Er Íslenskt efnahagslífi háð stöðugu framboði lánsfjár???

Hvernig lifir fjölskylda af í þjóðlífinu án stöðgs aðgangs að lánsfé?

Hvað er það í þjóðlífinu sem gerir kröfu um stöðugan og vaxandi aðgang að meira lánsfé?

Er sama hvernig og í hvað við ráðstöfum því fé sem við tökum að láni erlendis?

Er það nauðsynlegt lífshamingju okkar að geta stöðugt aukið skuldir okkar, án tillits til öflunar tekna til að endurgreiða þegar tekin lán?

Kunnum við ekki lengur að lifa streitulausu lífi; leyfa lífinu að líða fram með alheimsorkunni og í takti við hana, svo við höfum tíma til að njóta þeirra hamingju sem lífið hefur upp á að bjóða?

Framganga helstu "fjármálaspekinga" okkar og fjölmiðla, undanfarnar vikur, bendir ótvírætt til alvarlegs þekkingarskorts á því sem kalla mætti "eðliega" framþróun þjóðfélags, í takti við verðmætasköpun, meðferð og nýtingu verðmæta. Erum við virkilega eins illa stödd með þekkingu á rekstri sjálfstæðs þjóðfélags, eins og fregnir og umræða undanfarinna vikna ber með sér? Sé það í raun svo, er knýjandi þörf á að kalla til alvöru þekkingu á rekstri þjóðfélags, svo okkur verði forðað frá gjaldþroti og smán óráðsíunnar. Lengst af höfum við verið meðal þeirra þjóða sem skapa hvað mestar þjóðartekjur á mann, en þess sést ekki staður í lífsafkomu fjöldans. Samhliða þessari niðurstöðu er þjóðin komin langt út fyrir öll velsæmismörk í skuldasöfnun. Greinilega þarf nýja og öðruvísi hugsun ef ekki á illa að fara.

Fyrsta spurningin hér að ofan - Hvernig lifir fjölskylda af í þjóðlífinu án stöðgs aðgangs að lánsfé? - er í raun grundvallarspurning sem allar fjölskyldur þurfa að spyrja sig. Nú, þegar skuldasöfnun er komin að ystu mörkum  hins mögulega, er ekkert mikilvægara en ná tökum á væntingum sínum og setjast yfir jarðbundinn raunveruleika þess hvaða lífsafkomu tekjur hvers heimilis skapa því og hvernig þær tekjur verði sem best nýttar til sköpunar lífsgæða og lífshamingju. Þessa grundvallarskyldu uppfylla margir, þó enn séu þeir of margir sem gera það ekki, samanber stöðugt vaxandi skuldir heimilanna. Vafalaust segja margir, réttilega, að þetta sé ekki hægt eins og tekjur þeirra séu. Það þýðir einfaldlega að við þurfum að breyta leikreglum í samfélagi okkar en ekki halda áfram skuldasöfnun.

Önnur spurningin hér efst var - Hvað er það í þjóðlífinu sem gerir kröfu um stöðugan og vaxandi aðgang að meira lánsfé? - Ýmis lýsingarorð má nota til að skilgreina það sem veldur slíku ástandi. Þau fjalla að vísu flest um óraunveruleika byggðan á skorti á heildaryfirsýn og flæði saman við þann veruleika sem er og fyrirsjáanlegur er á næstu árum. Þær væntingar til draumsýnar, sem einkennir svo mjög þá mynd sem gerð er af framtíðinni, á að verulegu leiti rót sína í þeim óraunveruleika sem settist að í lífsmynd fólks fyrir 40 árum, þ. e. 1968, með svo kallaðri byltingu blómabarnanna. Sú lífsmynd var byggð á draumsýn ungs fólks, sem ekki hafi öðlast þroska til heildaryfirsýnar, né skilnings á hverjar grunnþarfir sjálfstæðs þjóðfélags eru. Mörg þessara viðhorfa lifa góðu lífi enn í dag og eru m. a. merkjanleg í því hve margir trúðu því í raun að við værum svo rík þjóð að við gætum nánast hvað sem var og þyrftum ekkert að fara vel með fjármuni eða önnur verðmæti. Alið var á þessu viðhorfi með stöðugu innstreymi lánsfjár, sem mokað var í allar áttir, án hugsunar um endurgreiðslu eða áhrifa þess á komandi framtíð. Mikilvægast fyrir okkur nú, er að endurskoða væntingar okkar til framtíðarinnar, á álíka hátt og sá þarf að gera sem stendur frammi fyrir gjaldþroti. Hann getur ekki byggt væntingar sýnar á því að fá lánsfé fyrir því sem hann vill gera. Hann verður að afla tekna fyrir því sem hann vill veita sér, áður en hann fer að fjárfesta eða eyða fjármunum. Þetta er því fyrst og fremst endursköpun hugans sem er lykillinn að betri tíð framundan.

Þriðja spurningin var þessi - Er sama hvernig og í hvað við ráðstöfum því fé sem við tökum að láni erlendis? - Svörin við þessari spurningu eru vafalaust misjöfn. Einn grunnur ætti þó að vera sameiginlegur hjá öllum sem taka fjármuni að láni. Það er spursmálið um getuna til að endurgreiða lánið.  Ef við tökum lán til að stofna til atvinnureksturs, þarf að vera öruggt að tekjur af starfseminni verði nægar til greiðslu rekstrarkostnaðar, ásamt afborgunum og vöxtum af lánsfénu. Framhjá þessari grunnforsendu er alltof oft litið, enda rekstur oft skammlífur hér á landi. Ef við tökum fé að láni til eigin nota, verðum við að gera okkur grein fyrir því að það lán þarf að endurgreiðast af tekjum okkar. Við þyrftum því að spyrja okkur, áður en lánið er tekið, hvort nægur afgangur sé af tekjum okkar til að endurgreiða lánið. Ef tekjuafgangur reynist ekki vera fyrir hendi, er heppilegra fyrir langtímahamingjuna og heilsuna, að sleppa lántökunni, endurmeta væntingar sínar og beina þeim í aðrar áttir en þær sem kalla á aukin peningaútgjöld.

Fjórðu og fimmtu spurnignuna ætla ég að láta fólki eftir að velta vöngum yfir. Ég ætla hins vegar að enda þessar vangaveltur um skuldasöfnun okkar Íslendinga á því að segja að sú staða sem nú er upp komin er alls ekki að öllu leiti óraunsæi og "barnaskap" forystu lánastofnana að kenna. Stjórnmálamenn eiga þarna verulega stóran hlut að máli, auk þess sem þessi skuldasöfnun hefði ekki orðið til ef fólkið í landinu hefði ekki verið tilbúið að henda dómgreind og raunsæi fyrir borð og stokkið á hið stjórnlausa ský græðgisvæðingarinnar sem drifið hefur áfram helsta fíkniþátt mannsins, sem felst í flóttanum frá raunveruleikanum.               


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heill og sæll, Guðbjörn !

Þakka þér; mjög greinagóða úttekt þarna, sem fyrr.

Eins og málum er nú háttað, virðist; sem fyrirsögn þín sé, allvel, við hæfi.

Með beztu kveðjum, sem fyrr / Óskar Helgi Helgason

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 2.3.2008 kl. 16:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband