Hverjar eru hugmyndir mótmælenda og hvernig á að koma þeim í framkvæmd ?

Mikilvægt er að þeir sem standa fyrir mótmælum hafi skýra mynd af þeim breytingnum sem þeir vilja ná fram og geti séð fyrir sér hvernig hún verði að veruleika. Jafnframt er nauðsynlegt að þeir sýni að þeir gangi ekki svo fram í eigin vinsældakappi, að aðgerðir þeirra skaði heildarhagsmuni þjóðarinnar, því þá væri verr af stað farið en heima setið.

Ein af aðalkröfum mótmælenda var að kosið yrði strax, sem eðli málsins samkvæmt gat varla orðið fyrr en í vor.  Nú er búið að ákveða að kosið verði í maí. Það mál er því í höfn.

Næsta krafa var að ríksistjórnin færi strax frá og mynduð yrði önnur stjórn eða jafnvel utanþings stjórn.  Þessi krafa var mikilvæg ef ekki næðist fram samstaða stjórnarflokkanna um að kjósa í vor. Bráðabirgðastjórn, hvort sem væri skammtíma minnihlutastjórn á Alþingi eða utnaþingsstjórn, hefðu í raun afar takmarkaðar heimildir og möguleika til annarra aðgerða en sem heyrðu til venjulegs reksturs þjóðfélagsins. Við slíkar aðstæður yrðu allar hjálparaðgerðir til handa heimilum og atvinnulífi afar erfiðar og vafasamt að aðgerðir yrðu stórtækar fyrr en eftir kosningar og myndun nýrrar ríkisstjórnar.

Í ljósi þess að kosningar eru ákveðnar í vor, má segja að uppi sé heppilegasta staða sem við getum haft; að núverandi stjórn verði við völd fram að kosningum. Hún hefur öll nauðsynleg völd og umboð til að grípa til þeirra aðgerða sem samkomulag næst um. Verkefnið framundan er því að finna leiðirnar sem fara skal og koma þeim leiðum á framfæri við ríkisstjórn og alþingismenn. Í aðdraganda kosninga munu þessir aðilar ekki standa mjög þversum fyrir úrbótum sem augljóslega njóta stuðnings mikils hluta þjóðarinnar.

Nú þegar er hafin vinna við endurskipulagningu lýðveldis okkar, án þess að nokkur hafi verið laminn eða grýttur. Í þeim hópi hefur verið lögð áhersla á málefnin í stað hávaða og illinda. Líkur benda til að frá þeim hópi komi hugmyndir um breytt þjóðskipulag, sem færa mun okkur mun betra, opnara og kærleiksríkara samfélag en það sem við höfum lifað við.

Í ljósi þeirrar stöðu sem mér sýnist komin upp, sé ég ekki þörf fyrir frekari hróp, köll eða barsmíðar. Þeir sem vilja haga sér eins og óþekkir krakkar í sælgætisbúð, geta svo sem haldið hávaðanum áfram, meðan hinir leitast við að bjarga því sem hægt er að bjarga. Fólki verður væntanlega ekki bannað að hrópa og berja potta og pönnur, en hver metur þörf sína fyrir slíkt, eftir hæfileikum til að skynja alvarleika þeirrar stöðu sem við erum í.                              


mbl.is Landsmenn taki þátt í friðsömum mótmælum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Guðbjörn. Ég vil benda þér á að tvær kröfur mótmælenda er ekki uppfylltar: Að stjórn Seðlabankans víki, sem stjórn Fjármálaeftirlitsins. Atburðir síðustu mánaða hafa sýnt að þessir embættismenn eru með öllu vanhæfir. Þar sem þeir hafa ekki siðferðisstyrk til að segja af sér stöðu sinni, ætti að segja þeim upp.

Ásdís Thoroddsen (IP-tala skráð) 23.1.2009 kl. 20:08

2 Smámynd: Júlíus Björnsson

Guðbjörn með því að hlusta á ráðmenn hingað til og í ljósi þess að mesta heimskreppa er að koma fram á síðari tímum [heimspressan svertir útlitið dag frá degi, hraðar og hraðar] þá treysti ég alls ekki þeim sem nú setja [tala nú ekki um af heilsufarlegum ástæðum, og nú síðast við brottfall Geirs: faglegum] til að vera í forsvari fyrir þann niðurskurð sem er aðkallandi.

Utanþingstjórn fram að áramótum og mér liði betur ef menn eins og þú , Indriði Þorláksson, Vilhjálmur Bjarnason, Rannveig Rist, ... væruð yfir málum.  Menn sem kunna að lesa úr efnahagsreikningum og hagfræðiskýrslum og taka sjálfstæðar ákvarðanir í framhaldi.

Ef ég myndi ráða myndi ég byrja á því að vinda ofan af fjármálageiranum hér sem var neytandi 79%  innlendra útlána 2007. [34% verslun og þjónusta meðtalinn]. Sér í lagi þar sem ESB virðist ekki hlynnt því að hér verði alþjóðafjármála miðstöð í framtíðinni.

Júlíus Björnsson, 23.1.2009 kl. 20:54

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Í aðdraganda margra kosninga hafa ríkisstjórnarflokkar notað ráðherravald sitt á hugmyndaríkan þátt við að afla flokkum sínum fylgis með loforðum fram í tímann til handa einstökum kjördæmum. 

Vegna ráðaleysis þessarar ríkistjórnar og í raun Alþingis alls hlýtur utanþingsstjórn að teljast rökréttur valkostur.  Því það að hafa einungis umboð til að fara með daglegan rekstur ríkisins er það eina rétta í aðdraganda kosninga.

Magnús Sigurðsson, 23.1.2009 kl. 21:45

4 Smámynd: Júlíus Björnsson

Mér sýnist á öllu að ESB sé búið að tryggja lágvörumörkuðum sínum allan íslenska fisk á lágengi íslensku krónunnar næstu 10 árin. Það hljómar nú eins og endalaus niðurskurður innanlands.

Júlíus Björnsson, 23.1.2009 kl. 22:13

5 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Sæl Ásdís!  Mikilvægt er að átta sig á hvað ógnar manni á þeim tíma sem framundan er, ekki síður en að átta sig á hvað olli þeim hörmungum sem yfir okkur gengu. Allur sá skaði sem Seðlabanki og sofandi Fjármálaeftirlit ollu, er kominn framhjá og þegar komin í úrvinnslu. Öll sú starfsemi sem þessar stofnanir áttu að hafa eftirlit með, hefur verið slegin af eða sett undir sérstaka gjörgæslu. Hættan sem stafar af þessum stofnunum næstu tvo mánuði er því hverfandi, en þegar nýtt þing verður kosið, verður opnar forsendur til mannabreytinga þarna, bæði í stjórnum og starfsmannaráðningum.  Nýir menn, sem settir væru inn núna, af þeim stjórnvöldum sem eru að fara frá eftir tvo mánuði, myndu engar rósir gera, því umboð þeirra væri svo skammvinnt. Ég hef því sagt að það sé mikilvægt fyrir mótmælendur að komast upp fyrir heimtufrekju barns í sælgætisbúð, og skilja mikilvægi þessara mánuða sem framundan eru.

Af ofangreindum ástæðum, ásamt mörgum fleiri, tel ég mikilvægt að mótmælendur snúi sér nú að því að breyta siðrænum gildum í stefnumiðum og starfsháttum starfandi stjórnmálaflokka og hefja þar aftur til vegs og virðingar hin gömlu gildi heiðarleika og trúmennsku við fólkið í landinu, umfram hollustu við þrönga flokkshagsmuni.

Tveir mánuðir eru fljótir að líða, þess vegna er mikið meiri þörf á að hefja þegar í stað hópáróður fyrir breytingum á stefnumiðum og starfsháttum stjórnmálaflokkanna, en standa á Austurvelli og hrópa VANHÆF RÍKISSTJÓRN, því slíkt skilar okkur engum úrbótum þess siðspillta umhverfi sem starfshættir stjórnmálaflokkanna láta viðgangast. 

Guðbjörn Jónsson, 24.1.2009 kl. 14:41

6 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Sæll Júlíus! Mér finnst líklegt að þingmenn og ráðherrar hugsi málin út frá öðrum forsendum nú, þegar búið er að ákveða kosningar eftir þrjá mánuði. Ég tel víst að þeir skilji að niðurskurður sem þeir færu að ákveða nú, sem væri andstæður vilja stórs hluta þjóðarinnar, yrði sleginn að eða breytt verulega eftir að nýtt þing kæmi saman. Þó þetta fólk hafi sýnt þjóðinni ótrúlega mikla lítilsvirðingu, með þöggun og þögn yfir aðstæðum og leiðum til úrbóta, tel ég að þeim sé ekki alls varnað í skilningi og geti því skilið ofangreinadr aðstæður.

Ég er hins vegar sannfærður um að mikilvægasta verkefni almennings (ekki bara mótmælenda) fram að kosningum, sé að endurskapa siðræn gildi stjórnmálaflokkanna, þannig að eitthvert gagn verði að kosningunum.

Samdráttur í þjónustugeirum þjóðfélags okkar verður umtalsverður, enda var umtalsverður hluti þeirrar starfsemi drifinn áfram með erlendu lánsfé. Sá samdráttur verður óhjákvæmilega sársaukafullur fyrir marga, en er engu að síður óumflýjanlegur til að geta náð jafnvægi á þjóðarbúskapnum.

Það er þekkt, að með EES samningnum var gerður samningur við ESB um að selja þeim stærstan hluta af fiskafurðum okkar, sem hráefni til úrvinnslu hjá þeim. Tollafríðindi okkar lúta nánast öll að því að við afhendum fiskinn sem hráefni til úrvinnslu, en ekki sem fullunna vöru. Slíkar vörur njóta afar lítilla tollfríðinda og margar engra. Um þessi málefni væri hægt að skrifa langt mál, því hagsmunir okkar voru að svo mörgu leiti sniðgengnir við gerð EES samningsins. Hagsmunahallinn í þeim samning var svo verulegur, til ESB, að það risu á mér hárin oftar en einu sinni í þeim skilmingum.

Guðbjörn Jónsson, 24.1.2009 kl. 15:13

7 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Sæll Magnús!  Það er rétt hjá þér að ráðherrar hafa oft misnotað stöðu sína sem ráðherra og tekið sér vald sem þeir hafa ekki. Ég hef oft bent á þessar heimildarlausu athafnir, þó núverandi menntamálaráðherra sé líklega stórtækastur, vegna umboðslausra ákvarðana í sambandi við Tónlistarhúsið. Þessar reglur þarf nauðsynlega að skilgreina betur þegar nýtt þing kemur saman og endurnýja lögin um ráðherraábyrgð.

Þar sem búið er að ákveða kosningar eftir þrjá mánuði, tel ég víst að einungis yrði útgjaldaauki af því að setja á stofn utanþingsstjórn, því hún gæti líklega ekki komið með það miklar sparnaðartillögur á svona skömmum tíma, að það dygði fyrir þeim útgjöldum sem af slíkri stjórn yrði. Ég tel því þjóðhagslega heppilegast, eins og ég hef sagt hér að ofan, að við einhendum okkur í endurskoðun siðrænna gilda stjórnmálaflokkanna, svo þar verði hægt að gera nauðsynlegar breytingar á komandi landsþingum þeirra. 

Guðbjörn Jónsson, 24.1.2009 kl. 15:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 8
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 59
  • Frá upphafi: 165772

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband