Meira um skipan héraðsdómara

Í Morgunblaðinu þriðjudaginn 29. jan. ´08 skrifar Sigurbjörn Magnússon, hæstaréttarlömaður grein um skipan héraðsdómara. Grein sem er að meginstofni ósannindi og rugl. Af því tilefni sendi ég honum eftirfarandi bréf.

Hr. Hæstaréttarlögmaður,
Sigurbjörn Magnússon.

Í Morgunblaðinu, þriðjudaginn 29. Janúar 2008, er grein eftir þig með fyrirsögninni "Um skipan héraðsdómara".  Ég verð að segja, með hliðsjón af því að þú tiltlar þig hæstaréttarlögmann, er ég afar undrandi á flestu því sem fram kemur í þessari grein.

Í grein þinni vísar þú til 7. gr. reglugerðar nr. 693/1999, sem sett er við lög um dómstóla nr. 15/1998. Og að í 7. greininni segir einnig að umsögn nefndarinnar sé ekki bindandi um skipan í embætti héraðsdómara.

Í fyrsta lagi er um þetta að segja, að þér, sem lögmanni, á að vera kunnugt um að reglugerð gengur ekki framar lögum og að séu ákvæði í reglugerð sem ekki eru til staðar í lögum, þá hafa þau ákvæði ekki lagagildi.

Í 12. gr. laga nr. 15/1998, um dómstóla, segir þú: "skal sérstök nefnd láta í té umsögn um umsækjendur." Þarna gengur þú nokkuð greinilega á snið við sannleikann, því þér er áreiðanlega kunnugt um að í þessari grein laganna er "nefndinni", sem í lögunum heitir dómnefnd, falið að fjalla um hæfni umsækjenda um embætti héraðsdómara. Í umræddri 12. gr. þessara laga er hvergi getið um rétt dómsmálaráðherra til að hafa nein afskipti af vali úr hópi umsækjenda, enda væri slíkt svo augljóst og hrikalegt brot á 2. gr. stjórnarskrár. Umrædd 3. mgr. 12. gr. laganna um dómstóla er svohljóðandi: (Leturbr. G.J.)

"Dómsmálaráðherra skipar þrjá menn í dómnefnd til þriggja ára í senn til að fjalla um hæfni umsækjenda um embætti héraðsdómara. Skal einn nefndarmanna tilnefndur af Hæstarétti og er hann formaður nefndarinnar. Tilnefnir Dómarafélag Íslands annan mann í nefndina úr röðum héraðsdómara en Lögmannafélag Íslands þann þriðja úr hópi starfandi lögmanna. Varamenn skulu tilnefndir og skipaðir á sama hátt."

Ég get bætt hér við því sem ég sagði í bréfi til annars hæstaréttarlögmanns sem viðhafði álíka heiskuleg ummæli í blaðagrein. Ég sagði:

Eins og þarna má sjá, SKIPAR dómsmálaráðherra þrjá menn í dómnefnd sem fjalla á um hæfni umsækjenda. Dómsmálaráðherra fær ekki að hafa nein áhrif á hverjir valdir eru til að gegna starfi í þessari nefnd, þó honum sé gert að SKIPA hana. Jafnframt má einnig sjá þarna að löggjafarvaldið hefur EKKI ætlast til að dómsmálaráðherra hefði neitt með það að gera að meta hæfnisþætti umsækjenda, því honum er hvergi ætlaður staður í því ferli. Þekkt er að þegar ráðherra hefur eitthvað að segja um efnisval, flokkun eða niðurstöður úr starfi nefnda, þá gerir löggjafinn ráð fyrir að viðkomandi ráðherra skipi formann nefndarinnar.  Þarna er ekki svo.

Það virðist augljós óheiðarleiki eða grunnhyggni að blanda inn í þessa umræðu þáttum úr grein Páls Hreinssonar "Álitsumleitan". Sú grein fjallar um aðila og nefndir sem leitað er álits hjá, en í þessu umrædda tilviki er um DÓMNEFND að ræða sem, fjalla á um hæfni umsækjenda. Það eykur ekki álit þjóðarinnar á lögfræðimenntuðum mönnum, þegar þeir ryðjast hver á fætur öðrum fram á ritvöllinn með þvílíka vitleysu sem raunin hefur verið á að undanförnu.

Í grein þinni segir þú:  (Leturbr. G. J.)

"Ef ráðherrann er ekki sammála mati nefndarinnar er honum þannig bæði rétt og skylt að lögum að taka aðra ákvörðun."
Ég segi af þessu tilefni. Bentu mér á þann LAGATEXTA í 12. gr. dómstólalaga sem styður þessa fullyrðingu þína. Það þýðir ekki í þessu sambandi að vísa til reglugerðar um eitthvað sem ekki er tilgreint í lögunum.

Einnig segir þú í greininni: (Leturbr. G. J.)

"Ráðherra taldi að gallar hefðu verið á umsögn álitsnefndarinnar,..."

Ég skil ekki hvers vegna þú kýst að skrökva að lesendum. Þú veist vel að þessi nefnd er ekki álitsnefnd. Samkvæmt orðanna hljóðan í lögunum sjálfum er þetta DÓMNEFND. Á þessu tvennu er reginmunur, sé litið á það frá heilbrigðri hugsun.

Enn fremur segir þú í greininni: (Leturbr. G. J.)

"Störf þessarar nefndar hafa áður verið umdeild og sætt gagnrýni meðal löglærðra, þótt einhverra hluta vegna hafi það ekki farið hátt."

Líklega er það nú fyrst og fremst af tillitsemi við "löglærða" sem svona heimskuleg gagnrýni er ekki í hávegum höfð.  Ég vona að dómgreind þín hafi þroska til að skilja það.

Og enn heldur vitleysan áfram í grein þinni er þú segir: (Leturbr. G. J.)

"...er ég fyrir mitt leyti sammála því mati ráðherrans að nefndin hafi mjög vanmetið hæfni Þorsteins Davíðssonar einkum með hliðsjón af störfum hans í ráðuneyti því, sem fer með málefni er lúta að dómstólum, réttarfari og réttarvörslu í landinu."
 
Líklega eru engin takmörk fyrir því hvaða barnaskap "hámenntaðir" menn geta látið út úr sér þegar þeir eru að flaðra upp um þá sem þeir telja geta orðið sér til framdráttar. Flestir eðlilega hugsandi menn vita að dómsmálaráðuneytið fjallar ekkert um þá þætti sem skipta mestu máli í störfum dómara. Hve oft á undanförnum áratugum hefur dómsmálaráðuneytið t. d. þurft að leggja mat á málsástður, málatilbúnað og fella úrskurði um slíkt?

Í niðurlagi greinarinnar segir þú: (Leturbr. G. J.)

"Þótt eflaust megi, eins og alltaf, deila um það hver sé hæfastur meðal margra hæfra, þá er ekki sérstakt tilefni til að deila á þá ákvörðun ráðherra að fara ekki eftir mati nefndarinnar, fyrst hann var ekki sammála því, nema síður sé."

Þetta er afar athyglisvert. Í grein þinni kemur þú hvergi inn á beinar lagaheimildir til handa ráðherra til að víkja frá niðurstöðum lögskipaðrar DÓMNEFNDAR og kórónar svo alla vitleysun með því að segja að ekki sé ástæða til að amast við því að ráðherra brjóti gróflega 2. gr. stjórnarskrár lýðveldisins. Margir eru nú spurðir af minna tilefni hvort þeir séu andlega heilbrigðir?

Eins og hér hefur verið rakið er greinin þín í Morgunblaðinu að meginstofni til argasta bull og hlaðin svo miklum ósannindum og rangfærslum að hún er þér og stétt þinni til verulegrar smánar. Best væri að þú bæðist opinberlega afsökunar á þessari vitleysu þinni og dragir greinina til baka.

Þetta bréf mun birtast á Netinu, á bloggsíðu minni "gudbjornj.blog.is." Auk þess mun þetta verða efni í ritverk sem ég er að vinna að, um heimskuverk hámenntaðra manna.

Ég mun biðja þess að Guð hjálpi þér að gera ALDREI oftar svona lítið úr sannleikanum og réttlætinu, eins og þú gerðir í þessari grein.

Guð blessi þér framtíðina.

Reykjavík 30. janúar 2008
Guðbjörn Jónsson



 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Góð úttekt hjá þér Guðbjörn og þér líkt að tala ekki bara í ályktunum heldur styðja þær gildum rökum.

Meinið í þessu öllu er hinsvegar orðið afar illkynjað og ekki sýnilegt að lækning sé í nánd. Og meinið er þessi viðtekna forherðing framkvæmdavaldsins sem birtist í yfirlýsingunni: VALDIÐ ER HJÁ MÉR !

Mér sýnist þú vera búinn að verðfella þær yfirlýsingar.

Árni Gunnarsson, 30.1.2008 kl. 17:39

2 Smámynd: Guðrún Jóhannesdóttir

jahérna!  ekki af baki dottinn strákurinn, en mikið er þetta gott hjá þer.

Knús inn í nóttina

Guðrún Jóhannesdóttir, 31.1.2008 kl. 00:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 165603

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband