ERU ÍSLENDINGAR SAMFÉLAG UM LÝÐVELDI ??

Fyrirsögnin að þessum skrifum er dálítið krefjandi spurning til þeirra sem þetta lesa. Eru gildishlaðin siðferðisviðmið okkar þau að við séum öll á sama báti að róa í sömu átt? Eða eru Íslendingar tvístraður hópur stefnulaust ráfandi einstaklinga, óánægð með líf sitt og hrædd við að tjá einlægar skoðanir sínar og vera heiðarleg?

Ég er nokkuð viss um að við fyrsta lestur þessa texta, telji margir mig loksins vera orðinn snarruglaðan. En ef þið íhugið málið aðeins og reynið að ímynda ykkur þann fróðleik sem ég er búinn að glósa inn á tölvuna mína, samhliða því að lesa í þingtíðindum og dagblöðum um viðhorf þingmanna, stjórnmálaafla og þjóðar frá lýðveldisstofnun? Af þeim lestri er ég búin að sjá nánast endalausar endurtekningar á mistökum sem sprottin eru úr nánast samskonar forsendum, þó hvorki stjórnmálamenn eða þjóðin sjálf virðist geta lært af fenginni reynslu.

Mér var sýnt með afar skýrum hætti hvernig þjóðin villtist af vegi: samfélags, fjölskyldu, stórfjölskyldu (ætta), eða jafnvel heils byggðarlags, yfir til undirferlis græðgi og sjálfsdýrkunar einstaklinga. Hægt vaxandi sérhyggja og óheiðarleiki læðist að og hefur einnig meðferðist hægt vaxandi kæruleysi gagnvart sameiginlegum ábyrgðum. Á sama hátt og meðvirkni heltekur fjölskyldu alkahólista, svo enginn sér vágestinn, virtist þjóðin steinsofandi gagnvart augljósum og opinberum þjófnaði á fjármunum hennar og auðlindum. Á viðvaranir var litið eins og slæma martröð og þær látnar hverfa í fjölda nýrra frétta af nýjum óheiðarleika.

   Þegar samfélagsmynd fyrri hluta síðustu aldar er skoðuð, kemur fram að uppeldi ungviðis hafi í gegnum aldirnar verið samvinnuverkefni þriggja kynslóða. Barnið var verkefnið en á sama tíma voru foreldrar þess annarskonar verkefni, er þeir fetuðu sín fyrstu sjálfstæðu skref fullorðinsára, án beinnar stýringar frá reynslu eða þekkingu foreldra sinna. Raunveruleiki þess lífs sem mætti unga fólkinu á hverjum degi, var þeim framandi og í þeirra reynsluheim engar lausnir að sækja.

 Þriðji þáttur áðurgetins þriggja kynslóða samstarfs, var einskonar öryggisventill fyrir hina nýbökuðu foreldra ungbarnsins. Þar var um að ræða hinn sívakandi reynslubanka þriðju kynslóðar, fyrir unga fólkið í nýju foreldrahlutverki. En á sama hátt var einnig um nauðsynlegt sálarskjól að ræða fyrir hið unga og viðkvæma taugakerfi barna sem alltaf gátu leitað skjóls hjá ömmum sínum og öfum. Þar vissu börnin að skjóls var að vænta fyrir þeim erfiðleikum sem þau kunnu engin skil á. Það hefur alltaf verið sérsvið þriðju kynslóðar að hafa lykilinn að hugarró barna og geta beint huga þeirra frá erfiðum hugsunum með fróðlegri eða skemmtilegri sögu.

Líkast til var það í algjöru ógáti sem hinu sameiginlega verkefni þriggja kynslóða, um náttúrulega vernd fyrir ungviðið, var nánast fyrirvaralaust raskað, án þess að gætt væri að mikilvægustu undirstöðum mannlegs þroska og samfélagsvitundar. Svo langt aftur sem menn gátu munað, hafði meginregla verið sú að ungbörn og börn til 6 ára aldurs nytu óslitið öryggis og umönnunar foreldra og ættingja. Fjölskyldumyndin var talinn stór hluti samfélags-vitundar og mikilvægt að varðveita öryggisumhverfi barna á viðkvæmu þroskaskeiði þeirra.

Hér er varpað fram spurningu til Alheimsvitundar.

En af hverju var öryggis ungbarnsins talið best gætt hjá fjölskyldu sinni?

Og ég fæ eftirfarandi svörun.

Fyrir því eru nokkrar mikilvægar ástæður sem enn í dag hafa of lítið verið ígrundaðar, en felast í náttúrulegum þroska barns. Líkamsvöxt ungbarns sér fólk með augunum. En til að greina andlegu hlið hins nýkomna einstaklings til jarðvistar okkar, þarf næman skilning á því orkuflæði sem drífur einstaklinginn áfram.

Því miður er enn of lítil áhersla lögð á, við fæðingu ungbarns, að foreldrar fái nauðsynlegan skilning á því hvaða skyldur leggjast á herðar þeirra með hinum nýja fjölskyldumiðlim. Það er t. d. of lítil áhersla lög á að foreldrar þekki hina eilífu þrígreiningu hvers einstaklings í: Anda, Líkama og Sál. Sú þrígreining á ekkert skylt við trúarbrögð.

Andinn, er sú orka sem umlykur hverja lifandi veru og veitir líffærum hennar orku til að starfa. Flókið samspil á milli orku einstaklingsins og Alheimsorkunnar verður ekki nánar útskýrt hér, því slík er nokkuð löng lesning.

Líkaminn vex í móðurlífi konunnar sem fæðir barnið. Það hefur hins vegar iðulega verið farið ógætilega með þennan líkama á fósturskeiði og á fyrstu stundum hans í jarðvistinni. Það hefur viljað gleymast að þessi litli líkami kemur úr loftkyrru og trekklausu 37° heitu umhverfi. En hiti í fæðingarrúmi er töluvert lægri og gustur vegna loftskipta. Þægilegast viðmið fyrir flesta til skilnings er tilfinning þeirra sjálfra við að koma frá suðlægari heitum löndum, aftur til kuldans á Íslandi. Hvernig þætti fólki umskiptin, ef það væri nakið eins og barn við fæðingu?

Það er einnig skortur á að nægrar varúðar sé gætt gagnvart sýklum í umhverfi lítils barns. Líkami þess er færður í föt en loftið leikur frjálst um augu, eyru og eyrnagöng, sem eru með viðkvæmri óvarinni þunnri húð. Sama er að segja um nefgöng og öndun barns á umhverfislofti t. d. á veitingastað, verslunarmiðstöð, mengunarlofti borgarumferðar eða kuldanepju sem foreldrar finna ekki fyrir vegna vanans. Ungbarnið, með sína næfurþunna húð í öndunarvegi og lungum er varnarlaust gegn vangá þeirra fullorðnu. Ef ógætilega er farið í þessum efnum fyrstu vikur í jarðvist barns, getur það haft varanleg heilsuspillandi áhrif til frambúðar og ekki hvað síst á síðari hluta ævinnar. Nánar útskýrt síðar.

Er þá komið að þriðju greiningu einstaklingsins, en það er Sálin.  Sálin er ekki hluti af sköpun líkamans í móðurlífi, heldur sjálfstæður lífskraftur sem tekur sér bólfestu í líkamanum við fæðingu. Hvernig Sálin velur sér foreldra verður ekki útskýrt hér. Hins vegar verður aðeins fjallað um vaxandi vangaveltur um hvort Sál sé eitthvert sérstakt fyrirbrigði eða hvort Sál barns geti hafa lifað áður hér á jörð.

Líklega er auðveldast að skýra út fyrir nútímamanninum hvað Sál sé, með því að líkja henni við geymslusvæði tölvugagna í geimnum. Móðurtölvan væri persónan á jörðinni, sem hefði, meðvitað eða ómeðvitað, samband við gagnagrunn sinn í geimnum. Gagnagrunnur tölvu er uppbyggður af öllum þeim verkum sem á tölvuna hafa verið unnar. Sjálfkrafa vistast þær í gagnagrunninum í geimnum öll þau ár sem tölvan vinnur. Líkt er um gagnagrunn Sálar. Hann er samansettur af minningum og reynslu úr öllum þeim lífum sem Sálin hefur lifað í hlutverki tiltekins einstaklings. Öll sú reynsla sem Sálin hefur öðlast vistast í Sálarkjarna hennar. Það er svo misjafnt eftir lífum hve meðvitaða tengingu Sál einstaklingsins hefur við forðabúr reynslu sinnar í Sálarkjarnanum. Sumir einstaklingar telja sig engar slíkar tengingar hafa en aðrir hafa nánast ótæmandi aðgang að fyrri reynslu og þekkingu.

Til að hjálp fólki að ná áttum í þessu flókna umhverfi hefur því nokkuð fjölgað að Sál verulegs snillings á einhverju sviði tekur að sér að fæðast aftur í jarðvist og hafa með sér fyrri snilli sína, sem þekkt hafi verið meðal jarðarbúa. Strax á unga aldri, þegar samstarf Sálar og líkama er orðið nokkuð vel þjálfað, fer Sálin, sem nýr einstaklingur, að birta fyrri hæfileika sína, en þá enn í líkama barns, svo færni og listrænir hæfileikar þykja með ólíkindum. Þær Sálir sem taka að sér slíka endurfæðingu, gera slíkt til að rétta þeim Sálum hjálparhönd sem villst hafa af leið kærleiksvitundar og samkenndar.    

Hér er lokið því sem Alheimsvitundin vildi leggja inn í þessi skrif.

Með miklum síldarafla urðu umtalsverðar breytingar í atvinnulífi landsmanna. Mikill síldarafli kallaði tímabundið á konur út á vinnumarkað, til að gera útflutningsverðmæti úr miklum síldarafla. Slík átaksverkefni voru ekki ókunn þjóðinni í miklum aflahrotum. Alltaf var brugðist eins við miklum afla. Þær konur sem gátu, fóru til vinnu og frí var gefið í efri bekkjum barnaskólanna, svo börnin gætu tekið þátt í að bjarga verðmætum.

Samfélagsmyndin breyttist í framhaldi af síldarævintýrinu. Upp úr þessu átaksferli síldarævintýrs, kom andsvar viðskiptalífsins gegn fyrirsjáanlegum samdrætti viðskiptaveltu, þegar mikill tekjusamdráttur yrði hjá heimilum landsmanna. Verðbólga hamlaði fyrirtækjum að greiða hærri laun. En með því að fá konurnar líka út á vinnumarkaðinn myndu ráðstöfunartekjur heimilanna haldast hærri en ef fyrirvinnan væri bara ein. Með því að fá fleira fólk út á vinnumarkað mundi velta samfélagsins einnig aukast, og létta á pressu launafólks um kauphækkanir.

Nokkuð samhliða þessu var af hálfu tiltekinna afla í viðskiptalífinu, hafin áróðursherferð fyrir því að konur létu ekki binda sig á bak við eldavélina, heldur tækju þátt í tekjuöflun heimilisins. Samhliða því myndu þær einnig njóta þess frelsis sem fylgdi því að geta komist út af heimilinu. Ekki minnist ég þess að hafa orðið mikið var við umræður um hvaða áhrif svona röskun hefði á öryggisumhverfi barna. Það var talið fullnægjandi að börnunum væri bara komið fyrir í fóstri, í fyrstu hjá ættingjum eða konum sem ekki sóttust eftir að vinna úti. Síðan þróaðist þetta í fjöldauppeldi á barnaheimilum, þar sem fjölskyldutengslin byrjaði að riðlast.

Í öllu þessu ferli verður hvergi séð að Alþingi, önnur stjórnvöld eða starfandi stjórnmálaflokkar, hafi gert neina tilraun til að kanna útgjaldaþol þjóðfélags okkar, eða finna út samspil tekna og útgjalda með venjulegu rekstrarlíkani um sjálfbærni. Óumsamin útgjöld vegna innflutnings voru á ári hverju mikið meiri en gjaldeyristekjur. Olli sá mismunur stöðugu gengisfalli og hækkandi vöxtum af lánum unga fólksins, sem var að reyna að koma þaki yfir höfuð fjölskyldu sinnar.

Vinnuálag almennings jókst verulega, samhliða frekar ósvífnum aðferðum viðskiptalífsins til að flækja látekjufólk í skuldafjötra, sem svo voru sendir í lögfræðiinnheimtu þegar greiðslugeta nægði ekki til að greiða áfallnar skuldir. Engar leiðbeiningar voru veittar almenningi um hvernig ætti að verjast tál-tilboðum viðskiptalífsins, sem fékk afskriftir sínar og tapaða vörusölu, dregna frá skattlagningu.  Það ferli verður ekki rakið nánar hér en kemur fram síðar.

Þegar komið var fram á síðari hluta níunda áratug síðustu aldar var orðið áberandi hvað fólk virtist búið að missa alla dómgreind í fjármálum. Skuldir heimila jukust hröðum skrefum og harka lögfræðiinnheimtna að sama skapi. Á þeim tíma var ég að kynna mér fræði sem kölluðust „Opinber þjónustustjórnun“.  Í því verkefni var kafli um áhrif streituálags á dómgreind fólks. í tengslum við það var bent á rannsókn tveggja Þýskra sálfræðinga, sem höfðu, ásamt Rússneskum sálfræðingum, fengið að kanna heilsufar svokallaðra „samviskufanga“ í Rússneska Gúlaginu í Síberíu. Mér féllust alveg hendur þegar ég las þar að allir sex fangarnir sem rannsakaðir höfðu verið, hefðu eftir sex mánaða þrælkun, verið farnir að sýna skerðingu á dómgreind.

Með þessar upplýsingar fór ég á fund tveggja ráðherra og nokkra þingmanna sem ég var kunnur. Sýndi ég þeim þessar niðurstöður og benti jafnframt á að almenningur á Íslandi hefði búið við alltof mikið streituálag um margra ára skeið vegna skuldaálags og ómannúðlegra innheimtuaðgerða. Síðustu árin, með vaxandi heildarskuldum heimila, hefði einnig borið á vaxandi dómgreindarskorti í fjármálum, sem verulega hefðu aukið vanda margra, og væri þá alls ekki eingöngu tengdur láglaunafólki.  

Í máttvana hryllingi varð ég áhorfandi að því brjálæði sem fór í gang í kjölfar þess að algjörum óvitum í bankamálum, voru seldir allir aðalbankar þjóðarinnar.  Árið 1998, sendi ég ráðherrum og þingmönnum aðvörun um hvert stefndi. Benti ég á að á örfáum árum yrði þjóðin ekki endurgreiðslufær allra þeirra erlendu lána sem bankarnir yrðu þá búnir að taka, með sama áframhaldi.

Ég fékk ekkert svar en ætla að ljúka þessu með glefsum úr bréfi sem ég skrifaði Davíð Oddssyni, þáverandi forsætisráðherra þann 14. janúar 2004. Þetta hefur ekki áður verið birt opinberlega.

„Virðulegi forsætisráðherra.

Með vaxandi óhug hef ég fylgst með ástandi í þjóðfélagi okkar, sem því miður getur ekki annað en leitt til hörmunga. Þar á ég við ört vaxandi opinberun á alvarlegum dómgreindarbresti. Á undanförnum árum hef ég beint athyglinni að dómgreindarskorti hjá alþingismönnum, stjórnvöldum, í réttarfarinu og rekstri heilbrigðiskerfisins. Með vaxandi hraða á hringekju fáránleikans, sem veldur streitu og misrétti í þjóðfélaginu, opinberast hve mikið vantar á að þeir aðilar sem tekið hafa að sér framangreinda mikilvæga flokka í stjórnun þjóðfélagsins, hafa þröngt og takmarkað sjónarhorn og sjá greinilega ekki út yfir þau viðfangsefni sem þeir telja sig vera að fást við.“

....

„Árið 2000 var sjávarútvegsráðherra margítrekað krafinn tilvísana í lög frá Alþingi, sem heimili sölu aflakvóta. Enn hefur sá ráðherra ekki geta framvísað slíkum lagaheimildum, sem skiljanlegt er, því slík lög hafa aldrei verið sett. Þessi sami ráðherra fékk líka, í september 2003, bók mína um stjórnkerfi fiskveiða og ætlaði að senda mér umsögn um hana innan stutts tíma, þegar lögmenn ráðuneytisins væru búnir að fara yfir hana. Sú umsögn er ekki komin enn. Líklega kemur hún ekki fremur en lagatilvitnanir um heimildir til sölu aflakvóta sem óskað var eftir árið 2000. Líklega hefur hann hvorki frétt af stjórnsýslulögum né upplýsingalögum. Þú segir honum kannski frá þessum lögum við tækifæri.“

.....

„Hin sífelldu átök um rekstur heilbrigðiskerfisins er enn einn vinkillinn á sérkennilegan dómgreindarbrest þingmanna og stjórnvalda. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum hefur aldrei verið kallað eftir útreikningum fjármálaráðuneytis á kostnaðargreiningu þess á eðlilegri framkvæmd laga um heilbrigðismál. Ég vil hér með óska eftir því að þú beitir þér fyrir að ráðuneytið geri slíka kostnaðargreiningu og mér verði sent eintak af henni. Vonandi með betri skilum en lagatilvísanirnar frá sjávarútvegsráðuneytinu.

Af athugunum mínum á skipuriti Landspítala, ásamt margháttaðri könnunum á starfseminni, blasa við margir þættir sem valda verulegum óþörfum kostnaði. Einnig má sjá í framkvæmd heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa, ýmsa þætti sem einnig valda óþörfum útgjöldum. Í meira en ár hef ég beðið svars frá forstjóra Landspítala um heimildir til nýrra útgjalda, á sama tíma og hann sjálfur tilkynnti að engir fjármunir yrðu lagðir í annað en viðhalda þáverandi þjónustustigi. Útgjöld þessi virðast vera einhverjir tugir milljóna í stofnkostnaði, auk einhverra milljóna í rekstur hinnar nýju þjónustu. Þú mættir líka segja honum frá stjórnsýslu- og upplýsingalögunum.“

.......

„Í umræðum undanfarinna mánaða og ára, hefur nokkuð verið fjallað um ýmsar framkvæmdir hins opinbera, sem hafi orðið mun kostnaðarsamari en framkvæmdaáætlun gerði ráð fyrir. Má þar nefna Þjóðmenningarhús, skrifstofubyggingu Alþingis við Austurvöll, viðbyggingu við Alþingishúsið, að ógleymdu einkennilegu rugli við Þjóðminjasafnið. Ég hef ekki orðið var við neinar athugasemdir þínar eða fjármálaráðherra við þessu mikla útstreymi fjár úr ríkissjóði, umfram fyrirliggjandi heimildir Alþingis. Þau umframútgjöld sem þarna munu vera, teljast vera nokkuð á annan milljarð. Til víðbótar því má nefna 6 milljarða sem settir voru í að halda flokki vinnuvéla gangandi svo verktakafyrirtæki lentu ekki í vandræðum. Tveir milljarðar virðast hafa farið í aukningu fjárfestinga og starfsemi sendiráða og stofnun nýrra.

Það sem hér hefur verið rakið er óhugnanleg staðfesting á dómgreindarbresti þingmanna og framkvæmdavalds. Stöðug eru ummæli þessara manna um að ekki séu til peningar til að sinna eðlilegum þörfum eldri borgara, öryrkja, sjúklinga og annarra þeirra sem höllum fæti standa í þjóðfélaginu. Það virðist hins vegar ekki vera um fjárskort að ræða, þegar umframútgjöld beinast í ákveðnar ónauðsynlegar áttir. Slíkt getur vart flokkast undir heilbrigða dómgreind.“

....

„Nýjasta dæmið um dómgreindarbrest kom fram í sambandi við vanhæfi formanns nefndar Alþingis, vegna hugsanlegra kaupa bankastofnunar á SPRON. Svo virðist sem einhver fjöldi þingmanna telji sig ekki falla undir lagaskyldur í lýðveldi okkar. Þögn framkvæmdavaldsins varðandi þetta sérkennilega mál virðist benda til sama dómgreindarbrests, að almenn lagaskilyrði í landinu eigi ekki við þingmenn. Ekki verður betur séð en þarna sé á ferðinni háskalegur hroki.

Þegar skoðað er efni stjórnsýslulaga, kemur í ljós að í fyrsta kafla þeirra laga, um gildissvið laganna, segir svo í 2. málsgrein 1. gr. laganna:

„Lögin gilda þegar stjórnvöld, þar á meðal stjórnsýslunefndir, taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna.”

…….

„Hér hefur verið drepið á fáein atriði, sem því miður eru ekki tæmandi upptalning um sérkennilega birtingu á dómgreind stjórnvalda á Íslandi. Því miður er réttarúrræði og dómskerfi ekki undanskilin þessu sérkennilega ástandi, þó í þessu bréfi séu ekki tilgreind dæmi um slíkt.

Spurningin er hins vegar hvort það hafi eitthvað að segja að rekja svona þætti fyrir þér. Lengst af hefur þú sýnt að þig skortir verulega heilstæða yfirsýn í fjölþættum málefnum. Dæmin frá borgarstjórnartíð þinni eru nokkur, þó óafsakanlegur fjáraustur vegna byggingar Perlunnar standi þar upp úr. Ekki aðeins að byggingakostnaður hafi verið mikill og utan rekstrarþátta borgarinnar, heldur hefur komið fram í fjölmiðlum að á hverju ári þurfi að greiða verulegar fjárhæðir í meðgjöf með þessari byggingu, þara sem hún verði ekki sjálfbærírekstri. Er það eitt afdrifaríkasta dæmið um dómgreindarbrest í borgarstjórnartíð þinni.

Hvað varðar tímabil þitt sem forsætisráðherra, virðist sem aldrei í sögu lýðveldsins hafi verið sett fleiri lög sem stangast á við ákvæði stjórnarskrár. Nokkuð sérstakt, miðað við hvað þú vekur oft athygli á lögfræðimenntun þinni, og með fjölda lögfræðinga á þingi.
Stjórnleysi stjórnar þinnar á atvinnulífinu og peningamarkaðnum er búið að koma þjóð okkar í afar erfiða skuldastöðu, gagnvart erlendum lánastofnunum. Dómgreindarlausar upphrópanir þínar og leikskóladeildarinnar á fjármálamarkaðnum um “góðæri” sýna afar glöggt hve hugsun í slíkum ummælum er byggð á þröngu sjónarhorni.

Með vísan til þess hve fátítt hefur verið í stjórnartíð þinni, að verða var við skynsamlegar ákvarðanir til framgangs heildarhagsmuna, býst ég ekki við skynsamlegum viðbrögðum við þeim ábendingum sem hér hafa verið settar á blað. Líklegustu viðbrögðin eru að þú verðir reiður út í mig og hugsir mér þegjandi þörfina. Tvenn máltæki gætu verið vísbendingar um slíkt. Annars vegar máltækið um að “skjóta sendiboða válegra tíðinda” (sem mjög er iðkað). Hins vegar máltækið að “sannleikanum verður spilltur maður sárreiðastur”.

Ég vil að lokum taka fram að ég tel EKKI að þú hafi gert eitthvað rangt í ásetningi þess að valda þjóðinni tjóni. Ég er hins vegar á þeirri skoðun að þú hafir verið að fást við umfangsmeiri málefni en dómgreind þín réð við og þú hafir, því miður fyrir þjóðina, ekki haft samstarfsmenn og ráðgjafa sem höfðu næga heildarsýn til að stýra málefnum þjóðfélagsins, með heildarhagsmuni þess til framtíðar litið, í huga.

Ég hef séð hjá þér marga góða kosti, en þeir hafa ekki náð að dafna vegna umfangs þeirra verkefna sem þú réðst í raun ekki við.  Ég vænti ekki breytinga á þér eða þeirri stefnu sem þú talar fyrir. Þrátt fyrir það bið ég þér Guðs blessunar í starfi og einkalífi og bið þig að hafa vakandi auga með fyrirsjáanlegu hruni fjármálalífs okkar, verði sömu vitleysu framhaldið, sem hingað til hefur verið að tröllríða þjóðfélaginu og hindra eðlilegt flæði fjármagns um þjóðlífið.

Með kveðju,

Reykjavík 14. Janúar 2004

Guðbjörn Jónsson“

 

Eins og af þessu má sjá eru áhyggjur mínar af dómgreindarbresti þjóðarinnar ekki alveg nýtilkomnar. En þegar fólk þekkir ekki stórfeld stjórnarskrárbrot, sem framkvæmd eru opinberlega af hópi ráðamanna í samfélagi okkar, Þá er varla mikil von um heilbrigðar varnir til viðhalds lýðveldistengdri samfélagsmynd.

   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband