Ekkert verður til úr engu

Sá óvitagangur sem viðhafður hefur verið í peningamálastefnu okkar undanfarin ár, er með ólíkindum. Allir sem beita heilbrigðri hugsun, vita að vöxtur verður ekki til úr engu. Það er líka löngu þekkt, að engin gjaldmiðill getur staðið einn og óstuddur; ekki einu sinni hin viðurkennda heimsviðskiptamynt, Bandaríski (USA) dollarinn.

Hvaðan sú kjánahugsun er upp runnin að krónan okkar, ein af minnstu mynteiningum veraldar, gæti staðið ein og óstudd í ólgusjó heimsviðskiptanna, verður sennilega aldrei opinberað. Enda er það kjánaheimska liðins tíma, sem við höfum nú í höndum áþreifanlegan árangur af; og eigum að læra af.

Við ættum að vita, að fyrst USA getur ekki (og hefur ekki í áratugi getað) tryggt verðgildi dollarsins, án utanaðkomandi stuðnings, jaðrar það líklega við hámark heimskunnar að ætla krónunni okkar að geta ein og óstudd haldið verðgildi sínu.

Þegar hugsuðir frjálshyggjunnar skilgreindu hugtakið "Markaðshagkerfi", gleymdu þeir mikilvægasta grundvallarþætti alls vaxtar, sem er uppruni vaxtarins, uppruni verðmætanna. Allskonar villandi hugtök urðu ríkjandi, s. s. að veltuaukning, þó hún væri framkvæmd með utanað komandi lánsfé, fékk nafnið "hagvöxtur" eða "þjóðarframleiðsla", eftir því í hvaða samhengi var rætt um hina auknu veltu. Ýmis fleiri gildi voru afvegaleidd til að fela raunveruleikann í orðagjálfri talnaleikja. Árangurinn varð sífellt minnkandi ábyrgð fyrir hinum raunverulegu sannindum, og meira að segja dregið í efa hugtakið "rétt". Afleiðingin varð stöðugt vaxandi óöryggi um raunveruleg gildi viðfangsefna.

Hinn kaldi raunveruleiki vaxtar hefur ævinlega verið einn. Líkt og að tréð vex upp frá fræinu sem sett er í jörðina, og allur vöxtur trésins kemur síðan frá gjafara vaxtarins og uppruna verðmæta hans, kemur raunverulegur vöxtur hagkerfis ævinlega frá uppsprettu sköpunar raunverulegra verðmæta, sem eiga upptök sín innan hagkerfisins. Það er hægt að stækka blöðru með því að blása meira lofti í hana, svo hún stækki, en hið raunverulega efni í blöðrunni eykst ekkert við það. Hins vegar eykst álagið á hið raunverulega efni og hætta vex á því að blaðran springi. Svo er og með hagkerfi sem þanið er út með lánsfé, án raunverulegs innri vaxtar.

Ef við gefum okkur tækifæri til að setjast niður og íhuga það sem gerðist, og afleiðingar þess fyrir hagkerfi okkar, sjáum við vonandi sem flest, hve frjálshyggjan hefur rangtúlkað hugtakið "frelsi" og misbeitt því alvarlega í gróðahugsjón fyrir þá frekustu. Gróða sem í mörgum tilfellum var einungis sýndarveruleiki, sem nú er horfinn, eftir að blaðran sprakk, sem þessi sýndarveruleiki var byggður á.

Við uppbygginguna sem farmundan er, teldi ég afar mikilvægt fyrir þjóðina að forðast "markaðshagkerfi" að hætti hugsuða þeirra kerfa sem nú hafa keyrt heimsfjármálin í strand. Förum varlega og hugum vandlega að rótum og innri vexti þeirra auknu umsvifa sem fæðast munu í þjóðfélagi okkar á komandi árum. Með þeim hætti tryggjum við afkomu og hamingju komandi kynslóða hér á Íslandi.                  


mbl.is Peningamálastefnan verði endurskoðuð strax
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband