Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Ofbeldi flokkast varla sem mótmæli

Það er skýr greinarmunur á því að búa sér til tækifæri til að fá útrás fyrir ofbeldis og skemmdarfýsn, eða að mótmæla aðgerðum eða ástandi með rökum eða friðsömum þrýstingi.

Sá ofbeldishópur sem þarna virðist á ferð, er ekki að vinna að hagsmunum þjóðarinnar, heldur fyrst og fremst að fá útrás fyrir eigin innibyrgða ofbeldisþörf og skemmdarfýsn.

Framkoma þeirra sýnir fyrst og fremt hve litla dómgreind þeir hafa. Líklega væri best að fara með þá í æfingasal boxarafélagsins og láta þá berja sandpoka þar til ofbeldisþörf þeirra er fullnægt.  Það yrði þá kannski friður fyrir þeim í fáeina daga.                          


mbl.is Kryddsíld lokið vegna skemmdarverka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Austurhöfn TR ehf. virðist ekki eign ríkisins

Í fréttinni er sagt að Austurhöfn TR sé í eigu ríkis og Reykjavíkurborgar. Þetta virðist ekki vera rétt. Austurhöfn TR ehf. er með kennitöluna 490703-3220, sem bendir til að félagið hafi verið skráð í júlí 2003. Heimildir til stofnunar slíks félags í eigu ríkisins, þarf að leita hjá Alþingi. Slík lög er ekki að finna í lagasafni Alþingis. Það er því beinlínis rangt að ríkið beri einhverja ábyrgð á þessu félagi, en hvort Reykjavíkurborg hefur staðfest heimild til stofnunar þess mun ég kanna eftir áramótin.

Þetta er eitt af afar mörgum tilvikum um að stjórnarandstaðan hafi ekki staðið eðlilega að vörnum gegn spillingu, þar sem þeir hafa ekki vakið athygli þjóðarinnar á því ólögmæta athæfi sem þarna virðist hafa verið viðhaft, verði það staðfest að ríkið sé skráð sem annar eigandi eignarhaldsfélags sem beri nafnið Austurhöfn TR ehf.

Hvers konar dugleysi er það hjá stjórnarandstöðu að geta ekki varið þjóðina gegn svona lögbrotum og siðleysi stjórnvalda? Er þetta af áhugaleysi á málefnum þjóðarinnar, eða er þetta af völdum þekkingaleysis á mikilvægi stjórnarandstöðunnar, fyrir lýðræðisvitundina í landinu?                  


mbl.is Húsið bíður óklárað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er það léttvægt að ráðherra brjóti sjórnarskrá ?????

Ég skal viðurkenna að ég hef ekki enn lesið allt álit Umboðsmanns Alþingis, en kíkt aðeins á niðurstöðuna. Það vakti athygli mína að svo virðist sem Umboðsmaður horfi framhjá grundvallarreglu Stjórnarskrár okkar um þrískiptingu valdsins.

Sú grundvallarregla sem hér er vísað til, er sú að framkvæmdavaldið megi engin afskipti eða áhrif hafa á dómsvaldið, enda kemur það afar glögglega fram í 12. gr. laga um dómstóla nr. 15/1998, að þó dómsmálaráðherra sé ætlað að skipa í dómaraembætti, er honum hvergi ætluð nein áhrif á val milli umsækjenda, að öðru leiti en velja milli jafnhæfra umsækjenda, sem í sjálfu sér er einnig brot á aðgreiningu valdssviða.

Lítum á, sem hliðstæðu, annað sambærilegt atriði stjórnarskrár um þrískiptingu valdsins. Á ég þar við það ákvæði stjórnarskrár að Forseti skipi ráðherra. Ef sá sem Forseti fær umboð til vals ríkisstjórnar klárar það verkefni og skilar til forseta lista yfir þá ráðherra sem hann vilji velja í ríkisstjórn, hefur Forseti ekki vald til að breyta þeim lista. Þar kemur til sambærileg vörn gegn áhrifum  eins valdssviðs (Forsetans) inn á annað valdssviðs (framkvæmdavalds). Forsetanum er falið með lögum að skipa ráðherrana, en hann má ekki velja þá, nema um neiðartilvik sé að ræða.

Sama grundvallarregla á að gilda um skipan dómara, en dómstólar eru þriðja valdssvið stjórnskipunar okkar. Á sama hátt og Forseta er ætlað að skipa ráðherra en ekki velja þá, er dómsmálaráðherra ætlað að skipa dómara, en honum er hvergi í lögum ætlað að koma nálægt vali þeirra sem skipaðir eru.

Lítum á eitt þessu til staðfestingar. Sé ráðherra ætlað að hafa einhver áhrif á niðurstöður nefndar sem honum er falið að skipa, er ævinlega séð svo um í lagatextanum að viðkomandi ráðerra tilnefni einn nefndarmanna og sá skuli vera formaður nefndarinnar.

Í dómstólalögum er dómsmálaráðherra falið að skipa þriggja manna nefnd, sem velja skal úr umsækjendum um dómaraembætti.  Honum er ekki falið að tilnefna neinn nefndarmanna, en sá maður sem tilnefndur er af Hæstarétti, skuli vera formaður nefndarinnar.

Þetta segir svo glöggt sem verða má, að dómsmálaráðherra er hvergi ætluð aðkoma að vali þess sem skipaður verði í stöðu dómara; einungis ætlað að skipa þann sem nefndin velur; sambærilegt við skipan Forseta á ráðherrum í sín embætti.

Þegar þessi mál voru til umfjöllunar skrifaði ég nokkrum lögfræðingum, sem reyndu að verja Árna, en enginn þeirra treysti sér til að svara rökum mínum. Sumt af því sem ég skrifaði er hér á blogginu, frá þeim tíma sem umræðan var, ef menn nenna að fletta þangað.            


mbl.is Telur nýmæli í niðurstöðu umboðsmanns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Voru Jesú og María Magdalena par ??????????????

Nú á seinni árum, þegar kynlíf hefur verið að festa sig í sessi sem fyrsta hugsun mannsins, er í raun skiljanlegt, út frá því sjónarmiði, að fólk skuli leitast við að gera par úr Jesú og Maríu Magdalenu. Slík hugsun bendir þó fyrst og fremst til þess hve fólk, nú á tímum, hugsar yfirborðskennt og virðist lítið reyna að tengja hugsun sína þeim veruleika sem hugarefnið fjallar um.

Þeir sem eitthvað hafa leitt hugann að því hvílíkt undratæki bygging og starfsemi þeirra eigin lífs er, hafa líklega í leiðinni komist að því að hér á jörðinni lifir nokkur hópur fólks, sem í vitund geta verið á öðrum stað en líkami þeirra er staddur. Þetta fólk hefur yfirgefið lægstu kvatir mannshugans og eru óháðir kapphlaupinu um veraldleg gæði, í hvaða formi sem er. Er kynlífið þar engin undantekning.

Þegar betur er skyggnst inn í þetta þróunarferli, má sjá að þegar vitund mannsins hækkar, skilur hann við sig neikvæðar birtingarmyndir af lægstu kvötum mannsins. Og þar sem uppáhalds umræðuefni nútímans, eru neikvæðu birtingarmyndir kynlífsins, girnd og losti, sem eru í hópi lægstu kvata ásamt ýmsum gerðum óheiðarleika og hroka, ætti hugsandi fólki að vera ljóst að slíkar hugsanir rúmuðust ekki í huga Jesú. Hann var á hærra vitundarsviði en nokkur núlifandi maður. Hann var því búinn að skilja við sig allar lægstu kvatir mannsins, s.s. óheiðarleika hroka og kynlíf. Þess í stað hafði hann næma sýn á mátt kærleikans og einlægrar trúarvissu.

Hvað varðar þátt Maríu Magdalenu, kemur greinilega fram alvarlegur skortur skilnings á stöðu konunnar á þessum tímum. Konur á þessum tíma höfðu opinberlega hvorki málfrelsi, tillögu- eða atkvæðisrétt og töluðu ekki á opinberum samkomum. Lífsafkoma konunnar gat falist í því að hún væri gefin ríkum og/eða góðum manni. Og til að eiga möguleika á að vera gefin manni, varð konan að vera hrein mey. Spjallaða konu, eða fráskylda konu, gat enginn sómakær maður tekið sér til sambúðar. Slíkt var álitið skortur á sjálfsvirðingu.

Heimildir mínar um Maríu Magdalenu verða ekki auðveldlega sannaðar á nútímavísu þó ég telji þær nokkuð áreiðanlegar.  Hún var dóttir ríks millistéttarmanns, sem var mjög vandur að virðingu sinni. Hún átti 4 bræður, tvo eldri og tvo yngri, og eina yngri systur. Árið sem hún átti að giftast varð hún fyrir því óláni að tveir úr sex manna herflokki, sem leið áttu hjá, nauðguðu henni, þar sem hún var úti í skógi að tíma ávexti fyrir heimilið. Þegar hún kom heim, illa til reika í rifinni skikkju, og sagði frá atburðunum, varð faðir hennar óður og rak hana að heiman.

Í hart nær áratug flæktist hún um héruð og vann fyrir sér sem vinnukona og ýmiskonar önnur störf. Það er svo um svipað leiti og Jesú byrjar að ferðast um og kenna, sem ríkur efristéttarmaður finnur hana illa til reika, og ræður hana til hússtarfa hjá sér.

Dag einn, er hún fór að Musterinu, til að færa húsbónda sínum skilaboð, heyrði hún Jesú í fyrsta sinn tala, og honum aðeins bregða fyrir.  Nokkru síðar, þegar Jesú sat kvöldverðarboð hjá húsbónda hennar, varð henni á að það skvettist örlítið úr vínskál sem hún var að bera á borðið, og lenti skvettan á fæti Jesú. Varð Maríu svo mikið um að hún kraup niður og þurrkaði fætur hans með hári sínu. Fætur hans þornuðu samt lítið, því þeir vöknuðu jafnharðan af tárum hennar, því kærleikurinn sem frá Jesú streymdi gekk beint inn í helsært hjarta hennar.

María Magdalena var sögð skarpgreind og skynsöm kona sem ævinlega gat fundið til með öðrum, þó lífskjör hennar væru oftast bágborin. Hið helsærða hjarta hennar þyrsti í kærleika og viðurkenningu, en í hennar ættkvísl var ekki um neitt slíkt að ræða. Þar var hún útskúfuð.

Þegar Jesú yfirgaf kvöldverðarboð húsbónda Maríu, hið umrædda kvöld, er hún þerraði fætur hans með hári sínu, ræddi Jesú við Maríu, því hann fann hve sárt hjarta hennar blæddi. 

Daginn eftir kom María að máli við húsbónda sinn og sagðist vilja hætta, því hún ætlaði að fylgja Jesú.  Hann var hlyntur þeim boðskap sem Jesú boðaði, en stöðu sinnar vegna mátti hann ekki láta það uppskátt.  Bundust hann og María þarna trúnaðarböndum, um að hún léti hann vita ef hann gæti á einhvern hátt lagt baráttu Jesú lið, án þess að það yrði opinbert.

María varð fljótt einskonar foringi í hópi þeirra kvenna sem fylgdu Jesú. Hún gat útvegað klæði í skikkjur og konurnar saumuðu, útveguðu matvæli og matreiddu. Vegna alls þessa varð hún þekkt og átti trúnað ýmissa efnamanna sem studdu Jesú, án þess að gera það opinbert.

María heillaðist mjög af kærleiksboðskap Jesú. Þau ræddu því oft saman. Lærisveinarnir voru flestir svolítið afbrýðisamir út í hana, því hún virtist alltaf skilja dæmisögur Jesú, en þeir áttu flestir, lengst af, erfitt með að meðtaka boðskapinn. Einn þeirra sá þó Maríu öðrum augum, en það var hinn ríki tollheimtumaður Matteus, sem varð ástfanginn af Maríu. Var sú ást endurgoldin. Reglur samfélags þeirra bönnuðu þó að þau giftust, því Matteus var ekkill og stöðu sinnar vegna í samfélaginu mátti hann ekki giftast konu af lægri stéttum. Jesú vissi af ástum þeirra, en þar sem þau fóru hljótt með samband sitt, lét hann kyrrt liggja, því eins og hann sagði oft; það sem Guð hefur sameinað, það á maðurinn ekki sundur að slíta.

Hin mikla saga Maríu Magdalenu verður aldrei skráð til hlítar. Það er hins vegar afar dapurt að nútímafólk skuli eiga svona erfitt með að hefja sig upp fyrir hinar lægstu kvatir mannsins, að það vilji helst draga Jesú þangað niður til sín.

Ég vona að sú uppstokkun á hugsunarhætti sem framundan er, íti fólki aðeins upp frá þessum lægstu kvötum og það reyni að teyja sig eftir hinum verðmætu eiginleikum sem hinn þroskaði kærleikur veitir.                    

                   


mbl.is María Magdalena veldur áhyggjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jólakveðja

Kæru bloggvinir og aðrir lesendur þessarar bloggsíðu!

Guð gefi ykkur friðsöm og gleðileg jól. Einnig bið ég Guð að gefa ykkur öllum góða heilsu, friðsemd og hagsæld á komandi ári - og árum.

Ég þakka öllum sem sent hafa athugasemdir við pistla mína og minni á að allar skoðanir eru mikils virði, ef þær eru settar fram af heilindum og hjartans sannfæringu. Slíkt auðgar flóru umræðunnar, gerir hana uppbyggilegri og áhugaverðari.

Einnig vil ég þakka Mbl.is fyrir að leggja okkur til þetta form til skoðanaskipta og bið þeim blessunar við áframhaldandi þróun þessa vefsvæðis.

Ég bind vonir við að auðgast af víðsýni og þekkingu gegnum lestur og skrift á þessum bloggvef á komandi ári og bið Guð að geyma ykkur öll.

Með kveðju,

Guðbjörn Jónsson            


Undarlega að orði komist

Það er undarlega að orði komist að hvetja til aukningar á hagvexti í heiminum, þegar öllum, í hans stöðu, á að vera ljóst að búið var að þenja umsetningu og veltu heimsviðskiptanna út fyrir þanþol verðmætasköpunar.

Eðlilegra hefði verið af manni í þessari stöðu, að hvetja ríkisstjórnir til að stýra sem best nauðsynlegum samdrætti útgjalda viðskiptalífsins, þannig að nauðsynleg minnkun á veltu kæmi sem minnst niður á nauðsynlegri þjónustu, framfærslu-, mennta- og heilbrigðismála.

Ef inntakið í máli hans hefði verið slíkt, hefði ég tekið undir með honum og talið hann skilja vandann. Þessi ummæli bera augljóslega með sér alvarlegan skilningsskort á ástæðum þess að fjármálakerfi heimsins hrundi.                   


mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undarleg tímasetning

Samkeppni um lágt vöruverð er ævinlega af því góða, en óneitanlega er það undarleg tímasetning hjá Jóni Gerald, ef hann hyggst fjárfesta í verslunarrekstri hér á landi næsta áratuginn. Slíkur rekstur er kostnaðarsamur, einkanelga fyrstu árin, meðan aðstaða er fjármögnuð og velvild markaðarins unnin. Ég dreg mjög í efa að slík nýfjárfesting á þessum tíma skili eigendunum peningum sínum aftur.

Á undanförnum árum höfum við séð aðila sem hafa yfir verslunarsamböndum að ráða, fara í lágvöruverðs samkeppni við Bónus. Fram til þessa hafa allir orðið að sætta sig við að Bónus bjóði oftast lægsta verðið, þó einstök óraunsæ lágverðstilboð í skamman tíma hafi verið reynd.  

Þegar litið er til þess að Bónus hefur um langt árabil boðið hagstæðustu verð á venjulegri heimilsvöru, og þannig haldið niðri vöruverði á landinu, kemur manni óneitanlega einkennilega fyrir sjónir að sjá heitstrengingar gegn því fyrirtæki. Líklega hefur engin fjölskylda lagt stærri skerf til að bæta lífskjör á Íslandi, en einmitt fjölskylda Jóhannesar í Bónus.

Þá er einnig algengt að sjá nafn Jóns Ásgeirs sett við hlið þeirra ógæfumanna sem áttu stærstan þáttinn í hruni fjármálakerfis okkar. Vitnað er til þess að fyrirtækin skuldi mikið, sem Jón er tengdur, en reksturinn er líka stór. Fæstir hugsa líklega út í það að starfsfólk þessara fyrirtækja er sennilega álíka fjöldi og allur vinnumarkaður höfuðborgarsvæðisins.

Já, svo hin algengu orð séu notuð: Jón Ásgeir skuldar mikið en engin lána hans eru í vanskilum. Þó tæpt stæði á tímabili, að aðför Breta að Landsbanka og Kaupþingi, setti starfsemi Jóns Ásgeirs í upplausn, komst hann í gegnum þann brimskafl, án aðstoðar íslenskra stjórnvalda og heldur ennþá áfram að skaffa álíka fjölda vinnu, og öllum vinnufærum mönum í Reykjavík, eða jafnvel á öllu höfuðborgarsvæðinu. Hvað eru hinir - "Útrásarvíkingarnir", (sem Jóni Ásgeir er oft spyrt saman við), að gera núna og hvernig komu þeir út úr brimskafli fjármálahrunsins?

Það er  afar sorglegt hve margt fólk í okkar fagra landi, sannar á áþreifanlegan hátt orðtæki máltækisins: Sjaldan launar kálfur ofeldið. Eðlilegt væri að Jóni Ásgeiri sárnaði margt sem um hann er sagt hér, einkanlega þar sem þjóðin telur sig vel menntaða, en opinberar samt svo mikla grunnhyggni og heimsku að ætla mætti að fáir væru læsir. Jón Ásgeir er löngu búinn að sanna sig fyrir alþjóðlegu fjármálaumhverfi sem einn af snjallari rekstrarmótelistum veraldar. Álit lítillar þjóðar á eyju út í hafi, sem sannað hefur að hún kann ekki fótum sínum forráð í fjármálum, breytir að engu því áliti.

Ef einhver finnur upp snjallara rekstrarmótel en Bónus, og getur til langframa boði lægra vöruverð heimilsvöru en þar er í boði, gæti sá aðili sagst standa jafnfætis Jóni Ásgeir. En meðan engum tekst að sýna til langframa janflágt eða lægra vöruverð, eða að öðru eliti sýna álíka eða berti rekstrarhæfni, hefur enginn efni á að kasta steinum.                


mbl.is Hyggst stofna lágvöruverðsverslun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimildarlausar byggingar á að rífa niður.

Það undarlega við byggingu þessa Tónlistar- og ráðstefnuhúss er að ekki finnast neinar heimildir Alþingis fyrir þeim samningum sem sagðir hafa verið gerðir um byggingu þess og rekstur.  Ég hef þrautleitað á vef Alþingis að útgjaldaheimildum vegna þessarar byggingar, en ekki fundið neinar.

Í ljósi þess að svo virðist sem þessi bygging hafi risið án þess að Alþingi hafi samþykkt fjárútlát fyrir henni, tel ég einsýnt að rífa eigi það sem komið er af þessu húsi, því það getur aldrei orðið annað en veruleg byrði á þjóðinni.

Útilokað verður að telja að þetta hús geti aflað tekna til að standa undir kostnaði við byggingu þess og rekstur.  Fyrirsjáanlegt er einnig að næstu áratugina, sé þjóðinni brýnna að nota peninga sýna á annan hátt en að skapa árlega peningahít, til að gleypa peninga sem meiri þörf væri á að nota til reksturs heilbrigðis- mennta- og velferðarkerfi þjóðarinnar.                  


mbl.is Stöðugar viðræður um Tónlistarhúsið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óheimilt að skylda fólk til að greiða styrk til hlutafélags

Ríkisútvarpið var nýlega gert að hlutafélagi. Þar með fékk það sjálfstæða stjórn, eins og önnur hlutafélög og lýtur því ekki lengur BEINNI stjórn frá Alþingi, frekar en önnur hlutafélög. Við hlutafélagsvæðinguna lögðu landsmenn til hlutaféð og fullnægðu með því skyldum sínum gagnvart þessu opinbera hlutafélagi.

Stjórnvöldum er óheimilt að krefja almenning um greiðslu gjalds til hlutafélags. Slíkt er ólögmæt innrás í fjárræði hvers einstaklings. Til slíks gjörnings yrðu stjórnvöld að byrja á því að höfða mál gegn hverjum einstakling fyrir sig, og krefjast hlutdeildar í fjárræði hans, eða svipta hann því að fullu.

Stjórnvöldum er einungis heimilt að leggja á skatt til greiðslu í ríkissjóð. Lögskipaðar álögur á almenning, sem ekki eiga að greiðast í ríkissjóð, eru því MJÖG ALVARLEG AFBROT GEGN FJÁRRÆÐI EINSTAKLINGA.

Sendið Menntamálaráðherra og alþingismönnum í menntamálanefnd harðorð mótmæli gegn þessu og krefjist ógildingar á þessu ákvæði.  Það hef ég þegar gert.                          


mbl.is Óljóst hverju nefskattur skilar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 17
  • Frá upphafi: 165580

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband