendi óskyldubundinn stuðning við eitthvað. Í framangreindu atriði virðist meining í orðinu „Framlag“ snúast um að annar aðili hjóna, veiti hinum aðilanum „framlag“ til sérþarfa hans. Í 1. mgr. 46. segir að til framfærslu teljist það sem með sanngirni verði krafist til sameiginlegs heimilishalds og annarra sameiginlegra þarfa, s. s. sérþarfa hvors hjóna“ Ekki verður betur séð af þessu en að EF sá valkostur værri fyrir hendi að líta á sérþörf annars hvors hjóna sem mögulega  hjúskapareign. Kæmi þar til álita hvort umrædd sérþörf hafi verið, fyrir hjónaband, hluti af reglulegu neyslumunstri viðkomandi og kunn væntanlegum maka. Slík sérþörf eldist eðlilegt að væri fjármögnuð með rekstrargjöldum heimilisins.

EF það Framlag“ sem um er rætt í 2. mgr. 46. gr. væri til sérþarfasem væri utan skilgreinds heimilisreksturs, væri löggjafinn með opinni en bindandi lagafyrirmælum, hugsanlega að framkvæma eignaupptöku, án undangenginnar beinnar lagasetningar þar um. Segjum að annar aðili hjóna vildi styrkja maka sinn til einkaferðalags, kaupa laxveiðileyfi, eða eitthvert persónulegt áhugamál makans, væri löggjafanum algjörlega óheimil, með lagaákvæði, að gera slíkt upptækt sem „hjúskapareign“.

Í 47. gr. hjúskaparlaga eru einnig atriði sem alls ekki eiga rétt á sér  miðað við framangreind ákvæði hjúskaparlaga. Lítum þar á hvað segir 1. mgr.

„Framfærsluframlög hjóna eru fólgin í peningagreiðslum, vinnu á heimili eða öðrum stuðningi við fjölskyldu. Framlög skiptast milli hjóna eftir getu þeirra og aðstæðum.“ Þarna er löggjafinn í algjörri mótsögn við sjálfan sig, meira að segja í sömu lögunum um sama efni. Í upphafi 2. gr. þessara sömu laga, hjúskaparlaga,  segir löggjafinn afar skýrt að:

Hjón eru í hvívetna jafnréttháí hjúskap sínum og bera jafnar skyldur hvort gagnvart öðru..“.

Þarna er greinilega um alvarlega þversögn að ræða, sem bætist við fyrri ábendingu um  óvandaða lagasmíði. en lítum næst á 2. mgr. 47. gr. hjúskaparlaga. þar segir svo:

„Nú nægja fjárframlög þau, sem annað hjóna á að inna af hendi skv. 1. mgr., ekki til að fullnægja sérþörfum þess og barna eða þörfum heimilisins og á viðkomandi þá kröfu á að hitt láti honum eða henni í té peningafjárhæð sem með þarf, hæfilega upphæð í hvert skipti, miðað við getu og hagi aðila“. 

Enn einu sinni verður löggjafinn sér til skammar vegna eigin vanþekkingar á eðlilegri kröfulýsingu eða hvaða skyldur löggjafinn sjálfur ber hugsanlega í tilgreindu tilviki.

Löggjafinn tekur sér það vald í tilgreindri 2. mgr. 47. gr. hjúskaparlaga að halda því fram að sá sem ekki geti staðið skil á réttmætu framlagi í rekstrarsjóð heimilis síns, af ótilgreindum ástæðum, eigi kröfu á að hitt láti honum eða henni í té peningafjárhæð sem með þarf, hæfilega upphæð í hvert skipti, miðað við getu og hagi aðila

Ég geri þá kröfu til löggjafans, að hann skýri nánar og ítarlega á hvaða forsendum sú krafa er reynst, þar sem löggjafinn fullyrðir að sá aðili hjónabands, sem skortir tekjur til framfærslu, eigi kröfu á hendur hinum, sem getur staðið í skilum, um fjárstuðning fyrir fjárframlagi sínu til eigin heimilisreksturs. Í þessum tilvitnuðu lagafyrirmælum er hvorki umfang né neitt viðurkennt viðmið nefnt sem afmarkað geti ætlaða fjárhæð, eða annan kröfurétt annað en þversögn í hjúskaparlögum. Einungis er sagt að hinn aðilinn skuli láta í té þá peningafjárhæð sem með þarf, hæfilega upphæð í hvert skipti.“ Svonavinnubrögð ættu að vera refsiverð, en það getur enginn refsað löggjafanum nema kjósendur.

Í bók prófessors Sigurðar Líndal, sem ber heitið „Um lög og lögfræði, um grundvöll laga- réttarheimildir“, er m. a. fjallað um hvað geri yfir höfuð textaað frambærilegum lögum.

 Í kaflanum „Grundvöllur laga“  segir í lið 9.1. „Lög verða að fullnægja tilteknum skilyrðum um form“.  Inn á þau atriði var komið hér að framan þar sem bent var á óskýra merkingu setningar. Sama er einnig hér í 2. mgr. 47. gr. varðandi fullyrðingu um algjörlega óskilgreinda kröfu, eins aðila á hendur öðrum, án skýrs viðmiðunargrundvallar.

Í liðnum 9.1.1., í bók prófessors Sigurðar, lið sem ber heitið „Ólíkar áherslur“, er vísað í Bandaríska réttarheimspekingurinn Lon L Fuller, „að lög séu sett í þeim tilgangi að knýja menn til að fylgja reglum“. En lögskipan sé einnig komið á í öðrum tilgangi. Menn setji sér ólík markmið og fylgi þeim eftir. En til þess að það geti gengið snurðulaust verði að móta ákveðið ferli og framgangsmáta. Hvorttveggja, fylgni við reglur og ferli sem fara verði eftir, beri að viðurkenna sem sjálfstæð markmið. Með þessu megi kenna þjóðfélagsskipulag við lög í stað geðþótta ákvarðanna.“

Í þessi atriði er vitnað vegna þess hversu hjúskaparlög nr. 31/1993, eru langt frá því að geta talist byggð upp af aðilum sem hafi haft næga þekkingu á verkefninu, þjóðskipulagi okkar eða eða lagasmíði.

Margt er alvarlega umhugsunarvert í lagabálki eins og hjúskaparlögum. Ég ætla þó ekki í lengri útskýringar í þessum pistli. En það er svo sem nægt úrval af klúðurslegri og ómarktækri lagasetningu til í lagasafninu, sem aldrei verður leiðrétt.

En það sem textahöfundi hjúskaparlaga sást alveg yfir er hinn skýri réttur sem sérhver á, sem ekki getur sjálfur séð sér farborða, samkvæmt ákvæðum stjórnarskrár. Í 76. gr. stjórnarskrár er fjallað um rétt þeirra sem ekki geta framfleytt sér ef eigin tekjum. Því miður var þessar grein breytt 1995 og gerð ómarkvissari. Segja má að lögmönum stjórnvalda sé boðið upp á fjölda möguleika til útúrsnúninga til að valda kostnaðarauka fyrir þá sem rétt sinn reyna að sækja í gegnum réttarkerfið. Nú segir í þessari mikilvægu grein stjórnarskrár að: [Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika“  Ég hef aldrei geta fengið vitræna skýringu á því hvers vegna  var verið að flækja hina ótvíræðu greiðsluskyldu ríkissjóðs á framfærslu þeirra sem ekki geta sjálfir séð sér farborða. Í stjórnarskránni frá 1934 er ákvæðið mikið skýrara, enda engir flækjumeistarar þá komnir til skjalanna, til að auka kostnað ríkisrekstursins. En í stjórnarskrá 1934 er ákvæðið svona:Sá skal eiga rjett á styrk úr almennum sjóði, sem eigi fær sjeð fyrir sjer og sínum, og sje eigi öðrum skylt að framfæra hann.“

Þegar horft er til þess einbeitta ásetnings lagasmiða hjúskaparlaga, að koma ótvíræðri  greiðsluskyldu ríkissjóðs yfir á einstaklinga, sem voru svo óheppin að maki þeirra forfallaðist frá tekjuöflun, verður manni hugsað til þess hvort engin sómatilfinning sé lengur til staðar í: þingmönnum, lögmönnum eða dómurum þessa lands. Ég tel víst að flestir sem tilheyra tilgreindum stéttum hafi einhverja snertingu hafi við svo afkáralega lagasmíð sem hjúskaparalögin eru. Og svo kemur til viðbótar framanskráðu sá ljóti fölsunarhlekkur hjúskaparlaga sem enn virðist tíðkaður í skattalögum, að skerða réttindi lífeyrisþega vegna tekna maka. Þar er um verulega ljóta ósvífni að ræða, sem skoðað verður fljótlega.

      

    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Aðal ágalli hjúskaparlaga er einfaldur; Ríki hefur hvorki valdsvið né siðferðislegan grundvöll til að setja lög af þessu tagi. Því miður skilja það ekki 'upplýstir' nútímamenn.

Guðjón E. Hreinberg, 12.9.2019 kl. 22:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband