Tenging við tekjur maka hefur ALDREI verið lögleg

Að vísu ber að fagna því þegar Alþingi tekur ákvörðun um að láta Tryggingastofnun hætta að brjóta stjórnarskrá á sjúklingum og eldriborgurum. Betra hefði þó verið að þeir sýndu þann manndóm strax þegar þeim var bent á  afbrot sitt, að þá hefðu þeir hætt lögbrotunum og leiðrétt vitleysuna. Því miður höfðu þeir ekki manndóm í sér til þess; ekki einu sinni að svara því erindi sem til þeirra var sent, eða veita þann fund sem óskað var eftir.  Þeir vissu greinilega að þeir höfðu engan málstað að verja og vildu hvorki láta slíkt sjást í rituðu máli eða á myndbandi. Ég læt hér fylgja hluta úr greinargerð sem TR var send í nóvember 2006 og þeir hafa ekki svarað enn.

Hér kemur kafli úr erindinu til Tryggingastofnunar: 

 Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið og með vísan til framangreindra ákvæða stjórnarskrár, er augljóst að ákvæði almannatryggingalaga nr. 117/1993, um samtengingu tekna hjóna við útreikning tekjutryggingar og tekjutryggingarauka vegna greiðslu elli- og örorkulífeyris, stenst ekki ákvæði 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrár. Ástæðan er þessi.
 
Einstaklingar í óvígðri sambúð eru hvor um sig fjárhagslega sjálfstæðir aðilar sem bera engar fjárhagslegar skuldbindingar hvor gagnvart öðrum. Þær tekjur sem hvor um sig hefur aflað eru hans eign og njóta þar með verndar 72. gr. stjórnarskrár, en þar segir:
 
72. gr. [Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.
 
Eins og þarna kemur afar skýrt fram eru tekjur hvors sambúðaraðila fyrir sig friðhelgar. Ef grípa ætti inní friðhelgi eignarréttar aðila á tekjum sínum, yrði slíkt að gerast með lagasetningu þar að lútandi á Alþingi, í hverju einstöku tilviki. Slíkt hefur ekki verið gert. Það ætti því að vera flestum skynsömum mönnum ljóst að ákvæði almannatryggingalaga um tengingu tekna tveggja einstaklinga, til skerðingar á lífeyrisréttindum annars þeirra, er utan þeirra lagaheimilda sem Alþingi hefur, samkvæmt framangreindum ákvæðum stjórnarskrár okkar.
 
Hið sama á í raun við um einstaklinga sem búa saman í vígðri sambúð (hjónabandi). Hvor aðili um sig ber fulla ábyrgð á kostnaði vegna eigin framfærslu, auk þess sem hann ber að hluta ábyrgð á framfærslu afkomenda sinna á móti sambúðaraðilanum. Þetta kemur skýrt fram í VII kafla hjúskaparlaga Ábyrgð hjóna á framfærslu fjölskyldu sinnar. En þar segir í 1. mgr. 46. gr. svo um ábyrgð hjóna:
 
46. gr. Hjón bera sameiginlega ábyrgð á framfærslu fjölskyldunnar. Til framfærslu telst það sem með sanngirni verður krafist til sameiginlegs heimilishalds og annarra sameiginlegra þarfa, uppeldis og menntunar barna og sérþarfa hvors hjóna. Um framfærsluskyldu gagnvart börnum gilda að öðru leyti ákvæði barnalaga.
 
Framlag annars maka til sérþarfa hins verður hjúskapareign viðtakanda nema sérstök heimild sé til að telja það séreign.
 
Eins og hér má greinilega sjá, bera hjón, hvort fyrir sig, fulla ábyrgð á framfærslu fjölskyldunnar. Ekki er gert ráð fyrir að annar aðilinn yfirtaki ábyrgð hins, þó sá aðili verði af einhverjum ástæðum ófær um að afla tekna til að uppfylla skyldur sínar gagnvart fjölskyldunni.
 
Eins og hér hefur verið sýnt fram á, er ekki um það að ræða í húskaparlögum að annar aðilinn yfirtaki skyldu hins til framlags tekna til frumframfærslu sinnar, enda væri það afar andstætt eðli og tilgangi hjónabandsins. Sá tilgangur felst í því að tveir sjálfstæðir einstaklingar lofa Guði því að elska og virða hvorn annan og standa saman að uppeldi og menntun barna sinna.
 
Hér hefur verið sýnt fram á að TR hefur engar gildar lagastoðir til að tengja lífeyrisgreiðslu til mín, við tekjur konu minnar. Mér ber skylda til þess að leggja til minn hluta af sanngjörnum og eðlilegum útgjöldum heimilisins til framfærslu okkar. Þar sem ég get það ekki vegna heilsubrests, er það skylda samfélagsins, með vísan til 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrár, að aðstoða mig við að uppfylla þessa skyldu mína. Ákvæði almannatryggingalaga nr. 117/1993 um tengingu lífeyrisréttinda minna við tekjur konu minnar eru andstæð, 65. 72. og 76. gr. stjórnarskrár og eru því ómerk og ógild.
 
Í ljósi alls framanritaðs mótmæli ég útreikningum ykkar sem ólögmætum og röngum, samhliða því sem ég geri kröfu um að leiðréttar verði þær skerðingar sem sem framkvæmdar hafa verið á greiðslum mínum á árinu 2006.
 
Einnig ítreka ég ósk mína um fund með þeim aðila sem ber ábyrgð á skerðingum greiðslna til mín, hvort sem hann er hjá TR eða hjá heilbrigðisráðuneyti. Fundurinn mun verða tekinn upp á myndband til að forðast mistúlkun þess sem þar kemur fram.
 
Virðingarfyllst
 
Reykjavík 23. nóvember 2006
 
Guðbjörn Jónsson
 
----------------------- 

Þessum rökum sem þarna er sett fram hefur Tryggingastofnun ekki enn treyst sér til að svara eða mótmæla, en hefur samt haldið áfram að brjóta stjórnarskrána, eins og þarna er bent á. Þetta fólk sem situr á Alþingi og í stjórnarstofnunum virðist vera búið að glata virðingu fyrir réttlæti og lýðræði, því miður.


mbl.is Tenging tryggingabóta við tekjur maka afnumin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 8
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 59
  • Frá upphafi: 165772

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband